Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 21.2.–4.3.2019

2

Í vinnslu

  • 5.3.2019–19.11.2020

3

Samráði lokið

  • 20.11.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-53/2019

Birt: 21.2.2019

Fjöldi umsagna: 18

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Fjölskyldumál

Drög að frumvarpi til breytinga á barnalögum nr. 76/2003 og fleiri lögum (skipt búseta og meðlag)

Niðurstöður

Alls bárust 18 umsagnir. Þá bárust ráðuneytinu auk þess 2 aðrar umsagnir. Í umsögnum var bæði tekið undir tillögur frumvarpsins og komið á framfæri ýmsum athugasemdum. Athugasemdum og viðbrögðum við athugasemdum er nánar lýst í samráðskafla frumvarpsins, en frumvarpið hefur nú verið lagt fram á Alþingi.

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til breytinga á barnalögum nr. 76/2003 auk breytinga á ýmsum lögum (skipt búseta og meðlag).

Nánari upplýsingar

Þær breytingar sem lagðar eru til á barnalögum snúa að því að lögfesta ákvæði um heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns og umfangsmiklar breytingar á ákvæðum laganna um framfærslu barns og meðlag. Auk þess eru lagðar til breytingar á öðrum lögum, sem heyra undir mismunandi ráðuneyti, og snúa að því að ná fram tilteknum réttaráhrifum sem tengjast breytingum á barnalögum um skipta búsetu barns auk breytinga á ákvæðum um meðlag.

Í frumvarpinu er að finna allnokkur nýmæli frá því sem er í gildandi lögum:

• Nýtt ákvæði um heimild til að semja um skipta búsetu barns.

• Lögbundnar forsendur samninga foreldra um forsjá, búsetu og umgengni í viðeigandi lagaákvæðum.

• Nýtt ákvæði um samtal að frumkvæði barns.

• Skýrari ákvæði um rétt barns til að tjá sig.

• Gagngerar breytingar á ákvæðum um framfærslu og meðlag þar sem lögð er áhersla á aukið samningsfrelsi, lágmarksframfærslukostnað barns, tillit til tekna beggja foreldra, tillit til umgengni o.fl.

Markmið með nýjum ákvæðum í barnalög sem heimila skipta búsetu barns er að stuðla að sátt og jafnari stöðu þeirra foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum. Þetta nýja fyrirkomulag gerir ráð fyrir að foreldrar geti alfarið unnið saman í öllum málum er varða barnið. Samningur um skipta búsetu barns gerir því ríkar kröfur til foreldra um samstarf, virðingu, tillitsemi og sveigjanleika. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að búseta barns verði að vera nákvæmlega jöfn á báðum heimilum. Almennt skal gera ráð fyrir því að barn búi álíka jafnt til skiptis hjá foreldrum, en að öðru leyti er það í höndum foreldra að finna það fyrirkomulag sem hentar best þörfum barnsins. Foreldrar skulu komast að samkomulagi um hjá hvoru þeirra barn eigi lögheimili og hjá hvoru þeirra barn eigi búsetuheimili. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samningur um skipta búsetu sé háður staðfestingu sýslumanns. Með hliðsjón af ríkum kröfum um samstarf foreldra og sameiginlega ákvarðanatöku er ekki gert ráð fyrir að dómstóll geti dæmt skipta búsetu barns þegar foreldra greinir á.

Miðað er við að eftirfarandi forsendur þurfi að vera til staðar svo sýslumaður geti staðfest samning um skipta búsetu barns:

• Sameiginleg forsjá.

• Virkt samstarf foreldra.

• Sameiginleg ákvarðanataka.

• Nálægð heimila.

• Samkomulag um lögheimili barns og búsetuheimili barns.

Í frumvarpinu eru lagðar til gagngerar breytingar á ákvæðum barnalaga um framfærslu barns og meðlag. Markmið með nýju meðlagskerfi er að koma til móts við sjónarmið um sameiginlega ábyrgð beggja foreldra á framfærslu barns, samstöðu foreldra og virkari þátt í samskiptum og samveru með barni. Lagt er til að hverfa frá því að miða meðlag við barnalífeyri sem ákveðinn er á grundvelli laga um almannatryggingar. Í frumvarpinu er lagt til að í meðlagsúrskurði verði lagður til grundvallar fastmótaður lágmarksframfærslukostnaður barns sem byggir á neysluviðmiðum. Ef meðlagsgreiðandi hefur umtalsverðar tekjur er að auki gert ráð fyrir að unnt verði að úrskurða eða dæma meðlagsskylt foreldri til að greiða aukið meðlag.

Nýtt meðlagskerfi byggir fyrst og fremst á eftirfarandi sjónarmiðum:

• Sameiginlegri ábyrgð beggja foreldra á framfærslu barns.

• Auknu frelsi foreldra til að semja um meðlag.

• Tilliti til kostnaðar af framfærslu barns.

• Tilliti til tekna beggja foreldra.

• Tilliti til umgengni foreldris sem barnið býr ekki hjá.

• Tillit tekið til barnabóta til lögheimilisforeldris við útreikning á tekjum þess.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Dómsmálaráðuneytið

postur@dmr.is