Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 5.–19.3.2019

2

Í vinnslu

  • 20.3.–7.5.2019

3

Samráði lokið

  • 8.5.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-75/2019

Birt: 4.3.2019

Fjöldi umsagna: 4

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Frumvarp til laga um heiðarlega starfshætti í vísindum

Niðurstöður

Í samráðsferlinu vegna frumvarps til laga um heiðarlega starfshætti í vísindum bárust allmargar umsagnir. Á áformastigi bárust 9 umsagnir og 4 til viðbótar á frumvarpsstigi. Umsagnir voru jákvæðar og innihéldu margar hverjar ábendingar sem tekið var tillit til eftir atvikum í frumvarpssmíðinni. Nánar er greint frá samráðinu og niðurstöðu þess í sérstöku niðurstöðuskjali sem fylgir með.

Málsefni

Markmið með setningu laga á þessu sviði er að stuðla að því að rannsóknir fari fram í samræmi við viðurkennd siðferðisviðmið um heiðarleika í vísindum og auka þannig trúverðugleika vísindastarfs og rannsókna í samfélaginu.

Nánari upplýsingar

Það hefur lengi verið til umræðu á vettvangi vísinda- og tækniráðs og í vísindasamfélaginu hér á landi að efla þurfi vitund um siðfræði rannsókna og styrkja ramma um siðferðilegar hliðar vísindarannsókna.

Forsætisráðherra skipaði í júní 2018 starfshóp til að undirbúa lagasetningu um heilindi í vísindarannsóknum. Þar áttu sæti Vilhjálmur Árnason prófessor, sem var formaður hópsins, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, og Una Strand Viðarsdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Með hópnum starfaði Hallgrímur J. Ámundason, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu. Starfshópurinn skilaði áformum um lagasetningu til ráðuneytisins í desember 2018 og drögum að frumvarpi í febrúar 2019.

Annars staðar á Norðurlöndum eru nefndir sem hafa það hlutverk að beita sér fyrir upplýsingu og veita ráðgjöf um vandaða starfshætti í vísindum. Einnig hafa slíkar nefndir úrræði á grundvelli laga eða stjórnvaldsfyrirmæla til að leysa úr málum þegar upp koma grunsemdir um óvandaða starfshætti í rannsóknum, svo sem uppspuna, falsanir og ritstuld. Með slíkri upplýsingu og úrræðum er leitast við að efla vandaða starfshætti í vísindasamfélaginu og traust almennings á vísindum og rannsóknum.

Háskólaráð HÍ ályktaði 2006 að félög háskólakennara ásamt Rannís og fleiri samtökum beiti sér fyrir setningu siðareglna um góð vísindaleg vinnubrögð. Vísinda- og tækniráð tók einnig málið upp 2010 og starfshópi á vegum Rannís var falið að móta drög að siðareglum fyrir íslenskt vísindasamfélag. Í því ferli var haft víðtækt samráð við vísindasamfélagið. Niðurstöður lágu fyrir 2011 og höfðu yfirskriftina Viðmið um vandaða starfshætti og siðferði í vísindum og rannsóknum. Áhersla var lögð á sjálfseftirlit rannsakenda og stofnana, en jafnframt var lagt til að sett yrði á laggirnar miðlæg nefnd sem hefði eftirlit með þeim. Nefndin hefði m.a. það hlutverk að leiðbeina í einstökum málum, að rannsaka mál að eigin frumkvæði eða, ef málum væri vísað til hennar, að úrskurða um alvarleika brota og að fræða og upplýsa, bæði vísinda-samfélagið, stjórnvöld og almenning. Lagt var til að samin yrðu sérstök lög um nefndina þar sem hlutverk og valdsvið hennar væri skilgreint.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Hallgrímur J. Ámundason

hallgrimur.amundason@for.is