Samráð fyrirhugað 06.03.2019—25.03.2019
Til umsagnar 06.03.2019—25.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 25.03.2019
Niðurstöður birtar 08.12.2020

Áform um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun

Mál nr. 76/2019 Birt: 05.03.2019 Síðast uppfært: 08.12.2020
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Þar sem ekki var gert ráð fyrir stofnuninni í fjármálaáætlun var frumvarpið ekki lagt fram. Áfram verður leitað leiða til þess að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun og eru næstu skref til umfjöllunar í stýrihópi Stjórnarráðsins um mannréttindi.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.03.2019–25.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 08.12.2020.

Málsefni

Áformað er að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution), sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir.

Haustið 2019 er áformað að leggja fram á Alþingi frumvarp um sjálfstæða innlendra mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið, viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Markmiðið með slíkri stofnun er m.a. að tryggja virkt eftirlit með framkvæmd mannréttindasamninga hér á landi.

Dæmi um almenn skilyrði sem slík stofnun þarf að uppfylla samkvæmt Parísarviðmiðunum:

- Almenningur þarf að geta leitað til mannréttindastofnunar og skal hún geta aðstoðað eftir atvikum við athugun og könnun á einstökum málum.

- Stofnunin skal hafa víðtækt umboð til að vinna að eflingu og vernd mannréttinda.

- Kveðið skal á um hlutverk stofnunarinnar í almennum lögum eða stjórnskipunarlögum.

- Stjórn stofnunarinnar skal endurspegla borgaralegt samfélag, þ.e. vera skipuð aðilum tilnefndum af mismunandi hagsmunaaðilum

- Fjárhagslegt og stofnanabundið sjálfstæði stofnunarinnar skal vera tryggt og skal hún m.a. hafa eigið starfslið og starfsstöð.

Mannréttindaskrifstofu Íslands hefur að nokkru leyti gegnt hlutverki sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar hér á landi. Hún uppfyllir þó ekki fyrrnefnd Parísarviðmið, enda gera þau kröfu um sjálfstæða ríkisstofnun sem komið er á fót með lögum. Er lagasetning því metin nauðsynleg.

Á undanförnum árum hefur íslenska ríkinu borist fjöldi áskorana um að koma á fót mannréttindastofnun sem uppfyllir Parísarviðmiðin. Sem dæmi má nefna að íslenska ríkið fékk fjölmörg tilmæli þess efnis í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2016 (UPR) og var samþykkt að fylgja þeim eftir. Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins.

Frumvarp um sjálfstæða mannréttindastofnun var unnið af innanríkisráðuneytinu árið 2016 og var það birt til umsagnar í júlí það ár (aðgengilegt á stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/frettir-2016/Drog-ad-frumvarpi-til-laga-um-sjalfstaeda-mannrettindastofnun-Islands.pdf). Stefnt er að því að styðjast að nokkru leyti við það frumvarp og þær umsagnir sem bárust vegna þess.

Gert er ráð fyrir að einhver verkefni sem nú er sinnt af öðrum ráðuneytum eða stofnunum verði færð yfir til hinnar nýju stofnunar, svo sem réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk og verkefni á sviði jafnréttismála sem fela í sér sjálfstætt mannréttindaeftirlit.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Kvenréttindafélag Íslands - 19.03.2019

Kvenréttindafélag Íslands fagnar áformum um lagasetningu að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun til samræmis við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 48/134 um innlendar mannréttindastofnanir (National Human Rights Institutions) og Parísarreglur þeirra um stöðu og verksvið slíkra stofnana.

Kvenréttindafélag Íslands er eitt af aðildafélögum Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ), sem sinnir helstu verkefnum innlendrar mannréttindastofnunar á Íslandi. Skrifstofan hefur frá upphafi komið, og kemur enn, fram fyrir Íslands hönd á vettvangi Evrópuráðsins og hjá Sameinuðu þjóðunum. Skrifstofan er fulltrúi Íslands í norrænu samstarfi og í Evrópusamtökum mannréttindastofnana.

Frá stofnun MRSÍ árið 1994 hefur það verið yfirlýst markmið aðildarfélaga hennar að skrifstofan fái stöðu innlendrar, sjálfstæðrar mannréttindastofnunar. Sem eitt aðildarfélaga að MRSÍ hvetur Kvenréttindafélag Íslands til þess að reynsla, þekking, tengslanet og í raun öll starfsemi MRSÍ verði nýtt við stofnun innlendar mannréttindastofnunar enda væri það stjórnvöldum til mikils hagræðis, sparar jafnt umtalsverðan kostnað, vinnu, tengslamyndun o.fl.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að stjórnvöld tryggi að ný og sjálfstæð mannréttindastofnun sé nægilega stöndug til að sinna allri mannréttindagæslu í íslensku samfélagi. Í mati á áhrifum lagasetningarinnar sem fram kemur í samráðsgáttinni (lið G), er áætlað að aðeins þrír starfsmenn skuli starfa hjá mannréttindastofnuninni. Dregur Kvenréttindafélagið stórlega í efa að þetta sé nægilegur starfsmannafjöldi til að anna öllum þeim verkefnum sem stofnuninni ber að sinna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Margrét Steinarsdóttir - 22.03.2019

Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um áform dómsmálaráðuneytis um lagasetningu til að koma á fót sjálfstæðri, innlendri mannréttindastofnun.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Þroskahjálp,landssamtök - 25.03.2019

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að dómsmálaráðuneytið skuli hafa lagt fram til kynningar áform um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun. Mjög tímabært og afar mikilvægt er að slík stofnun verði sem fyrst til og að þannig verði um hnúta búið að hún verði eins öflug og nokkur kostur er til að vinna að framgangi og vernd mannréttinda og að stofnunin verði nægilega burðug til að geta veitt stjórnvöldum nauðsynlegt og virkt aðhald að því leyti.

Í áformum um lagasetninguna um stofnunina þar sem þau eru kynnt í samráðsgáttinni er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skyldna stjórnvalda sem leiða af ákvæðum samningsins varðandi eftirlit með framkvæmd hans. Eitt meginhlutverk innlendrar mannréttindastofnunar hlýtur samkvæmt því að vera að tryggja gott og skilvirkt eftirlit með því að fatlað fólk fái án mismununar notið mannréttinda sem eru sérstaklega áréttuð og varin í samningnum. Samtökin telja það markmið vera mjög mikilvægt þar sem á skortir að fullnægjandi eftirlit sé með að fatlað fólk á Íslandi fá þau réttindi og þjónustu sem það á lagalegan rétt á. Mjög oft er þar um að ræða réttindi sem eru mannréttindi í skilningi laga og fjölþjóðlegra mannréttindasamninga.

Samtökin telja vera brýnt að mjög vel sé vandað til laga og reglna varðandi stofnun sem á að gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja fólki þau mannréttindi sem það á rétt til að njóta eins og m.a. er áréttað í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í II. og III. kafla laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, eru ákvæði um réttindavakt ráðuneytisins og réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Eins og hlutverki og verkefnum réttindavaktar og réttindagæslumanna er þar lýst gegna þau afar mikilvægu hlutverki við að fylgjast með að fatlað fólk fái notið þeirra mannréttinda sem því eru tryggð í stjórnarskrá, lögum og fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Samtökin telja tímabært og mikilvægt að fram fari heildarendurskoðun á lögum og reglum varðandi réttindagæslu fyrir fatlað fólk í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra. Þá telja samtökin mjög veigamikil rök mæla með því að réttindagæsla fyrir fatlað fólk verði felld undir nýja sjálfstæða mannréttindastofnun, enda er það mjög til þess fallið að tryggja betur nauðsynlegt sjálfstæði og óhæði þess eftirlits frá framkvæmdavaldinu

Landssamtökin Þroskahjálp vísa að lokum til samráðskyldu stjórnvalda samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Og til 33. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Framkvæmd og eftirlit innanlands“ en 3. mgr. greinarinnar hljóðar svo:

Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem fara með mál þess, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir miklum vilja og áhuga til að taka þátt í nánu og virku samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld varðandi stofnun og starfrækslu sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar með að markmiði að hún verði sem best í stakk búin til að geta staðið mjög vel vörð um mannréttindi fatlaðs fólks og hafi virk úrræði sem duga til að bregðast skjótt og með árangursríkum hætti við þegar þau eru ekki virt.