Samráð fyrirhugað 14.03.2019—25.03.2019
Til umsagnar 14.03.2019—25.03.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 25.03.2019
Niðurstöður birtar 05.12.2019

Stefnumótun í málefnum barna

Mál nr. 92/2019 Birt: 14.03.2019 Síðast uppfært: 05.12.2019
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar

Um 700 ábendingar og óskir um þátttöku bárust vegna bréfsins og í lok mars voru fullskipaðir átta hópar um tiltekin málefni. Um vinnu hópanna er nánar fjallað í meðfylgjandi niðurstöðuskjali. Á haustmánuðum 2019 boðaði félags- og barnamálaráðherra til opinnar ráðstefnu þar sem helstu niðurstöður samráðsins og fyrstu drög að þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru voru kynntar. Sú vinna stendur enn yfir og er áætlað að leggja fram þrjú frumvörp á vorþingi 150. löggjafarþings og fleiri á haustþingi 151. löggjafarþings.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 14.03.2019–25.03.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 05.12.2019.

Málsefni

Stefnumótun í málefnum barna, endurskoðun á félagslegri umgjörð og þjónustu við börn á Íslandi

Á síðasta ári boðaði Ásmundur Einar Daðason, félags- og heilbrigðisráðhera, heildarendurskoðun barnaverndarlaga sem og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu kerfa. Við vinnuna er lögð áhersla á víðtækt samstarf og samvinnu, hvort sem um ræðir breytingar á lögum, á reglugerðum eða framkvæmd þjónustu.

Vinnunni er stýrt af félagsmálaráðuneytinu og hefur félags- og barnamálaráðherra skipað þverpólitíska nefnd þingmanna til að hafa yfirumsjón með mótun stefnunnar. Þingmannanefndin starfar með fagfólki sem og notendum kerfisins víða að úr samfélaginu. Samhliða starfa opnir hliðarhópar sérfræðinga um tiltekin málefni. Þá eru fyrirhugaðir opnir fundir á síðari stigum vinnunnar og stærri ráðstefna á vormánuðum.

Aðgerðir til stuðnings börnum og fjölskyldum eru ein dýrmætasta fjárfesting sem samfélagið getur ráðist í. Vonast er til að hægt sé að sameinast um þetta mikilvæga og umfangsmikla verkefni þvert á stöðu, fagsvið og flokka.

Hér með er vakin athygli á yfirstandandi vinnu og bent á að þeir sem hafa áhuga á því að koma að vinnunni á einhverjum stigum geta sent ábendingar á netfang sem gefið er upp í meðfylgjandi skjali, komið upplýsingum á framfæri eða óskað eftir þátttöku í hliðarhópum og opnum fundum.

Meðfylgjandi er nánari lýsing á vinnu við stefnumótunina.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þroskahjálp,landssamtök - 25.03.2019

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um stefnumótun í málefnum barna.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna fyrirhugaðri stefnumótun í málefnum barna og þeirri áherslu á réttindi og hagsmuni barna sem hún endurspeglar. Samtökin vilja á þessu stigi koma eftirfarandi á framfæri varðandi stefnumótunina.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans á öllum þeim sviðum sem hann nær til með með því að gera nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni. 4. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar og þar segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ...

Í samningnum er lögð mjög mikil áhersla á skyldur ríkja til að tryggja fötluðum börnum sömu réttindi og tækifæri og öðrum börnum og möguleika til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar.

Í 3. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Öll ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem tekinn var í íslensk lög árið 2013, eiga að sjálfsögðu við um fötluð börn jafnt og önnur börn. Tiltekin réttindi fatlaðra barna eru auk þess sérstaklega áréttuð í 23. gr. samningsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja Landssamtökin Þroskahjálp mjög mikilvægt að við stefnumótun í málefnum barna verði sérstaklega litið til stöðu, aðstæðna þarfa og réttinda fatlaðra barna. Mjög mikilvægt er einnig að við þá vinnu verði haft náið samráð við fötluð börn með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þeirra hönd, eins og skylt er samkvæmt tilvtnuðu álkvæði 3. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin Þroskahjálp lýsa hér með yfir vilja og áhuga til að taka virkan þátt í því samráði.

Að lokum vilja samtökin sérstaklega nefna tvö atriði sem þau telja mjög brýnt að stjórnvöld hugi sérstaklega að við stefnumótun í málefnum barna.

Mikið vantar á að stjórnvöld safni skipulega nauðsynlegum tölfræðilegum gögnum varðandi stöðu fatlaðra barna og vinni úr þeim með viðeigandi hætti. Þá vantar nauðsynlegar rannsóknir á ýmsu sem lýtur að stöðu og réttindum fatlaðra barna. Þetta leiðir til að umræða um stöðu fatlaðra barna verður ómarkviss sem og ákvarðanir og stefnumótun stjórnvalda á þessu sviði. Afar mikilvægt er að stjórnvöld bæti úr þessu.

Innflytjendum hefur fjölgað mjög mikið á Íslandi á undanförnum árum. Margt bendir til að fötluð börn innflytjenda njóti ekki sömu tækifæra og mannréttinda og önnur fötluð börn í landinu. Ástæður þessa kunna að vera margvíslegar og mismunandi. Augljós hætta er á að þessi börn kunna að verða fyrir mismunun, jafnvel margþættri, af ástæðum sem fara í bága við alþjóðleg mannréttindi, s.s. á grundvelli uppruna, tungumáls, trúarbragða, kynþáttar eða litarháttar. Sama á við um börn í hópi hælisleitenda og flóttafólks. Skortur er á áreiðanlegum upplýsingum um stöðu þessara barna sem takmarkar möguleika til upplýstrar umræðu og töku ákvarðana á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga og markvissrar stefnumótunar og aðgerða stjórnvalda í þágu þessara barna.

Afrita slóð á umsögn

#2 Védís Elsa Kristjánsdóttir - 25.03.2019

Varðar:Meðlagsgreiðslurúr landi.

Með þessu erindi vil ég benda á mismunun vegna barna og forsjárforeldra sem búsett eru erlendis um lengri eða skemmri tíma. Í reglugerðum um Tryggingastofnun miðast milliganga hennar á greiðslum meðlaga við búsetu á Íslandi. Samningar eru þó á milli Norðurlandanna umþessi mál , en réttur á "EES svæðum" er mjög óskýr og utan þeirra er hann enginn. Þar stendur einnig að þar af leiðandi verði foreldri sjálft að sjá um innheimtu meðlagsins.

Augljóst er að foreldri búsett erlendis, oft einstæð móðir, á erfitt með að innheimta sjálf(t) meðlag, ef meðlagsgreiðandi búsettur á Íslandi annaðhvort getur eða vill ekki standa við skyldur sínar. Þá þarf væntanlega að höfða mál á Íslandi, sem ekki er kostnaðarlaust og jafnvel þótt það vinnist er óvíst að aðilinn borgi. Þetta fyrirkomulag hlýtur að brjóta í bága við réttindi barns til framfærslu, bæði skv. barnasáttmála SÞ svo og því sem stendur í íslenskum barnalögum um meðlag "Meðlag tilheyrir barni og á að nota í þess þágu, en það foreldri sem fær meðlag með barni sínu tekur við greiðslum þess í eigin nafni". Þar að auki er margtekið fram í lögunum að öll mismunun sé óheimil. Virðast því lög og reglugerðir iðulega stangast á og túlkun vera mjög loðin og teygjanleg.

Heimild til leiðréttingar á þessu óréttlæti hefur verið til frá árinu 2004, en hefur af einhverjum ástæðum ekki verið framkvæmd. (Sjá lög um almannatryggingar nr.78/2004) (sjá einnig fréttir á heimasíðu Umboðsmanns barna 15.júní 2007) Hvort tveggja fylgir með í viðhengi.

Nú er tækifæri í tengslum við breytingar á barnalögum , að leiðrétta þessa mismunun og kveða skýrt á um að Tryggingastofnun beri að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barna sem bússett eru erlendis. Sem sagt breyta heimild í skyldu.

Ekki tókst að senda viðhengi en skjölin eru hér fyrir neðan:

15. júní 2007

Meðlagsgreiðslur úr landi

Umboðsmaður barna ritaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf í byrjun maímánaðar þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hvort ráðherra hafi sett reglur um greiðslu meðlags þegar foreldrar eða börn eru búsett erlendis. Hafi þær ekki verið settar hvetur umboðsmaður ráðherra til þess að beita sér fyrir því að slíkt verði gert til að tryggja öllum íslenskum börnum sama rétt til meðlagsgreiðslna óháð búsetu, þ.e. ef meðlagsskyldur aðili býr og starfar hér á landi.

Málavextir eru þeir að á árinu 2003 var 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 breytt á þann veg að Tryggingastofnun er ekki lengur skylt að greiða meðlag til rétthafa meðlagsgreiðslna sem ekki eru búsettir hér á landi. Við framangreinda lagabreytingu varð gjörbreyting á innheimtu meðlaga vegna íslenskra barna búsettra erlendis þó hinn meðlagsskyldi búi hér á landi og hefur innheimtan verið í höndum forsjárforeldra sjálfra frá 1. nóvember 2003.

Á grundvelli milliríkjasamninga hafa rétthafar meðlagsgreiðslna sem búsettir eru á Norðurlöndum eða innan EES - svæðisins getað fengið meðlagsgreiðslur eftir reglum búsetulandsins í gegnum þar til bær yfirvöld. Fyrir þá sem búsettir eru utan þessara svæða gilda hins vegar ekki sömu úrræði.

Til þess er og að líta að þessar reglur gilda hvort heldur rétthafar greiðslna eru búsettir erlendis í skamman tíma t.d. vegna náms eða til langframa. Þá eru meðlagsgreiðslur almennt hærri hér á landi en í þessum löndum.

Til þess að reyna að koma til móts við þá íslensku ríkisborgara sem ekki eru búsettir hér á landi en eiga rétt á meðlagi frá meðlagsskyldum aðila sem býr og starfar á Íslandi var 59. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 breytt árið 2004 (lög nr. 78/2004) og fengin heimild til þess að setja reglur um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldrar eða börn eru búsett erlendis.

Í svarbréfi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, dags. 13. júní, segir að ráðherra hafi ekki sett reglugerð eða reglur á grundvelli heimildarinnar í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar (endurútgefin 11. maí). Ráðuneytið er þó sammála umboðsmanni um að æskilegt væri að setja reglugerð um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldrar eða börn eru búsett erlendis. Í bréfinu segir að unnið sé að undirbúningi slíkrar reglugerðar en það krefst samráðs við hlutaðeigandi stofnanir og ráðuneyti og hefur því tekið nokkuð langan tíma.

Lög

um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

1. gr. Við 5. mgr. 14. gr. laganna bætast orðin: sbr. þó 4. mgr. 60. gr.

2. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna: a. 1. mgr. orðast svo: Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 14. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna. b. 6. mgr. orðast svo: Heimilt er að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem m.a. er kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi.

3. gr. Við 60. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo: Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 59. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 14. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.

4. gr. Við 64. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo: Í samningum skv. 1. mgr. er enn fremur heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags milli samningsríkja, sbr. 59. gr., eins og um bætur almannatrygginga væri að ræða.

5. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.