Samráð fyrirhugað 02.04.2019—26.04.2019
Til umsagnar 02.04.2019—26.04.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 26.04.2019
Niðurstöður birtar 18.12.2019

Drög að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð

Mál nr. 108/2019 Birt: 02.04.2019 Síðast uppfært: 18.12.2019
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður birtar

Alls bárust 13 umsagnir í samráðsgátt um reglugerðardrögin og var fallist á hluta af þeim athugasemdum sem bárust eins og sjá má á meðfylgjandi niðurstöðuskjali.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 02.04.2019–26.04.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 18.12.2019.

Málsefni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birtir drög að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð við Ísland til umsagnar.

Starfshópur um faglega endurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum sem skilað skýrslu til ráðherra í september 2018. Í skýrslunni voru m.a. lagðar til breytingar á framkvæmd lokana veiðisvæða. Á undanförnum árum hefur skyndilokunum á djúpslóð fækkað, en fjölgað á grunnslóð. Með öðrum orðum þá hafa skyndilokanir færst af hefðbundnum veiðisvæðum togaraflotans inn á grunnslóðina, þar sem hluti línubátanna en þó sérstaklega handfærabátarnir stunda veiðar. Starfshópurinn lagði til að tilteknum svæðum, þar sem mest væri um skyndilokanir eða smáfisk, yrði lokað með reglugerð. Í þeim drögum sem hér eru kynnt er lagt til að 16 svæðum verði lokað tímabundið til tveggja til þriggja ára. Af þessum 16 svæðum eru 9 svæði ný og þar er lagt til að lokunin gildi hluta úr ári, en á 7 svæðum eru reglugerðir nú þegar í gildi og þar eru 5 svæði lokuð hluta úr ári en 2 svæði lokuð allt árið.

Framangreindar tillögur voru gerðar í samráði og samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Landsamband smábátaeigenda (LS), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Samtök smærri útgerða (SSÚ). Í hluta draganna er farið alfarið eftir tillögum heimamanna en hluti draganna byggist á sögu skyndilokana og öðrum gögnum þar sem engar tillögur frá heimamönnum bárust eða samstarfsvilji þeirra var lítill.

Samhliða er lagt til að viðmiðunarmörkum vegna lokana veiðisvæða verði breytt samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar. Viðmiðunarmörk fyrir þorsk, ýsu og ufsa verði 50% af fjölda, í stað 25% í þorski og 30% í ýsu og ufsa, en lengdarmörk verði óbreytt (55 cm í þorski og ufsa og 45 cm í ýsu).

Umsögnum um drögin skal skilað í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 16. apríl næstkomandi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðmundur Smári Guðmundsson - 08.04.2019

Undirritaður gerir alvarlegar athugasemdiur við 7.greinina þ.e. banni við veiðum með fiskibotnvörpu, Engin rök eru fyrir því að blanda fiskibotnvörpu inn í þessa lokun þar sem að eins einu sinni hefur komið til lokunnar á þessu svæði s.l 13 á v fiskibotnvörðu en það var árið 2008. Frá árinu 2005 til dagsins í dag er um þessa einu lokunn að ræða hún er nr 047 2008.

Frá Grundarfirði eru gerðir út 4 togbátar srem hafa verulega hagsmuni af því að fá að stunda þarna veiðar , Útgerðin hér hefur nú nýverið fjárfest í 3 nýjum skipum sem nýta muni þessa slóð.

Sjómenn sem stunda þessa slóð með fiskibotnvörpu hafa um það orð hve fiskurinn á þessari veiðislóð sé góður . Það eru engin ný sannindi að ekki sé að veiðast sambærilegur fiskur á línu eða botnvörðuá þessari slóð.

Undirritaður óskar eftir því að aðeins eitt orð verði tekið úr 7.gr það er orðið fiskibotnvarpa í fyrstu línunni.

Afrita slóð á umsögn

#2 Árni Bjarnason - 09.04.2019

Umsögn vegna draga starfshóps að lokun svæðis við norðanverðan Breiðafjörð

Undirritaður lýsir yfir vonbrigðum með að Félagi skipstjórnarmanna hafi ekki verið boðin aðkoma að þeim starfshópi sem nú hefur skilað af sér drögum að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð. Hlutverk Félags skipstjórnarmanna er fyrst og fremst að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda og þar af leiðandi hljótum við að gera kröfu um að taka þátt í vinnu sem svo sannarlega hefur áhrif að afkomu okkar félagsmanna í öllu falli ekki síður en þeirra sem áttu aðild að starfshópnum. Skipstjórnarmenn á togskipum sem umfram aðra stunda veiðar í norðanverðum Breiðafirði hafa bent á eftirfarandi staðreyndir: Meira en áratugur er liðinn síðan síðast var lokað á umrædda slóð S úr Bjargi ( 7. Grein) þar sem botnvarpa átti hlut af máli þrátt fyrir hefðbundið eftirlit. Tvær nýlegar mælingar um borð í Helga SH-135 og Farsæl SH-030 gáfu ekki tilefni til breytinga frekar en verið hefur raunin um langt árabil og þar af leiðandi í það minnsta verulega langsótt að til staðar séu rök fyrir breytingum á veiðisvæði sem skilað hefur góðum afla og vænum fiski. Annar þáttur sem hlýtur að hafa þýðingu og áhrif til þess að þessi tillaga verði endurskoðuð er, að svæðið sem um ræðir er í skjóli fyrir NA brælunni sem ósjaldan hrellir menn á þessum slóðum. Sú staðreynd gerir það að verkum að skipin geta haldið áfram veiðum við tiltölulega öruggar aðstæður en þyrftu ella að leita vars. Þetta varðar því bæði öryggisþáttinn og um leið afkomulega hagsmuni að þessi mið verð valkostur fyrir togskip í þessum landshluta, enda eins og áður segir engar haldbærar forsendur fyrir því að loka á þessi skip.

Árni Bjarnason formaður FS

Afrita slóð á umsögn

#3 Þórður Birgisson - 11.04.2019

Ég vill gera athugasemdir varðandi 14 gr.

Annars vegar mun Flatey á Skjálfanda aldrei flokkast sem út af Gjöfum eins og þetta er orðað.

Annað ég vill gera breytingar á austurhluta þessara lokunanar þannig að það verði miðað við norður/ suður úr Flateyjarvita. Ef þessi lokin fer óbreytt er hún að taka af ýsumiðin á Hraunshorninu, sem er nafnið á þessum miðum, og einnig stóra þorskinn sem kemur þarna í byrjun júlí.

Það er hlýtur að vera hægt að fá upplýsingar hjá Reiknistofu fiskmarkaðana um aflasamsetningu handfærabáta frá Húsavík í júlí, ætli það sé ekki um 75 til 80 % sem er stór þorskur. Það hafa bara verið bátar frá Húsavík sem hafa róið á þessi mið.

Svo hefði nú mátt vanda sig betur við útsetningum sumra punktanna þeir eru lengst uppá fjöllum.

Kv.

Þórður Birgisson.

Afrita slóð á umsögn

#4 Ólafur Arnar Hallgrímsson - 12.04.2019

Umsögn um Mál nr. S-108/2019

„Drög að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð“

Þar segir:

16. gr.

Bann við veiðum með handfærum við Glettinganes.

Við Glettinganes er óheimilt að stunda veiðar með handfærum, á tímabilinu frá og með 15. maí til og með 31. júlí, á svæði sem markast af eftirfarandi hnitum:

1. 65°33,00´N – 13°40,50´V

2. 65°33,00´N – 13°38,90´V

3. 65°31,70´N – 13°35,00´V

4. 65°24,70´N – 13°30,20´V

5. 65°21,55´N – 13°39,10´V

6. 65°21,60´N – 13°42,60´V.

Trillusjómenn á Borgarfirði eystra hafa í vinnu nefndarinnar mótmælt fyrirhugaðri lokun með bréfi til Annasar Jóns Sigmundssonar, formanns starfshóps um lokanir svæða fyrir króka- og dragnótaveiðum á grunnslóð, dagsett 17.5.2018 og ítreka afstöðu sína þar um.

Enn hafa engar rannsóknir farið fram á aldurssamsetningu afla á handfæri á þessu svæði og ekki hefur verið kannað nýlega stærðarsamsetning afla af svæðinu, eftir okkar bestu vitund.

Að framansögðu teljum við að falla eigi frá lokun umrædds svæðis.

Verði það hins vegar ákvörðun stjórnvalda að fara að tillögum starfshópsins og banna handfæraveiðar á grunnslóð við Glettinganes og nærliggjandi svæði með reglugerð þá verður með einhverjum hætti að koma til móts við útgerð trillubáta á Borgarfirði eystra.

Viljum við vekja athygli á að togveiðar eru leyfðar allt inn að 6 sml frá landi út af Glettinganesi og Borgarfirði eystra. Þegar togarar eru að veiðum á því svæði fæst þar nánast enginn afli, hvorki á handfæri né línu. Bent skal á að einungis verður 3-4 sjómílna ræma á milli fyrirhugaðs bannsvæðis og að 6 sml mörkum þar sem togveiðar eru leyfðar. Einnig má ætla að veiddur fiskur utan svæðisins minnki göngu stærri fisks upp á umrætt svæði.

Förum við sjómenn á Borgarfirði eystra því fram á að svæði frá 6 sml út að 12 sml frá landi verði lokað fyrir togveiðum allt árið norðan Glettinganess og norður á Héraðsflóa.

Borgarfirði eystra 10.4.2019

F.h. trillusjómanna Borgarfirði eystra,

Ólafur Hallgrímsson formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Grundarfjarðarbær - 12.04.2019

Umsögn bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar sbr. ályktun á fundi bæjarstjórnar 11. apríl 2019:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar mótmælir harðlega þeim fyrirætlunum sem fram koma í 7. gr. draga að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð við Ísland, sem auglýst voru í Samráðsgátt þann 2. apríl 2019. Greinin fjallar um bann við veiðum með línu og fiskibotnvörpu á tilgreindu svæði á norðanverðum Breiðafirði.

Breytingin kæmi sérlega illa niður á byggðarlaginu í Grundarfirði, þar sem hún snertir öll togskip sem gerð eru út héðan og önnur skip sem stunda veiðislóðina og hér landa.

Breytingin felur í sér stækkun á bannsvæði fyrir veiðar með línu og fiskibotnvörpu á norðanverðum Breiðafirði. Bæjarstjórn telur að lokunin eigi ekki við rök að styðjast hvað varðar veiðar með fiskibotnvörpu.

Tilgangur reglugerðarbreytingarinnar er að loka svæðum þar sem mest hefur verið um skyndilokanir eða smáfisk. Ekki verður séð að þessum tilgangi sé þjónað með útilokun veiða með fiskibotnvörpu, þar sem á rúmum áratug hefur einungis einu sinni komið til lokunar veiðisvæðisins vegna veiða með fiskibotnvörpu. Sú lokun var gerð árið 2008.

Bæjarstjórn leggur því til að orðin „og fiskibotnvörpu“ verði felld út úr texta 7. greinar reglugerðarinnar.

Afrita slóð á umsögn

#6 Örvar Már Marteinsson - 15.04.2019

Umsögn frá Snæfelli – félagi smábátaeigenda á Snæfellsnesi

til samráðsgáttar stjórnvalda

Efni: Drög að reglugerð um tímabundnar lokanir

á veiðisvæðum á grunnslóð

Varðandi tillögur um lokanir á Breiðafirði og lokun á Búðagrunni skal áréttað að á fundi Snæfells og starfshóps um faglega heildarendurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndurnarsvæði á Íslandsmiðum gerði félagið afdráttarlausan fyrirvara um að lokunartímabil fyrir línuveiðar væri frá 1. júlí til 31. janúar ár hvert. Á öðrum tíma skyldu allar lokanir falla niður.

• Varðandi handfæraveiðar mótmælir stjórn Snæfells hugmyndum um svæðalokanir fyrir handfæraveiðum. Óþarft er að loka svæðum fyrir veiðarfærum sem auðvelt er að taka upp og færa sig um set í stærri fisk. Stjórn Snæfells leggur til að tekin verði upp persónutengd viðurlög við smáfiskadrápi á handfæraveiðum, tengd skipstjóra báts. Til dæmis sektir.

Snæfellsnesi, 12. apríl 2019

Örvar Már Marteinsson

formaður Snæfells

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Langanesbyggð - 25.04.2019

Viðhengd er umsögn byggðaráðs Langanesbyggðar

virðingarfyllst

Elías Pétursson

sveitarstjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Jón Þórðarson - 25.04.2019

Umsögn um Mál nr. S-108/2019

„Drög að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð“

Þar segir:

16. gr.

Bann við veiðum með handfærum við Glettinganes.

Við Glettinganes er óheimilt að stunda veiðar með handfærum, á tímabilinu frá og með 15. maí til og með 31. júlí, á svæði sem markast af eftirfarandi hnitum:

1. 65°33,00´N – 13°40,50´V

2. 65°33,00´N – 13°38,90´V

3. 65°31,70´N – 13°35,00´V

4. 65°24,70´N – 13°30,20´V

5. 65°21,55´N – 13°39,10´V

6. 65°21,60´N – 13°42,60´V.

Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps tekur undir áhyggjur trillusjómanna vegna fyrirhugaðar lokunar á handfæraveiðar á stæðstum hluta þess svæðis sem hefðbundin sókn er á fyrri hluta sumars.

Strandveiðar og aðrar handfæraveiðar skipta verulegu máli fyrir atvinnulíf á staðnum. Ef af þessari lokun verður mun draga verulega úr afla á Borgarfirði. Byggðakvóti er nú einugis um þriðjungur þess sem var fyrir örfáum árum. Borgarfjarðarhreppur er ein af svokölluðum brothættum byggðum og hefur fólksfækkun verið viðvarandi. Aðgerðir stjórnvalda virðast því enn snúast um að stinga skottinu uppí hundin.

Hreppsnefndin vekur athygli á að togveiðar eru leyfðar allt inn að 6 sml frá landi út af Glettingsnesi og Borgarfirði eystra. Þegar togarar eru að veiðum á því svæði fæst þar nánast enginn afli, hvorki á handfæri né línu. Bent skal á að einungis verður 3-4 sjómílna ræma á milli fyrirhugaðs bannsvæðis og að 6 sml mörkum þar sem togveiðar eru leyfðar. Einnig má ætla að veiddur fiskur utan svæðisins minnki göngu stærri fisks upp á umrætt svæði. Hreppsnefndin leggur því til að svæði frá 6 sml út að 12 sml frá landi verði lokað fyrir togveiðum allt árið norðan Glettinganess og norður á Héraðsflóa.

Borgarfirði eystra 25.04.2019

Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps

Afrita slóð á umsögn

#9 Kristinn Ólafsson - 25.04.2019

Ég mótmæli að það séu yfir höfuð til reglugerðalokanir á handfærabáta, þar sem svæðin veiða ekki smáfisk heldur mennirnir, sem geta alltaf tekið upp færi og leitað á önnur mið.

Sérstaklega mótmæli ég því að hólf 6.gr. við breka sé komið á bæði fyrir handfæra- og línu- veiðum.

- -Innan umrædds svæðist hefur aldrei komið skyndilokun á handfæri og því engin ástæða til þess að fara loka þessu svæði fyrir handfrærum á forsendum sem eru ekki til.

- Innan umrædds svæðist hefur ekki verið mikil sókn á línu en innan þeirra liggja góðar ýsu lagnir og vitna ég í löndun hjá mér á Birtu sh 203 þann 21. nóvember og 22. nóvember 2018 þar sem fékkst stór og flottur fiskur á rúma 18 bala í hvorri löndun.

-Einnig vill ég benda nefndarmönnum á að með lokunum á svæðum myndast oft staðbundirstofnar þar sem hringormur nær að fjölgja sér óhoflega og veiðiast því oftar ormaðir fiskar í kringum reglugerðalokanir.

Mbk.

Kristinn Ólafsson

Línu og handfærisjómaður frá Grundarfirði til 30.ára

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Örn Pálsson - 26.04.2019

Sameiginleg umsögn frá svæðisfélögum LS við Faxaflóa: Smábátafélag Reykjavíkur, Sæljón - félag smábátaeigenda á Akranesi, Báran - félag smábátaeigenda Hafnarfjörður Garðabær og Reykjanes - félag smábátaeigenda á Reykjanesi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) - 26.04.2019

Meðfylgjandi er umsögn SFS

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Örn Pálsson - 26.04.2019

Umsögn LS við drög að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð við Ísland

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Magnús Jónsson - 26.04.2019

Undirritaður hefur þá skoðun að lokanir veiðisvæða vegna handfæraveiða eigi aldrei rétt á sér enda engin vísindaleg rök fyrir slíkum aðgerðum. Þvert á móti hafa sumar rannsóknir sýnt að veiðar á smáfiski geta aukið afrakstursgetu einstakra stofna og svæða. Hins vegar byggist hátt hlutfall smáfisks í handfæraafla fyrst og fremst á afstöðu einstakra veiðimanna til þess hvort yfir höfuð eigi að stunda veiðar á þeim slóðum sem mikið er af smáfiski sem og ákvörðun viðkomandi um hvort eigi að sleppa (lifandi) eða hirða þann smáfisk sem bítur á öngla. Ef með vísindalegum rökum er talið að slíkar veiðar ógni viðkomu og vexti þorskstofnsins er eðlilegt að beitt sé einhverjum viðurlögum gagnvart viðkomandi, t.d. upptöku á afla eða tímabundnu veiðibanni. Lokun á stórum svæðum vegna of hás hlutfalls af smáfiski í afla einstakra báta, jafnvel í einn dag, er álíka rökrétt eins og að loka vegum vikum saman vegna umferðar-lagabrots eins ökumanns.

Undirritaður hefur þá skoðun að lokanir veiðisvæða vegna handfæraveiða eigi aldrei rétt á sér enda engin vísindaleg rök fyrir slíkum aðgerðum. Þvert á móti hafa sumar erlendar rannsóknir sýnt að veiðar á smáfiski með önglum geta aukið afrakstursgetu einstakra stofna og svæða. Hins vegar byggist hátt hlutfall smáfisks í handfæraafla fyrst og fremst á afstöðu einstakra veiðimanna til þess hvort yfir höfuð eigi að stunda veiðar á þeim slóðum sem mikið er af smáfiski sem og ákvörðun viðkomandi um hvort eigi að sleppa (lifandi) eða hirða þann smáfisk sem bítur á öngla. Ef með vísindalegum rökum er talið að slíkar veiðar ógni viðkomu og vexti þorskstofnsins er eðlilegt að beitt sé einhverjum viðurlögum gagnvart viðkomandi útgerð, t.d. upptöku á afla eða tímabundnu veiðibanni. Lokun á stórum svæðum í svo og svo langan tíma vegna of hás hlutfalls af smáfiski í afla einstakra báta, jafnvel í einn dag eins og dæmi eru um á Skagagrunni, er álíka rökrétt eins og að loka vegum vikum saman vegna umferðarlagabrots eins eða nokkurra ökumanna.

Magnús Jónsson formaður Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar