Samráð fyrirhugað 21.02.2019—03.03.2019
Til umsagnar 21.02.2019—03.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 03.03.2019
Niðurstöður birtar 15.05.2019

Drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga

Mál nr. 52/2019 Birt: 21.02.2019 Síðast uppfært: 15.05.2019
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lyf og lækningavörur

Niðurstöður birtar

Ný drög að frumvarpi til lyfjalaga hafa verið birt til samráðs á ný - sjá https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1386

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 21.02.2019–03.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.05.2019.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um lyf. Umsagnarfrestur er til og með 3. mars næstkomandi.

Núgildandi lyfjalög eru frá árinu 1994 en þau hafa sætt mörgum breytingum frá þeim tíma. Frumvarp til nýrra lyfjalaga sem hér er til kynningar og samráðs er samið í heilbrigðisráðuneytinu og byggir að hluta til á tillögum starfshóps frá árinu 2015. Frumvarpið var fyrst lagt fram á 145. löggjafarþingi 2015-2016 en hlaut ekki afgreiðslu þingsins. Frumvarpið sem hér er kynnt hefur tekið þó nokkrum breytingum frá árinu 2015. Markmið frumvarpsins er að tryggja landsmönnum nægilega framboð að nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi og með hagkvæmastri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Helstu nýjungar í frumvarpi til nýrra lyfjalaga eru eftirfarandi:

- Lagt er til að lyfjagreiðslunefnd verði lögð niður og verkefni hennar færð til Lyfjastofnunar og Landspítalans.

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

- Lagt er til að skýrð verði ábyrgð lækna, tannlækna og dýralækna vegna undanþágulyfja.

- Lagt er til að heimildir lyfjabúða til að veita afslátt af greiðsluþátttökuverði verði skýrðar, m.t.t. álits umboðsmanns Alþingis nr. 7940/2014.

- Lagðar eru til breytingar á umboði og verkefnum lyfjanefndar Landspítalans, m.a. í þeim tilgangi að færa betur saman faglega og fjárhagslega ábyrgð vegna innleiðingar og notkunar nýrra lyfja í heilbrigðisþjónustunni.

- Lagt er til að stofnuð verði lyfjanefnd hjá Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem vinni að öruggri og skynsamlegri notkun lyfja á öllum heilsugæslustöðvum.

- Lagt er til að gagnagrunnur á sviði lyfjamála færður til betri vegar og „stoðskrá lyfja“ skilgreind.

- Lagt er til að heilbrigðisstarfsmenn verði skyldaðir til að tilkynna aukaverkanir lyfja.

- Lagt er til að ákvæði um eftirlit og þvingunarúrræði Lyfjastofnunar og viðurlög við brotum gegn ákvæðum laganna verði uppfærð.

- Lagt er til ákvæði sem lögfestir notkun lyfja af mannúðarástæðum.

- Lagt er til að lyfjaauglýsingar verði almennt heimilar með undantekningum. Lagt er til bann við því að auglýsa vörur eins og um lyf gæti verið að ræða.

Greinargerð með frumvarpinu er enn í vinnslu en vonir standa til að birta hana sem fyrst. Óskað er eftir því að umsagnir berist eigi síðar en 3. mars nk. í gegnum Samráðsgátt stjórnarráðsins.

Loks vill ráðuneytið vekja athygli á því að frumvarpið er enn í vinnslu og gera má ráð fyrir að það muni taka breytingum að loknu samráði.

Gert er ráð fyrir að gildistaka laganna sé 1. janúar árið 2020 en þetta er viðmiðunardagsetning. Greining á eftir að fara fram á hvort þörf sé á sólarlagsákvæðum.

Þann 27. febrúar eru birt drög að greinargerð til skýringar á fyrstu 40 ákvæðum laganna. Vakin er athygli á því að um vinnudrög er að ræða sem ekki hafa verið prófarkalesin né staðfest.

Þá er vakin sérstök athygli á því að ákvæðum 33. gr. og 94. gr. hefur verið breytt frá því að drög að frumvarpi voru fyrst birt og hljóma þau nú þannig:

33. gr.

Sala lyfja í smásölu.

Einungis er heimilt að selja almenningi lyf á grundvelli lyfsöluleyfis sem Lyfjastofnun veitir en þó með þeim undantekningum sem um getur í þessum kafla.

Sala minnstu pakkninga og minnsta styrkleika nikótínlyfja og flúorlyfja, sem ekki eru ávísunarskyld, er heimil utan lyfjabúða. Óheimilt er að hafa í sjálfvali lyf sem seld eru samkvæmt þessari málsgrein. Um sölu þessara lyfja skulu jafnframt gilda 1. og 7. mgr. 8. gr. laga um tóbaksvarnir. Um eftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Lyfjastofnun er jafnframt heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. mgr. til sölu tiltekinna lyfja beint frá heildsöluleyfishafa til almennings. Lyfjastofnun skal birta lista yfir á vefsíðu sinni yfir þau lyf sem heimilt er að selja samkvæmt ákvæði þessarar málsgreinar.

Ráðherra skal kveða nánar á um starfsemi lyfjabúða og skilyrði fyrir veitingu lyfsöluleyfis í reglugerð um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir, þ.m.t. um kröfur sem gerðar eru til húsnæðis, búnaðar og starfsliðs leyfishafa, rekstur lyfjaútibúa og flokkun þeirra samkvæmt eðli og umfangi þeirrar þjónustu sem þar er heimilt að veita, um póst- og netverslun með lyf og um góða starfshætti í lyfjabúðum.

94. gr.

Sektir eða fangelsi.

Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:

1. ákvæðum um markaðssetningu lyfja, sbr. 11. gr.,

2. ákvæðum um leyfisskyldu klínískra lyfjarannsókna á mönnum, sbr. 22. gr.,

3. ákvæðum um framleiðslu virkra efna sem nota á til framleiðslu lyfja fyrir menn og hafa markaðsleyfi, sbr. 25. gr.,

4. ákvæðum um tilkynningaskyldu vegna falsaðra lyfja eða virkra efna, sbr. 26. gr.,

5. ákvæðum um heildsöludreifingu lyfja, sbr. 28. og 29. gr.,

6. ákvæðum um skráningarskyldu lyfjamiðlara, sbr. 31. gr.,

Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:

1. ákvæðum um framleiðslu lyfja, sbr. 23. gr.,

2. ákvæðum um smásölu lyfja, sbr. 33.–36. gr.,

3. ákvæðum um útgáfu lyfjaávísana, sbr. 47. gr.

11. ákvæðum um afhendingu lyfja gegn lyfjaávísun, sbr. 50. gr.

Sektir má ákvarða á lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot eða ef það stafar af ófullnægjandi tækjabúnaði eða verkstjórn.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðmundur Guðmundsson - 26.02.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Sem bóndi í mjög góðu og árangursríku samstarfi við starfandi dýralækna á mínu svæði, Rangárþingi, mótmæli ég harðlega þessum ákvæðum með eftirfarandi rökstuðningi:

1. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónusta þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gætti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja.

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

Að lokum: Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala sem hafa aldrei nokkurn tíman höndlað með dýralyf og bændur hafa enga tryggingu fyrir að þeir hafi þekkingu til þess.

Afrita slóð á umsögn

#2 Maríanna Eva Ragnarsdóttir - 27.02.2019

Sem bóndi verð ég að gera athugasemdir við eftirfarandi tillögur:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Hingað til hafa dýralæknar haldið álagningu dýralyfja í lágmarki, sem skiptir miklu máli fyrir okkur bændur, dýrin og á endanum neytendur líka.

Að geta fengið lyf hjá dýralækni skapar visst öryggi, það getur verið um langan veg að fara að komast í næsta apótek til að leysa út lyf og í bráðatilfellum skiptir tími sköpum. Hér hlýtur að skipta mestu máli að lina þjáningar skepnunnar eins fljótt og unnt er.

Einnig hef ég áhyggjur af vöntun lyfs hjá lyfsala, ég treysti best dýralæknum til að velja og eiga þau bestu/gagnlegustu lyf sem dýrið þarf að fá.

Afrita slóð á umsögn

#3 Ólafur Atli Sindrason - 27.02.2019

Sem bóndi í mjög góðu og árangursríku samstarfi við starfandi dýralækna á mínu svæði, Skagafirði, mótmæli ég harðlega þessum ákvæðum með eftirfarandi rökstuðningi:

1. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónusta þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gæti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu og fengið lyf til meðhöndlunar samdægurs.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja.

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

Að lokum: Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala, sem bændur hafa ekki nokkra tryggingu fyrir að hafi þekkingu og færni til þess.

Afrita slóð á umsögn

#4 Gróa Jóhannsdóttir - 27.02.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Sem bóndi í mjög góðu og árangursríku samstarfi við starfandi dýralækni á mínu svæði, Suðurfjörðum Austfjarða, mótmæli ég harðlega þessum ákvæðum með eftirfarandi rökstuðningi:

1. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónusta þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gæti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu og fengið lyf til meðhöndlunar samdægurs.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja. Að þurfa að sækja lyf í apótek skapar mikil óþægindi og lengir mjög tíman þangað til dýr fær viðeignadi lyfjagöf. Apótek eru oft á tíðum í mikilli fjarlægð frá býlum og lítli apótek á landsbyggðinni ekki með stóran lyfjalager og oft er löng bið eftir lyfjum.

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

Að lokum: Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala, sem bændur hafa ekki nokkra tryggingu fyrir að hafi þekkingu og færni til þess.

Afrita slóð á umsögn

#5 Margrét Katrín Guðnadóttir - 28.02.2019

Sem dýralæknir mótmæli ég harðlega eftirfarandi breytingartillögum:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Nokkrar röksemdafærslur fara hér á eftir:

1) Dýralæknar á Íslandi hafa staðið sig afar vel í að stuðla að ábyrgðarfullri notkun bænda á sýklalyfjum, sem að sýnir sig í þeirri staðreynd að á Íslandi er minnsta notkun sýklalyfja húsdýrum í Evrópu. Þessi staðreynd sýnir það að dýralæknar á Íslandi hafi staðið sig afar vel í þessum efnum og ekki verið að selja sýkalyf með óábyrgum hætti og því engin ástæða til að færa sölu þeirra lyfja úr höndum dýralækna.

2) Dýralæknar hafa sérþekkingu á dýralyfjum, virkni þeirra og útskolun. Lyfjafræðingar eru með sérþekkingu á mannalyfjum. Dýralyf og mannalyf eru ekki sami hluturinn.

3) Dýralæknar í dreifðari byggðum treysta á lyfjasölu til þess að halda launum uppi, því að ekki eru næg verkefni til að greiða laun dýralækna á vitjunum einum saman. Ef að lyfjasalan er ekki fyrir hendi eru þónokkrar líkur á að ekki fáist dýralæknar til starfa í dreifðari byggðum landsins og stafar það dýravelferð í hættu. Einnig má benda á að ef að lyfsala verður tekin af dýralæknum neyðumst við til þess að hækka gjaldskrá hressilega og það mun bitna beint á skepnum sem að ekki fá þá meðhöndlum og er frekar fargað.

4) Um langan veg er oft að fara á landsbyggðinni og langt er fyrir marga bændur að komast í lyfsölu í þéttbýli. Oft eru vegir illfærir/ófærir og nóg að dýralæknirinn brjótist fram og til baka í ófærð og vondu veðri án þess að bóndi verði að fara á eftir að sækja lyf. Ekki eru apótek á landsbyggðinni opin um kvöld og helgar og hætt er við að kostnaður bænda aukist ef að kalla þarf út mannskap til að selja þeim lyf.

5) Mikilvæg samskipti eiga sér stað á milli bónda og dýralæknis þegar að lyf eru pöntuð og afhent, varðandi heilbrigði og meðhöndlanir, t.d. í tengslum við bólusetningu, ekki er víst að sama þjónusta fáist í apótekum landsins.

6) Eðlilegra væri að dýralæknar fengju sér reglugerð hvað varðar lyfsölu okkar.

Afrita slóð á umsögn

#6 Elvar Eyvindsson - 28.02.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Ég mótmæli þessum tillögum á eftirfarandi forsendum:

Oft gerist það að það þarf að meðhöndla gripi á kvöldin og um helgar þegar lyfjaverslanir eru lokaðar. Mikið óhagræði væri þá að þurfa að aka langan veg eftir lyfjum og raunar oft vonlaust verk. Þetta mundi setja dýravelferð í uppnám.

Á mínu svæði er aðeins eitt fyrirtæki sem selur lyf og samkeppni af þeim sökum engin. Ég spyr hvort ekki hafi marg komið fram að það ríkir fákeppni í lyfsölu hérna eins og nær allri annarri verslun? Hver ræður ferðinni í slíku umhverfi?

Fyrr má kannski huga að því hvort mögulegt er að koma á samkeppni og hvort mögulegt er að gera þetta án þess að stórskaða atvinnugreinina, stofna dýravelferð í augljósa hættu og einnig mætti skoða og sýna fram á að álagning sem nú er viðhöfð er meiri en góðu hófi gegnir miðað við aðra lyfsölu í landinu. Ég hef ekki séð slíkt.

Afrita slóð á umsögn

#7 Kristín Bjarnadóttir - 28.02.2019

það að leggja af lyfsöluleyfi dýralækna gæti haft í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka fyrir bændur - að þurfa að gera sér ferð í apótek eftir lyfjum getur þýtt langan akstur, sem kostar sitt. Auk þess sem apótek á landsbyggðinni eru oftast með stuttan opnunartíma og því getur reynst erfitt að nálgast lyf nákvæmlega þegar þeirra er þörf.

Afrita slóð á umsögn

#8 Guðbjörg Þorvarðardóttir - 28.02.2019

Athugasemdir vegna frumvarps til nýrra lyfjalaga.

Mótmæli harðlega þeim breytingum sem gerð hafa verið á fyrri drögum með að fella niður 33.gr frá fyrri drögum:

33. gr.

Leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætluð eru dýrum.

Lyfjastofnun veitir dýralæknum, að fenginni umsókn, leyfi til að selja lyf sem ætluð eru dýrum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a. þeir hafi gilt starfsleyfi dýralæknis hér á landi, sbr. lög um dýralækna og heil¬brigðis¬þjónustu við dýr,

b. þeir hafi tilkynnt Matvælastofnun um að viðkomandi hafi hafið dýralæknastörf sem og um aðsetur starfseminnar.

Lyfsöluleyfi dýralækna takmarkast við sölu og afhendingu eftirtalinna lyfja:

a. lausasölulyfja fyrir dýr,

b. lyfja sem ávísað er af dýralækni, sbr. reglugerð um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Með þessu afnámi að leyfa dýralækum rekstur lyfsölu ,að minnsta kosti þeim sem stunda almennar dýralækningar, er mikil ógn við að halda uppi dýralæknaþjónustu á landsbyggðinni og aðgengi bænda að fá lyf í tíma. Er nú þegar erfitt fá dýralækna til starfa út á landsbyggðinni og mun geta valdið alvarlegum dýralækaskorti í sveitum landsins. Sú lyfjasala sem dýralæknar hafa haft hefur verið mikilvæg uppbót fyrir starfsemi dýralækna á strjálbýlli svæðum og grunnvöllur fyrir að hægt hafi verið að halda þar uppi þjónustu..

Á fjölmörgum svæðum eru ekki reknar lyfsölur eða einungis lyfsölur sem eru opnar á almennum vinnutíma og margar hverjar hafa ekki lyfjafræðing innan handa og hafa auk þess litla sem enga þekkingu á dýralyfjum.

Mun dýravelferð vera í alvarlegri hættu og einnig þeim sérstaka árangri í lyfjanotkun hjá dýrum ásamt ónæmi lyfja sem náðst hefur hérlendis sem má að mestum hluta þakka lyfjastefnu dýralækna og umgengni þeirra um afhendingu lyfja í gegnum árin.

Einnig mun slíkt afnám lyfsölu dýralækna stórauka magn lyfja á heimilum landsmanna þar sem dýraeigendur muna fá afhent mun meira magn af hverju lyfi við kvillum dýra sinna en nú er stundað við afhendingu lyfja frá dýralækna til dýraeiganda..

Sjá nánar meðsenda umsögn

Guðbjörg Þorvarðardóttir

Dýralæknir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Íris Hrund Grettisdóttir - 28.02.2019

Athugasemdir vegna frumvarps til nýrra lyfjalaga.

Mál nr. S-52/2019

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Með því að færa alla lyfjasölu dýralyfja inn í lyfjabúðir er mikil hætta á að það bitni á dýravelferð þar sem erfitt getur verið á mörgum stöðum að nálgast rétt lyf .

Mun það mögulega auka lyfjamagn í umferð hjá gæludýraeigendum sem muna fá afhent mun meira magn lyfja en nú er stundað við afhendingu lyfja frá dýralækna til dýraeiganda..

Íris Hrund Grettisdóttir

dýraeigandi.

Afrita slóð á umsögn

#10 Sanita Sudrabina - 28.02.2019

Athugasemdir vegna frumvarps til nýrra lyfjalaga.

Mál nr. S-52/2019

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Með því að færa alla lyfjasölu dýralyfja inn í lyfjabúðir er mikil hætta á að það bitni á dýravelferð þar sem erfitt getur verið á mörgum stöðum að nálgast rétt lyf og hætta að þeim frábæra árangri í lyfjanotkun hjá dýrum ásamt ónæmi lyfja sem náðst hefur hérlendis. Þann árangur má að mestum hluta þakka lyfjastefnu dýralækna og umgengni þeirra um afhendingu lyfja í gegnum árin.

Einnig mun slíkt afnám lyfsölu dýralækna valda stórauku magni lyfja í umferð hjá gæludýraeigendum sem muna fá afhent mun meira magn lyfja en nú er stundað við afhendingu lyfja frá dýralækna til dýraeiganda. Verður vandamálið með ofgnótt lyfja á heimilum enn stærra en nú þegar er og misnotkun og ruglingur á lyfja stórt vandamál.

11. gr. Markaðssetning lyfja.

Einungis er heimilt að markaðssetja hér á landi lyf sem Lyfjastofnun hefur veitt markaðsleyfi. Um er að ræða ávísunarskyld lyf fyrir menn er jafnframt skilyrði að Lyfjastofnun hafi samþykkt hámarksverð í heildsölu og smásölu. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að selja hér á landi eftirfarandi lyf án markaðsleyfis:

e. Dýralyf sem eru eingöngu ætluð skrautfiskum, búrfuglum, bréfdúfum, landdýrum sem haldin eru í búrum, litlum nagdýrum sem haldin eru í búrum, frettum og kanínum sem eingöngu eru haldnar sem gæludýr, að því tilskyldu að lyf þessi innihaldi ekki efni sem útheimta að dýralæknir hafi eftirlit með notkun þeirra og að allar tiltækar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að þau verði gefin öðrum dýrum í leyfisleyfis.

Er hér verið að gefa gæludýrabúðum lyfsöluleyfi? Ekki er mikil kunnátta þar á lyfjum fyrir dýr eða á notkun dýralyfja.

83. gr.

Eftirlitsgjald.

Eftirfarandi aðilar skulu greiða eftirlitsgjald sem standa skal undir kostnaði við reglubundið eftirlit Lyfjastofnunar:

Er hér verið að skattleggja dýralækna fram yfir aðrar stéttir og gera starfsemi mjög erfitt um vik. Er ekki nægilegur skortur á dýralæknum nú þegar þarf líka ný lög til að fæla þá enn frekar frá að starfa hérlendis. Allir dýralæknar eru menntaðir erlendis og hafa ekki skilað sér vel til landsins eftir nám.

Reykjavík 28.febrúar 2019

Sanita Sudrabina

dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#11 Ásthildur H Skjaldardóttir - 28.02.2019

Vil vekja athygli á þeim mistökum sem koma fram í þessu frumvarpi, að dýralæknar megi ekki selja og afhenda dýralyf eins og verið hefur, heldur eigi að færa sölu dýralyfja í lyfjaverslanir gegn lyfseðli frá dýralækni og hafa frjálsa álgningu en nú er hún bundin við 30 prósent. Þessar breytingar eru ekki hugsaðar fyrir dýrin sem þurfa lyfin, bændur sem annast skepnurnar né dýralæknana sem hafa séð um allt utanumhald gagnvart lyfjagjöf. Það er eins og að þeir sem semja þetta lagafrumvarp átti sig ekki á að skepnuhald fer fram um allt land og það geta verið mjög margir eknir kílómetrar til að nálgast lyf í apótek. Ég skora á alþingsmenn að endurskoða þessa tillögu þannig að dýravelferð sé leiðarstefið, hámarks álagning verði sú sama og að dýralæknum verði falið að sjá um sölu og afhendingu lyfja eins og verið hefur.

Afrita slóð á umsögn

#12 Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir - 28.02.2019

Með þessu frumvarpi er verið að gera eina mestu aðför að bændum í landinu! Það eru ekki allir dýraeigendur gæludýraeigendur i þéttbýli.

Ef við tökum bara dæmi um sauðburð, þar sem margt getur komið uppá með stuttum fyrirvara. Í flestu dreifbýli er langt að sækja í næsta apótek til að leysa út lyf og þau eru ekkert opin á hverjum degi!

Svo að gefa verðlagningu lausa er einfaldlega til þess fallin að lyf MUNU hækka í verði og gera bændum mun erfiðara fyrir að kaupa nauðsynleg lyf, sem mörg hver eru bændum slíkt að gefa dýrum sínum eins og bóluefni.

Upp gera komið mjög alvarleg veikindi dýra mjög snöggt og verður dyralæknir þá að geta afhent viðeigandi lyf strax. Dýr veikjast ekki bara á milli 10 og 18 á virkum dögum frekar en menn og svo td. Á sauðburði stekkur bóndinn ekkert bara frá á mesta álagstíma ársins. Þvi þarf að bíða eftir næstu ferð í bæinn sem í td

okkar tilfelli er klukkutími fram og til baka sem væri hægt að sleppa við ef dýralæknirinn má koma með liðin með sér eins og verið hefur.

Þetta frumvarp verður ekki séð öðruvísi hjá bændum en enn ein aðför að íslenskum landbúnaði og væri til háborinnar skammar fyrir ríkisstjórnina og Alþingi að samþykkja þetta!

Nema ætlunin sé að leggja niður landbúnað á Íslandi og fara bara að flytja inn erlent kjöt sem er ekki framleitt við nærri því jafn ströng skilyrði og hér á landi.

Reynum nú að vernda íslenskan landbúnað og gerum bændum ekki endalaust erfiðara fyrir að reyna halda uppi sínum búskap!

Afrita slóð á umsögn

#13 Jóhanna Helga Þorkelsdóttir - 28.02.2019

Ég get ekki annað séð en afnám/breytingar á lyfsöluleyfi dýralækna muni koma niður á dýrum, dýraeigendum og dýralæknum og þá sérstaklega í dreifðari býlum landsins.

Breytingar myndu hafa í för með sér að aðgengi dýraeiganda að lyfjum til meðhöndlunar yrði verulega takmörkuð á þeim svæðum þar sem langt er í apótek og þau oft ekki opin um kvöld og helgar til að afgreiða lyfin. Það er hreinlega ekki bjóðandi dýrunum og myndi hafa slæm áhrif á dýravelferð.

Annað sem væri athugavert við þessar breytingar er að afhending dýralyfja færi fram í gegnum lyfjafræðinga og apótek, án þess að viðkomandi starfsmenn hafi menntun eða þekkingu á virkni dýralyfja á dýrun né þeim tegundatengdum áhrifum lyfjanna sem eru til staðar og gætu valdið alvarlegum eitrunareinkennum og jafnvel dauða.

Í þriðja lagi vil ég minnast á að dýralæknar rjúfa umbúðir til að selja lyf og sparar þannig kostnað eigenda og kemur í veg fyrir t.d. Ofnotkun sýklalyfja sem ella gæti orðið ef eigendur sætu uppi með margfalt meira sýklalyf en þeir þyrftu. Ísland stendur nú framarlega í þessu og það væri synd að fara aftur á bak frekar en áfram.

Afrita slóð á umsögn

#14 Janine Arens - 01.03.2019

Ég er starfandi dýralæknir í dreifbyli. Í frumvarpi til lyfjalaga er lagt til að lyfsöluleyfi dýralækna verði afnumið og að álagning á lyfjum verði gefin frjáls. Markmið nýrra lyfjalaga er sagt vera:

„…að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi og með sem hagkvæmastri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu eða samkvæmt stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu. Við verslun með lyf skal það ætíð haft til hliðsjónar að lyfjadreifing er hluti heilbrigðisþjónustu og starfsmenn við dreifinguna skulu vinna með öðrum aðilum í heilbrigðisþjónustu að opinberum heilbrigðismarkmiðum hverju sinni. Það er jafnframt markmið með lögum þessum að tryggja eftir föngum gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, auka fræðslu um lyfjanotkun, sporna við óhóflegri notkun og halda lyfjakostnaði í lágmarki.“

Þessi fyrirkomulag þar sem ég, sem dýralæknir, sem er á staðnum til að skoða og byrja meðhöndlun á veikum dýrum, má ekki selja lyf umfram það sem ég er að nota sjálf fylgja auka kostnaða, er tímafrekara og flóknara fyrir dýraeigendur, sérstaklega bændur sem búa sumir tugir kílometrar frá kaupstað með apótekið. Auk þess er apótekið ekki aðgengilegt fyrir utan vinnutíma eins og um kvöldið eða um helgina. Þar með gætið myndast biðtíma til að meðhöndla veikt dýr og gætið það í versta tilfelli enda með niðurgang dýrsins. Það uppfyllir ekki tilgang laganna og er brot á dýravelferð.

Einnig má benda á að ég sem dýralæknar er að leggja áherslu á að selja eingöngu nákvæman skammt af lyfjum í hvern sjúkling, sérstaklega sýklalyfjum. Apótek gefur ekki þann kost að opna pakkningar og gefa nákvæman skammt fyrir hvern sjúkling. Einnig er ekki alltaf hentugar pakkastærðir á lager, sérstaklega ekki fyrir minnstu dýrin.

Þar með mundi auka tölur um notkun sýklalyfja t.d. hækka margfald.

Ég tel mig sem sérfræðingur í dýrasjúkdómum og viðeigandi meðferð á þeim í samræmi við matvælaöryggi og dýravelferð. Lyfjafræðingar hafa ekki menntun á sviði dýralyfja, þar með talið virkni, áhrifum og sérstökum ábendingum þeirra, sem eru í mörgum tilfellum mjög tegundabundnar. Lyfjafræðingar hafa enn fremur ekki menntun í matvælaöryggi og lyfjanotkun í afurðagefandi dýr. Fyrir utan það bendi ég á að í apótekum út á landi er ekki alltaf lyfjafræðingur starfandi.

Í frumvarpinu frá 2015 var grein nr. 33 en hún er ekki í frumvarpinu sem nú hefur verið lagt fram. Hún skiptir öllu:

"33. gr. 2015: (er felld út 2019)

Leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætluð eru dýrum.

Lyfjastofnun veitir dýralæknum, að fenginni umsókn, leyfi til að selja lyf sem ætluð eru dýrum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a. þeir hafi gilt starfsleyfi dýralæknis hér á landi, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,

b. þeir hafi tilkynnt Matvælastofnun um að viðkomandi hafi hafið dýralæknastörf sem og um aðsetur starfseminnar.

Lyfsöluleyfi dýralækna takmarkast við sölu og afhendingu eftirtalinna lyfja:

a. lausasölulyfja fyrir dýr,

b. lyfja sem ávísað er af dýralækni, sbr. reglugerð um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum."

Þessi grein hefur verið felld út í nýja frumvarpinu og annars staðar þar sem talað er um lyfjasölu er búið að taka dýralæknana út, og hefur þetta verið gert án nokkurs samráðs við dýralækna og dýraheilbrigðisyfirvöld.

Ég fer fram á að 33. grein verði sett inn aftur og aðrir þættir sem byggja á þeirri grein.

Í lokum mótmæli ég einnig vinnubrögð við þetta frumvarp. Ekki hefur verið haft samráð við dýralækna, en frumvarpið leggur til verulega skerðingu á réttindum heillar stéttar, réttindum sem dýralæknar hafa haft frá því þeir hófu störf hér á landi.Að afnema þau með svo skömmum fyrirvara og án nokkurs samráðs við stéttina er mjög ámælisvert. Engin kynning hefur farið fram á frumvarpinu eða óskað umsagna, fyrr en frumvarpið var sett á samráðsgáttina með mjög stuttum umsagnarfresti. Greinargerð með frumvarpinu kom svo ekki inn á gáttina fyrr en 27. febrúar, 4 dögum áður en umsagnarfrestur rennur út, og er í raun upptalning athugasemda en enginn rökstuðningur gefinn fyrir breytingum sem fyrirhugaðar eru á starfsvettvangi dýralækna.

Afrita slóð á umsögn

#15 Þyri Sölva Bjargardóttir - 01.03.2019

Alveg galið,ef þörf er á lyfjagjöf gæti bóndi þurft að ferðast tugi ef ekki hundruðu kílómetra í næsta apótek,fyrir utan að apótek á landsbyggðinni eru fæst opin um helgar.

Afrita slóð á umsögn

#16 Charlotta Oddsdóttir - 01.03.2019

Varðar: umsögn Dýralæknafélags Íslands um frumvarp til lyfjalaga, mál nr. S-52/2019

Frumvarp þetta er lagt fyrir á 149. löggjafarþingi, birt til umsagnar í samráðsgátt 21. febrúar 2019, með umsagnarfresti til 3. mars 2019.

Dýralæknafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð sem höfð hafa verið við þetta mikilvæga frumvarp. Ekki hefur verið haft samráð við dýralækna, en frumvarpið leggur til verulega skerðingu á réttindum heillar stéttar, réttindum sem dýralæknar hafa haft frá því þeir hófu störf hér á landi. Að afnema þau með svo skömmum fyrirvara og án nokkurs samráðs við stéttina er mjög ámælisvert. Enn fremur hefur engin kynning farið fram á frumvarpinu eða óskað umsagna, fyrr en frumvarpið var sett á samráðsgáttina með mjög stuttum umsagnarfresti. Greinargerð með frumvarpinu kom svo ekki inn á gáttina fyrr en 27. febrúar, 4 dögum áður en umsagnarfrestur rennur út, og er í raun upptalning athugasemda en enginn rökstuðningur gefinn fyrir breytingum sem fyrirhugaðar eru á starfsvettvangi dýralækna. Frumvarpið er óskýrt þegar kemur að lyfsöluleyfi, þar sem henni er ýmist beint eingöngu til lyfjafræðinga eða einnig til annarra svo sem gæludýrabúða, og það eru nokkrar greinar í frumvarpinu sem eru í mótsögn hver við aðra, sjá viðhengi.

Dýralæknafélag Íslands leggst alfarið gegn því að lyfsöluleyfi verði tekið af dýralæknum vegna þeirra áhrifa sem það mun hafa á dýravelferð, matvælaöryggi, stöðu dýrasjúkdóma og þróun sýklalyfjaónæmis og matvælaöryggi. Félagið gerir einnig alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð við smíði og kynningu þessa frumvarps. Ástæður þessa eru raktar hér fyrir neðan.

Helstu markmið frumvarpsins

Í frumvarpi til lyfjalaga er lagt til að lyfsöluleyfi dýralækna verði afnumið og að álagning á lyfjum verði gefin frjáls. Markmið nýrra lyfjalaga er sagt vera:

„…að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi og með sem hagkvæmastri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu eða samkvæmt stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu. Við verslun með lyf skal það ætíð haft til hliðsjónar að lyfjadreifing er hluti heilbrigðisþjónustu og starfsmenn við dreifinguna skulu vinna með öðrum aðilum í heilbrigðisþjónustu að opinberum heilbrigðismarkmiðum hverju sinni. Það er jafnframt markmið með lögum þessum að tryggja eftir föngum gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, auka fræðslu um lyfjanotkun, sporna við óhóflegri notkun og halda lyfjakostnaði í lágmarki.“

Dýralæknafélag Íslands (DÍ) bendir á að fyrirkomulag þar sem dýralæknir má ekki selja lyf umfram það sem hann notar sjálfur verður dýrarara, tímafrekara og flóknara fyrir dýraeigendur - sérstaklega bændur. Allt í hrópandi mótsögn við tilgang laganna.

DÍ hefur efasemdir um að samkeppni verði tryggð með þeirri aðgerð að gefa álagninguna frjálsa samhliða því að færa dýralyf alfarið í apótek. Álagning í smásölu er í dag ákvörðuð af Lyfjagreiðslunefnd sem hámarksálagning, þ.e. það er leyfilegt að leggja minna á, svo samkeppnissjónarmið eru ekki fyrir borð borin. Ekki er um að ræða ofurgróða dýralækna á lyfsölu, en það verður ekki litið fram hjá því að lyfsala er ákveðnum dýralæknum mikilvæg tekjulind. Í kjölfar þessara breytinga myndu dýralæknar því þurfa að hækka gjaldskrá sína til að vinna upp hluta af tekjutapinu. Auk þess myndi í ríkja fákeppni í lyfsölu í dreifbýli ef dýralæknar yrðu sviptir lyfsöluleyfi. Í núverandi kerfi er þegar erfitt að halda úti dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum vegna fjárhagslegs óöryggis og erfiðra samgangna og í versta falli myndi dýralæknaþjónusta á þeim svæðum leggjast af með þessum fyrirhugðu breytingum.

Einnig má benda á að dýralæknar leggja áherslu á að selja eingöngu nákvæman skammt af lyfjum í hvern sjúkling, sérstaklega sýklalyfjum. Apótek rjúfa ekki pakkningar og hafa ekki alltaf hentugar pakkastærðir á lager, sérstaklega ekki fyrir minnstu dýrin. Þetta er í mótsögn við markmið laganna um að sporna við óhóflegri notkun og að halda lyfjakostnaði í lágmarki. Þannig fyrirkomulag yrði til þess fallið að mynda skekkju í tölur um sýklalyfjanotkun og sóun á lyfjum.

Lyfsala íslenskra dýralækna og lyfjastefna DÍ

Dýralæknar eru einu sérfræðingarnir í dýrasjúkdómum og viðeigandi meðferð á þeim í samræmi við matvælaöryggi og dýravelferð. Ítrekað hefur verið bent á að notkun á sýklalyfjum í afurðagefandi dýr á Íslandi er hverfandi, og er það ekki síst samviskusemi og fagmennsku dýralækna að þakka. Þessi litla sýklalyfjanotkun hefur átt sér stað í núverandi kerfi, þar sem dýralæknar fara eftir reglum um leyfilega álagningu á dýralyf, og ekki verður séð að óþarfamagni af slíkum lyfjum sé ávísað í gróðaskyni. DÍ bendir einnig á að lyfjafræðingar hafa ekki menntun á sviði dýralyfja, þar með talið virkni, áhrifum og sérstökum ábendingum þeirra, sem eru í mörgum tilfellum mjög tegundabundnar. Lyfjafræðingar hafa enn fremur ekki menntun í matvælaöryggi og lyfjanotkun í afurðagefandi dýr.

Með lyfjastefnu DÍ er lögð áhersla á að dýr fái skjóta og örugga meðhöndlun á sjúkdómum sem dýralæknir hefur greint hjá þeim. Einnig að lyfjameðferð, ekki síst sýklalyfjameðferð, sé þannig að ávallt sé notað rétt lyf, að það sé notað í réttu magni og eins lengi og þarf til þess að minni áhætta sé á myndun lyfjaónæmis. Ekki síst er mikilvægt að leggja áherslu á að fyrirbyggjandi aðgerðum sé beitt þar sem þær gagnast og eru nauðsynlegar, svo sem bólusetningar og sníkjudýrameðhöndlun, til þess að sjúkdómar nái sér ekki á strik.

Núverandi lyfjalög, þar sem dýralæknar hafa lyfsöluleyfi, styðja við þessi markmið auk þess sem þær reglur sem gilda um lyfsöluna, hafa gert dýralæknum kleift að tryggja nægilegt framboð nauðsynlegra lyfja til meðhöndlunar og fyrirbyggjandi aðgerða gegn dýrasjúkdómum á viðráðanlegu verði. Að því sögðu má þó benda á að lyfjaskortur og afnám markaðsleyfa ákveðinna dýralyfja hefur komið hart niður á dýrum, dýralæknum og dýraeigendum á tíðum, ekki síður en læknum og sjúklingum þeirra.

Í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að einungis lyfjafræðingum sé heimilt að afgreiða lyfseðla, en í minni apótekum úti á landi er enginn lyfjafræðingur starfandi. Þetta á við um útibú lyfsala víða um land, en þar hafa lyfseðlar dýralækna verið myndsendir í stærri apótek þar sem lyfjafræðingur undirritar og sendir til baka með tilheyrandi töfum og óöryggi í miðlun þessara upplýsinga.

Breytingar frá fyrra frumvarpi

Það sætir furðu að þegar þetta frumvarp er borið saman við það frumvarp sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi árið 2015, er ljóst að breytingar þær sem orðið hafa á þessum tíma snerta fyrst og fremst dýralækna.

Í frumvarpinu frá 2015 er grein nr. 33 en hún er ekki í frumvarpinu sem nú hefur verið lagt fram. Hún skiptir öllu:

33. gr. 2015: (er felld út 2019)

Leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætluð eru dýrum.

Lyfjastofnun veitir dýralæknum, að fenginni umsókn, leyfi til að selja lyf sem ætluð eru dýrum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a. þeir hafi gilt starfsleyfi dýralæknis hér á landi, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,

b. þeir hafi tilkynnt Matvælastofnun um að viðkomandi hafi hafið dýralæknastörf sem og um aðsetur starfseminnar.

Lyfsöluleyfi dýralækna takmarkast við sölu og afhendingu eftirtalinna lyfja:

a. lausasölulyfja fyrir dýr,

b. lyfja sem ávísað er af dýralækni, sbr. reglugerð um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum.

Þessi grein hefur verið felld út í nýja frumvarpinu og annars staðar þar sem talað er um lyfjasölu er búið að taka dýralæknana út, og hefur þetta verið gert án nokkurs samráðs við dýralækna og dýraheilbrigðisyfirvöld. DÍ fer fram á að 33. grein verði sett inn aftur og aðrir þættir sem byggja á þeirri grein.

Það er skýr krafa Dýralæknafélags Íslands að tekið verði tillit til þessara athugasemda, að dýralæknar haldi lyfsöluleyfi sínu og að haft verði samráð við dýralækna og dýraheilbrigðisyfirvöld þegar fyrirkomulag varðandi framboð og sölu dýralyfja er ákveðið.

Frekari rökstuðningur er í viðhengdu skjali.

Virðingarfyllst fyrir hönd DÍ, Charlotta Oddsdóttir, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Einar Magnússon - 01.03.2019

Athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga

28. 2. 2019

Í drögum að frumvarpi til nýrra lyfjalaga vekur athygli að lögð er til sú breyting að staða lyfjamálastjóra verði lögð niður og þannig dregið úr faglegu vægi ráðuneytisins án þess að sú breyting sé nefnd yfir helstu nýjungar í drögunum.

Felt er niður eftirfarandi ákvæði í núgildandi lögum:

“Í ráðuneytinu starfar lyfjamálastjóri sem annast framkvæmd lyfjamála innan ráðuneytisins fyrir hönd ráðherra. Hann skal vera lyfjafræðingur að mennt og má ekkieiga persónulegra hagsmuna að gæta í framleiðslu, innflutningi eða dreifingu lyfja.”

Við stofnun heilbrigðisráðuneytisins árið 1970 varð til embætti lyfjamálastjóra sem fengið var lögbundið hlutverk sem lýst er í 1. gr. núgildandi lyfjalaga. Nú er áformað að leggja þessa stöðu niður þrátt fyrir góða reynslu af þessu fyrirkomulagi í hálfa öld en þrír lyfjafræðingar hafa gengt stöðu lyfjamálastjóra frá stofnun heilbrigðisráðuneytisins árið1970, fyrst Almar Grímsson, þá Ingolf J. Petersen og nú síðast Einar Magnússon. Að leggja niður stöðu lyfjamálastjóra hlýtur að teljast tímamót sem ástæða er til að nefna sem nýjung í frumvarpi til nýrra lyfjalaga og skýra í greinargerð.

Þær hugmyndir að leggja niður stöðu lyfjamálastjóra komu fyrst fram í því frumvarpi sem lagt var fram árið 2016 en náði ekki fram að ganga. Ýmsir umsagnaraðilar mæltu gegn þessari breytingu og skiptar skoðanir voru í þáverandi velferðarnefnd um hvort rétt væri að leggja niður stöðu lyfjamálastjóra. Í tilmælum velferðarnefndarinnar til ráðuneytisins lagði nefndin til að við frekari vinnu við frumvarpið yrði tryggt að lyfjamál skipuðu sérstakan sess í ráðuneytinu og séð yrði til þess að þeim yrði unnt að sinna faglega með viðunandi hætti.

Þá er varhugavert að afnema ákvæði um að sá sem sér um og stýrir lyfjamálum í ráðuneytinu megi ekki eiga hagsmuna að gæta hvað varðar lyfjafyrirtæki. Verði þessi breyting að veruleika gildir slíkt ákvæði aðeins um forstjóra, starfsfólk Lyfjastofnunar og svo sem vera ber um lyfjanefndir landspítala og heilsugæslu en ekki um ráðuneytið þó að í ráðuneytinu sé ekki síður og jafnvel ennfrekar unnið að ýmsum ákvörðunum og málum sem í hæsta máta varða hagsmuni lyfjafyrirtækja. Nú verður í fyrsta sinn ekkert því til fyrirstöðu að sá sem sér um lyfjamál í ráðuneytinu geti t.d. rekið lyfjabúð, átt hlut í lyfjafyrirtæki, stundað önnur lyfjaviðskipti í hjáverkum eða safnað framlögum frá lyfjiðnaðinum í kosningasjóði stjórnmálamanna. Á síðustu hálfri öld hafa engin vandamál er snúa að lyfjamálum komið upp í ráðuneytinu er varða hagsmunatengsl en fjölmörg dæmi um slík hneyksismál hafa komið upp í ráðuneytum víða erlendis, þar sem ekki hefur verið jafn vel staðið að málum.

Fyrverandi ráðherra, Óttarr Proppé, áttaði sig á þessu og lagði til að ákvæðið um stöðu lyfjamálastjóra í núgildandi lyfjalögum yrði óbreytt í drögum að nýjum lyfjalögum auk þess sem hann áformaði að styrkja lyfjamálin innan ráðuneytisins. Því miður entist honum ekki pólitískt líf til að framfylgja þeim áformum.

Athygli vekur einnig að í punktum yfir helstu nýjungar í drögum að frumvarpi til nýrra lyfjalaga er sagt að Lyfjagreiðslunefnd sé lögð niður en ef betur er að gáð (sbr. 67. grein) reynist það ekki raunin heldur er breytingin sem lögð er til frá gildandi lögum einungis sú að forstjóri Lyfjastofnunar skipar nefndina í stað ráðherra auk þess sem fjölgað er í nefndinni. Það virðist því vera horfið frá þeim áformum ráðherra að leggja Lyfjagreiðslunefnd niður og færa verkefni nefndarinnar annars vegar til Lyfjastofnunar þ.e. verðlagningu lyfja og hins vegar innleiðingu og leyfisskyldu nýrra lyfja til Landspítala.

Þá vekur sú nýjung í drögunum athygli að nú, öllum að óvörum, stendur til að afnema lyfjasölu dýralækna og heimildir þeirra til að kaupa lyf í heildsölu auk þess sem verulega er þrengt að ávísunarrétti þeirra. Afnám lyfjasölu dýralækna var reynt fyrir 25 árum við gerð núgildandi lyfjalaga en mætti mikilli mótspyrnu bænda og dýralækna og var því horfið frá þeim áformum. Nú virðist ætlunin að ráðast í þessa breytingu án þarfagreiningar eða samráðs við hagaðila, sem ef að líkum lætur mun mæta miklum og kröftugum mátmælum, bænda, dýralækna og gæludýraeigenda.

Ljóst er að ekki hefur unnist tími í ráðuneytinu til að prófarkalesa drögin og má því á nokkrum stöðum finna ásláttar og stafavillur.

Hér á eftir fara athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsdaganna.

Grein 4 um yfirstjórn lyfjamála.

Ákvæði þessarar greinar er öllu snautlegri en ákvæði gildandi laga en eins og áður er getið er felt niður ákvæði er varðar lyfjamálastjóra og hagsmunatengsl vegna umsýslu um lyfjamál í ráðuneytinu þvert á tilmæli velferðarnefndar alþingis árið 2016 og ákvörðun fyrverandi heilbrigðisráðherra.

Grein 11

Skilyrði í 2. setningu um hámarksverð í heildsölu og smásölu stangast á við frjálsa verðlagningu dýralyfja og lausasölulyfja, sbr 65. grein.

“í leyfisleyfis” gerir tölulið e í greininni óskiljanlegan.

Grein 13 um leyfi til notkunar lyfja af mannúðarástæðum.

Ég tel rétt að í greininni verði kveðið á um að notkun þessara umræddu lyfja sé sérstaklega skráð í samræmi við ákvæði WHO Drug guidelines on drug donations.

Grein 14

Í c tölulið vantar orðið “til” þ.e. … fyrsta lyfjaávísun til sjúklings...

Grein 21

“í leyfisleyfis” í lok greinarinnar gerir ákvæðið' óskiljanlt, sbr. 11. gr..

VIII. Kafli Lyfjablandað fóður

Óþarfi ætti að vera að hafa sérstakan kafla í lögunum fyrir lyfjablandað fóður með aðeins einni grein. Betur færi á því að fella greinina um lyfjablandað fóður undir kaflann um framleiðslu lyfja.

Grein 40

Betur færi ef greinin næði einnig yfir póstverslun með lyf og heiti greinarinnar væri “Net- og póstverslun með lyf.”

Grein 41

1. Lagt er til að í stað þriðju setningu greinarinnar komi eftirfarandi:

“Sá hluti sjúkrahússapóteks sem telst falla undir samkeppnisrekstur skal vera fjárhagslega aðslilinn frá öðrum rekstri heilbrigðisstofnunarinnar.”

Rök: Með þessari breytingu væri staðfest það fyrirkomulag sem verið hefur, þ.e. að afgreiðsla lyfjaávísana vegna sjúklinga sem ekki eru inniliggjandi á sjúkrahúsinu og má segja að sé í samkeppni við lyfjaverslanir sé fjárhagslega aðskilin frá öðrum rekstri sjúkrahúsapóteks. Sá hluti starfsemi sjúkrahússapóteks sem snýr að inniliggjandi sjúklingum heyrir eðli málsins samkvæmt ekki undir samkeppnisrekstur.

2. Lagt er til að í stað síðustu setningar greinarinnar komi eftirfarandi:

“Heilbrigðisstofnun er heimilt að leita útboða á rekstri þess hluta sjúkrahússapóteks sem snýr að afgreiðslu lyfseðla, miðlun lyfja og þjónustu við aðrar heilbrigðisstofnanir og sjúklinga sem ekki eru inniliggjandi á sjúkrahúsinu enda uppfylli reksturinn öll önnur skilyrði laganna um starfsemi og rekstur lyfjamiðla og lyfjabúða.”

Rök: Þegar fjallað erum útboð er mikilvægt að einskorða útboð við þann hluta rekstur sjúkrahússapóteks sem heyrir undir samkeppnisrekstur. Hlutverk sjúkrahúsapóteks og sjúkrahúslyfjafræði er að afla lyfja og þjóna sjúkrahúsinu og inniliggjandi sjúklingum þess með sem hagkvæmustum hætti og á þannig starfa með öðrum hætti en hefðbundin einkarekin lyfjabúð sem byggir einkum afkomu sína að selja sem mest af á lyfjum með sem hæstri álagningu. Ég tel óráðlegt að bjóða út sjúkrahúsapótek en hins vegar í lagi að bjóða út „lyfjabúðina“ á LSH, þ.e. þann hluta sjúkrahúsapóteksins sem afgreiðir lyfseðla fyrir fólk útí bæ. Það sama gildir um miðlun lyfja milli sjúklinga og annara heilbrigðisstofnana sem mikilvægt er að Landspítali hafi fullar heimildir til.

Grein 42

Fella má greinina niður enda kemur breyttur texti 41. greinar í stað greinarinnar.

Grein 43 og grein 44

Bæta mætti við að starfsfólk umræddra nefnda megi ekki eiga hagsmuna að gæta, þ.e.:

“Fulltrúar og starfsfólk lyfjanefndar mega ekki eiga persónulegra hagsmuna að gæta vegna tengsla við lyfjafyrirtæki.”

Grein 45

Síðasta setning greinarinnar er óþörf enda eru umræddar reglugerðarheimildir komnar fram í 43. og 44. grein.

XI. Kafli Öryggisþættir á ubúðum mannalyfja 46. grein

Óþarfi ætti að vera að hafa sérstakan kafla með aðeins einni grein um þetta málefni. Betur færi á því að færa þessa grein undir markaðsleyfi, framleiðslu eða heildsölu lyfja.

Grein 65

Í greininni er gert ráðfyrir að verkefni Lyfjagreiðslunefndar færist alfarið til Lyfjastofnunar þar með talið leyfisskylda og innleiðing nýrra lyfja sem áður hafði verið stefnt að mundi færðast til landspítala í samræmi við það ákvæði í lyfjastefnu til 2022 að færa saman faglega og fjárhagslega ábyrgð. Þrátt fyrir þetta er nefndin í raun ekki lögð niður eins og til stóð og boðað er í inngangi að drögunum, sbr. 67.g.

Þá er að finna meinloku í greininni þar sem sérstaklega er tiltekið að kostnaður vegna verðákvörðunar, leyfisskildu og greiðsluþátttöku skuli greidd úr ríkissjóði þegar raunin er sú að allur kostnaður Lyfjastofnunar er greiddur úr ríkissjóði. Annað mál er að ríkissjóður aflar tekna á móti þeim kostnaði með því að löggjafinn heimilar gjaldtöku vegna einstakra verka sem stofnunin innir að hendi, sbr. 82. grein. Óneitanlega skýtur skökku við að tilgreina í lögunum að einstakir verkþættir Lyfjastofnunar sem gjaldtaka nær ekki til skuli greiddir úr ríkissjóði en ekki aðra sem eins er ástatt um. Nær væri að tiltaka í 82. grein laganna það hlutfall af kostnaði stofnunarinnar sem gjaldtakan mætti ná til þannig að kostnaðurinn væri ekki að stærstum hluta fjármagnaður af lyfjafyrirtækjum sem hætt er við að geri stofnunina of háða þeim. Í þessu sambandi má ekki gleyma því að allur innlendur tilkostnaður vegna lyfja bitnar með einum eða öðrum hætti á lyfjaverði í landinu.

Grein 67

Ekki er nauðsynlegt að skipa nýja nefnd hjá Lyfjastofnun sem er eins samsett og Lyfjagreiðslunefndin og því mætti fella fyrstu málsgrein þessarar greinar niður.

Gert er ráð fyrir að Lyfjastofnun taki að sér þau verkefni er snúa að verðlagningu lyfja sem er í nokkru samræmi við fyrirkomulagið t.d. í Noregi en þar er sérstök deild í Lyfjastofnuninni sem tekur að sér verðlagningu lyfja en ekki nefnd. Eins og áður er getið vekur hins vegar athygli að ekki sé gengið lengra í að færa þau verkefni Lyfjagreiðslunefndar er varða innleiðingu og leyfisskyldu lyfja til landspítala eins og stefnt hafði verið að í samræmi við ákvörðun ráðherra frá mars 2018 og lyfjastefnu til 2022.

Grein 82 og 83

Þar sem að sú gjaldtaka sem tilgreind er í þessum greinum nær ekki yfir alla starfsemi Lyfjastofnunar væri rétt að tiltaka það hlutfall af kostnaði stofnunarinnar sem gjaldtaka mætti ná til þannig að kostnaðurinn væri ekki að mestum hluta fjármagnaður af lyfjafyrirtækjum sem hætt er við að geri Lyfjastofnun of háða lyfjaiðnaðinum.

Töluliður 8 í 83. grein um að dýralæknar greiði eftirlitsgjald vegna dýralyfjasölu stangast á við ákvæði III til bráðabirgða sem kveður á um afnám lyfjasölu dýralækna.

Ákvæði III til bráðabirgða

Afnám lyfjasölu dýralækna var reynd fyrir 25 árum við gerð núgildandi lyfjalaga en mætti mikilli mótspyrnu bænda og dýralækna og var því horfið frá þeim áformum. Misráðið er að gera þessa breytingu án þarfagreiningar eða samráðs við hagaðila, sem ef að líkum lætur mun mæta miklum og kröftugum mátmælum, bænda, dýralækna og gæludýraeigenda.

Einar Magnússon, fyrrverandi lyfjamálastjóri í velferðarráðuneytinu og áður heilbrigðisráðuneytinu

Afrita slóð á umsögn

#18 Anna Guðrún Grétarsdóttir - 01.03.2019

Sem umráðamaður og eigandi búfjár er ótækt að ekki sé hægt að nálgast dýralyf hjá dýralækni. Bráðir sjúkdómar (sem ekki gera nein boð á undan sér) geta orsakað dauða sé ekki gripið inn í strax. Að torvelda aðgang bænda og annarra þeirra sem halda dýr, að aðgengi að lyfjum til dýra, setur um leið velferð dýranna í hættu. Umráðamenn dýra hafa ríka ábyrgð gagnvart skepnum. Fari frumvarpið í gegn óbreytt hefur það áhrif á velferð dýra. Það eru undarlega skilaboð frá stjórnvaldinu.

Afrita slóð á umsögn

#19 Margrét Vilhelmsdóttir - 01.03.2019

Akureyri, 1. mars 2019

Efni: Athugasemdir við frumvarp til lyfjalaga

Lyfjanefnd Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hefur borist drög að nýjum lyfjalögum.

Lyfjanefnd SAk hefur fjallað um þessi drög og vill koma eftirfarandi á framfæri:

1. Athugasemd við III. Kafla Lyfjaskrár, 9. gr. Lyfjaskrár lyfjastofnunar :

• Hér mætti bæta við að strikamerki skuli aðgengileg fyrirtækjum og stofnunum í stoðskrá lyfja. Strikamerki eru mikilvæg viðbót til að tryggja öryggi við afgreiðslu og skömmtun lyfja.

• Stoðskrá lyfja þarf einnig að innihalda upplýsingar um íkomuleiðir.

2. Athugasemd við X.Kafla Umsýsla lyfja á heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna, 43.gr. Lyfjanefnd Landspítala :

• Eiga önnur opinber sjúkrahús ekki að hafa lyfjanefnd ?

• Skýra þarf hlutverk lyfjanefnda annarra opinberra sjúkrahúsa ef þær eiga að vera til. Ef þær eiga ekki að vera til þarf að skýra samráðsskyldu lyfjanefndar Landspítala við önnur opinber sjúkrahús.

3. Athugasemd við X.Kafla Umsýsla lyfja á heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna, 45.gr. Reglugerð :

• Ráðherra skal setja reglugerð um hlutverk og starfsemi lyfjanefndar Landspítala og lyfjanefndar heilsugæslunnar.

• Hvað með lyfjanefndir annarra opinberra stofnana og heilsugæslu úti á landi?

Fyrir hönd lyfjanefndar Sjúkrahússins á Akureyri (SAk),

Margrét Vilhelmsdóttir, formaður

Afrita slóð á umsögn

#20 Guðbjörg Þorvarðardóttir - 01.03.2019

Umsögn um frumvarps til nýrra lyfjalaga.

Mál nr. S-52/2019

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

Er að fagna þessu ákvæði þar sem heildsöluálagning er frjáls á dýralyfjum og mun frjáls álagning í smásölu vera líklegra til meiri samkeppni í verðlagningu og gæti oft lækkað lyfjakostnað í mörgum tilvikum til bænda. Það mun þó líklega vera háð því að dýralæknar halda lyfsöluleyfi og geti veitt samkeppni á móti fákeppni lyfjaverslana.

Athygli vekur að í drögunum er nú ætlunin að afnema lyfjasölu dýralækna, sem virðist vera ein megin markmið þeirra breytinga sem gerð er á fyrra frumvarpi frá 2015. Á sama tíma að opna fyrir mögulega stórfellda lyfjasölu dýralyfja í gegnum gæludýraverslanir meira að segja án markaðsleyfis og án aðkomu dýralækna og þess vegna í net- og póstverslun um allt land. Þessar breytingar virðast vera án þarfagreiningar og án aðkomu fulltrúa dýralækna né yfirdýralæknis, þótt frumvarpið leggi til verulega skerðingu á réttindum þeirra og starfsumhverfi.

Hafa dýralæknar haft leyfi til að afhenda lyf handa dýrum frá því fyrstu dýralæknar komu til landsins til starfa. Allir dýralæknar eru menntaðir erlendis með 5 1/2 til 6 ára nám að baki. Er lyjafræði nám um lyf fyrir dýr stór þáttur í þeirra menntun með úskolunartímum og mismunandi virki hjá ýmsum dýrategundum. Slíka þekkingu hafa lyfjafræðingar ekki og reyndar virðast þeir almennt hafa litla sem enga kunnáttu um notkun dýralyfja. Að færa lyfsölu til lyfjaverslana sem á mörgum stöðum á landinu skarta ekki einu sinni lyfjafræðingi á staðnum og er þar mikil fákeppni. Hafa dýralæknar oft átt í erfiðleikum með að nota þjónustu lyfabúða og fá þar þau lyf sem þörf er á eða orðið varir við mistök vegna kunnáttuleysis. Lyfsölurnar hafa eingöngu áhuga á að fá þau lyf sem seld eru í töluverðu magni til bænda en ekki að eiga til öll þau lyf sem þjónusta dýralækna þarf á að halda.

Ekki er að finna neinn haldgóðan rökstuðning fyrir að afnema lyjasöluleyfi dýralækna. Hefur verið á undanförnum árum mikil umræða innan FVE evrópu samtaka dýralækna um kosti og galla þess að dýralæknar hafi eða hafi ekki lyfsöluleyfi. Er álitið að með því að taka sölu dýralyfja af dýralæknum muni skerða þjónusta við dýraeigendur víðs vegar um álfuna. Hefur reynsla frá norðurlöndum þar sem lyfsalan var færð inn í lyfjabúðir ekki gefið neitt betri árangur í notkun á lyfjum eða óþoli lyfja en hérlendis nema síður sé. Mun slík tilfærsla hafa áhrif á dýravelferð, matvælaöryggi, stöðu dýrasjúkdóma og þróun sýklalyfjaónæmis og matvælaöryggi.

Einnig mun slíkt afnám lyfsölu dýralækna stórauka magn lyfja á heimilum landsmanna þar sem dýraeigendur muna fá afhent mun meira magn af hverju lyfi við kvillum dýra sinna en nú er stundað við afhendingu lyfja frá dýralækna til dýraeiganda.. Einnig má búast við að innflutningur lyfja með netverslun aukist enn, en það mun vera nokkuð vinsælt að versla í gegnum netverslun með sendingu með pósti, þar sem dýraeigendur panta lyf jafnvel við ýmsum smávægilegum útlitgöllum sem innihalda lyf sem ekki eru leyfð til notkunar í dýr sökum mikilla hættu á lyfjaónæmi og dýralæknar hér hafa ekki undir höndum. Getur orðið mun auðveldara að ná í lyf og eiga þannig en þurfa að finna opna lyfjabúð á öllum tímum sólarhringsins.

Með að dýralæknar missa sölu bóluefna og ormalyfja til dýra mun eftirlit og leiðbeiningar dýralækna til dýraeigandi stórlega minnka og notkun þeirra lyfja mögulega verða til skaða fyrir umhverfi okkar

Það eru lítil sjáanleg rök á bak við þessa breytingu þar sem notkun lyfja og afhending til dýra á Íslandi er ein sú besta sem þekkist í heiminum, sem ekki er hægt að segja því miður um mannalyfin. Að henda því fyrir róðra er alvarlegt umsugsunarefni..

6. gr. Hlutverk Lyfjastofnunar

Ekki eitt orð um eftirlit með netverslun í gegnum póstinn en aftur á móti nú sett inn:

19. að veita leyfi til sölu dýralyfja samkvæmt e. lið 1. mgr. 11. gr

.

11. gr. Markaðssetning lyfja.

Einungis er heimilt að markaðssetja hér á landi lyf sem Lyfjastofnun hefur veitt markaðsleyfi. Um er að ræða ávísunarskyld lyf fyrir menn er jafnframt skilyrði að Lyfjastofnun hafi samþykkt hámarksverð í heildsölu og smásölu. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að selja hér á landi eftirfarandi lyf án markaðsleyfis:

b. Óvirkjuð ónæmislyf fyrir dýr sem eru framleidd úr sjúkdómsvöldum og mótefnavökum sem fengnir eru úr dýri eða dýrum frá sömu bújörð og notuð til að meðhöndla dýrið eða dýrin frá þeirri bújörð á sama stað með heimild Lyfjastofnunar að fenginni umsögn Matvælastofnunar.

d. Lyfjablandað fóður.

e. Dýralyf sem eru eingöngu ætluð skrautfiskum, búrfuglum, bréfdúfum, landdýrum sem haldin eru í búrum, litlum nagdýrum sem haldin eru í búrum, frettum og kanínum sem eingöngu eru haldnar sem gæludýr, að því tilskyldu að lyf þessi innihaldi ekki efni sem útheimta að dýralæknir hafi eftirlit með notkun þeirra og að allar tiltækar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að þau verði gefin öðrum dýrum í leyfisleyfis.

Gjaldtaka.

82. gr.

Gjaldtaka samkvæmt gjaldskrá. Lyfjastofnun er heimilt að taka gjald fyrir:

15. Veiting leyfis til sölu dýralyfja samkvæmt e. lið 1. mgr. 11. gr.

83. gr.

Eftirlitsgjald.

Eftirfarandi aðilar skulu greiða eftirlitsgjald sem standa skal undir kostnaði við reglubundið eftirlit Lyfjastofnunar:

5. Handhafar leyfa til að selja lyf sem ætluð eru dýrum. (Gæludýrabúðir)

8. Dýralæknar sem fengið hafa leyfi fyrir lyfsölu. Hverjir eru það?

Eru nú gæludýrabúðir orðnar mun betri kostur en dýralæknarnir og ákjósanlegt að opna fyrir stórfelldan innflutning og sölu í gegnum slíkar verslanir sem líklega eru undir ströngu eftirliti og með mikla þekkingu innanborðs, þó við höfum ekki orðið þess vör í gegnum árin heldur því gagnstæða. Hvar er nú frjáls álagning dýralyfja eða er ekki hér um dýralyf að ræða.

Hvar eru sett lög eða reglur um eftirlit með lyfjasölu gæludýrabúða og netsölu þeirra.

Komu einhverjir dýralæknar að þessarri grein og hvaða tilgangi þjónar hún?

Hverjar eru “allar tiltækar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að þau verði gefin öðrum dýrum í leyfisleyfis”. Líklega engin hætta hér á ferðum.

Eftirlit.

77. gr.

Eftirlit og framkvæmd eftirlits

f. Leyfis til að selja lyf sem ætluð eru dýrum, sbr. 35. gr.

35. gr.

Lyfsöluleyfi heilsugæslustöðvar.

Það er gott að vita að álitið sé að framkvæmdastjórar heilsugæslustöðva séu betur hæfar til að annast sölu dýralyfja heldur en dýralæknar.

Einu greinarnar sem hafa sölu dýralyfja innanborðs. Er þetta þá nýju lyfjasölur dýralyfja? Gæludýraverslanir og framkvæmdstjórar heilsugæslustöðva.

83. gr.

Eftirlitsgjald.

Eftirfarandi aðilar skulu greiða eftirlitsgjald sem standa skal undir kostnaði við reglubundið eftirlit Lyfjastofnunar:

Hér er verið að setja gjald langt umfram umfang starfsemi dýralækna, sérstaklega eftir afnám lyfsölu að stærsta hluta og gera starfsemi dýralækna nær ómögulega á strjálbýlli stöðum ásamt að vera að skattleggja starfsemi dýralækna umfram aðra. Mun þessi skattheimta geta torveldað verulega áhuga dýralækna að hefja rekstur á mörgum svæðum.

Fellt er niður embætti lyfjamálastjóra, sem hlýtur að veikja mikið faglega hlið lyfjamála innan ráðuneytis og gera Lyfjastofnun nær alsráðandi í þeim málum.

Einnig er felld niður lyfjagreiðslunefnd eða frekar flutt inn í Lyfjastofnun sem eykur enn á vald Lyfjastofnunnar.

Auk þess er felld niður Lyfjanefnd Lyfjastofnunar sem er ráðgjafarnefnd stofnunarinnar um lyfjamál. Í stað er Lyfjastofnun heimilt að skipa nefndir og starfshópa og kalla sérfræðinga til ráðgjafar, Með þessum er verulega dregið úr aðkomu annarra fagaðila að lyfjamálum bæði innan ráðuneytis og Lyfjastofnunar.

Góði árangur Íslands í notkun dýralyfja og lága tíðni sýklalyfjaónæmis er varla haldið uppi með að taka lyfsöluleyfi af dýralæknum, né eðlilegri samkeppni með að færa lyfjasölu dýralyfja inn í fákeppni lyfjabúða landsins. Einu sérfræðingar í dýralyfjum eru dýralæknar og best falldnir til að sjá um sölu og dreifingu ásamt upplýsingagjöf til dýraeiganda og annarra.

Guðbjörg Þorvarðardóttir

Dýralæknir, fyrrverandi formaður Dýralæknafélags Íslands, fulltrúi DÍ í lyfjagreiðslunefnd og Lyfjanefnd.

Sjá nánar í meðfylgjandi skrá.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Anna Þórunn Halldórsdóttir - 01.03.2019

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

Er að fagna þessu ákvæði þar sem frjáls álagning í smásölu vera líklegra til meiri samkeppni í verðlagningu og gæti lækkað lyfjakostnað í mörgum tilvikum. Það mun þó líklega vera háð því að dýralæknar halda lyfsöluleyfi og geti veitt samkeppni á móti fákeppni lyfjaverslana.

Athygli vekur að í drögunum er nú ætlunin að afnema lyfjasölu dýralækna. Hlýtur það að setja í uppnám dýralæknaþjónustu á landsbyggðinni og aðgengi bænda og dýraeienda að fá lyf í tíma. Virðist oft vera erfitt að fá dýralækna til starfa út á landsbyggðinni og mun geta enn aukið á þann vanda ásamt erfiðleikum með að nálgast nauðsynleg lyf á öllum tíma sólarhringsins.

Anna Halldórsdóttir

Hjúkrunarfræðingur og hundaamma

Afrita slóð á umsögn

#22 Bændasamtök Íslands - 01.03.2019

Umsögn Bændasamtaka Íslands um mál S-52/2019.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Erla Sigríður Hjaltadóttir - 01.03.2019

Með þessu afnámi að leyfa dýralækum rekstur lyfsölu ,að minnsta kosti þeim sem stunda almennar dýralækningar, er mikil ógn við að halda uppi dýralæknaþjónustu á landsbyggðinni og aðgengi bænda og dýraeienda að fá lyf í tíma. Er nú þegar erfitt fá dýralækna til starfa út á landsbyggðinni og mun geta valdið alvarlegum dýralækaskorti í sveitum landsins. Sú lyfjasala sem dýralæknar hafa haft hefur verið mikilvæg uppbót fyrir starfsemi dýralækna á strjálbýlli svæðum og grunnvöllur fyrir að hægt hafi verið að halda þar uppi þjónustu ásamt 24 tíma þjónustu alla daga ársin. Það er líklega erfitt að finna álíka þjónustu lyfjabúða eða gæludýraverslana um landið allt.

Erla Hjaltadóttir

íbúi á Reyðarfirði

Afrita slóð á umsögn

#24 Ólafur Benediktsson - 01.03.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Ég hef sem betur fer aðgang að góðum dýralæknum sem sinna starfi sínu að kostgæfni oft við erfiðar aðstæður og þurfa iðulega að keyra langar vegalengdir í starfi sínu.Þeir geta ávalt er komið er á staðin brugðist við og látið mig hafa þau lyf sem þarf.

1. Lyfjakostnaður er sambærilegur milli dýralæknana þannig að bændur þurfa ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gætti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja.

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

5.Á okkar svæði er staðan þannig að lyfsalan er aðeins opin hálfan daginn þ.a.s. eftir hádegi virka daga og ef dýr veikist eftir lokun lyfsölu á föstudegi þá fátt annað í stöðunni en að bíða fram yfir hádegi á mánudag er lyfsalan opnar aftur.Væri nú ekki gáfulegra að dýralæknirinn afhenti viðkomandi bónda þau lyf sem þyrfti svo hægt væri að hefja meðferð strax.

Með þessum tillögum er verið að veikja dýralæknaþjónustuna mikið og gera hana ómarkvissari og dýrari.Dýravelferð er ekki höfð til hiðsjónar.

Núverandi stjórnvöld segjast ætla að stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni og efla Íslenskan landbúnað en gera svo allt annað er á reynir.Auka kostnað bænda,stuðla að sóun á tíma og peningum,auka á kolefnisfótspor bænda með því að neyða þá i í óþarfa akstur eftir lyfjum.

Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleifi frá sérhæfðum dýralæknum til lyfsala.

Ég hafna þessum tillögum og kalla eftir vitrænni hugsun um þessi mál.

Afrita slóð á umsögn

#25 Guðrún Þórdís Halldórsdóttir - 01.03.2019

Mótmæli þessu harðlega! Hverjir eru betur falnir til þess að skammta bændum lyf en dýralæknar. Á tímum sem að okkur er gert að gera betur í loftslagsmálum þá er heimskulegt að keyra á eftir dýralækninum i næsta kaupstað að ná í lyf, og lyfsölum er óheimilt að skipta niður pakningum svo að þetta yrði sóun a lyfjum einnig. Á stöðum þar sem langt er í næsta bæjarfélag er þetta bölvað og þá eru apotek ekki opin á sunnudögum og a landsbyggðinni oftar en ekki bara í tvo tima á laugardögum. Við skulum þa rétt vona að kýr fái ekki júgurbólgu á aðfangadagskvöldi og þar sem að það eru 30-40 km i næsta apotek!!!! Þetta varðar við dýravelferð og er algerlega út í hött!!

Afrita slóð á umsögn

#26 Juliette Marion - 01.03.2019

Ég hef unnið hjá dýralækni og fylgst með hvernig skammtað er nákvæmlega lyfjunum fyrir dýrin. Ef dýralæknar hætta að mega selja lyf getur það orsakað enn stærri lyfjabirgðir inn á heimilum fólks, þar sem nú er oft nóg af lyfjum fyrir, sérlega hjá eldra fólki sem fær lyf frá apótekum í 100 stk pakkingum þó kannski þurfi bara 6 stk.

Er ofgnótt lyfja vandamál sem þarf að taka á og þetta frumvarp hjálpar lítið nema síður svo..

Juliette Marion

kattareigandi

Afrita slóð á umsögn

#27 Hákon Ingvi Hansson - 01.03.2019

Í samráðsgátt stjórnarráðsins er gefinn kostur á umsögn um drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga. Mál nr. S-52/2019, Hyggst ég nýta mér þann kost.

Í gildandi lyfjalögum nr 93/1994 m.s.br. segir í 4. grein:

Lyfjanefnd Lyfjastofnunar er ráðgjafarnefnd stofnunarinnar um lyfjamál.

Nefndin skal skipuð fimm mönnum með sérfræðikunnáttu á sem víðustu sviði læknis- og lyfjafræði. Ráðherra skipar formann. Aðra nefndarmenn, auk fimm varamanna, skipar ráðherra í samráði við formann. Þegar fjallað er um dýralyf skulu taka sæti í nefndinni yfirdýralæknir og dýralæknir, skipaður af ráðherra í samráði við formann nefndarinnar.

Skv. upplýsingum frá yfirdýralækni hefur ekki verið haft samráð við Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni við vinnslu frumvarpsins, né hefur annar dýralæknir komið að málinu, eins og þó segir í gildandi lögum. Þegar af þessari ástæðu verður að gera kröfu um að allir þættir er varða dýralyf verði endurskoðaðir og lögboðnum ákvæðum 4. greinar fylgt með því að kalla dýralækna til við þá endurskoðun.

Ég undirritaður, sem hef starfað sem dýralæknir í dreifbýli í meira en 42 ár vek einnig athygli á að í því frumvarpi um lyfjalög, sem lagt var fyrir alþingi á 145. löggjafarþingi en fékk ekki afgreiðslu þar, eru skýr ákvæði um lyfsölu dýralækna. Þar skal bent á 33. grein þess frumvarps, sem fjallar um leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætluð eru dýrum.

Án nokkur samráðs hafa þessi ákvæði verið tekin út úr þeim drögum sem nú hafa verið lögð fram. Það verkur furðu og er óásættanlegt, að leggja til slíka skerðingu á réttindum og starfsumhverfi heillar stéttar, án nokkurs samráðs eða umfjöllunar.

Stór hluti þjónustu dýralækna í dreifbýli, einkum við bændur, en einnig við aðra dýraeigendur er að tryggja aðgang að nauðsynlegum lyfjum þegar á þarf að halda. Víða á landsbyggðinni er langt í næsta útibú lyfsölu. Sem dæmi nefni ég að á mínu þjónustusvæði á suðurfjörðum Austfjarða er ekkert útibú lyfsölu. Ekki verður því trúað að bændur eigi að leita til „framkvæmdastjóra heilsugæslustöðvar á meðan engin lyfjabúð er starfrækt í því sveitarfélagi, eða í tilteknum þéttbýliskjarna innan sveitarfélagsins, sem heilsugæslustöðin þjónustar“ eins og fram kemur í 35. grein draganna.

Á öllum þjónustusvæðum dýralækna sem ná yfir allt landið er tryggt að hægt er að ná í dýralækni allan sólarhringinn. Sú góða þjónusta sem dýraeigendum er veitt með þessu þjónustukerfi mun skerðast verulega, ef dýralæknir getur ekki lengur afhent nauðsynleg lyf, heldur þarf að senda lyfseðil í lyfsölu. Ekki þarf að taka fram að í lyfsölum er ekki sólarhringsþjónusta, heldur takmarkaður opnunartími virka daga og víða alveg lokað um helgar.

Því legg ég til að drög að lyfjalögum þar sem fjallað er um dýralyf verði endurskoðuð og lögbundin aðkoma dýralækna að endurskoðuninni verði tryggð.

Jafnframt verði 33. grein frumvarpsins sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi sett inn aftur og mun þá vera tryggt, að bændur og aðrir dýraeigendur munu njóta bestu mögulegrar þjónustu dýralækna.

Benda má á fleiri þætti í drögunum, sem þarfnast endurskoðunar, ég læt hér nægja að í 83. grein lið 8 er sagt að dýralæknar eigi að greiða eftirlitsgjald vegna lyfjasölu dýralyfja. Þetta er í ósamræmi við ákvæði III til bráðabirgða sem kveður á um afnám lyfjasölu dýralækna frá 1.1. 2020.

Hákon Hansson

dýralæknir 760 Breiðdalsvík

Afrita slóð á umsögn

#28 Guðmar Aubertsson - 01.03.2019

Undirritaður dýralæknir mótmælir harðlega þeim áformum sem fram koma í drögum að frumvarpi til lyfjalaga að afnema leyfi dýralækna til lyfsölu.

Eftirfarandi ástæður eru undirrituðum efst í huga.

1. Þessi breyting kemur til með að hefta aðgang dýraeiganda af nauðsynlegum lyfjum og seinka því að dýrin komist í þá lyfjameðferð sem nauðsynleg er. Um það bil 60% af allri sölu með dýralyf fer fram í dreyfbýli þar sem langar vegalengdir eru í næsta apótek þó svo að menn séu staddir á svæðum sem teljast tiltölulega þéttbyggð eins og suðurland. En þar er að meðaltali fyrir hvern bónda u.þ.b 50-60 km fram og til baka í næsta apótek. Sem sagt lakari þjónusta fyrir dýr og eigendur þeirra. Ekki er hægt að líkja þessu saman við eins og t.d. Danmörk þar sem stutt er á milli dreyfbýliskjarna og apótek í nánast hverjum þeirra.

2. Þau rök að þetta muni auka samkeppni í lyfsölu dýralyfja standast heldur ekki skoðun. Þar sem í hverjum dreifbýliskjarna úti á landi er aðeins eitt apótek og samkeppnin þ.a.l engin. Í Rangárvallarsýslu er t.d. aðeins hægt að versla við Apótekarann sem mundi þá fá einn lyfsala stóran hluta lyfsölu mjólkurframleiðslu landsins í sinn hlut.

3. Frjáls álagning getur aldrei lækkað verð lyfja þegar aðeins einn lyfsali er á tilteknu svæði. Undirrituðum og dýralæknum öllum finnst það fyrirkomulag sem í dag mun betra. Þar sem það tryggir öllum dýraeigendum lyf án þess að okrað sé á þeim. Ef skoðuð er verðlagning dýralækna á þeim undanþágulyfjum sem þeir hafa verið að selja sést það að dýralæknar hafa haldið sig við sömu álagningu með þau en þau hafa verið með frjálsri álagningu samkvæmt núgildandi lögum.

4. Ekki fæst séð að dýralæknar hafi misnotað það lyfsöluleyfi sem þeir hafa. Þar sem t.d. sýklalyfjanotkun í búfé á Íslandi er með því lægsta sem gerist í Evrópu og Penisillinnæmi með því hæsta sem þekkist í heiminum. Dýralæknafélag Íslands ályktaði um ábyrga notkum á sýklalyfjum fyrir mörgum árum og hafa dýralæknar haldið sig það eins og sést á álþjóðlegum tölum um lyfjanotkun og ónæmi.

5. Opnunartími Apóteka í Rangárvallarsýslu og alls staðar á landsbyggðinni er takmarkaður sem minnkar enn frekar aðgengi dýraeiganda að nauðsynlegum lyfjum. En dýralæknar á svæðinu hafa haldið sólarhringsvakt og sinnt öllum neyðartilvikum strax á fullnægjandi hátt.

6. Dýralæknar hafa sinnt skráningu á lyfjanotkun í búfé. Það hefur tryggt að lyfjaleifar komist ekki í matvæli sem er mikið hagsmunamál fyrir neytendur og spruning um almannaheill. Þessari skráningu geta dýralæknar ekki sinnt lengur Þegar þeir ekki afhenda lyf til áframhaldandi meðhöndlunar sjálfir. Vegna þess að þeir geta ekki vitað hvenær lyfið er komið í hendur dýraeiganda til meðhöndlunar og þeir geta ekki borið ábyrgð á þeim lyfjum sem selja ekki sjálfir

7. Dýralæknar hafa lagt sig fram um að skilja aðeins eftir það magn sem til þar í hverja meðhöndlun fyrir sig og hafa rofið pakkningar til þess. Þetta er gert til þess að ekki sé til umframmagn af lyfjum hjá dýraeigandi sem yrði svo notað í næsta dýr án þess að dýralæknir komi að greiningu og réttri meðhöndlun þess dýrs. Ástæður þessa er annarsvegar dýravelferð þannig að tryggt sé að hvert dýr fái rétta meðhöndlun en einnig er þetta spurning um almannaheill þannig að ekki komi á markað matvæli með lyfjaleyfum.

8. Sjálfstætt starfandi dýralæknar eins og t.d. á suðurlandi hafa haft lifibrauð af tvennu. Annarsvegar þeim störfum sem þeir inna af hendi og hinsvegar af lyfsölu sem hefur verið umtalsverður hluti af þeirra tekjum. Verði lyfsalan tekin af dýralæknum munu dýralæknar þurfa að hækka verðskrá sína sem um munar ca 40% til þess að ná endum saman. Ekki fæst séð að þær búgreinar sem um ræðir geti borið þá hækkun þar sem þær eru nú þegar í vörn vegna tekjusamdráttar t.d. lækkað kjötverð.

Undirritaður fær ekki séð annað en þessi breyting að afnema lyfsöluleyfi dýralækna muni ekki vera til góðs fyrir neinn nema lyfsala sem nú þegar sitja að allri lyfsölu með lyf fyir mannfólk.

Þetta mun aðeins leiða af sér aukin kostnað fyrir dýraeigendur sem jafnvel munu veigra sér við að kalla til dýralækni vegna þessa. Þetta frumvarp ógnar með þeim hætti dýravelferð í landinu og leyfir undirritaður sér að draga í efa að sá búfjárpraxis sem við þekkjum í dag muni lifa þetta af. Sem getur varla verið markmið nýrra lyfjalaga.

Virðingarfyllst

Guðmar Aubertsson dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#29 Sandra Líf Þórðardóttir - 01.03.2019

01.03.2019

Fyrir þann sem þetta varðar,

Ég undirritaður dýralæknir harðlega mótmæli hér með breytingu lyfjalaga sem verða til þess að dýralæknar missi lyfsöluleyfi og að frjáls álagning verði leyfð á lyfjum.

Sem dýralæknir í dreyfbýli mun þetta hindra aðgengi af lyfjum fyrir bændur, akstur í næsta apótek getur verið gríðalega langur og opnunartími apóteka stuttur. Ef skepna veikist síðla dags á Föstudegi eða um helgi er enginn möguleiki fyrir bónda að nálgast lyf, þessir dagar geta skipt sköpum uppá meðhöndlun og batahorfur skepnunnar, jafnvel verið uppá líf og dauða.

Þegar horft er til notkun sýklalyfja er ekki hægt að segja að dýralæknar á Íslandi misnoti lyfsöluleyfi sín. Lyfjaónæmi í búfé er mun minna á Íslandi en í nágranna þjóðum okkar. Við notum oftar hreint penecillin í stað breiðvirkara sýklalyfja sem við höldum í lágmarki.

Tökum dæmi; dýralæknir meðhöndlar skepnu síðla dags á Föstudegi, hann greinir vandann og ákveður að meðhöndla með penecillin og bólgueyðandi lyfjum í 5 daga, hann kemur aftur á Laugardegi til að gefa inn lyf og aftur á Sunnudegi þar sem apótekið var lokað seinni part Föstudags. Bóndinn fer í apótek á Mánudegi til að kaupa áframhaldandi lyf, þá er bóndinn með 8 daga lyfjaskammt í stað 5, þar sem dýralæknir meðhöndlar í 3 skipti og ávísað glas inniheldur 100 mL sem er 5 daga skammtur miðað við 20mL skammt í hverri inngjöft, apótekin rjúfa ekki pakningar til að tryggja að ávísað magn sé rétt líkt og dýralæknar gera. Umfram magn lyfja er þá 30 mL fyrir hvert dýr og geta dýralæknar ekki ábyrgst hvað verður um þessa auka 30 mL. Þetta mun einnig hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir bóndann bæði fyrir umframmagns lyfja og vinnu sem dýralæknir sinnir.

Annað dæmi er ef dýralæknir meðhöndlar skepnu og ávísar lyfseðli, bóndinn telur skeppnuna ögn betri og sækir ekki lyfin og heldur þar af leiðandi ekki meðhöndlun áfram. Þar af leiðnadi stuðlum við af aukinni hættu af sýklalyfjaónæmi.

Dýralæknar munu þurfa að hækka verðskrá sína um allt að 40% þar sem þeir missa tekjur við lyfsölu og með frjálsri álagningu mun lyfjaverð í apóteki líklega hækka einnig. Landbúnaður á Íslandi er ekki þannig stæður að allir bændur geta liðið þessa verðhækkun. Það kemur niður á velferð skepna.

Dýralæknar sjá sjálfir um að skrá lyfjanotkun í búfjárheilsu (http://www.bufjarheilsa.is/) svo hægt sé að fylgjast með lyfjaleyfum í matvælum, sláturbanni og keppnisbanni hrossa. Það er framkvæmt samkvæmt einstaklingsmerkingu hvers dýrs sem hann meðhöndlar. Hver sér um þessar skráningar þegar dýralæknir getur ekki ábyrgst notkun lyfja sem hann afhendir ekki sjálfur? Þar með er búið að stefna matvælaöryggi í hættu.

Í dreyfbýli er ekki alltaf lyfjarfræðingur í apókum og er þekking afgreiðslumanns á dýralyfjum ekki nægileg. Sér í lagi um útskolun lyfja og lyfjaleyfa í matvælum.

Þessi breyting lyfjalaga mun einungis hagnast apótekum. Hún mun stefna starfi praktiserandi dýralækna, dýravelferð og matvælaöryggi í hættu. Það getur ekki verið aðal ástæðan með þessari breytingu.

Virðingarfyllst,

Sandra Líf Þórðardóttir

Dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#30 Félag sauðfjárbænda í V-Hún - 01.03.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Í Félagi Sauðfjárbænda í V-Hún eru 110 bændur félagar. Félagsmenn okkar eru svo heppnir að hafa aðgang að góðum dýralæknum í héraðinu sem sinna starfi sínu af kostgæfni, oft við erfiðar aðstæður, og þurfa iðulega að keyra langar vegalengdir í starfi sínu.

1. Lyfjakostnaður er sambærilegur milli dýralæknana þannig að bændur þurfa ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gætti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja.

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

5.Á starfssvæði Félags sauðfjárbænda í V-Hún er lyfsalan aðeins opin hluta dags og eingöngu á virkum dögum þannig að ef dýr veikist eftir lokun lyfsölu á föstudegi þá er fátt annað í stöðunni en að bíða fram yfir hádegi á mánudag þegar lyfsalan opnar aftur. Væri nú ekki skynsamlegra með tilliti til dýravelferðar að dýralæknirinn hefði leyfi til að afhenda viðkomandi bónda þau lyf sem þyrfti svo hægt væri að hefja meðferð strax?

Með þessum tillögum er verið að veikja dýralæknaþjónustuna úti á landi mikið og gera hana ómarkvissari og dýrari. Dýravelferð er ekki höfð til hliðsjónar gangi þetta frumvarp í gegn.

Núverandi stjórnvöld hafa haft í frammi miklar yfirlýsingar um að ætla að stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni og efla íslenskan landbúnað en gera svo allt annað þegar á reynir. Auka kostnað bænda, stuðla að sóun á tíma og peningum og auka á kolefnisfótspor bænda með því að neyða þá í óþarfa akstur eftir lyfjum.

Við höfnum ofangreindum tillögum ásamt því að kalla eftir vitrænni hugsun og samráði við hagsmunaaðila varðandi þessi mál.

F.h. stjórnar Félags sauðfjárbænda í V-Hún

Sigríður Ólafsdóttir, gjaldkeri

Afrita slóð á umsögn

#31 Þorkell Gunnar Hjaltason - 01.03.2019

Athygli vekur að í drögunum er nú ætlunin að afnema lyfjasölu dýralækna. Dýraeigendur hafa yfirleitt átt aðgang að mjög greiðri þjónustu dýralækna, allan sólarhringinn og fengið skjóta þjónustu. Með afnámi lyfsölu dýralækna er veruleg hætta á að sú þjónusta skerðist og dýravelferð sé stemmt í hættu.

Þorkell Hjaltason

Dýravinur

Afrita slóð á umsögn

#32 Stefán Friðriksson - 01.03.2019

Varðandi frumvarp til nýrra lyfjalaga. Mál nr. S-52/2019

Undirritaður hefur starfað sem dýralæknir í dreifbýli á Íslandi í nær 20 ár. Á grundvelli reynslu og þekkingar á viðkomandi málefni mótmælir undirritaður harðlega þeirri tillögu að afnema heimildir dýralækna til reksturs lyfsölu. Hér væri verið að afnema réttinda dýralækna sem þeir hafa áunnið sér með dýralæknanáminu. Vegna mikilvægis lyfsöluréttinda dýralækna er mikil áhersla lögð á þætti er snúa að réttri notkun og meðferð dýralyfja sem og rekstri lyfsölu fyrir dýralyf í dýralæknanámi. Dýralæknar eru um leið einu sérfræðingarnir í sjúkdómum dýra og meðhöndlun þeirra.

Markmið frumvarpsins er m.a. að tryggja landsmönnum nægjanlegt framboð að nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Með því að afnema heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu væri verið að vinna þvert gegn þessum markmiðum. Afleiðingar afnáms lyfsöluréttinda dýralækna yrðu á margvíslegan hátt neikvæð fyrir dýr, dýraeigendur og dýralækna, sér í lagi í hinum dreifðari byggðum.

Meðhöndlanir dýra yrðu að hluta til ill framkvæmanlegar og tekjutap dýralækna yrði einnig verulegt. Þetta hefði í för með sér að enn erfiðara yrði að fá dýralækna til starfa á sumum svæðum en er í dag. Skert þjónustu leiðir af sér lakari búsetuskilyrði fyrir fólk almennt.

Minni aðkoma dýralækna að dýrahaldi og ýmsu sem því viðkemur, svo sem mati á sjúkdómsstöðu, hugsanlegum fyrirbyggjandi aðgerðum gegn sjúkdómum eins og framkvæmd bólusetninga myndi fela í sér stórt skref aftur á bak í dýravelferð þar sem hætta er á því að fólk leiti síður eftir þjónustu dýralækna vegna aukins umstangs og kostnaðar sem snýr að meðhöndlun dýra þeirra. Aukið umstang og kostnaður felst í auknum akstri dýraeigenda og tíma frá bústörfum til að nálgast dýralyf sem nauðsynleg eru.

Markmið og tilgangur lyfjastefnu Dýralæknafélags Íslands (DÍ) frá árinu 2001:

1. Hindra að dýraafurðir séu mengaðar með lyfjaleifum.

2. Hindra myndun bakteríuónæmis gegn sýklalyfjum og tryggja þannig möguleika á notkun þeirra í framtíðinni með því að draga úr notkun sýklalyfja eins og kostur er.

3. Draga úr lyfjamengun náttúrunnar.

4. Bæta árangur lyfjameðhöndlunar.

Þessum markmiðum, sem undirritaður telur að flestir geti sammælst um, er best stuðlað að með góðu samstarfi milli dýraeigenda og dýralækna, þar sem dýraeigendur hafa greiðan aðgang a,ð dýralækni í nágrenni sínu, og dýralæknir getur valið og skammtað lyf eftir þörfum hverju sinni. Frá því að DÍ setti fram lyfjastefnu sína hefur merkjanlegur árangur náðst með markvissari notkun dýralyfja. Hætt er við að árangri af lyfjastefnu dýralækna á Íslandi sé stefnt í voða ef frumvarpið nær fram að ganga.

Hvað varðar ónæmi baktería gegn sýklalyfjum telur undirritaður að með þessari tillögu að breyttu fyrirkomulagi um lyfsölu dýralyfja myndi skapast meiri hætta á rangri meðferð sýklalyfja. T.d. er meiri hætta á rofi í meðhöndlun við sýkingum eða jafnvel ófullkominni meðferð vegna þess að dýraeigandi kemst ekki í lyfsölu í tæka tíð. Til að skýra aðstæður betur þá gæti dýraeigandi sem þarf að meðhöndla grip á býli sínu þurft að fá dýralækni til að aka til sín, segjum 100-200 km leið til að greina sjúkdóm og hefja meðferð. Dýraeigandinn þyrfti svo í flestum tilfellum að aka sömu leið til að nálgast dýralyf í næsta þéttbýliskjarna til að ljúka meðferð dýrsins.

Sem meðlimur í DÍ sem heldur utan um hagsmuni dýralækna á Íslandi tekur undirritaður heilshugar undir umsögn DÍ um frumvarp til lyfjalaga, mál nr. S-52/2019.

Stefán Friðriksson, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#33 Þórunn Lára Þórarinsdóttir - 02.03.2019

Fyrir aðeins tveimur dögum frétti ég af drögum að nýju lyfjafrumvarpi. Breytingar í þessum drögum frá fyrra frumvarpi að lyfjalögum sýna óvönduð vinnubrögð. Breytingarnar snerta fyrst og fremst dýralækna og án aðkomu dýralækna og þeirra þekkingar á afhending og sölu dýralyfja.

Þetta nýja frumvarp mun koma hart niður á öllum dýraeigendum bæði bændum og gæludýraeigendum svo og dýralæknum. Nokkur dæmi, hvers vegna ég mótmæli þessu frumvarpi: Íslenskir dýralæknar geta verið stoltir af að vera með lægstu sýklalyfjanotkun í Evrópu, því við erum passasöm og seljum í litlum einingum sem apótekin munu ekki gera. Mörg dýralyf eru á undanþágu, það verður martröð bæði fyrir dýralækna og eigendur að þurfa að fara í gegn um apótek með þessi undanþágueyðiblöð. Það eru ekki starfandi dýralæknar í apótekum sem geta aðstoðað praktíserandi dýralækna varðandi sölu lyfja. Bóndi fær dýralækni til sín (hann greiðir dýralækninum fyrir akstur og vitjun) og þarf síðan að keyra jafnvel 50-180 km til að ná í lyf í apótek. Frumvarpið mun stuðla að enn frekari samþjöppun á lyfjamarkaði sem leiðir af sér minnkandi samkeppni. Verð dýralyfja mun hækka. m.m.

Ég mótmæli þessu frumvarpi harðlega.

Þórunn Lára Þórarinsdóttir, cand. med. vet.

Dýralæknirinn Mosfellsbæ

Kjarni, Þverholt 2 , 270 Mosfellsbær

Sími: 5665066 / 6600633

Afrita slóð á umsögn

#34 Skúli Hreinn Guðbjörnsson - 02.03.2019

Sem bóndi vil ég koma á framfæri mikilli óánægju með framkomið frumvarp.

Það eru engin rök sem ég sé að gefi tilefni til að breita þeim lögum um dýralyf sem í gildi eru í dag. Dýralæknar eru að mínu mati mjög fastheldnir á að gefa lyf nema rík þörf sé á því.

Þegar ég kalla til dýralæknir þá kemur hann til mín og gerir þær ráðstafanir sem þarf í upphafi og gefur þau lyf sem til þarf.

Það er algjör tvíverknaður og mikill kostnaður sem felst í því að breita þessum lögum þannig að þegar dýralæknir hefur gefið út lyfseðil að ég þurfi að keyra á eftir honum í næsta apótek til að sækja þau lyf sem þarf, sem hann getur afhent á staðnum um leið og hann kemur til að meðhöndla þau dýr sem þurfa á meðhöndlun að halda.

Einnig er vert að hafa í huga að nú á tímum er mikið tala um kolefnisjöfnun og kolefnisspor, með þess er ekki verið að hugsa um það, þar sem mikil mengun er af því að setja bíl í gang hvað þá að þurfa að elta dýralæknirin til að sækja lyf nánast í næsta húsi við hann.

Ég treisti dýralæknum fullkomnlega til að veita þessa þjónustu og er þess full viss að ef þeir missa þennan tekjustofn þá sérstaklega út á landi í dreyfðum byggðalögum munu dýralæknar hætta störfum og þjónustuna þarf þá að sækja um langan veg.

Ég get ekki skilið tilgangin með þessu frumvarpi, nema þá að verið sé að higla lyfsölum enn frekar, og er það full víst að lyf munu hækka með þessu fyrirkomulagi, er ekki alltaf verið að tala um frjálsa samkeppni, þetta stangast á við þá hugsun.

Vil ég hér með fara þess á leit við stjórnvöld að þau endurskoði þessa vitleisu og leyfi dýralæknum að sjá um þessi mál hér eftir serm hingað til, þar sem ekki eru neinar forsendur til að breyta þessu, og ekkert sem bendir til að þessi nálgun hafi valdið landi, dýrum og þjóð neinu tjóni, sést það best á því hversu dýr á Íslandi eru heilnæm og með litla lyfjaleyfar í sér við förgun.

Þegar hægt er að sýna fram á að sú þróun sé að breitast skulum við endurskoða þetta, en fyrr ekki.

Afrita slóð á umsögn

#35 Brynjólfur Friðriksson - 02.03.2019

Sem bóndi og umráðamaður búfjár,er einnig formaður félags kúabænda í Austur Húnavatnssýslu,geri ég athugasemdir við þessi ákvæði í frumvarpinu:

Lagt er til að verðlagning dýra-og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Þarna er verið að stefna dýravelferð í stórhættu vegna þess að hafi dýralæknar ekki leyfi til að selja og afhenda lyf í vitjunum til bænda þýðir það einfaldlega það að bændur þurfa að sækja lyfin í apótek sem oft eru í tuga kílómetra fjarlægð frá býli.

Þarna er verið að lengja þann tíma er líður þar til hægt er að meðhöndla dýrin.

Kostnaður bónda stóreykst bæði bæði vegna aksturs til að fá lyfin dýralæknar munu augljóslega þurfa að hækka gjaldskrár sínar og lyf verða dýrari vegna frjálsar verðlagningar.

Þessu mótmæli ég harðlega.

Brynjólfur Friðriksson.

Brandsstöðum.

Afrita slóð á umsögn

#36 Geir Árdal - 02.03.2019

Sem bóndi verð ég að gera athugasemdir varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Sem bóndi í mjög góðu og árangursríku samstarfi við starfandi dýralækni á mínu svæði, póstnúmeri 601, mótmæli ég harðlega þessum ákvæðum með eftirfarandi rökstuðningi:

1. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónusta þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða dýralækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gæti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu og fengið lyf til meðhöndlunar samdægurs.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki vegna hámarks á álagningu sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur. Að þurfa að keyra um langan veg til að nálgast lyf í Apóteki, ef það er þá opið, tekur tíma, fyrirhöfn og lengir tíma að réttri lyfjagjöf. Apótek eru oft á tíðum í mikilli fjarlægð frá býlum og það er því enginn smá hagræðing að fá þau lyf sem á þarf að halda frá dýralækninum

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu. Ekki er lengur hægt að stóla á póstsendingar.

5. Einnig hef ég áhyggjur af vöntun lyfs hjá lyfsala, ég treysti best dýralæknum til að velja og eiga þau bestu og gagnlegustu lyf sem dýrið þarf að fá.

Að lokum: Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala, sem bændur hafa ekki nokkra tryggingu fyrir að hafi þekkingu og færni til þess.

Afrita slóð á umsögn

#37 Máreik ehf. - 02.03.2019

Stjórn Nautgriparæktarfélags Vestur-Húnavatnssýslu mótmælir harðlega eftirtöldum liðum í frumvarpsdrögunum:

-Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls

- Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar

Lyfsala er nokkuð stór tekjustofn dýralækna á landsbyggðinni. Ef sá tekjustofn hverfur er hætt við að dýralænum fækki, og þar með mun aðgengi bænda að dýralæknum minnka. Mikilvægt er að tryggja að dýralæknar séu dreifðir um landið svo bændur um allt land hafi gott aðgengi að dýralæknum, og að veikar skepnur geti fengið meðhöndlun sem fyrst. Fær stjórnin ekki séð annað en að breytingar þessar muni koma harkalega niður á dýravelferð.

Stjórn NFVH

Guðrún Eik Skúladóttir

Guðný Helga Björnsdóttir

Pétur Þröstur Baldursson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#38 Sigríður Þorvarðardóttir - 02.03.2019

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Hver eru rökin fyrir þessum breytingum. Sýklalyfjaónæmi og notkun lyfja til dýra er eitt það besta sem þekkist. Svo er víst ekki með mannalyfin. Til hvers að taka umsjón og sölu dýralyfja af þeim sem best þekkja til.

Hef átt gæludýr og verið bjargað hjá dýralækni þar sem þar gat ég fengið lyfin sem það þurfti þótt væru páskar.. Væri eins víst ef þyrfti að fara í apótek um langan veg og ætti það þá þau lyf sem dýrið gæti þurft..

Sigríður Þorvarðardóttir

Dýravinur

Afrita slóð á umsögn

#39 Davíð Örn Sveinbjörnsson - 02.03.2019

Meðfylgjandi er umsögn sem ég sendi fyrir hönd félagsins Pharmarctica ehf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#40 Annemie J. M. Milissen - 02.03.2019

Varðandi frumvarp til nýrra lyfjalaga. Mál nr. S-52/2019

Undirrituð mótmælir harðlega þeirri tillögu að afnema heimildir dýralækna til reksturs lyfsölu.

Markmið og tilgangur lyfjastefnu Dýralæknafélags Íslands (DÍ) frá árinu 2001:

1. Hindra að dýraafurðir séu mengaðar með lyfjaleifum.

2. Hindra myndun bakteríuónæmis gegn sýklalyfjum og tryggja þannig möguleika á notkun þeirra í framtíðinni með því að draga úr notkun sýklalyfja eins og kostur er.

3. Draga úr lyfjamengun náttúrunnar.

4. Bæta árangur lyfjameðhöndlunar.

Með þessum lyfjastefnu er lögð áhersla á að dýr fái skjóta og örugga meðhöndlun á sjúkdómum sem dýralæknir hefur greint hjá þeim. Einnig að lyfjameðferð, ekki síst sýklalyfjameðferð, sé þannig að ávallt sé notað rétt lyf, að það sé notað í réttu magni og eins lengi og þarf til þess að minni áhætta sé á myndun lyfjaónæmis.

Sem dýralæknir sem sinnir aðallega gæludýrum í í dreifbýli tel ég víst að það vinnur þvert gegn þessum markmiðum þegar heimildir dýralækna til reksturs lyfsölu verður afnumið. Apótek hafa ekki viljað rjúfa pakkningar og hafa ekki alltaf hentugar pakkastærðir á lager, sérstaklega ekki fyrir minnstu dýrinn. Sem dæmi tekin: Hundur þarf sýklalyfjameðferð í 14 dagar, 1t BID. Dýraeigendi þarf þá 28 tfl enn núverandi pakkastærðin eru 100tfl, þetta veldur hærri lyfjakostnað, sóun á lyfjum og hættu á notkun sýklalyfjum án þess að dýralæknir er búin að skóða dýrið, greina sjúkdóminn og hefja meðferð. Þetta stofnar dýravelferð í hættu, þegar dýraeigendur fara sjálfur að meðhöndla bara með einhverju umfram lyf sem þau eða nágranni geymir upp í skáp hjá sér. Dýralæknar eru einu sérfræðingar í dýrasjúkdómum og viðeigandi meðferð á þeim!

Ég vil einnig benda á að lyfjafræðingar hafa ekki menntun á sviði dýralyfja, þar með talið virkni, áhrifum og sérstökum ábendingum þeirra, sem eru í mörgum tilfellum mjög tegundabundnar. Lyfjafræðingar hafa enn fremur ekki menntun í matvælaöryggi og lyfjanotkun í afurðagefandi dýr.

Í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að einungis lyfjafræðingum sé heimilt að afgreiða lyfseðla, en í minni apótekum úti á landi er enginn lyfjafræðingur starfandi. Þetta á við um útibú lyfsala víða um land, en þar hafa lyfseðlar dýralækna verið myndsendir í stærri apótek þar sem lyfjafræðingur undirritar og sendir til baka með tilheyrandi töfum og óöryggi í miðlun þessara upplýsinga.

Með því að flytja lyfsölu dýralyfja alfarið í hendur lyfsala/apóteka, verður aðgengi að nauðsynlegum

dýralyfjum mun verra, ekki síst í dreifðari byggðum. Áframhaldandi meðferð eftir vitjun myndi þannig geta tafist eða jafnvel fallið niður vegna þess að dýraeigandi býr fjarri þéttbýli, vitjunin er að kvöldi til eða um helgi. Opnunartími apóteka, ekki síst í dreifðari byggðum, er oft mjög takmarkaður en í núverandi fyrirkomulagi eru dýralæknar um land allt, með sínar lyfsölur, á vakt allan sólarhringinn – alla daga ársins. Aðgengi að nauðsynlegum lyfjum fyrir dýraeigendur mun því stórversna. Auk þess eru verulegar líkur á að hlé verði á sýklalyfjagjöf ef dýraeigandi getur ekki komist strax í kaupstað til að kaupa lyf, eitthvað sem er mjög óhagstætt með tilliti til þróunar sýklalyfjaónæmis.

Sem meðlimur í DÍ tekur undirrituð heilshugar undir umsögn DÍ um frumvarp til lyfjalaga, mál nr. S-52/2019

Annemie Milissen, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#41 Áslaug Eiríksdóttir - 02.03.2019

Mér líst mjög illa á að heimild dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumin og verði til mikils óhagræðis . Það mun líka rýra tekjur þeirra svo erfiðara verður að fá þá til starfa úti á landi.Sýnist líka að frjáls verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði ekki til hagsbóta

Afrita slóð á umsögn

#42 Búnaðarsamband Eyjafjarðar - 03.03.2019

Umsögn um frumvarp til nýrra lyfjalaga frá stjórn Búnaðarsambands Eyjafjarðar, 01.03.2019

# Lagt er til að verðlagning lausasölulyfja og dýralyfja verði gefin frjáls.

Í dag er hámarksálagning á dýralyfjum og álagningin hefur verið lægri á lyfjum eins og bóluefnum og ormalyfjum sem eru fyrirbyggjandi. Einnig hefur verð verið svipað hjá dýralæknum um allt land. Mörg dýralyf hafa stuttan stimpil og getur hver sem er séð að ætli apótek að hafa lager af þeim verður það dýrt. Dýralæknar hafa tilfinningu fyrir því hvaða lyf og í hversu miklu magni þarf á hverju svæði og miðla þá sín á milli með skjótum hætti ef þarf.

# Fella á úr gildi heimildir dýralækna til að kaupa lyf frá lyfjaheildsölum til sölu frá skrifstofu sinni.

bændur fara ekki með dýrin sín til dýralækna heldur koma þeir heim á bæi og meðhöndla dýrin þar. Þeir hafa skilið eftir lyf sem þarf í framhaldsmeðhöndlun og dýravelferð því tryggð. Það að bóndinn þurfi að ná í lyfin getur því þýtt tuga- og jafnvel hundruða kílómetra akstur eftir lyfjum í næsta apótek. Apótek á landsbyggðinni eru með stuttan opnunartíma og jafnvel ekki opin um helgar. Það er líka ólíklegt að þau sjái hag í því að liggja með birgðir af dýralyfjum sem renna svo út og verða bara fokdýr. Þetta getur í mjög mörgum tilfellum orðið til þess að dýrið er dautt þegar lyfið loksins fæst.

Stangast þetta ekki á við lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr? 9.gr. Og lög um velferð dýra? 1gr. og 16.gr.fyrsta málsgrein.

Við leggjumst eindregið á móti þessum breytingum sem skapa mikið óhagræði og kostnaðarauka fyrir bændur.

Stjórn Búnaðarsambands Eyjafjarðar:

Gunnhildur Gylfadóttir

Birgir Arason

Guðmundur Sturluson

Gestur J. Jensson

Helga Hallgrímsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#43 Magnús Ingi Hannesson - 03.03.2019

Hef verið kúabóndi í yfir 40 ár og hvorki skil né sé hvernig það á að virka að taka lyfsölu af dýralæknum þar sem kúabændur búa ekki við hliðina á Apoteki og þegar kýrnar eru veikar þá er nóg að þurfa að bíða eftir dýralækni þó að það þurfi ekki að bíða eftir að Apotek opni eða þurfa að keyra langa vegalengd eftir lyfjum, nógu mikill er kostnaður við búskapinn samt og verðin lág fyrir afurðirnar. Er Ísland ekki meðal lægstu notenda á lyfjum í landbúnaði.

Hafna alfarið þessari breytingu á heimild dýralækna til rekstur lyfsölu verði afnumdar.

(Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.)

Afrita slóð á umsögn

#44 Þorsteinn Kristjánsson - 03.03.2019

Aðalfundur Búnaðarfélags Borgarfjarðarhrepps sendir meðfylgjandi umsögn í viðhengi.

Afrita slóð á umsögn

#45 Aðalbjörg Jónsdóttir - 03.03.2019

Umsögn um drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#46 Sigríður Ólafsdóttir - 03.03.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Á Norðurlandi vestra býr mikill fjöldi bænda og landbúnaður skiptir svæðið gríðarmiklu máli. Bændur á svæðinu hafa aðgang að að góðum dýralæknum sem sinna starfi sínu af kostgæfni, oft við erfiðar aðstæður, og þurfa þeir iðulega að keyra langar vegalengdir í starfi sínu.

Lyfjakostnaður er í dag sambærilegur milli dýralækna og er þar af leiðandi liður í að jafna stöðu dýralækna og bænda á milli sveitarfélaga.

Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki með núverandi kerfi, sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda.

Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og frekar sérstakt verður að teljast að ætlunin sé að dýralæknir aki til viðkomandi bús, gefi fyrstu meðferð, gefi lyfseðil fyrir framhaldsmeðferð og aki svo heim aftur með viðkomandi bónda í kjölfarið þar sem hann getur ekki haldið meðferð áfram án þess að koma við í apóteki.

Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

Á Norðurlandi vestra er ekki sjálfgefið að apótek séu opin allan sólarhringinn og þar með ekki hægt að gera ráð fyrir að hægt sé að nálgast lyf á öllum tímum sólarhringsins.

Með þessum tillögum er verið að veikja dýralæknaþjónustu úti á landi mikið ásamt því að gera hana ómarkvissari og dýrari. Dýravelferð er ekki höfð til hliðsjónar gangi þetta frumvarp í gegn.

Núverandi stjórnvöld hafa haft í frammi miklar yfirlýsingar um að ætla að stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni og efla íslenskan landbúnað en gera svo allt annað þegar á reynir. Markmiðið virðist helst vera að auka kostnað bænda, stuðla að sóun á tíma og peningum og auka á kolefnisfótspor bænda með því að neyða þá í óþarfa akstur eftir lyfjum.

Virðingarfyllst

Sigríður Ólafsdóttir og Hallfríður Ósk Ólafsdóttir, sauðfjárbændur í Víðidalstungu, Húnaþingi vestra

Afrita slóð á umsögn

#47 Þorsteinn Kristjánsson - 03.03.2019

Aðalfundur Búnaðarfélags Borgarfjarðarhrepps, haldinn 26. febrúar 2019, samþykkti einróma eftirfarandi ályktun:

Umsögn um frumvarp til nýrra lyfjalaga

Frumvarpsdrögin fela í sér afnám leyfis dýralækna til lyfsölu og að kaupa lyf í heildsölu og frjálsa verðlagningu dýralyfja. Lítil rök virðast fyrir þeirri breytingu að fella út 33. grein frumvarps frá 2015 um sama efni, nema hugsanlega að bæta afkomu helstu lyfsölukeðja í landinu.

Þekkt er að sýklalyfjanotkun í landbúnaði hérlendis er í lágmarki, sem þakka má ábyrgu starfi dýralækna og góðum tengslum við bændur. Í bráðatilfellum hafa bændur notið sólarhringsþjónustu dýralækna varðandi afhendingu lyfja, en með breytingunni þarf víða að sækja langan veg í apótek með takmarkaðan opnunartíma. Slík töf og tvíverknaður varðar dýravelferð og veldur auknum kostnaði.

Með frjálsri verðlagningu má vænta hærri kostnaðar í lyfjakaupum bænda, ekki síst lyfja sem notuð eru í heilar hjarðir, s.s. bóluefni og ormalyf. Með breytingunni er hætt við að bestu lyf að mati dýralæknis verði ekki alltaf á boðstólum hjá lyfsala, auk þess að dýralæknar þekkja betur árstímabundna þörf fyrir lyf, hver á sínu starfssvæði. Haga þeir því innkaupum eftir þekkingu sinni og reynslu, svo síður skorti lyf, eða farga þurfi umframbirgðum með kostnaði sem þá lendir á bændum og síðar neytendum.

Þegar tekjur dýralækna af lyfsölu hverfa er hætt við að gjaldskrá þeirra hækki og jafnvel að dýralæknaþjónusta leggist af á strjálbýlli svæðum.

Fyrir hönd Búnaðarfélags Borgarfjarðarhrepps,

Þorsteinn Kristjánsson, formaður

Afrita slóð á umsögn

#48 Freyja Þorvaldardóttir - 03.03.2019

Ég vil nýta þetta tækifæri til að skila inn áliti á fyrirhuguðu frumvarpi sem tekur til breytinga á því hvar og hvernig bændur geta nálgast lyf fyrir sínar skepnur og að verðlagning dýralyfja verði gefin frjáls.

Ég velti því fyrir mér fyrir hvern þessar breytingar eru fyrst og fremst hugsaðar? Það er alveg á hreinu að þær koma afskaplega illa við íslenska bændur og þá sérstaklega þá sem byggja dreifðustu byggðir landsins þar sem er um langan veg að fara í apótek og opnunartími þeirra oft mjög takmarkaður. Breytingar sem þessar gætu haft letjandi áhrif á bændur til þess að sækja læknisaðstoðar fyrir dýr sín vegna kostnaðar sem er auðvitað algjörlega óboðlegar aðstæður, bæði fyrir bændur og búfé.

Sem umráðamaður búfjár þá hef ég tekið fagnandi auknu utanumhaldi og skráningu á pensilínnoktun og annarri lyfjanoktun búfénaðar. Þær upplýsingar sýna okkur að Ísland stendur mjög framarlega þegar kemur að lítilli noktun lyfja í landbúnaði. Það er því ekkert sem bendir til þess að við þurfum að breyta kerfinu til að stemma stigu við slíku. Einnig bendir allt til þess að með þessum breytingum þyrftu dýralæknar að hækka gjaldskrár sínar, en dýralæknakostnaður er nú þegar stór útgjaldaliður í búrekstri og því ekki á það bætandi. Með því myndi framleiðslukostnaður bænda á sínum afurðum hækka enn frekar sem eru um leið myndi gera íslenskar landbúnaðarafurðir minna samkeppnishæfar gagnvart innfluttum afurðum sem ekki eru framleiddar við eins strangar aðstæður eins og hér.

Að lokum vil ég ítreka að mér þykja tillögur að þessum breytingum afskaplega kaldar kveðjur til bændastéttarinnar. Íslenskir bændu hlíta ströngum reglum um aðbúnað og meðferð sinna dýra og því eru þetta algjörlega glórulausar breytingar að mínu mati.

Afrita slóð á umsögn

#49 Sveinn Ólason - 03.03.2019

Undirritaður frétti fyrir fáeinum dögum að beytingar hafi verið gerðar á frumvarpi að nýju lyfjalögunum. Meðal annars er lyfsöluleyfi dýralækna afnumið (grein 33. úr frumvarpi 2015 er fjalægð úr frumvarpi 2019). Undirritaður gagnrýnir harðlega þessar breytingar og vinnuferlið á þessu nýja frumvarpi.

1. Lítill kynning hefur verið á þessum breytingum til þeirra er málið varðar, dýralækna, dýralæknastofur, apótek og dýraeigendur. Umsagnarfresturinn er sérkennilega stuttur því breytingar eru miklar fyrir þá er breytingarnar varðar.

2. Dýraeigendur gætu lent í vandræðum að fá aðgang að þeim lyfjum sem dýralæknir þeirra ávísa á til meðhöndlunar. Apótek eru ekki á hverju strái í dreifbýli og vegalengdirnar geta verið langar. Opnunartími Apóteka á landsbyggðinni er ekki alltaf sá sami og á höfuðborgarsvæðinu og þó svo að dýralæknir hefji meðhöndlun er oftar en ekki einhverr framhaldsmeðhöndlun þar sem dýraeigandi þarf þá að nálgast lyf úr apóteki. Undirritaður hefur áhyggjur af dýravelferð við þær aðstæður.

3. Aukin samkeppni í lyfsölu dýralyfja eru sérkennileg rök, undirritaður hefur ekki orðið var við mikið úrval af apótekum sérstaklega á landsbyggðinni. Oftar en ekki er styttra á milli dýralækna/dýralæknastofa en apóteka og að auki er otast um sömu apótekskeðjurnar að ræða. Undirritaður getur því ekki betur séð en fákeppnin muni aukast í lyfsölu dýralyfja.

4. Dýralæknafélag Íslands ályktaði um lyfjastefnu fyrir nokkrum árum og dýralæknar á Íslandi hafa unnið eftir henni. Þróunin á sýklalyfjanotkun í landbúnaði á Íslandi og lyfjaónæmi í sjúkdómsvaldandi bakteríum í landbúnaðarafurðum ss. mjólkursýnum hefur verið mjög jákvæð samanborið við nágrannalönd. Erlendis er hinsvegar víða þetta fyrirkomulag þeas. að dýralæknar ávísa lyfjum til framhaldsmeðhöndlunar í apótek og ekki hefur árangurinn erlendis í minnkun á sýklalyfanotkun eða minnkun á sýklyfjaónæmi verið því kerfi neitt til framdráttar.

5. Undirritaður telur sig því geta fullyrt að íslenskir dýralæknar hafi umgengist lyfsöluleyfi sitt með mikilli ábyrgð og árangri undanfarin ár.

6. Ekkert launungarmál er að lyfsala dýralækna hefur verið ákveðin tekjustofn fyrir dýralækna/dýralæknastofur á Íslandi og ef þessi tekjustofn hverfur munu dýralæknar á Íslandi þurfa að hækka gjaldskrá sína. Þetta mun án efa koma verst niður á landsbyggðinni þar sem nú þegar hefur verið erfitt að manna sumar dýralæknastöður.

Undirritaður hefur áhyggjur af að þessar breytingar á nýja frumvarpinu til Lyfjalaga munu stefna dýravelferð í hættu, dýraeigendur veigri sér við að kalla til dýralækni vegna aukins kostnaðar (hækkun á gjaldskrá og apóteksferð). Einnig verði neikvæð áhrif á þann árangur sem náðst hefur í sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi hjá dýraeigendum hér á Íslandi.

Virðingafyllst

Sveinn Ólason Dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#50 Líney Emma Jónsdóttir - 03.03.2019

Ég undirrituð, mótmæli harðlega að afnema eigi heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu ætluð dýrum.

Þessi tillaga getur eingöngu sprottið úr skilningsleysi og vanþekkingu þeirra á mikilvægi þess að dýralæknar geti

greiðlega ávísað dýralyfjum beint til umráðamanna dýra. Það fer ekki fram hjá neinum sem les þær umsagnir sem komið hafa fram hér að það ákvæði að dýralæknir hafi þessa heimild er gríðarlega mikilvæg. Ekki ætla ég að tíunda þau rök sem sýna fram á mikilvægi þessa ákvæðis en bendi á þær athugasemdir sem fjölmargir kollegar mínir, bændur og aðrir dýraeigendur hafa bent á.

Líney Emma Jónsdóttir, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#51 Kristín Þórhallsdóttir - 03.03.2019

Undirrituð gerir athugasemdir við frumvarpið sem mun skerða réttindi dýralækna. Þau réttindi sem um ræðir eru lyfsöluleyfi dýralækna og leyfi þeirra til að kaupa lyf af heildsölum.

Komi til þessara breytinga, þar sem lyfjasöluleyfi dýralækna yrði afnumið, mun það ekki aðeins valda skerðingu hjá dýralæknum heldur einnig dýraeigendum sem að stórum hluta eru bændur. Skerðingin mun þá felast í skertu aðgengi að lyfjum fyrir dýr og lyfjaþjónustu sérstaklega á landsbyggðinni og dreifðari byggðum landsins, þar sem bændur búa með skepnur sínar og stór hluti dýralækna starfar.

Dýralæknar bjóða upp á sólarhringsþjónustu í sínum störfum þar með töldu þjónustu við afgreiðslu lyfja fyrir dýr. Dýralæknar hafa sérfræðiþekkingu, sem þeir hafa hlotið með sínu námi, á notkun dýralyfja og virkni lyfja í mismunandi dýrategundum, sem lyfjafræðingar hafa ekki.

Dýralæknar sem starfa á landsbyggðinni og þjóna bændum þurfa oft á tíðum að keyra miklar vegalengdir til þess að sjúkdómsgreina veika gripi og hefja meðhöndlun. Í leiðinni hefur dýralæknir skilið eftir það magn lyfja sem þarf til að halda meðhöndlunni áfram. Þegar dýralæknir afhendir lyf til bónda, eða annars dýraeiganda, fræðir hann í leiðinni um notkun á lyfinu og sýnir hvernig best sé að gefa það. Hann gætir þess að bóndinn sitji ekki uppi með of mikið magn lyfja og þarf því oft að rjúfa pakkningar til að geta afhent hæfilegan skammt af lyfjum til meðhöndlunar. Þannig sporna dýralæknar við óhóflegri notkun á dýralyfjum, eins og t.d. á sýklalyfjum í matvælaframleiðandi dýr. Má þar nefna að sýklalyfjanotkun dýralækna á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu.

Þar sem dýralæknirinn hefur afhent lyf til áframhaldandi meðhöndlunar getur dýralæknirinn skráð lyfjanotkunina inn í gagnagrunninn Búfjárheilsa, þar sem meðal annars skráist hvenær óhætt sé að neyta afurða frá dýrinu m.t.t. lyfjaleyfa.

Með breytingunni verður þessi þjónusta með breyttu sniði. Þjónustan verður skert og þyngri í framkvæmd. Bædnur þurfa að keyra, oft á tíðum langar vegalengdir, í þéttbýli að leysa út lyf til áframhaldandi meðferðar. Þeir þurfa að gera það innan hálfrar til eins sólarhrings, frá því að dýralæknir kom á staðinn til að hefja meðhöndlun, til að halda meðhöndlun áfram í samræmi við fyrirmæli dýralæknisins. Með slíkum ferðum eyðir bóndinn tíma og pening, ef hann þarf ekki að fara í öðrum erindagjörðum, auk þess að fleiri kolefnisspora. Bóndinn þarf einnig að greiða dýralækninum fyrir aksturinn til sín til sjúkdómsgreiningar.

Þjónusta apóteka er mismunandi á landsbyggðinni þá sérstaklega m.t.t. opnunartíma og þar með aðgengi á að nálgast lyfin. Komist lyfin ekki í hendur bóndans/dýraeigandans á réttum tíma getur það komið niður á dýravelferð. Í apótekunum starfa heldur ekki dýralæknar með sérfræðiþekkingu á notkun dýralyfja. Þ.a.l. er ekki sama þjónusta í boði, sem dýralæknir getur veitt, í sambandi við fræðslu um notkun lyfsins. Þar sem dýralæknirinn afhendir ekki lyfin til meðhöndlunar að þá getur hann ekki fullvissað sig um hvenær bóndinn er kominn með lyfin í hendurnar sem gerir skráningu í Búfjárheilsu óörugga og þar með skráningu á hvenær óhætt sé að neita afurða dýra m.t.t. lyfjaleyfa. Með því stafar hætta fyrir almannaheill.

Í apótekum er ekki boðið upp á að rjúfa pakkningar og þarf bóndinn/dýraeigandinn því að kaupa meira magn lyfja heldur en hann þarf til meðhöndlunar á dýri sínu. Í því felst aukinn óþarf kostnaður fyrir hann og hann situr uppi með umfram magn lyfja. Ég tel að ef bændur/dýraeigendur sitji uppi með mikið umfram magn lyfja aukist líkur á að þeir freistist til að nota það til meðhöndlunar á öðrum gripum sem ekki hafa fengið sjúkdómsgreiningu dýralæknis. Með því stafar einnig hætta fyrir almannaheill.

Með breytingunni er einnig lagt til að frjás álagning verði á dýralyfjum, sem hefur ekki verið fram til þessa. Með því liggur beinast við að dýralyf muni hækka í verði fyrir bændur/dýraeigendur. Bóluefni og ormalyf, sem eru nauðsynleg dýrum til að fyrirbyggja smit og sjúkdóma (stundum alvarlega sjúkdóma), hefur verið með minni álagningu en önnur lyf til að ýta undir að bændur notfæri sér þessi lyf til að verja dýr sín. Með frjálsri álagningu eykst kostnaðurinn verulega sérstaklega þegar meðhöndla þarf stærri hjarðir dýra. Ef dregur úr notkun þessara lyfja er hætta á að það komi niður á dýravelferð.

Með breytingunni skerðist rekstrargrundvöllur dýralækna sem þurfa að sjá sig knúna til að hækka verðskrá sína töluvert. Aftur verður það auka kostnaður fyrir bændur og dýraeigendur.

Tilgangur þessara breytinga er afar óljós og illa rökstuddur. Breytingarnar munu hafa í för með sér mikla skerðingu fyrir dýralækna og dýraeigendur, þá sérstaklega bændur. Hætta er á að hún skerði þar að auki dýravelferð og almannaheill.

Ég mótmæli þessari breytingu harðlega.

Virðingarfyllst,

Kristín Þórhallsdóttir, dýralæknir

Laugalandi 2

311 Borgarnes

Afrita slóð á umsögn

#52 Ragnar Þorsteinsson - 03.03.2019

Sem bóndi og umráðamaður búfjár hafna ég þessum fyrirhuguðu breytingum á frumvarpinu:

Lagt er til að verðlagning dýra-og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Ég krefst þess að eftirfarandi ákvæði laganna verði ekki fellt út heldur standi orðrétt áfram í nýju frumvarpi.

" Leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætluð eru dýrum.

Lyfjastofnun veitir dýralæknum, að fenginni umsókn, leyfi til að selja lyf sem ætluð eru dýrum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a. þeir afi gilt starfsleyfi dýralæknis hér á landi, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,

b. þeir hafi tilkynnt Matvælastofnun um að viðkomandi hafi hafið dýralæknastörf sem og um aðsetur starfseminnar.

Lyfsöluleyfi dýralækna takmarkast við sölu og afhendingu eftirtalinna lyfja:

a. lausasölu lyfja fyrir dýr,

b. lyfja sem ávísað er af dýralækni, sbr. reglugerð um heimiædir dýralækna til að ávísa lyfjum."

Með fyrirhuguðum breytingum á frumvarpinu er dýravelferð stefnt í voða vegna þess að hafi dýralæknar ekki leyfi til að selja og afhenda lyf í vitjunum til bænda þýðir það einfaldlega það að bændur þurfa að sækja lyfin í apótek sem eru almennt í tuga kílómetra fjarlægð frá býli og oft um erfiðan veg að fara. Það er með öllu óásættanlegt að ef dýr veikist/slasast á laugardegi að þá sé ekki hægt að nálgast lyf fyrr en á mánudegi.

Hvers eiga dýrin okkar að gjalda?

Þarna er verið að lengja þann tíma, algerlega að óþörfu, er líður frá því dýrið veikist eða slasast þar til hægt er að meðhöndla það og stuðla að bættri velferð þess og líðan.

Lyfsala dýralækna með mjög svo hóflegri álagningu er stór þáttur í að þeir geti starfað og búið í dreifðum byggðum landsins og því mikilvægt byggðamál að ekki sé horfið frá þeirri stefnu sem verið hefur fram til þessa.

Því mótmæli ég harðlega þessum fyrirhuguðu breytingum á frumvarpinu.

Ragnar Þorsteinsson

Afrita slóð á umsögn

#53 Sveinbjörn Þór Sigurðsson - 03.03.2019

Vegna þessa frumvarps vil ég benda á eitt atriði ef lyfsöluleyfi verður tekið af dýralæknum og bændur þurfa að sækja lyf eftir ávísun á næsta apotek oft um langan veg Þá verður dýralæknirinn að bíða eftir því eða koma aftur, Því mörg lyf sem nota þarf mega einungis dýralæknar gefa inn. Þessu mun fylgja verulegt óhagræði bæði fyrir bændur og dýralækna og enginn mun líða meira fyrir það en dýri sem veik eru.

Því mótmæli ég þessu frumvarpi

Afrita slóð á umsögn

#54 Jón Egill Jóhannsson - 03.03.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Sem bændur mótmælum við harðlega eftirfarandi breytingartillögum og teljum við vegið að dýravelferð ef þessar breytinga ná í gegn.

Dýralæknar hafa haldið lyfjakostnaði er varða dýralyf í lágmarki og það er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónustu þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gæti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann dýralækni sem næstur er á svæðinu og fengið lyf til meðhöndlunar samdægurs. Það hlýtur að skipta mestu máli að lina þjáningar dýranna eins fljótt og hægt er.

Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna setur bændur og dýrin í algjört óöryggi hvort hægt sé að hefja meðhöndlun er dýrið veikist. Á okkar svæði er aðeins eitt fyrirtæki sem selur lyf og samkeppni af þeim sökum engin. Svo er lyfsalan bara opinn rétt yfir hádaginn svo ekki verður komist í að sækja lyf á kvöldin og um helgar. Dýrin geta þurft meðhöndlun á öllum tíma sólahringssins. Lyfsölur í næstu héruðum eru einnig bara oppnar yfir hádaginn. En dýralæknirinn er oftast á vaktinni 24 tíma á sólahring. Þetta myndi setja dýravelferð í algjört uppnám.

Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum dýralæknum til lyfsala, dýralæknar hafa góða yfirsýn yfir lyfjanotkun, hver á sínu svæði og þekkja aðstæður vel og geta því brugðist hratt við og hafið rétta og bestu meðhöndlun á sem skemstum tíma. Bændur hafa ekki nokkra tryggingu fyrir því að lyfsalinn hafi þekkingu og færni til þess að vita hvað dýrunum er fyrir bestu. Þjónustan skerðist óhjákvæmilega og rekstrargrundvöllur dýralæknaþjónustu í dreifbýlinu versnar til muna.

Undir þetta skrifar Stjórn Búnaðarfélags Hvammssfjarðar Dalasýslu

Jón Egill Jóhannsson Skerðingsstöðum

Guðmundur R Gunnarsson Kjarlaksvöllum

Sigrún B Halldórsdóttir Breiðabólsstað

Afrita slóð á umsögn

#55 Auðbjörg Kristín Magnúsdóttir - 03.03.2019

Ég undirrituð er bóndi og stjórnarmaður í Sauðfjárræktarfélagi Vatnsnesinga, og verð því að gera athugasemdir við eftirfarandi tillögur.

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Hingað til hafa dýralæknar haldið álagningu dýralyfja í lágmarki, sem skiptir miklu máli fyrir okkur bændur.

Að geta fengið lyf hjá dýralækni skapar visst öryggi, það getur verið um langan veg að fara að komast í næsta apótek til að leysa út lyf og í bráðatilfellum skiptir tími sköpum, og á okkar svæði er apótek ekki opið nema hluta úr degi. Hér hlýtur að skipta mestu máli að lina þjáningar skepnunnar eins fljótt og unnt er.

Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja.

Ef að lyfjasalan er ekki fyrir hendi aukast líkur á að ekki fáist dýralæknar til starfa í dreifðari byggðum landsins og stefnir það dýravelferð í hættu. Einnig má benda á að ef að lyfsala verður tekin af dýralæknum má búast við að þeir verði að hækka gjaldskrá hressilega til að vega upp þann tekjumissi sem þeir kunna að verða fyrir ef lyfsala er tekinn af þeim, og það mun bitna beint á skepnum sem að ekki fá meðhöndlun og er því frekar fargað og hvar er þá dýravelferðin, einnig yrði þetta kostnaðarauki fyri bændur.

Með þessum tillögum er verið að veikja dýralæknaþjónustuna mikið og gera hana ómarkvissari og dýrari. Dýravelferð er ekki höfð til hiðsjónar.

Núverandi stjórnvöld segjast ætla að stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni og efla Íslenskan landbúnað en gera svo allt annað er á reynir. Auka kostnað bænda,stuðla að sóun á tíma og peningum, auka á kolefnisfótspor bænda með því að neyða þá i í óþarfa akstur eftir lyfjum.

Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleifi frá sérhæfðum dýralæknum til lyfsala.

Ég hafna þessum tillögum.

Virðingarfyllst

Auðbjörg Kristín Magnúsdóttir

Bóndi og stjórnarmaður í Sauðfjárræktarfélagi Vatnsnesinga

Afrita slóð á umsögn

#56 Guðný Heiðveig Gestsdóttir - 03.03.2019

Sem bændur í nærri hálfa öld viljum við hjónin M'OTMÆLA harðlega drögum að nýjum lyfjalögum, þar sem áætlað er að taka lyfsöluleyfi af dýralæknum. Það er algert óráð, bændur hafa nóg annað að gera á sauðburði en aka langar vegalengdir til að kaupa lyf sem þá væntanlega dýralæknir sem hefur meðhöndlað veika skepnu ráðleggur að nota, í stað þess að geta keypt lyfin af þeim dýralækni, til að meðhöndla sjúkdóminn áfram. eins mun kostnaður stóraukast við að gefa lyfjaverð frjálst, er ekki of mikið verð fyrir kindakjöt þó þessi kostnaður bætist ekki við.

Aðalgeir Karlsson kt: 0110483079

Guðný Heiðveig Gestsdóttir kt: 1306523079

Afrita slóð á umsögn

#57 Ingvar Björnsson - 03.03.2019

Undirritaður gerir athugasemdir við eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

-Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Þarna virðist vera um vanhugsaðar aðgerðir að ræða sem leiða munu til þess að …

…dýravelferð verður stefnt í stórkostlega hættu

…óhagræði og kostnaður bænda stóreykst

…rekstrargrundvöllur dýralækna í dreifbýlli hérðum brestur

Dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu

Við núverandi aðstæður er reynt að tryggja aðgengi að lágmarks dýralæknaþjónustu í öllum landshlutum þó víða sé um langan veg að fara fyrir dýralækna í vitjanir. Dýralæknar hafa sérþekkingu á þeim lyfjum sem best gagnast hverju sinni og hafa þau í fórum sínum í vitjunum. Ef færa á sölu dýralyfja til lyfjaverslana liggur fyrir að aðgengi bænda er mun takmarkaðra ef sækja þarf dýralyf um langan veg í lyfjaverslun í stað þess að fá þau afhent af dýralækni í vitjun. Þetta getur seinkað meðhöndlun eða gert hana ómarkvissari ef viðeigandi lyf eru ekki fáanleg. Frjáls verðlagning dýralyfja mun án vafa leiða til hækkunar dýralyfja vegna óvirkrar samkeppni á lyfjamarkaði á landsbyggðinni. Þetta getur leitt til þess að bændur seinki meðhöndlun eða veigri sér við því að meðhöndla sjúkar skepnur vegna óhagræðis og aukins kostnaðar.

Óhagræði og kostnaður bænda stóreykst

Það liggur í aukum uppi að töluvert óhagræði mun skapast fyrir bændur ef þeir þurfa að nálgast dýralyf í lyfjabúðum í stað þess að fá þau afhent þegar dýralæknir kemur í vitjun og fyrstu meðhöndlun. Þetta kallar á sérferðir í lyfjaverslanir sem oft eru í hundraða kílómetra fjarlægð því þegar meðhöndla þarf sjúka gripi þýðir ekkert að bíða eftir næstu bæjarferð. Frjáls verðlagning dýralyfja mun án vafa leiða til hækkandi verðs þar sem lítil sem engin virk samkeppni er meðal lyfjaverslana utan stærstu markaðssvæða -en einmitt þar er jú landbúnaðurinn stundaður eðli málsins samkvæmt. Ef dýralæknar missa leyfi til lyfjasölu hafa þeir enga möguleika á því að bæta sér upp tekjurnar öðruvísi en með því að hækka verðskrá vegna vitjana og meðhöndlunar. Þetta verður ekki tekið annarsstaðar en úr vösum bænda.

Rekstrargrundvöllur dýralækna í dreifbýli brestur

Mjög erfitt er að manna nauðsynlega dýralæknaþjónustu víða um land við núverandi aðstæður. Ef dýralæknar missa leyfi til lyfsölu missa þeir um leið töluverðan hluta tekna sinna. Mjög ólíklegt er að þeir nái að bæta sér þær tekjur upp að fullu með hækkun á gjaldskrá vegna þjónustu sem bændum þykir nógu há í dag. Þetta mun leiða til þess að útilokað verður að manna dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum.

Af ofansögðu virðist því sem um sé að ræða vanhugsaðar breytingar sem fyrst og fremst munu bitna á fólki og landssvæðum sem þegar eiga undir högg að sækja. Það er holur hljómur í málflutningi stjórnvalda sem tala um að styðja við byggð í landinu og jafna aðstæður og samkeppnisstöðu óháð búsetu en á sama tíma er vegið að þessum sömu byggðum með íþyngjandi breytingum á löggjöf.

Hér með er skorað á Alþingi að stöðva þessar óheillabreytingar!

Virðingarfyllst

Ingvar Björnsson, kúabóndi á Hólabaki í Húnaþingi

Formaður Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda

Afrita slóð á umsögn

#58 Björn Bjarnason - 03.03.2019

Ég Björn Bjarnason gjaldgeri í Fjárræktarfélgi Vatnsnesinga og bóndi mótmæli því harðlega að dýralæknum verði bannað að selja lyf, ástæðan er að þar með verður erfiðra að nálgast lyf, hjá dýralæknum er hægt að ná í lyf alla daga vikunar og við óttumst að lyf verði dýrari og lengra að sækja.

Afrita slóð á umsögn

#59 Þráinn Ómar Sigtryggsson - 03.03.2019

Sem bændur og umráðamenn búfjár, mótmælum við harðlega eftirfarandi ákvæðum í frumvarpinu

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Sem bændur í mjög góðu og árangursríku samstarfi við starfandi dýralækni á okkar svæði, mótmælum við harðlega þessum ákvæðum með eftirfarandi rökstuðningi.

1. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónusta þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða

dýralækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gæti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta

umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu og fengið lyf til meðhöndlunar samdægurs.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki vegna hámarks á álagningu sem er hagur bændanna, dýranna og á

endanum neytenda.

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur. Að

þurfa að keyra um langan og oft erfiðan veg til að nálgast lyf í Apóteki, ef það er þá opið, tekur tíma, fyrirhöfn

og lengir tíma að réttri lyfjagjöf. Apótek eru oft á tíðum í mikilli fjarlægð frá býlum og það er með öllu

óásættanlegt að ef dýr veikist/slasast um helgi að ekki sé hægt að nálgast lyf fyrr en á mánudegi. - Hvers eiga

dýrin okkar að gjalda?

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu. Ekki er lengur

hægt að stóla á póstsendingar, og í mörgum tilfellum myndi það kosta aðra ferð dýralæknis því mörg lyf mega

bara dýralæknar gefa.

Að lokum: Við sjáum engin rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala, sem bændur hafa ekki nokkra tryggingu fyrir að hafi þekkingu og færni til þess.

Því mótmælum við harðlega þessum fyrirhuguðu breytingum á frumvarpinu.

Þráinn Ómar Sigtryggsson og

Esther Björk Tryggvadóttir

Afrita slóð á umsögn

#60 Þórunn Andrésdóttir - 03.03.2019

Ég leggst gegn því að lyfsöluleyfi verði tekið af dýralæknum vegna þeirra áhrifa sem það mun hafa á dýravelferð, matvælaöryggi, stöðu dýrasjúkdóma og þróun sýklalyfjaónæmis og matvælaöryggi.

Við verðum að átta okkur á því, að flestir bændur eru með marga gripi í sinni umsjón. T.d. er hér á mínu búi rúmlega 120 nautgripir og þar af rúmlega 50 mjólkurkýr. Árið 2018 var 31 vitjun hjá dýralækni og hluti af þeim um kvöld eða helgar. Á þessu landsvæði, eins og víða um land, er ekkert apótek opið um kvöld og um helgar. Þyrfti þá að aka rúmlega 200 km til þess að nálgast lyf um kvöldin og um helgar en 100 km ef veikindi koma upp á virkum degi á hefðbundnum opnunartíma apóteka. Það þarf ekki að skoða þetta dæmi lengi til að sjá þvílíkt óhagræði fengist af þessum ráðahag og erum við samt vel í sveit sett miðað við marga aðra. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja að ekki sé talað um óvissuna um að lyfin séu yfirleitt til hjá lyfsala.

Dýralæknar á Íslandi hafa staðið sig afar vel í að stuðla að ábyrgðarfullri notkun bænda á sýklalyfjum, sem að sýnir sig í þeirri staðreynd að á Íslandi er minnsta notkun sýklalyfja húsdýrum í Evrópu og því engin ástæða til að færa sölu lyfja úr höndum dýralækna.

Einnig má benda á að ef að lyfsala verður tekin af dýralæknum er líklegt að dýralæknar neyðist til þess að hækka gjaldskrá og það mun bitna beint á skepnum sem ekki fengju meðhöndlun og er frekar fargað.

Afrita slóð á umsögn

#61 Garðar Eiríksson - 03.03.2019

Varðar: umsögn um frumvarp til lyfjalaga, mál nr. S-52/2019

Frumvarp þetta er lagt fyrir á 149. löggjafarþingi, birt til umsagnar í samráðsgátt 21. febrúar 2019, með umsagnarfresti til 3. mars 2019.

Auðhumla svf. sem er samvinnufélags um 90% mjólkurframleiðenda á Íslandi, gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð sem höfð hafa verið við þetta mikilvæga frumvarp. Ekki hefur verið haft samráð við dýralækna, mjólkurframleiðendur né aðra hagsmunaaðila í landbúnaði. Engin kynning farið fram á frumvarpinu eða óskað umsagna, fyrr en frumvarpið var sett á samráðsgáttina með mjög stuttum umsagnarfresti. Greinargerð með frumvarpinu kom svo ekki inn á gáttina fyrr en 27. febrúar, 4 dögum áður en umsagnarfrestur rennur út, og er í raun upptalning athugasemda en enginn rökstuðningur gefinn fyrir breytingum sem fyrirhugaðar eru á starfsvettvangi dýralækna.

Auðhumla svf. leggst alfarið gegn því að lyfsöluleyfi verði tekið af dýralæknum vegna þeirra áhrifa sem það mun hafa á dýravelferð, matvælaöryggi, stöðu dýrasjúkdóma og þróun sýklalyfjaónæmis og matvælaöryggi.

Virðingarfyllst,

Fh. Auðhumlu svf.

Garðar Eiríksson framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#62 Gestur Páll Júlíusson - 03.03.2019

Við mótmælum harðlega eftirfarandi breytingatillögum í frumvarpsdrögum að nýjum lyfjalögum:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Frumvarpið er keyrt á of miklum hraða í gegn algjörlega án samráðs við þá er málið skiptir mestu ; dýralækna, bændur og aðra dýraeigendur.

Á opnum fundi landbúnaðarráðherra 28.feb 2019 í Hliðarbæ var ráðherra spurður um frumvarpið og hann svaraði því hann hafði ekki heyrt af því.

Við búum á Íslandi sem er einn minnsti lyfjamarkaður í heims. Lagerhald er flókið vegna t.d. árstíðabundinnar notkunar á lyfjum samanber bólusetningar/ormalyfsgjafa. Oft vantar lyf vikum saman. Vegna stærðar markaðirins, landafræðilegrar stærðar Íslands , nálægðar við bændur og dýraeigendur tel ég að dýralyfjasala eigi að vera í höndum dýralækna.

Samvinna bænda, dýraeiganda og dýralækna er góð í dag og allir virðast sáttir við núverandi fyrirkomulag. Að breyta bara til að breyta er ekki göfugt. Ég hef ennþá ekki komist að því hver óskar eftir þessum breytingum því allir , sem ég hef talað við, fyrir utan einn lyfjafræðing eru á móti þessum breytingum og kannast ekkert við að málið sé í einhverju ferli, hvorki bændur,landbúnaðarráðherra , dýraeigendur né dýralæknar.

Vegna lyfjasöluleyfis hefur verðskrá dýralækna tekið mið af því að dýralæknar hafa haft tekjur af lyfjasölu. Sjálfstæður rekstur dýralæknaþjónustu á landsbyggðinni er það erfiður að þessar breytingar gætu hreinlega lagt hann að velli. Þjónusta við bændur og dýraeigendur yrði miklu lélegri fyrir vikið, bændur þyrftu að sækja lyf um langan veg eftir heimsókn dýralækna og sjúkdómsgreiningu. Íslenskir dýralæknar hafa vandaða og vel ígrundaða lyfjanotkun að leiðarljósi og getum við státað af lægstu sýklalyfjanotkun í landbúnaði í Evrópu og eflaust heiminum öllum.

Dýralæknar eru mjög fámenn stétt sem er að reyna sitt besta til að sinna dýravelferð í landinu. Erfitt hefur verið að manna stöður á landsbyggðinni. Þessi breyting hjálpar ekki til.

Mjög erfitt er að sjá að hvaða leyti þessi breyting yrði til batnaðar en við höfum bent á veigamikla þætti sem myndu verða til hins verra.

Virðingarfyllst,

Gestur Páll Júlíusson, dýralæknir

Elfa Ágústsdóttir, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#64 Landssamband kúabænda - 03.03.2019

Umsögn Landssambands kúabænda um drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga, mál S-52/2019.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#65 Egill Sigurðsson - 03.03.2019

Góðan daginn.

Hjálagt er umsögn um drög að nýjum lyfjalögum.

Fátt er jákvætt sem þessi drög hafa í för með sér sem munu bæði valda bændum kostnaðarauka sem og verða til óhagræðis komi þau óbreytt til framkvæmda. Megin tilgangurinn virðist vera aðskilja lyfsölu og lækningar og auka samkeppni. Það er viðurkennt að hluti af þjónustutekjum dýralækna hefur verið bæði af lækningum og lyfsölu. Það er alveg fyrirséð að þjónusta dýralækna mun hækka ef þeir missa þessar tekjur. Að færa meginpart lyfsölu yfir í apótek ásamt því að afnema hámarksálagningu verður líklega til að lyf hækki í verði og aðgengi að þeim verður kostnaðarsamara, auk þess er vandséð hvernig samkeppni á að aukast þegar í langflestum tilfellum verður um eina lyfsölu að ræða með takmarkaðan opnunartíma. Þessi breyting mun hafa í för með sér óhagræði til dæmis ef kalla þarf til dýralæknir að kvöldi föstudags eftir að apótek hafa lokað þá getur þurft að kalla dýralæknir alveg fram að því að apótekið opnar sem sennilega væri ekki fyrr en á mánudagsmorgun. Allt verður dýrarar bæði lyf og öll dýralæknaþjónusta. Allt þetta mun gera innlenda búvöruframleiðslu dýrari og óhagstæðari á allan hátt.

Undirritaður skorar á alþingi að hafna lögum og atlögu að innlendri framleiðslu.

Virðingarfyllst.

Egill Sigurðsson bóndi Berustöðum Ásahrepp Rangárvallasýslu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#66 Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu - 03.03.2019

Vegna: Drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga

Mál nr. S-52/2019

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu legst alfarið á móti drögum á frumvarpi til nýrra lyfjalaga og þá sérstaklega eftirtöldum atriðum:

• Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

• Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Markmið þessa frumvarps er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi og með sem hagkvæmastri dreifingu lyfja, á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Það er hins vegar ekki rökstutt hvernig ná á þeim markmiðum.

Í Félagi sauðfjárbænda í Dalasýslu eru 119 félagsmenn. Þetta eru allt bændur sem eru svo heppnir að hafa aðgang að góðum dýralækni í héraðinu sínu, sem sinnir starfi sínu vel, oft við mjög erfiðar aðstæður, þar sem oft á tíðum þarf að keyra langar vegalengdir.

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu hefur eftirfarandi efasemdir um drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga:

• Um að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi.

• Um að tryggt verði nægjanlegt framboð af nauðsynlegum lyfjum.

• Of langan tíma gæti tekið að afgreiða lyf, þar sem lyfsölufyrirtæki eru ekki alltaf opin. Þetta gæti tafið fyrir afgreiðslu lyfja. Bændur gætu þurft að keyra marga km til að fá þau lyf sem þarf, sem annars gætu komið með dýralækninum þegar hann skoðar veikt dýr.

• Um að samkeppni verði tryggð með því að gefa álagninguna frjálsa. Í sveitarfélögum landsins eru ekki mörg lyfsölufyrirtæki og því yrði fákeppni í lyfsölu í dreifbýli.

• Frumvarpið dregur undan starfsemi dýralæknaþjónustu í dreifbýli. Dýralæknar myndu þurfa að hækka gjaldskrár sýnar til að vinna upp tekjutapið af lyfsölunni sem myndi þýða aukinn kostnað fyrir bændur.

• Erfilega gæti reynst að manna stöður dýralækna á landsbyggðinni sökum erfiðra samgangna og fjárhagslegs óöryggis.

• Sóun á lyfjum gæti aukist. Apótek rjúfa ekki pakningar og hafa ekki alltaf hentugar pakkastærðir á lager. Þetta er því í mótsögn við markmið laganna um að sporna við óhóflegri notkun og að halda lyfjakostnaði í lágmarki.

Það er skýr krafa Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu að tekið verði tillit til þessara efasemda. Við lýsum fullum stuðningi yfir athugasemdir Dýralæknafélags Íslands. Við förum fram á það að dýralæknar haldi lyfsöluleyfi sínu og að haft verði samráð við dýralækna og dýraheilbrigðisyfirvöld þegar fyrirkomulag varðandi framboð og sölu dýralyfja er ákveðin.

Frumvarpið leggur til verulegrar skerðingu á réttindum heillar stéttar. Réttindum sem dýralæknar hafa haft frá því þeir hófu störf hér á landi. Það er mjög ámælisvert að afnema þau með svo skömmum fyrirvara og án nokkurs samráðs eða rökstuðnings. Enn fremur hefur engin kynning farið fram á frumvarpinu eða verið óskað umsagna um málið fyrr en núna fyrst, fyrir fjórum dögum síðan, þegar það er sett inn á gáttina þann 27. febrúar 2019.

Stjórnvöld tala stöðugt um að stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni og efla íslenskan landbúnað. Þetta frumvarp er ekki í takt við það. Því höfnum við ofangreindum tillögum og köllum jafnframt eftir vitrænni hugsun og samráði við hagsmunaaðila varðandi þessi mál.

Með vinsemd og virðingu

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#67 Bjarni Haukur Jónsson - 03.03.2019

Í stuttu máli viljum við mótmæla harðlega þeirri ætlan Alþingis að svipta dýralækna lyfsöluleyfi fyrir dýralyf.

Fyrirkomulag, þar sem lyfseðlar verða gefnir út og lyf sótt í apotek fyrir dýr auka einungis á óþægindi og fyrirsjáanlegt að lyf hækki til muna. Birgðahald apoteka á dýralyfjum er þeim varla ætlandi, þar sem reynsla okkar af nægjanlegum birgðum mannalyfja er verulega ábótavant í mörgum tilfellum. Reynsla okkar af núverandi fyrirkomulagi er góð og byggð á faglegri þekkingu okkar á dýrum og dýrahaldi um langt árabil.

Dufþaksholti 03.03.2019

Bjarni Haukur Jónsson,

Ragnheiður Kristjánsdóttir,

bændur í Dufþaksholti

Afrita slóð á umsögn

#68 Sigríður Huld Skúladóttir - 03.03.2019

Sem bóndi mótmæli ég harðlega eftirfarandi breytingatillögum:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Það er mikið öryggi sem felst í því að geta leitað til dýralæknis sem næst sínu búi og treyst á að viðeigandi meðhöndlun á dýrinu geti hafist sem fyrst, með þessu frumvarpi þar sem heimild dýralækna til lyfjasölu er afnumin er verulega verið að draga undan dýravelferð. Dýr veikjast snögglega hvenær sem er sólarhringsins allan ársins hring í öllum veðrum, ekki er hægt að treysta á að apótek séu opin,með lyfjafræðing eða yfirhöfuð á svæðinu, getur það þýtt að meðhöndlun geti ekki hafist fyrr en löngu seinna og þá jafnvel of seint, hvernig getur það stuðlað að aukinni dýravelferð? Svo ekki sé talað um það tjón og kostnaðarauka sem hlýst af.

Við búum við og státum okkur af dýravelferð og lítilli sýklalyfjanotkun, það er árangur sem næst m.a. með góðu og skilvirku samstarfi dýralækna og bænda og nokkuð ljóst að að slíkur árangur hefur ekki náðst nema með ábyrgri lyfjanotkun sem sannarlega hefur verið viðhöfð hjá bæði dýralæknum og bændum, ég sé því engar ástæður fyrir að afnema heimildir til lyfjasölu dýrlækna.

Sigríður Huld Skúladóttir

Emmubergi

Afrita slóð á umsögn

#69 Baldur Heimisson - 03.03.2019

Sem bóndi og formaður Sauðfjárræktarfélags Vatnsnesinga mótmæli ég þessum tillögum þar sem þær munu gera okkur bændum erfiðara fyrir og dýrara að fá þau lyf sem okkur er nauðsynleg til að annast okkar húsdýr vel.

Ég tel fyrirsjáanlegt að lyf munu hækka í verði ef álagning verður gefin frjáls og hef ég mestar áhyggjur að þeim bóluefnum sem er nauðsynlegt að nota.

Og einnig er erfitt að sjá hvernig á að fá lyfjalausan dýralækni sem þarf að koma langa leið að meðhöndla veik dýr og þurfa síðar að fara sjálfur sömu löngu leið og jafnvel lengra að sækja lyf til meðhöndlunar ef maður er svo heppinn að apótekið er opið.

Baldur Heimisson

Afrita slóð á umsögn

#70 Hjalti Viðarsson - 03.03.2019

Varðar: umsögn um frumvarp til lyfjalaga, mál nr. S-52/2019

Undirritaður tekur heilshugar undir hvert orð í umsögn Dýralæknafélags Íslands um drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga og birt hafa verið hér á þessum vetfangi. Undirritaður sér ekki ástæðu til að telja upp öll þau atriði sem þar hafa þegar komið fram en vill benda sérstakleg á hvaða afleiðingar frumvarp þetta myndi hafa á dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins verði það að lögum. Það má vera ljóst að sú þjónusta myndi leggjast af í núverandi mynd í ákveðnum landshlutum vegna þess að án lyfjasölu dýralæknisins er rekstrargrundvöllur þjónustunnar ekki lengur fyrir hendi. Ekki þarf að tíunda hvaða áhrif það myndi hafa á dýravelferð, stöðu dýrasjúkdóma og kostnað dýraeigenda við að sækja sér dýralæknaþjónustu um langan veg – jafnvel landshluta á milli.

Undirritaður leggst því alfarið gegn því að lyfsöluleyfið verði tekið af dýralæknastéttinni og bendir á algera vöntun á rökstuðningi fyrir þessum fyrirhuguðu breytingum í greinagerð með frumvarpsdrögunum

Virðingarfyllst,

Hjalti Viðarsson, dýralæknir.

Höfðagötu 18

340 Stykkishólmur

Afrita slóð á umsögn

#71 Sigrún Bjarnadóttir - 03.03.2019

Undirrituð mótmælir harðlega eftirfarandi breytingatillögum í frumvarpsdrögum að nýjum lyfjalögum:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Vinnubrögð við gerð þessa frumvarps eru ámælisverð, ekki var haft samband við dýralæknafélagið né aðra hagsmunaaðila í landbúnaði. Grundvöllur frumvarpsins er einnig afar óljós og ekki til þess fallinn að gagnast neinni stétt heldur þvert á móti að hafa afar neikvæð áhrif á velferð dýra, matvælaöryggi, stöðu dýrasjúkdóma, þróun sýklalyfjaóæmis og rekstrargrundvöll dýralækna og dýraeigenda.

Ég leggst alfarið gegn þessum breytingum á lyfjalögum.

Virðingarfyllst,

Sigrún Bjarnadóttir, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#72 Elín Ingibjörg Jacobsen - 03.03.2019

Undirrituð er lyfjafræðingur á Landspítala. Ég vil benda á orðalag 3. greinar og 37. greinar varðandi forskriftarlyf lækna og að framleiðsla þeirra fari fram í lyfjabúðum. Mikilvægt er að bæta við "handhafa framleiðsluleyfis".

Reglulega skapast þörf fyrir forskriftarlyf læknis fyrir einstaka sjúklinga, svo sem börn með sjaldgæfa sjúkdóma. Slíka þjónustu er einungis unnt að sækja til eins framleiðsluaðila hér á landi en hann rekur ekki lyfjabúð heldur er handhafi framleiðsluleyfis. Mikilvægt er að þetta orðalag hamli ekki að sjúklingar geti fengið slík sérhæfð lyf hér á landi.

Afrita slóð á umsögn

#73 Tryggvi Höskuldsson - 03.03.2019

Ég mótmæli harðlega eftirfarandi breytingatillögum í frumvarpsdrögum að nýjum lyfjalögum:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Ekkert samráð hefur verið haft við dýralækna við gerð þessa frumvarps þó svo að lagðar séu til verulegar skerðingar á réttindum heillar stéttar. Að afnema þessi réttindi með svo skömmum fyrirvara án kynningar eða samráðs við dýralækna sætir furðu og er mjög ámælisvert. Svo virðist sem engin þarfagreining hafi verið framkvæmd við ákvörðun á þessum breytingum og enginn rökstuðningur lagður fram. Íslendingar eru ein fremsta þjóð Evrópu, og þótt víðar væri leitað, m.t.t. dýravelferðar, sýklalyfjaónæmis og matvælaöryggis en ég tel að þessar breytingar muni valda gríðarlegri afturför í þeim efnum.

Á dreifbýlli svæðum landsins hefur lyfjasala dýralækna stutt við rekstur dýralæknaþjónustu sem gæti hreinlega lagst af á sumum svæðum ef tekjumöguleikar skerðast. Einnig munu dýralæknar neyðast til að hækka verðskrá sína um tugi prósenta sem mun koma sértaklega hart niður á bændum sem margir standa nú þegar höllum fæti.

Ef verðlagning dýralyfja verður gefin frjáls efast ég stórlega um að það stuðli að aukinni samkeppni og lækkun lyfjakostnaðar. Hámarksálagning ákvörðuð af Lyfjagreiðslunefnd er eina leiðin til að koma í veg fyrir okur á lyfjum í óumflýjanlegri fákeppni í lyfjasölu utan þéttbýliskjarna landsins. Maður spyr sig hverjum þessar breytingar eru ætlaðar.

Ef sala og afhending lyfja mun eingöngu fara fram í gegnum apótek í stað dýralækna er hætta á að mikilvægar upplýsingar um notkun lyfja komist ekki til skila og eftirlit með lyfjum muni minnka. Dýralæknar eru einu sérfræðingarnir í dýrasjúkdómum og viðeigandi meðferð á þeim til að tryggja dýravelferð og matvælaöryggi. Lyfjafræðingar hafa ekki menntun í matvælaöryggi og lyfjanotkun í afurðagefandi dýr. Dýravelferð verður stefnt í alvarlega hættu með þessum breytingum og einnig þeim sérstaka árangri í lyfjanotkun hjá dýrum ásamt sýklalyfjaónæmi sem náðst hefur hérlendis sem má að mestum hluta þakka lyfjastefnu dýralækna og umgengni þeirra um afhendingu lyfja í gegnum árin.

Undirritaður tekur heilshugar undir umsögn DÍ um þessi frumvarpsdrög.

Virðingarfyllst,

Tryggvi Höskuldsson, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#74 Guðrún Lárusdóttir - 03.03.2019

Ég undirrituð Guðrún Lárusdóttir, bóndi, vil harðlega mótmæli því að með breytingu lyfjalaga muni dýralæknar missi lyfsöluleyfi.

Hér er um að ræða gríðarlegt þekkingarleysi á aðstöðu bænda og annara dýraeigenda á landsbyggðinni.

Apótek/lyfsölur á landsbyggðinni eru víða í tuga eða hundruða kílómetra fjarlægð frá búum í rekstri.

Opnunartími er stuttur og jafnvel enginn um helgar.

Póstsamgöngur er stopular, til skiptis tvisar eða þrisvar sinnum í viku.

Sem dæmi má nefna að oftast tekur 6-7 daga að koma sendinum innan héraðs til skila.

Þetta er algjörlega óviðunandi upp á dýravelferð að ræða.

Sú þjónusta sem dýralæknar á landsbyggðinni veita bændum nú er ómetanleg, og það gæti haft afdrifaríkar afleiðingar að veikja rekstrargrundvöll starfandi dýralækna.

Guðrún Lárusdóttir

Afrita slóð á umsögn

#75 Ólöf Ósk Guðmundsdóttir - 03.03.2019

Varðandi drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga, þá mótmæli ég því eindregið að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar. Það er ljóst að það mun einungis verða til þess að rýra dýravelferð, gera það erfiðara fyrir bændur að nálgast nauðsynleg dýralyf og auka kostnað bænda. Dýralæknar þurfa að koma á staðinn og skoða sjúka gripi áður en þeir ávísa t.d. sýklalyfjum. Það felst tvíverknaður í því að bændur þurfi svo að keyra sjálfir í apótek til þess að kaupa lyfin sem dýralæknirinn hefði getað selt þeim. Það eru einnig mjög mislangar vegalengdir frá bæjum til næstu apóteka og opnunartímar þeirra á landsbyggðinni oft takmarkaðir.

Virðingarfyllst,

Ólöf Ósk Guðmundsdóttir,

Kennari og brautarstjóri búfræði í Landbúnaðarháskóla Íslands.

Afrita slóð á umsögn

#76 Þórólfur Ómar Óskarsson - 03.03.2019

Í drögum að frumvarpi nýrra lyfjalaga sem birt hafa verið til umsagnar með stuttum fyrirvara og án samráðs við hagsmunaaðila vil ég fyrir hönd stjórnar félags Eyfirskra kúabænda gera alvarlegar athugasemdir við eftirfarandi atriði.

1. Frestur til umsagnar skammarlega stuttur miðað við mikilvægi málsins og ætluð áhrif þeirra breytinga sem kynntar eru í frumvarpinu.

2. Í frumvarpinu er lagt til að dýralæknar verði sviptir rétti til lyfjasölu, það er dæmalaus vitleysa að gera slíkt og færa sölu dýralyfja inn í apótek þar sem sérfræðiþekking til notkunar lyfjanna er ekki til staðar. Af þessu fyrirkomulagi myndi hljótast óhagræði fyrir bændur sem í fjölmörgum tilfellum yrðu að fara yfir langan veg að lokinni heimsókn dýralæknis til þess að nálgast þau lyf sem hann hefur skrifað upp á í vitjuninni. Af þessu leiðir einnig óþarfa bið fyrir veika skepnuna eftir lyfjum. Þessi breyting myndi hafa veruleg áhrif á rekstrarumhverfi dýralæknaþjónustu, bent hefur verið á að dýralæknar miði verðskrá sína út frá þeirri staðreynd að þeir geti haft hluta sinna tekna af sölu dýralyfja, það gefur augaleið að sé tekjustofn þeirra af sölu dýralyfja þurrkaður út kalli það á verðhækkun þjónustunnar sem kann að hafa ófyrirséð áhrif og gæti lagt sjálfstæðar, markaðsdrifnar dýralæknaþjónustur að velli, sérstaklega á landsbyggðinni. Ekki verður annað séð en með þessu móti myndi kostnaður bænda hækka í öllum tilfellum enda kominn nýr “milliliður” í jöfnuna sem þarf sína framlegð af því sem verið er að gera.

3. Frumvarpið leggur til að smásöluálagning dýralyfja verði gefin frjáls, þessu mótmælum við og sjáum ekki hvernig almenningur í landinu ætti nokkurntíma að hafa hag af þessu ákvæði frumvarpsins, nú gilda reglur um ákveðna hámarksálagningu og afnám þeirra reglna getur vart haft annað í för með sér kostnaðarhækkarnir sem skila sér alla leið í vasa almennings í gegnum virðiskeðjuna.

Félagið vill koma á framfæri undrun sinni á framvindu þessa máls, það er alveg ljóst að bændur hafa ekki beðið um það að fyrirkomulaginu verði breytt enda almenn ánægja með verslun dýralyfja, þjónustu og afgreiðslu þeirra. Við frábiðjum okkur öllu tali um að breytt fyrirkomulag lyfjasölu muni á einhvern hátt leiða til vandaðri umsýslu með þessi lyf, en þvert á móti teljum við, eins og bent hefur verið á, að verði sala dýralyfja færð inn í apótek muni nauðsynleg sérfræðiþekking ekki vera til staðar, afgreiðsla þeirra fara fram í auknu mæli í heilum pakkningum og því lyf afgreidd sem jafnvel eru ekki nýtt, það ylli sóun og gæti gefið ranga mynd af raunverulegri lyfjanotkun í íslenskum landbúnaði. Dýralæknar hafa í gegnum tíðina einnig sinnt eftirfylgni í ormahreinsun hunda svo dæmi sé tekið en óvíst er hvort nokkuð kæmi í staðin, þegar hægt verði að nálgast ormalyf án aðkomu dýralæknis.

Þórólfur Ómar Óskarsson Formaður

Afrita slóð á umsögn

#77 Grétar Hrafn Harðarson - 03.03.2019

Í drögum að frumvarpi til nýrra lyfjalaga er lagt til að lyfjasala dýralækna verði afnumin. Þetta er mikil breyting, ekki bara á starfsumhverfi dýralækna, heldur einnig bænda um allt land. Það er með ólíkindum að ekki sé farið að lögum þegar lyfjalög eru í endurskoðun en í eldri lyfjalögum nr. 93/1994 segir að þegar fjallað er um dýralyf skal yfirdýralæknir og dýralæknir skipaður af ráðherra taka sæti í Lyfjanefnd Lyfjastofnunar. Samkvæmt minni bestu vitneskju var það ekki gert í þessu tilfelli.

Í drögum að frumvarpi til nýrra lyfjalaga sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi (2015) fjallaði 33. grein um leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætluð eru dýrum. Í drögum sem nú eru til umfjöllunar er þessi grein felld niður. Þetta hljóta að vera mistök.

Dýralæknar hafa sýnt það í verki að þeim er vel treystandi til að ákvarða um lyfjanotkun og dreifingu dýralyfja. Dýralæknafélag Íslands setti fram stefnu um ábyrga notkun sýklalyfja árið 2001. Dýralæknar hafa farið eftir þessari stefnu og náð undraverðum árangri. Sýklalyfjanotkun í landbúnaði er með því allra minnsta sem gerist í heiminum og einnig er tíðni ónæmra stofna baktería lág.

Dýralæknar um allt land veita sólarhringsþjónustu og það gefur auga leið að með breyttu fyrirkomulagi á dreifingu dýralyfja hefði það verulegan kostnaðarauka og óþægindi í för með sér fyrir bændur.

Ég hvet viðeigandi yfirvöld til að taka fullt tillit til þeirra fjölmörgu athugasemda sem borist hafa vegna dreifingu dýralyfja.

Virðingarfyllst,

Grétar Hrafn Harðarson, dýralæknir, sérgrein nautgripasjúkdómar.

Afrita slóð á umsögn

#78 Þuríður H Kristjánsdóttir - 03.03.2019

Sem bóndi og eigandi búfjár hafna ég þessum fyrirhuguðu breytingum á frumvarpinu:

“Lagt er til að verðlagning dýra-og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.”

Ég krefst þess að eftirfarandi ákvæði núverandi laga verði ekki fellt út heldur standi orðrétt áfram í nýju frumvarpi.

" Leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætluð eru dýrum.

Lyfjastofnun veitir dýralæknum, að fenginni umsókn, leyfi til að selja lyf sem ætluð eru dýrum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

a. þeir hafi gilt starfsleyfi dýralæknis hér á landi, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,

b. þeir hafi tilkynnt Matvælastofnun um að viðkomandi hafi hafið dýralæknastörf sem og um aðsetur starfseminnar.

Lyfsöluleyfi dýralækna takmarkast við sölu og afhendingu eftirtalinna lyfja:

a. lausasölu lyfja fyrir dýr,

b. lyfja sem ávísað er af dýralækni, sbr. reglugerð um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum."

Með fyrirhuguðum breytingum á frumvarpinu er dýravelferð stefnt í voða vegna þess að hafi dýralæknar ekki leyfi til að selja og afhenda lyf í vitjunum til bænda þýðir það einfaldlega að bændur þurfa að sækja lyfin í apótek sem eru almennt í tuga kílómetra fjarlægð frá býli og oft um erfiðan veg að fara. Það er með öllu óásættanlegt að ef dýr veikist/slasast á laugardegi að þá sé ekki hægt að nálgast lyf fyrr en á mánudegi. Hvers eiga dýrin okkar að gjalda.

Þarna er verið að lengja þann tíma, algerlega að óþörfu, er líður frá því dýrið veikist eða slasast þar til hægt er að meðhöndla það og stuðla að bættri velferð þess og líðan.

Lyfsala dýralækna með mjög svo hóflegri álagningu er stór þáttur í að þeir geti starfað og búið í dreifðum byggðum landsins og því mikilvægt byggðamál að ekki sé horfið frá þeirri stefnu sem verið hefur fram til þessa.

Því mótmæli ég harðlega þessum fyrirhuguðu breytingum á frumvarpinu.

Afrita slóð á umsögn

#79 Jón Gíslason - 03.03.2019

Varðar frumvarp til lyfjalaga. Stjórn Félags Sauðfjárbænda í A-Hún mótmælir harðlega þeirri grein frumvarpsins, sem leggur til að heimildir dýralækna til lyfsölu verði afnumdar. Það er dýrvelferðarmál að dýralæknar geti afhent og selt lyf í vitjunum. Öllum má vera ljóst að þörf fyrir dýralækni og dýralyf getur komið upp á hvaða tíma sem er, alla daga vikunnar. Afgreiðslutími lyfjaverslanna, einkum á landsbyggðinni, er takmarkaður, auk þess sem margar þeirra eru ekki alltaf með lyfjafræðing á staðnum. Því má ljóst vera það óhagræði sem af því hlýst, ef bændur ættu að framvísa lyfseðli frá dýralækni þar til að fá lyf í gripi sína, í stað þess augljósa hagræðis sem fylgir því ef dýralæknir gæti framvísað og selt lyfið sjálfur.

Fyrir hönd FSAH Jón Gíslason ritari stjórnar.

Afrita slóð á umsögn

#80 Ragnar Gunnlaugsson - 03.03.2019

Varðandi breytingar á lyfjalögum,þá finnst mér þetta ekki koma til greina eins og kemur glögglega fram í athugasemdum hér fyrir ofan,þetta er aðför að bændum.

Afrita slóð á umsögn

#81 Björgvin Þórisson - 03.03.2019

Undirritaður dýralæknir mótmælir harðlega þeim áformum sem fram koma í drögum að frumvarpi til lyfjalaga að afnema leyfi dýralækna til lyfsölu.

Eftirfarandi ástæður eru undirrituðum efst í huga.

1. Þessi breyting kemur til með að hefta aðgang dýraeiganda af nauðsynlegum lyfjum og seinka því að dýrin komist í þá lyfjameðferð sem nauðsynleg er. Um það bil 60% af allri sölu með dýralyf fer fram í dreifbýli þar sem langar vegalengdir eru í næsta apótek þó svo að menn séu staddir á svæðum sem teljast tiltölulega þéttbyggð eins og Suðurland. En þar er að meðaltali fyrir hvern bónda u.þ.b 50-60 km fram og til baka í næsta apótek. Sem sagt lakari þjónusta fyrir dýr og eigendur þeirra. Ekki er hægt að líkja þessu saman við eins og t.d. Danmörk þar sem stutt er á milli dreifbýliskjarna og apótek í nánast hverjum þeirra. Einnig er hætta á því að þeir dýraeigendur í dreifðari byggðum nái ekki í lyfin og þar af leiðandi fá dýrin ekki viðunandi meðferð sem getur leitt af sér meiri möguleika á ónæmi þar sem dýralæknir hefur meðhöndlun og eigandi sér um áframhaldandi meðferð sem einnig gæti sett velferð dýranna í hættu.

2. Þau rök að þetta muni auka samkeppni í lyfsölu dýralyfja standast heldur ekki, þar sem fákeppni er í dreifðari byggðum og jafnvel bara eitt apótek á stóru svæði. Ef skoðuð er verðlagning dýralækna á þeim undanþágulyfjum sem þeir hafa verið að selja sést það að dýralæknar hafa haldið sig við sömu álagningu með þau en þau hafa verið með frjálsri álagningu samkvæmt núgildandi lögum. Því vill ég mæla með að það verði haldið sig við fyrra kerfi, þar sem dýralæknar halda sig við verðlagningu sem er ákveðin af opinberum aðilum.

3. Ekki fæst séð að dýralæknar hafi misnotað það lyfsöluleyfi sem þeir hafa. Þar sem t.d. sýklalyfjanotkun í búfé á Íslandi er með því lægsta sem gerist í Evrópu og Pensilín næmi með því hæsta sem þekkist í heiminum. Dýralæknafélag Íslands ályktaði um ábyrga notkun á sýklalyfjum fyrir mörgum árum og hafa dýralæknar haldið sig það eins og sést á álþjóðlegum tölum um lyfjanotkun og ónæmi.

4. Opnunartími Apóteka í Rangárvallarsýslu og alls staðar á landsbyggðinni er takmarkaður sem minnkar enn frekar aðgengi dýraeiganda að nauðsynlegum lyfjum. En dýralæknar á svæðinu hafa haldið sólarhringsvakt og sinnt öllum neyðartilvikum strax á fullnægjandi hátt.

5. Dýralæknar hafa sinnt skráningu á lyfjanotkun í búfé. Það hefur tryggt að lyfjaleifar komist ekki í matvæli sem er mikið hagsmunamál fyrir neytendur og spurning um almannaheill. Þessari skráningu geta dýralæknar ekki sinnt lengur þegar þeir ekki afhenda lyf til áframhaldandi meðhöndlunar sjálfir. Vegna þess að þeir geta ekki vitað hvenær lyfið er komið í hendur dýraeiganda til meðhöndlunar og þeir geta ekki borið ábyrgð á þeim lyfjum sem selja ekki sjálfir.

6. Dýralæknar hafa lagt sig fram um að skilja aðeins eftir það magn sem til þar í hverja meðhöndlun fyrir sig og hafa rofið pakkningar til þess. Þetta er gert til þess að ekki sé til umframmagn af lyfjum hjá dýraeigandi sem yrði svo notað í næsta dýr án þess að dýralæknir komi að greiningu og réttri meðhöndlun þess dýrs. Ástæður þessa er annarsvegar dýravelferð þannig að tryggt sé að hvert dýr fái rétta meðhöndlun en einnig er þetta spurning um almannaheill þannig að ekki komi á markað matvæli með lyfjaleifum. Einnig er það víða í stór dýra praksis í stærri þéttbýliskjörnum að eigendur dýranna treysta sér ekki til þess að sprauta dýrin og eru við dýralæknar því oft daglega hjá þessu sjúklingum og fylgjumst vel með þróun sjúkdómsins.

7. Sjálfstætt starfandi dýralæknar hafa haft lifibrauð af tvennu. Annarsvegar þeim störfum sem þeir inna af hendi og hins vegar af lyfsölu sem hefur verið umtalsverður hluti af þeirra tekjum. Verði lyfsalan tekin af dýralæknum munu dýralæknar þurfa að hækka verðskrá sína um ca 40% til þess að ná endum saman. Ekki fæst séð að þær búgreinar og almenningur sem um ræðir geti borið þá hækkun.

Undirritaður getur ekki séð það að þetta frumvarp sé til heilla dýrum í landinu, það er mikil hætta á skertri þjónustu við bændur og aðra dýra eigendur og þá sérstaklega bændur og dýraeigendur í dreifðari byggðum landsins. Þetta kallar á talsverða kostnaðar aukningu fyrir dýraeigendur sem er ekki gott á tímum þar sem ekki fæst nógu gott verð fyrir afurðirnar sem getur valdið því að bændur sjá sér engan rekstragrundvöll lengur í rekstri búa.

Og í ljósi umræðunnar um fjöl ónæmar bakteríur í erlendu kjöti og grænmeti þá er það bráð nauðsynlegt að ógna ekki því góða ástandi sem dýralæknar á Íslandi hafa náð varðandi litla en markvissa notkun á sýklalyfjum sem er með því minnsta í heiminum og margar þjóðir horfa til.

Því segi ég að við eigum ekki að hrófla við þessari góðu og eftirsóknarverðri stöðu sem við höfum náð varðandi lyfjanotkun hjá íslenskum dýrastofnum.

Virðing fyllst

Björgvin Þórisson dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#82 Berglind Kristinsdóttir - 03.03.2019

Ég mótmæli því að afnema skuli lyfjasöluleyfi dýralækna. Hagræðið er gríðarlegt fyrir bændur að fá þjónustu og lyf til meðhöndlunar á sama tíma sér í lagi í dreyfðari byggðum landsins. Þetta rímar ekkert við tíðarandann að spara kolefnissporin sem dæmi, að dýralæknir þurfi að keyra eina ferð til bóndans og svo þurfi bóndinn að fara að heiman í næsta stóra byggðakjarna til að leysa út lyf á opnunartíma til að geta meðhöndlað veik dýr. Þetta er þjónustuskerðin fyrir bæði bændur og skepnur landisins.

Afrita slóð á umsögn

#83 Ólöf Kristín Einarsdóttir - 03.03.2019

Sem sauðfjárbóndi verð ég að gera athugasemdir við eftirfarandi tillögur:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Hingað til hafa dýralæknar haldið álagningu dýralyfja í lágmarki, sem skiptir miklu máli fyrir okkur bændur, dýrin og á endanum neytendur líka.

Um langan veg er oft að fara á landsbyggðinni og langt er fyrir marga bændur að komast í lyfsölu í þéttbýli. Oft eru vegir illfærir/ófærir og nóg að dýralæknirinn brjótist fram og til baka í ófærð og vondu veðri án þess að bóndi verði að fara á eftir að sækja lyf. Ekki eru apótek á landsbyggðinni opin um kvöld og helgar og hætt er við að kostnaður bænda aukist ef að kalla þarf út mannskap til að selja þeim lyf.

Hér hlýtur að skipta mestu máli að lina þjáningar skepnunnar eins fljótt og unnt er og gæta dýravelferðar. Það apótek sem er næst mínu búi er bara opið 5 daga vikunnar og eingöngu frá klukkan 10-17.

Einnig hef ég áhyggjur af vöntun lyfs hjá lyfsala, ég treysti best dýralæknum til að velja og eiga þau bestu/gagnlegustu lyf sem dýrið þarf að fá.

Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

Að lokum: Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala, sem bændur hafa ekki nokkra tryggingu fyrir að hafi þekkingu og færni til þess.

Afrita slóð á umsögn

#84 Matvælastofnun - 03.03.2019

Meðfylgjandi er umsögn Matvælastofnunar um mál nr. S-52/2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#86 Helga Björt Bjarnadóttir - 03.03.2019

Undirritaður dýralæknir mótmælir harðlega þeim breytingum á frumvarpi lyfjalaga sem leggja til skerðingu á réttindum dýralækna. Þau réttindi sem um ræðir eru lyfsöluleyfi dýralækna og leyfi þeirra til að kaupa lyf af heildsölum.

Ég mótmæli þessum breytingum á eftirfarandi forsendum:

Komi til þessara breytinga mun það ekki einungis valda skerðingu á réttindum dýralækna heldur einnig skerðingu hjá dýraeigendum, sem að stórum hluta eru bændur í dreifbýli. Fyrir dýraeigendur mun þessi breyting á frumvarpinu hafa í för með sér skerðingu á lyfjaþjónustu og aðgengi lyfja.

Dýraeigendur gætu lent í vandræðum með að nálgast þau lyf sem nauðsynleg eru til meðhöndlunar á viðkomandi dýri. Apótek eru ekki á hverju strái í dreifbýli og oft þurfa dýraeigendur að keyra um langan veg til að nálgast þau lyf sem dýralæknir hefur ávísað. Dýralæknar bjóða upp á sólarhringsþjónustu og oft sem að dýralæknir er kallaður út t.d. um helgar og á öðrum frídögum. Þó svo að dýralæknir hefji meðhöndlun er oftar en ekki framhaldsmeðhöndlun þar sem dýraeigandi þarf þá að nálgast lyf úr apóteki. Opnunartími og staðsetning apóteka getur skert þetta aðgengi.

Skert aðgengi að lyfjum getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Dýraeigandi sem t.d. getur ekki nálgast sýklalyf til framhaldsmeðhöndlunar mun þá þurfa að bíða með viðeigandi meðhöndlun. Þetta getur haft neikvæð áhrif á sýklalyfjaónæmi.

Lyfjafræðingar í apótekum hafa ekki þá sérþekkingu á dýralyfjum sem dýralæknar hafa (virkni, áhrif, útskolun osfrv.). Einnig er apótekum ekki heimilt að rjúfa pakkningar lyfja á meðan dýralæknar geti rofið pakkningar til að úthluta dýraeiganda nákvæmt magn af því lyfi sem ávísað er. Þetta mun auka hættu á of mikilli og rangri notkun lyfja (þar með talið sýklalyfja).

Undirrituð telur íslenska dýralækna umgangast lyfsöluleyfi sitt með mikilli ábyrgð.

Sú breyting að afnema eigi réttindi dýralækna til að kaupa lyf af heildsölum mun skerða tekjustofn dýralækna þar sem þeir munu missa tekjur við lyfsölu. Þetta getur valdið því að dýralæknar þurfi að hækka verðskrá sína töluvert sem mun ekki bara verða auka kostnaður fyrir bændur og aðra dýraeigendur, heldur einnig skerðing á aðgengi lyfja.

Að lokum ber að nefna að slíka skerðingu á réttindum ber að rökstyðja með gildum rökum. Í þeirri greinargerð sem fylgir frumvarpinu fylgja engar útskýringar á alvarlegri skerðingu dýralækna til lyfsölu, hvað þá kynning á breytingum frumvarpsins eða samráð við dýralækna.

Virðingarfyllst,

Helga Björt Bjarnadóttir

Dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#87 Dagur Torfason - 03.03.2019

Ég tel það ekki samræmast dýravelferð að taka lyfsöluleyfi af dýralæknum

Afrita slóð á umsögn

#88 Egill Gunnarsson - 03.03.2019

Umsögn um frumvarp til nýrra lyfjalaga varðar Mál nr. S-52/2019

Undirritður gerir einkum athugasemdir við tvær nýjungar í frumvarpinu.

• Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

• Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Ljóst er ef þetta frumvarp verður samþykkt óbreytt mun það þýða aukið óhagræði, aukin óþægindi, bitna á velferð og heilsu búfjár, hafa neikvæð áhrif á matvælaöryggi, stöðu dýrasjúkdóma, þróun sýklalyfjaónæmis og leiða til aukins framleiðslukostnðar fyrir innlenda framleiðslu og þar með skerða samkeppnisstöðu við innfluttar landbúnaðarvöru.

Allan rökstuðning vantar vegna þessara breytinga á starfsumhverfi dýralækna og bænda.

Athugasemdir og rökstuðningur fylgir með í meðfylgjandi viðhengi.

Virðingarfyllst

Egill Gunnarsson

Bústjóri Hvanneyrarbúsins

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#89 Elín Margrét Stefánsdóttir - 03.03.2019

Sem bændur með skepnur í okkar umsjá, mótmælum við harðlega þeim hluta þessa frumvarps er snýr að dýralyfjum. Bæði það að afnema lyfsöluleyfi dýralækna og gefa álagningu frjálsa á dýralyfjum.

Það að afnema lyfsöluleyfi dýralækna varðar við dýravelferð því í mörgum tilfellum eru tugir eða hundruðir kílómetra í næsta apótek. Apótek eru ekki opin allan sólarhringinn og síst í dreifðum byggðum þar sem búfjárhald er einna helst. Það er grafalvarlegt mál ef það þykir sjálfsagt að láta skepnur þjást vegna skorts á lyfjum. Einnig er fyrirséð að þetta mun auka gríðarlega kostnað bænda og hætt við að menn fargi frekar skepnum en að leggja í ómældan kostnað við að bjarga þeim.

Einnig virðist frumvarpið vera illa undirbúið og illa kynnt. Undirrituð spurði landbúnaðarráðherra út í frumvarpið á opnum bændafundi 28. febrúar sl. og þá hafði hann ekki heyrt af því.

Við skorum á ráðherra að endurskoða frumvarpið áður en það fer lengra.

Virðingarfyllst

Elín M. Stefánsdóttir

Ævar Hreinsson

Fellshlíð

Afrita slóð á umsögn

#90 Hulda Eggertsdóttir - 03.03.2019

Ég sem bæði kúa og sauðfjábóndi mótmæli harðlega frumvarpi þessu og rök mín eru þau að óhagræðið verður bæði mikið og dýrt að þurfa að fara alltaf eftir lyfjum ínæsta apotek. Tel þetta líka vera aðför að þeim sérfræðingum sem þjónusta annað hvort eru þetta fagaðila með öll tilskilin leyfi eða fara þarf að skilgreina t.d. dýralækna. Hitt er að þú getir þurft á bráðalyfjagjöf um helgi eða seint að kvöldi og hvað þá? Allt lokað. Tel að aðför að landsbyggðinni sem þetta bitnar mest á að þeirri aðför linni. Mótmæli þessu frumvarpi fullkomlega. Með vinsemd Huld Eggertsdóttir Meiri Tungu 3b Hellu

Afrita slóð á umsögn

#91 Hrund Ýr Óladóttir - 03.03.2019

Ég mótmæli þeim breytingum í þessu frumvarpi er varða afnám lyfsöluleyfis dýralækna og þá sérlega niðurfellingu 33. greinar úr frumvarpinu 2015. Dýralæknar landsins hafa stundað ábyrga lyfjanotkun og náð góðum árangri á heimsvísu í lítilli notkun sýklalyfja og þar af leiðandi lágri tíðni fjölónæmra baktería í íslenskum landbúnaði. Þeim árangri er stefnt í hættu með þessari breytingu. Meiri hætta er á að dýraeigendur sæki ekki lyfin sem dýrum þeirra eru ávísuð, eða sæki þau seint og verði þá hik í meðhöndlun sem getur valdið sýklalyfjaónæmi. Einnig fengju dýraeigendur of mikið af lyfjum afhent þar sem pakkningar eru ekki rofnar i apótekum. Annað hvort væri þeim umfram lyfjum hent með tilheyrandi aukinni mengun og sóun, eða safnað fyrir og þá hægt að grípa til þeirra án samráðs við dýralækni þegar dýraeigandi teldi þurfa og aukast þannig líkur á rangri meðhöndlun.

Lyfjafræðingur eru menntaðir í meðhöndlun lyfja fyrir menn, en ekki dýr. Dýralæknar eru menntaðir í meðhöndlun lyfja fyrir dýr og hafa kunnáttu um mismunandi áhrif á mismunandi dýrategundir og áhrif á afurðagefandi dýr. Það eru ekki lyfjafræðingar í apótekum í minni þéttbýliskjörnum svo þjónustan við dýraeigendur skerðist mjög við þessa breytingu.

Ekki er heldur hagkvæmt né umhverfisvænt að bændur þurfi að keyra langan veg í apótekið að ná í lyfin sem dýralæknir hefur hingað til getað tekið með í vitjunina til framhaldsmeðhöndlunar.

Tilgangur þessara breytinga er afar óljós og illa rökstuddur. Breytingarnar munu hafa í för með sér mikla skerðingu fyrir dýralækna og dýraeigendur, þá sérstaklega bændur. Hætta er á að hún skerði þar að auki dýravelferð og almannaheill.

Ég mótmæli þessari breytingu harðlega.

Hrund Ýr Óladóttir, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#92 Linda Jónsdóttir - 03.03.2019

Umsögn um drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga.

Varðar eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu: Lagt er til að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Ég mótmæli harðlega þessu ákvæði. Verulegt óhagræði verður af því að færa alla lyfjasölu dýralyfja inn í lyfjabúðir og mun um leið stofna dýravelferð í hættu. Oft er um langar vegalengdir að fara í næstu lyfjaverslun og opnunartími þeirra takmarkaður. Eins getur þetta leitt til þess að magn lyfja í umferð aukist því að dýralæknar rjúfa umbúðir til að selja rétt magn af lyfjaskömmtum. Lyfjabúðir bjóða ekki upp á þann kost heldur eru lyfjapakkningar seldar í heilu lagi þó ekki sé í raun þörf á öllu því magni. Ísland stendur mjög framarlega í heiminum hvað varðar litla lyfjanotkun í landbúnaði. Sú sérstaða má alls ekki tapast. Einnig varðar þetta loftslagsmálin ef bóndinn þarf að keyra eftir lyfjum eftir að dýralæknirinn hefur komið á staðinn.

Linda Jónsdóttir

bóndi og stjórnarmaður í félagi sauðfjárbænda í Skagafirði

Afrita slóð á umsögn

#93 Guðríður Eva Þórarinsdóttir - 03.03.2019

Sem dýralæknir mótmæli ég harðlega breytingartillögum sem verða til þess að heimildir dýralækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar. Hér á eftir kemur rökstuðningur á þessu:

1.

Í raun í er engin ástæða til þess að taka dýralyfja af dýralæknum. Íslenskir dýralæknar hafa staðið saman um ábyrga notkun á lyfjum og að nota sem minnst af sýklalyfjum. Það sést best á samanburði Íslands við önnur lönd þegar skoðað er hve mikið af sýklalyfjum eru notuð í lanbdúnaði.

Dýralyf og mannalyf eru ekki sami hluturinn og því hefur lyfjafræðingur í apoteki ekki sömu þekkingu og dýralæknir á virkni þeirra og útskolun.

Mjög ólíklegt verður því að teljast að bóndi fái sömu þjónustu og fræðslu um meðhöndlanir og lyfjaval í apoteki og hjá sýnum dýralækni þegar kemur að því að kaupa t.d ormalyf og bóluefni.

Þetta er bóndanum mikilvægt og kemur á endanum bara niður á dýravelferð ef lyf eru ekki rétt afgreidd.

2.

Í ljósi allrar umræðu um kolefnisspor og mengun verður þessi ákvörðun að teljast undarleg.

Bændur væru í mörgum tilfellum að keyra mörg hundruð km á mánuði eingöngu til þess að nálgast lyf sem þeir annars fengju afgreidd hjá sínum dýralækni þegar dýralæknir mætir og meðhöndlar dýrið.

Í dreifbýli er oft nærri 100km í næsta apotek og því er ekki endielga verið að tala um smá skrepp. Minni apotek úti á landi eiga ekki alltaf öll mannalyf á lager, væri hægt að treysta á að það dýralyf sem stendur til að nota sé fáanlegt í næsta apoteki? Ef rétt lyf eru ekki til þarf að fara aðra ferð daginn eftir, eða keyra enn lengra í næsta apotek.

3.

Óábyrg notkun sýklalyfja ýtir undir sýklalyfjaónæmi.

Eins og áður kom fram eru dýralæknar á Íslandi sérlega ábyrgir í notkun sýklalyfja.

Dýralæknar skilja í flestum tilfellum eingöngu eftir það magn af lyfjum sem á að nota í hverja meðhöndlun fyrir sig. Apotekin eru sjaldnast tilbúin til að rjúfa pakkningar og þá eru dýraeigendur komin með mikið magn af lyfjum í hendurnar sem þeir nota ekki. Þetta bíður upp á að eigendur noti þessi lyf seinna án þess að ráðfæra sig við dýralækni.

Apotekin eru ekki opin á kvöldin og um helgar, ef að dýralæknir meðhöndlar dýr t.d á föstudagskvöldi þá kemst bóndi á landsbygðinni ekki í apotek fyrr en á mánudegi. Þarna verður þriggja sólarhringa gat í meðhöndluninni sem eykur líkur sýklalyfjaónæmi.

4.

Matvælaöryggi væri jafnvel stefnt í mikla hættu.

Dýralæknum ber að skrá notkun lyfja í gagnagunn (www.bufjarheilsa.is) það er gert á einstaklingsmerki þess dýrs sem meðhöndlað er svo að sláturfrestur lyfja komi fram.

Hernig á að fylgja þessum skráningum eftir og sjá til þess að sýklalyfjamengað kjöt komist ekki á markaðinn þegar dýralæknar sjá ekki lengur um afgreiðslu lyfja.

5.

Að taka lyfjasölu af dýralæknum mun koma niður á dýravelferð.

lyfjasala er hluti af rekstrargrundvelli dýralækna, sérstakelga í dreifðari byggðum. Dýralæknar yrðu að hækka verðskrá til að koma til móts við tapið við að missa lyfjasölu. Ofan á hærri gjáldskrá dýralækna þurfa bændur svo að keyra tugi til hundruðir km til þess að nálgast lyfin. Þetta verður því gífurlega dýrt fyrir dýraeigendur.

Bændur og dýraeigendur myndu veigra sér við að kalla á dýralækni, í sumum tilfellum væru skepnur þjáðar í lengri tíma en nauðsyn krefur og í öðrum væru þær hreinlega aflífaðar frekar en að kalla til dýralæknis

Guðríður Eva Þórarinsdóttir, Dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#94 Landssamtök sauðfjárbænda - 03.03.2019

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda hefur farið yfir drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga og gera eftirfarandi athugasemdir. Sjá meðfylgjandi skrá.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#95 Jón Kolbeinn Jónsson - 03.03.2019

Þessi frumvarpsdrög bera með sér að það er verið að þvinga einhverju vanhugsuðu inn án þess að gefa fólki tíma til þess að vinna frumvarpið almennilega og ég leyfi mér að fullyrða að það sé gert í annarlegum tilgangi. Eins og þetta lýtur út að þá á að fækka þeim aðilum sem geta ávísað lyf og gefa álagninguna frjálsa. Þannig að í stað þess að dýralæknar geti greint dýr og hafið meðhöndlun strax með réttum skammti, að þá á nú að gera ferlið flóknara og setja millilið í ferlið (apótek). Þá spyr maður sig hverjum það sé til góða, er það velferð dýra til góða að umráðamanni þeirra sé gert erfiðara fyrir að fá lyfjaskammtinn til þess að halda áfram að meðhöndla dýrin? Nei það er mun gæfulegra eins og þetta er í dag að umráðamaður dýrs hringir í dýralæknir og dýralæknir mætir á staðinn eða dýrinu er komið til hans, dýralæknir sjúkdómsgreinir og hefur meðhöndlun strax. Er afnám lyfsölu dýralækna til góða fyrir apótek? Já það má færa rök fyrir því, þar sem viðskiptin myndu aukast og apótekin myndu einnig komast upp með það að vera með takmarkað og dýrt upplag af lyfjum þar sem álagningin yrði orðin frjáls og fákeppni ríkti á markaði. Þannig að drifkraftur þessa frumvarps er líklegast hagnaðarvon einhverra fárra útvalda sem eiga og reka apótek, allt á kostnað dýravelferðar.

Nú til dags er verið að gera átak í minnkun á kolefnisútblæstri en þetta frumvarp mun auka kolefnisútblástur til muna ef lyfsölu dýralækna mun verða afnumin, þar sem ferðum dýraeigenda mun fjölga til muna. Dýraeigendur þyrftu þá að fara í apótek og kaupa lyf, þar að segja ef það væri opið og svo keyra aftur heim í stað þess að geta haldið lyfjameðhöndlun áfram eftir sjúkdómsgreiningu dýralæknis.

Ég vona innilega að frestur til þess að skila inn umsögn verði framlengdur því ég tel að umfjöllun hafi ekki farið fram nægilega mikið þannig að flest sjónarhorn komi fram og það verði hægt að koma með efnislegri breytingar í þágu okkar allra og ekki síst dýravelferðar.

Afrita slóð á umsögn

#96 Árni Jón Þórðarson - 03.03.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Sem bóndi í mjög góðu og árangursríku samstarfi við starfandi dýralækni á mínu svæði, Suðurfjörðum Austfjarða, mótmæli ég harðlega þessum ákvæðum með eftirfarandi rökstuðningi:

1. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónusta þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gæti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu og fengið lyf til meðhöndlunar samdægurs.

2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda

3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja. Að þurfa að sækja lyf í apótek skapar mikil óþægindi og lengir mjög tíman þangað til dýr fær viðeignadi lyfjagöf. Apótek eru oft á tíðum í mikilli fjarlægð frá býlum og lítli apótek á landsbyggðinni ekki með stóran lyfjalager og oft er löng bið eftir lyfjum.

4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

Að lokum: Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala, sem bændur hafa ekki nokkra tryggingu fyrir að hafi þekkingu og færni til þess.

Afrita slóð á umsögn

#97 Jóhanna María Sigmundsdóttir - 03.03.2019

Góðan dag.

Undirrituð gerir athugasemdir við tvo liði í þessu frumvarpi sem snúa að því að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls og að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Undirrituð mótmælir þessu fyrirkomulagi þar sem það getur brotið á dýravernd og skaðað rekstur í landbúnaði.

Þegar dýralæknar eru í fríi og leita þarf til dýralæknis á næsta starfssvæði getur afhending lyfja lengst um einhverja klukkutíma, verði frumvarpið samþykkt með þessum markmiðum sem fram koma hér að ofan getur afhending lyfja dregist enn lengur og komið niður á dýravelferð, aðeins vegna kerfisbreytingar en algjörlega án vilja ræktanda.

Verði hámarksverð afnumið getur það komið niður á því að bú beri ekki kostnað ákveðinna atvika þar sem lyfja þarf við og kemur það einnig niður á dýravelferð.

Það virkar tvísaga að setja bændum kvaðir um dýravelferð, aðbúnað og umgengni við dýr en á móti gera erfitt fyrir að framfylgja þeim með klausum sem þessum. Það hefur ekki skaðað íslenskan landbúnað að dýralæknar fái að skrifa út og selja lyf í landbúnaði til bænda.

Vegalengdir á Íslandi, opnunartímar staða sem myndu afgreiða þau eftir breytingar og frídagar spila stórt hlutverk. Kýr fá líka júgurbólgu kl.20 á laugardagskvöldi og þær fá doða um miðja nótt eða stíga á spena á aðfangadag, þetta gerist frammi í dölum og úti á nesjum. Bændur bregðast við strax og þurfa ekki á hömlum sem aftra þeim mögulega á að meðhöndla gripi og aðstoða þá til bata.

Undirrituð mótmælir þessum breytingum en gerir ekki athugasemdir við aðra liði sem eru til umfjöllunar.

- Jóhanna Sigmundsdóttir, kúabóndi og formaður Kúabændafélagsins Baulu Vesturlandi

Afrita slóð á umsögn

#98 Jóhann Gísli Jóhannsson - 03.03.2019

Varðandi eftirfarandi ákvæði í frumvarpinu:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Búnaðarsamband Austurlands gerir eftirfarandi athugasemdir:

Vegna fákeppni í lyfsölu eru apótek ekki til staðar í dreifbýli og langt að sækja fyrir marga. Með þessum breytingum er ákveðin áhætta tekin varðandi velferð dýra þar sem aðgengi að lyfjum er mjög skert. Skerðing á tekjumöguleikum dýralækna í dreifbýli eykur líkur á því að ekki sé hægt að manna þessar stöður sem hefur áhrif á rekstrarumhverfi bænda

Í ljósi þess að það er einungis eitt starfandi apótek á Austurlandi er verðsamkeppni ekki til staðar.

Gangi þessar breytingar eftir verður að koma til reglugerð sem heimilar bændum að halda neyðarlyfjalager.

F. h. Búnaðarsambands Austurlands

Jóhann Gísli Jóhannsson

Afrita slóð á umsögn

#99 Jóna Björg Hlöðversdóttir - 03.03.2019

Stjórn Samtaka ungra bænda gerir athugasemd við eftirfarandi atriði í frumvarpi til nýrra lyfjalaga:

- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Ljóst er að af þessum breytingum verði, sé það bein ógn við dýravelferð. Bændur hafa í gegnum árin átt gott samstarf við dýralækna sem oft leggja á sig mikil ferðalög á öllum tímum sólarhringsins í þágu veikra dýra. Ef dýralæknar geta ekki selt nauðsynleg lyf á öllum tímum sólahringsins þá getur dýravelferð þurft að víkja fyrir frumvarpi þessu. Einnig eykur það kolefnisspor að bændur þurfa ekki bara að fá dýralækni á staðinn heldur einnig að aka sjálfir eftir lyfjum á næsta lyfsölustað. Ef lyfsöluleyfi dýralækna er afnumið og álagning á dýralyfjum er gefin frjáls eru líkur til þess að bæði muni verð á lyfjum hækka, enda ríkir fákeppni í lyfsölu á landsbyggðunum auk þess sem dýralæknar komi til með að hækka verðskrár sínar talsvert til að mæta þeirri tekjuskerðingu sem verður af því að þeir selji ekki lengur lyf.

Fh.stjórnar Samtaka ungra bænda

Jóna Björg Hlöðversdóttir

Guðmundur Bjarnason

Þórunn Dís Þórunnardóttir

Afrita slóð á umsögn

#100 Högni Elfar Gylfason - 03.03.2019

“- Lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls.”

Maður veltir fyrir sér hvaða skynsemi fylgir slíkri áætlun. Dýralyf eru nú þegar kostnaðarsöm fyrir bændur og ef stjórnlaus álagning á að vera á þeim má ætla að það vinni gegn dýravelferð þar sem margir muni ekki hafa efni á að kaupa lyfin. Varla getur það verið ætlun fólks að vinna gegn dýravelferð í landinu.

“- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.”

Þessi áætlun er jafnslæm eða jafnvel enn verri en sú sem ég skrifa um hér að ofan. Ef dýralæknar mega ekki selja bændum lyf í dýr sem þeir meðhöndla, heldur aðeins afhenda þeim lyfseðil til kaupa á lyfinu í apóteki, mun það sjálfkrafa vinna gegn dýravelferð í landinu þar sem kostnaður mun aukast stórkostlega og væntanlega í mörgum tilfellum langt umfram getu bænda til að greiða hann. Þetta myndi valda því að síður verður kallaður til dýralæknir til að sinna veikum dýrum, heldur látið ráðast hvort dýrið nær að rétta af sjálft. Í öðrum tilvikum yrði dýrinu lógað fremur en að kalla til dýralækni ogkeyra svo tugi ef ekki hundruði kílómetra eftir lyfi í apótek. Í guðs bænum látið þetta brjálæði ekki fara í gegn þar á kostnað velferðar húsdýra á Íslandi.

Afrita slóð á umsögn

#101 Haraldur Magnús Magnússon - 03.03.2019

Ég sem bóndi og dýrahyrðir mótmæli því harðlega að söluleyfi dýralækna á dýralyfjum verði afnumið. Það getur skipt sköpum með heilsu dýra að geta brugðist við sem allra fyrst, og komið þannig í veg fyrir meir tjón en annars gæti orðið

Afrita slóð á umsögn

#102 Anna Berglind Indriðadóttir - 03.03.2019

Sem kúa- og hrossabændur viljum við mótmæla því að til standi að taka lyfjasöluleyfi af dýralæknum. Við tökum undir og styðjum þau góðu og gildu rök sem hér eru fram komin frá mörgum aðilum sem þessi mál varða og vel þekkja til. Vonum við að allar þessar athugasemdir verði teknar til greina af þeim sem koma til með að taka ákvarðanir um þessi mál.

Virðingarfyllst

Anna berglind Indriðadóttir

Guðni Þór Guðmundsson

Þúfu í Landeyjum

Afrita slóð á umsögn

#103 Rúnar Geir Ólafsson - 03.03.2019

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Sú tillaga að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar er illa ígrunduð og mun meðal annars hafa eftirfarandi áhrif;

Þetta mun koma sér illa fyrir dýraeigendur sérstaklega úti á landi þar sem að dýr veikjast líka þá daga sem apótek eru lokuð, það að þurfa seinka lyfjameðferð getur í sumum tilfellum leitt til þess að dýrið deyr.

Samkeppni á dýralyfjamarkaði minnkar þar sem að apótek munu ein geta selt dýralyf sem þýðir óneitanlega að verð á dýralyfjum hækkar sérstaklega úti á landi.

Ég treysti dýralæknum best til að ávísa og selja dýralyf.

Rúnar Geir Ólafsson, búfræðingur og bóndi

Afrita slóð á umsögn

#104 Björn Birkisson - 04.03.2019

- Lagt er til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar.

Þessi klásúla þarfnast verulegs rökstuðnings. Lyfsala dýralækna hefur verið grundvallar þjónustuþáttur við bændur vítt um land. Aðgengi að lyfjum mun stórlega versna vítt um land og þar sem samkeppni er lítil mun verðið einnig örugglega hækka líka. Lyfjasala hefur þar að auki verið til kaupauka hjá dýralæknum og hefur ekki veitt af slíku víða um land til þess að sú þjónusta sé í boði.

Þetta mun leiða til eftirfarandi:

Lyf munu hækka í verði

Aðgengi að nauðsynlegum lyfjum verður erfiðara og vöntun tíðari

Erfiðara verður að halda úti dýralæknaþjónustu í hinum strjálu byggðu.

Skepnur munu líða fyrir skort á lyfjum vegna samanlagðra áhrifa fyrrnendra atriða.

Þetta er íþyngjandi á margan máta á sama tíma og innflutningur samkeppnisvöru er auðveldaður á allan mögulegan máta innflutningsfyrirtækjunum til hagsbóta. Rekjanleiki lyfjanotkunar hérlendis er bundinn við einstök dýr en það sem er innflutt flýtur sannanlega ljúflega inn án slíks rekjanleika. Fullyrðingar um annað eru einungis þeim ætlaðar sem ekki vita betur.

Afrita slóð á umsögn

#106 Mia Hellsten - 04.03.2019

Varðandi drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um lyf.

Undirritaður er dýralæknir í dreifbýli og mótmælir harðlega þau áform í þessu frumvarpi að afnema leyfi dýralækna til sölu dýralyfja.

Markmið frumvarpsins eiga að vera "...að tryggja landsmönnum nægilega framboð að nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi og með hagkvæmastri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. "

Í elju sinni við að koma á meiri samkeppni á lyfjamarkaði og auka hagkvæmni hafa höfundar frumvarpsins gleymt að athuga hversu mikið inngrip það er inn á ákveðið svið dýralækninga.

Við erum nokkrir tugir manna sem stundum almennar dýralækningar í hinum dreifðu byggðum landsins. Engin önnur stétt hefur þá sérþekkingu sem þarf til að skilja afleiðingarnar af og bera ábyrgð á lyfjameðhöndlun dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis. Um langan veg er að fara milli bæja, oftast tugir og jafnvel hundruðir kílómetrar í akstur virkar letjandi á bændur að kalla til dýralækni og ef frumvarpið nær fram að ganga þá dugar ekki lengur ein vítjun, heldur þarf bóndinn að leggja í annað ferðalag til að klára lyfjakúrin. Hætta er á að lyfjakúrin verði ekki kláruð, sem getur stuðlað að sýklalyfjaónæmi, eða þá að dýralæknirinn verði ekki kallaður til, sem er slæmt fyrir bæði dýravernd og matvælaöryggi.

Önnur lyf sem dýralæknar afhenda á starfsstöðvum sínum eru bóluefni fyrir búfé. Bóndinn mun áfram sækja leiðbeiningar hjá dýralækni sínum um framkvæmd bólusetninga, og á móti hefur dýralæknirinn hagnað af sölu bóluefnanna. En nú fær lyfjabúðin söluleyfið og dýralæknirinn þarf að velja milli þess að taka gjald fyrir ráðgjafajónustu eða sitja eftir með sárt ennið. Annað hvort tapar dýralæknirinn eða bóndinn, sá eini sem hagnast er lyjfabúðin, varla er það í samræmi við markmið frumvarpsins.

Nógu erfitt er að fá dýralækna til starfa þar sem landið er strjábýlast og með því að taka lyfsöluleyfið af þeim verður það ekki auðveldara.

Um sum önnur svið dýralækninga gilda ef til vill annað, en fyrir þjónustu við bændur munu áhrifin vera eingöngu neikvæð og koma niður á bæði dýravelferð, matvælaöryggi og baráttuna við sýklalyfjaónæmi. Markmið frumvarpsins munu aftur á móti ekki uppfyllast. Dýralæknastéttin er lítil og sérhæfð, og lítill hagur er af því að taka lyfjasöluleyfið af henni. Ef afnám lyfjasöluleyfisins verður þrátt fyrir allt að veruleika, er alger forsenda að leyfa áfram afhendingu lyfja til framhaldsmeðhöndlunar þegar dýralæknir sinnir veikum dýrum í vitjun.

Virðingarfyllst,

Mia Hellsten, dýralæknir

Afrita slóð á umsögn

#107 Lyfjafræðingafélag Íslands - 04.03.2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#109 Distica - 04.03.2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#110 Florealis - 04.03.2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#111 Samtök verslunar og þjónustu - 04.03.2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#112 Embætti Landlæknis - 04.03.2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#113 Umsögn Lausasölulyfjahóps samtaka verslunar og þjónustu - 04.03.2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#114 Félag atvinnurekanda - 04.03.2019

Viðhengi