Samráð fyrirhugað 26.02.2019—11.03.2019
Til umsagnar 26.02.2019—11.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 11.03.2019
Niðurstöður birtar 06.08.2019

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu.

Mál nr. 70/2019 Birt: 26.02.2019 Síðast uppfært: 06.08.2019
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður birtar

Engar umsagnir bárust. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í framhaldinu en náði ekki fram að ganga.https://www.althingi.is/altext/149/s/1199.html

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 26.02.2019–11.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.08.2019.

Málsefni

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Heimildir laganna til kvörtunar skýrðar nánar og málsmeðferð í kvörtunarmálum einfölduð.

Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á 12. gr. laga nr. 41/2007 sem hefur það markmið að einfalda og skýra málsmeðferð innan embættis landlæknis í kvörtunarmálum. Er frumvarpinu ætlað að hafa þau áhrif að embættinu verði gert auðveldara að greina þær kvartanir sem krefjast aðgerða af hálfu embættisins til að tryggja öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar. Með frumvarpinu er lögð sérstök áhersla á tilgang og hlutverk embættis landlæknis sem eftirlitsstofnunar og breytingar á 12. gr. lagðar til með það að leiðarljósi.

Í frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. haldist efnislega nokkuð óbreytt en þó er skerpt á tilgangi ákvæðisins og hann tekinn sérstaklega fram. Í ákvæðinu kemur fram að landlæknir sinni kvörtunum og erindum vegna heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar. Þá er tekið fram að landlæknir leiðbeini þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Er þetta gert til að undirstrika hlutverk embættis landlæknis í því að greina þær kvartanir og þau erindi sem honum berast og leiðbeina einstaklingum ef erindin eru þess eðlis að þau eigi frekar erindi við stofnunina sem um ræðir.

Í 2. og 3. mgr. greinarinnar er tekinn af allur vafi um hverjum sé heimilt að kvarta til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Eru þetta bæði sjúklingar og nánir aðstandendur látinna sjúklinga, svo sem maki, foreldri eða afkomandi. Ljóst er að aðrir aðilar, til dæmis stofnanir eða einstaklingar, geta þrátt fyrir 2. mgr. sent landlækni erindi þar sem komið er á framfæri ábendingum eða athugasemdum um heilbrigðisþjónstuna. Landlæknir greinir slík mál og metur hvort tilefni er til að skoða málin nánar. Ef landlæknir metur mál þannig að aðhafast þurfi frekar til að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu þá myndu slík mál fara í farveg sem byggist á 13. og 7. gr. laganna en yrðu ekki meðhöndluð á grundvelli 12. gr. laganna.

Í 4. mgr. er fjallað um formsatriði tengd kvörtun, þ.e. að hún skuli vera skrifleg og að í henni skuli koma fram hvert sé tilefni hennar. Einnig eru tímamörk til að kvarta að finna í ákvæðinu en lagt er til að tímafrestur gildandi laga verði styttur og að kvörtun þurfi að koma fram innan fimm ára frá því að atvik gerðist sem kvartað er undan. Þó er landlækni heimilt að taka kvörtun til meðferðar séu fimm ár liðin, ef sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar. Í 5. mgr. er síðan fjallað um meðferð kvörtunar innan embættis landlæknis, en lagt er til að landlækni sé gert að fjalla um allar kvartanir og ljúka máli með því að kvartandi sé upplýstur um niðurstöðu máls. Landlækni er gert að meta hvort upplýsa skuli þann aðila sem kvartað er undan eða hvort beita skuli ákvæðum II. eða III. kafla laganna til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar. Er í framhaldinu tekið fram að um aðgang að sjúkraskrá gildi ákvæði laga um sjúkraskrár. Í 6. mgr. er síðan tekið fram að ábendingum um aðbúnað sjúklinga eða aðra aðstöðu innan stofnunar eða starfsstöðvar skuli beint til viðkomandi. Er ákvæðið efnislega í samræmi við ákvæði 28. gr. laga um réttindi sjúklinga en lögð er til smávægileg breyting á því ákvæði til að tryggja samræmi.