Samráð fyrirhugað 25.02.2019—11.03.2019
Til umsagnar 25.02.2019—11.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 11.03.2019
Niðurstöður birtar 22.03.2019

Drög að frumvarpi til laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttar

Mál nr. 67/2019 Birt: 25.02.2019 Síðast uppfært: 25.03.2019
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál
  • Fjölmiðlun

Niðurstöður birtar

Niðurstaða málsins er í stuttu máli sú að ein umsögn barst fyrir lok frestar sem þótti ekki gefa tilefni til breytinga á frumvarpsdrögunum. Þar að auki barst umsögn eftir lok frestar sem gaf tilefni til að bæta við einu ákvæði. Sjá lengri texta um niðurstöður í fylgiskjali.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 25.02.2019–11.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.03.2019.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp til laga um starfshætti sameiginlegra umsýslustofnana sem starfa í þágu rétthafa höfundarréttar. Markmið frumvarpsins er að bæta starfshætti rétthafasamtaka.

Mennta- og menningarmálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp til laga um starfshætti sameiginlegra umsýslustofnana sem starfa í þágu rétthafa höfundarréttar. Markmið frumvarpsins er að bæta starfshætti rétthafasamtaka, sem teljast sameiginlegar umsýslustofnanir, með því að setja samræmdar reglur um stjórnhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag þeirra. Reglurnar eiga að tryggja viðeigandi þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli sameiginlegra umsýslustofnana og upplýsingaflæði til rétthafa, annarra rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og alls almennings. Þá eiga reglurnar að tryggja að umsýsla tekna sem sameiginlegar umsýslustofnanir innheimta fyrir hönd rétthafa sé í samræmi við lög. Með frumvarpinu er einnig stefnt að því að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af sameiginlegum umsýslustofnunum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.

Frumvarpið skiptist í 9 kafla sem endurspegla efni þess. Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um gildissvið og skilgreiningar. Þar er tekið fram að frumvarpið taki til allra sameiginlegra umsýslustofnana með staðfestu hér á landi. Sameiginleg umsýslustofnun telst hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur, sem sitt eina eða helsta hlutverk, umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þessa rétthafa og er, annað hvort eða bæði, í eigu eða undir yfirráðum félagsmanna sinna og ekki starfrækt í hagnaðarskyni. Í öðrum kafla frumvarpsins er fjallað um réttindi rétthafa, aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana, réttindi rétthafa sem ekki eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar, hlutverk aðalfundar og eftirlit með forsvarsmönnum sameiginlegra umsýslustofnana og skyldur þeirra. Þriðji kafli frumvarpsins fjallar um umsýslu tekna af réttindum og setur reglur um innheimtu og not tekna, um leyfilegan frádrátt frá teknum áður en þeim er úthlutað til rétthafa, um úthlutun til rétthafa og hvernig með skuli fara ef ekki er unnt að finna rétthafa sem hefur fengið úthlutað af réttindatekjum. Fjórði kafli frumvarpsins fjallar um umsýslu réttinda af hálfu einnar sameiginlegrar umsýslustofnunar fyrir hönd annarrar á grundvelli fyrirsvarssamninga. Þar er m.a. fjallað um hvernig staðið skuli að greiðslum og frádrætti frá innheimtum tekjum vegna slíkrar umsýslu. Fimmti kafli frumvarpsins fjallar um gagnsæi starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana og skýrslugjöf þeirra og upplýsingaskyldu. Fimmti kafli frumvarpsins fjallar um ábyrgðarskiptingu á milli sameiginlegrar umsýslustofnana og félagsaðila þeirra þegar slíkir félagsaðilar eru samtök rétthafa og þeim síðarnefndu er falin úthlutun og útborgun réttindagreiðslna og samantekt gagnsæisskýrslu. Sjöundi kafli frumvarpsins fjallar um leyfisveitingar sameiginlegra umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Þar er fjallað um skilyrði þess að sameiginleg umsýslustofnun geti gefið út slík leyfi, upplýsingaskyldu stofnunarinnar um fyrirsvar tónverka sem nýtt eru á netinu, reglur um reikningsgerð og úthlutun innheimtra tekna, samninga á milli sameiginlegra umsýslustofnana um leyfisveitingar vegna fjölþjóðlegrar nýtingar á tónverkum á netinu, um aðgang rétthafa að leyfisveitingum yfir landamæri og að lokum um undanþágu frá réttindum til netnotkunar á tónverkum yfir hljóðvarp- og sjónvarpsefni. Áttundi kafli frumvarpsins fjallar um meðferð deilumála, eftirlit og viðurlög. Níundi kafli frumvarpsins, sem er jafnframt lokakafli, tiltekur að um EES innleiðingu sé að ræða, gildistökuákvæði og breytingar á höfundalögunum vegna innleiðingar tilskipunarinnar.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Myndhöfundasjóður Íslands - 07.03.2019

Nefndarsvið Alþingis

EFNI: Umsögn frá Myndstef vegna frumvarps til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar (í vinnslu) dags. 25. febrúar 2019.

Myndstef hefur fengið til umsagnar frá Menntamálaráðuneytinu frumvarp um sameiginlega umsýslu höfundaréttar. Frumvarpið er í vinnslu, og er dagsett 25. febrúar 2019. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/26/ESB.

Myndstef fagnar ofangreindu frumvarpi, og þeim skrefum er frumvarpið fer í að setja skýrari reglur og viðmið um skyldur og réttindi sameiginlegra umsýslustofnanna, ríkari ábyrgðarskyldur og kröfur er varða fjárhagsstjórn og skýrslugjöf, og skýrari reglur um gagnsæi. Myndstef fagnar því frelsi sem rétthöfum er gefið með frumvarpinu, sem og ríkara aðgang rétthafa að ákvarðanatökum og leiðum að jafnræði og sanngirni. Er frumvarp þetta í takt við tíðarandann og framþróun höfundaréttar á Íslandi, réttindavörslu höfunda og dreifingu menningar og lista almennt.

Myndstef hefur nokkrar spurningar varðandi framkvæmd og/eða nánari útfærslu á einstökum ákvæðum lagafrumvarpsins. Þær eru eftirfarandi:

1. Aðildarskrá

Myndstef setur spurningu við 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins, sem kveður á um að umsýslustofnun skuli halda skrá yfir félagsaðila sína og uppfæra þá skrá. Ekki er ljóst af ákvæðinu hvort skrá þessi þurfi að vera opinber eður ei (eins og t.d. aðgengileg á heimsíðu stofnunar). Myndstef uppfærir félagaskrá sína árlega fyrir aðalfund ár hvert, en um það bil 2500 félagar eru í Myndstef. Hingað til hefur þessi félagaskrá verið einungis aðgengileg á skrifstofu Myndstefs á skrifstofutíma, enda hefur hún að geyma persónuupplýsingar. Aðildarfélög Myndstef bera einnig skyldu til að skila uppfærðum félagaskráum til Myndstefs fyrir aðalfund ár hvert (fyrir 1. mars ár hvert, nánar tiltekið). Að lokum hefur heimasíða Myndstef einnig að geyma upplýsingar um það hvert skuli leita ef spurningar vakna um aðild, og er þeim fyrirspurnum svarað eins fljótt og hægt er. Myndstef telur að með þessum aðgerðum sé félagaskrá samtakanna nægilega aðgengileg og uppfærð.

2. Eftirlit

Í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að hver sá sem gegnir eftirlitshlutverki skuli leggja fram árlegt yfirlit um hagsmunaárekstra. Sú eining sem gegnir eftirlitshlutverki Myndstefs samanstendur af 19 fulltrúum, og nær yfir flest fagsvið innan sjónlista. Aðilar þessir sinna eftirlitsskyldu sinni fyrir hönd sinnar fagstéttar, einungis með hugsjón að leiðarljósi og án endurgreiðslu eða launa. Myndstef verður að gera athugasemd við þessa skyldu þar sem hún telst of íþyngjandi í þessu samhengi. Leggur Myndstef til að hver eftirlitsaðili þurfi að skila inn ofangreindu yfirliti einu sinni, eða þegar viðkomandi tekur við stöðu sinni, og þurfi svo að tilkynna það munnlega eða skriflega á aðalfundi ár hvert ef þessar upplýsingar hafa eitthvað breyst.

3. Úrskurður deilumála, sbr. VII. kafla frumvarpsins

Myndstef setur athugasemd við skort á þeim leiðum til handa rétthöfum, notendum og umsýslustofnun til að öðlast skjótvirka og sanngjarna úrlausn mála sinna, óháð dómstólum. Skortur á úrlausnum hvað varðar höfundaréttarmál almennt - innheimta fylgiréttar, innheimta höfundagreiðslna vegna einstaka notkunar annars vegar og vegna notkunar byggða á samningskvöð hins vegar, sem og fullnusta réttinda, úrræði við vanefndum og deilumál vegna fjárhæða þóknunar eru oft erfið úrlausnar, bæði fyrir umsýslustofnanir, notendur og höfunda. Að auki grefur þessi skortur á úrræðum undir starfsemi umsýslustofnana og einnig undan reglum og lögum. Ef úrræði eru ekki sanngjörn og jafnvel eru ekki fyrir hendi missa lagaákvæði eða reglur þunga sinn og tilgang. Starfsemi Myndstefs byggir á íslenskum höfundalögum nær eingöngu, og ef upp kemur ágreiningur „festist“ mál gjarnan því óljóst er um úrræði eða hvaða tækjum eða leiðum ætti að beita til að fá úrlausn mála. Dómstólaleiðin er að sjálfsögðu fær, en hún er löng og ströng og virkar hamlandi. Notendur kjósa jafnvel fremur að sleppa því að nota myndverk en að reyna að semja um notin. Stundum hefur Myndstef sett ákvæði um úrlausn ágreiningsmála í samninga við stórnotendur, og sniðið þau ákvæði að hverjum og einum notenda, enda jafnvel ljóst að úrlausn slíkra mála verði mun betur fengin með framlagi sérfræðinga, höfunda og listamanna, sem og leikmanna og lögfræðinga í höfundarétti, en fyrir dómstólum. Eins hefur slíkur varnagli í samningum virkað sem hvatning til samningsgerðar fyrir notendur, að það sé hægt að leggja ágreiningsmál fyrir óháða sérfræðinga, sem láta sér málið varða. Eflaust væri betra að víkka enn hlutverk úrskurðarnefndar þeirra sem er nú þegar í lögum og getið er um í 57. gr. höfundalaga, til að tryggja að rétthafar hljóti svipaða málsmeðferð og til að tryggja traust rétthafa og notenda enn meir, amk í sérstökum málum.

Reykjavík, 7. mars 2019

Virðingarfyllst,

Myndstef

Afrita slóð á umsögn

#2 STEF - 21.03.2019

Umsögn STEFs um drög að frumvarpi til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar.

Viðhengi