Samráð fyrirhugað 05.03.2019—19.03.2019
Til umsagnar 05.03.2019—19.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 19.03.2019
Niðurstöður birtar 08.05.2019

Frumvarp til laga um heiðarlega starfshætti í vísindum

Mál nr. 75/2019 Birt: 04.03.2019 Síðast uppfært: 08.05.2019
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar
  • Háskólastig

Niðurstöður birtar

Í samráðsferlinu vegna frumvarps til laga um heiðarlega starfshætti í vísindum bárust allmargar umsagnir. Á áformastigi bárust 9 umsagnir og 4 til viðbótar á frumvarpsstigi. Umsagnir voru jákvæðar og innihéldu margar hverjar ábendingar sem tekið var tillit til eftir atvikum í frumvarpssmíðinni. Nánar er greint frá samráðinu og niðurstöðu þess í sérstöku niðurstöðuskjali sem fylgir með.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 05.03.2019–19.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 08.05.2019.

Málsefni

Markmið með setningu laga á þessu sviði er að stuðla að því að rannsóknir fari fram í samræmi við viðurkennd siðferðisviðmið um heiðarleika í vísindum og auka þannig trúverðugleika vísindastarfs og rannsókna í samfélaginu.

Það hefur lengi verið til umræðu á vettvangi vísinda- og tækniráðs og í vísindasamfélaginu hér á landi að efla þurfi vitund um siðfræði rannsókna og styrkja ramma um siðferðilegar hliðar vísindarannsókna.

Forsætisráðherra skipaði í júní 2018 starfshóp til að undirbúa lagasetningu um heilindi í vísindarannsóknum. Þar áttu sæti Vilhjálmur Árnason prófessor, sem var formaður hópsins, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, og Una Strand Viðarsdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Með hópnum starfaði Hallgrímur J. Ámundason, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu. Starfshópurinn skilaði áformum um lagasetningu til ráðuneytisins í desember 2018 og drögum að frumvarpi í febrúar 2019.

Annars staðar á Norðurlöndum eru nefndir sem hafa það hlutverk að beita sér fyrir upplýsingu og veita ráðgjöf um vandaða starfshætti í vísindum. Einnig hafa slíkar nefndir úrræði á grundvelli laga eða stjórnvaldsfyrirmæla til að leysa úr málum þegar upp koma grunsemdir um óvandaða starfshætti í rannsóknum, svo sem uppspuna, falsanir og ritstuld. Með slíkri upplýsingu og úrræðum er leitast við að efla vandaða starfshætti í vísindasamfélaginu og traust almennings á vísindum og rannsóknum.

Háskólaráð HÍ ályktaði 2006 að félög háskólakennara ásamt Rannís og fleiri samtökum beiti sér fyrir setningu siðareglna um góð vísindaleg vinnubrögð. Vísinda- og tækniráð tók einnig málið upp 2010 og starfshópi á vegum Rannís var falið að móta drög að siðareglum fyrir íslenskt vísindasamfélag. Í því ferli var haft víðtækt samráð við vísindasamfélagið. Niðurstöður lágu fyrir 2011 og höfðu yfirskriftina Viðmið um vandaða starfshætti og siðferði í vísindum og rannsóknum. Áhersla var lögð á sjálfseftirlit rannsakenda og stofnana, en jafnframt var lagt til að sett yrði á laggirnar miðlæg nefnd sem hefði eftirlit með þeim. Nefndin hefði m.a. það hlutverk að leiðbeina í einstökum málum, að rannsaka mál að eigin frumkvæði eða, ef málum væri vísað til hennar, að úrskurða um alvarleika brota og að fræða og upplýsa, bæði vísinda-samfélagið, stjórnvöld og almenning. Lagt var til að samin yrðu sérstök lög um nefndina þar sem hlutverk og valdsvið hennar væri skilgreint.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök atvinnulífsins - 19.03.2019

Í viðhengi fyrlgir sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Veðurstofa Íslands - 19.03.2019

Umsögn Veðurstofu Íslands er að finna í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Eiríkur Brynjólfur Baldursson - 19.03.2019

Eftirfarandi umsögn í fimm liðum er sendi inn fh Vísindasiðanefndar:

1. Í fyrirliggjandi frumvarpi er gert ráð fyrir því að stofnanir og háskólar, svo og einkaaðilar sem það kjósa, geti skotið málum til nefndar skv 5. gr. frumvarpsins. Mörg tilvik óheilinda og óreiðu í rannsóknum uppgötvast hins vegar fyrir tilstilli uppljóstrara (e. whistleblowers). Hvergi er vikið að því með hvaða hætti stjórnendur stofnana eða fyrirtækja fá upplýsingar um óheilindi eða óreiðu í rannsóknum á þeirra vegum. Þrátt fyrir 7. gr., lið 3 a er almennt ekki gert ráð fyrir því að nefnd skv. 5. gr. berist upplýsingar beint frá uppjóstrurum sem vilja eða verða að njóta algers trúnaðar. Uppljóstrarar eru oftar en ekki nánir samstarfsmenn þeirra sem grunaðir eru um óheilindi og eru oft í óheppilegri valdaaðstöðu gagnvart þeim sem grunsemdirnar beinast gegn. Þar getur t.d. verið um að ræða samstarfsmann sem á starf undir þeim sem liggur undir grun eða nemanda í rannsóknarnámi sem verður var óreiðu eða óheilinda í verkum samstarfsmanna. Heimild nefndarinnar til þess að geta ákveðið að trúnaður skuli gilda í tilteknum málum, sem gert er ráð fyrir í 9. gr. frumvarpsins dugir ekki til þess að veita uppljóstrurum nægilega vernd.

2. Dæmi eru um að siðanefndir í heilbrigðisrannsóknum verði varar við þætti í rannsóknarverkefnum sem heppilegt væri að vísa til nefndar um heilindi í rannsóknum. Því er lagt til að meðal þeirra leiða sem erindi geta borist til nefndar skv. 5. grein frumvarpsins verði sá möguleiki að lögbundnar siðanefndir skv. lögum nr. 44/2024 geti vísað þangað erindum til umfjöllunar.

3. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10-15 millj kr framlagi til rekstrarins. Það er einsýnt að vinnan við skilgreiningu viðmiða með tíðum fundum nefndarinnar verður þyngsti þáttur starfsins í upphafi ásamt kynningarstarfsemi hjá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum, auk annarra verkefna sem upp eru talin í 6. gr. Nefndin þarf starfskrafta og aðstöðu til starfseminnar. Upphafsframlagið til nefndarinnar er of naumt til þess að hægt verði að fylgja eftir áformum löggjafans með frumvarpinu. Fram komin hugmynd um sambýli við Vísindasiðanefnd er góðra gjalda verð en ekki verður unnt að samnýta starfslið nema að mjög takmörkuðu leyti.

4. Í nefndinni sem skipa á er gert ráð fyrir að fimm einstaklingar eigi sæti. Gerðar eru miklar kröfur til þeirra sem skipaðir verða í nefndina og ljóst má vera að færni sem gerð er krafa um er hvorki almenn né útbreidd. Til þess að nefndin ráði við hlutverk sitt eru tvær leiðir: Annars vegar að fjölga nefndarmönnum til þess að breikka reynsluheim og færni þeirra sem þangað veljast eða að halda fjöldanum óbreyttum en gera þess í stað ráð fyrir því að nefndin geti í ríkari mæli sótt sér sérfræðilega aðstoð innanlands sem utan.

5. Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir frumkvæði menntamálaráðherra um skipan nefndarinnar. Vert er að vekja athygli á því að vísindarannsóknir á heilbrigðissviði heyra undir valdsvið heilbrigðisráðherra skv. forsetaúrskurði. Heilbrigðisrannsóknir eru einn umfangsmesti flokkur rannsókna hér á landi og því væri rétt að heilbrigðisráðherra skipaði amk einn í nefndina eða að skilgreint væri að sérþekking á sviði heilbrigðisrannsókna sé nauðsynleg hjá amk einum nefndarmanna.

Afrita slóð á umsögn

#5 Hildigunnur H. H. Thorsteinsson - 19.03.2019

Viðhengd er umsögn Orkuveitu Reykjavíkur

Viðhengi