Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 22.2.–8.3.2019

2

Í vinnslu

  • 9.3.2019–6.2.2020

3

Samráði lokið

  • 7.2.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-56/2019

Birt: 22.2.2019

Fjöldi umsagna: 73

Drög að frumvarpi til laga

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Grunnskólastig

Frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Niðurstöður

Lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla voru samþykkt 20. júní 2019

Málsefni

Frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla varðar m.a. aukin sveigjanleika í skólastarfi, hæfni og réttindi kennara.

Nánari upplýsingar

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu

Gefið verður út eitt leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum í stað þriggja skv. núgildandi lögum. Lögfest verður í fyrsta sinn ákvæði um hæfni, annars vegar almenna hæfni og hins vegar sértæka hæfni sem kennarar og skólastjórnendur þurfa að búa yfir til að uppfylla markmið frumvarpsins. Það er bæði í takt við óskir hagaðila sem birtast í skýrslum starfshópa um framtíð kennaramenntunar frá árunum 2006 og 2009 og þróun erlendis þar sem hæfnirammi er m.a. nýttur til að samræma kennaramenntun. Í gildandi lögum er skilyrði fyrir leyfisbréfi kennara miðuð við skipulag kennaramenntunar. Með lagabreytingunum er litið til þeirrar hæfni sem er í samræmi við þá ábyrgð sem felst í kennarastarfinu. Viðmið um hæfni gegna fjölbreyttu hlutverki. Þau nýtast sem leiðsögn um inntak kennaramenntunar, eru viðmið um skilyrði fyrir leyfisbréfi, eru grunnur að innra og ytra mati á gæðum skólastarfs, veita leiðsögn um starfsþróun og endurmenntun kennara og veita leiðsögn við ráðningu kennara. Í kjölfar lagasetningarinnar verður gefin út reglugerð þar sem fram kemur nákvæmari skilgreining á almennri og sérhæfðri hæfni til að gegna tilteknu starfi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir sérstökum skilyrðum um sérhæfða hæfni um kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í stað núgildandi laga þar sem inntak og umfang menntunar kennara og skólastjórnenda er eina skilyrðið fyrir veitingu starfsleyfis. Frumvarpið gerir ráð fyrir stofnun svokallaðs kennararáðs sem er samstarfsnefnd um málefni kennara og verður skipað fulltrúum fagfólks úr háskólum og skólasamfélaginu. Í dag er til samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda, en það hefur ekki lagagrundvöll. Reiknað er með að það verði lagt niður. Formlegt hlutverk kennararáðs verður að leiðbeina um hvernig hæfniviðmið séu höfð að leiðarljósi við skipulag kennaramenntunar og starfsþjálfunar, ráðningu í starf og starfsþróun. Miðað er við að leiðbeiningar og ráðgjöf verði birt á vef Menntamálastofnunar.

Þá eru lagðar til ýmsar breytingar hvað varðar stjórnsýslu kennaramenntunarmála, m.a. vegna athugasemda frá Umboðsmanni Alþingis og Menntavísindasviði HÍ. Ástæða þykir til að aðgreina brautskráningu úr kennaramenntunarnámi og útgáfu leyfisbréfa og er í frumvarpinu lagt til að Menntamálastofnun verði falið það verk. Þetta felur í sér réttarbót í þeim tilvikum þar sem stofnunin hafnar útgáfu leyfisbréfs, því þá myndast kæruréttur til ráðuneytis. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir því að hlutverk undanþágunefnda grunnskóla og framhaldsskóla, að taka við umsóknum um ráðningu í störf þar sem ekki fást kennarar með leyfisbréf verði falið Menntamálastofnun. Stofnuninni er einnig ætlað að halda utan um tölfræðiupplýsingar varðandi leyfisbréf og undanþágur.

Unnið hefur verið að undirbúningi frumvarps þessa frá sl. hausti og samráð haft við Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara, Félag grunnskólakennara, Félag framhaldsskólakennara, Skólastjórafélag Íslands, Félag stjórnenda í leikskólum, Félag stjórnenda í framhaldsskólum, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Skólameistarafélag Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið HÍ, Kennaradeild HA og Listkennsludeild LHÍ.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa mennta- og vísindamála

postur@mrn.is