Samráð fyrirhugað 18.09.2018—02.10.2018
Til umsagnar 18.09.2018—02.10.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 02.10.2018
Niðurstöður birtar

Áform um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála

Mál nr. 134/2018 Birt: 18.09.2018 Síðast uppfært: 27.09.2018
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Fjölmiðlun

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (18.09.2018–02.10.2018). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Lagt er til að stofnað verði tímabundið til starfs samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs með heildarlöggjöf. Einnig er lagt til ákvæði um að óheimilt verði að ráða einstaklinga til starfa hjá íþróttafélögum eða þiggja framlag þeirra sem sjálfboðaliða hafi þeir hlotið refsidóm fyrir kynferðisbrot.

Markmiðið er að íþrótta- og æskulýðsstarf sé öruggt umhverfi þar sem börn, unglingar og fullorðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþróttir eða tómstundir í öruggu umhverfi og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldi sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar og er því lagt til að heildarlög verði sett um efnið. Einnig er lagt til að bæta við ákvæði í íþróttalög þar sem m.a. er mælt fyrir um að óheimilt verði að ráða einstaklinga til starfa hjá íþróttafélögum eða þiggja framlag þeirra sem sjálfboðaliða hafi þeir hlotið refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, líkt og hefur verið í æskulýðslögum, nr. 70/2007, frá árinu 2007.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir - 21.09.2018

Þetta hljómar vel. Ég hef þjálfað á Íslandi í 20 ár og aldrei hefur það verið nefnt að skoða eigi sakavottorð þjálfara. Ég bjó í Danmörku í nokkur ár og þar tíðkast það að foreldrar komi að þjálfun yngri krakka sem sjálfboðaliðar. Ég tók að mér þjálfun í fótbolta hjá yngri stráknum mínum og þurfti að skila inn sakavottorði frá Íslandi og Danmörku.

Annað sem þarf að huga vel að og það er hvernig er hægt að vinna með “uppspuna”. Ég varð vitni að slíku í leikfimi í grunnskóla að stelpunum var illa við leikfimikennarann og bjuggu til sögur um kynferðislega áreitni, til að losna við kennarann.

Mér finnst þetta flott vinna og vona að enginn þurfi að æfa í umhverfi þar sem hann er beittur misrétti 🙌🏻

Afrita slóð á umsögn

#2 Ingibjörg Birna Ársælsdóttir - 21.09.2018

Tvímænalaust á það að vera svo að ef þú átt sögu um kynferðisafbrot komir þú ekki nálægt æskulýðsstarfi

Afrita slóð á umsögn

#3 Bragi Bjarnason - 01.10.2018

Stjórn FÍÆT félags íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi sendir frá sér eftirfarandi umsögn. Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samband íslenskra sveitarfélaga - 02.10.2018

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um ofangreint mál.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Íþrótta-og Ólympíusamband Ísl - 02.10.2018

Hjálagt er umsögn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um áform um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Jón Aðalsteinn Bergsveinsson - 02.10.2018

Efni: Umsögn Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) um áform um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála.

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) fagnar því að fram eru komin áform um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála. Sérstaklega fögnum við hjá UMFÍ skjótum viðbrögðum stjórnvalda við þeim nauðsynlegu breytingum sem þurfa að eiga sér stað til að vernda iðkendur í íþrótta- og æskulýðsstarfi og skjóta sterkari stoðum undir faglegt starf í málaflokknum. Við vonum að þetta samstarf haldi áfram.

Við vekjum athygli á því að í áformum um frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er lagt til ákvæði um að óheimilt verði að ráða einstaklinga til starfa hjá íþróttafélögum eða þiggja framlag þeirra sem sjálfboðaliðar hafi þeir hlotið refsidóm fyrir kynferðisbrot. Þar gætir ósamræmis við æskulýðs- og grunnskólalög.

Í grunnskólalögum (lög nr. 70. 28. mars 2008 III. Kafli, 11. grein) segir að óheimilt er að ráða til starfa hjá aðilum […] sem sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Við ráðningu skuli liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.

Í Æskulýðslögum (lög nr 70 28. mars 2007 IV. kafli) segir jafnframt að yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem börn og ungmenni koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm vegna brota að fengnu samþykki hans.

Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum. Ákvæðið nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.

Af þessu leiðir að mikilvægt er að samræmis gæti og að sömu lög gildi um íþróttastarf og æskulýðsstarf, sem er ekki tilfellið eins og staðan er núna. UMFÍ leggur áherslu á að einnig verði óheimilt að ráða til starfa einstaklinga með börnum og ungmennum sem brotið hafa gegn lögum um ávana og fíkniefni. Von UMFÍ er sú að þessi atriði verði komin inn í frumvarpið áður en það verður lagt fram á Alþingi.

Samhliða lagasetningunni er mikilvægt að auðvelda úrvinnslu og opna aðgengi að upplýsingum um starfsfólk og umsækjendur um störf með börnum. Eins og fram kemur í Æskulýðslögum eiga yfirmenn skóla, leikskóla og fleiri staða þar sem fólk starfar með börnum rétt til upplýsinga úr sakaskrá um viðkomandi. Auðvelda þarf aðgengi að sakaskrá og sakavottorðum. Rafræn skráning sakavottorða er lykillinn að því, auðveldar starfið og gerir stjórnendum kleift að ráða starfsfólk og sjálfboðaliða sem hæfa börnum.

Danir eru til fyrirmyndar í þessum efnum en á vef dönsku lögreglunnar geta stjórnendur nálgast upplýsingar um starfsfólk og umsækjendur um störf með börnum einföldum hætti (sjá: https://www.politi.dk/da/borgerservice/straffeattest/boerneattest/). UMFÍ óskar þess að sambærileg útfærsla verði tekin upp hér á landi.

Áform þetta um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála er gríðarlega stórt og gott skref. Það er ekki síður hagsmunamál fyrir íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna heldur alla þá sem starfa með börnum á Íslandi.

Það er mikilvægt að hlúa að börnum og ungmennum og gæta öryggis í umhverfi þeirra. Börnin þurfa að fá að njóta vafans. Það er því mikilvægt að mál þetta verði ekki aðeins í orði. Látum verkin tala og gerum umhverfi barna á Íslandi betra og öruggara en nokkru sinni samfélaginu til góða.

Með bestu kveðju,

Fh. hönd UMFÍ

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Æskulýðsvettvangurinn - 02.10.2018

Hjálagt sendist umsögn Æskulýðsvettvangsins um áform um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála.

F.h. Æskulýðsvettvangsins,

Sema Erla

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Stella Hallsdóttir - 02.10.2018

Meðfylgjandi er umsögn umboðsmanns barna um áform um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Birta Björnsdóttir - 02.10.2018

#Metoo bylting íþróttakvenna kom með upp á yfirborðið það sem við íþróttakonur höfum alltaf vitað, að mikið ofbeldi, valdamisræmi, og áreitni hefur viðengist og viðgengst enn innan íþrótta.

Það er mjög mikilvægt að stofnuð verði staða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Oft eru íþróttafélög lítil og náin og því erfitt fyrir þolendur ofbeldis að tilkynna mál sem koma upp. Fólkið sem situr í stjórnum íþróttafélaga eru oft foreldar iðkenda eða þekkja alla í starfinu vel. Það veldur því að oft á tíðum geta þolendur ofbeldis ekki komið fram með kvartanir innan félaganna. Þar með myndast þá þöggun um það ofbeldi sem átti sér stað innan íþróttafélaganna.

Gæta þarf að samskiptaráðgjafinn sé óháður bæði íþróttafélögum og íþróttayfirvöldum. Samskiptaráðgjafinn þarf að sinna þörfum þolandans í stað þess að reyna að passa upp á ímynd tiltekins félags eða sérsambands. Samskiptaráðgjafinn þarf að hafa vinnuaðstöðu á hlutlausum stað þar sem aðilar úr aðilar úr íþróttaheiminum geta treyst því að ekki sjáist til þeirra ef þeir eru að leita sér hjálpar. Einnig þarf samskiptaráðgjafinn að vera í húsnæði sem er aðgengilegt fyrir fatlað og hreyfihamlað íþróttafólk þar sem þetta fólk er í aukinni hættu á að verða fyrir ofbeldi.

Íþróttahreyfingin er byggð upp á sjálfboðaliðum sem hafa ekki endilega sérþekkingu eða fengið fræðslu á því því hvernig skal taka á ofbeldismálum. Samskiptaráðgjafinn þarf því einnig að vera til taks fyrir íþróttafélögin. Íþróttafélögin þurfa að geta leitað til samskiptaráðgjafans til að spyrja ráða um hvernig sé best að taka á málum sem koma upp og einnig til að aðstoða með að útbúa siðareglur og stefnur gegn einelti, ofbeldi og áreitni.

Frábært væri einnig ef að samskiptaráðgjafinn héldi tölfræði um þau mál sem koma á þeirra borð til þess að stuðla að frekari upplýsingum og rannsóknum um ofbeldi í íþróttum á Íslandi. Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æslulýðsstarf er mikilvægur og er þetta mjög jákvætt skref fyrir íþróttir á Íslandi.

---

Nauðsynlegt er að bæta við ákvæði í íþróttalög um að óheimilt verði að ráða einstaklinga til starfa hjá íþróttafélögum eða þiggja framlag þeirra sjálfboðaliða hafi þeir hlotið refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Það að dæmdir kynferðisafbrotamenn séu að ala upp börnin í samfélaginu og vinna náið með þeim, í oft margar klukkustundir á dag án eftirlits, er fáránlegt. Auðvitað á það að vera ólöglegt að fólk með ofbeldisdóma þjálfi börn í íþróttum. Ekki bara fólk með kynferðisbrotadóma á bakinu heldur einnig dóma í ofbeldismálum, sama hvers eðlis brotið er.

Allir þjálfarar og sjálfboðaliðar ættu að þurfa að skila inn sakavottorði og ef þeir eru með ofbeldisdóm á bakinu ættu þeir ekki að vinna náið með börnunum í landinu. Við viljum ekki að ofbeldismenn séu að ala upp börnin okkar í íþróttum eða annars staðar.