Samráð fyrirhugað
Samráð stendur yfir 14.03.2019 - 24.03.2019
Niðurstöður í vinnslu
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um rafrænar þinglýsingar

Mál nr. S-91/2019 Stofnað: 14.03.2019
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Samráð stendur yfir

Umsagnarfrestur er 14.03.2019 - 24.03.2019. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um rafrænar þinglýsingar sem verður sett með heimild í 5. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 53. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. breytingalög nr. 151/2018.

Með lögum nr. 151/2018 um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs (rafrænar þinglýsingar) var gerð breyting á gildandi framkvæmd þinglýsinga með því að heimila þinglýsingu meginatriða skjals með rafrænni færslu.

Í reglugerðardrögunum er fjallað nánar um framkvæmd þinglýsinga með rafrænni færslu og tæknilegar kröfur sem gerðar eru til hennar. Helstu breytingarnar frá fyrri framkvæmd eru þær að heimilt verður að þinglýsa meginatriðum skjals, er varða réttindi og skyldur aðila, með rafrænni færslu án þess að skjalið sjálft berist til þinglýsingar. Við það mun afgreiðslutími rafrænna þinglýsinga styttast til muna, enda er miðað við að þinglýsingin verði framkvæmd á sekúndubroti með sjálfvirkri ákvarðanatöku þinglýsingakerfis. Meðal forsendna þess að meginatriðum skjals verði þinglýst sjálfvirkt með rafrænni færslu, án þess að færslan fari í handvirka vinnslu hjá þinglýsingarstjóra, er að kröfuhafar hafi áður leiðrétt skráningu kröfuréttinda sinna. Fjallað er sérstaklega um verklagið við þá leiðréttingu kröfuhafa í 11. gr. reglugerðardraganna.

Í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2018 munu forgangsáhrif rafrænna þinglýsinga miðast við nákvæma tímastimplun við móttöku þinglýsingarbeiðni, á meðan móttekin skjöl til þinglýsingar fá tímastimplun kl. 21:00. Þannig munu rafrænar þinglýsingar njóta forgangs fram yfir þinglýsingar á pappírsskjölum.

Rafrænar þinglýsingar verða innleiddar í áföngum og er stefnt að því að innleiða í fyrsta áfanga veðskjöl og tengdar yfirlýsingar vegna fasteigna, ökutækja og skipa. Eftir því sem líður á innleiðinguna verður heimildin útvíkkuð og rafræn þinglýsing heimiluð fyrir fleiri tegundir skjala og þinglýsingabækur.

Opið verður fyrir umsagnir til og með 24. mars 2019.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.