Samráð fyrirhugað 28.02.2019—14.03.2019
Til umsagnar 28.02.2019—14.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 14.03.2019
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, með síðari breytingum (nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar, réttindavakt ráðuneytisins o.fl.).

Mál nr. 73/2019 Birt: 28.02.2019 Síðast uppfært: 07.03.2019
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (28.02.2019–14.03.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Frumvarpið fjallar um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011.

Frumvarpið fjallar um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Frumvarpið breytir núgildandi lögum að því marki að verkefni, sem áður var ætlað dómstólum, færist til stjórnsýslunefndar en tryggt að einstaklingum gefist tækifæri til bera niðurstöðu nefndarinnar undir dómstóla að umfjöllun nefndarinnar lokinni. Í framkvæmd hefur komið í ljós að núgildandi lagaumhverfi er haldið annmörkum hvað varðar beiðnir um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar sem fela í sér verulega og viðvarandi skerðingu á ferðafrelsi einstaklings. Lagt er til að beiðnir þjónustuaðila verði afgreiddar af nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar.

Með frumvarpinu eru einnig gerðar breytingar á hlutverki réttindavaktar ráðuneytisins er varða afturköllun umboðs til persónulegs talsmanns, en ekki er þörf á aðkomu réttindavaktarinnar í þeim málum. Einnig eru lagðar til breytingar á orðalagi hvað varðar hlutverk réttindavaktarinnar við útgáfu fræðsluefnis og ábyrgð réttindavaktarinnar á upplýsingagjöf.

Þá eru lagðar til breytingar á orðalagi og inntaki ákvæða er varða persónulega talsmenn fatlaðs fólks.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þroskahjálp,landssamtök - 13.03.2019

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpsdrögin.

1. gr. laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk hefur yfirskriftina „Gildissvið og markmið“. 4. mgr. greinarinnar hljóðar svo

Við framkvæmd laga þessara skal taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði samningsins og framfylgja þeim. Í 3. mgr. 4. gr. samningsins segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Undirstr. Þroskahj.)

Í 3. mgr. 33. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Framkvæmd og eftirlit innanlands“ segir:

Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem fara með mál þess, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

Eftirlitsnefnd með framkvæmd samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur sent frá sér almennar athugasemdir (e. General Comment) nr. 7 þar sem ofangreind ákvæði samningsins um samráðsskyldur stjórnvalda eru skýrð og þær skyldur sem af henni leiða fyrir ríki sem hafa fullgilt samninginn.

Landssamtökin Þroskahjálp telja augljóst að við undirbúning og gerð þeirra frumvarpsdraga sem hér eru til umsagnar hafi ráðuneytinu borið að hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks og samtaka sem vinna að réttindamálum þess, eins og mælt er fyrir um í þeim ákvæðum laga og samnings SÞ sem vísað er til hér að framan. Að undirbúa og semja frumvarpsdrögin án þess að gæta þess og leggja þau fram til almenns samráðs í samráðsgátt, eins og gert hefur verið, getur alls ekki talist samráð í skilningi tilvitnaðra ákvæða samningsins. Um rök fyrir því vísast til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum nr. 7 sem eftirlitsnefndar með samningnum hefur sent frá sér.

Þessi framkvæmd er sérstaklega aðfinnsluverð Í ljósi þeirra miklu hagsmuna og veigamiklu mannréttinda sem um er fjallað í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og frumvarpsdrögum þeim sem hér eru til umsagnar.

Hvað varðar efni frumvarpsins benda Landssamtökin Þroskahjálp á að í ferðafrelsi einstaklings eru fólgin afar mikilsverð mannréttindi sem njóta mikillar viðurkenningar og verndar samkvæmt íslenskum rétti og alþjóðlegum mannréttindsamningum sem íslenska ríkið hefur fullgilt, sbr. m.a. 14. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hefur yfirskriftina „Frelsi og mannhelgi“. Ákvarðanir um verulega og viðvarandi skerðingu á ferðafrelsi einstaklings eru því skerðing á mjög mikilsverðum mannréttindum. Með vísan til þess telja Landssamtökin þroskahjálp að slíkar ákvarðanir eigi því aðeins að geta öðlast gildi að þær hafi verið staðfestar af til þess bærum dómstólum. Samtökin leggja því eindregið til að frumvarpsdrögin verði endurskoðuð með tilliti til þess.

Þá vísa Landssamtökin Þroskahjálp til þess að réttindavakt ráðuneytins hefur lagt til að fram fari heildarendurskoðun á lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks. Samtökin báru þá tillögu upp í réttindvaktinni og ítreka hana í þessari umsókn.

Réttindagæslulögunum er ætlað að verja og tryggja afar mikilsverð mannréttindi fatlaðs fólks sem eru meðal annars sérstaklega áréttuð í 12. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hefur yfirskriftina „Réttarstaðs til jafns við aðra“. Þar er mikil áhersla á að fatlað fólk fái notið fulls lagalegs hæfis og fái viðeigandi og nægilegan stuðning til að taka ákvarðanir í lífi sínu og fara með gerhæfi sitt. Greinin leggur þá skyldu á ríki að hverfa frá „staðgöngu-ákvarðanatöku“ og taka upp mikinn og viðeigandi stuðning við töku ákvarðana og gera nauðsynlegar breytingar á lögum, framkvæmd og eftirliti til að það sé tryggt. Landssamtökin telja mjög tímabært og mikilvægt að öll ákvæði réttindagæslulaganna verði endurskoðuð í ljósi þeirrar reynslu sem af þeim er fengin og þeirra réttinda og skyldna sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á félagsmálaráðuneytið og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld að láta eins fljótt og mögulegt er fara fram vandaða heildarendurskoðun á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Samtökin leggja mikla áherslu á að við þá endurskoðun laganna verði byggt á því sem fram kemur í almennum athugasemdum nr. 1 sem eftirlitsnefnd með samningi SÞ hefur sent frá sér varðandi 12. gr. samningsins (réttarstaða til jafns við aðra) og hafa við þá endurksoðun laganna náið samráð við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttindamálum þess og tryggja virka þátttöku þess, sbr. 3. mgr. 4. gr. smanings SÞ sem vitnað er til hér að framan.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Kristín Ella Guðmundsdóttir - 14.03.2019

Umsögn réttindagæslumanna fatlaðs fólks um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

1. Auka þarf stöðuumboð réttindagæslumanna og mikilvægt er að það sé skilmerkilega útfært til unnt sé að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Með því er unnt að taka upp mál fyrir þá sem þess þurfa og geta ekki vegna fötlunar sinnar veitt skýra heimild með orðum eða gjörðum.

2. Einnig þarf að útskýra trúnarðarskyldu réttindagæslumanna ítarlega. Mikilvægt er að þeir sem tilkynna séu meðvitaðir um það hvernig hún virkar og mikilvægi nafnleyndar. Áherslu skuli leggja á skyldu fólks til að tilkynna til réttindagæslumanns og einnig á að sá sem tilkynnir sé tryggður sem ónafngreindur aðili á öllum stigum málsins. Það sé síðan hlutverk réttindagæslumanns að meta aðstæður og koma málinu í farveg ef þörf þykir.

3. Nauðsynlegt er að heildarendurskoðun fari frá á lögum þessum, með tilliti til nýrra laga um máefni fatlaðs fólks, s.s Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

F.h. Réttindagæslumanna fatlaðs fólks á Íslandi,

Kristín Ella Guðmundsdóttir