Samráð fyrirhugað 07.03.2019—21.03.2019
Til umsagnar 07.03.2019—21.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 21.03.2019
Niðurstöður birtar 16.08.2019

Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum, og öðrum lögum (útvíkkun gildissviðs upplýsingalaga o.fl.)

Mál nr. 79/2019 Birt: 07.03.2019 Síðast uppfært: 16.08.2019
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Hagskýrslugerð og grunnskrár
  • Æðsta stjórnsýsla

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi þann 30. mars 2019 og samþykkt þann 11. júní 2019. Í greinargerð er fylgdi frumvarpinu er gerð grein fyrir úrvinnslu úr samráðinu.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.03.2019–21.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.08.2019.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á upplýsingalögum sem hafa það markmið að styrkja upplýsingarétt almennings.

Helsta breytingin sem lögð er til er að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað út þannig að handhöfum löggjafar- og dómsvalds verði að meginstefnu skylt að fylgja sömu efnisreglum og handhafar framkvæmdarvalds við ákvarðanir um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum þeirra. Jafnframt er það markmið frumvarpsins að kveða skýrar á um skyldu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands til birtingar upplýsinga úr málaskrám sínum að eigin frumkvæði. Sérstakur ráðgjafi starfi fyrir hönd stjórnvalda með það markmið að auka veg upplýsingaréttar almennings. Þá er lagt til að búið verði þannig um hnútana að æðstu handhafar ríkisvalds geti leitað ráðlegginga um túlkun á siðareglum í trúnaði og skerpt á undanþágu varðandi gögn er varða samskipti opinberra aðila við sérfræðinga í tengslum við réttarágreining. Lagt er til að lög um upplýsingarétt um umhverfismál falli brott en við upplýsingalög bætist sérstakur kafli um meðferð slíkra mála. Þá er lagt til að sett verði strangari tímamörk á afgreiðslu beiðna um aðgang að upplýsingum og við málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, auk þess sem ýmsar tilvísanir annarra laga til upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn verði uppfærðar.

Tengd mál