Niðurstöður samráðs hafa verið birtar í lokaskýrslu þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Nánari upplýsingar má finna í niðurstöðuskjali og á heimasíðu nefndarinnar á vef Stjórnarráðsins.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.04.2019–30.04.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 05.12.2019.
Óskað er eftir umsögnum um textadrög þriðja verkefnis þverpólitískrar nefndar sem vinnur að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands: Tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlun.
Þverpólítísk nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu var skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra í apríl 2018 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Nefndinni er m.a. ætlað að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan hans í verndarflokka. Þá er henni ætlað að fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf. Jafnframt er henni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlunum og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn og lagafrumvarpi um þjóðgarðinn, þar sem m.a. er tekin afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins. Loks skal nefndin setja fram áætlun um fjármögnun fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.
Verklag nefndar er þannig að nefnd vinnur textadrög/tillögur fyrir hvern verkþátt, verkþættir verða svo sett í samráðsgáttina þar sem kallað er eftir athugasemdum. Athugasemdir sem berast verða teknar til skoðunar hjá nefnd og verkþáttur/þættir í kjölfarið kláraðir. Þegar allir verkþættir hafa farið í gegnum sama ferli verða þeir settir saman í heildarskýrslu sem einnig verður sett í samráðsgáttina. Í kjölfar þess mun nefnd skila skýrslunni til umhverfis- og auðlindaráðherra. Ráðgert er að skil fari fram í september 2019.
Ég er mjög hlynnt þjóðgarði á miðhálendinu og finnst það bara sjálfsagt mál. Það skiptir máli að vernda tiltölulega ósnert landsvæði á okkar blessuðu jörð.
Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
F.h. sambandsins
Guðjón Bragason
ViðhengiSkotveiðifélag Íslands beinir því til samráðshópsins að tryggja í lögum um þjóðgarðinn að veiðistjórnun lúti almennum ákvæðum laga um vernd friðun og veiðar. Umferðarréttur og almannaréttur sé tryggður.
Skotveiðifélag Íslands óskar einnig eftir því að við stofnun þjóðgarðs verði sérstaklega farið í gegn um núverandi veiðitakmarkanir sem gilda innan hans og mat lagt á nauðsyn og lögmæti þeirra takmarkana. Er þá sérstaklega horft til takmarkana á veiði og aðgengi að veiðilöndum á heiðagæs á veiðitíma en ljóst er að núverandi fjöldi þeirrar tegundar á hálendinu getur leitt til ofbeitar og uppblásturs.
Mikilvægt er að réttur ferðafólks á vélknúnum ökutækjum verði ekki síðri en réttur ferðafólks án vélknúinna tækja, með það sjónarmið í huga að báðir eigi upplifun í ferðalagi sínu, óháð ferðamáta, þótt upplifunin sé ekki sú sama. Þá á ég sérstaklega við um ferðir breyttra jeppa, jafnt um vetur sem sumar. Ef þjóðgarðurinn á sannarlega að vera fyrir almenning, þá þarf þessi réttur að koma skýrt fram, svo ekki þurfi að kýta um það í framtíðinni.
Þá er rétt að ræða veðuráhrif á færi vega og breytilega slóða. Árvöð færast til í leysingum og rigningum, ferðafólk þarf að geta farið yfir ár á góðum vöðum, þótt það þýði að aka þurfi meðfram ám, en þó ekki þannig að varanlegt rask verði af (rask verður ef blaut mold er undir, en ekki í sandi og grófri möl, til dæmis).
Stærsta atriðið er, að allar hugmyndir um breytingar á skipulagi hálendisins þurfa að bæta eitthvað. Ekki verður séð að bót felist í að gera reglur óskýrar og bjóða upp á rifrildi eftir á. Ekki verður heldur séð að bót felist í skertu aðgengi eftir ferðamáta. Umhverfisáhrif vélknúinna ökutækja eru hverfandi, einfaldlega vegna þess hve fá þau eru. Það eru mikil lífsgæði að njóta ferðafrelsis og þeirra ber að gæta með jafnræði í huga, samkvæmt stjórnarskránni.
Hugmyndin um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er stórkostleg og eitt merkasta framtak sem stjórnvöld hafa ráðist í á sviði náttúruverndar frá upphafi. Fullvíst má telja að meirihluti almennings sé hlynntur þessum áformum og gefa skoðanakannanir það til kynna.
Lítum samt á nokkur atriði:
Í kafla sem fjallar um aðgengi og almannarétt er sjálfsagt að taka undir að útivistarfólk geti nýtt hálendið til útivistar þar sem því verður við komið með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Lögð er áhersla á að leita samráðs við þá aðila sem nú nýta hálendið í slíkum tilgangi.
Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að eðli málsins samkvæmt er þjóðgarður stofnaður með hagsmuni náttúruverndar að leiðarljósi og starf slíks þjóðgarðs hlýtur því að vera að vernda með eðlilegum ráðum þá náttúru sem garðurinn er stofnaður til að vernda.
Óhjákvæmilegt er því að á einhverjum svæðum innan garðsins geti orðið breytingar á aðgengi/umferð eftir aðstæðum hverju sinni háð verndargildi þeirra svæða sem um ræðir.
Þótt rætt sé um samráð við þá aðila sem nú stunda hálendisferðir skal varað við því að laða menn til fylgis við hugmyndina um þjóðgarð á þeim forsendum að óbreytt ástand muni ríkja á hálendinu eftir stofnun garðsins.
Hið sama gildir um kaflann þar sem fjallað er um nytjarétt á hálendinu. Þar virðist nefndin telja brýnt að tilkoma þjóðgarðs skerði ekki sjálfbærar hefðbundnar nytjar s.s. beitarnýtingu og veiði. Þarna er orðið sjálfbært í lykilhlutverki. Varla verður deilt um að á tilteknum svæðum á hálendinu hefur fram til þessa verið stundaður upprekstur og beit sem ekki getur talist sjálfbær og á því hljóta að verða breytingar.
Í kaflanum um samgöngur er talað um mikilvægi aðgengis og má vel taka undir það en þó með áþekkum fyrirvörum og nefndir eru hér á undan. Víða á hálendinu er að finna net slóða sem í mörgum tilvikum verður ekki séð að hafi neinn sérstakan tilgang. Sú stjórnun sem óhjákvæmilega fylgir þjóðgarði mun væntanlega hafa vald til þess að nýta "vegakerfi" hálendisins til þess að stýra umferð og álagi. Slíkri stjórnun munu fylgja breytingar sem alls ekki þurfa að skerða samgöngur.
Við þetta mætti svo bæta að á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg aukning á áhuga almennings á útivist á Íslandi. Sömuleiðis hefur áhugi á umhverfisvernd og náttúruvernd aukist mjög sérstaklega hjá yngri aldurshópum.
Þessi víðtæki áhugi endurspeglast ekki endilega í starfi þeirra félaga sem stjórnkerfið kallar til ráðgjafar þegar mál eins og þessi eru til umræðu. Þess vegna er brýnt þegar nýr þjóðgarður lítur dagsins ljós að vel verið hugað að því hvernig og með hvaða hætti leitað er til þeirra sem áhuga hafa á útivist og umhverfismálum.
Af núverandi fyrirkomulagi í starfi Vatnajökulsþjóðgarðs má vel sjá að raddir stórra hópa útivistarfólks heyrast alls ekki á þeim vettvangi því áheyrnarfulltrúi Samtaka útivistarfélaga hefur bróðurpartinn af starfstíma þjóðgarðsins einungis flutt og talað fyrir nokkuð forneskjulegum viðhorfum afmarkaðs hóps útivistarmanna.
Þetta hefur tekið á sig þá sérstæðu mynd að einu viðhorfin sem heyrast frá fulltrúa "alls" útivistarfólks innan þjóðgarðsins hefur verið þráhyggjukennd barátta fyrir auknum akstri aflmikilla og mengandi ökutækja um viðkvæm náttúrusvæði innan þjóðgarðsins. Full ástæða er til að draga í efa að slíkur málflutningur endurspegli vilja og þarfir þess stóra og unga hóps sem stundar útivist á Íslandi.
Við stofnun hins nýja þjóðgarðs er brýnt að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og eru margar leiðir vel færar til þess og rétt að treysta þeim sem að þessu verkefni standa til þess.
Miðhálendisþjóðgarður getur verið hið besta mál ef rétt er farið að.
Hinsvegar hefur öll stjórnsýsla, utanumhald og framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði verið með þeim endemum að sporin hræða.
Tryggja verður ferðafrelsi og almannarétt og að allar takmarkanir og breytingar á núverandi nytjum og verði rökstuddar.
Einnig má ekki búa svo um hnútana að fámenn sveitarfélög geti í krafti nálægðar sinnar við þjóðlendur hindrað not og ferðafrelsi allrar þjóðarinnar í krafti þröngra eiginhagsmuna og skyndihugdettna.
Hafa ber í huga að til útivistarfólks teljast öll þau sem ferðast og njóta hálendisins. Einnig þau sem ferðast á vélknúnum faratækjum. Til að miðhálendisþjóðgarður geti verið fyrir þjóðina þurfa víðerni þar að geta verið með fáfarna slóða fyrir vélknúna umferð. Því að ferðaleiðir fyrir vélknúin ökutæki geta líka verið til upplifunar en ekki bara til samgangna.
Í vernaráætlun um Vatnajökulsþjóðgarð stendur að það skuli bæta aðgengi almennings að náttúrunni. Raunin hefur verið allt önnur. Leiðum og slóðum er lokað að því er virðist af handahófi og án vitræns rökstuðnings.
Mikilvægt er að gert sé ráð fyrir sveigjanleika í breytilegu náttúrlegu umhverfi. Hafa ber í huga að veðurfar og færð á hálendinu er sífellt að breytast, og vegslóðar og vöð þurfa að taka mið af því. Ekki er hægt að negla niður staðsetningu þeirra nema að vel athuguð máli, og í samráði við það fólk sem ferðast um svæðið.
Miðað við fjárþörf núverandi þjóðgarða virðist fjármagn alls ekki tryggt í nægilegu magni. Ýmislegt má að vísu segja um nýtingu fjármagns í þeim þjóðgörðum sem eru fyrir, en ef þjóðgarður á að ná yfir miðhálendið eins og það leggur sig verður fjárþörfin gríðarleg. Bæði í formi fræðslu, framkvæmda og landvörslu. Mikil hætta er á það þetta verið enn eitt vanfjármagnaða ríkisbatteríið með takmarkaða getu til að framfylgja lögum og eigin stefnu.
Komið þið sæl, í viðhengi er umsögn frá Landsvirkjun um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.
Bestu kveðjur,
Erla Björgvinsdóttir
ViðhengiHjálagt er umsögn Fannborgar vegna tillagna (þverpólitískrar nefndar) að helstu áherslum í stjórnunar og verndaráætlun.
Um leið er þakkað fyrir tækifæri til að senda inn umsögn
f.h. Fannborgar
Páll Gíslason
ViðhengiSveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar að nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu óski aðeins eftir umsögnum um þætti sem lúta að skipulagi og mörkum slíks þjóðgarðs en ekki um kosti og galla þess yfir höfuð að stofna þjóðgarðinn. Má í því sambandi vitna til reynslunnar af stofnun og rekstri þeirra þjóðgarða sem þegar hafa verið stofnaðir og er hér vísað til umsagnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar um fyrirhugaða stofnun miðhálendisþjóðgarðs, en í umsögn þess dags. 21. desember 2018 segir: „mikilvægt er að tryggja þjóðgörðum sem fyrir eru í landinu rekstrargrundvöll áður en lögð er áhersla á að stofna nýjan þjóðgarð.“ Stofnun og rekstur þjóðgarðs kalla á mikið fjármagn ef vel á að standa að málum varðandi uppbyggingu innviða, viðhald o.fl. Má þar vitna til verkefna eins og viðhald vega, merkingar, fráveitumál og viðhald eigna. Ef þjóðgarður á að geta byggt upp atvinnu og stutt við búsetu á nærsvæðum þjóðgarðs þarf fjármagn að fylgja slíkri fyrirætlan. Einnig ef þjóðgarður á að bjóða upp á aðgengi og möguleika til útivistar, sérstakar aðgerðir gagnvart öryggismálum og vöktun, og að laða að ferðamenn. Þá þarf að útfæra með mjög skýrum hætti hvernig samstarfi við heimamenn á hverjum stað verði háttað og hver þeirra réttindi verða, t.a.m. hvað varðar nytjarétt eins og beitarnýtingu og veiði. Í umræddum drögum sem nú eru til umsagnar er t.d. aðeins tekið þannig til orða að stefnt sé að því að „viðhalda réttindum sem nú þegar eru tryggð í þjóðlendum, s.s. fyrir sveitarfélög og/eða aðila sem stunda atvinnurekstur“ í stað þess að kveða skýrt á um að þau réttindi haldist. Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er verið að færa hluta skipulagsvalds sveitarfélaganna yfir til stjórnunar- og verndaráætlana sem binda hendur sveitarfélaganna hvað varðar uppbyggingu innviða og vernd og nýtingu á umræddum svæðum. Með öðrum orðum er verið að skerða skipulagsvald sveitarfélaganna. Sporin hræða í þeim efnum.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur rétt að áður en lengra er haldið áfram með undirbúning stofnunar þjóðgarðs á miðhálendinu verði hugað að stöðu, hlutverki og vilja sveitarfélaganna til verkefnisins. Jafnframt verði teknar saman upplýsingar um stöðu annarra þjóðgarða, rekstrargrundvöll þeirra og hvernig mat heimamanna á hverjum stað fyrir sig er á að til hafi tekist.
Þannig bókað á 383. fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 24. apríl 2019
Sigfús Ingi Sigfússon
sveitarstjóri
Var að pæla í að henda inn í mínu nafni eithverju svona
Varðar nýjan þjóðgarð.
Ég tel það vera verulega áhugavert að stofna þjóðgarð af þessari stærðargráðu á Íslandi.
Hann er á stærð við Danmörk. Hinsvegar ber margt að varast við slíka framkvæmd.
Sporin úr VJÞ hræða. Það þarf skýrari löggjöf utan um slíkan garð. Einnig þarf að tryggja áhrif almennings, hvort sem er vestfirðinga, höfuðborgarbúa eða íbúa Reykjanes og Akureyrar.
Það má ekki vera á þann hátt að íbúar örfárra smárra hreppa muni ráða yfir slíku landsvæði. Sporin úr VJÞ hræða. Það þekkja flesti vandamál eða deilur er varða Vonarskarð, en það er bara einn þáttur af mörgum. Það má ekki vera of mikill rammalagabragur á þessu. Vegakerfi þarf að vera á hreinu áður. Bæði hver sér um veghald vega ( F. Merktra ) og Slóða. Einnig þarf að skoða núverandi friðlýsingar innan garðsins, og skilgreina strax, USCN hluta mismunandi. Það á til að mynda að vera öðru vísi skilgreining á Snapadal og Tungnáröræfum. Það á að henda út banni við umferð reiðhjólandi manna og lausagöngu hunda utan varpsvæða í Guðlaugstungum. Það þarf að tryggja aðkomu regnhlífasamtakanna SAMÚT að stjórnun ekki síður en fámennra sveitarfélaga. En innan SAMÚT eru öll þau útivistarfélög sem hafa náttúruvernd innan sinnar skilgreininga og hafa áhuga á að starfa saman á þessum vetvangi. SAMÚT er öllum slíkum félögum opið.. Allt frá SKOTVÍs yfir í Landsamband Hestamanna, frá Skátum yfir í Landsamband Vésleðamanna. Frá Kajakklúbbnum yfir í F4X4. Og allt þar á milli. Núna eru um 16 félög í samtökunum með drjúgan hluta þjóðarinnar innanborðs. Það er bjargföst trú mín að ef að vel á að takast til þurfa sem flestir Íslendingar að geta haft áhrif. En áhrifin mega hinsvegar ekki vera það mikil að hægt sé að koma í veg fyrir ferðamennsku almennings. ( Ekki í atvinnuskyni ) Eða eðlilega útivist eða eðlilega og sjálfbæra nýtingu sem almenn útivist er hvort sem um er að ræða heimamenn eða utangarðsfólk.
Vinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi.
ViðhengiHjálögð er umsögn Landgræðslunnar.
F.h. Landgræðslunnar
Birkir Snær Fannarsson
ViðhengiSameiginleg umsögn Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda.
ViðhengiUmsögn Veðurstofu Íslands er í viðhengi.
ViðhengiÁgæti viðtakandi,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um áherslur í stjórnunar og verndaráætlun innan verkefnis nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.
Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.
Bestu kveðjur
Gunnar Valur
ViðhengiHjálagt er umsögn Landsnets vegna máls nr. S-111/2019.
Kv. Guðjón Axel Guðjónsson.
ViðhengiUmsögn Bláskógabyggðar er í viðhengi.
kveðja,
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri
ViðhengiHjálögð er umsögn Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi, en ekki tókst að koma viðeigandi umboði inn í kerfi Samráðsgáttarinnar til að senda hana inn beint undir kennitölu samtakanna.
F.h. Eldvatna - samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi
kt. 571210-1340
Ingibjörg Eiríksdóttir
stjórnarformaður
ViðhengiEftirfarandi var bókað á 180. fundi Byggðarráðs Rangárþings eystra, 24. apríl 2019.
Rangárþing eystra gerir ekki efnislegar athugasemdir við textadrög varðandi helstu áherslur í stjórnunar- og verndaráætlun við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Mikilvægt er að lögð sé áhersla á verndun ósnortinar náttúru og almenna nýtingu hálendis við skipulagsgerð. Nú þegar hafa sveitarfélög á Suðurlandi hafið vinnu við að kanna möguleika á að vinna svæðisskipulag fyrir Suður hálendið. Ljóst er að mikil vinna er framundan á því sviði, en sú vinna er unnin í réttri röð og af réttum aðilum þ.e. sveitarfélögunum. Út úr þeirri vinnu gæti mögulega komið sú niðurstaða að sveitarfélög á Suðurlandi séu tilbúin að leggja hluta af hálendinu í þjóðgarð, en það er þá út frá forsendum sveitarfélaganna. Rangárþing eystra gerir því talsverðar athugasemdir við þær fyrirætlanir að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi Íslands. Nefnd sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra á vordögum 2018 hefur verið að vinna að því hvernig eigi að stofna miðhálendisþjóðgarð yfirleitt. Svo virðist sem að gleymst hafi að velta því fyrir sér hvort það ætti að fara í þá vegferð. Talsvert mikið af spurningum er enn ósvarað varðandi þann mikilvæga þátt. Vissulega hefur ágætis samráð átt sér stað á milli nefndarinnar og sveitarfélaga, en þar hefur líka talsvert borið á því að sveitarfélög eru frekar neikvæð í umræðunni og með varann á. Það er vel skiljanlegt á margan hátt og eðlilegt að sveitarfélög fari í baklás þegar að þverpólitísk nefnd er byrjuð að vinna að skipulagsmálum sveitarfélaga t.d. með að ákvarða mörk nýs þjóðgarðs, aðkomuleiðir, áningastaði og uppbyggingu. Það er og á að vera hlutverk sveitarfélaganna. Að mati Rangárþings eystra er mikilvægt að spólað verði aðeins til baka og umræðan um hvort eigi að stofna þjóðgarð verði tekin við sveitarfélögin. Samþykkt samhljóða
Umsögn Minjastofnunar Íslands er í viðhengi
ViðhengiVarðandi verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, mál nr. S-111/2019.
Verkefni þetta tekur til helstu áherslum sem ríkið tekur til í stjórnunar- og verndaráætlun við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra vill hér með benda á eftirfarandi atriði:
- Í þessum drögum virðist einungis miðað við einn stóran þjóðgarð á miðhálendi Íslands fremur en að skoðað sé með einhverjum raunverulegum áhuga hvernig smærri og fleiri þjóðgarðar kæmu út í samanburði.
- Stofnun og rekstur þjóðgarðs kallar á gríðarmikið fjármagn ef vel á að vera hægt að standa að hlutum, ekki virðist sýnt samkvæmt þessum drögum hvernig þjóðgarður á að vera fjármagnaður.
- Töluverður hluti af skipulagsvaldi sveitarfélaga er tekinn í burtu með þessum drögum og velmest skipulagsvald falið undir stjórn þjóðgarðs, ekki getur talist viðunandi að sveitarfélög svæðisins missi beint skipulagsvald og feli það í staðinn svæðis- eða umdæmisráðum eins og gert er ráð fyrir í drögum þessum, sérlega ekki þegar ekkert er vitað um það hvernig viðkomandi ráð verða skipuð.
- Í atvinnustefnu draganna er gert ráð fyrir atvinnustefnu, sem vissulega er nauðsynleg. Hins vegar, þar sem fyrir liggja í dag drög að atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs, verður að benda á í þessu samhengi að í drögum að atvinnustefnu fyrrnefnds þjóðgarðs virðist vera afar lítið gert úr vægi sveitarfélaga og landeigenda og virðist helst sem allir atvinnurekendur á svæðinu þurfi sérstakt atvinnuleyfi frá stjórn þjóðgarðsins, burtséð frá því hver atvinnustarfsemin er og hverjar skoðanir heimafólks eru. Verður því að líta svo á að þarna séu sveitarfélögum og landeigendum settar verulegar og hamlandi skorður, til dæmis varðandi beitarrétt og veiðar, og að viðkomandi aðilar missi þar með drjúgan umráðarétt yfir sínu landi. Ef sami tónn verður viðhafður í atvinnustefnu miðhálendisþjóðgarðs, sem ekki er ósennilegt verði drög að atvinnustefnu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð samþykkt, getur Húnaþing vestra einfaldlega ekki fellt sig við slíka verðfellingu skipulagsmála í heimahéraði.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggst gegn fyrirliggjandi drögum nr. S-111/2019 og hvetur til þess að þau verði endurskoðuð í mun nánara samstarfi við heimamenn en verið hefur.
Hjálagt er umsögn Ferðaklúbbsins 4x4.
Fh.
Ferðaklúbbsins 4x4
Sveinbjörn Halldórsson
formaður.
ViðhengiÉg er alin upp við að ferðast mikið á fjöllum að sumri til með foreldrum mínum. Þegar ég stofnaði fjölskyldu þá hélt ég uppteknum hætti og við maðurinn minn þvældumst um fjöll og firnindi heilu vikurnar að sumri til. Við keyrðum milli staða, komum okkur fyrir í ferðavagni og fórum í stuttar göngur eftir getu. Að auki jukum við útivistartækifærin með því að ferðast að vetri til því við keyptum okkur jeppa og breyttum honum til að drífa í snjó. Í 30 ár höfum við, öll fjölskyldan, ferðast saman bæði sumur og vetur um íslenska náttúru. Við eigum okkar bestu stundir á ferðalögum innanlands og ég tel að með því að kynna fyrir börnunum mínum þessa ferðamennsku um náttúruna búa þau að lífsleikni sem mun nýtast þeim í framtíðinni. Börnin okkar hafa ferðast með okkur eftir að þau voru unglingar og fram á þennan dag eins og þau geta því þau elska þessa tegund af ferðamennsku og útivist. Nú eru mínar uppkomnu dætur farnar að ferðast á eigin vegum, sumar og vetur á sínum eigin bíl með hópi af öðru ungu fólki. Ég nefni þetta til að benda á að við jeppafólk erum ekki að hverfa sbr. athugasemd #5 sem barst hér inn þann 27. Apríl 2019. Ég tel mig mikla útivistamanneskju og náttúruunnenda og vil ekkert frekar en vernda okkar íslensku náttúru og færa næstu kynslóð landið þannig að þau hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar á sama hátt og ég hef fengið.
Ég styð það að haft sé eftirlit og bönd höfð á því hvernig við notum óbyggðirnar okkar. Ég styð hins vegar ekki miðhálendisþjóðgarð einfaldlega vegna þess að reynslan úr Vatnajökulþjóðgarði hræðir mig gríðarlega. Þar kom í ljós að með Þjóðgarði komst fólk til valda yfir landssvæði (sem er þjóðareign) sem það getur stjórnað að eigin vild og hyglir fólki með sömu áhugamál en reynir nokkuð markvisst að hindra aðgang fyrir útivistarfólk sem ferðast á farartækjum með mótor. Ég er þess vegna ansi hrædd um að þau sem munu fá völd í slíkum miðhálendisþjóðgarði muni ekki taka tillit til fólks sem vill njóta náttúrunnar eins og ég og mín fjölskylda höfum gert.
Mér brá við að sjá umsögn eins útivistarmanns því hann beinlínis varar við jeppafólki í umsögn hér að ofan #5 27.apríl 2019 þar segir hann fulltrúa SAMÚT, þar með fulltrúi minn, „tala fyrir forneskjulegum viðhorfum takmarkaðs hóps útivistarmanna“. Einnig segir hann viðhorf okkar vera „þráhyggjukennd barátta fyrir auknum akstri aflmikilla og mengandi ökutækja um viðkvæm náttúrusvæði innan þjóðgarðsins“. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt, reyndar kolrangt og mjög rægjandi ummæli. Við (jeppafólk) viljum geta notað þær slóðir sem þegar eru til og höfum engan áhuga á að skemma og menga. Leiðum hefur hins vegar verið lokað og þannig heilu svæðin ekki í boði fyrir fólk sem ferðast á ökutækjum og reyndar varla gangandi heldur vegna víðernis og eyðisanda. Við erum mjög stór hópur og ekki minnkandi hópur sem telur mörg þúsund manns. Vil líka benda á að þessi hópur sem hann (og margir) virðist leggja fæð á, hefur þróað hinn séríslenska breytta jeppa sem nýttur er í þjónustu hins opinbera, veitna, hjálparsveita, til vísindastarfa og ferðaþjónustu. Þessa bíla er farið að nota i meiri mæli við vísindastörf og ferðir á suðurskautinu. Þetta hugvit hefur því fært okkur sem þjóð heilmikið að mínu mati. Það vill svo til að ég er í sambandi við gríðarlega stóran hóp af ungu fólki sem er mjög áhyggjufullur um frelsi sitt til að mega ferðast að sumrum og vetrum vegna lokana. Jeppahópurinn sem ég tel mig hluta af, er því ekki þráhyggja eldri manna heldur öflugur og klár hópur af fólki sem er fullkomlega treystandi til að taka þátt í að fara vel með landið okkar og njóta þess í leiðinni eins og öðru útivistafólki hér í landi.
Við búum í þannig landi að sumarið er stutt en veturinn langur, þess vegna er það okkur mikilvægt að geta notið náttúrunnar yfir vetrartímann líka. Fyrir mig persónulega er það útivist sem gefur mér næringu bæði á sál og líkama. Ég vel útivist til fjalla hér á landi frekar en tilbúna slökunarferð til Ítaliu eða jógaiðkun á Indlandi. Þess vegna er það mér mikils virði að fara vel með þessa auðlind sem hálendið okkar er. Ég er mjög meðvituð um að fjallabíllinn minn mengar meira en borgarbíllinn eða næsti bíll sem verður vonandi rafmagnsbíll en ég leitast við að sýna góða umhverfishegðun og tek þátt í mótvægisaðgerðum. Jeppann nota ég eins lítið og ég get og bara í sambandi við útivistaferðirnar. Eins finnst mér mikilvægt að benda á að mengun sem við jeppafólk völdum skiptir mjög litlu máli í heildarmyndinni fyrir utan það að með mótvægisaðgerðum má hreinlega kolefnisjafna hana út. Ég tel mikilvægara að vinna í mótvægisaðgerðum en að hætta að njóta þeirra forréttinda sem það er að fæðast og búa í þessu landi.
Með kveðju og ósk um að þau sem yfir þessar athugasemdir fara, gefi sér tíma til að lesa í gegnum þetta erindi. Aldís Ingimarsdóttir, byggingarverkfræðingur.
Hér er umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda.
Viðhengi