Samráð fyrirhugað 08.03.2019—22.03.2019
Til umsagnar 08.03.2019—22.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 22.03.2019
Niðurstöður birtar 22.05.2019

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum)

Mál nr. 84/2019 Birt: 08.03.2019 Síðast uppfært: 22.05.2019
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Fimm umsagnir um frumvarpsdrögin bárust frá eftirtöldum aðilum: 1) Torfa Geir Símonarsyni, 2) STEF, 3) Myndstef, 4) RSÍ og 5) Sambandi íslenskra sveitarfélaga (sjá niðurstöðuskjal)

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.03.2019–22.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.05.2019.

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að höfundagreiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa innheimta og greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa verði skattlagðar sem eignatekjur/fjármagnstekjur.

Úrlausnarefni og markmið frumvarpsins má rekja til sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram sú stefnuyfirlýsing að hugað verði að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum. Með frumvarpinu er stigið skref í áformum ríkisstjórnarinnar til eflingar lista og menningar og lagt til að höfundagreiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa innheimta og greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa verði skattlagðar sem eignatekjur/fjármagnstekjur.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Torfi Geir Símonarson - 12.03.2019

Starfandi við leikhúsframleiðslu þá er gífurleg mismunun fólgin í því að aðeins viðurkennd rétthafasamtök megi og geti rukkað inn og greitt áfram til rétthafa þóknanir (royalties) fyrir notkun á höfundarverki þeirra. Um er að ræða mismunun á grundvelli aðstöðu.

Á Íslandi ríkir félagafrelsi og þar með frelsi höfunda og rétthafa til að vera ekki félagar í rétthafasamtökum. Sú staðreynd má ekki verða til þess að þeir beri skarðan hlut frá borði.

Ég hvet til þess að frumvarpið verði endurskoðað með tilliti til þessa, að þóknanir höfunda og höfundarlaun (royalties) verði að fullu talin fjármagnstekjur enda er hugverk ekki öðruvísi eign en annað þó hún sé óefnisleg. Þetta verði óháð því hvort höfundur rukki inn sjálfur þessar þóknanir og skerði ekki frelsi hans til að standa utan félaga rétthafa.

Afrita slóð á umsögn

#2 STEF,samb tónskálda/eig flutnr - 18.03.2019

Sjá meðfylgjandi viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Myndhöfundasjóður Íslands - 20.03.2019

(sjá einnig viðhengi)

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

19. mars 2019

EFNI: Umsögn frá Myndstef vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum)

Myndstef hefur fengið til umsagnar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frumvarp um um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum).

Myndstef fagnar ofangreindu frumvarpi, enda um að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir myndhöfunda. Hefur Myndstef lengi vel þurft að standa fyrir gagnrýni frá sínum höfundum vegna þeirrar fyrirkomulags sem áður var, og þá sérstaklega við úthlutun til erfingja og annarra afleiddra rétthafa, enda tíðkast það ekki við aðrar erfðir að af þeim sé reiknaður tekjuskattur. Að auki hafa rétthafar höfundaréttar oft ekki sama tækifæri á að skila kostnaði á móti tekjum og lækka þar skattstofn sinn. Að auki styður frumvarp þetta það sjónarmið að verk sem þegar hafa verið sköpuð séu ákveðin verðmæti, eign, og tekjur sem geta orðið til af þeirri eign eigi ekki að skattleggja á sama hátt og eiginlegt vinnuframlag.

Orðalag 1. gr.:„...sem stofna til samninga sem veita samningskvaðaheimild“

Myndstef setur þó athugasemd við orðalag 1. gr. frumvarpsins, sem segir orðrétt:

„skulu greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa er innheimtar hafa verið af viðurkenndum samtökum rétthafa sem stofna til samninga sem veita samningskvaðaheimild skv. 26. gr. a. höfundalaga, nr. 73/1972, teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir: ,,Í breytingartillögunni felst að greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa, sem innheimtar hafa verið af hálfu viðurkenndra samtaka rétthafa, sem gert hafa samninga sem veita samningskvaðaheimild skv. höfundalögum, nr. 73/1972, verði skattlagðar sem fjármagnstekjur án nokkurs frádráttar í stað launatekna.“

Enn fremur segir í athugasemdum með einstaka ákvæðum og við 1. gr.: ,,Í ákvæðinu felst að greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa skuli skattleggjast sem fjármagnstekjur hjá einstaklingum utan rekstrar en ekki sem launatekjur“

OG

„Þær greiðslur sem um ræðir í ákvæðinu eru greiðslur sem innheimtar hafa verið af hálfu viðurkenndra samtaka rétthafa, sbr. 26. gr. a. höfundalaga nr. 73/1992, þ.e. greiðslur sem koma til vegna samninga sem samtökin stofna til fyrir hönd félagsmanna sinna, samkvæmt umboði, sem veita samningskvaðaheimild í skilningi höfundalaga.“

Af orðalagi frumvarpsins mætti greina að einungis þær greiðslur sem innheimtar eru á grundvelli samningskvaðaleyfa falli undir frumvarpið og skattlagninguna? Það getur varla verið réttur skilningur, því með því er verið að mismuna höfundum verulega.

Mismunun

Myndstef innheimtir höfundaréttartekjur fyrir félagsmenn sína í gegnum umboð og/eða félagsaðild og úthlutar einstaklingsbundið til höfunda eða í formi styrkja. Lögbundnar heimildir Myndstefs til innheimtu tekna eða lögbundin þóknun vegna takmarkana má finna víða í höfundalögum nr. 72/1973, td. í 11. gr., 14. gr., 15. gr., 16., gr., 17. gr., 25. gr., 25. gr. b. og 49. gr.

25. gr. b. höfundalaga fjallar um fylgirétt, sem er mikilvægur réttur höfunda við endursölu listmuna og við uppboð. Slík endursala er ella virðisaukafrjáls, og má segja að fylgiréttur komi í stað þess virðisauka. Það er því rétthöfum og höfundum mikið hagsmunamál að skattlagning sú sem lögð er til í frumvarpinu nái einnig til fylgiréttar. Þá sér í lagi þar sem í 5. gr. reglugerðar 486/2001 Menntamálaráðuneytisins (sem fjallar um fylgirétt) kemur fram: „Séu erfingjar látins höfundar, sem njóta skulu fylgiréttargjalds fleiri en einn, skulu þeir koma sér saman um að veita einum þeirra umboð til þess að taka við greiðslu úr sjóðnum.“ Skv. þessari reglugerð kemur það sér einstaklega illa fyrir umboðsmann erfingja að viðkomandi þurfi að greiða tekjuskatt af fylgiréttargreiðslum og að þær greiðslur geti haft áhrif á skattlagningu annarra tekna hans/hennar.

Myndstef beinir þeim athugasemdum til ráðuneytisins að ofangreindu orðalagi 1. gr. frumvarpsins sé breytt og það gert skýrar, þannig að allar greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafar, er innheimtar hafa verið af viðurkenndum samtökum rétthafa, teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar.

Úthlutun á grundvelli samningskvaðaleyfa

Myndstef vill einnig koma með aðra ábendingu þessu tengdu. Reglur Myndstefs kveða á um svokallaða heildarúthlutun þóknana á grundvelli samningskvaðaheimildar, en með lögum nr. 91/2016, er ekki girt fyrir að um heildarúthlutun geti verið að ræða í formi styrkja til félagsmanna á grundvelli umsókna (eins og segir orðrétt í frumvarpi með þeim lögum). Er þá gert ráð fyrir því að hlutaðeigandi utanfélagsmenn eigi þess kost að sækja sinn hluta þóknunar í formi styrkja á grundvelli umsókna. Slík er raunin hjá Myndstef, en styrkir eru auglýstir einu sinni á ári, sbr. 17. júní ár hvert, og er úthlutað að hausti.

Af því sögðu er innheimtu á grundvelli samningskvaðaheimildar að mestu leiti ekki úthutað einstaklingsbundið í dag, þó slík sé auðvitað stefnan og vel geti farið að breyting verði á í framtíðinni. Rétthafar utan samtaka geta þó gert kröfu um að fá úthlutað eisntaklingsbundið, sbr. 2. mgr. 26. gr. b.

Að þessu sögðu myndi orðalag frumvarpsins eins og það er í dag og réttaráhrif þess vera óverulegar fyrir Myndstef, nema skýrt verði að styrkþegar geti skráð styrki Myndstefs sem fjármagnstekjur í framtali. Yrði slíkt að vera raunin ef frumvarpið verður að lögum. Við það vaknar þá upp sú spurning hver komi þá til með að hafa eftirlit með þeirri framkvæmd, og á hverjum falli leiðbeiningarskylda um hvernig skuli færa slíkar tekjur inn í framtal rétthafa.

Réttaróvissa og tilgangur frumvarpsins

Að sama skapi vaknar sú spurning hver og hvernig muni fara með upplýsingaskyldu og eftirlitsskyldu með þeim höfundaréttatekjum sem Myndstef úthlutar almennt og að gera þar greinarmun á milli við hverja úthlutun, þannig að það sé skýrt gagnvart rétthöfum hvernig þeim beri að skrá höfundaréttartekjur sínar - á grundvelli samningskvaðar, fylgiréttar og/eða annarra tekna af höfundarétti skv. heimildum Myndstefs í lögum.

Þetta allt þarf að vera skýrt gagnvart rétthöfum og er það á engan hátt eins og orðalag frumvarpsins ber með sér nú.

Það getur ekki hafa verið vilji löggjafans og tilgangur laganna að setja lög sem hafa slíka óhagræðingu í för með sér fyrir rétthafa og höfunda, sem og nánast engin réttaráhrif fyrir samtök rétthafa sem koma fram fyrir verulegan hluta sjón- og myndhöfunda á Íslandi, eða um 2600 félagsmenn, sem og að höfundum og rétthöfum sé mismunað á þennan hátt.

Viðringarfyllst og f.h. Myndstefs,

Harpa Fönn Sigurjónsdóttir

Lögfræðingur Myndstefs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Rithöfundasamband Íslands - 21.03.2019

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Arnarhvoli við Lindargötu

150 Reykjavík

21. mars 2019

Efni: Umsögn RSÍ vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Rithöfundasamband Íslands er afar hlynnt því að greiðslur til höfunda verði almennt skattlagðar sem fjármagnstekjur í stað launatekna og tekur sambandið undir þá umfjöllun í greinargerð frumvarpsins að eðlilegt sé að tekjur vegna nýtingar á verkum sem þegar hafa verið sköpuð séu skattlagðar eins og aðrar tekjur manna af eignum sínum. Einnig er tekið undir þau sjónarmið greinargerðar frumvarpsins að einkum sé óeðlilegt að skattleggja greiðslur sem launatekjur þegar höfundur tiltekins verks er látinn.

Að því sögðu gerir RSÍ tvær grundvallarathugasemdir við efni frumvarpsins:

Í fyrsta lagi er gildissvið þess afar þröngt. Svo þröngt að erfitt er að sjá að það komi til með að hafa mikil áhrif fyrir rithöfunda. Tekjur höfunda vegna verka sem þegar hafa verið sköpuð eru m.a. greiðslur frá Bókasafnssjóði höfunda, greiðslur fyrir afnot af áður birtu efni í kennslugögnum skv. 17. gr. Höfundalaga, bætur vegna hljóðbóka sem framleiddar eru skv. 19.gr. Höfundalaga, bætur vegna eintakagerðar til einkanota skv. 11. gr. Höfundalaga. Enn fremur greiðslur vegna sölu á kvikmyndarétti, sölu á rétti til leikgerða og sala á þýðingarétti til útlanda.

Í öðru lagi er frumvarpið nokkuð óskýrt varðandi það hvað fellur undir það og hvaða greiðslur nákvæmlega um ræðir. Þetta atriði skiptir t.d. máli varðandi leiðbeiningarskyldu til félagsmanna og skjólstæðinga RSÍ.

Í þessu sambandi bendir RSÍ sérstaklega á að sambandið er ekki skilaskyldur aðili. Þó svo að í umfjöllun í greinargerðinni, í skýringum við 2. gr., sé fullyrt að „viðurkennd samtök rétthafa telj[i]st þannig til skilaskyldra aðila og ber[i] sem slíkum við greiðslu til rétthafa að annast afdrátt staðgreiðslu [...]“ þá er alls óljóst af ákvæðinu sjálfu hvort það feli í sér að verið sé að breyta stöðu samtaka eins og t.d. RSÍ sem ekki telst skilaskyldur aðili. Um þetta þyrfti ákvæðið sjálft að vera afdráttarlaust og á því byggjandi en ekki einungis að vikið sé að þessu atriði í greinargerð. Sé þetta fyrirætlanin, þá þarf sambandinu einnig að vera ljóst, eigi það að annast afdrátt staðgreiðslu og standa skil til ríkissjóðs, nákvæmlega hvaða greiðslur eigi undir frumvarpið.

Þá er aukinheldur bagalegt fyrir almenna framteljendur að frumvarpið sé ekki nægilega skýrt þannig að ljóst megi vera af efni þess hvaða greiðslur falla undir það og hverjar ekki sem og hvers ætlast sé til af framteljendum, hverjar séu réttindi þeirra og skyldur. Liggur þannig fyrir að höfundar, og jafnvel viðurkennd og skilaskyld rétthafasamtök, þurfi að leita sér leiðbeininga hjá sérfræðingum varðandi eiginlega þýðingu frumvarpsins. Fer slíkt væntanlega á skjön við meginreglur réttarríkisins um skýrleika laga.

Enn skal ítrekað að RSÍ styður þau sjónarmið sem liggja að baki frumvarpinu, þ.e. að greiðslur til höfunda skuli teljast fjármagnstekjur en ekki launatekjur og telur afar brýnt að slíkar reglur verði í lög leiddar sem allra fyrst.

Virðingarfyllst,

f.h. Rithöfundasambands Íslands

Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samband íslenskra sveitarfélaga - 22.03.2019

Sjá meðf.:

Viðhengi