Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 25.2.–11.3.2019

2

Í vinnslu

  • 12.–21.3.2019

3

Samráði lokið

  • 22.3.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-67/2019

Birt: 25.2.2019

Fjöldi umsagna: 2

Drög að frumvarpi til laga

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Drög að frumvarpi til laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttar

Niðurstöður

Niðurstaða málsins er í stuttu máli sú að ein umsögn barst fyrir lok frestar sem þótti ekki gefa tilefni til breytinga á frumvarpsdrögunum. Þar að auki barst umsögn eftir lok frestar sem gaf tilefni til að bæta við einu ákvæði. Sjá lengri texta um niðurstöður í fylgiskjali.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp til laga um starfshætti sameiginlegra umsýslustofnana sem starfa í þágu rétthafa höfundarréttar. Markmið frumvarpsins er að bæta starfshætti rétthafasamtaka.

Nánari upplýsingar

Mennta- og menningarmálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp til laga um starfshætti sameiginlegra umsýslustofnana sem starfa í þágu rétthafa höfundarréttar. Markmið frumvarpsins er að bæta starfshætti rétthafasamtaka, sem teljast sameiginlegar umsýslustofnanir, með því að setja samræmdar reglur um stjórnhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag þeirra. Reglurnar eiga að tryggja viðeigandi þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli sameiginlegra umsýslustofnana og upplýsingaflæði til rétthafa, annarra rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og alls almennings. Þá eiga reglurnar að tryggja að umsýsla tekna sem sameiginlegar umsýslustofnanir innheimta fyrir hönd rétthafa sé í samræmi við lög. Með frumvarpinu er einnig stefnt að því að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af sameiginlegum umsýslustofnunum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.

Frumvarpið skiptist í 9 kafla sem endurspegla efni þess. Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um gildissvið og skilgreiningar. Þar er tekið fram að frumvarpið taki til allra sameiginlegra umsýslustofnana með staðfestu hér á landi. Sameiginleg umsýslustofnun telst hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur, sem sitt eina eða helsta hlutverk, umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þessa rétthafa og er, annað hvort eða bæði, í eigu eða undir yfirráðum félagsmanna sinna og ekki starfrækt í hagnaðarskyni. Í öðrum kafla frumvarpsins er fjallað um réttindi rétthafa, aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana, réttindi rétthafa sem ekki eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar, hlutverk aðalfundar og eftirlit með forsvarsmönnum sameiginlegra umsýslustofnana og skyldur þeirra. Þriðji kafli frumvarpsins fjallar um umsýslu tekna af réttindum og setur reglur um innheimtu og not tekna, um leyfilegan frádrátt frá teknum áður en þeim er úthlutað til rétthafa, um úthlutun til rétthafa og hvernig með skuli fara ef ekki er unnt að finna rétthafa sem hefur fengið úthlutað af réttindatekjum. Fjórði kafli frumvarpsins fjallar um umsýslu réttinda af hálfu einnar sameiginlegrar umsýslustofnunar fyrir hönd annarrar á grundvelli fyrirsvarssamninga. Þar er m.a. fjallað um hvernig staðið skuli að greiðslum og frádrætti frá innheimtum tekjum vegna slíkrar umsýslu. Fimmti kafli frumvarpsins fjallar um gagnsæi starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana og skýrslugjöf þeirra og upplýsingaskyldu. Fimmti kafli frumvarpsins fjallar um ábyrgðarskiptingu á milli sameiginlegrar umsýslustofnana og félagsaðila þeirra þegar slíkir félagsaðilar eru samtök rétthafa og þeim síðarnefndu er falin úthlutun og útborgun réttindagreiðslna og samantekt gagnsæisskýrslu. Sjöundi kafli frumvarpsins fjallar um leyfisveitingar sameiginlegra umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Þar er fjallað um skilyrði þess að sameiginleg umsýslustofnun geti gefið út slík leyfi, upplýsingaskyldu stofnunarinnar um fyrirsvar tónverka sem nýtt eru á netinu, reglur um reikningsgerð og úthlutun innheimtra tekna, samninga á milli sameiginlegra umsýslustofnana um leyfisveitingar vegna fjölþjóðlegrar nýtingar á tónverkum á netinu, um aðgang rétthafa að leyfisveitingum yfir landamæri og að lokum um undanþágu frá réttindum til netnotkunar á tónverkum yfir hljóðvarp- og sjónvarpsefni. Áttundi kafli frumvarpsins fjallar um meðferð deilumála, eftirlit og viðurlög. Níundi kafli frumvarpsins, sem er jafnframt lokakafli, tiltekur að um EES innleiðingu sé að ræða, gildistökuákvæði og breytingar á höfundalögunum vegna innleiðingar tilskipunarinnar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa laga og stjórnsýslu

postur@mrn.is