Grænbók – umræðuskjal um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga var kynnt öllum sveitarstjórnum um leið og hún var sett inn á samráðsgátt Stjórnarráðsins. Alls bárust 24 umsagnir, flestar frá þeim sveitarstjórnum og byggðaráðum þar sem grænbókin hafði verið kynnt en einnig frá einstaklingum og samtökum.
Listi yfir umsagnaraðila og stutt samantekt um umsagnirnar eru meðfylgjandi sem fylgiskjal. Þá er meðfylgjandi samantekt og frásagnir af kynningarfundum með fulltrúum sveitarfélaga og landshlutasamtaka.
Almennt má segja að umsagnirnar hafi verið jákvæðar, sveitarstjórnarmenn fagna samtalinu um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga og eru sammála helstu leiðarljósum og markmiðum sem kynnt voru í Grænbókinni.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 30.04.2019–11.06.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.08.2019.
Grænbókin er umræðuskjal en almenningi og hagsmunaaðilum er boðið að leggja fram sín sjónarmið um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn sem nýst gætu í stefnumótuninni. Í grænbókinni eru settar fram 50 lykilspurningar sem tengjast viðfangsefninu og vonir standa til að komi að gagni í stefnumótunarferlinu.
Sumarið 2018 var með lögum nr. 53/2018 bætt við sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011, ákvæðum um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Samkvæmt þeim skal ráðherra sveitarstjórnarmála leggja að minnsta kosti á þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Um er að ræða nýmæli sem er hliðstæð annarri áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Meginmarkmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga er að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt að setja fram leiðarljós um hvert stefna skuli í málefnum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði.
Áætlunin skal ennfremur byggjast á markmiðum sveitarstjórnarlaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Hún skal taka mið af fyrirliggjandi stefnumótandi áætlunum opinberra aðila sem varða stöðu og þróun sveitarstjórnarmála. Sérstaklega skal horft til þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í lögbundinni byggðaáætlun og sóknaráætlunum. Þá skal m.a. horft til samgönguáætlunar, fjarskiptaáætlunar og landsskipulagsstefnu. Við mótun áætlunarinnar skal ávallt gætt að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga.
Sjá umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar um Grænbók, stefna um málefni sveitarfélaga.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um Grænbókina, stefnu um málefni sveitarfélaga
ViðhengiGóðann dag. Hér kemur umsögn um grænbók, drög að stefnu um málefni sveitarfélaga. Umsögnin er sett fram í mínu nafni, sem íbúi.
ViðhengiEftrifarandi er umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 6. júní:
Grænbók um stefnu í málefnum sveitarfélaga - 1905017
Lögð var fram tilkynning samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 28. maí 2019, um að frestur til að skila inn umsögn um grænbók (umræðuskjal) í málefnum sveitarfélaga hefur verið framlengdur til 11. júní n.k.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fagnar því að dregnir séu saman meginþættir langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og leggur áherslu á að gætt verði hagsmuna sveitarfélaga við samræmingu í stefnumótun. Sveitarstjórn leggur áherslu á að lýðræðislegur réttur íbúa verði hafður að leiðarljósi.
Meðfylgjandi umsögn um Grænbók starfshóps Samgöngu- og svetiarstjórnbarráðuneytisins var samþykkt á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar á fundi þess þann 6. jún í sl.
ViðhengiMeðfylgjandi umsögn um Grænbók starfshóps Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins var samþykkt á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar á fundi þess þann 6. jún í sl.
Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um grænbókina. Í umsögninni er eingöngu fjallað um sjálfstjórn sveitarfélaga. Að öðru leyti vísast til umsagna einstakra sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga.
ViðhengiUmsögn sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps um Grænbók:
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps leggur áherslu á lýðræðislegan rétt íbúa. Við framtíðarskipulag sveitarfélaga verður að horfa til margra þátta og fráleitt að íbúatala ráði ein alfarið um þróun þeirra. Horfa ber til landfræðilegra þátta, sem og fjárhagslegrar getu til að veita íbúum þjónustu. Taka verður mið af fjarlægðum og eðlilegum skipulagsheildum. Þekkt er að jaðarsvæðí í landfræðilega stórum sveitarfélögum eiga jafnan undir högg að sækja. Því er mikilvægt að horfa á byggðasjónarmið og grípa til þekktra aðgerða sem duga ef koma á í veg fyrir frekari byggðaröskun. Má nefna skattaívilnanir á jaðarsvæðum, afslátt námslána fyrir opinbera starsmenn sem vinna á jaðarsvæðum t.d. heilbrigðisstarfsmenn, enda þekkt að erfitt getur verið að manna stöður lækna og lögreglumanna svo eitthvað sé nefnt.
Ísland er gjöfult land og mikil lífsgæði fólgin í búsetu nálægt gæðum landsins víða um hinar dreifðari byggðir. Það væri mikið slys til framtíðar ef stjórnvöld skerða vísvitandi möguleika landsmanna til að njóta þessara gæða og stuðla að öfugþróun með vanhugsuðum aðgerðum. Slíkt verður ekki heildinni til hagsbóta. Sterk byggð um landið allt styður búsetu á Íslandi til framtíðar og verður örugglega þjóðinni til heilla til lengri tíma.
Að öðru leyti skal vísað í bókun sveitarstjórnar frá 2. október 2017 sem var svohljóðandi:
Vegna kynningar á skýrslu um „stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga“ og þá megin niðurstöðu að lágmarksstærð sveitarfélaga skuli verða 1000 íbúar er eftirfarandi bókað samhljóða:
Skýrslan er skrifuð til að rökstyðja sameiningar sveitarfélaga undir þeim formerkjum að til þess að geta sinnt grunnþjónustu við íbúa og í framtíðinni tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu, þurfi sveitarfélög að vera stór og öflug, með traust og faglegt stjórnkerfi. Fyrir því að lögfesta 1000 íbúa lágmarksstærð sveitarfélaga finnast hinsvegar engin rök, hvorki í skýrslunni né annarsstaðar. Enda er sveitarfélag með liðlega 1000 íbúa afar litlu eða engu betur sett í þessu tilliti en t.d. 500 manna sveitarfélag. Þá er töluverð umfjöllun um hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og lagt til að hann sé nýttur til að stuðla að sameiningum með fjárhagslegum hvötum.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps bendir á;
• Að almennt er fjárhagsstaða minni sveitarfélaga betri en hinna stærri.
• Að vanfjármögnun ríkisins á stórum málaflokkum verður ekki leyst með sameiningu smárra sveitarfélaga. Tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verður heldur ekki leiðrétt þannig.
• Að vandamál á einum stað leysast ekki með sameiningum annarsstaðar. Vandamál ber að leysa þar sem þau eru til staðar, hvort sem eru brotalamir í þjónustu, t.d. leikskólaþjónustu eða fjárhagsvandræði af ýmsum orsökum.
• Að 1 kílómetri er áfram 1000 metrar þó sveitarfélög séu sameinuð og sameiningar leysa ekki þjónustuvanda eða neikvæða byggðaþróun í dreifbýli einar og sér.
• Að mörg minnstu sveitarfélögin fá mikið minni framlög pr. íbúa frá Jöfnunarsjóði en stór, jafnvel áður sameinuð sveitarfélög.
• Að hlutverk Jöfnunarsjóðs er að verulegum hluta farvegur fyrir fjármögnun verkefna en ekki bara jöfnun fjárhagsstöðu. Verkefni verða ekki sjálfkrafa ódýrari eða auðleystari við sameiningu sveitarfélaga, nema þá að dregið sé úr þjónustu við íbúana.
Þá er í skýrslunni talað um lítið íbúalýðræði og lýðræðishalla sem fylgi samstarfsverkefnum minni sveitarfélaga. Það er því ákveðin þversögn að í minni sveitarfélögum er lýðræðisleg virkni íbúa mun meiri og nánd þeirra við kjörna fulltrúa og skrifstofur sveitarfélaga einnig, skv. íbúakönnun sem skýrslunni fylgir. Til að reyna að ná slíkri stöðu aftur er því mælt með hverfisráðum og ýmsum rafrænum aðgerðum í stærri sveitarfélögum. Skýrslan gengur útfrá því að það sé lýðræðislegur réttur íbúa að hafa árhif og stýra málum er varða þeirra nærmálefni. Undir það er tekið heilshugar.
Ef niðurstöður væru eitthvað í takt við innihald skýrslunnar um stór og öflug sveitarfélgög með mikla getu til að taka við nýjum verkefnum og veita þjónustu ein og sjálf, þá hefði mátt búast við tillögu um lágmarksfjölda íbúa a.m.k. 10.000 ef ekki 25.000. En í raun er viðurkennt að slíkt gangi ekki upp vegna landfræðilegra aðstæðna á Íslandi. Enda yrðu slík sveitarfélög sum mjög víðfeðm, margkjarna, erfið í stjórnun og gætu nánast orðið eins og 3ja stjórnsýslustigið á stórum landssvæðum. Þar með er allt komið í hring og endanleg niðurstaða hvorki fugl né fiskur. Enda væri auðvelt að rökstyðja með nákvæmlega samsvarandi skýrslu, að það sé ekki vænlegt að reka þjóðfélag til framtíðar með 330 þúsund íbúum og Ísland ætti því að sameinast öðru landi.
Sameining og/eða samstarf sveitarfélaga verður að byggjast á fjárhagslegum, félagslegum og landfræðilegum forsendum en ekki bara á höfðatölu. Fyrst og síðast á þó vilji íbúa að ráða ferð svo sem verið hefur. Engin „rétt“ tala er til fyrir lágmarks íbúafjölda í sveitarfélögum á Íslandi.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hafnar alfarið hugmyndum um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga og hvetur ráðamenn til að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum.
Bæjarráð Hveragerðisbæjar hefur tekið til afgreiðslu bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem "Grænbókin" er lögð fram til kynningar en hún er umræðuskjal þar sem almenningi og hagsmunaaðilum er boðið að leggja fram sín sjónarmið um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn sem nýst gætu í stefnumótun.
Bókun bæjarráðs er svohljóðandi:
Bæjarráð fagnar þeirri vinnu sem nú á sér stað varðandi stöðu sveitarstjórnarstigsins á Íslandi.
Grænbókin er vel unnin, upplýsandi um stöðu sveitarfélaga og vel til þess fallin að hvetja til umræðu um þá stöðu sem sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn á Íslandi eru í.
Bæjarráð tekur undir helstu atriði Grænbókarinnar og leggur áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélög á Íslandi geti séð um lögbundna þjónustu við íbúa án þess að vera um of háð samstarfsverkefnum.
Það er mikilvægt að sveitarfélögin séu í stakk búin til að takast á við fjölbreytt verkefni dagsins í dag og að þau séu einnig í stakk búin til að taka á móti nýjum verkefnum. Skipan sveitarstjórnarstigsins verður að vera með þeim hætti að sveitarfélög séu öflugar stjórnsýslueiningar þannig að íbúum landsins séu tryggð sem jöfnust réttindi og aðgangur að þjónustu í sinni heimabyggð.
Full ástæða er til að skoða breytingu sveitarfélagamarka með tilliti til þess að hvert sveitarfélag nái yfir það svæði sem íbúar sækja þjónustu til. Til þess að svo megi vera verða sveitarfélög að hafa sjálfstæða tekjustofna sem tryggja að íbúum landsins séu tryggð því sem næst sambærileg lífsskilyrði, Jöfnunarsjóður gegnir
þar lykilhlutverki.
Bæjarráð telur mikilvægt að komi til þess að ráðherra setji lög sem hvetja eigi til sameiningar sveitarfélaga þá fylgi þeim sameiningum öflugur heimanmundur til stuðnings nýjum sveitarfélögum.
Bæjarráð telur einnig mikilvægt að umræða hefjist um nýjungar hvað varðar kosningar bæði til Alþingis og sveitarstjórna og telur að þegar eigi að hefja umræðu um persónukjör til beggja stjórnsýslustiga.
Einnig vill bæjarráð koma því á framfæri að það væri til mikilla hagsbóta ef kjör bæjarfulltrúa og bæjarstjóra yrðu ákvörðuð með miðlægum hætti fyrir öll sveitarfélög landsins.
Að lokum vill bæjarráð ítreka mikilvægi þess að sú vinna sem nú hefur verið unnin í tvígang fyrst í Eyrúnarnefndinni svokölluðu og nú í Nefnd um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga leiði til raunverulegra breytinga í átt að öflugra sveitarstjórnarstigi íbúum landsins til hagsbóta.
Þessi afgreiðsla bæjarráðs tilkynnist hér með.
Virðingarfyllst
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri
Banna ætti alla næturgistingu hvort sem er í tjaldi eða á gistitæki\húsbílum uta viðurkenndra tjaldstæða á láglendi.
Á fundi bæjarráðs Akranes þann 31. maí 2019 var fjallað um Grænbókina, stefnu um málefni sveitarfélaga.
Bæjarráð Akraness fagnar framkominni Grænbók og tekur undir leiðarljós hennar þar sem m.a. er kveðið á um mikilvægi sjálfsstjórnar sveitarfélaga, gagnkvæmna virðingu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og skýra verka- og ábyrgðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga við veitingu opinberrar þjónustu.
Umsögn bæjarráðs er meðfylgjandi.
ViðhengiBæjarráð Fjarðabyggðar leggur áherslu á eftirfarandi atriði við afgreiðslu grænbókar.
Lágmarksstærð sveitarfélaga verði miðuð við 500 íbúa. Vísar bæjarráð þar til reynslu sinnar af sameiningu sveitarfélaga og nauðsyn þess að þau nái að rækja skyldur sínar gagnvart íbúum. Reynsla Fjarðabyggðar af sameiningum bendir ótvírætt til þess að með sameiningu minni sveitarfélaga í stærri eflist styrkur þeirra og þjónustustigi batnar.
Tekjustofnar sveitarfélaga séu tryggðir og atvinnustarfsemi sem starfrækt sé í viðkomandi sveitarfélögum skili eðlilegum tekjum sem standi undir uppbyggingu þjónustu og innviða sem nauðsynlegir séu til vaxtar samfélaganna. Í því sambandi er sérstaklega bent á auðlindagjöld af fiskveiðum og fiskeldi. Núverandi fyrirkomulag þar sem ríkið situr eitt af þeim tekjum og veitir ekkert til hlutaðeigandi sveitarfélaga sem annast þjónustu og uppbyggingu nauðsynlegra innviða er ekki sanngjörn.
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði falið aukið hlutverk í að styðja við sameiningu og stækkun sveitarfélaga og sameinuð sveitarfélög sæti ekki skerðingu tekna úr sjóðnum. Þá verði lagt sérstakt mat á framlög til fjölkjarna sveitarfélaga og þau njóti aukinna framlaga í samræmi við það þjónustustig sem þau bjóða í byggðakjörnum sínum. Með því geta þau treyst byggðalög og dreifða byggð innan sveitarfélagsins sem höllum fæti stendur. Sameining sveitarfélaga á ekki að verða til þess að svipta sameinað sveitarfélag fjármagni sem þegar hefur þótt eðlilegt til reksturs þeirra sem sameinuð eru en reynsla Fjarðabyggðar af rekstri fjölkjarna sveitarfélags bendir til þess að með sameiningu hafi framlög jöfnunarsjóðs skerst. Að reka sameinað dreifkjarna sveitarfélag kostar það sama þau aðskilin.
Skipulagsvald sveitarfélaga verði að fullu virt á grunnslóð þar sem fiskeldi er fyrirhugað og að fyrirkomulag og leyfisveitingar sveitarfélaga til starfsemi verði hluti af ferli við úthlutun leyfa. Að sveitarfélög hafi ekki beina aðkomu að leyfisveitingum og skipulagi strandsvæða er óásættanlegt þar sem skipulag á landi og næsta umhverfi á sjó er hluti heildarskipulags sem best er að sé á forræði þeirra sem búa í viðkomandi sveitarfélagi og er augljós skerðing á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga.
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn Sveitarfélagsins Hornafjarðar um Grænbók, stefna um málefni sveitarfélaga.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri
ViðhengiÍ meðfylgjandi fylgiskjali er umsögn frá Akureyrarbæ um Grænbók stefnu um málefni sveitarfélaga.
ViðhengiSveitarstjórn Rangárþings eystra bókaði eftirfarandi á 252. fundi sínum þann 6. júní 2019.
Grænbók; Stefna á málefnum sveitarfélaga.
Sveitarstjóra og oddvita falið að senda inn athugasemd um Grænbók inn í samráðsgátt, í samræmi við umræðu fundarins.
Samþykkt samhljóða.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra fagnar því að verið sé að vinna að stefnumótun í málefnum sveitarstjórnarstigsins. Hins vegar gagnrýnir sveitarstjórn þann stutta tíma sem sveitarfélögum er ætlaður til að fjalla um verkefnið og veita umsögn við framkomna Grænbók. Í dreifðari byggðum er algengt að fundartími sveitarstjórna sé einu sinni í mánuði. Af þeim sökum hefur sveitarstjórn ekki gefist nægur tími til umfjöllunar um umræðuskjalið eins og æskilegt hefði verið.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra vill koma því á framfæri að mikilvægt er að skilgreina með skýrum hætti hvað sé átt við með því að sveitarfélag sé öflug og sjálfbær stjórnsýslueining og hvað í því felst. Telst það til ósjálfbærni að vinna að málefnum í samvinnu við önnur sveitarfélög í gegnum byggðarsamlög ? Þetta atriði þarf að vera skýrt áður en lengra er haldið og markmiðum náð.
Mikilvægt er að sameiningar sveitarfélaga byggist ekki eingöngu á höfðatölu sjónarmiði, heldur sé einnig horft til annarra þátta m.a. landfræðilegra, enda skipta þá framúrskarandi samgöngur verulegu máli. Koma þarf á verulegum hvata sem felur í sér samfélagslegan og fjárhagslegan ávinning svo sveitarfélög sjái hag sinn í að fara í frjálsar sameiningar. Vinna við sameiningar sveitarfélaga þarf að byggja á faglegum rökum, vönduðum vinnubrögðum og gæta þarf að því að flækja stjórnsýsluna að óþörfu svo að þriðja stjórnsýslustigið verði ekki óhjákvæmilegt með t.d. hvefis- eða þéttbýlisráðum. Enda er fjallað um í Grænbókinni að gæta skuli að sjálfsstjórn sveitarfélaga og rétti þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag. Sveitarstjórn Rangárþings eystra telur því að forðast skuli það eins og kostur er að fara í þvingaðar sameiningar sveitarfélaga.
Í tengslum við þá umræðu sem átt hefur sér stað varðandi þær fyrirætlanir að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi Íslands, vill sveitarstjórn Rangárþings eystra hnykkja á því að skipulagsvald sveitarfélaganna verði virt, enda mikilvægt að íbúar hvers sveitarfélags hafi með raunverulegum hætti tækifæri til þátttöku og áhrifa í sínu nærsamfélagi.
Sveitarstjórn telur jákvætt að boðað hafi verið til aukalandsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað verður um málið sérstaklega.
F.h. sveitarstjórnar Rangárþings eystra
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri
Lilja Einarsdóttir, oddviti
Meðfylgjandi er í viðhengi umsögn sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar um Grænbók stefna um málefni sveitarfélaga, samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 11 júní 2019
Björgvin Helgason oddviti sveitarstjórnar
Meðfylgjandi er í viðhengi umsögn sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar um Grænbók stefna um málefni sveitarfélaga, samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 11 júní 2019
Björgvin Helgason oddviti sveitarstjórnar
ViðhengiUmsögn Samgöngufélagsins, dags. 11. júni 2019, fylgir hér með.
F.h. Samgöngufélagsins,
Jónas Guðmundsson, fyrirsvarsmaður
ViðhengiGóðan dag,
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífins.
Bestu þakkir,
fh. SA,
Óttar Snædal
Viðhengi