Samráð fyrirhugað 17.04.2019—28.04.2019
Til umsagnar 17.04.2019—28.04.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 28.04.2019
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu

Mál nr. S-113/2019 Birt: 17.04.2019 Síðast uppfært: 23.04.2019
  • Utanríkisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Utanríkismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (17.04.2019–28.04.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Frumvarpið mælir fyrir um ráðstafanir vegna úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES, hvort sem úrsögn Bretlands verði á grundvelli samnings milli Evrópusambandsins og Bretlands eða án slíks samnings.

Bresk stjórnvöld tilkynntu formlega hinn 29. mars 2017 um útgöngu sína úr Evrópusambandinu (ESB) í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi hinn 23. júní 2016. Bresk stjórnvöld hafa átt í viðræðum við Evrópusambandið um útgöngu sína og luku þau gerð samnings um það efni í nóvember 2018. Hins vegar hefur ríkt óvissa um hvort sá samningur muni taka gildi en breska þingið hefur þegar hafnað þeim samningi þrisvar sinnum. Með frumvarpi þessu er ætlað að mæla fyrir um nauðsynlegar ráðstafanir vegna úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu, m.a. í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um hvort útganga verði á grundvelli samnings á milli Bretlands og ESB eða án samnings. Frumvarpinu er því ætlað að taka til beggja þessara sviðsmynda. Með frumvarpinu er því óskað eftir heimild Alþingis til að staðfesta tvo samninga sem Ísland hefur ásamt Liechtenstein og Noregi gert við Bretland, annar samningurinn byggir á því að útganga Bretlands verði á grundvelli samning en hinn samningurinn byggir á því að útganga verði án samnings. Það mun í raun ekki koma í ljós fyrr en þegar fyrir liggur með hvaða hætti úrsögn Bretlands úr ESB kemur til framkvæmdar að ljóst liggur hvor þessara samninga muni taka gildi. Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2007, með síðari breytingum og lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 90/2018, vegna framkvæmdar framangreindra samninga. Þá er með frumvarpinu lagt til að sett verði lagaákvæði um stöðu Bretlands, breskra ríkisborgara og breskra lögaðila hér á landi meðan á svonefndu bráðabirgðatímabili stendur, komi til þess að útganga Bretlands verði á grundvelli framangreinds samnings Bretlands og Evrópusambandsins, en umræddur samningur gerir ráð fyrir slíku bráðabirgðatímabili og munu Bretland og Evrópusambandið óska eftir því að komi til slíks muni Bretland hafa sömu stöðu og EES-ríki á meðan því tímabili stendur. Að lokum er í frumvarpinu mælt fyrir um að viðhalda undanþágum frá tilteknum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, komi til útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.