Samráð fyrirhugað 28.02.2019—17.03.2019
Til umsagnar 28.02.2019—17.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 17.03.2019
Niðurstöður birtar

Breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Mál nr. 74/2019 Birt: 28.02.2019 Síðast uppfært: 18.03.2019
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (28.02.2019–17.03.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd 60/2013. Með frumvarpin eru lagðar til breytingar IV. kafli. laganna um almannarétt, útivist og umgengni og XI. kafla um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum

Áformað er að leggja fram á vorþingi 2019 frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd nr. 60/2013.

Lagðar eru til tilteknar breytingar á lögunum í því skyni að styrkja almannarétt einstaklinga sem ferðast um óræktuð eignarlönd í byggð.

Lagt er til að ekki verði heimilt að meina einstaklingum að fara um slík svæði nema nauðsynlegt sé að takmarka umferð vegna nýtingar eða verndunar svæðisins. Jafnframt er lagt til að ekki sé heimilt að takmarka umferð um slík svæði með gjaldtöku fyrir aðgang.

Í frumvarpinu er lagt til á móti víkkun á rétti einstaklinga að landeigendur hafi meiri rétt til að ákveða hvort land þeirra í byggð sé nýtt undir endurteknar skipulegar hópferðir í atvinnuskyni. Þá ert gert ráð fyrir beinu samþykki hlutaðeigandi landeiganda fyrir slíkri nýtingu þriðja aðila á landi hans sé hætta á spjöllum á náttúru eða ónæði.

Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum sem snúa að innflutningi lifandi framandi lífvera til landsins. Markmið þeirra breytinga sem þar eru lagðar til eru að að skýra málsmeðferð, auka skilvirkni og minnka flækjustig umsóknarferils hins almenna borgarara.

Við vinnslu frumvarpsdraganna var haft víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila þeirra sem koma að þessum málum.

ATH! Frestur til að skila inn umsögnum hefur verið framlengdur til og með 17. mars.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ingibjörg Sigurðardóttir - 06.03.2019

eins og staðan er í dag þá er þetta hrein og klár eignaupptaka við landeigendur,..

það eru breyttar forsendur fyrir búskap ef þetta gengur í gegn er það kanski ætlunin að hrekja íslenska bændur í burtu. gleymum ekki uppruna okkar,

Afrita slóð á umsögn

#2 Hanna Laufey Jónasdóttir - 06.03.2019

Þegar það er verið að tala nýtingu og verndun svæðis, hvað er verið að tala um? Þurfa svæðin að falla undir verndunarflokk af einhverju tagi. Eða er ákvörðun bóndans um nýtingu það sem gildir. Ef nýtingin er beit, og þar eru ær með lömb, má þá takmarka aðgang að landinu undir þeim forsendum að ekki megi flæma lömbin undan ánnum. Ef landeigandi upp á sitt einsdæmi, og ekki með opinberan stuðning, er að stunda uppgræðslu á viðkvæmu landi, myndi það falla undir verndun og hægt væri að takmarka aðgang þar.

Í mörgum tilvikum eru slík lönd afgirt þó þau séu ekki ræktuð s.br. mólendi, mýrlendi.

Afgirt svæði eru afgirt af ástæðu. Það er til þess að takmarka rask af mannavöldum og að gæta þess að skepnur fái frið. Ef almannaréttur í þessum tilvikum er aukin og dregið er úr rétti landeiganda til að stjórna aðgengi að landinu er möguleiki á því að álag á landið aukist og að landeigandinn sem er að reyna að vernda sínar auðlindir sé í órétti lagalega séð.

Það er lítið mál að spurja um aðgengi að landinu fyrir fólk sem vill ferðast um það, og landeigendur eru venjulega ekki mjög óvilhallir því að fólk ferðist um það. Þetta kemur af stað ákveðnum samskiptum milli þeirra sem fara um það og landeiganda. Landeigandi venjulega þekkir sitt land best og getur því varað við hættum og bent á svæði sem er best að forðast. Ef almannaréttur er aukinn og klippt er á þessi samskipti, má þá ekki búast við því að öryggi ferðalanga og ástandi landsins sé bæði stefnt í voða?

Ég bara spyr hvort að þessi breyting sé ekki einungis til þess að ferðaþjónustufyrirtæki geti hagnast af því.

Ef landeigendur meiga ekki taka gjöld fyrir aðgengi, mega ferðaþjónustufyrirtæki þá sleppa því að borga fyrir aðgengi að því og meiga landeigiendur aðeins neita því að hleypa hópum í gegn.

Það eru engir hagsmunir hér í hættu fyrir ferðaþjónustuna, ferðamennina eða þá sem eiga ekki land. Aðeins hagsmunir landeiganda eru í hættu og það er ekki alveg í lagi.

Afrita slóð á umsögn

#3 Birgir Heiðmann Arason - 06.03.2019

Góðan dag

Migl langar að spyrja hvers vegna í ósköpunum ríkisvaldið er að leggja til hömlulausan ágang almennings á eigum annara og hverra erinda ráðherra er að ganga. Vitað er um einstaklinga sem gera sig út sem leiðsögumenn og bjóða upp á hópaferðir um náttúru Íslands, þeir hinir sömu fara hvar sem er yfir eignalönd án þess að spyrja um leyfi, landeigandinn fær ekkert en þeir taka gjald fyrir að fara með viðkomandi hóp. Einnig eru ferðafélög að bjóða upp á ferðir af svipuðum toga. Það ætti að vera skilda að hafa samband við landeigendur og fá leyfi til þess að fara um afgirt lönd,með því gæti landeigandi leiðbeint viðkomandi hvar best væri að far um viðkomandi land án þess að valda tjóni.

Afrita slóð á umsögn

#4 Jóhanna María Sigmundsdóttir - 06.03.2019

Hér meðfylgjandi er að finna umsögn mína.

- Jóhanna María Sigmundsdóttir, bóndi og formaður Kúabændafélagsins Baulu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Margrét Alfreðsdóttir - 06.03.2019

Ég Margrét Alfreðsdóttir vil tjá mig um að það er með öllu óþolandi að fá ferðafólk vaðandi inn í beitarhólf.

Við höfum ekki girðingar að ástæðulausu.

Tek sem dæmi að ég varð að fella fola sem var ásamt öðrum hrossum í hólfi.

Ferðafólk var búið að gefa honum og kassa.

Við þetta var hann orðinn hættulega frekur og virti ekki manninn.

Enn verri verður þessi yfirgangur ferðafólks og bændum til tjóns ef þetta verður leift.

Það er líka með ólíkindum hvernig hundar fá að fara sínu fram þó að þeir séu með eigendum sínum.

Kv. Margrét.

Afrita slóð á umsögn

#6 Magnús Kristjánsson - 06.03.2019

Ég mótmæli þessum breytingum sem þarna koma fram. Það er og hefur verið í gegnum árin (og fer versnandi með auknum fjölda ferðamanna) aukning um að fólk hunsi hlið og fari í gegn. Það gerist ekkert skelfilegt á þeim tímum sem þurrt er en frá apríl í fyrra og fram í september var voru fáir staðir á landareigninni sem er innan minnar fjölskildu sem ekki hefðu skemmst við umferð ferðamanna. Það gerðist tvisvar að ég fór á stórri dráttarvél til að draga upp fólk sem var búið að koma sér í sjálfheldu því landið var það blautt. Nátturuverndarsinnar hefðu sagt að þetta væru miklar skemmdir. Að leyfa slíkt myndi hafa í för með sér sí endurteknar utanvegarkeyrslur, landskemmd og eyðingu sem og dýr í slíkum úthögum myndu verða fyrir óþarfa truflun hvort sem húsdýr (aðallega kindur og hestar en stundum kvígur og sjaldnar kýr. Fólk reyndi 3 í haust að hlaupa á eftir kindunum mínum upp við vegi. Tilgangurinn var óljós enda tala ég ekkert af þeim tungumálum sem eru í Asíu en fólkið var án efa þaðan í öll skiptin.

Á landareigninni minni er náttúruperlan Eldborg. Þar koma á sumrin á hverjum degi milli 50-70 bílar með tilheyrandi fólksfjölda. Þrátt fyrir merkingar um hvar stígurinn uppá Eldborg byrjar, hvar bílastæðið sé og hvar klósettið er (klósettið er samt lang, lang minnsta vesenið) þá er keyrt allstaðar því GPS segir þeim að það sé vegur uppá Eldborg. Þetta svipar til þegar Asíufólk elti GPS tækið ofaní á og rétt lifði af með brú yfir ánna 10 metrum frá en tækið sagði þeim bara ekki að fara yfir brúnna....

Óþægindin við heimilisfólk, skemmdirnar að ógleymdri hættunni sem þetta fólk getur komið sér í þegar það fer af veginum er mikil. Hvet ég ykkur til að endurorða þessa lagagerð og taka skýrt fram að almenn umferð bíla, hjóla, fjórhjóla og allt sem er ekki manns eigin tveir fætur sé ekki leyfilegt að fara um landareign nema með leyfi landeigenda. Fólk sem þekkir ekki til og það er alveg sama hversu íslenskt það er ef það þekkir ekki til þá skemmir það land, kemur sér í voða og eru þar af leiðandi að koma sér óvitandi í hættu.

Ef einhver af höfundum og ráðleggendum þessa lagabreytinga hafa komið út í sveit, séð hest eða kú þá ætti hann að geta lýst því fyrir þeim sem ekki vita hversu stór slík dýr eru og þung. Ég fór að gefa hestunum um daginn, það var kalt og þeir voru óvenju svangir. Ég keyrði rúllur inn til þeirra (þeir eru í úthaga á veturnar) og lagði niður og byrjaði að opna rúlluna, taka af bæði plast og net. Hestarnir sem voru svangir komu að og allir vildu vera fyrstir. Einn rak afturendan sinn í mig að mér ótilbúnum og ég flaug á hausinn (ofaní snjóinn) og var fljótur að rúlla mér á fætur og upp. Óvant fólk á ferð með því leyfi sem þið mynduð veita með þessum lögum gætu gengið inní hólfið sem ég hef hestanna. Þeir eru spakir og notaðir í hestaleigu fyrir óvana. Þeir myndu aldrei sparka eða meiða fólk viljandi en þeir eru bara svo miklu sterkari og þyngri að þeir þurfa ekki að reyna. Manneskja þarf bara að detta þegar hún er að ganga á milli þeirra og þeir gætu fælst, einn gæti stigið á hana og aldrei tekið eftir því. Ef þeir reyna að gefa hestum brauð sem er mjög algengt í hrossastóðum meðfram þjóðvegnum (mínir eru þar sem betur fer ekki) þá er hætt við að fólk geti verið bitið í fingurnar, jafnvel mínir hestar sem þæga má kalla með endæmum eiga það til að bíta ef þeim grunar að það sé eitthvað í vasanum hjá mér fyrir þá.

Það sem ég er að reyna að segja er að þessi lagabreyting er engum til góðs. Ekki landeigendum, ekki dýrunum og ekki fólki sem veit ekki betur, þá aðallega túristar sem hafa alla tíð lifað á malbiki og átta sig ekki á því hvernig landið virkar.

Afrita slóð á umsögn

#7 Inga Stumpf - 07.03.2019

Ég mótmæli þessum breytingum sem þarna koma fram. Landeigendur þarf að hafa rétt að loka t.d beitaland og fleiri fyrir ferðafólk.

Afrita slóð á umsögn

#8 Ragnheiður H Reynisdóttir - 07.03.2019

Goðan dag, a landinu öllu eru ferðamenn farnir að vaða yfir hvað sem er. Um leið og bent er á leið að náttúruperlu, eins og t.d. Brúarfossi þar sem fólk þarf að fara yfir girðingar og torfærur, vaða gegnum einkalóðir, og skilja jafnvel eftir sig skýtaslóða ( í orðsins fyllstu merkingu) , þá hætta þeir að virða girðingar með meiru. Það er eins og bannorð séu ekki lengur skiljanleg fyrir neinum, og þetta gengur ekki lengur, hvað með smitsjúkdóma t.d. sem við erum að reyna aðhindra að komi hingað til lands. Hvers eigu, við að gjalda sem eigum dýr nálægt þjóðvegi t.d. Hvað verður langt þar til við verðum ekki hult? Það er svo ótalmargt sem þarf að stoppa....og stjórnvöld og aðrir hættið aðsofa a verðinum

Afrita slóð á umsögn

#9 Íris Björk Aðalsteinsdóttir - 07.03.2019

Er alfaðið á mótir þessu að ferðamenn geti farið yfir og í gegnim lönd okkar, án þess að fá leifi frá landeiganda. Hver ef ábyrgur ef fólk verður fyrir skaða á landi landeiganda af dýrum sem eru ekki sátt við óboðna gesti. Ekki myndi það líðast ef við gengum í gegnum garðinn hjá öllum inn í þétt býli og hvað þá með hóp af ferðafólki í eftirdragi.

Afrita slóð á umsögn

#10 Magnús Óskarsson - 07.03.2019

Ágæti viðtakandi.

Hjálögð í viðhengi er umsögn mín sem umbjóðandi minn Kerfélagið ehf. hefur falið mér að rita.

Virðingarfyllst,

Magnús Óskarsson,

hæstaréttarlögmaður.

mo@logmal.is

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Arnþrúður Heimisdóttir - 08.03.2019

Það verður að taka tillit til þess að fólk verður að vera í rétti til þess að hamla aðgangi fólks að búfé. Ferðamenn og líka leiðsögumenn og ferðaskipuleggjendur valda orðið vandræðum með því að fara án leyfis í haga búfjár. Við rekum hrossabú, og þetta getur valdið ýmsum vandræðum hér. Þetta gerir hrossin stundum frek og hættuleg í umgengni. Við bændur getum lent í því að verða skaðabótaskyld ef hross slasar einhvern sem fer án leyfis inn í stóð og slasast. Ferðamenn eru að gefa hrossum alls kyns fóður sem getur verið skaðlegt fyrir hrossin. Auk þess valda sérstakar aðstæður okkar í snjóþungu héraði sérstökum vandræðum, að fólk gengur á snjó yfir girðingar sem eru á kafi í snjó, og búa þannig til slóð, sem hrossin fara svo eftir upp á þjóðveg, í fótspor fólksins. Þetta hefur oft valdið hættu í umferð hér, og eitt sinn var keyrt á hross í okkar eigu vegna þessa. Þá settum við upp skilti til að banna fólki að fara í hagann. Það er algerlega nauðsynlegt að þetta sé hægt og löglegt. En fólki er velkomið að þramma gangandi fram og aftur um jörðina okkar, bara ekki í hrossastóðinu. Í guðanna bænum setjið okkur ekki í þá skelfilegu stöðu að banna fólki aðgengi að dýrunum okkar.

Afrita slóð á umsögn

#12 Ásgeir Árnason - 12.03.2019

Undiritaður landeigandi Stóru-Merkur III, tel fráleitt að ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki ásamt óviðkomandi aðilum, geti lagt undir sig óræktað land jarðarinnar án þess að eigandi geti haft nokkur áhrif þar um.

Eignaréttur er stórlega skertur með þessum lögum, sem á að vera lögvendaður.

Afrita slóð á umsögn

#13 Torfi Þór Friðfinnsson - 13.03.2019

Ég verð að mótmæla þessari aðför að eignarétti landeigenda það verður að gæta jafnræðis og benda bara ekki á eignir annara og menn geti farið sínu framm þar ,ég get ekki sé að þetta þjóni náttúruvernd og það hlítur alltaf að vera matskennt eins og kemur framm í drögum "Lagt er til að ekki verði heimilt að meina einstaklingum að fara um slík svæði nema nauðsynlegt sé að takmarka umferð vegna nýtingar eða verndunar svæðisins."og hver á að hafa úrslita vald um hvað er truflun og ágangur það er alltaf matsatriði.

Og hvað er "endurteknar skipulegar hópferðir í atvinnuskyni."eru það t,d hestaferðir einusinni á dag einusinni í viku einusinni á ári, ég mótmæli þessari árás á eignaréttin líka vegna þess að ég greyði af þessari eign og vil þá ráða þar nokkru um hvernig hún er nítt eða ekki

og að lokum það er fallegt að tala um samráð, en mér sýnist það ekki skifta máli hvað almenningur leggur til málana ráðherrar og alþingi fara alltaf sínu framm hvað sem það kostar

Afrita slóð á umsögn

#14 Björn S Stefánsson - 13.03.2019

Í greinargerð með tillögunum er því  haldið fram, að forn réttur landsmanna,  sem settur var, áður en vegir voru lagðir um landið, að fara um eignarlönd annarra, hafi verið meira en þar segir. Með honum var tryggt, að almenningur kæmist um landið með þeim hætti, sem þá tíðkaðist, og að menn ættu þess kost að hvíla sig og hesta sína og hagnýta sér landsgæði til nauðsynlegrar næringar á ferðinni. Þessi umferðarréttur er fráleitur á tímum vélknúinna ökutækja.  Það er fjarstæða að færa þennan forna nauðsynlega rétt í þann búning, að nú skuli ferðamenn eiga óskoraðan rétt til að fara um eignarlönd.  Á grundvelli slíks réttar yrði hundruðum þúsunda manna veitt heimild til þess að koma akandi á þjóðvegum landsins, nema staðar við eignarlönd annarra hvar sem er og vaða yfir þau með hættu á mengun, ónæði og náttúruspjöllum. Síst verður það kennt við umhverfisvernd.

Afrita slóð á umsögn

#15 Margrét Guðmundsdóttir - 14.03.2019

Athugasemdir við Frumvarp til laga um breytingu á lögum um nátttúruvernd, nr. 60/2013

Í tengslum við ofangreint frumvarp sem finna má á Samráðsgátt ríkisstjórnarinnar er áhugavert að skoða þróun landnýtingar á Íslandi. Frá aldaöðli hefur eignarréttur landeigenda verið virtur. Landamerkjabækur sögðu til um skil á milli jarða og hafa landeigendur ætíð haft víðtækan rétt til yfirráða á eigin landi. Umferð um land annarra var á forsendum eigenda landsins en var nauðsynleg til þess að fólk gæti ferðast innan sveita eða á milli landshluta. Réttur ferðalanga skorðaðist við að mega tína ber og fjallagrös til átu á ferðinni. Um miðja síðustu öld fer að aukast að fólk úr borgum hafi áhuga á að ferðast um landið og jafnvel tjalda og var það venja á meðal Íslendinga að fara heim að bæ og fá leyfi fyrir slíku. Gönguferðir á fjöll og heimsóknir á þekkta staði eins og Gullfoss og Geysi, Þingvelli m.m. var ætíð innan þeirra marka sem náttúran bar. Margir borgarbúar höfðu verið í sveit á sumrin og skilningur landsmanna á náttúrunni og viðkvæmni hennar var útbreiddur og almenn virðing borin fyrir náttúrunni.

Nú er öldin önnur. Í landinu búa um 350.000 manns og auk þess heimsækja landið um 2 milljónir ferðamanna á ári. Við erum að selja aðgang að náttúrunni sem verandi einstök. Hugmyndir Einars Benediktssonar um að selja norðurljósin eru orðnar að veruleika. Heilsársferðamennska er ekki lengur fjarlægur draumur heldur orðin að veruleika sem er íþyngjandi fyrir alla innviði landsins. Erlendir ferðamenn sem koma til Íslands eru að koma að mestu leyti til að skoða náttúru landsins. Þetta er óvenjulegt þegar litið er til nágrannalanda þar sem stór hluti ferðamanna dvelur í stórborgum og fer aldrei út fyrir borgarmörkin.

Landeigendur á Íslandi eru fjölbreyttari hópur í dag en á árum áður. Hefðbundinn landbúnaður, eins og kúabú og sauðfjárbú vega enn þungt en hlutur hrossaræktarbúa, garðyrkjubýla og skógræktarjarða fer vaxandi. Auk þess eru ferðabændur innan allra þessara greina auk þess að sumir starfa 100% í ferðaþjónustu. Hagsmunir þessara landeigenda geta verið ólíkir en eitt eiga þeir þó sameiginlegt og það er krafan um að eignaréttur sé virtur sem hluti af mannréttindarákvæðum. Flestum er annt um landið og vegur náttúruvernd þungt í hugum flestra. Aðstæður til sveita eru oft þannig að verja þarf landið fyrir allri umferð, t.d. rigningarsumarið 2018 gerði það að verkum að ekki reyndist unnt að ferðast um ýmsar jarðir á Vesturlandi vegna aurbleytu, hvorki gangandi né akandi. Sem skógarbóndi hef ég þurft að kosta miklu til við að girða af skógræktarsvæði og öll umgengni á svæðinu þar sem um nýskógrækt er að ræða getur orðið fyrir verulegum spjöllum allan ársins hring. Landeigendur eru ekki alltaf heima við til að leiðbeina ferðamönnum og ef almannaréttur er túlkaður þannig að meira eða minna allt sé heimilt þá er það algjörlega á kostnað náttúruverndar.

Að kalla þessi lög náttúruverndarlög eru öfugmæli þar sem þetta er heimild til allra að ferðast um landið með mjög litlum takmörkunum. Yfirvöld reyndu að sporna við ágangi með innleiðingu á náttúrupassa sem aldrei tókst að innleiða. Að horfast ekki í augu við að nauðsynlegt er fyrir landeigendur, ef þeir eiga að hafa möguleika á að verja land sitt fyrir ágangi, bæði með að neita umgangi um landssvæði og að geta haft heimild til að krefja greiðslu fyrir aðgang að vinsælum ferðamannastöðum er svik við náttúru Ísland og vanvirðing á eignarrétti. Ríkið hefur eignast þjóðlendur um allt land og þar getur Ríkið opnað allar gáttir eins og það óskar, en hafa samt alltaf í huga að öllum ber skylda til að skila landinu ekki í verra ásigkomulagi til næstu kynslóða. Þeir landeigendur sem hafa farið í víðtæka uppbyggingu og eru að krefja ferðamenn um geiðslu fyrir aðgang hafa sýnt sig að vera mestu náttúruverndarar á Íslandi og það besta er að ferðamennirnir sýna því skilning og kunna að meta að fá góða íslenska náttúruupplifun.

Afrita slóð á umsögn

#16 Lúðvíg Lárusson - 14.03.2019

Sjá hjálagða umsögn, kv. Lúðvíg Lárusson

Afrita slóð á umsögn

#17 Ferðafélagið Útivist - 14.03.2019

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Ferðafélagsins Útivistar um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Jón Benediktsson - 15.03.2019

Góðan daginn.

Ég vil hér með lýsa fullum stuðningi mínum við umsögn Landssamtaka landeigenda á Íslandi um þetta mál og einnig tek ég heils hugar undir ályktun aðalfundar LLÍ hinn 14.03. 2019 um þetta efni.

Virðingarfyllst.

Jón Benediktsson

Auðnum

641 Húsavík.

Afrita slóð á umsögn

#19 Kristinn Zimsen - 15.03.2019

Reykjavík 14.3.2019

Athugasemd vegna breytinga á náttúruverndarlögum nr. 60/2013

Eigendur Stóra-Botns, Hvalfjarðarstrandarhreppi hafa í áratugi staðið fyrir uppgræðslu og náttúruvernd í Botnsdal og jafnframt auðveldað ferðamönnum aðgengi að fossinum Glym og gönguleið um Leggjabrjót. Glymur sem er hæsti “heilsárs” foss landsins er vinsæll áfangastaður ferðamanna, sem hefur fjölgað gríðarlega hin síðari ár, mest erlendum, sem koma yfirgnæfandi á bílaleigubílum. Einnig eru skipulagðar auglýstar ferðir gegn gjaldi á vegum ferðaþjónustuaðila, enginn þeirra hefur leitað eftir leyfi landeigenda, nema einn innansveitar.

Lagt hefur verið í kostnað og erfiði til að beina ferðamönnum á ákveðna stíga, til að hlífa umhverfinu og til að auka öryggi. Hin síðari ár hefur sveitarfélagið með eigin framlagi, styrkjum frá Framkvæmdasjóði Ferðamála (Synjað 2019) og tilsjón Umhverfisstofnunar, tekið þátt í verkefninu í góðri samvinnu við landeigendur.

18. grein umferð gangandi manna

Í gildi er: Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. [Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.] 1)

Breytingartillaga :“Í stað 2. málsl. í 1. mgr. 18. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó er í sérstökum tilvikum heimilt að takmarka eða banna með merkingum við stiga og hlið för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu eignarlandi í byggð, ef það er nauðsynlegt vegna nýtingar þess eða verndunar. Óheimilt er að takmarka för um land samkvæmt ákvæði þessu með gjaldtöku fyrir aðgang.”

Fram að þessu hefur útivistarfólk verið velkomið til gönguferða um Botnsdal og að njóta þeirrar náttúruparadísar sem þar er , m.a. fyrir atbeina landeigenda. Hvaða nauðsyn ber til að landeigandi þurfi að rökstyðja takmarkanir á för manna og dvöl um eignarland hans, ekki síst þegar gríðarleg fjölgun ferðamanna hefur orðið. Hvað er orðið af eignarrétti manna? Hinn forni almannaréttur til umferðar um eignarlönd á alls ekki við um nútíma ferðalög nema að litlu leyti.

Hvernig má það vera réttlætanlegt að ferðaiðnaðurinn: Ferðaskrifstofur,hópferðabílar, bílaleigur, flugfélög, fararstjórar, skipuleggjendur ferða o.fl. geta beint og óbeint fénýtt einkaland okkar án þess að nokkurt endurgjald komi fyrir, en jafnframt er eigendum landsins það óheimilt?

24. grein skipulagðar hópferðir

Nú þegar hunsa ferðaþjónustuaðilar ákvæði 24. gr. laganna um að: “ Þegar skipulagðar eru hópferðir um eignarlönd í byggð eða þar sem ónæði gæti valdið við nytjar skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans.”

Breytingartillaga á 24. grein er þannig að óska þarf leyfis landeiganda: “Þegar skipulagðar eru í atvinnuskyni endurteknar hópferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, sem valdið geta spjöllum á náttúru eða ónæð”

Ef þessi breyting verður samþykkt munu ferðaþjónustuaðilar, samkvæmt reynslu okkar, ekki leita leyfis okkar landeigenda og við þyrftum að sanna með lögsókn að þeir séu með endurteknar hópferðir sem valdið geta spjöllum á náttúru eða ónæði. Augljóst er að leyfa á fénýtingu ferðaþjónustuaðila á landi okkar, nema við stöndum í óviðunandi málaþrasi ef við viljum verja land okkar fyrir skipulögðum massatúrisma .

Við mótmælum fyrirhuguðum breytingum á 18. og 24.gr. núgildandi náttúruverndarlaga.

Kristinn Zimsen og Helga Helgadóttir

Furugerði 12, 108 Reykjavík

Afrita slóð á umsögn

#20 Kristinn Zimsen - 15.03.2019

Góðan daginn,

Þar sem innsend umsögn skilað sér illa sendist hún aftur í formi viðhengis.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Samtök ferðaþjónustunnar - 15.03.2019

Ágæti viðtakandi

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að breytingum á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Samband íslenskra sveitarfélaga - 15.03.2019

Vinsamlegast sjá meðfylgjandi, umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,

f.h. sambandsins,

Vigdís Häsler, lögmaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Umhverfisstofnun - 15.03.2019

Hjálagt er umsögn Umhverfisstofnunar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd 60/2013.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Ólafur Guðmundsson - 16.03.2019

Ég undirritaður Ólafur Guðmundsson, Grenimel 6, Reykjavík, mótmæli mjög eindregið þeim breytingum á ákvæðum 18. gr., laga um náttúruvernd nr. 60/2013 sem í mars 2019 eru birtar á samráðsgátt stjórnvalda sem drög að frumvarpi frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Sú breyting á 18. gr. sem um ræðir myndi í raun svipta landeigendur og umráðendur lands rétti til að takmarka umferð manna um afgirt óræktuð eignarlönd í byggð. Jafnframt myndu landeigendur sviptir rétti til að hafa tekjur af landi sínu með gjaldtöku af umferð yfir það. Hvort tveggja felur í sér freklegar skerðingar eignarréttar sem ekki geta staðist ákvæði 72. gr. stjórnarskárinnar um friðhelgi eignarréttarins.

Því er haldið fram í greinargerð með frumvarpinu að um hafi rætt rétt almennings til óhindraðrar farar um landið sem verið hafi „við lýði hérlendis sem frá örófi alda“. Hið rétta er að umferðarréttur fyrri alda byggðist fyrst og fremst á nauðsyn til samgangna sem nú með breyttum samgönguháttum fara um vegi landsins þar sem þeir liggja á landi sem undir þá hefur verið tekið. Hins vegar var um að ræða rétt byggðan á venju til umferðar um ógirt land í einkaeigu sem eiganda landsins væri baglaus, sbr. t.d. það sem fram kemur riti Ólafs Lárussonar, Eignarrétti, útg. 1950. Eiga þau landnot sem fólgin eru í umferð til útivistar lítið skylt við umferð um landið á fyrri öldum. Verður útvistarafnotum lands á okkar dögum fremur fundin samsvörun í beit búfjár en ferðum fólks milli bæja á öldum áður. Er því fjarstæða að hægt sé að rífa eignarheimildir af landeigendum með vísan til forns umferðarréttar. Reynslan hefur sannað að trygging eignarréttar er helsta forsenda hagsældar, framfara og festu í mannlegu samfélagi. Því varða ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi hans ein mikilvægustu mannréttindi sem með henni eru tryggð. Óumdeilt er að stjórnarskrárákvæði þetta hefur m.a. þau áhrif að allar heimildir til að skerða eignarrétt ber að túlka þröngt. Þannig kemur ákvæðið m.a. í veg fyrir að hægt sé með lögum að kveða á um almennar takmarkanir eignarréttar sem valda verulegu fjárhagstjóni og koma mjög misjafnt niður á þeim sem þær taka til. Blasir því við að þær breytingar á 18. gr. laga nr. 60/2013 sem umhverfis- og auðlindaráðuneyti hefur gert tillögur um eru óheimilar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá ber að hafa í huga að umferðarréttur samkvæmt gildandi rétti er mjög rúmur og verður ekki séð að þar kreppi að. Víðar lendur eru ógirtar og um þær frjáls för gangandi manna og er þar við lýði hin forni umferðarréttur til bagalausrar farar um annarra land. Kostnaður við girðingar og viðhald þeirra hindrar að lokun landa að ófyrirsynju eigi sér stað svo nokkru nemi. Er núgildandi ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 60/2013 bæði sanngjarnt, skýrt og auðframkvæmanlegt en með þeim tillögum sem gerðar eru til breytinga á því er efnt til ófremmdarástands. Er mjög annarlegt að umhverfis- og auðlindaráðuneyti skuli nú er ferðamannastraumur hefur aukist gríðarlega gera tillögur um að hrifsa úr höndum landeigenda vald þeirra til að hafa einhverja stjórn á þeim átroðningi sem af þessu leiðir og að girða fyrir möguleika þeirra til að standa undir honum.

Ljóst er að með þeim breytingum á núgildandi ákvæði 18. gr. laga nr. 60/2013 sem birtast í frumvarpsdrögum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins eru dregnar á flot á ný þær tilraunir til að ganga á eignarrétt landeigenda sem fram komu með frumvarpi þessara laga er það var fyrst lagt fyrir Alþingi. Er ótækt að landeigendur þurfi nú enn að verja réttindi sín gegn þeim öflum sem þar ráða för sem virðist kappsmál að koma því í kring að eignarréttur að landi verði virtur að vettugi.

Með þeirri breytingu sem til er lögð á 24. gr. laga nr. 60/2013 er bersýnilega ætlunin að skerða yfirráðarétt landeigenda frá því sem fram kemur í núgildandi ákvæði. Ekki verður þó séð hvernig það fær yfirleitt staðist að fært sé að taka fasteign til nytja án heimildar eiganda hennar. Ákvæði þetta virðist hins vegar munu verða enn fráleitara með þeirri breytingu sem til er lögð en það er í núverandi mynd og er engin raunhæf leið fyrir landeigendur til halda uppi réttindum sínu á grundvelli þess. Mótmæli ég eindregið þessari tillögu.

16. mars 2019

Ólafur Guðmundsson

Afrita slóð á umsögn

#25 Kristján Sturluson - 16.03.2019

Hjálögð er umsögn Dalabyggðar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd 60/2013.

F.h. Dalabyggðar,

Kristján Sturluson, sveitarstjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Bjarni Maríus Jónsson - 16.03.2019

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða.

Afrita slóð á umsögn

#27 Bjarni Maríus Jónsson - 16.03.2019

Viðhengið frá SES skilaði sér ekki, prófa aftur.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Hrönn Greipsdóttir - 16.03.2019

Undirrituð gerir eftirfarandi athugasemdir við umræddar tillögur til breytinga á lögum um náttúrvernd. Þar sem þegar hafa komið fram athugasemdir við skerðingu hins lögvarða eignarréttar lýsi ég einungis stuðning við þær og einskorða mál mitt við þau áhrif sem breytingarnar munu mögulega hafa á fjárfestingar í ferðþjónustunni.

1) Mikilvægt er að fjárfesta í innviðum ferðaþjónustunnar sem m.a. felst í því byggja upp svæði í kringum eftirsóttar náttúruperlur. Lagning göngustíga, vegaslóða og útsýnispalla er mikilvægt til þess að náttúran beri sem minnstan skaða af ágangi ferðamanna, tryggja öryggi þeirra og að þeir njóti heimsóknarinnar. Slíkar framkvæmdir og viðhald kosta peninga svo einhvers staðar þarf að koma til fjármagn. Breytingarnar gera ráð fyrir að gjaldtaka sé heimil því aðeins að um veitta þjónustu sé að ræða og er sérstaklega tekið fram að uppbygging eins og nefnd er hér að framan flokkist ekki þar undir. Þetta er fráleitt að mínu mati þar sem þjónustan er augljós og uppbygging mikilvæg m.a. með tilliti til náttúruverndar. Telja má næsta víst að hinn almenni ferðamaður sé tilbúin til að greiða fyrir aðgengi að stað þar sem uppbyggingu hefur verið sinnt líkt og í flestum öðrum löndum.

2) Það er óljóst í breytingartillögunum hvað felst í þjónustu sem þar með má greiða fyrir. Er átt við að ef landeigandi setur upp salerni / kamar inn á svæðinu að þá sé heimilt að innheimta gjald ? Önnur spurning sem vaknar er þá að ef ferðmaðurinn hyggst ekki nýta þjónustu sem boðið er upp á (gæti verið leiðsögn í helli) þarf hann þá ekki að borga ? Það er næsta víst að til eru óprúttnir aðilar sem eru tilbúnir til að teygja og toga túlkun á því hvað felst í þjónustu og hvort það sé skylt að nýta og þar með greiða fyrir hana.

3) Breytingatillögurnar gera ráð fyrir að eðlilegt sé að innheimta gjald fyrir bílastæði sem kemur ekki á óvart sé horft til þess að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er nánast orðinn sjálfbær af þeim tekjum. Þetta hins vegar býður þeirri hættu heim að fjárfest verður í bílastæðum en áhugi á fjárfestingu inn á svæðinu sjálfu sem er aðdráttaraflið er minni. Það er undarlegt að í náttúrverndarlögum sem lögð meiri rækt við bílastæði en uppbyggingu og vernd á náttúrunnar sjálfrar.

4) Annað afar óljóst atriði er skilgreining á því, sé gjaldtaka á annað borð viðhöfð, hverjir eigi að borga og hverjir ekki. Skipuleggjendum endurtekinna hópferða í atvinnuskyni ber að borga sem er ekkert nema eðlilegt. Hitt er öllu óskiljanlegra að þeir sem koma í einstakri ferð sem ekki er skipulögð í atvinnuskyni eiga ekki að borga. Sú spurning vaknar fyrst hvort það sé hreinlega ekki á gráu svæði að mismuna með þessum hætti ? Í annan stað vantar stærsta hópinn sem eru þeir ferðamenn sem koma á eigin bílum eða bílaleigubílum í hvorn flokkinn falla þeir ? Loks er það algjörlega fráleitt að landeigandi eða hver sá sem innheimtir gjaldið sé gert skylt að flokka þannig þá sem þangað koma. Slíkt getur varla talist praktískt né sanngjarnt.

Hér hef ég aðeins tæpt á nokkrum þeim athugasemdum við breytingatillögurnar sem mér finnst mikilvægt að sé komið á framfæri. Sjaldan hefur verið jafn brýnt að fjárfesta í innviðum ferðaþjónustunnar og byggja myndarlega upp þá staði sem laða að ferðamenn. Sú óvissa og óbilgirni sem birtist í tillögum þessum til breytinga á náttúrulögum eru síst fallnar til þess að laða fjárfesta að þessum verkefnum. Svo virðist sem breytingatillögurnar séu unnar með einn hagsmunahóp að leiðarljósi en aðrir eru fyrir róða bornir. Ég legg því til að breytingunum verði frestað og stofnaður verði samráðshópur sem taki mið af þeim athugasemdum sem sendar hafa verið inni í gáttina. Verkefni samráðshópsins ætti að vera byggja brú í milli þessara hópa og leita ásættanlegra lausna sem eru til þess fallnar að byggja upp til framtíðar og koma náttúrunni til verndar og góða.

Hrönn Greipsdóttir - framkvæmdastjóri Eldeyjar fjárfestingafélags í ferðaþjónustu

Afrita slóð á umsögn

#29 Bjarni Maríus Jónsson - 16.03.2019

Sporin hræða.

Ég er ekki löglærður og ætla því að nálgast þetta út frá þeirri tilfinningu sem ég hef gagnvart þessu. Ég efa það ekki að þeir sem þetta frumvarp sömdu meina vel og samráðið er ágætt þó hefði mátt kynna það betur.

Ég er eigandi sjávarjarðar og ná landamerki hennar út í sjó, svokölluð netlög sem ná út á 6,88 metra dýpi á stórstraumsfjöru. (4 faðmar) Meðal hlunninda jarðarinnar er útræðisréttur sem er atvinnuréttur og varinn af Stjórnarskrá Íslands. Sá hluti jarðarinnar sem nær út í sjó er í einkaeign og varinn af 72. grein Stjórnarskrár Íslands. Fiskveiðikvótinn á Íslandi er þar af leiðandi í óskiptri sameign netlagaeigenda og íslenska ríkisins. Í stuttu máli þá var atvinnuréttur og eignaréttur jarðar minnar tekinn af mér óbættur og afhentur, með svokölluðum kvótalögum, óskyldum aðilum til afnota og hefur gengið kaupum og sölum síðan, einnig hefur ríkisvaldið ákveðið að leggja auðlindagjald á þessa sameiginlegu auðlind en hefur ekki hugsað sér að skipta því gjaldi á milli eigenda auðlindarinnar, heldur sitja eitt að því.

Sameiginlega eiga Íslendingar 40% af yfirborði Íslands, svokallaðar þjóðlendur, til viðbótar eiga opinberir aðilar 15-20% allra jarða á Íslandi. Er allt það land ekki nógu stór leikvöllur fyrir borgarbörnin sem þurfa upplyftingu. Ég mæli með því að ríkisvaldið byrji á að skipuleggja aðgang að sínum eignum áður en lengra er haldið og sjái hvernig til tekst. Við lestur frumvarpsins þá upplifi ég mikla vanlíðan og einelti af hendi ríkisvaldsins, á nú að takmarka eignarrétt minn frekar á jörðinni minni til þess eins að geta afhent hann öðrum þóknanlegum, sem munu síðan nýta mína eign án þess að ég geti rönd við reist og síðan mun sá réttur væntanlega ganga kaupum og sölum eins og fiskveiðikvótinn. Ég geri mér grein fyrir því að kjósendur í formi jarðeigenda eru mun færri en hinir sem ekki eiga jarðir, en það á ekki að réttlæta þessa aðför að jarðeigendum því Alþingi og framkvæmdavaldið hefur lofað því að allir séu jafnir fyrir lögum, ekki bara þegar það hentar heldur alltaf. Ég mótmæli þessari tilraun til eignaupptöku án þess að farið sé í lögformlegt eignarnám og þar með þessu frumvarpi.

Með lögum skal land byggja en eigi með ólögum eyða.

Afrita slóð á umsögn

#30 Örn Þorvaldsson - 16.03.2019

Umgengi um landið

Kópavogi 16. mars 2019

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið,

Skuggasundi 1,

Reykjavík.

Efni: Umsögn undirritaðs, við drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Um óheillavænlega þróun.

Á jörð sem undirritaður þekki til og opin hefur verið marga síðustu áratugi fyrir smávægilegri umferð ríðandi manna, sem í flestum tilfellum hafa beðið um leifi til að fara í gegnum landið. Þar er verið loka gömlum vegi sem lagður var innan jarðarinnar af fyrri ábúendum um miðja síðustu öld. Loka með stórum steinum og loka hliðum með símastaurum, svo hvorki ríðandi né akandi mönnum er þar fært um. Þessir ábúendur snúa hestamönnum við, svo þeir verða að ríða langan krók til baka eftir hörðum bílvegum, til að komast leiðar sinnar!

Það síðasta sem ég veit af áformum ábúenda þessarar jarðar er, að þeir hafa pantað læsanlegt röra- hlið sem stendur til að setja upp við landamörk jarðarinnar!

Rétt er að taka fram þessi vegur sem um ræðir liggur í gegnum úthaga (óræktað land) og afgirt tún þar sem enginn lausagangur skepna er á svæðinu!

Krafa alls almennings í þessu landi er að geta ferðast um landið sitt óáreitt því í raun er landið sameign allra Íslendinga!

P.S. ég hef heyrt sögur um að nýríkir landeigendur stöðvi hestamenn á gömlum þjóðleiðum, þeir eru jafnvel vopnaðir og hafa komast upp með þetta!

Undirritaður kallar á að almannahagsmunir verði tryggðir í framtíðinni í væntanlegu lagafrumvarpi um náttúruvernd!

Virðingarfyllst,

Örn Þorvaldsson Gulaþingi 42, 203 Kópavogi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Þórarinn Garðarsson - 16.03.2019

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Þórarins Garðarssonar um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#32 Margeir Ingólfsson - 17.03.2019

Umsögn um fyrirhugaðar breytingar á lögum um náttúruvernd nr 60/2013.

Ég mótmæli harðlega fyrirhuguðum breytingum á „náttúruverndarlögunum“ . Með þessu frumvarpi er gerð tilraun til þess að lögfesta tvenns konar eignarétt í þessu landi þ.e. „þéttbýliseignarétt“ sem er fullkomin eignaréttur og „dreifbýliseignarétt“ sem á einungis að vera afnotaréttur sem allur heimurinn hafi afnot af. Samkvæmt 72. gr Stjórnarskrá Íslands er eignarétturinn friðhelgur og má engan skylda til að láta eign sína af hendi nema fullt verð komi fyrir. Það er hjákátlegur útúrsnúningur sem fram kemur í 4 kafla greinargerðar frumvarpsins þar sem reynt er að færa rök fyrir því að ekki sé um að ræða stjórnarskrárbrot.

Í greinargerðinni er því haldið á lofti að hinn forni réttur landsmanna, sem nauðsynlegur var áður en vegir voru lagðir um landið, að fara um eignarlönd annara til þess að menn kæmust að sínum eigin lendum eða bústöðum, hafi verið einhvers konar almannaréttur. Jónsbókarákvæðunum um umferð manna var ætlað að tryggja að almenningur kæmist um landið með þeim hætti sem þá tíðkaðist þe. gangandi eða ríðandi og að menn ættu þess kost að hvíla sig og reiðskjóta sína, hagnýta náttúruna sér til næringar og að hestar gætu bitið gras. Með nútíma veglagningu hefur þessi almenni umferðarréttur verið betur skilgreindur og „rammaður inn“ en var áður fyrr og er fráleitt að halda því fram að það sé einhver almannaréttur utan skilgreindra vega á eignalandi. Þannig er það fjarstæða og útursnúningur í pólitíska þágu, að halda því fram að hægt sé að færa þennan forna umferðarrétt einstaklinga í þann búning að ferðamenn eigi nú að öðlast óskoraðan rétt til þess að fara um eignarlönd manna án nokkurra skilyrða. Á grundvelli þessa meinta almannaréttar eigi þannig að veita hundruðum þúsunda manna heimild til þess að koma akandi á þjóðvegum landsins með nútíma tækni, nema staðar við eignarlönd manna hvar sem þau kunna að vera staðsett og vaða yfir þau að eigin geðþótta og með tilheyrandi hættu á mengun, ónæði og náttúruspjöllum. Bara það eitt og sér mun snúa náttúruverndarlögunum upp í andhverfu sína.

Breytingar frá ákvæðum 1. mgr. 18. gr. núgildandi laga um náttúruvernd nr. 60/3013 sem lagðar eru til í ákvæðum 1. gr. frumvarpsins séu afar óheppilegar og gangi gróflega á hefðbundinn og ævafornan rétt landeigenda til þess að ráðstafa eign sinni. Engin nauðsyn kallar á breytingu á ákvæðinu og er hún einungis líkleg til þess að kalla á aukið álag á þeim stöðum þar sem náttúrunni stafar nú þegar hætta af aukinni umferð. Breyting á ákvæðinu í þessa veru myndi leiða til þess að landeigendur yrðu sviptir rétti til að takmarka umferð manna um afgirt óræktuð eignarlönd í byggð.

Ekki verður séð að nýju ákvæði í 18. gr l. 60/2013 sé ætlað að vernda náttúru þeirra eignarlanda sem það mögulega tekur til heldur þvert á móti að tryggja rétt hundraða þúsunda erlendra jafnt sem innlendra, ferðamanna til þess að fara óáreittir um landið með tilheyrandi hættu á landspjöllum. Nái þetta frumvarp fram að ganga mun það beinlínis valda náttúruspjöllum.

Ákvæðið um bann við gjaldtöku er brot á stjórnarskrárvörðum rétti landeigenda til þess að nýta þær heimildir sem í eignarrétti þeirra felast. Tillagan er úr takti við þá þróun sem fylgt hefur hinum aukna straumi ferðamanna og er þá sérstaklega ef litið er til hugmynda stjórvalda um gjaldtöku á landi undir yfirráðum ríkisins og þá hvort heldur sem litið er til þjóðgarða, þjóðlendna eða annarra svæða sem lúta forsjá ríkisvaldsins. Um þetta er vísað til 85. og 92. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og til 39. gr. frumvarpsdraga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um þjóðgarðastofnun. Víða má þannig finna hugmyndir um gjaldtöku ríkisins af ferðamönnum vegna ferða þeirra um landið. Þar sem ríkið er að taka gjald af ferðamönnum á bílastæðum þá er gert ráð fyrir því að það verði hægt áfram en öll önnur gjaldtaka óheimil svo sem vegna göngustíga, brúargerðar og almennrar aðstöðusköpunar fyrir ferðamenn. Enn og aftur mun þetta verða til þess að ekki verður farið í nauðsynlegar aðgerðir til verndar náttúrunni þar sem ekki verður hægt að fjármagna það á sama tíma og þessi frumvarpsdrög opna á mikinn átroðning á viðkvæmum svæðum, sem og svæðum sem fljótlega verða viðkvæm vegna aukins átroðnings.

Ákvæðið í 2. gr. frumvarpsins er afar óraunhæft, illa ígrundað og hreint út sagt barnalegt. Þannig er eina takmörkunin sem sett er í ákvæðinu, þ.e. að þegar leita þurfi leyfis landeiganda, að um sé að ræða endurteknar hópferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð sem skipulagðar eru í atvinnuskyni, sem valdið geta spjöllum á náttúru eða ónæði.

Hér eru sett fjöldamörg skilyrði fyrir því að leita þurfi samþykkis landeiganda. Ekki er með nokkrum hætti mögulegt fyrir landeigendur að átta sig á því hvort um sé að ræða hópferðir um land þeirra, hvort ferðirnar séu endurteknar, hvort þær séu skipulagðar í atvinnuskyni, hvort þær séu líklegar til að valda ónæði eða hvort þær kunni að valda spjöllum á náttúru landsins. Orð í greinargerð um að þarna verð kveðið skýrt á um það hvenær leyfi landeiganda þurfi til þess að för um land verði heimil eru hreint öfugmæli.

Þessi frumvarpsdrög eru mjög alvarleg árás á eignir okkar og heimili sem á landsbyggðinni búa. Álagið er meira en nóg nú þegar og eðlilegra hefði verið með þessu frumvarpi að skerpa á eignaréttinum á sama tíma og settar væru reglur umgengnisreglur um land í ríkiseigu. Með þessu frumvarpi er enn verið að dýpka þá gjá sem myndast hefur milli þéttbýlis og dreifbýlis en nær hefði verið fyrir stjórnvöld að reyna að brúa gjánna.

Það eru nokkrir þættir sem hafa verið hornsteinar okkar samfélags og eitt að því er eignarétturinn. Nú þegar gerð er alvarleg atlaga að eignaréttinum með því að skilgreina eignarrétta SUMRA sem almannarétt erum við komin út á mjög alvarlega braut. Það mun aldrei nást sátt um það að eignaréttur sumra sé takmarkaður án þess að fullar bætur komi fyrir.

Ég ætla rétt að vona að þeir sem lögðu fram þann óskapnað sem þessi frumvarpsdrög eru, sjái að sér og dragi þetta til baka. Ef ekki þá er það hrein og klár stríðsyfirlýsing við landeigendur sem munu örugglega sameinast um að verja eignarétt sinn og ganga eins langt í því og til þarf.

Virðingarfyllst

Margeir Ingólfsson

Brú

Biskupstungum

Afrita slóð á umsögn

#33 Þórólfur Sveinsson - 17.03.2019

Í frumvarpinu eru lagðar til tilteknar breytingar á lögunum í því skyni að styrkja ,,almannarétt´´ einstaklinga sem ferðast um óræktuð eignarlönd í byggð.

Því er eindregið mótmælt að umræddar breytingar nái fram að ganga, enda eru þær óviðunandi skerðinga á eignarrétti og fráleitt að túlka ,,almannarétt´´ með þessum hætti.

Vakin er athygli á að með frumvarpinu er sönnunarbyrði snúið gegn landeigandum sem eru vonlítilli stöðu að verja eign sína. Þá mun breyting af þessu tagi ekki einungis hafa mikil áhrif á fjölsóttum ferðamannastöðum, heldur yrði hún mikill deiluvaki víða um í samskiptum ferðafólks og landeigenda.

Þá vil ég lýsa stuðningi við ályktun aðalfundar Landssamtaka landeigenda 14.3. 2019, og umsögn Landssamtaka landeigenda.

Afrita slóð á umsögn

#34 Hörður Einarsson - 17.03.2019

Eftirgreindar athugasemdir eru gerðar sérstaklega við frumvarpsdrögin:

1. Lagt er til, að 1 og 2. gr. frumvarpsins verði felldar brott. Efnislega fela greinar þessar í sér ráðagerðir um kvaðir á eignarlöndum manna, sem fela í sér takmarkanir á eignarrétti manna og þeim ráðstöfunarheimildum, sem í stjórnarskrárvörðum eignarrétti felast, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Til dæmis telst gjaldtaka fyrir hagnýtingu annarra á eignum manns almennt aðeins hluti af nýtingarrétti manna á eignum sínum. Verður slík gjaldtaka ekki bönnuð nema almannaheill krefji og þá gegn fullum bótum. Hér er hvorki sýnt fram á almenningsþörf né gert ráð fyrir bótum.

2. Verði 2. gr. frumvarpsins ekki að fullu felld brott, er lagt til, að úr fyrsta málslið 2. gr. frumvarpsins, sem á að verða nýr 1. málsliður 1. mgr. 24. gr. laganna, verði felld brott þau ákvæði, sem hér eru sett í hornklofa: „Þegar skipulagðar eru [í atvinnuskyni endurteknar hóp]ferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, [sem valdið geta spjöllum á náttúru eða ónæði,] skal leita leyfis landeiganda eða rétthafa lands.“ Ákvæðið hljóði því þannig: „Þegar skipulagðar eru ferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, skal leita leyfis landeiganda eða rétthafa lands.“

Sérstök lagaheimild til leyfislausra ferða óviðkomandi manna um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, hvort sem hætta er á náttúruspjöllum og ónæði eða ekki, og hvort sem er einu sinni eða oftar, felur í sér kvöð á eignarrétti, sem ekki fær staðizt samkvæmt stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. Engin almenningsþörf er til slíkrar lagaheimildar. Tilgangur ákvæðisins í frumvarpinu er bersýnilega sá að heimila ferðaþjónustufyrirtækjum að gera ókeypis út á annarra manna eignir án samráðs við eigendur. Slík háttsemi felur í sér brot á stjórnarskrárvörðum eignarrétti og mannasiðum.

3. Að öðru leyti er sérstaklega tekið undir umsagnir Landssamtaka landeigenda á Íslandi, Magnúsar Óskarssonar f.h. Kerfélagsins og Margeirs Ingólfssonar.

Reykjavík, 17. marz 2019,

Hörður Einarsson

Afrita slóð á umsögn

#35 Sigurður Jónas Þorbergsson - 17.03.2019

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú lagt fram drög að frumvarpi til breytinga á náttúrverndarlögum nr. 60/2013.

Í greinargerð með tillögunum er því haldið á lofti að hinn forni réttur landsmanna, sem nauðsynlegur var áður en vegir voru lagðir um landið, að fara um eignarlönd annara til þess að menn kæmust að sínum eigin lendum eða bústöðum, hafi verið einhvers konar almannaréttur. Jónsbókarákvæðunum um umferð manna var ætlað að tryggja að almenningur kæmist um landið með þeim hætti sem þá tíðkaðist þe. gangandi eða ríðandi og að menn ættu þess kost að hvíla sig og reiðskjóta sína, hagnýta náttúruna sér til næringar og að hestar gætu bitð gras. Þessi almenni umferðarréttur er fráleitt nauðsynlegur með sama hætti og áður var eftir að vélknúin ökutæki komu til, vegir voru lagðir og slóðar kortlagðir. Það er fjarstæða og útursnúningur í pólitíska þágu, að halda því fram að hægt sé að færa þennan forna umferðarrétt einstaklinga í þann búning að ferðamenn eigi nú að öðlast óskoraðan rétt til þess að fara um eignarlönd manna án nokkurra skilyrða. Á grundvelli þessa meinta almannaréttar eigi þannig að veita hundruðum þúsunda manna heimild til þess að koma akandi á þjóðvegum landsins með nútíma tækni, nema staðar við eignarlönd manna hvar sem þau kunna að vera staðsett og vaða yfir þau að eigin geðþótta og með tilheyrandi hættu á mengun, ónæði og náttúruspjöllum.

Áður fyrr tíðkaðist að flokka landsvæði á Íslandi í eignarlönd, afrétti og almenninga eftir því hvernig eignarhaldi var háttað á þeim. Á þeirri skipan var gerð breyting með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur þar sem íslensku landi er að meginstefnu til skipt í eignarlönd og þjóðlendur. Stjórnarskrá Íslands veitir þjóðlendum þó enga sérstaka vernd þannig að löggjafinn getur með einfaldri breytingu á lögunum fellt þau landsvæði sem nú eru talin þjóðlendur undir einfalt eignarhald ríkisvaldsins. Í 1. gr. laganna er eignarland skilgreint sem landsvæði sem háð er einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Í 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923 segir að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni og stöðuvatni, sem á henni er. Þessi réttur eiganda nær til nýtingar á vatnsorku, sbr. 49. gr. laganna. Þá er það meginregla samkvæmt íslenskum rétti að landeigandi á einkarétt til nýtingar og meðferðar á landareign sinni

Almannaréttur sem slíkur, sem í samræmi við mannréttindaákvæði alþjóðasamfélagsins, tekur til allra núlifandi manneskja heimsbyggðarinnar, getur ekki talist eiginlegur eignarréttur eins og hann hefur verið skilgrendur af fræðimönnum enda nýtur hann ekki neinnar verndar sem slíkur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Ekki verður séð að þessu nýja ákvæði í 18. gr l. 60/2013 sé ætlað að vernda náttúru þeirra eignarlanda sem það mögulega tekur til heldur þvert á móti að tryggja rétt hundraða þúsunda erlendra jafnt sem innlendra, ferðamanna til þess að fara óáreittir um landið með tilheyrandi hættu á landspjöllum.

Ákvæðið um bann við gjaldtöku er brot á stjórnarskrárvörðum rétti landeigenda til þess að nýta þær heimildir sem í eignarrétti þeirra felast. Tillagan er úr takti við þá þróun sem fylgt hefur hinum aukna straumi ferðamanna og er þá sérstaklega ef litið er til hugmynda stjórvalda um gjaldtöku á landi undir yfirráðum ríkisins og þá hvort heldur sem litið er til þjóðgarða, þjóðlendna eða annarra svæða sem lúta forsjá ríkisvaldsins. Um þetta er vísað til 85. og 92. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og til 39. gr. frumvarpsdraga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um þjóðgarðastofnun. Víða má þannig finna hugmyndir um gjaldtöku ríkisins af ferðamönnum vegna ferða þeirra um landið. Þá er til hliðsjónar vísað til gjaldskrár Isavia vegna bílastæða við Leifsstöð þar sem um er að ræða grímulausa gjaldtöku fyrir stöðu nútíma fararskjóta almennings, þ.e bifreiða, á landi án þess að nokkur þjónusta komi á móti.

Ákvæðið í 2. gr. frumvarpsins er afar óraunhæft, illa ígrundað og hreint út sagt barnalegt. Þannig er eina takmörkunin sem sett er í ákvæðinu, þ.e. að þegar leita þurfi leyfis landeiganda, að um sé að ræða endurteknar hópferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð sem skipulagðar eru í atvinnuskyni, sem valdið geta spjöllum á náttúru eða ónæði.

Hér eru sett fjöldamörg skilyrði fyrir því að leita þurfi samþykkis landeiganda. Ekki er með nokkrum hætti mögulegt fyrir landeigendur að átta sig á því hvort um sé að ræða hópferðir um land þeirra, hvort ferðirnar séu endurteknar, hvort þær séu skipulagðar í atvinnuskyni, hvort þær séu líklegar til að valda ónæði eða hvort þær kunni að valda spjöllum á náttúru landsins. Orð í greinargerð um að þarna verð kveðið skýrt á um það hvenær leyfi landeiganda þurfi til þess að för um land verði heimil eru hreint öfugmæli.

Undirritaður, landeigandi að Reykjahlíð, í Mývatnssveit mótmælir harðlega skerðingu stjórnarskrárvarins eignarréttar landeigenda með tilefnislausri lagasetningu sem mun einungis skapa árekstra uppnámsástand við stóra og smáa ferðmannastaði og verða náttúruvernda til skaða.

Sigurður Jónas Þorbergsson

170849-3969

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#36 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 17.03.2019

Vinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#37 Helgi Tómasson - 17.03.2019

Almennur eignarréttur er hornsteinn almennra mannréttinda ásamt málfrelsi og ritfrelsi. Þetta eru brothætt réttindi sem minni hluti mannkyns nýtur. Til eru í gömlum lögum ákvæði um að för um landið sé heimil sé það landeiganda að meinalausu. Hér er vísað til samgangna og að það sé almannahagur að samgöngur séu greiðar. Strjálbýli og hörkulegt árferði voru á árum áður náttúrleg vernd landsins gegn áþroðningi mannfjölda og búfjár. Ný tækni hefur gjörbreytt þessu. Tilbúinn áburður gerir að verkum að hægt er að halda úti stórum bústofni, til dæmis sauðfjár og hesta sem geta spillt landgæðum. Á seinni tímum hefur fjöldi ferðamanna vaxið mikið og víða er átroðningur þeirra orðið vandamál. Upp hafa sprottið ný fyrirtæki sem reyna að sækja sér skjótfenginn gróða með því að fjölga ferðamönnum mikið. Landgæðum er ógnað með þessari nýju græðgi. Það er mikilvægt að hið opinbera styðji við eignarréttinn og hnykki á því að umferð, jeppa, fjórhjóla, hesta, ferðahópa, o.s.frv. um einkavegi á landi í einkaeign sé almennt óheimil. Þeim sem ferðast vilja um á einkavegum, göngustígum, o.s.frv. bera að bæta landeigendum átroðninginn með hæfilegu gjaldi. Skipulegar ferðir hópa utan vega og stíga verður að vera með öllu óheimil. Í sumum tilfellum væri æskilegt að hið opinbera styrkti landeigendur til uppsetninga á girðingum í landverndarskyni. Það er ekki æskilegt að landeigendur beri einir kostnað af slíkri náttúruvernd. Landeigendur verða að geta skilað landinu í sem bestu ástandi til komandi kynslóða. Tekjuöflun í tengslum við land í einkaeigu verður að vera í nánu samráði við landeigendur. Landeigandi verður að stýra sínu landi og ákveða hvar sé byggt, girt o.s.frv. Aðili má ekki hafa tekjur af því spilla landi (né öðrum eignum) annars. Ég tel að staða landeiganda sé veik gagnvart fjársterkum aðilum í til dæmis ferðaþjónustu. Stöðu landeigenda gegn græðgisöflum verður að styrkja. Gjaldtaka landeigenda verður að vera sjálfsagður réttur hans og jafnvel hin almenna regla.

Afrita slóð á umsögn

#38 Sigurður Jónsson - 17.03.2019

Umsögn Landssamtaka landeigenda á Íslandi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#39 Ólafur H Jónsson - 17.03.2019

Góðan dag,

meðfylgjandi í viðhengi er umsögn f.h. Reykjahlíð III Mývatnssveit, vegna frumvarps um breytingu á lögum 60/2013 um náttúruvernd.

Vinsamlegast staðfestið móttöku, því einhver kerfisvilla virðist vera, ef sent er viðhengi í gegnum Internet Explorer varfrann.

Virðingarfyllst,

f.h. Reykjahlíð III

R3 ehf.

Ólafur H. Jónsson frkv.stj. gsm 8930015

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#40 Hólmgeir Guðmundsson - 17.03.2019

Ég vil lýsa yfir eindreginni andstöðu minni við fyrirhugaðar breytingar á náttúruverndarlögum. Með hinum fyrirhuguðu breytingum er í raun verið að afnema eingarrétt á (óræktuðu) landi. Það er með ólíkindum að stjórnvöldum detti í hug að brjóta með svo skýlausum hætti á rétti sem á þó að vera varinn af stjórnarskrá.

Tilraunir til þess að réttlæta þessa eignaupptöku með umferðarrétt á fyrri öldum um veglaust land eru í besta falli broslegar, eins og t.d. Margeir Ingólfsson og Helgi Tómasson og fleiri hafa rakið hér að ofan.

Afrita slóð á umsögn

#41 Sveinbjörn Halldórsson - 17.03.2019

Omsögn frá Ferðaklúbbnum 4x4

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#42 Páll Eysteinn Guðmundsson - 17.03.2019

Umsögn frá Ferðafélagi Íslands

kveðja,

Páll Guðmundsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#43 Haukur Eggertsson - 17.03.2019

Meðfylgandi er, í viðhengi, umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna vegna frumvarps til breytinga á lögum um náttúruvernd

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#45 María Elínborg Ingvadóttir - 17.03.2019

Reykjavík, 16. mars 2019

Til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Umsögn vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd nr. 60/2013

Frá Félagi skógareigenda á Suðurlandi.

Fagna ber því sem fram kemur í þessu frumvarpi, varðandi vilja til að bera virðingu fyrir náttúru landsins, sýna tillitssemi við nýtingu auðlinda og umgengni um viðkvæm svæði. Það sem hins vegar vekur furðu og er sem rauður þráður í gegnum frumvarpið, er sú ætlun að fólk hafi almennt rétt á að fara um lönd annarra og tjalda þar jafnvel. Samkvæmt þessu frumvarpi getur hver sem er tjaldað á Austurvelli, eða inni á álitlegri lóð við Elliðavatn, án leyfis. Þrátt fyrir IV. Kafla laganna, getur ferðasali skipulagt gönguferðir upp á næsta hól á jörð landeiganda, án þess að fá leyfi og vísað á bílastæðin undir eldhúsglugganum. Sem auðvitað á ekki að borga fyrir. Landeigendur eru ekki óvinir ferðamanna, en það er furðulegt að ferðasalar og opinberir starfsmenn ráðuneyta, skuli telja það sjálfsagt og eðlilegt, að ferðamenn hafi frjálsan aðgang og umgang um jarðir einstaklinga. Landeigendur eru ekki skikkaðir til að koma upp hreinlætisaðstöðu, slóðum og stígum, borðum og bekkjum, ef til vill hefur það gleymst. Það fylgir því nefnilega ýmislegt, að leyfa för fólks um jarðir og jafnvel dvöl í tjaldi. Það sem ferðamenn skilja eftir sig, flokkast varla sem góð umgengni, en auðvitað á jarðareigandi að halda landi sínu hreinu, eins og einnig kemur fram í þessu frumvarpi.

Þjóðgarðar og þjóðlendur og óbyggðir má nefna sem svæði, þar sem ferðamenn eiga að vera velkomnir, enda þá öll nauðsynleg aðstaða fyrir hendi, að teknu tillit til umhverfis og aðstæðna. Þeir sem sömdu þetta frumvarp, hefðu kannski frekar átt að brýna opinbera aðila til að marka skýra stefnu um aðstöðu, umgengni og umhirðu þeirra svæða sem eru í þeirra umsjón.

Það væri til heilla fyrir alla, að þetta frumvarp yrði lagt til hliðar og annað, einfaldara og skilvirkara samið sem betrumbót við núverandi Náttúruverndarlög. Ef þetta frumvarp verður samþykkt, mun það ala á leiðindum, deilum og óþægindum af verstu sort, milli jarðareigenda og ferðafólks, ferðasala og fólks sem mun vilja láta reyna á rétt sinn. Gjá milli landeigenda og ferðafólks getur aldrei orðið affarasæl. Af hverju á almenningur að hafa rétt til óhefts aðgangs að eignarlöndum annarra ? Hvar í heiminum er það þannig ? Hvaðan kemur réttur opinberra aðila til eignaupptöku, með nýtingu jarða til ferðamennsku ?

Nýtt frumvarp, þar sem lagt er upp með, að landeigandi hefur fullt umráð yfir eign sinni, en getur samið við ferðasala um skipulag ferða og fyrirkomulag, eftir eigin geðþótta, er einfaldast og réttlátast. Ef landeigandi vill bjóða ferðamönnum að fara um land sitt, gerir hann það, á sínum forsendum, jafnvel með gjaldtöku. Aðsókn ferðamanna ræðst af aðdráttarafli svæðisins og þeim aðgangseyri sem þeim finnst sanngjarn.

Í 1.gr. er 2.málsgrein, 1.málsgreinar, 18.gr. laganna breytt. Það er hins vegar ekki hróflað við 2.málsgrein 18.greinar, en þar segir, að för um ræktað land og dvöl þar sé háð samþykki eiganda þess. Svo er það seinni málsgreinin, en hún er þannig: „ Þrátt fyrir að skógræktarsvæði teljist ræktað land í skilningi laga þessara er för um svæðið og dvöl þar ekki háð samþykki eiganda þess eða rétthafa eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.“ Hér fylgir

ekki skilgreining á fyrstu stigum skógræktar, en umhirða og grisjun skóga hefst á fyrstu stigum, með tilheyrandi tækjum og tólum. Hver mun bera ábyrgð á og bæta tjón sem verður á skógarsvæði, þar sem almenningur á að hafa óheftan aðgang og dvöl þar ?

Í 2.gr., er lögð til breyting á 1.mgr.24.gr. Þar stendur: „Þegar skipulagðar eru í atvinnuskyni endurteknar hópferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, sem valdið geta spjöllum á náttúru eða ónæði, skal leita leyfis landeiganda.“ Endurteknar hópferðir, ein og ein í lagi, hver metur náttúruspjöll og ónæði ? Og hver sker úr um hvort um er að ræða reglulegar skipulagðar ferðir, eða ein og ein hópferð. Hver mun halda við heimreiðum að bæjum og vegum um svæði, sem ekki hefur verið ætlað að þola almenna umferð rútubíla sem annarra bifreiða ?

Þarna ætti að standa: Þegar skipulagðar eru í atvinnuskyni, hópferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, skal leita leyfis landeiganda.

4.gr. ætti að sleppa með öllu.

Greinargerðin:

2.gr. greinargerðarinnar er með ólíkindum. Svo virðist sem höfundur hennar hafi algjörlega misst sjónar á eignarrétti, einkalífi og umráðarétti jarðareigenda yfir jörðum sínum.

Í 3. lið greinargerðarinnar, er fjallað um meginefni frumvarpsins og þar segir meðal annars: „almannaréttur einstaklinga verði styrktur nokkuð samhliða því að réttur landeigenda til að takmarka för einstaklinga um óræktað land í byggð verði settar nokkrar skorður“. Þarna er réttur landeigandans heldur bágborinn.

Í kafla greinargerðarinnar um einstakar greinar frumvarpsins stendur m.a.: „Til að ganga á rétt almennings til að ferðast um landið með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu þurfa því að liggja til grundvallar tilteknar hlutlægar ástæður fyrir því að heimila ekki slíka för um óræktað land.“ Landeigandinn þarf sem sagt að tilgreina, til yfirvalda, ástæður fyrir því, að hann vill ekki ferðamannastrauminn inn á hlað til sín. En þetta á ekki að vera alslæmt, því síðar kemur: „Eðlilegt kann einnig að vera að takmarka umferð á grundvelli nýtingar ef hið afgirta óræktaða land er mjög nálægt híbýlum manna og umferð kann því að valda ónæði og truflunum. Landeigandanum er þá heimilt að nýta landið í grennd við híbýli sín til að skapa frið og ró á landareign sinni“. Er það boðlegt að ætla að ganga svona freklega á umráðarétt landeigandans ?

Það er dapurt að þurfa að benda á agnúa þessa frumvarps, þar sem þeir agnúar eru ekki efnislegir, frekar að grunnhugsunin við samningu frumvarpsins sé undarleg, þar sem ekki er virtur jafn réttur fólks. Með yfirgangi á að ganga á eigur og réttindi eins hóps og færa öðrum.

Það væri óskandi að Náttúruverndarlögin verði tekin til skoðunar, með það í huga að þau endurspegli vilja þjóðarinnar til að bera virðingu fyrir landinu sínu, umhverfi og auðlindum og nýtingu þess af skynsemi og í sátt við alla aðila.

Virðingarfyllst,

María E. Ingvadóttir, formaður Félags skógareigenda á Suðurlandi

Afrita slóð á umsögn

#46 Matvælastofnun - 17.03.2019

Hjálagt er umsögn Matvælastofnunar ásamt fylgiskjölum um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Viðhengi Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#47 María Elínborg Ingvadóttir - 17.03.2019

Reykjavík, 16. mars 2019

Til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Umsögn vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd nr. 60/2013.

Frá Félagi skógareigenda á Suðurlandi.

Fagna ber því sem fram kemur í þessu frumvarpi, varðandi vilja til að bera virðingu fyrir náttúru landsins, sýna tillitssemi við nýtingu auðlinda og umgengni um viðkvæm svæði. Það sem hins vegar vekur furðu og er sem rauður þráður í gegnum frumvarpið, er sú ætlun að fólk hafi almennt rétt á að fara um lönd annarra og tjalda þar jafnvel. Samkvæmt þessu frumvarpi getur hver sem er tjaldað á Austurvelli, eða inni á álitlegri lóð við Elliðavatn, án leyfis. Þrátt fyrir IV. Kafla laganna, getur ferðasali skipulagt gönguferðir upp á næsta hól á jörð landeiganda, án þess að fá leyfi og vísað á bílastæðin undir eldhúsglugganum. Sem auðvitað á ekki að borga fyrir. Landeigendur eru ekki óvinir ferðamanna, en það er furðulegt að ferðasalar og opinberir starfsmenn ráðuneyta, skuli telja það sjálfsagt og eðlilegt, að ferðamenn hafi frjálsan aðgang og umgang um jarðir einstaklinga. Landeigendur eru ekki skikkaðir til að koma upp hreinlætisaðstöðu, slóðum og stígum, borðum og bekkjum, ef til vill hefur það gleymst. Það fylgir því nefnilega ýmislegt, að leyfa för fólks um jarðir og jafnvel dvöl í tjaldi. Það sem ferðamenn skilja eftir sig, flokkast varla sem góð umgengni, en auðvitað á jarðareigandi að halda landi sínu hreinu, eins og einnig kemur fram í þessu frumvarpi.

Þjóðgarðar og þjóðlendur og óbyggðir má nefna sem svæði, þar sem ferðamenn eiga að vera velkomnir, enda þá öll nauðsynleg aðstaða fyrir hendi, að teknu tillit til umhverfis og aðstæðna. Þeir sem sömdu þetta frumvarp, hefðu kannski frekar átt að brýna opinbera aðila til að marka skýra stefnu um aðstöðu, umgengni og umhirðu þeirra svæða sem eru í þeirra umsjón.

Það væri til heilla fyrir alla, að þetta frumvarp yrði lagt til hliðar og annað, einfaldara og skilvirkara samið sem betrumbót við núverandi Náttúruverndarlög. Ef þetta frumvarp verður samþykkt, mun það ala á leiðindum, deilum og óþægindum af verstu sort, milli jarðareigenda og ferðafólks, ferðasala og fólks sem mun vilja láta reyna á rétt sinn. Gjá milli landeigenda og ferðafólks getur aldrei orðið affarasæl. Af hverju á almenningur að hafa rétt til óhefts aðgangs að eignarlöndum annarra ? Hvar í heiminum er það þannig ? Hvaðan kemur réttur opinberra aðila til eignaupptöku, með nýtingu jarða til ferðamennsku ?

Nýtt frumvarp, þar sem lagt er upp með, að landeigandi hefur fullt umráð yfir eign sinni, en getur samið við ferðasala um skipulag ferða og fyrirkomulag, eftir eigin geðþótta, er einfaldast og réttlátast. Ef landeigandi vill bjóða ferðamönnum að fara um land sitt, gerir hann það, á sínum forsendum, jafnvel með gjaldtöku. Aðsókn ferðamanna ræðst af aðdráttarafli svæðisins og þeim aðgangseyri sem þeim finnst sanngjarn.

Í 1.gr. er 2.málsgrein, 1.málsgreinar, 18.gr. laganna breytt. Það er hins vegar ekki hróflað við 2.málsgrein 18.greinar, en þar segir, að för um ræktað land og dvöl þar sé háð samþykki eiganda þess. Svo er það seinni málsgreinin, en hún er þannig: „ Þrátt fyrir að skógræktarsvæði teljist ræktað land í skilningi laga þessara er för um svæðið og dvöl þar ekki háð samþykki eiganda þess eða rétthafa eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.“ Hér fylgir

ekki skilgreining á fyrstu stigum skógræktar, en umhirða og grisjun skóga hefst á fyrstu stigum, með tilheyrandi tækjum og tólum. Hver mun bera ábyrgð á og bæta tjón sem verður á skógarsvæði, þar sem almenningur á að hafa óheftan aðgang og dvöl þar ?

Í 2.gr., er lögð til breyting á 1.mgr.24.gr. Þar stendur: „Þegar skipulagðar eru í atvinnuskyni endurteknar hópferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, sem valdið geta spjöllum á náttúru eða ónæði, skal leita leyfis landeiganda.“

Endurteknar hópferðir, ein og ein í lagi, hver metur náttúruspjöll og ónæði ? Og hver sker úr um hvort um er að ræða reglulegar skipulagðar ferðir, eða ein og ein hópferð. Hver mun halda við heimreiðum að bæjum og vegum um svæði, sem ekki hefur verið ætlað að þola almenna umferð rútubíla sem annarra bifreiða ?

Þarna ætti að standa: Þegar skipulagðar eru í atvinnuskyni, hópferðir um ákveðna staði á eignarlöndum í byggð, skal leita leyfis landeiganda.

4.gr. ætti að sleppa með öllu.

Greinargerðin:

2.gr. greinargerðarinnar er með ólíkindum. Svo virðist sem höfundur hennar hafi algjörlega misst sjónar á eignarrétti, einkalífi og umráðarétti jarðareigenda yfir jörðum sínum.

Í 3. lið greinargerðarinnar, er fjallað um meginefni frumvarpsins og þar segir meðal annars: „almannaréttur einstaklinga verði styrktur nokkuð samhliða því að réttur landeigenda til að takmarka för einstaklinga um óræktað land í byggð verði settar nokkrar skorður“. Þarna er réttur landeigandans heldur bágborinn.

Í kafla greinargerðarinnar um einstakar greinar frumvarpsins stendur m.a.: „Til að ganga á rétt almennings til að ferðast um landið með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu þurfa því að liggja til grundvallar tilteknar hlutlægar ástæður fyrir því að heimila ekki slíka för um óræktað land.“ Landeigandinn þarf sem sagt að tilgreina, til yfirvalda, ástæður fyrir því, að hann vill ekki ferðamannastrauminn inn á hlað til sín. En þetta á ekki að vera alslæmt, því síðar kemur: „Eðlilegt kann einnig að vera að takmarka umferð á grundvelli nýtingar ef hið afgirta óræktaða land er mjög nálægt híbýlum manna og umferð kann því að valda ónæði og truflunum. Landeigandanum er þá heimilt að nýta landið í grennd við híbýli sín til að skapa frið og ró á landareign sinni“. Er það boðlegt að ætla að ganga svona freklega á umráðarétt landeigandans ?

Það er dapurt að þurfa að benda á agnúa þessa frumvarps, þar sem þeir agnúar eru ekki efnislegir, frekar að grunnhugsunin við samningu frumvarpsins sé undarleg, þar sem ekki er virtur jafn réttur fólks. Með yfirgangi á að ganga á eigur og réttindi eins hóps og færa öðrum.

Það væri óskandi að Náttúruverndarlögin verði tekin til skoðunar, með það í huga að þau endurspegli vilja þjóðarinnar til að bera virðingu fyrir landinu sínu, umhverfi og auðlindum og nýtingu þess af skynsemi og í sátt við alla aðila.

Virðingarfyllst,

María E. Ingvadóttir, formaður Félags skógareigenda á Suðurlandi

Afrita slóð á umsögn

#48 Oddný María Gunnarsdóttir - 17.03.2019

Nú þykir mér umhverfisráðherra hafa uppi heldur þröngan sjónarhring, nær væri að hemja þann fjölda ferðalanga sem ferðast um með íþyngjandi kolefnasporum. Við landeigendur ættum ekki að þurfa að verja okkar lendur fyrir ágangi, hvað þá heldur að rökstyðja okkar ástæður fyrir lokun lendna fyrir nefnd skipaðri af ráðherra. Þyki mér ástæða til að hefta för manna um mínar lendur, hvort sem tilgangurinn ferðalanga er skjóta skepnur, skoða búsvæði mófugla eða einhver annar, sem oft er háður dægursveiflum, þá er réttur landeigandans ótvíræður og stjórnarskrár varinn. Græðgi manna eru engin takmörk sett eins og dæmin sanna, okkur landeigendum er best trúandi til að vernda okkar lendur.

Afrita slóð á umsögn

#49 Landssamtök sauðfjárbænda - 17.03.2019

Hér er umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda um frumvarp til laga um breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#50 Sævar Siggeirsson - 17.03.2019

Styð frumvarpið.

Vona að þetta verði til þess að för okkar landsmanna um landið verði frjáls, og óhindruð.

Það ætti öllum að vera frjálst að nátta, gista, leggja bíl og gista svo lengi sem það er ekki

á afgirtu ræktuðu landi. Það á svo að vera sjálfsagt mál að fólk gangi vel um. Það höfum við gert í yfir 40 ár á för okkar um landið.

Svona er þetta bæði í Noregi og Svíþjóð.

Ein þjóð og eitt land. Ég er líka landeigandi.

Sævar Siggeirsson.

Afrita slóð á umsögn

#51 Sigríður Arna Arnþórsdóttir - 17.03.2019

Ágæta ráðuneyti

í viðhengi er umsögn mín fyrir hönd Félags húsbílaeigenda.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#52 Bændasamtök Íslands - 17.03.2019

Umsögn Bændasamtaka Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#53 Marías Sveinsson - 17.03.2019

Verð að þakka Guði fyrir að hafa beint mér á fund hjá Landsamtökum Landeigenda, sem ég vissi ekki um fyrr en fyrir skömmu. þar fékk ég greinargóðar upplýsingar um hvað stjórnvöld væru að bralla, og að ég þyrfti að fara inná samráðsgátt til að sjá hvað er í gangi (vissi ekki um þetta) en er spennandi og upplýsandi þáttur í lífinu. Ég verð að taka undir mótmæli þeirra við þessari breitingu á náttúrverndarlögum nr. 60/2013. sem mér fynnst virkilega barnalega unninn og varð hálf hissa, er ekki komið nóg af svona vafasömum tillögum hjá stjórnvöldum sem virðast ekki þekkja til stjórnarskrár Íslands, eða hugsa sem svo flýtur á meðan ekki sekkur, er ekki komið nóg af kærum vegna þess að verið er að brjóta og traðka á stjórnarskráðs vörðum rétti fólks, er ekki komin tími til að þingmenn fari nú að vinna vinnuna sýna og kynna sér hver eru lög landsins og stjórnarskrá áður en þeir fara að hnoða saman eða breita lögum sem standast ekki, því mörg eru jú dæmin um að lög stangist á við stjórnarskrána. Því miður hfði ég ekki tíma til senda ýtarlegri skrif en vitna í áliktun sem við samþykktum á aðalfundi. Hin forni almannaréttur tók til frjálsrar farar gangandi manna um eingarlönd annarra; umferðarréttur. Rétturinn var undantekningarheimild frá ótvíræðum eignarrétti og til þess gerður að greiða för á milli tveggja staða á tímum þegar samgöngur voru með öðru sniði en nú er. Vegfarendum bar að hlíta ströngum undantekningum og greiða bætur eða sæta öðrum viðurlögum ef ekki væri að þessum reglum farið. Um þetta liggja fyrir fjölmargar lögfræðilegar fræðigreinar sem vart teljast umdeildar. Ég mótmæli skerðingu stjórnarskrárvarins eiganarréttar míns með tilefnislausri lagasetningu sem mun einungis skapa uppnámsástand við fjölfarna ferðmannastaði og verða náttúruvernd til skaða eins og ég hef orðið var við á landi mínu þar sem stjórnvöld/Umhverfisstofnun hefur komið að.

Gyða Guðmundsdóttir og Marías Sveinsson

eigendur hluta Hvallátra/Látrabjargs Vesturbyggð

Afrita slóð á umsögn

#54 Ívar Pálsson - 17.03.2019

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið,

Skuggasundi 1,

150 Reykjavík

Reykjavík 17. mars 2019.

Efni: Umsögn Skotveiðifélags Íslands við drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Skotveiðifélag Íslands fagnar framkomnu lagafrumvarpi og þeim umbótum sem þar eru á ákvæðum náttúruverndarlaga er varða almannarétt.

Almennt um almannarétt

Það eru í raun grundvallarmannréttindi hvers manns að fá að njóta þess að ferðast um landið án sérstakar heimildar enda sýni menn landi og starfsemi á því fyllstu virðingu og valdi ekki landeiganda tjóni. Réttur til útvistar er í raun ekki til án skýrra og rúmra ákvæða til almannaréttar til umferðar.

Þegar náttúruverndarlög voru fyrst sett árið 1956 og komu þar inn ákvæði um almannarétt sem tóku við af hinum fornu ákvæðum úr Grágás. Með öllum breytingum á náttúruverndarlögum síðan þá hefur verið verulega þrengt að almannarétti til umferðar þó að markmiðið hafi alltaf verið að rýmka almannaréttinn að nýju. Það hefur t.d. gerst með breytingum við þriðju umræðu á alþingi og stundum án þess að meiningin hafi endilega verið að skerða réttinn.

Í dæmaskyni er minnt á að þegar frumvarp til nvl. frá árinu 1999 var lagt fram kom fram í greinargerð frumvarpsins að ætlunin væri að rýmka mjög almannarétt til umferðar. Almannarétturinn hafði verið þrengdur verulega með lögum um náttúruvernd frá 1971. Gerði 14. gr. frumvarps til nvl. ráð fyrir að almenningi væri alltaf heimil för um óræktað land hvort sem það væri girt, í byggð eða utan byggðar. Með breytingartillögu frá umhverfisnefnd var ákvæðinu hins vegar breytt á þann veg sem það er í gildandi lögum, þ.e. 2. máls. 1. mgr. 18. gr. var bætt við. Var landeigendum veitt heimild til takmarka umferð um óræktað girt land í byggð og almannarétturinn þrengdur. Ótrúlegur viðsnúningur eftir ítarlegt samráð við hagsmunaðila.

Enn var leitast við að bæta úr þessu þegar ný náttúruverndarlög voru samþykkt á Alþingi 2013, en sem kunnugt er var gildistöku þessara laga frestað. Áður en lögin tóku gildi árið 2015 ákvað Alþingi að gera breytingar á lögunum þannig að almannaréttarákvæðin voru færð aftur til fyrra horfs eins og þau voru í lögunum frá 1999. Það var þó bót í máli að með lögunum fylgdi vilyrði um að almannaréttur yrði endurskoðaður þannig að réttur almennings til að njóta náttúrunnar yrði tryggður. Þetta frumvarp sem hér er komið fram felur í sér efndir á því vilyrði og því fagnar félagið sérstaklega. Alþingi hefur nú í höndum sögulegt tækifæri til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru við setningu náttúruverndarlaga árið 1971. Félagið brýnir nú þingmenn til að gera ekki sömu mistökin í þriðja eða kannski frekar fjórða sinn og samþykkja raunverulega rýmkun á almannarétti til umferðar.

Umfjöllun um breytingar á 18. gr.

Gerðar voru athugasemdir við að í greininni væri réttur landeiganda til að takmarka eða banna almenningi för um afgirt óræktað land væri því sem næst ótakmarkaður. Skilningur er á að slíkar takmarkanir geti verið nauðsynlegar vegna nýtingar eða verndunar en mikilvægt er að í lagagreininni komi fram að takmarkanir skuli byggjast á slíkum atriðum. Félagið telur að þær breytingar sem lagðar eru til á þessari grein komi til móts við þessar athugasemdir, án þess að möguleikar landeiganda til að vernda hagsmuni sína séu fyrir borð bornir. Þó væri til bóta ef betur væri skýrt hvað telst falla undir nýtingu í þessu sambandi með upptalningu a.m.k. í dæmaskyni, en það er full opið til túlkunar eins og það er sett hér fram. Slíkt gæti komið í veg fyrir árekstra.

Félagið telur raunar að rýmka mætti almannarétt til umferðar en frekar. Ekki væri óeðlilegt að heimila líka för gangandi líka um ræktað land í byggð þegar það veldur ekki tjóni. Þannig mætti heimila för gangandi um tún og engjar þegar heyjað hefur verið eða þegar jörð er frosin eða snævi þakin. Engin ástæða er til að takamarka umferð á þeim tímum. Engin rök eru til að takmarka frjálsa för þegar þannig háttar til.

Varðar 29. gr. nvl.

Hvað varðar réttu til að krefjast úrlausnar vegna ólögmætra hindrana á almannarétti til umferðar vill félagið árétta að nauðsynlegt er að tryggja Umhverfisstofnun starfsumhverfi og eins að settar verði skýrar reglur um málsmeðferð og tíma. Nauðsynlegt er að úrskurðað sé mjög fljótt um slíkar hindranir. Frestir verða að vera stuttir til að kæra til ráðuneytisins til að ólögmæt stöðvum nái t.d. ekki yfir heilt veiðitímabil. Bent er á að nauðsynlegt kunni að vera að skoða ákvæðið m.t.t. þessa.

Lokaorð

Félagið fagnar þeim breytingum sem frumvarpið tekur til og ná til almannaréttarins og hvetur stjórnvöld og alþingi til að ljúka nú loksins úrbótum á almannarétti sem takmarkaður var án skynsamlegra raka árið 1971. Engin rök standi til slíkrar takmörkunar og í raun mætti rýmka réttinn enn frekar án þess að ganga á rétt landeigenda eins og rakið er að framan. Félagið minnir á að náttúruupplifun og útivist er nátengd náttúruvernd og almannaréttur órjúfanlegur þáttur náttúruverndar. Almenningur á Íslandi hefur sterk tengsl við landið og náttúruna og viðhorf fólks til náttúruverndar eru grundvölluð á þessum tengslum. Því er mikilvægt að lög um aðgengi fólks að náttúrunni séu sanngjörn og takmarkanir byggi á rökrænum, lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum/forsendum.

Virðingarfyllst

fyrir hönd Skotveiðifélags Íslands

Ívar Pálsson, meðstjórnandi.

Viðhengi