Samráð fyrirhugað 25.02.2019—11.03.2019
Til umsagnar 25.02.2019—11.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 11.03.2019
Niðurstöður birtar 22.03.2019

Drög að frumvarpi um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum

Mál nr. 69/2019 Birt: 25.02.2019 Síðast uppfært: 25.03.2019
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Fjölmiðlun
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Niðurstaða samráðs er sú að engin formleg umsögn barst. Hins vegar kom ábending frá forsætisráðuneytinu um að rétt uppsetning frumvarpsins væri sem frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum. Af þeim ástæðum var nafni frumvarpsins breytt og er nú: Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (innleiðing reglugerðar, um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum).

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 25.02.2019–11.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.03.2019.

Málsefni

Markmið frumvarpsins er að tryggja að einstaklingar sem ferðast á milli landa innan evrópska efnahagssvæðisins og dvelja þar tímabundið geti nýtt sér áskrift að stafrænu efni sem þeir hafa keypt í sínu heimalandi.

Mennta- og menningarmálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp til laga um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum. Markmið frumvarpsins er að tryggja að einstaklingar sem ferðast á milli landa innan evrópska efnahagssvæðisins og dvelja þar tímabundið geti nýtt sér áskrift að stafrænu efni sem þeir hafa keypt í sínu heimalandi. Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

Lagt er til að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018 verði gild lög að íslenskum rétti. Reglugerðin miðar að því að fjarlægja hindranir á því að neyt¬endur geti notið þjónustu frá efnisveitum, sem þeir eru áskrifendur að, eða geti fengið aðgang að efni, sem þeir hafa áður keypt eða leigt í heimalandi sínu, þegar þeir ferðast í til annarra aðildarríkja og dveljast þar tímabundið. Það er gert með því að skylda veitanda efnisveituþjónustu á netinu sem veitt er gegn greiðslu að gera áskrifanda, sem er tímabundið staddur í aðildarríki, kleift að fá aðgang að efnisveituþjónustunni á netinu og nota hana á sama hátt og í búsetuaðildarríki hans, þ.m.t. með því að veita aðgang að sama efni, fyrir sömu tegundir og sama fjölda tækja, fyrir sama fjölda notenda og með sams konar virkni, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Til þess að gera þjónustuveitandanum kleift að uppfylla þessa skyldu er kveðið á um í 4. gr. reglugerðarinnar að efnisveituþjónusta á netinu, aðgangur og notkun hennar, til áskrifanda sem er tímabundið staðsettur í öðru aðildarríki en sínu búseturíki, skuli samkvæmt reglugerðinni, eingöngu teljast fara fram í búsetuaðildarríki áskrifandans. Þetta skiptir máli varðandi höfundaréttindi og beitingu þeirra og mögulegra ákvæða í leyfissamningum sem bundnir eru við ákveðin landsvæði. Ákvæði greinarinnar leiða til þess að notkun höfundaréttarvarins efnis sem á sér stað þegar efnisveituþjónustan veitir aðgang að því telst einungis eiga sér stað í því landi sem áskrifandi hefur fasta búsetu, ekki í því landi sem hann dvelur tímabundið. Þjónustuveitanda efnisveitu á netinu er gert skylt að sannprófa búsetuaðildarríki áskrifandans, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta skilyrði er sett til að rétthafar geti sinnt eftirliti með notum verka sinna. Ákvæði 6. gr. reglugerðarinnar kveður á um að sá sem veitir efnisveituþjónustu á netinu án þess að fá greitt fyrir geti ákveðið að veita áskrifendum sem eru tímabundið staddir í aðildarríki möguleika á að hafa aðgang að og nota efnisveituþjónustuna á netinu með því skilyrði að veitandinn sannreyni búsetuaðildarríki áskrifandans í samræmi við reglugerðina. Ekki er hægt að takmarka rétt neytenda skv. reglugerðinni með samningum, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar. Vernd persónuupplýsinga skal tryggð skv. ákvæðum 8. gr. reglugerðarinnar. Þá er kveðið á um í 9. gr. að skylda til að veita aðgang að efnisveitu á netinu yfir landamæri skv. reglugerðinni taki einnig til fyrirliggjandi samninga og áunninna réttinda fyrir gildistöku hennar.