Samráð fyrirhugað 25.02.2019—07.03.2019
Til umsagnar 25.02.2019—07.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 07.03.2019
Niðurstöður birtar 07.02.2020

Reglugerð um stuðning við útgáfu bóka á íslensku (drög)

Mál nr. 57/2019 Birt: 25.02.2019 Síðast uppfært: 07.02.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Reglugerð um stuðning við útgáfu bóka á íslensku hefur verið staðfest

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 25.02.2019–07.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.02.2020.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskar eftir umsögnum um drög að nýrri reglugerð um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Markmið reglugerðarinnar er að setja skýrar reglur um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laganna. Í henni skal m.a. kveðið á um framkvæmd á stuðningi um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslu sem kann að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu, þar á meðal eftir atvikum nánari skilgreiningu á hugtökum og endurgreiðsluhæfum kostnaði, sundurliðun bókhalds, umsóknir, afgreiðslu umsókna og ákvörðun um veittan stuðning. Í reglugerðardrögunum er kveðið á um gildissvið, skilyrði endurgreiðslu, umsókn, endurgreiðsluhæfan kostnað, kostnað sem ekki telst endurgreiðsluhæfur, framkvæmd endurgreiðslu, endurákvörðun, kæruleiðir, aðra styrki og frestun á útborgun endurgreiðslu

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ólafur Egill Stolzenwald - 25.02.2019

Sælar verið þið, fagna stuðningi víð bókina og bókaútgáfu í landinu. Hinsvegar þegar um 70% bókum eru nú prentuð erlendis og prentiðnaður í þrengingum og því alveg eins víst að bókaþjóðin yrði nær alveg að reiða sig á innflutning bóka. Því er lag að útgáfa sem er styrkt sé þá miðað við að bókverkið sé prentað hér heima og styðja við íslenskan iðnað. Svo er náttúrulega möguleiki að það stangist við EFTA eða EU án þessi að ég þekki slíkar reglugerði. Eitt er víst að prentiðnaður hefur átt mjög stóran þá í því að bókaútgáfa hefur verið svo blómleg á Íslandi og tekið á sig nokkra skellina sem bókaútgáfur hafa lent í. Því er vert að skoða þetta í stærra samhengi heldur en bara bókaútgáfuna sem slíka.

Afrita slóð á umsögn

#2 Anna G Ingvarsdóttir - 25.02.2019

Góðan dag, ég fagna stuðningi víð bókina og bókaútgáfu í landinu. Hins vegar nú þegar ljóst er að íslenskur prentiðnaður á í þrengingum er nú tækifæri að styðja við íslenskan iðnað með því að gera kröfu um að sú útgáfa sem styrkt verður láti prenta bækur hér heima. Það þarf líka að skoða þetta í stærra samhengi. Bókaprentun á Íslandi veitir ekki bara prenturum atvinnu heldur líka þeim sem selja efnið í bækurnar, pappír o.s.frv. Innpökkun bókanna o.s.frv. Styðjum við atvinnu á Íslandi, það er hagstætt fyrir íslenska hagkerfið.

Afrita slóð á umsögn

#3 Heiðar Ingi Svansson - 06.03.2019

Eftirfarandi eru athugasemdir stjórnar Félags íslenskra bókaúgefenda (Fíbút) kt. 560977-0269 við drög að reglugerð um stuðning við útgáfu bóka á íslensku sem samþykkt var á fundi stjórnar í dag 6. mars.

4. gr. Endurgreiðsluhæfur kostnaður.

Við gerum athugasemd við þessa grein sem er svona orðuð:

,,Eftirfarandi kostnaðarliðir sem falla til við útgáfuna á Íslandi, í öðrum löndum á EES-svæðinu innan EFTA eða í Færeyjum skulu teljast til endurgreiðsluhæfs kostnaðar bókaútgefanda samkvæmt reglugerð þessari, enda sé um að ræða kostnað sem telst frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt:

Hér er áréttað að endurgreiðsluhæfur kostnaður verði að falla til á Íslandi eða öðrum löndum innan EES svæðisins. Þrátt fyrir að sambærilegt ákvæði sé að finna í lögum og reglugerðum um endurgreiðslur vegna kvikmynda og tónlistar teljum við að staðan sé ólík í bókaútgáfu. Þannig höfum við ekki sömu tök á því að stýra í hvaða landi kostnaður fellur til í. Við gefum einfaldlega út þær bækur sem við teljum eiga erindi á íslenskan markað hvort sem að þær eru upprunalega gefnar út af útgefendum í löndum innan EES eða ekki. Töluvert af þýddum myndskreyttum barnabókum eru framleiddar í svokölluðu samprenti þar sem tiltekinn titill er framleiddur á mörgum tungumálum í einu. Erlendi útgefandinn eða rétthafinn selur útgáfuréttinn og prentunina í sama pakka, öfugt við hvernig hefðbundin framleiðsla fer fram. Í þeim tilfellum höfum við ekkert að segja um hvar viðkomandi bók er prentuð heldur er það erlendi viðsemjandinn sem stjórnar því alfarið. Í þessum viðskiptum er ekki algengt að eingöngu sé hægt að kaupa útgáfuréttinn og útgefandi ákveði sjálfur hvar sé prentað heldur verður að kaupa rétt og prentun saman. Þetta gæti því leitt til þess að stór hluti útgáfu myndskreyttra barnabóka falli utan við endurgreiðslukerfið.

Einnig eiga útgefendur töluverð viðskipti við útgefendur í Bandaríkjunum og kaupa af þeim útgáfurétt og framleiðslu bókanna. Að lokum verður að gera ráð fyrir að Brexit verði að veruleika og það væri bagalegt fyrir okkur ef að þau viðskipti sem eigum við breska útgefendur, sem eru veruleg, væru ekki endurgreiðsluhæf.

Fíbút leggur því til að landfræðilegar hindranir verði fjarlægðar úr reglugerðinni til þess að jafnræðis sé gætt milli útgefanda og tegunda bóka eða að minnsta kosti að ekki skipti máli hvar kostnaður vegna; prentunar, höfundarréttargreiðslna og flutningskostnaður, hvar sem hann fellur til, verði ekki í neinu tilviki útilokaður.

g) Eigin vinna. Hér teljum við að það þurfi að bæta við að útgefanda sé heimilt að reikna sér ein mánaðarlaun listamanna sé hann sjálfur þýðandi útgefinnar bókar á sama hátt og væri hann höfundur hennar.

5. gr. Kostnaður sem telst ekki endurreiðsluhæfur.

b) Okkur finnast óljós mörkin á milli þeirrar skilgreiningu hvað sé hugmyndavinna og samningaviðræður við höfunda áður en útgáfa er ákveðin. Talað er um vinnu á undirbúningsstigi „svo sem samningaviðræður“ við höfund og „önnur samskipti ... áður en útgáfusamningur liggur fyrir eða eftir að bók er gefin út“. Þetta finnst okkur óskýrt. Hvað er t.d. átt við með „eftir að bók er gefin út“ þ.e.a.s. hvaða samskipti eða greiðslur sem á að undanskilja er hér átt við?

Þessi grein er að okkar mati óskýr og óljóst við hvað er átt og hvað falli innan hennar eða utan. Við teljum vel réttlætanlegt að samningaviðræður um útgáfu við rétthafa falli utan endurgreiðslu og við bendum á að mestur hluti samskipta við höfund eftir gerð samnings er innan marka höfundalaunasamnings. Við getum þrátt fyrir það ekki tekið undir að „önnur samskipti“ falli utan skilgreiningarinnar leiði þau til kostaðar sem má gjaldfæra skv. lögum þar sem um er að ræða samskipti við höfund á framleiðslustigi og beintengd útgáfunni sjálfri.

c) Við áttum okkur ekki á þessu skilyrði og teljum að það þetta gangi ekki heldur upp frekar en liður b). Samkvæmt þessu þá er vinna og annar kostnaður við auglýsinga- og kynningarmál ekki endurgreiðsluhæfur sé hann unnin eða stofnað til hans fyrir útgáfu bókar eða eftir að fjórir mánuðir eru liðnir frá útgáfu bókar. Þetta þýðir með öðrum orðum að öll undirbúningsvinna vegna markaðs- og sölumála bóka þurfi að eiga sér stað eftir útgáfu bókar, sem er að okkar mati fjarri því sem almennt gerist þar sem markaðs- og söluáætlanir eru eðli málsins samkvæmt unnar fyrir útgáfu, en ekki eftir. Það er algengast að slíkt sé unnið áður en bókin kemur út þ.e.a.s að leggja drög og vinna að auglýsinga- og kynningarmálum.

Fíbút telur því ásættanlegt að halda tímaramma hvað fjóra mánuði eftir útgáfu varðar, en úr greininni verði fjarlægt: „... fram að útgáfu bókar“ enda ekki í samræmi við vinnulag bókaútgefenda. Án slíkrar breytingar er verið að leiða útgefendur inní umhverfi þar sem öllum markaðs- og sölumálum yrði frestað þar til eftir útgáfu, sem hefur óskýran tilgang. .

9. gr. Aðrir styrkir

Varðandi þessa grein teljum við að það þurfi að undirstrika það frekar að hér sé átt eingöngu við innlenda opinbera aðila. Setningin myndi þá verða orðuð svona: ,,Hafi umsækjandi hlotið styrk frá innlendum opinberum aðilum til útgáfu......”

Að lokum viljum við benda á að þegar bækur eru prentaðar erlendis þá er flutningskostnaður ekki endurgreiðsluhæfur kostnaður miðað við drög að reglugerð þegar varan er keypt FOB og útgefandi greiðir flutningskostnaðinn sjálfur. En ef sama vara væri keypt CIF þá er flutningsgjaldið innifalið í verðinu og ekki sundurliðað sérstaklega og sá kostnaður væri endurgreiðsluhæfur og þ.a.l. flutningsgjaldið líka. Þetta teljum við að þurfi að samræma þannig að flutningsgjald að hafnarbakka á bókum sem prentaðar eru erlendis bætist í öllum tilvikum við sem endurgreiðsluhæfur kostnaður.

Reykjavík 6. mars 2019

F.h. stjórnar Fíbút

Heiðar Ingi Svanssson

formaður

Afrita slóð á umsögn

#4 Huginn Þór Grétarsson - 06.03.2019

Undirritaður er útgefandi hjá Óðinsauga útgáfu ehf.

Óðinsauga útgáfa ehf. gaf út 47 bækur í fyrra og langflestar þeirra voru barnabækur.

Við fögnum frumvarpinu og heildaráhrifum.

En að sama skapi er mikilvægt að mismuna ekki útgefendum eftir því hvernig þeir haga rekstri sínum, með útfærslu kerfisins. M.v. núverandi reglugerð eru vankantar á, sem valda því að margar barnabækur munu ekki fá stuðning, sem og ójafnvægi milli þeirra útgefenda sem gefa út þekkta höfunda og þeirra sem gefa út nýja höfunda.

1

Að útgefendur geti fært til kostnaðar eigin vinnu á bæði eigin verk og verk sem þeir þýða sjálfir

Þeir útgefendur sem ekki hafa á sínum snærum marga metsöluhöfunda heldur bjóða upp á fjölbreytt úrval barnabóka, þurfa að haga kostnaðaraðhaldi með þeim hætti að kostnaði sé haldið í skefjum. Þetta gera flestir litlir og meðalstórir útgefendur með þeim hætti að útgefandinn sjálfur kemur að sem flestum stigum vinnslunnar. Reglugerðin tekur vel á því hvað varðar bækur sem útgefandi er jafnframt höfundur að, og er það vel. En það þyrfti einnig að vera liður sem tryggir að útgefandi geti skráð kostnað, ef hann þýðir sjálfur verkið. Þannig leggjum við til breytingu á 4gr. lið g sem verði þá svona eftir breytingu:

4gr. Liður g:

Eigin vinna, þ.e. eigin vinna bókaútgefanda ef hann er jafnframt höfundur eða þýðandi útgefinnar

bókar. Bókaútgefanda er heimilt að reikna sér laun sem samsvara einum

mánaðarlaunum listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um listamannalaun.

Eða bætt verði við nýjum lið:

h) Þýði útgefandi sjálfur verkið getur hann skráð kostnað á verkið sem samsvarar taxta RSÍ fyrir þýðingar m.v. orðafjölda verksins, eða, ef um barnabók er að ræða, fært kostnað sem nemur hálfum listamannalaunum á verkið.

2.

Krafa um lágmarkskostnað mismunar útgefendum

Reglugerðin kemur verst niður á útgefendum sem gefa nýjum höfundum tækifæri (skáldskapur eftir fullorðna o.s.frv.). Óðinsauga útgáfa ehf. hefur lagt kapp á að gefa nýjum höfundum tækifæri. Slíkar bækur seljast ekki í mörgum eintökum. Þannig eru rithöfundarlaun ekki stór kostnaðarliður. Þegar útgefandi gefur út bók sem er ólíkleg til að seljast vel, er allt kapp lagt á að halda kostnaði niðri. Við höfum í þessu samhengi fundið mjög góða samstarfsaðila til að prenta bækurnar á hagkvæmum verðum. Slíkar bækur er ekki hægt, eðli málsins samkvæmt, að auglýsa mikið enda standa þær ekki undir sér. Viðmiðunartalan 1 milljón mun þýða það að stærri forlög með þekkta höfunda standa mun betur að vígi en útgefandi eins og Óðinsauga sem gefur út nýja höfunda þar sem öllum kostnaði er haldið í lágmarki. Kostnaður við hverja bók er umtalsvert lægri enda væri ella ógerlegt að gefa út óþekkta höfunda. Öll vinna er unnin innanhúss fyrir utan prentun. Telur undirritaður að það sé ekki gott ef reglugerðin mismuni með þessum hætti aðilum á markaði. Að það sé í raun verið að gera alla nýliðun óhagkvæmari með þessu viðmiði um lágmarkskostnað.

Varðandi barnabækur, þá er 500.000 kr. lágmark of hátt. Vissulega eru dæmi um bækur sem kosta rúmar 2 milljónir, en það eru líka dæmi um bækur sem kosta 250.000 kr. Má nefna dæmi um litlar léttlestrarbækur, sem einmitt þurfa á stuðningi að halda. Oft kaupa útgefendur 4 bækur saman og láta þýða. Síðan eru bækurnar prentaðar í samprenti. Heildarkostnaður 4 smábóka, 16 blaðsíður, gæti verið í kringum 500.000, svo hver og ein bók myndi ekki ná þeim kostnaði sem reglugerðin miðar við. Engu að síður er um mikilvæga útgáfu að ræða sem ætti að njóta sama stuðnings og aðrar bækur.

Sömu sögu er að segja af íslenskum léttlestrarbókum sem Óðinsauga útgáfa gefur út. Þær eru prentaðar ca. 4 saman og ná ekki kostnaðinum sem um ræðir, sér í lagi þar sem útgefandi sjálfur sér um stærstan hluta vinnunnar.

Lagt er til að flokki barnabóka verði ekkert lágmark kostnaðar. Þannig væri best tryggt sem kröftugasta útgáfu fyrir framtíðarlesendur landsins. Nú þegar eru vandkvæði háð því hve lítil útgáfa er á barnabókum og ungmennabókum. Það ætti með öllum ráðum að ýta undir fjölbreytni og kröftugri útgáfu barnabóka. Lágmarkskrafa innan þessa mikilvæga bókmenntaflokks yrði ekki til góðs.

Lagt er til að lágmark v. skáldsögu verði 500.000. -

Til vara er lagt til að hægt verði að senda inn eina eða fleiri bækur saman til afgreiðslu, innan sama bókaflokks. Þannig verði hægt að leggja inn umsókn um endurgreiðslu þegar kostnaður við 2 útgefnar bækur hefur náð 1 milljón kostnaði.

Ef þessi lágmarksviðmið verða óbreytt verður mikil mismunun á milli útgefenda og mun Óðinsauga standa verr að vígi í samkeppni við aðra aðila á markaði.

3.

Kostnaðarendurgreiðsla – takmarkanir við EES/Efta/Færeyjar óhentugt fyrir bókaútgáfu

Varðandi þetta atriði er ekki hægt að leggja til jafns starfsemi fyrirtækja innan kvikmyndagerðar og fyrirtækja í bókaútgáfu. Kostnaðstaðir bókaútgefenda við þýddar bækur dreifast mun víðar og eru útgefendur ekki í stöðu til að stýra því hvar kostnaðarupptökin verða, líkt og væri hægt í kvikmyndagerð. Bókaútgefendur eiga í samstarfi við stóra útgefendur bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi og mikilvægt að stuðningur nái líka til réttindakaupa þaðan.

Lagt er til að endurgreiðsla kostnaðar vegna bóka útgefnum á íslensku verði ekki háð uppruna kostnaðar.

Til vara er lögð til eftirfarandi breyting á 4gr. Inngangstexta:

Eftirfarandi kostnaðarliðir sem falla til við útgáfuna á Íslandi, í öðrum löndum á EES svæðinu

innan EFTA, Bretlands, Bandaríkjanna eða í Færeyjum skulu teljast til endurgreiðsluhæfs kostnaðar bókaútgefanda samkvæmt reglugerð þessari, enda sé um að ræða kostnað sem telst

frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt:

Með ofangreindum breytingum má sníða kerfið betur að íslenskum bókaútgefendum. Við fögnum þessu mikilvæga og nauðsynlega framtaki ríkisstjórnarinnar til að ýta undir bókaútgáfu á örmarkaðinum Íslandi. Þetta mun skipta sköpum fyrir lesendur framtíðarinnar.

Huginn Þór Grétarsson

Útgefandi hjá Óðinsauga

Afrita slóð á umsögn

#5 Félag rétthafa í sjónvarps og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) - 07.03.2019

Vísað er til máls nr. S-57/2019 í samráðsgátt stjórnvalda, Ísland.is, en með því var leitað eftir umsögnum um drög að reglugerð um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.

Í viðhengi má finna umsögn þessi er send af hálfu FRÍSK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði og SVÞ, Samtök verslunar og þjónustu.

Virðingafyllst,

Hallgrímur Kristinsson, formaður FRÍSK

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Huginn Þór Grétarsson - 07.03.2019

Undirritaður er útgefandi hjá Óðinsauga.

Til viðbótar við fyrri athugasemdir mínar velti ég upp einu atriði er varðar kostnað og tímaramma til að skila inn umsókn.

Flestir útgefendur notast við útgáfusamning FÍBÚT og RSÍ, eða einhverja svipaða samninga. Þar eru höfundarlaun reiknuð sem ákveðin prósenta af sölu. Uppgjör skv. slíkum samningi fer yfirleitt fram árið eftir. M.v. þær forsendur sem eru í reglugerðinni varðandi umsókn um endurgreiðslu og þann tímaramma sem er á því sbr. texta úr 3gr.: "Umsókn skal berast í síðasta lagi níu mánuðum eftir útgáfu bókar sem sótt er um endurgreiðslu fyrir." þá er óljóst hvort greiðslur til höfundar (kostnaður) liggi fyrir í öllum tilfellum.

Sem dæmi. Fyrir bók sem kemur út núna í mars 2019 þarf að skila inn umsókninni 9 mánuðum síðar eða í desember 2019. Þá verður hinsvegar ekki uppgjöri lokið fyrir árið 2019 gagnvart höfundi (gert upp m.v. árssölu 2019 á vormánuðum 2020).

Mætti hugsa sér að lengja tímarammann sem útgefendur hafa til að skila inn umsókn til að mæta þessu eða gefa möguleikann á að skila inn áætlun um höfundarlaun, sem væri svo endurskoðuð. Enn ein leiðin væri að gefa færi á að færa til kostnaðar einhverja fasta áætlaða greiðslu til höfundar í þeim tilfellum þar sem uppgjöri gagnvart höfundi er ekki lokið.

Huginn Þór Grétarsson

Útgefandi hjá Óðinsauga

Afrita slóð á umsögn

#7 Georg Páll Skúlason - 07.03.2019

Góðan dag,

F.h. GRAFÍU stéttarfélags í prent- og miðlunargreinum fagna ég stuðningi víð bókina og bókaútgáfu í landinu. Mikilvægt er í þessu samhengi þegar veita á styrki til að efla útgáfu íslenskra bóka að horfa til þess að vinnsla á öllu ferlinu þegar bók verður til sé innanlands. Fyrir liggur að fagþekking sem felst í hönnun, umbroti, prentun og bókbandi er öll til staðar innan lands. Undanfarin ár hefur stór hluti bóka sem gefinn hefur verið út verið unninn á Íslandi og víst er að prentiðnaður hefur þjónustað bókaútgáfur um margra ára skeið og átt mjög stóran þá í því að bókaútgáfa hefur verið svo blómleg á Íslandi. Nú hefur sú þróun færst stórlega í aukana að bækur eru unnar erlendis sem leitt hefur til þess að prentsmiðjur hafa ekki séð sér fært að fjárfesta í tækjabúnaði til að mögulegt sé að framleiða bækur af sama krafti og áður.

Því er mikilvægt við þessa ákvörðun um styrkveitingu að skilyrða styrki við innanlands framleiðslu. Þar vísa ég til að breyta þarf 1. gr. um gildissvið og einnig 4. gr. þar sem vísað er til þess að vinnsla geti einnig verið á EES svæðinu innan EFTA eða í Færeyjum.

F.h. stjórnar GRAFÍU stéttarfélags í prent- og miðlunargreinum.

Georg Páll Skúlason, formaður

Viðhengi