Samráð fyrirhugað 20.09.2018—07.10.2018
Til umsagnar 20.09.2018—07.10.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 07.10.2018
Niðurstöður birtar 06.11.2018

Áform um frumvarp til laga um breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, með síðari breytingum

Mál nr. 136/2018 Birt: 20.09.2018 Síðast uppfært: 06.11.2018
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Niðurstöður birtar

Niðurstöður samráðs má sjá í niðurstöðuskjali.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.09.2018–07.10.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.11.2018.

Málsefni

Áformað er að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Stefnt er að breytingum á ákvæðum laganna er varða samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana og sett verður sjálfstæð stjórn yfir Innviðasjóði.

Í áformum um lagabreytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003 felast framkvæmdir aðgerða 1.9 í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016 en þar segir: „Lög um samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs verði endurskoðuð svo að tryggt sé að stjórnir sjóðanna geti markað stefnu hvað varðar sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði og á alþjóðlega markaði. Stjórnir sjóðanna hafi jafnframt heimild til að ráðstafa fé vegna samstarfsverkefna sem hafa verið samþykkt af stjórnum sjóðanna. Einnig sé sjóðunum heimilt að greiða erlendum samstarfsaðilum, eftir því sem við á.“

Sameiginleg stjórn er yfir Rannsóknasjóði og Innviðasjóði þrátt fyrir að eðli sjóðanna sé talsvert ólíkt. Rannsóknarsjóður veitir styrki til einstakra rannsóknarverkefna á grundvelli faglegs mats á gæðum umsókna án þess að sjóðurinn leggi áherslu á tiltekin fræðasvið eða rannsóknarefni. Hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi en rannsóknarinnviðir eru forsenda þess að hægt sé að stunda vísindarannsóknir. Gert ráð fyrir að tenging Innviðasjóðs við stefnumörkun stjórnvalda verði styrkt sbr. skýrsluna „Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar“ sem verkefnahópur Vísinda- og tækniráðs um rannsóknarinnviði og vöktun sendi frá sér í apríl 2017 og stefnu Vísinda- og tækniráðs 2017-2019. Skipun sjálfstæðrar stjórnar yfir Innviðasjóði er liður í þeirri styrkingu.

Með frumvarpinu verður lagt til:

Sjálfstæð stjórn yfir Innviðasjóði.

Heimild til handa Rannsóknasjóði til að taka þátt í alþjóðlegri samfjármögnun.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Veðurstofa Íslands - 03.10.2018

Veðurstofa Íslands styður áformaðar breytingar á lögum nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, þ.e. um samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana og sjálfstæði stjórnar Innviðasjóðs. Breytingar þessar eru til mikilla bóta og opna ný tækifæri til þátttöku í alþjóðlegum innviðaverkefnum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Rannsóknamiðstöð Íslands - 03.10.2018

Hér að neðan er fjallað um þá tvo þætti sem áform eru um að leggja fram sem breytingar á lögum 3/2003, þ.e. um alþjóðlega samfjármögnun og innviðasjóð. Rannís er umsýsluaðili Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs sbr. lög 3/2003.

Alþjóðleg samfjármögnun

Alþjóðlegt samstarf íslenskra vísindamanna er mjög mikið samanborið við aðrar þjóðir, en það kemur til af því að íslenska vísindasamfélagið er lítið og því oft nauðsynlegt fyrir vísindamenn að leita eftir samstarfi út fyrir landsteinana. Umfang alþjóðlegs samstarfs sést vel í mælingum á alþjóðlegum sambirtingum (e. international co-publications) þar sem‚ Ísland er með mun hærra hlutfall sambirtinga en t.d. nágrannar okkar á Norðurlöndunum.

Samstarf samkeppnissjóða milli landa við fjármögnum verkefna fer vaxandi. Slíkt samstarf á sér stað bæði sem „sýndar“ sameiginlegur sjóður (e. Virtual Common Pot) og sem sameiginlegur sjóður (e. Common Pot). Gera verður ráð fyrir að Rannsóknasjóður geti tekið þátt í báðum samstarfsformunum.

Tillaga hér að neðan byggir á því að stjórn Rannsóknasjóðs og stjórn Innviðasjóðs, ef svo ber undir, meti og taki afstöðu til samstarfs í hverju og einu tilfelli, enda verði um kall (útboð/auglýsingu) að ræða, þar sem vísindamenn í samstarfslöndum eru hvattir til að sækja. Forsenda við val verkefna skal byggja á gæðum umsókna sem eru metnar í samkeppni byggt á auglýstum viðmiðum af fagráði. Niðurstaða fagráðs er lögð fyrir stjórn að taka ákvörðun um fjárveitingar. Það er á ábyrgð stjórnar að gera kröfu um að matsferlið uppfylli kröfur sem stjórnin hefur og lög um sjóðinn kveða á um. Hér að neðan eru lagðar til eftirfarandi breytingar á lögunum:

1. 2. gr. Rannsóknasjóður (1. málsgrein)

Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og skilgreind rannsóknarverkefni sem styrkja stöðu vísindastarfs á Íslandi. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Stjórn hefur heimild til að eiga samstarf við erlenda sjóði um samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaverkefna. Ákvörðun um styrkveitingu er bundin faglegu mati.

2. 4. gr. Stjórn Rannsóknasjóðs (2. málsgrein)

Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðanna geta veitt ef þurfa þykir.

3. 5. gr. Fagráð Rannsóknasjóðs (1. málsgrein)

Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr Rannsóknasjóði. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega. Í alþjóðlegu samstarfi Rannsóknasjóðs eru fagráð skipuð sameiginlega af samstarfssjóðum. Fagráð eru jafnframt ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.

Innviðasjóður

Ástæða er til að fagna tillögu um að stjórn Innviðasjóðs verði sjálfstæð stjórn. Í því sambandi má sérstaklega líta til þess að mikil áhersla stjórnvalda er á að efla stefnumörkun og fjárhagslega getu sjóðsins til að takast á við brýn verkefni við uppbyggingu rannsóknarinnviða í íslensku vísindaumhverfi. Í skýrslu Vísinda- og tækniráðs um uppbyggingu rannsóknarinnviða er lögð áhersla á gerð vegvísis, sem er stefna og forgangsröðun stjórnvalda. Vegvísir þarf að liggja til grundvallar við mótun úthlutunarstefnu Innviðasjóðs. Í skýrslunni er jafnframt áhersla á möguleika íslenskra vísindamanna á þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarinnviðum. Lagt er til að eftirfarandi atriði verði skoðuð nánar við endurskoðun laga um Innviðasjóð:

1. Ekki er skilgreint í áformunum um lagabreytingu hverjir eru ráðgefandi aðilar við tilnefningu stjórnarmanna þegar ráðherra skipar stjórn Innviðasjóðs. Ekki verður annað séð en að góð sátt sé um fyrirkomulag og samskipti við Vísinda- og tækniráð og nefndir þess varðandi skipun stjórnar Rannsóknasjóðs og t.d. fagráða. Því er hvatt til að leitað verði leiða til að tilnefningar komi úr vísinda og/eða nýsköpunarumhverfinu og ráðherra skipi stjórn Innviðasjóðs byggða á þeim tilnefningum til þriggja ára í senn.

2. Síðasta setningin í grein um skipun stjórnar verði: „Stjórn leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð Innviðasjóðs veitir ef þurfa þykir.“

3. Ástæða er til að vísindanefnd og tækninefnd komi að því að marka úthlutunarstefnu Innviðasjóðs í samræmi við vegvísi (stefnu og forgangsröðun stjórnvalda) um uppbyggingu rannsóknarinnviða.

4. Innviðasjóður hafi heimild til að að taka þátt í samfjármögnun rannsóknarinnviða með hliðsjón af stefnu stjórnvalda/Vísinda- og tækniráðs. Þar kunna að koma til árlegar greiðslur fyrir aðgang að innviðum jafnt og stofnframlög sem tryggja aðgang til lengri tíma að rannsóknarinnviðum.

5. Í lögunum komi fram að áhersla sé á opið aðgengi og samstarf um nýtingu.

Hallgrímur Jónasson,

forstöðumaður Rannís

Afrita slóð á umsögn

#3 Hagstofa Íslands - 05.10.2018

Hagstofa Íslands lýsir yfir ánægju sinni með fyrirhugaðar breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Stofnunin tekur undir að hlutverk Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs sé í eðli sínu ólíkt og að sjálfstæð stjórn fyrir Innviðasjóð sé jákvætt framfaraskref fyrir uppbyggingu rannsóknainnviða á Íslandi. Með þessum breytingum myndi opnast tækifæri fyrir langtímasýn á uppbyggingu íslenskra rannsóknainnviða og til að ná meiri árangri í markvissri forgangsröðun verkefna. Þá eru heimildir til alþjóðlegrar samfjármögnunar til þess fallnar að auka og bæta möguleika í vísindasamstarfi