Samráð fyrirhugað 11.03.2019—24.03.2019
Til umsagnar 11.03.2019—24.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 24.03.2019
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (bætt réttarstaða leigjenda við lok leigusamnings).

Mál nr. 85/2019 Birt: 11.03.2019
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Húsnæðisstuðningur

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (11.03.2019–24.03.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Frumvarpinu er ætlað að auka húsnæðisöryggi þeirra sem hafa fengið íbúðarhúsnæði á leigu hjá vinnuveitanda sínum vegna starfs þannig að þeir eigi rétt á uppsagnarfresti við lok leigusamnings eftir almennum reglum.

Með frumvarpinu er lagt til að 50. gr. húsaleigulaga verði felld brott. Er þar kveðið á um að sé leigjandi starfsmaður leigusala og hafi fengið íbúðarhúsnæði á leigu vegna þess starfs falli leigusamningur niður án sérstakrar uppsagnar láti leigjandi af störfum að eigin ósk, sé löglega vikið úr starfi vegna brota í því eða vegna þess að fyrir fram umsömdum ráðningartíma sé lokið. Ákvæðið hefur verið í lögum allt frá samþykkt laga um húsaleigusamninga, nr. 44/1979, en þar var ákvæðið að finna í 62. gr. laganna. Í athugasemdum við þá grein segir að í henni hafi verið fólgið nýmæli þess efnis að þegar afnot af leiguhúsnæði væru látin í té í tengslum við ráðningu í starf, þá væri ekki heimilt að láta starfsmann víkja úr húsnæðinu fyrirvaralaust samhliða uppsögn úr starfi, nema starfsmaðurinn hefði gerst brotlegur eða hann verið ráðinn tímabundið. Öðrum kosti yrði að segja upp afnotum húsnæðisins með venjulegum hætti. Þætti rétt að girða með þeim hætti fyrir það að menn glötuðu samtímis bæði atvinnu sinni og húsnæði.

Bent hefur verið á að af framangreindu ákvæði 50. gr. húsaleigulaga leiði að réttarstaða leigjanda sem leigir íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum sé lakari en réttarstaða annarra leigjenda íbúðarhúsnæðis þegar kemur að lokum leigusamnings, þ.e. að leigusamningur falli niður án sérstakrar uppsagnar ólíkt því sem almennt gildir. Þykir eðlilegra að í slíkum tilvikum sé útbúinn hefðbundinn húsaleigusamningur á grundvelli húsaleigulaga og að um samningssamband aðila fari eftir almennum reglum laganna, m.a. hvað lok leigusamnings varðar.

Með brottfalli 50. gr. húsaleigulaga samkvæmt frumvarpinu er þannig lagt til grundvallar að í umræddum tilvikum gildi ekki sérregla um lok leigusamnings án uppsagnar heldur almennar reglur húsaleigulaga um uppsögn leigusamnings, sbr. XI. kafla húsaleigulaga. Þannig verði tryggt að réttarstaða leigjanda sem leigir íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum sé ekki lakari en réttarstaða annarra leigjenda íbúðarhúsnæðis þegar kemur að lokum leigusamnings.

Frumvarpinu er þannig ætlað að bæta réttarstöðu leigjenda sem leigja íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum hvað varðar lok leigusamnings þannig að þeir njóti sama réttar til uppsagnarfrests og aðrir leigjendur íbúðarhúsnæðis samkvæmt almennum reglum húsaleigulaga. Þykir breytingin mikilvægur liður í að auka húsnæðisöryggi þeirra sem hafa fengið íbúðarhúsnæði á leigu vegna starfs síns.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hagsmunasamtök heimilanna - 18.03.2019

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök ferðaþjónustunnar - 22.03.2019

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á mótttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur

Viðhengi