Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 26.2.–10.3.2019

2

Í vinnslu

  • 11.3.–19.5.2019

3

Samráði lokið

  • 20.5.2019

Mál nr. S-71/2019

Birt: 26.2.2019

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Drög að frumvarpi til laga um dreifingu vátrygginga og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga.

Niðurstöður

Drög að frumvörpunum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 26. febrúar 2019. Frestur til umsagna var til 10. mars 2019. Ein umsögn barst, frá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF), dags. 8. mars 2019. Athugasemdir við frumvarp um dreifingu vátrygginga voru eftirfarandi: Í umsögninni er gerð athugasemd við að ekki sé nægilega skýrt að átt sé við vátryggingafjárhæð í 2. mgr. 12. gr. þar sem fjallað erum starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlara. Þá telja samtökin að rétt sé að vátryggingamiðlara sem kjósi að hafa aðra tryggingu en starfsábyrgðartryggingu verði einnig skylt að birta þær upplýsingar á vef sínum, sbr. 4. mgr. 12. gr. Framangreindum ákvæðum var breytt í frumvarpinu til samræmis við tillögur SFF. Í umsögninni er farið yfir hugtakið dreifing vátrygginga og telur SFF mikilvægt að í greinargerð verði umfjöllun um hvar neðri mörk hugtaksins liggja til að koma í veg fyrir að ákvæðið verði túlkað á þann veg að fella aðila undir hugtakið sem ættu ekki eðli málsins samkvæmt að falla undir það. Mikilvægt sé að ekki verði litið svo á að lítil snerting við viðskiptavini, t.d. þjónusturáðgjöf í símaveri eða fyrirtæki sem bendir á tiltekið vátryggingafélag án þess þó að veita ráðgjöf um vátryggingar, falli undir hugtakið. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ákvæði tilskipunarinnar eigi ekki að gilda um starfsemi þar sem veitt er tilfallandi ráðgjöf um vátryggingar með annarri þjónustu og sem dæmi um slíka þjónustu sé þjónusta lögmanna og endurskoðenda sem veita ráðgjöf. Þá gildi tilskipunin ekki um almenna upplýsingagjöf um vátryggingar að því gefnu að tilgangur starfseminnar sé hvorki að aðstoða við gerð vátryggingarsamnings né að efna hann. Til skýrleika var bætt við umfjöllun í athugasemdum við 3. gr. hvaða starfsmenn vátryggingafélaga falla undir hugtakið dreifing. Athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á vátryggingarsamninga eru eftirfarandi: Í umsögninni kemur fram að mikilvægt sé að tryggja að löggjöf standi ekki í vegi fyrir þróun í átt að auknum rafrænum viðskiptum á vátryggingamarkaði. Vísað er til 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að heimilt verði að veita upplýsingar á varanlegum miðli öðrum en pappír ef það er viðeigandi vegna viðskiptanna og vátryggingartaki kýs að fá upplýsingarnar með þeim hætti. SFF tiltekur að unnt sé að skilja málsgreinina á þann hátt að upplýsingar geti aðeins verið afhentar á varanlegum miðli öðrum en pappír ef fyrir liggur samþykki viðskiptavinar og taka þurfi fram í greinargerð að heimilt sé að veita upplýsingar á rafrænu formi án þess að sérstakt samþykki þurfi að liggja fyrir. Af þessu tilefni er vakin athygli á því að í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að veita upplýsingar á varanlegum miðli öðrum en pappír ef vátryggingartaki kjósi að fá upplýsingar með þeim hætti. Með öðrum orðum verður vátryggingartaki að samþykkja það að fá upplýsingar afhentar á varanlegum miðli. Ákvæðið er í samræmi við b-lið 4. mgr. 23. gr. tilskipunar 2016/97/ESB þar sem það skilyrði er sett að til að unnt sé að afhenda vátryggingartaka upplýsingar á varanlegum miðli skuli hann hafa valið sjálfur að fá upplýsingarnar á því formi. Orðalagi ákvæðisins var breytt til að gera það skýrara ásamt athugasemdum með ákvæðinu. Þá er í umsögninni vísað til 13. gr. vegna ákvæðis um vátryggingarskírteini þar sem SFF telur með vísan til 8. gr. að afhending vátryggingarskírteinis eigi að geta verið á varanlegum miðli án sérstaks samþykkis vátryggingartaka. Miðað við efni tilskipunarinnar um að samþykki vátryggingartaka þurfi til að koma svo unnt sé að veita upplýsingar á varanlegum miðli þótti við samningu frumvarpsins ekki tilefni til að ganga lengra vegna afhendingar á vátryggingarskírteini og gildir því sú meginregla áfram að vátryggingartaki skuli gefa samþykki fyrir slíkum samskiptamáta. Athugasemdum með ákvæði 13. gr. var breytt til að auka skýrleika að þessu leyti. Að lokum kemur fram í umsögn SFF að í frumvörpunum felist umfangsmiklar breytingar sem kalli á undirbúning hjá vátryggingafélögunum, m.a. breytingar á skilmálum. Því sé nauðsynlegt að aðilum sem falla undir frumvarpið verði veittur nægur tími til að laga sig að breyttu lagaumhverfi. SFF leggja til að gildistöku frumvarpsins verði frestað í að minnsta kosti sex mánuði. Tilskipun 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands sem þýðir að Ísland hefur sex mánaða frest frá töku ákvörðunarinnar til að aflétta fyrirvaranum. Gert er ráð fyrir að honum verði aflétt í september 2019. Í frumvarpinu er lagt til að það taki gildi 1. ágúst 2019 til að koma til móts við aðila á markaði.

Málsefni

Með frumvörpunum verða ákvæði tilskipunar um dreifingu vátrygginga nr. 2016/97/ESB sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn leidd í lög á Íslandi.

Nánari upplýsingar

Með dreifingu vátrygginga er í fyrsta lagi átt við starfsemi sem felst í að gefa ráðgjöf um, gera tillögu um eða undirbúa gerð vátryggingarsamnings, gera slíkan samning eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins. Í öðru lagi er átt við starfsemi sem felst í að veita upplýsingar um vátryggingarsamning eftir ákveðnum viðmiðun sem viðskiptavinur velur á vefsíðu eða á öðrum miðlum, og gera samantekt um vátryggingar sem eru í boði, ásamt verði, samanburði eða afslætti á vátryggingu ef viðskiptavinur getur gert vátryggingarsamning, beint eða óbeint, á vefsíðunni eða miðlinum. Í þriðja lagi er átt við starfsemi sem felst í að gefa ráðgjöf, gera tillögu um eða undirbúa gerð endurtryggingarsamnings, efna slíkan samning, eða aðstoða við umsýslu eða efndir samningsins. Sama gildir þegar starfsemin er hjá endurtryggingafélagi án íhlutunar endurtryggingamiðlara.

Frumvarp til laga um dreifingu vátrygginga gildir um þá aðila sem dreifa vátryggingum og innleiðir þau ákvæði sem gilda um starfsemi dreifingaraðila. Dreifingaraðilar eru vátryggingamiðlarar, vátryggingafélög, vátryggingaumboðsmenn og aðilar sem dreifa vátryggingu sem aukaafurð. Í frumvarpinu eru ákvæði um starfsleyfi, skráningu, fjárhagslegar kröfur, hæfis- og hæfnisskilyrði og starfshætti dreifingaraðila eftir því sem við á. Einnig eru ákvæði um stofnun útibúa og frjálst flæði þjónustu annarra en vátryggingafélaga. Með frumvarpinu verða gildandi lög um miðlun vátrygginga felld brott. Frumvarpið felur í sér að meiri kröfur eru gerðar um hæfi og hæfni þeirra sem dreifa vátryggingum og þeir skulu árlega fara í endurmenntun til að viðhalda hæfinu. Ákvæði um endurgjald vegna dreifinga vátrygginga eru ítarlegri og tryggja skal að endurgjald brjóti ekki í bága við þá skyldu að hafa hagsmuni væntanlegs vátryggingartaka að leiðarljósi. Mikilvægt nýmæli er að Fjármálaeftirlitið mun hafa heimild til að stöðva starfsemi erlendra aðila hér á landi sem fara ekki að lögum ef nauðsyn krefur.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga innleiðir þau ákvæði tilskipunarinnar sem varða upplýsingagjöf vegna dreifingar á vátryggingum. Lagt er til að sér kafli verði í lögunum um upplýsingagjöf vegna allra tegunda vátrygginga. Þar verða bæði gildandi ákvæði um upplýsingagjöf og ný ákvæði sem eru tilkomin vegna innleiðingar á tilskipuninni. Einnig er lagt til að sérstakur hluti verði um vátryggingatengdar fjárfestingar en þau ákvæði eru öll ný. Helstu nýmæli í frumvarpinu eru ítarlegri upplýsingagjöf vegna endurgjalds fyrir dreifingu vátrygginga, ítarlegri ákvæði um þarfagreiningu og mun meiri kröfur til formskilyrða upplýsingagjafar. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að unnt sé að veita upplýsingar rafrænt og upplýsingar vegna skaðatryggingar skulu gefnar á stöðluðu upplýsingaskjali. Ennfremur eru ákvæði um upplýsingaskyldu vegna vátrygginga sem eru boðnar með vöru eða þjónustu sem hluti af pakka eða í sama samningi og ákvæði sem gerir skylt að hafa vöruþróunarferli til staðar þegar nýjar vátryggingar eru þróaðar eða verulegar breytingar gerðar á vátryggingum sem eru til staðar. Í hlutanum um vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir er ákvæði sem sérstaklega varða þær afurðir og aukna upplýsingagjöf vegna þeirra. Sú skylda verður lögð á dreifingaraðila vátryggingatengdra fjárfestingaafurða að þeir hafi til staðar verklag sem greini mögulega hagsmunaárekstra og upplýsi viðskiptavin ef það tryggir ekki með óyggjandi hætti hagsmuni hans. Aukin upplýsingagjöf felst meðal annars í upplýsingum um fjárfestingarleiðir, kostnað og gjöld vegna sölunnar og hvort þarfagreining sé gerð reglulega. Þá eru gerðar viðbótar kröfur vegna þarfagreiningar. Meðal annars skal dreifingaraðili afla upplýsinga um reynslu og þekkingu viðskiptavinar á fjárfestingum og fjárhagsstöðu hans til að geta metið hvernig viðskiptavinur er í stakk búin til að taka á sig tap vegna fjárfestingarinnar. Ef þarfagreining er ekki gerð skal dreifingaraðili samt sem áður að fá upplýsingar um reynslu og þekkingu viðskiptavinar vegna afurðarinnar til að geta metið hvort afurðin henti viðskiptavininum.

Í báðum frumvörpunum er lagt til að unnt verði að skjóta ágreiningi vegna réttinda og skyldna viðskiptavinar til úrskurðarnefndar. Slík nefnd er ekki til staðar og er lagt til að ráðherra skipi nefnd með fulltrúum frá dreifingaraðilum og Neytendasamtökunum sem komi með tillögur að skipulagi nefndarinnar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Fjármála- og efnhagsráðuneytið

postur@fjr.is