Samráð fyrirhugað 07.03.2019—21.03.2019
Til umsagnar 07.03.2019—21.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 21.03.2019
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004

Mál nr. 78/2019 Birt: 07.03.2019
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (07.03.2019–21.03.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja.

Í reglugerðardrögunum eru lagðar til samræmdar reglur um sérstakar glitmerkingar ökutækja í neyðarakstri ásamt ökutækjum annarra opinberra aðila. Þá er lagt til að Samgöngustofu verði veitt heimild til að veita ökutækjum í neyðarakstri undanþágu frá kröfum reglugerðarinnar til merkinga eða heimild til frekari merkinga en reglugerðin kveður á um.

Lagt er til að heimilt verði að hafa eitt aukaháljósker í stað pars aukaháljóskera og skuli það þá vera að minnsta kosti 300 mm að lengd og vera fyrir miðju ökutækisins. Lagt er til að sú breyting eigi við um öll ökutæki en ekki aðeins neyðarakstursökutæki.

Loks er lagt til að heimilt verði að hafa á neyðarakstursökutækjum blá ljós án blikktíðni til að auka sýnileika slíkra ökutækja þegar neyðarakstur á sér ekki stað, t.d. að næturlagi við fjölmennar samkomur.

Opið verður fyrir umsagnir til og með 21. mars nk.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#2 Haraldur Jökull Brjánsson - 07.03.2019

Við gerð þessarar reglugerðar ætti að skoða hvernig reglur um auka ljósabúnað eru í Noregi, þeir eru ný búnir að breyta sínum reglum er varða ljóskastara á bílum bæði um fjölda og stærð.

Ef ég skil þessi drög rétt má aðeins vera með einn langan ljóskastara fyrir miðju bílsins, og að hann verði að vera að lágmarki 300mm.

Þessi 300mm tala vekur upp spurningar, afhverju er það lágmarkið?

Er eitthvað hámark?

Má ekki vera með t.d. tvo 200mm ljóskastara hlið við hlið frekar en einn 400mm?

Víða erlendis notar fólk þrjá hringlaga ljóskastara framan á sína bíla, þá er einn punkt kastari fyrir miðju, gjarnan stærri en hinir tveir smærri sitthvoru megin með dreifi lýsingu, þetta eru kastarar sem slökkna með háu ljósunum.

Á vörubílum væri síðan hægt að vera með einn langan ljóskastara á þaki og annan niðri sem notaður er sem þokuljós.. eða þeir gætu verið tveir til fjórir uppi og tveir til fjórir niðri, rétt eins og hringlaga ljóskastarar eru í dag.

Við breytingu á þessum reglum mætti endilega skoða líka reglur um fjölda ljóskastara, hvers vegna mega breyttir jeppar vera með tvö pör af auka háum ljósum en fólksbílar aðeins eitt par, hver eru rökin fyrir þessu?

Í Noregi var reglum nýverið breytt þar sem fjöldi auka kastara mega vera mun fleiri en hér, athuga að samræma okkar reglur að þeirra?

Afrita slóð á umsögn

#3 Sigurður Markús Harðarson - 16.03.2019

Vaðandi að hafa eitt aukaháljósker að minnsta kosti 300mm fyrir öll ökutæki finnst mér að mætti skoða aðeins betur. Ekki eru bara bílar í umferðinni heldur líka mótorhjól og fjórhjól sem hafa gagn af meira ljósmagni.

Ekki er hægt að koma fyrir 300mm ljósakeri á mótorhjóli en 150mm er allt annað mál.

6" ljóskastara bar er um 15.24cm.

Afrita slóð á umsögn

#4 Ástmar Sigurjónsson - 20.03.2019

Góðan dag,

Ég vil benda á þær breytingar sem Norðmenn gerðu á sínum reglum um auka ökuljós og tóku gildi 1. október 2018 og var samkvæmt fréttaflutningi í Noregi gert til að samræmast breytingum sem Svíar höfðu áður gert á sínum reglum.

Í Noregi er nú leyfilegt að setja eins mörg auka ökuljós á bílana og eigandi vill, enda eru engin takmörk lengur á hámarks ljósstyrk.

(Sjá neðst í þessari umsögn breytingu á teksta í Norskum reglum ásamt vefslóð á breytinguna)

Þetta hafa flutningabílar á Íslandi þegar gert til margra ára, margir hverjir með 8 auka ljósker eða fleiri og ekki tengd þannig að þau lýsi einungis 2 í einu samkvæmt reglugerð 822/2004 (Um gerð og búnað ökutækja, grein 07.01 Ljósker)

Og samrýmist örugglega ekki reglum um hámarks ljósstyrk eins og þær eru settar fram í dag.

Eins og Norskar reglur hljóða núna eru engin takmörk á fjölda auka ökuljósa, né heldur krafa um að þau séu í pörum.

Einnig er eina krafan um staðsetningu auka ökuljóskera (kastara), að þau séu samhverf við lengdarmiðju bíls, þ.e. að þau séu staðsett á miðju eða sitthvorumegin við miðju, gildir þá einu hvar þau eru á bílnum, svo lengi sem þau lýsa framávið.

Og er þar væntanlega verið að aðlaga reglur nýjustu tækni í ljósabúnaði bíla með tilkomu svokallaðra "LED-bar"

Að mínu mati eiga þessar reglur Norðmanna vel við á Íslandi, enda æði margir sem þegar eru með bíla sína útbúna á þennan hátt. Það er veruleg hætta úti á þjóðvegum á Íslandi á því að keyra á búfénað sem sloppið hefur úr girðingum eða er á sumarbeit, auk þess sem hreindýr eru oft á vegum á Austurlandi.

Við þær aðstæður skiptir höfuðmáli að ökumaður sjái hættuna sem fyrst til að eiga möguleika á að bregðast við henni

Íslenskir stjórnmálamenn vilja oft bera sig saman við hin Norðurlöndin til að réttlæta breytingar og er hér kjörið tækifæri til að fara að dæmi Noregs og Svíþjóðar

Virðingarfyllst

Ástmar Sigurjónsson

https://lovdata.no/dokument/LTI/forskrift/2018-09-27-1478?q=fjernlys

I forskrift 4. oktober 1994 nr. 918 om tekniske krav og godkjenning av kjøretøy, deler og utstyr (kjøretøyforskriften) gjøres følgende endring:

§ 28-1 nr. 4.9 skal lyde:

4.9 Ekstra fjernlys for bil

Antall: Fritt antall lykter for ekstra fjernlys.

Lysstyrke: Det er ingen begrensning til maksimal tillatt lysstyrke.

Plassering: Lykter for ekstra fjernlys må plasseres symmetrisk i forhold til bilens langsgående senterlinje. Det er ikke krav om parvis montering.

II

Forskriften trer i kraft 1. oktober 2018.

Afrita slóð á umsögn

#5 Slysavarnafélagið Landsbjörg - 20.03.2019

Reykjavík 20. mars 2018

Samráðsgátt

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004

Mál nr. S-78/2019

Umsögn Slysvarnafélagsins Landsbjargar

1. gr.

Eins og fram kemur í drögunum er gert ráð fyrir að heimilt verði að hafa eitt aukaháljósker í stað pars aukaháljósakera. Þessi breyting er til bóta og í takti við þróun ljósabúnaðar.

2. gr.

Sú breyting sem kynnt er að heimilt verði að nota blá ljós, án blikktíðni, þegar neyðarakstur á sér ekki stað ætti að vera til bóta og og undirstrika aðgreiningu kyrrstæðs ökutækis á vettvangi frá ökutæki í neyðarakstri.

3. gr.

Tekið er undir þau sjónarmið sem fram koma í 3. gr. um glitmerkingar og mælt með því að litasamsetningar fyrir ökutæki björgunarsveita verði gulur og appelsínugulur. Það er mikilvægt að litasamsetninga á ökutækjum viðbragðsaðila séu skilgreindar í reglugerðinni og að samræmi sé komið á þannig að hægt sé að samræma útlit og aðgreiningu ökutækja hinna mismunandi viðbragðsaðila.

Virðingarfyllst

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Jón Svanberg Hjartarson

framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Sævar Örn Eiríksson - 20.03.2019

Komið sæl, mig langar að tjá mig um tillögu um reglugerðarbreytingu um auka háljós, ljósbari, ílöng ljós í daglegu tali kölluð LED bar.

Þessi ljós eru mjög algeng og orðin sjáanleg á flestum gerðum bifreiða, fæst þessara ljóskerja eru þó E- eða dot merkt. Þ.a.l. gefur að skilja að þau fást ekki samþykkt sem auka háljósker.

Hins vegar er algengast að þessi ljós sjáist á bifreiðum sem mega hafa ljóskastara, þ.e. vöru og hópbifreiðir ásamt breyttum torfærubifreiðum, og þá er notkun þeirra utan alfaraleiða.

Ljós þessi eru mjög vinsæl, og ódýr, því sjást þau á allskyns bifreiðum, ég er sammála því að ef þessi ljós mega vera á öllum bifreiðum skuli þau bera E merkingu, því líklegt má telja að þau séu notuð á þjóðvegum.

Hinsvegar vil ég leggja fram þá tillögu að breyttum torfærubifreiðum verði settar frjálsari hendur í ljósamálum, og þmt. leyft að bera títtnefnda ljósbari án E merkinga og þá sem ljóskastara án þess að vera í pari, sem hingað til hafa eingöngu verið heimilaðir í pörum. Enda notkun þessara ljósa utan alfaraleiða.

Tillaga um lágmarks breidd ljóskerjanna þykir mér sæta furðu, algengt er að sjá ljós þessi hlið við hlið á bílum og tengd sem kastara(sem þykir hið besta mál) og þau eru fáanleg í nær öllum breiddum.

Ljóst er að í bifreiðaskoðun er dæming á auka ljósker á ökutækjum orðin ein algengasta dæmingin í kaflanum um skynbúnað, og þar er mikill leikaraskapur í gangi, ljósin fjarlægð af fyrir framan nefið á skoðunarmönnum og svo fest strax á bifreiðina aftur að lokinni skoðun.

Á okkar dimma landi ættum við að geta farið að fordæmi annara norðurlanda sem hafa leyft ljósbúnað hvers konar, án teljandi vandræða.

Hérlendis hef ég ekki orðið var við óþægindi vegna notkunar aukaljósa né heyrt umtal um slíkt, almennt þykja bifreiðastjórar tillitssamir og slökkva aukaljósin löngu áður en nokkur óþægindi hljótast af fyrir þá sem þeim mæta.

kv. Sævar Örn, Bifvélavirkjameistari og bifreiðaskoðunarmaður.

Afrita slóð á umsögn

#7 Ástmar Sigurjónsson - 21.03.2019

Góðan dag,

Til viðbótar minni fyrri umsögn langar mig að leggja til auka breytingu á reglugerðinni, en sú breyting snýr að tengibúnaði á bifhjól.

Nú eru nokkur bifhjól á landinu með löglega skráðan tengibúnað og draga ýmist litla tjaldvagna eða farangurskerrur, þetta tíðkast erlendis og er hægt að kaupa tilbúinn tengibúnað á ýmis hjól auk þess sem eigendur hafa smíðað búnað, sem er að mínu mati mun sterkari í mörgum tilvikum.

Ég á sjálfur bifhjól með löglega skráðan búnað og hef reynt að aðstoða félaga mína við að fá sinn búnað skráðan. Í þessu ferli höfum við rekið okkur á að nýrri hjól þurfa samkvæmt samgöngustofu að hafa vottorð frá framleiðanda um hversu þungan eftirvagn þau mega draga. Þetta þurfti ég ekki þar sem aldur bifhjólsins færir það undir eldri útgáfu reglugerðar um gerð og búnað ökutækja.

Þeir framleiðendur sem ég er búinn að hafa samband við hafa ekki viljað gefa þetta upp og segjast ekki gefa út hámarksdráttargetu á bifhjólum.

Þetta býr til skekkju milli nýrra og eldri tækja þarsem reglur nýrri tækjanna eru verulega íþyngjandi þegar að tengibúnaði kemur, enda leggur meðal mótorhjólamaður ekki á sig þann kostnað að fá erlenda tækniþjónustu til að votta hjól og dráttarbúnað, en það er eina leiðin sem Samgöngustofa hefur bent okkur á að sé fær.

Til að gefa nefndinni hugmynd að því, hversu algengt það er, að mótorhjól dragi eftirvagna erlendis þá er bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum framleiddir tjaldvagnar sem eru markaðssettir sem eftirvagnar fyrir bifhjól. Ásamt því að farangurskerrur eru algengar, í það minnsta í Bandaríkjunum

Virðingarfyllst

Ástmar Sigurjónsson

Vélfræðingur, vélvirki og yfirvélstjóri

Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök ferðaþjónustunnar - 21.03.2019

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er ábending frá Samtökum ferðaþjónustunnar um drög að breytingum að reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

Bestu kveðjur

f.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Gísli Jóhann Gíslason - 21.03.2019

Ég legg til þess að kröfur um fjölda og styrk auka ljósa á bifreiðar verði felldar niður. Normenn og svíjar hafa fellt þessar kröfur niður vegna myrkurs yfir vetrar tímann og vilja meina að ökutæki með öflug og fleiri auka ljós að framan lýsi betur upp og ökumaurinn sjá þar af leiðandi betur. Svo kölluð LEDBAR eru t.d mjög góð nætur lýsing. Einnig segir það sig sjálft að ökutæki með t.d fjögur öflug ljós pör lýsir betur upp vegina heldur en ökutæki með eitt eða tvö pör, eða jafnvel engin auka ljós.