Tillögurnar urðu hluti af frumvarpi forsætisráðherra til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi, 466. mál.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.05.2019–30.06.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.
Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskránni og nú eru birt til samráðs tvö ný ákvæði, um auðlindir náttúru Íslands og um umhverfisvernd.
Eftirfarandi var fært til bókar á fundi formanna flokkanna 10. maí 2019:
„Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar hafa ýmis ákvæði komið til skoðunar. Vinna við þessi tvö frumvörp sem hér eru birt til samráðs er nú komin það langt áleiðis að rétt er að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þeirra í samráðsgátt stjórnvalda.
Áréttað er að birting í samráðsgátt á þessu stigi felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi.
Einnig er vakin athygli á því að samráðsgátt stjórnvalda er einungis eitt af þeim verkfærum sem nýtt verða til samráðs við almenning. Fram undan er frekara almenningssamráð um önnur mál, m.a. með rökræðukönnun sem lagt er til að verði síðar á þessu ári.“
34. gr. Náttúruauðlindir - Nýja Stjórnarskráin
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Það verður að vera þjóðar atkvæðagreiðsla um svona mikilvægt mál til að fá rétta mynd af vilja þjóðarinnar framm.
Anneað er ekki verjandi !
Til Samráðsgáttar – opins samráðs stjórnvalda við almenning.
Sem kjósandi og Íslendingur, sem vill tryggja að auðlindir Íslands haldist í þjóðareigu, legg ég til að tekið verði óbreytt upp auðlindaákvæði stjórnarskrárhugmynda Stjórnlagaráðs frá 2011-2012.
--
Nýframsett uppástunga ríkisstjórnarinnar (fengin af Samráðsgátt – opið samráð stjórnvalda við almenning, 11. maí 2019) er svohljóðandi:
„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. / Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. / Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.‟
Í staðinn komi óbreytt og orðrétt tillaga Stjórnlagaráðs frá 2012 (34. gr. stjórnarskrártillagna Stjórnlagaráðs):
„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. / Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. / Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. / Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.‟
--
Rök:
1. Íslenska þjóðin hefur þegar samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 ákvæðið eins og Stjórnlaganefnd ákvarðaði það. Uppástunga núverandi stjórnvalda er því sniðganga við vilja þjóðarinnar.
2. Sú uppástunga að auðlindaákvæði, sem stjórnvöld bera á borð núna fyrir almenning, er einhvers konar tálgaður eða tilsniðinn bræðingur, sem virðist til þess fallinn að henta vel þeim þjóðfélagsöflum, sem leggja ríkari áherslu á einkaeign en sameign. Sem sjá má með samanburði á ofangreindum tillögum er tillaga Stjórnlagaráðs frá 2012 mun skýrari, afdráttarlausari, hnitmiðaðri og nákvæmar orðuð, en hin nýja uppástunga ríkisstjórnarinnar 2019, sem er óljósari, loðnari og um marga hluti til þess fallin að opnað sé á tilfærslu auðlinda þjóðarinnar með einfaldri lagabreytingu til einkaaðila, hvort heldur er varðar fiskiauðlindir eða fallvatna.
3. Uppástunga núverandi stjórnvalda hefur yfir sér það yfirbragð að vera sett fram í pólitískum tilgangi, til að slá ryki í augu almennings og tryggja betur áframhaldandi samstarf núverandi stjórnarflokka, heldur en að hún þjóni hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Hér er því þyrlað ryki í augu almennra kjósenda og flokkshagsmunir tiltekinna stjórnmálaflokka settir ofar þjóðarhagsmunum.
4. Með nýrri uppástungu ríkisstjórnar eru stjórnvöld (og þar með talin núverandi stjórnvöld, sem setja fram uppástunguna) firrt ábyrgð á vernd auðlinda. Í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2012 segir nefnilega: „Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra.‟ - Ekkert hliðstætt ákvæði er að finna í hinum nýju uppástungum.
Virðingarfyllst,
Helgi Ingólfssson (kt. 180757-2609)
Mávahlíð 25, 105 R.
Stjórnarskrá eru reglurnar sem þjóðin setur fyrir löggjafann og alla hina til að fara eftir. Það er ekki, og verður aldrei hlutverk Alþingis að fikta í stjórnarskránni. Það hefur verið gert nokkrum sinnum með skelfilegum afleiðingum. Augljósast er að benda á hvernig breytingar voru gerðar á stjórnarskrá til þess að hagræða úrslitum kosninga hér á landi. Sem hefur orðið til þess að atkvæðum fjölda íslendinga sem jafnast á við Kópavog að stærð er hent strax að loknum kosningum til að hagræða úrslitunum stærri flokkum og dreifbýlisflokkum í vil.
Hættið þessu fúski og farið að vinna eftir þeirri stjórnarskrá sem þjóðin kaus sér og útbjó eftir hrunið.
Tillõgur stjórnlagaràðs eiga bara að gilda,ekki þetta útþinnta rugl
Eitt af hlutverkum stjórnarskrár er að skilgreina það vald sem landsmenn framselja valdhöfunum.
Landsmenn hafa ekki framselt Alþingi valdið til að setja landinu stjórnarskrá.
Alþingi er bent á tillögur Stjórnlagaráðs og allir þingmenn hvattir til að skoða málið í víðara samhengi en því sem snýr að hagsmunum flokkanna og hugsa og framkvæma í þessu máli út frá hagsmunum þjóðarinnar allrar.
Sagan mun dæma gjörðir stjórnmálamanna nútímans.
Deyr fé deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Mér virðist tillaga stjórlagaráðs mun ýtarlegri og betur orðuð en þessi tillaga stjórnarflokkanna og legg til að farið verði nær henni en þessi tillaga gerir ráð fyrir.
Ég vil að farið sé eftir 34 grein í tillögum stjórnlagaráðs frá 2012 sem hefst með þessum orðum: "Auðlindir í náttúru Íslands ........ " Einnig að hnykkt sé á því að nytjastofnar og aðrar auðlindir hafs og hafsbotns séu og hafi alltaf verið sameign þjóðarinnar og útgerðarmenn og aðrir sem nýta fiskistofna hafi greitt fyrir nýtingarrétt en hafi aldrei getað eignast fiskistofna né önnur gæðu hafsins.
29. maí 2019.
Til Alþingis.
Í viðhengi er að finna umsögn mína um drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (auðlindir náttúru Íslands).
Góðfúslega látið tenglana halda sér ef hægt er þegar umsögnin verður birt á vefsetri Alþingis. Tenglanna vegna sendi ég Word-skjal frekar en pdf-skjal.
Með virðingu,
Þorvaldur Gylfason prófessor
180751-7699
https://notendur.hi.is/gylfason/papers_on_constitutions.html
https://notendur.hi.is/gylfason/stjornlagathing2.html
Erindi til Alþingis
Hér með leyfi ég mér að koma á framfæri við Alþingi og fólkið í landinu fáeinum athugasemdum við frumvarpsdrög forsætisráðherra að nýju ákvæði um auðlindir náttúru Íslands sem voru birt ásamt greinargerð 10. maí 2019. Einnig þykir mér hæfa að fara nokkrum orðum um aðdragandann.
Um frumvarpið
Inngangur greinargerðar með frumvarpinu hefst á þessum orðum: „Frumvarp þetta er afrakstur af umræðum í hópi formanna þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Byggt er á frumvarpi sem stjórnarskrárnefnd skilaði til forsætisráðherra í júlí 2016 ... Frumvarpstextinn hefur þó verið yfirfarinn og einfaldaður ...“ Hér er sagt berum orðum að verið sé að reyna að endurlífga frumvarpið sem dagaði uppi á Alþingi 2016.
Frumvarpið nú markast af jafnvel enn meiri undanslætti en áður. Tónninn er sleginn strax í byrjun: „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni.“ Textinn minnir á strákinn sem var stöðvaður fyrir of hraðan akstur og sagði við lögregluna: Bíllinn tilheyrir mér, en pabbi á hann. Falklandseyjar tilheyra Bretlandi, en Bretar eiga þær ekki. Greinargerðin með frumvarpinu viðurkennir undansláttinn með því að þar stendur (bls. 3): „ … það orðalag vísar ekki til eignarréttar“. Hnykkt er á boðskapnum með því að segja að orðalag frumvarpsins „tilheyra íslensku þjóðinni“ sé „stefnuyfirlýsing án ákveðins lagalegs inntaks“ (bls. 2). Þarna er því sagt berum orðum að þjóðareign eigi heima skör lægra en aðrar eignir.
Greinargerðin með frumvarpinu nefnir engin dæmi um hliðstætt orðalag í öðrum stjórnarskrám. Mér er kunnugt um aðeins eina gildandi stjórnarskrá þar sem hliðstætt orðalag er viðhaft og það er stjórnarskrá Aserbaídsjans frá 1995 (endurskoðuð 2016). Þar stendur í enskri þýðingu: „Natural resources belong to the Republic of Azerbaijan …” Aserbaídsjan er harðsvírað einræðisríki enda eru náttúruauðlindir landsins sagðar tilheyra lýðveldinu, þ.e. ríkisvaldinu, ekki þjóðinni.
Frumvarp forsætisráðherra herðir á undanslættinum með því að láta orðin „sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar“ í upphafi auðlindaákvæðis Stjórnlagaráðs víkja fyrir berskjaldaðri „þjóðareign“ inni í miðjum texta. Í stað orðanna „sem ekki eru í einkaeigu“ eru höfð orðin „sem ekki eru háð einkaeignarrétti“. Þarna er skýrt orðaval Stjórnlagaráðs – allir vita hvað orðin „í einkaeigu“ merkja – látið víkja fyrir loðnu og teygjanlegu orðalagi sem býður upp á lagaþref. Öll vitum við að útvegsmenn eiga ekki fiskinn í sjónum, en þeir gætu reynt fyrir dómi að gera tilkall til að hafa áunnið sér eignarrétt yfir honum. Allt þetta orðfæri er tekið beint upp úr frumvarpinu frá 2016 án nokkurs tillits til þeirrar gagnrýni sem þá kom fram.
Í staðinn fyrir „fullt gjald“ fyrir nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareigu var í frumvarpinu 2016 boðinn tvöfaldur afsláttur: „Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald“. Nú er afslátturinn enn aukinn með málsgreininni: „Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“ Í greinargerðinni segir (bls. 15) að „löggjafanum sé í sjálfs vald sett að krefjast ekki gjalds ef forsendur gjaldtöku eru að hans mati ekki fyrir hendi.“ Og enn fremur: „Þá er ekki útilokað við sérstakar kringumstæður að gjaldið skuli vera mjög lágt eða jafnvel ekkert.“
Í greinargerðinni segir einnig (bls. 6): „Almennt talað er það verkefni löggjafans og stjórnvalda á hverjum tíma að finna leiðir sem tryggja að … eigandi auðlindarinnar, þjóðin, njóti eðlilegs arðs af eign sinni …“ Samt er hvergi í textanum vikið að þeirri staðreynd að útvegsmenn hirða nú sem endranær 90% af fiskveiðirentunni eins og Indriði Þorláksson fv. ríkisskattstjóri hefur lýst. Réttur eigandi sjávarauðlindarinnar, fólkið í landinu, þarf að gera sér að góðu þau 10% sem ganga af.
Greinargerðin með frumvarpinu fer mörgum orðum um ýmsa lagatexta sem litlu skipta en hún nefnir hvergi tímamótadóm Hæstaréttar frá 1998 þar sem fiskveiðistjórnarkerfið var lýst brotlegt gegn gildandi stjórnarskrá. Greinargerðin nefnir ekki heldur bindandi álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007 sem staðfesti dóm Hæstaréttar frá 1998.
Í greinargerðinni segir svo (bls. 17): „Vart finnast nokkur dæmi um hagkerfi sem er eins háð auðlindanýtingu og hið íslenska.“ Þessi staðhæfing sem er tekin orðrétt upp úr greinargerðinni frá 2016 er röng nú sem þá. Hlutdeild sjávarútvegs í landsframleiðslu Íslendinga 2018 var 6% og hlutdeild sjávarútvegs í útflutningstekjum 2018 var 18% svo sem fræðast má um m.a. á vefsetri Hagstofu Íslands. Að þessi gamla áróðurslumma útvegsmanna skuli enn halda lífi á Alþingi og í stjórnarráðinu og rata þar inn í greinargerðir er vandræðalegt í ljósi þess að vitað er að fyrstu kvótalögin voru samin á skrifstofum LÍÚ (sjá Halldór Jónsson: „Ákvarðanataka í sjávarútvegi og stjórnun fiskveiða“. Samfélagstíðindi, 10. árg., 1990, bls. 99-141). Hlutdeild ferðaútvegs í útflutningstekjum Íslendinga 2018 (39%) var meiri en samanlögð hlutdeild sjávarútvegs, áls og álafurða (35%). Nærri helmingur allra landa heimsins á meira undir auðlindanýtingu en Ísland sé miðað við tölur Alþjóðabankans um auðlindarentu sem hlutfall af landsframleiðslu og sambærilegar tölur Indriða H. Þorlákssonar fv. ríkisskattstjóra um Ísland.
Greinargerðin með frumvarpi forsætisráðherra hefur að sönnu ekkert lagagildi, en sé hún höfð til leiðbeiningar er hún til þess fallin að grafa undan þeirri réttarbót sem kjósendur samþykktu sér til handa þegar 83% þeirra lýstu stuðningi við þjóðareignarákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Greinargerðin segir berum orðum að frumvarpið „leiðir … ekki sjálfkrafa til breytinga á gildandi nýtingarheimildum“ (bls. 3) og „mun ákvæðið ekki sjálfkrafa raska réttindum sem kunna að felast í nýtingarheimildum sem þegar hefur verið stofnað til gagnvart auðlindum og landsréttindum í eigu ríkisins eða í þjóðareign“ (bls. 18). Greinargerðin gefur þannig í skyn með næstum sama orðalagi og í greinargerðinni 2016 að útvegsmenn hafi í raun aflað sér einhvers konar réttar til sjávarauðlindarinnar.
Um feril málsins frá 2009
Eftir bankahrunið 2008 varð Alþingi ljóst að ekki yrði lengur undan því vikizt að efna fyrirheit allra þingflokka frá 1944 um gagngera endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins. Alþingi setti málið strax 2009 í frjóan farveg sem leiddi af sér lýðræðislegustu stjórnarskrá sem sögur fara af, stjórnarskrá sem 950 manna þjóðfundur valinn af handahófi úr þjóðskrá lagði grunninn að 2010, 25 manna þjóðkjörið og þingskipað Stjórnlagaráð færði í frumvarpsbúning 2011 og tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig samþykka í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012.
Að henni lokinni beið Alþingis ekki annað en að virða þjóðarviljann með því staðfesta frumvarpið fyrir þinglok 2013 enda hafði meiri hluti þingmanna (32 þingmenn) lýst því yfir opinberlega að þeir vildu staðfesta frumvarpið. Alþingi brást þessari skyldu. Forsætisráðherra skipaði stjórnarskrárnefnd með fulltrúum þingflokka 6. nóvember 2013. Við blasti að nefndin var skipuð gagngert til að leita leiða til að vanvirða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem Alþingi lét fara fram um frumvarp Stjórnlagaráðs 2012.
Ásetningur ríkisstjórnarinnar 2013-2016 lýsir sér m.a. í því að fyrst var nefndinni skipaður formaður, Sigurður Líndal prófessor, sem hafði ítrekað lýst sig andvígan breytingum á stjórnarskránni bæði fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012. Þegar hann hætti störfum 2014 var nefndinni skipaður nýr formaður, Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneyti. Hann hafði áður unnið sér það til frægðar að brjóta gegn skýrum fyrirmælum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (SEN) Alþingis 2012-2013 með því að leggja til gagngerar efnisbreytingar á verki Stjórnlagaráðs þótt SEN hefði mælt fyrir um að lögfræðingateyminu væri aðeins ætlað að leggja til orðalagsbreytingar en engar efnisbreytingar. Það var skoðun SEN að Alþingi gæti ekki leyft sér að vanvirða vilja kjósenda eins og hann birtist í úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012.
Ástæða er til að rifja upp brot nýs formanns stjórnarskrárnefndar gegn fyrirmælum SEN 2012-2013. Formaðurinn ásamt fáeinum öðrum lögfræðingum skilaði SEN gerbreyttri greinargerð með 34. grein frumvarps Stjórnlagaráðs um náttúruauðlindir. Í hinni gerbreyttu greinargerð sagði ítrekað með ýmsu orðalagi: „Með ákvæðinu er ekki hróflað við þeim eignarréttindum sem þegar kunna að vera fyrir hendi að auðlindum og þeim heimildum eigenda sem slíkum eignarrétti fylgja.“ Einnig þetta: „Með ákvæðinu er ekki hróflað við þeim nýtingarleyfum eða óbeinu eignarréttindum sem þegar eru fyrir hendi.“ Og þetta: „ ... í samræmi við það sem stjórnlagaráð ætlaðist til [leturbreyting mín, ÞG], að ekki verði hróflað við þeim eignarréttindum sem þegar eru fyrir hendi og njóta stjórnarskrárverndar.“ Ekkert af þessu kemur þó fram í skýringum Stjórnlagaráðs við auðlindaákvæðið. Lögfræðingarnir virtust þar að auki gefa í skyn að t.d. útvegsmenn kunni að hafa áunnið sér eignarrétt til kvótans þótt það standi skýrum stöfum í fiskveiðistjórnarlögunum og í frumvarpi Stjórnlagaráðs að það hafa þeir einmitt ekki gert. Þess var gætt í skýringum Stjórnlagaráðs að gefa ekkert slíkt í skyn.
Héldu lögfræðingarnir að auðlindaákvæðið hefði verið samþykkt samhljóða í Stjórnlagaráði með 22 atkvæðum og með dúndrandi lófataki í ofanálag til að fagna óbreyttri fiskveiðistjórn? – (tveir fulltrúar sátu hjá, einn var fjarverandi; sjá Stjórnlagaráðstíðindi 2, bls. 679). Héldu lögfræðingarnir að 83% kjósenda hefðu samþykkt auðlindaákvæði Stjórnlagaráðs samhljóða til að innsigla óbreytta fiskveiðistjórn? Fv. fulltrúar í Stjórnlagaráði bentu SEN á ósvinnu lögfræðinganna og það gerðu einnig aðrir, þar á meðal dr. Níels Einarsson forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar í Háskólanum á Akureyri.
Þessi upprifjun er enn á ný nauðsynleg til að bregða birtu á bakgrunn þess starfs sem stjórnarskrárnefnd Alþingis vann á 48 fundum bak við luktar dyr 2013-2016 og er nú haldið áfram. Öll þrenn frumvarpsdrög nefndarinnar ásamt greinargerðum miðuðu að því að veikja samsvarandi ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs og mylja undir ríkjandi sérhagsmuni gegn almannahag og lýðræði. Nefndin virðist hafa leitað eftir lægsta samnefnara til að þóknast þeim sem urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Niðurstaðan var frumvarpsdrög sem voru í litlu samræmi við frumvarp Stjórnlagaráðs enda lýstu fulltrúar a.m.k. tveggja flokka í nefndinni, Samfylkingar og Pírata, óánægju með frumvarpsdrögin á opnum fundum.
Á opnum fundi í Norræna húsinu 7. marz 2016 lýsti einn fulltrúi í stjórnarskrárnefnd Alþingis mikilvægu ákvæði frumvarpanna sem „handvömm“. Á sama fundi gerði formaður nefndarinnar lítið úr vinnu Stjórnlagaráðs með því m.a. að halda því fram að ráðið hefði ekki haft nægan tíma til verksins, fjóra mánuði. Formaðurinn virtist ekki vita að stjórnarskrá Bandaríkjanna var samin á fjórum mánuðum sumarið 1787. Nefndin sem hann stýrði skilaði þrem útþynntum ákvæðum eftir 48 fundi. Stjórnlagaráð skilaði heilli stjórnarskrá með 114 ákvæðum á mun skemmri tíma, samþykkti hana einum rómi og tefldi henni fram til yfirburðasigurs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, stjórnarskrá sem var frá upphafi til enda unnin í nánu og opnu samráði við fólkið í landinu auk sérfræðinga og margir erlendir stjórnlagafræðingar hafa farið lofsamlegum orðum um.
Tugir umsagna um frumvörpin þrjú frá stjórnarskrárnefnd Alþingis bárust inn um samráðsgátt Alþingis, langflestar niðursallandi svo sem vonlegt var. Um þetta sagði Ragnar Aðalsteinsson hrl. í blaðagrein 2016: „Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum [Stjórnlaga]ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins. Það virðist sanngjarn mælikvarði, sem bregða má á nýbirtar tillögur stjórnarskrárnefndar.“ Tillögur nefndarinnar féllu á þessu einfalda prófi Ragnars Aðalsteinssonar. Þær voru ekki ræddar á Alþingi og dóu þar drottni sínum.
Mér þykir raunar eðlilegt að gera enn strangari kröfur til þeirra sem hafa hug á að endursemja frumvarp Stjórnlagaráðs eða breyta því eftir að tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi frumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Bandaríkjaþing ákvað að breyta ekki orði í frumvarpinu sem stjórnlagaþingið í Fíladelfíu hafði samið og samþykkt 1787 með 39 atkvæðum af 55 og kjósendur í níu fylkjum af 13 höfðu síðan samþykkt í atkvæðagreiðslum, sums staðar með mjög litlum mun. Jafnframt hóf þingið strax endurskoðun hinnar nýju stjórnarskrár skv. ákvæðum hennar. Ljóst er að nýju frumvarpsdrögin um auðlindir náttúru Íslands falla einnig á bandaríska prófinu óháð því sem í þeim stendur.
Niðurstaða
Frumvarpsdrög forsætisráðherra vitna um einbeittan brotavilja gegn fólkinu í landinu. Drögunum er bersýnilega ætlað að þýðast ríkjandi hagsmuni, þau öfl sem áttu mestan þátt í að koma Íslandi á kaldan klaka í hruninu 2008 og skaða ásjónu landsins í augum umheimsins. Vert er í þessu samhengi að minna á að Alþingi nýtur lítils trausts meðal kjósenda. Alþingi skrapar botninn ásamt bankakerfinu og borgarstjórn Reykjavíkur í nýrri könnun Gallups (18% treysta Alþingi).
Frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá svaraði að loknum þjóðfundi og í samræmi við verkferli sem Alþingi ákvað ákalli þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá, nýja siði, nýtt upphaf. Frumvarpsdrög forsætisráðherra miða að því að bregðast þessu ákalli, ekki aðeins með því að úrbeina auðlindaákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs heldur einnig með því leiða hjá sér allt hitt, þ.m.t. ákvæðið um jafnt vægi atkvæða, eitt brýnasta ákvæði frumvarpsins, og einnig t.d. ákvæðið um framsal ríkisvalds. Án nýs kosningaákvæðis verða næstu alþingiskosningar enn á ný haldnar skv. kosningalögum sem 67% kjósenda höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Án nýs framsalsákvæðis munu alþingismenn halda áfram að sæta ásökunum um að brjóta vísvitandi gegn gildandi stjórnarskrá þar eð í hana vantar skýrt ákvæði um framsal ríkisvalds. Og enn um sinn mun haldast í gildi hin bráðsmellna 30. grein gildandi stjórnarskrár frá 1944: „Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“
Það gefur augaleið að verði frumvarp forsætisráðherra samþykkt á Alþingi þarf að bera það undir þjóðaratkvæði. Það verður aðeins gert þannig að kjósendum bjóðist að velja á milli frumvarps forsætisráðherra og frumvarpsins sem kjósendur samþykktu með yfirgnæfandi meiri hluta 2012. Bjóði Alþingi kjósendum einungis til atkvæðagreiðslu um eigið frumvarp frekar en val milli þessara tveggja kosta jafngildir það stríðsyfirlýsingu Alþingis á hendur lýðræðinu í landinu.
ViðhengiSamráðsgátt 6.6. 2019
Frá Jóhanni Ársælssyni
Vesturgötu 59 a Akranesi
ViðhengiVinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi
ViðhengiUmsögn um drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands
Mál nr. S-128/2019
Til Alþingis
Hér með leyfi ég mér að koma á framfæri við Alþingi nokkrum athugasemdum við frumvarpsdrög formanna stjórnmálaflokkanna að nýju ákvæði í stjórnskrá um auðlindir í náttúru Ísland. Tillagan kollvarpar þeirri auðlindagrein sem yfir 2/3 hluti kjósenda samþykkti efnislega í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja og endurskoðaða stjórnarskrá þ. 20. október 2012.
Sérstök ástæða er að halda til haga að frá lýðræðislegu sjónarmiði hafa flokksformennirnir eða Alþingi ekki umboð til þessa nema að fleira komi til. Í því sambandi vill ég vísa í það sem Björg Thorarensen lagaprófessor skrifar í Vísi þ. 31.10.2012. „Stjórnskipun Íslands byggist á þeirri grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja að uppspretta alls ríkisvalds kom frá þjóðinni. Í því felst að þjóðin hefur endanlegt vald til að ákveða þær leikreglur sem handhafar ríkisvalds skulu fylgja. Með öðrum orðum; þjóðin er stjórnarskrárgjafinn.
Öll lýðræðisríki byggja stjórnskipun sína á grunnstoðinni um uppsprettu valdsins. Gilda jafnan reglur um setningarhátt og síðari breytingar á stjórnarskrá sem tryggja vandaða málsmeðferð og gera breytingar örðugri en á almennum lögum. Þær stuðla að samhljómi og sátt milli þjóðarinnar og þjóðkjörinna fulltrúa um kjölfestu stjórnskipulagsins. Spornað er við því að stjórnarskrárbreytingar stjórnist af dægursveiflum um pólitísk deiluefni og naumum sitjandi þingmeirihluta á hverjum tíma eða minnihluta kjósenda í háværum þrýstihópum, sem reiða sig á þögn meirihlutans.“
Umræðan um samfélagsáttmála eftir hrun var fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi sem varð til þess að Alþingi mótaði ferli sem hófst með stórum þjóðfundi og síðan skipun sjö manna stjórnarskrárnefndar undir formennsku dr. Guðrúnar Pétursdóttur forstöðumanni Stofnunar Sæmundar fróða. Nefndin var skipuð fræðimönnum með sérþekkingu á ýmsum sviðum. Stjórnarskrárnefnd gerði í samvinnu við Alþingi uppkast að nýjum samfélagssáttmála. Sáttmála sem gerir ekki aðeins ráð fyrir jöfnun rétti karla og kvenna, heldur líka jafngildi þeirra og jafnræði að því hvað varðar völd og áhrif. Þetta var í samræmi við þær viðhorfsbreytingar sem átt höfðu sér stað við endurskoðun á stjórnskrám meðal margra þeirra lýðvelda sem við viljum bera okkur saman við. Fram koma að stjórnarskrá væri ekki einungis lögfræðilegt skjal heldur fyrst og fremst samfélagssáttmáli. Stjórnarskrá væri æðri almennum lögum, á sama hátt væri þjóðin æðri Alþingi. Valdið sé alfarið hjá þjóðinni og ríkisstjórnir þjóni almenningi en ekki öfugt.
Vísað var til hugmynda um samfélagsáttmála í athugasemdum með frumvarpinu um stjórnlagaþing sem samþykkt var á Alþingi þ. 16. júní 2010. Þar segir m.a. „Markmið stjórnlagaþings væri að undirstrika þær stoðir hvers lýðræðisþjóðfélags að allt vald spretti frá þjóðinni og því skuli stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Þessum þjóðkjörnu fulltrúum væri falið að setja þær grundvallareglur sem gilda um æðstu stjórn og skipulag ríkisins, uppsprettu ríkisvalds, verkefni handhafa ríkisvaldsins, verkaskiptingu þeirra og valdmörk. Ákvörðun um gerð slíks sáttmála er þannig í höndum þjóðarinnar því þjóðin sjálf er stjórnaskrárgjafinn.“
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður lagði mat á það auðlindaákvæði sem var afrakstur starfs stjórnarskrárnefndar Alþingis sem skipuð var 2013 og skilaði af sér 2016. Í þessu sambandi má t.d. vísa til greinar Ragnars um náttúruauðlindir í stjórnarskrá þ. 23.3.2016 í Vísi. : „Ákvæði Stjórnlagaráðs var samið af óháðum og sjálfstæðum fulltrúum, sem þjóðin hafði til þess kjörið, og Alþingi svo skipað eftir ógildingu Hæstaréttar á grundvelli formsatriða. Ráðið vann verkefnið fyrir opnum tjöldum og tók sjónarmiðum almennings opnum örmum og gaumgæfði þau. Ráðsmenn komust að sameiginlegum niðurstöðum um efni og orðalag nýrrar stjórnarskrár fyrir landið. Stjórnarskrárfrumvarpið var þannig samið á lýðræðislegan hátt. Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.
Og Ragnar heldur áfram : „Af framangreindum samanburði er ljóst að ég tel að tillögur Stjórnlagaráðs beri vott um stjórnvisku og góðan skilning á þýðingu þess að texti í stjórnarskrá sé eins glöggur og unnt er og gefi sem minnst tilefni til mismunandi skilnings og þar með ágreinings á Alþingi og fyrir dómstólum. Ísland er ríkt af auðlindum og gæfa og gengi þeirra sem nú búa hér og komandi kynslóða ræðst af því hvernig til tekst við varðveislu og nýtingu auðlinda landsins á sjálfbæran hátt. Mikilvægt tæki til að ná því markmiði er ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir að auðlindum þessum verði ekki sóað þannig að ekki verði lífvænlegt í landinu til frambúðar. Alþingi verður að hafa það í huga er það tekur afstöðu til þessara tveggja tillagna.“
Eiríkur Tómasson, þáverandi prófessor í stjórnlagafræðum og fyrrum hæstaréttardómari, lýsti þessu ofríki svo í byrjun stjórnarskrárferlisins eftir Hrun árið 2010: „Valdið hefur safnast á hendur ríkisstjórnarinnar eða ráðherranna, og fyrst og fremst oddvita stjórnarflokkanna ... Stjórnmálaflokkarnir byggja völd sín á þessum miklu völdum. ... Stjórnmálamenn hafa einhverra hluta vegna, ég held af ásettu ráði, ekki viljað breyta þessu.“ - (Kastljós Sjónvarpsins, 25. nóvember 2010)
Farið var að vilja þjóðarinnar og kosið til stjórnlagaþings á Íslandi og síðan skipað stjórnlagaráð. Ástæða þess var ekki aðeins sú að Alþingi hafði reynst ófært um að setja landinu nýja stjórnarskrá allt frá lýðveldisstofnun, heldur var það álit sérfræðinga um gerð stjórnarskrár að óheppilegt væri að fela löggjafarþingi slíkt verkefni. Einn helsti sérfræðingur heims um sögu evrópskra stjórnarskráa, Jon Elster, orðar það svo: „Þannig séð, er almennt óráðlegt að fela föstu löggjafarþingi lykilhlutverk við gerð stjórnarskrár, hvort sem er við gerð frumvarps eða staðfestingu þess, vegna augljósar hættu á stofnanalegri sjálfsþjónkun.“ Jon Elster, „Icelandic Constitution-making in Comparative Perspective“, í Iceland’s Financial Crisis: The Politics of Blame, Protest, and Reconstruction. Routledge, London og New York, 2016.
Hið nýja auðlindaákvæði í frumvarpsdrögum formanna stjórnmálaflokkanna sem sitja á Alþingi fer fjarri því að tryggja almannahag og er andstætt auðlindagreinarinnar sem yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda greiddi atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Flokksformennirnir færa ekki nein rök fyrir því hvers vegna þeir vilja víkja frá afgerandi niðurstöðu kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillögu þeirra verður þar af leiðandi skoðuð í ljósi þess hvernig Alþingi hefur haldið á málinu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og í ljósi íslenskrar stjórnmálamenningar. Ofríki formanna stjórnmálaflokka og ráðherra er höfuðmein í íslenskum stjórnmálum og það var einmitt hryggbeinið í háværri gagnrýni þjóðarinnar eftir hrunið og endurspeglast í niðurstöðu stjórnarskrárnefndar, stjórnlagaráðs og ekki síst í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Því miður bera vinnubrögð flokksformannana og umrædd tillaga þeirra vitnisburð um það og þeim ber að færa skýr rök fyrir því hvaðan þeim hafi öðlast það vald að víkja til hliðar niðurstöðum og samþykktum þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík vinnubrögð eru ekki viðhöfð í hópi þeirra lýðræðisríkja sem við teljum okkur eiga heima í.
Virðingarfyllst
Guðmundur Gunnarsson 291045-4139
Til Alþingis.
[Vinsamlega látið vefslóðir sem vísað er í halda sér við birtingu umsagnarinnar.]
Umsögn um drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Mál nr. S-128/2019:
Tillaga formanna stjórnmálaflokka á Alþingi um auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem hér er til umsagnar kollvarpar þeirri auðlindagrein sem yfir 2/3 hlutar kjósenda samþykktu efnislega í þjóðaratkvæðgreiðslu um nýja og endurskoðaða stjórnarskrá 20. október 2012. Frá lýðræðislegu sjónarmiði hafa flokksformennirnir eða Alþingi ekki umboð til þess nema fleira komi til.
Efnislegar breytingar á því sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 hljóta að lúta lýðræðislegum skilyrðum. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður lýsti skilyrðunum svo er hann lagði mat á auðlindaákvæði sem var afrakstur starfs stjórnarskrárnefndar Alþingis sem skipuð var 2013 og skilaði skilaði af sér 2016:
„Ákvæði Stjórnlagaráðs var samið af óháðum og sjálfstæðum fulltrúum, sem þjóðin hafði til þess kjörið, og Alþingi svo skipað eftir ógildingu Hæstaréttar á grundvelli formsatriða. Ráðið vann verkefnið fyrir opnum tjöldum og tók sjónarmiðum almennings opnum örmum og gaumgæfði þau. Ráðsmenn komust að sameiginlegum niðurstöðum um efni og orðalag nýrrar stjórnarskrár fyrir landið. Stjórnarskrárfrumvarpið var þannig samið á lýðræðislegan hátt. Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.“ - (sjá tilvitnaða grein Ragnars Aðalsteinssonar á eftirfarandi vefslóð: https://www.visir.is/g/2016160329697 )
Engin augljós merki eru um að auðlindaákvæði formanna stjórnmálaflokkanna treysti betur almannahag en auðlindagreinin sem yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda greiddi atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Þaðan af síður eru færðar á það ótvíræðar sönnur. Við svo búið er ekki ástæða til að fjölyrða um efnisatriði tillögunnar. Tillöguna verður aftur á móti að skoða almennt í ljósi þess hvernig Alþingi hefur haldið á málinu og í ljósi íslenskrar stjórnmálamenningar. Það er óhjákvæmilegt.
Formenn stjórnmálaflokka á Alþingi koma sér saman um tillögu að auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem kollvarpar grein um náttúruauðlindir í stjórnarskrá sem kjósendur hafa áður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillagan er sett í samráðsgátt stjórnvalda en formennirnir setja þann fyrirvara að þeir telji sig ekki bundna af tillögu sinni eins og hún er lögð fram. Þess hefur og hvergi orðið vart að höfundar tillögunnar hafi kveðið sér hljóðs opinberlega og útskýrt fyrir almenningi ágæti hennar umfram þá tillögu sem þjóðin samþykkti. Í þessu sambandi má rifja upp að frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar (þskj. 1577 á 145. löggjafarþingi, 2015–2016), sem þessi tillaga formannanna byggir á, var niðurstaða stjórnarskrárnefndar Alþingis. Afdrif þess frumvarps urðu þau að enginn nema Sigurður Ingi, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lagði nafn sitt við það. Aðrir flokkar sögðu sig frá því. Frumvarpið dagaði uppi. Sannfæring formanna stjórnmálaflokkanna sem smíðað hafa tillöguna sem hér er til umsagnar virðist einnig veik. Það er að vonum. Í tillögunni virðist fram kominn vilji þjóðarinnar freklega sniðgenginn.
Ofríki formanna stjórnmálaflokka og ráðherra er höfuðmein í íslenskum stjórnmálum. Vinnubrögðin og umrædd tillaga eru raunalegir vitnisburðir um það. Eiríkur Tómasson, þáverandi prófessor í stjórnlagafræðum og fyrrum hæstaréttardómari, lýsti þessu ofríki svo í byrjun stjórnarskrárferlisins eftir Hrun árið 2010:
„Valdið hefur safnast á hendur ríkisstjórnarinnar eða ráðherranna, og fyrst og fremst oddvita stjórnarflokkanna ... Stjórnmálaflokkarnir byggja völd sín á þessum miklu völdum. ... Stjórnmálamenn hafa einhverra hluta vegna, ég held af ásettu ráði, ekki viljað breyta þessu.“ - (Kastljós Sjónvarpsins, 25. nóvember 2010)
Eiríkur lýsti meinsemdinni nánar í viðtali við Egil Helgason árið 2009 þar sem rætt var um breytingar á stjórnarskrá. - (sjá eftirfarandi vefslóð: https://www.youtube.com/watch?v=KysQfauEUHo )
Eftir Hrun var kosið til stjórnlagaþings á Íslandi og síðan skipað stjórnlagaráð. Ástæða þess var ekki aðeins sú að Alþingi hafði reynst ófært um að setja landinu nýja stjórnarskrá allt frá lýðveldisstofnun. Almennt er talið óheppilegt að fela löggjafarþingi slíkt verkefni. Einn helsti sérfræðingur heims um sögu evrópskra stjórnarskráa, Jon Elster, orðar það svo:
„Þannig séð, er almennt óráðlegt að fela föstu löggjafarþingi lykilhlutverk við gerð stjórnarskrár, hvort sem er við gerð frumvarps eða staðfestingu þess, vegna augljósar hættu á stofnanalegri sjálfsþjónkun.“ - (Jon Elster, „Icelandic Constitution-making in Comparative Perspective“, í Iceland’s Financial Crisis: The Politics of Blame, Protest, and Reconstruction (ritstj. Valur Ingimundarson, Philippe Urlfalino og Irma Erlingsdóttir), Routledge, London og New York, 2016.)
Umrædd tillaga að auðlindaákvæði í stjórnarskrá ber engin merki um að markmiðið sé að fara að vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Tillagan virðist tilraun stjórnmálaflokka á Alþingi til að koma sér saman um eitthvað sem ÞEIR gætu hugsanlega sætt sig við. Sem þó er sagt alveg óvíst.
Þann 20. október verða sjö ár frá því kjósendur greiddu atkvæði um nýja og endurskoðaða stjórnarskrá. Alþingi hefur ekki enn farið að niðurstöðunni og sýnir enga tilburði til þess. Þvert á móti er sífellt reynt að sniðganga lýðræðislega niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þetta er ekki aðeins reginhneyksli heldur vitnisburður um stjórnmál og stjórnmálamenningu á háskalegum villigötum.
Það er samfélaginu lífsnauðsyn að dugandi þingmenn og stjórnmálaflokkar á Alþingi taki höndum saman og komi til varnar lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu. Forskriftina að því hvernig ljúka megi málinu er að finna í upphafi þessarar umsagnar.
Með kveðju,
Hjörtur Hjartarson (2307603309)
Um þjóðareign á auðlindum
Ekki kemur vel fram í greinargerðinni af hverju allar náttúruauðlindir ættu að vera í þjóðareign. Mörg dæmi eru um að auðlindir í einkaeigu séu nýttar af framsýni og gætni, jafnvel meiri en sams konar auðlindir sem ríkið á. Skoðum þetta nánar.
Lax- og silungsveiði hér á landi er dæmi um farsæla nýtingu á auðlind í einkaeign. Á Íslandi eiga landeigendur laxveiðiár en lög kveða á um að þeir, sem eiga veiðirétt við sömu á eða vatn, stofni félag um veiðina. Þetta fyrirkomulag hefur heppnast vel. Stangveiði á Íslandi er eftirsótt bæði hér heima og erlendis. Fyrir nokkrum árum var rætt um að einn veiddur lax á sumri þýddi eina milljón í verði veiðijarðar. Nýleg athugun bendir til þess að verðmætið sé jafnvel enn meira. Samkvæmt henni er virði íslenskra lax- og silungsveiða fyrir landeigendur rúmir 70 milljarðar króna. Ábati innlendra veiðimanna umfram kostnað við veiðina er um 100 milljarðar að núvirði samkvæmt sömu heimild. Til samanburðar má nefna að fyrir fáum árum var slegið máli á verðmæti nokkurra annarra auðlinda landsmanna:
• Fiskimið: 1.100-1.200 milljarðar króna.
• Jarðhiti til upphitunar: 200-500 milljarðar (hér vantar ábata af sundlaugum, hita í götum o.fl.).
• Fallvötn og jarðhiti til rafmagnsframleiðslu: 20-100 milljarðar (aðeins það sem þegar hefur verið virkjað, hér vantar auk þess ábata neytenda af lágu rafmagnsverði).
Þetta eru allt verðmæti umfram kostnað, en stundum er verðmæti auðlinda ruglað saman við áhrif hvers kyns atvinnustarfsemi á veltu í þjóðfélaginu. Af tölunum má ráða að verðmæti lax- og silungsveiða sé af svipaðri stærðargráðu og virði jarðhita til upphitunar og virði fallvatna og jarðhita til rafmagnsframleiðslu. Veiðimenn borga meira fyrir rétt til þess að veiða í íslenskum laxveiðiám en í veiðiám í grannlöndunum, sem eru ýmist í almenningseign eða í einkaeign. Fyrir nokkrum árum var talið að þrem sinnum dýrara væri að jafnaði að veiða í einn dag í íslenskri laxveiðiá en í skoskri á. Ágóði landeiganda á Íslandi af sölu eins veiðileyfis var talinn vera meiri en öll útgjöld laxveiðimanns í skoskri á. Þetta á sér sjálfsagt fleiri en eina skýringu, en fræðimenn þakka þetta meðal annars lögum sem gilda um veiðar í ám og vötnum á Íslandi.
Þegar frumgerð botnvörpunnar kom til sögunnar voru eigendur fjarða og annarra afmarkaðra hafsvæða við Bretland varkárari en yfirvöld sem fóru með völd á hafsvæðum í almenningseign. Botnvörpuveiðar hafa tíðkast lengi og álíka gamlar eru áhyggjur manna af því að þær spilli fiskigengd til langframa. Árið 1377 var Englandskonungi afhent áskorun um að banna veiðar með eins konar botnvörpu við landið, en hann sinnti beiðninni ekki. Náttúran fékk aðeins að njóta vafans ,,þar sem einkaaðilar áttu yfir að segja veiðisvæðunum.“ Nú er vitað að botnvarpa getur farið illa hafsbotn þar sem hann er viðkvæmur. Þetta dæmi sýnir að fólk fer stundum varlegar með eigin eign en annarra. Sjaldnast fer samt vel á því að eigendur auðlinda á landi og sjó geti ráðstafað þeim að vild. Nýting þeirra snertir oftast fleiri en eigendurna og viðskiptavini þeirra. Þess vegna er skynsamlegt að reglur gildi um meðferð á auðlindum í einkaeigu og að hún sé háð opinberum leyfum. En ekki er þar með sagt að eignarréttur á auðlindum – sem sjaldan er nema takmarkaður nýtingarréttur – sé alltaf best kominn hjá hinu opinbera.
Við þetta má bæta að stefna íslenskra stjórnvalda í nýtingu lands er um margt óljós og jafnvel mótsagnakennd. Fyrir fáum árum kom sú skoðun fram á fundi, sem ég átti með ráðuneytisstarfsmönnum, að sumar jarðir hér á landi þyrfti ríkið sennilega að eiga til þess að vernda kjarr og lyng fyrir skógrækt – sem ríkið borgar fyrir. Það er ekkert einsdæmi að eitt rekist á annað í stefnu hins opinbera um landnýtingu. Ríkisstofnanir sem vinna að gróðurvernd hafa komist upp með að reka hver sína stefnu. Afstaða Skógræktarinnar og Náttúrufræðistofnunar til skógræktar er gjörólík, eins og sjá má með því að skoða heimasíður stofnananna. Gott dæmi um andstæða stefnu ríkisstofnana í þessum efnum má sjá þegar ekið er að þjóðgarðinum í Ásbyrgi. Þegar þjóðgarðurinn var stofnaður stóðu vonir til að hann næði yfir Sandinn norður af Byrginu, enda hafði hann tilheyrt jörðinni Ási, sem Náttúruverndarráð átti. En í ljós kom að fyrri landeigendur höfðu afhent Landgræðslunni Sandinn án endurgjalds og hún vildi ekki láta hann af hendi undir þjóðgarð. Landgræðslan og Náttúruverndarráð vildu bæði græða landið en aðferðin var ólík. Landgræðslan ræktaði Sandinn með nýjum tegundum, en í þjóðgarðinum var stefnan sú að hlúa að þeim gróðri sem fyrir var. Bæði Landgræðslan og Náttúruverndarráð voru ríkisstofnanir. Hvor ætli hafi verið fulltrúi ,,íslensku þjóðarinnar“? Varla báðar, því að hér var stefnt í gagnstæðar áttir. Hinn raunverulegi eigandi virðist hér ekki vera þjóðin, heldur stofnanir ríkisins, eða öllu heldur starfsmenn þeirra. Ekki þarf að hafa mörg orð um það að það nær ekki nokkurri átt að skattpeningum sé varið til að halda uppi stofnunum sem vinna á sama sviði en hafa andstæða stefnu. En sennilega þjónar það ekki skammtímahagsmunum stjórnmálamanna að höggva á hnútinn og móta eina stefnu í þessum málum. Það mundi þýða að einhverjir embættismenn biðu lægri hlut og líkast til mundi heyrast mest í þeim í framhaldinu.
Ísland hefur verið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um verndun líffræðilegrar fjölbreytni frá 1994, en í umhverfisendurskoðun Ríkisendurskoðunar frá 2006 kemur fram að aðildin hafi til þessa haft mjög takmörkuð áhrif á íslenska löggjöf og opinbera stefnu. Lykilhugtök eins og sjálfbær landnýting og líffræðileg fjölbreytni komi nokkrum sinnum fyrir í lögum en þau séu hvergi skilgreind nákvæmlega og það skapi óvissu um túlkun og framkvæmd. Rúmur áratugur er síðan þetta var ritað og ýmislegt kann að hafa breyst á þeim tíma, en ekki verður séð að stofnanir ríkisins leggi sama skilning í lykilhugtök á þessu sviði.
Sjónarmið um atvinnu vega stundum þyngra hjá hinu opinbera en varkárni í meðferð náttúrugæða. Kringilsárrani var friðlýstur árið 1975, en friðlýsingunni var breytt árið 2003 til þess að koma fyrir virkjunarlóni vagna Kárahnjúkavirkjunar. En ofan við efsta borð Hálslóns er Raninn áfram friðaður fyrir öllu raski, að viðlagðri refsingu. Í september 2018 felldi úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 2017 um að veita tveim fyrirtækjum rekstrarleyfi fyrir 17.500 tonna ársframleiðslu af laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Norskur lax er notaður í eldinu og hætta er á að hann blandist íslenskum laxi og smiti hann af lús og annarri óværu. Taldi úrskurðarnefndin að aðrir valkostir en opið sjókvíaeldi hefðu ekki verið skoðaðir nægilega. En hér greip alþingi inn í og samþykkti lög sem beindust sérstaklega að úrskurðinum: ,,Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi getur ráðherra, að fenginni umsögn Matvælastofnunar, enda mæli ríkar ástæður með því, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða... [S]kal Matvælastofnun ekki stöðva rekstur fiskeldisstöðvar fyrr en fyrir liggur hvort sótt verði um rekstrarleyfi til bráðabirgða.“ Samþykkir voru 45, 6 greiddu ekki atkvæði, en 12 voru fjarstaddir.
Þetta má taka þannig saman:
- Opinbert eignarhald er ekki skilyrði fyrir farsælli nýtingu náttúruauðlinda.
- Stefna ríkisins í nýtingu lands er oft og tíðum óljós og mótsagnakennd.
- Ríkið fylgir ekki eftir alþjóðasamningum um náttúruvernd sem það hefur gengist undir.
- Ríkið virðir ekki eigin friðanir eða lög, sem eiga að tryggja varkárni í meðferð náttúruauðlinda, þegar það rekst á sjónarmið um atvinnu.
Í þessu ljósi virðist brýnna að ríkið skýri stefnu sína um nýtingu og varðveislu náttúruauðlinda en að það lýsi ævarandi eignarhaldi sínu á þeim.
Reykjavík, júní 2019,
Sigurður Jóhannesson,
Víðihlíð 20, 105 Reykjavík,
sjz@hi.is , gerð er grein fyrir heimildum í viðhengi.
ViðhengiSjá meðfylgjandi umsögn Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga.
ViðhengiÞorkell Helgason (kt. 021142-4259)
Strönd, 225 Álftanesi
Til forsætisráðuneytisins
Efni: Um drög að frv. til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands, dags. 10. maí 2019.
Vísað er til þeirra draga sem birt eru í „Samráðsgátt“, en þar kemur fram að drögin séu tillaga formanna þeirra flokka er nú eiga sæti á Alþingi.
Í greinargerð með þessum frumvarpsdrögum er tekið fram að ákvæðið sé byggt á frumvarpi sem þáverandi stjórnarskrárnefnd skilaði til forsætisráðherra í júlí 2016 (sbr. frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, þskj. 1577 á 145. löggjafarþingi, 2015 - 2016).
Undirritaður gerði á sínum tíma (6. mars 2016) athugasemd við það frumvarp (þá enn í drögum) og leyfir sér því nú að endursenda þessar athugasemdir en nú með breytingum eðli samkvæmt; sjá viðhengi. . Þar sem ekki er ljóst hvort og hvernig viðhengin birtast í samráðgáttinni fylgir hér samantekt úr þessum athugasemdum undirritaðs:
Samantekt
• Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
• Lýst er áhyggjum af því hvað „einkaeignarréttur“ nákvæmlega þýðir; hvort tryggt sé að þjóðareignir geti ekki orðið að einkaeignum með hjálp þessa hugtaks.
• Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
• Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum. Sum atriði í greinargerð vekja upp efasemdir.
• Það veldur verulegum áhyggjum að ákvæði um gjaldtöku fyrir afnotaheimildir gefur engar vísbendingar um hvers eðlis gjaldtakan skuli vera. Þá er spurt hvaða afleiðingar það kunni að hafa að krafa um gjaldtöku þurfi aðeins að taka til nýtingar í svokölluðu ábataskyni.
• Þess er saknað að hið ráðgerða stjórnarskrárákvæði nái ekki til annarra almannagæða en aðeins náttúrurauðlinda.
• Sérstaklega er krafist svara við því hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda kvótakerfi í sessi og það ásamt með rýrum veiðigjöldum. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu vorið 2015.
• Í heild hljómar hið ráðgerða ákvæði sem snotur viljayfirlýsing en með rýru efnislegu innihaldi. Því leyfir undirritaður sér að stinga upp á lágmarks skerpingu ákvæðisins þannig að eitthvað verði hönd á festandi.
Rétt eins og í þessari fyrri umsögn skal enn bent á að tillögur stjórnlagaráðs frá sumri 2011 eru eini grundvöllur að stjórnarskrárbótum sem hefur hlotið beina lýðræðislega umfjöllun. Tillögur ráðsins fengu mikinn stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 þar sem tveir þriðju hlutar þeirra sem afstöðu tóku lýstu stuðningi við að tillögurnar skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Virðingarfyllst,
27. júní 2019,
Þorkell Helgason
(sign.)
Viðhengi: Athugasemdir Þorkels Helgasonar við drög 2019 að stjórnarskrárákvæði um auðlindir.pdf
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga
ViðhengiÉg geri hér nokkrar athugasemdir við frumvarpið. Ég hef í allmörg ár unnið að þróun nýrrar tækni til nýtingar á sjávaarfallaorku, en hún er að öllum líkindum umfangsmesta orkuauðlindin hérlendis. Nýting hennar verður í framtíðinni mun veigameiri en nýting vatnsfallaorku og jarðhitaorku. Mikilvægt er að sú auðlind, sem og aðrar sem ekki eru í ótvíræðri einkaeigu, verði með stjórnarskrárákvæði staðfest sem óumdeild eign þjóðarinnar til allrar framtíðar, með orðalagi sem ekki er unnt að rangtúlka í þágu sérhagsmuna. Fyrirliggjandi frumvarp er um margt meingallað og virðist samið með það fyrir augum að viðhalda þeim forréttindum sem vissir aðilar hafa nú, varðandi nýtingu og arð af þjóðarauðlindum. Ég geri eftirfarandi athugasemdir og tillögur:
1. Röng aðferð við stjórnarskrárbreytingar. Stjórnarskrá Íslands er sáttmáli sem þjóðin gerir með sér um grundvöll þjóðfélagsins og á henni skal lagasetning Alþingis byggjast. Breytingar sem gerðar eru á stjórnarskránni þurfa því að gerast með sem beinustum hætti, þannig að þjóðin kjósi sérstaklega þá aðila sem semja tillögur að breytingunum. Þetta var gert fyrir fáeinum árum, með því að þjóðin kaus sérstakt stjórnarskrárþing. Stjórnarskrá sú sem það samdi var því það plagg sem með réttu hefði átt að leggja fyrir þjóðina í kosningum. Meirihluti alþingismanna, sem kjörnir eru til annarra verkefna, tók sér það hinsvegar fyrir hendur að spilla þessu ferli á allan hátt og hrifsaði sér umboðslaust þau völd að semja eigin drög að stjórnarskrá. Þau drög eru ekki heildstæð og samræmd, líkt og tillögur hins sérkjörna stjórnarskrárþings, heldur bútasaumur þar sem einstökum bitum er kastað fyrir þjóðina til umsagnar; líkt og hér er gert. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg, og geta alls ekki talist eðlilegt ferli við stjórnarskrárbreytingar. Stjórnarskrárbreytingar mega ekki stjórnast af sjónarmiðum einstakra stjórnmálaflokka og valdahópa samfélagsins. Stjórnarskrá sem verður til með þessum hætti er stjórnarskrá valdamikilla íslenskra stjórnmálaflokka en ekki stjórnarskrá þjóðarinnar; jafnvel þó hún verði samþykkt í kosningum.
2. Loðið orðalag viðheldur óeðlilegum forréttindum og ójöfnuði varðandi notkun og arð auðlinda. Í frumvarpinu segir: "Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni". Með þessu er ekki sagt að þjóðin eigi auðlindirnar heldur eru þær á óljósan hátt tengdar henni. T.d. mættu kvótaeigendur fiskveiða áfram halda fengnum forréttindum, með því að selja fiskinn undir íslenskum fána. Þessi setning þarf að orðast þannig: "Auðlindir í náttúru Íslands eru eign íslensku þjóðarinnar".
Í næstu málsgrein segir: "Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota". Fljótt á litið gæti hér virst um afdráttarlaust orðalag að ræða, en í raun er hér klókindalega farið að því að tryggja núverandi kvótaeigendum varanlegan eignarrétt á fengnum fiskveiðikvótum. Kvótaeigendur hafa haldið því fram að í raun sé kvótinn þeirra eign og að upptaka hans sé þjófnaður á þeirra eignum; líkt og það að jarðeignir séu teknar af jarðeigendum. Þeir munu því vafalaust nýta sér þessa smugu í orðalaginu; ..."sem ekki eru háð einkaeignarrétti...", og leita staðfestingar dómstóla á að þeir eigi þessar veiðiheimildir varanlega. Kvótaeigendur eiga sterk ítök í stærsta stjórnmálaflokki landsins og má ætla að þetta loðna orðalag sé vísvitandi sett í frumvarpið fyrir hans tilstilli og með þeirra hagsmuni í huga.
Óviðunandi er að þannig sé viðhaldið forréttindum og illdeilum varðandi auðlindir þjóðarinnar. Gerð er krafa um skýrt orðalag sem tryggir ótvíræðan eignarrétt þjóðarinnar. Það má t.d. gera á einfaldan hátt með því að önnur málsgrein hefjist þannig:
"Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru í þinglýstri einkaeigu eru þjóðareign".
3. Arðsemi þjóðarauðlinda. Í frumvarpinu er hvergi að finna ákvæði um að þjóðarauðlindir skuli nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina, eða að þjóðin skuli njóta sanngjarnrar hlutdeildar í arðsemi þeirra. Síðasta setningin hljóðar svo: "Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni". Þarna er ekkert sagt um að gjaldið skuli renna til ríkissjóðs eða annarra sameiginlegra þarfa. Það gæti allt eins runnið aftur til notenda auðlindanna í einhverju formi. Nauðsynlegt er að kveða afdráttarlaust að orði, t.d. með þessari viðbót: "Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni, og skal þjóðin njóta sanngjarns arðs af notkun auðlinda sinna".
4. Umhverfismál og sjálfbærni. Allt of lítil áhersla er á það atriði sem í flestra augum er eitt meginatriði auðlindanýtingar nú á dögum, en það er raunveruleg sjálfbærni og umhverfisvernd. Aðeins ein setning minnir lítillega á þetta í frumvarpinu; "Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun". Hugtakið "sjálfbær þróun" er mjög teygjanlegt; "...þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika síðari kynslóða til að mæta þörfum sínum". Í skjóli þeirrar túlkunar hafa t.d. orkufyrirtæki sökkt stórum landsvæðum undir vatn og valdið óafturkræfum spjöllum á náttúru landsins til að geta selt orku til stóriðjuvera. Slíkt ofbeldi gagnvart náttúru landsins verður að stöðva með þessu stjórnarskrárákvæði um auðlindanýtingu. Í augsýn eru aðrar og umhverfisvænni orkulausnir, t.d. með þeirri nýtingu sjávarfallaorku sem ég vinn nú að. Tryggja þarf að við nauðsynlega orkuvinnslu sé ávallt gætt fyrst og fremst að varðveislu umhverfis og að náttúruverndarsjónarmið vegi þyngra en arðsemissjónarmið og sérhagsmunir. Því legg ég til að fyrsta málsgrein endi á þessum setningum:
"Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Við auðlindanýtingu skulu umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi; leitað leiða sem minnst raska umhverfi og virtir alþjóðasamningar varðandi umhverfisvernd".
5. Skilgreiningar. Ég velti því hér upp að í þessu frumvarpi er hvergi að finna skilgreiningu á heitinu "auðlind". Út frá því virðist gengið að það eigi við fiskveiði og orkuöflun eingöngu, og e.t.v. jarðefni. Hinsvegar liggur það fyrir að auðlindir þjóðarinnar eru mun víðtækari en það. Má þar t.d. nefna atorku og hugvit landsmanna og náttúrufegurð, sem einnig eru og verða "söluvara". Býst ég við að hér sé út frá því gengið að allir leggi sama skilning í orðið. Hinsvegar er það ljóður á lagasetningu almennt að skilgreiningar vantar, og gildir það einnig um stjórnarskrána. Ég vakti athygli á þessu við nýafstaðið Alþingi, í tegslum við lög um "siðferði í vísindum", þar sem skilgreiningu vantaði algerlega á viðfangsefninu. Ekkert var á það hlustað fremur en annað sem almenningur kvakar í fílabeinsturni þingmanna. Ég tel nauðsynlegt að í þessum kafla verði hugtök skilgreind; a.m.k. hugtakið "auðlind".
Góðan dag,
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands.
f.h. SA,
Heiðrún Björk Gísladóttir
ViðhengiUmsögn mín um drög að auðlindaákvæði er hér í viðhengi.
ViðhengiUmsögn um drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands
Dr. Níels Einarsson
Álfabyggð 8
Akureyri
Tillagan að nýju ákvæði hljóðar á eftirfarandi hátt:
Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.
Undirritaður hefur áður skilað inn umsögnum um frumvarp fyrri ríkisstjórnar nr. 415 til nýrra stjórnskipunarlaga (http://www.althingi.is/altext/141/s/pdf/0510.pdf). Það frumvarp byggði að miklu leyti á tillögum Stjórnlagaráðs (sjá http://www.stjornlagarad.is/) en hafði einnig orðið fyrir nokkrum breytingum í meðferð sérstakrar sérfræðinganefndar lögfróðra einstaklinga (sjá http://www.althingi.is/pdf/skilabref_fylgiskjol.pdf) . Annarri umsögn var skilað inn vegna frumvarps stjórnarskrárnefndar í júlí 2016. Texti frumvarpanna hefur tekið nokkrum breytingum en er þó í meginatriðum samstofna og því er hægt að setja fram svipaða gagnrýni sem í þessari umsögn beinist sérstaklega að eignarhaldi á nytjastofnum í hafi.
Við hraðan lestur greinarinnar virðist sem að yfirráð og eignarréttur þjóðarinnar á mikilvægustu náttúruauðlindum sé tryggður. Þetta myndi vera í samræmi þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór 20. október 2012, þar sem mikill meirihluti þeirra sem þátt tóku voru sammála eftirfarandi orðum: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“ Í núverandi drögum er orðalagið breytt og hljómar: „Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign.“ Í fljótu bragði er hér ekki endilega mikill munur, kannski tilraun til lagatæknilegrar nákvæmni, en að mörgu leyti er þarna horfið frá almennum málskilningi og orðavali. Flest fullorðið íslenskumælandi fólk veit hvað orðin „í einkaeigu“ þýða en væntanlega gera sér fæstir skýra grein fyrir merkingu orðalagsins „háðar einkaeignarétti.“ Í þjóðaratkvæðagreiðslu var ekki kosið um síðarnefnda orðalagið heldur það fyrra, sem kom frá stjórnlagaráði. Orðalagið skiptir hins vegar máli.
1. Hér vantar skýra hugsun um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ótvíræðri meginreglu. Orðalag um undantekningar sem tengjast auðlindum og sem eru „háðar einkaeignarrétti“ veikir grundvallarprinsippið. Það er óskýrt og kallar á dómsmál og úrskurð dómsstóla. Hér þyrfti orðalag sem er skýrt og ótvírætt en ekki háð túlkun. Slíkri ótvíræðri merkingu mætti ná fram með því að nota ákveðnara orðalag upprunalegrar tillögu Stjórnlagaráðs.
2. Tvíræðni orðalagsins kemur fyrst í ljós þegar farið er að lesa skýringar og athugasemdir með drögunum. T.d. verður ekki séð að gert sé ráð fyrir breytingum varðandi stöðu fiskveiðiréttinda frá því sem nú er. Veðsetning bókfærðra veiðiheimilda heldur sér væntanlega og þá vegna þess að ekki er ljóst að nytjastofnar séu sameign þjóðarinnar heldur allt eins náttúruauðlindir sem háðar séu einkaeignarrétti.
3. Ekki verður annað séð en að svokölluð nýtingarleyfi verði viðurkennd sem óbein eignarréttindi og breytingar á verðmæti þeirra, væntanlega einnig í tengslum við veðsett eða fjármálaafurðavædd og bókfærð veiðiréttindi, baki skaðabótaábyrgð og geta fullar bætur frá stjórnvöldum/þjóðinni komi til við röskunar, upptöku eða fyrningu, líkt því sem mælt var fyrir um í áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í máli 1306/2004. Þetta fyrirkomulag stuðlar væntanlega að því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem byggir á framseljanlegum einstaklingsbundnum aflaheimildum og markaðsvæðingu veiðiréttinda, haldist í lítt breyttri mynd. Hafa má í huga að stjórnvöld, í því skyni að koma til móts við harða gagnrýni Mannréttindanefndarinnar á ójafnræði við fyrirkomulag íslenskrar fiskveiðistjórnunar, gáfu það út skömmu eftir Hrun að til stæði að nýtt auðlindaákvæði myndi tryggja nauðsynlegar breytingar.
4. Samkvæmt þessum skilningi mun ný stjórnarskrá hugsanlega verja rétt núverandi handhafa veiðiheimilda til að fara með úthlutuð veiðiréttindi sem ígildi einkaeignar eða auðlindar sem háð er einkaeignarétti.
5. Það má hafa miklar efasemdir um að drög þessi nái að stuðla að sáttum eða farsælum lyktum þeirra djúpstæðu deilna sem staðið hafa um áratuga skeið á Íslandi um réttmæti, réttlæti, jafnræði og lögmæti þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem hleypt var af stokkunum 1984.
6. Í lagaskýringum kemur oftar en einu sinni fyrir sá skilningur og fyrirvari að ekki sé gert ráð fyrir þau óbeinu eignarréttindi sem þegar hafa stofnast raskist. Hér vaknar sú spurning hvort að þetta hafi verið skilningur stjórnlagaráðs og mikils meirihluta kjósenda í kosningum um tillögur ráðsins þann 24 . október 2012. Með þessari túlkun, sem dómsstólar munu væntanlega styðjast við í niðurstöðum dóma, er vel hugsanlegt að það fyrirkomulag sem í daglegu máli er nefnt „kvótakerfið“ haldist nánast óbreytt til framtíðar með vernd viðkomandi stjórnarskrárákvæðis.
Þessi drög, með hliðsjón af greinargerð og athugasemdum með greininni, tryggja ekki þjóðareign á mikilvægustu náttúruauðlindum heldur gætu fest í sessi nýtingarrétt með ígildi einkaeignarréttar og þar með veðsetningareiginleika og erfðaréttar þeirra veiðiheimilda sem þegar er úthlutað árlega til hóps handhafa aflaheimilda á Íslandi. Þá væri farin sú leið að stjórnskrárverja gríðarleg sérréttindi fámenns hóps til langs tíma. Þannig er einnig opnað á að fullar bætur komi fyrir upptöku aflaheimilda eða aðrar breytingar á fiskveiðistjórnun sem hafa áhrif á verðmæti eða eðli lögvarins nýtingarréttar.
Þó að hugtakið sjálfbær þróun sé nú að finna í drögunum verður ekki séð að það taki nægilega til hagsmuna almennings og jafnaðar milli og innan kynslóða. Það má einnig spyrja sig hvers vegna sé aftur vitnað til áróðursrita fyrir einkavæðingu sameiginlegra náttúruauðlinda hafsins þegar rætt er um grundvallarforsendur fullnægjandi auðlindastýringar. Er slík hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar faglegt leiðarljós þeirra sem að málinu standa? Það eru vonbrigði að þeir sem sömdu tillöguna skuli ekki hafa borið sig eftir alþjóðlegri og fræðilegri umræðu varðandi haldbæra auðlindastjórnun þar sem einkavæðingarstefna í tengslum við fiskveiðistjórnun hefur verið greind og gagnrýnd (sjá heimildalista).
Drögin bera þess merki að vera málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Það er varla farsælt að við skilning slíks grundvallartexta skuli lesandi sífellt þurfa að rýna í smáa letrið, sem í raun skilgreinir endanlega merkingu ákvæðanna, til að átta sig á hvað eiginlega er átt við.
30.06.2019
Dr. Níels Einarsson
Heimildalisti:
Acheson, J., S. Apollonio, and J. Wilson (2015). Individual transferable quotas and conservation: a critical assessment. Ecology and Society 20(4): art. 7.
Bromley, D. W. (2009). Abdicating responsibility: the deceits of fisheries policy. Fisheries 34(6), 280-290.
Cardwell, E. and R. Gear (2013). Transferable quotas, efficiency and crew ownership in Whalsay, Shetland. Marine Policy 40:160–166.
Carothers, C. and C. Chambers (2012). Fisheries privatization and the remaking of fishery systems. Environment and Society: Advances in Research 3:39-59.
Degnbol, P., H. Gislason, S. Hanna, S. Jentoft, J. Nielsen, S. Sverdrup-Jensen, and D.C. Wilson (2005). Painting the floor with a hammer: Technical fixes in fisheries management, Marine Policy, doi:10.1016/jmarpol.2005.07.002.
Durrenberger, E.P. and Pálsson, G. (2014). Gambling debt: Iceland’s rise and fall in the global economy. Boulder: Colorado University Press.
Einarsson, N. (2011). Culture, Conflict and Crises in the Icelandic Fisheries. An Anthropological Study of People, Policy and Marine Resources in the North Atlantic Arctic. Uppsala: University of Uppsala Press.
Essington, T. E., M. C. Melnychuk, T. A. Branch, S. S. Heppell, O. P. Jensen, J. S. Link, S. J. D. Martell, A. M. Parma, J. G. Pope, and A. D. M. Smith. (2012). Catch shares, fisheries, and ecological stewardship: a comparative analysis of resource responses to rights-based policy instrument, Conservation Letters 5:186-195.
Gilmour, P.W., Day, R.W. and Dwyer, P.D. (2012). Using private rights to manage natural resources: is stewardship linked to ownership? Ecology and Society 17(3):1.
Jentoft, S. and A. Eide eds. (2011). Poverty Mosaics: Realities and Prospects in Small-Scale Fisheries. Dordrecht: Springer.
McCay, B.J. (2004). ITQs and Community: An Essay on Environmental Governance, Review of Agricultural and Resource Economics 33:162-170.
McCormack, F. (2012). The Reconstitution of Property Relations in New Zealand Fisheries, Anthropological Quarterly 85(1):171-201.
McCormack, Fiona. 2017. Private Oceans: The Enclosure and Marketisation of the Seas, London: Pluto Press.
Pinkerton E (2017) Hegemony and resistance: Disturbing patterns and hopeful signs in the impact of neoliberal policies on small-scale fisheries around the world. Marine Policy 80:1-9
Pinkerton, E. and R. Davis. (2015). Neoliberalism and the politics of enclosure in North American small-scale fisheries, Marine Policy 61:303-312.
Schriewer, K. and T. Højrup, T. (2012). European Fisheries at a Tipping Point. Murcia: Universidad de Murcia, Editum.
Oran R. Young, D. G. Webster, Michael E. Cox, Jesper Raakjær, Lau Øfjord Blaxekjær, Níels Einarsson, Ross A. Virginia, James Acheson, Daniel Bromley, Emma Cardwell, Courtney Carothers, Einar Eythórsson, Richard B. Howarth, Svein Jentoft, Bonnie J. McCay, Fiona McCormack, Gail Osherenko, Evelyn Pinkerton, Rob van Ginkel, James A. Wilson, Louie Rivers III, and Robyn S. Wilson. Moving beyond panaceas in fisheries governance. (2018). Proceedings of the National Association of Sciences (PNAS) September 11, 2018 115 (37) 9065-9073; first published August 23, 2018 https://doi.org/10.1073/pnas.1716545115
ViðhengiUmsögn Stjórnarskrárfélagsins um tillögu formanna stjórnmálaflokka á Alþingi að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Mál nr. S-128/2019:
Stjórnarskrárfélagið telur sér rétt og skylt að bregðast við þeirri tillögu sem hér er til umsagnar. Í lögum félagsins segir m.a. að tilgangur þess sé að vekja umræðu um stjórnarskrármál og fá sem flesta til að sækja og verja rétt þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa. Einnig segir að markmið félagsins sé að grundvallarréttur þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa sé virtur. Vill félagið nota tækifærið og árétta mikilvægi þess að þingheimur geri sér fulla grein fyrir því að það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn en ekki þingið, þrátt fyrir að Alþingi fari með formlegt vald til að breyta stjórnarskrá landsins.
Endurskoðun stjórnarskrárinnar hófst árið 2009 og lauk haustið 2012 þegar Alþingi kallaði þjóðina á kjörstað. Tillögur að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá hlutu þar afgerandi brautargengi. Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur með öðrum orðum þegar farið fram og verið samþykkt, enda sögðust 2/3 hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni vilja að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Hér er mikilvægt að árétta að það að hafa drög stjórnlagráðs “til hliðsjónar” er ekki það sama og að leggja þau “til grundvallar” og í því felst stærsta vandamálið við þá tillögu sem hér er til umsagnar. Þrátt fyrir að greina megi að eitthvað af orðalagi sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 hafi ratað inn í tillögur formannanefndarinnar, er ljóst að þar liggur ekki til grundvallar 34. gr. frumvarpsins eins og það var samþykkt. Þannig er, að mati Stjórnarskrárfélgsins, ekki farið eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem er afar alvarlegur ágalli á þeim tillögum sem um ræðir.
Rétt er að minna á að á þjóðfundinum 2010 kom fram skýr krafa um að fjallað yrði um auðlindir í náttúru Íslands í stjórnarskrá og að nýting þeirra yrði með sjálfbærum hætti og til hagsbóta þjóðinni allri:
„Náttúruauðlindir hvort heldur í lofti, láði eða legi, skuli skilgreina sem „eign þjóðarinnar“. Reglur um nýtingu auðlinda verði skýrar og horfi til komandi kynslóða og arður af nýtingu auðlinda renni að meginhluta til þjóðarinnar.“ (1)
Einnig er rétt að rifja upp að í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 var sérstaklega spurt um afstöðu kjósenda til auðlindaákvæðis þar sem náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu yrðu lýstar þjóðareign, en 82,9% voru því fylgjandi. (2)
Hafið er yfir allan vafa að stærstur hluti þjóðarinnar er fylgjandi stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareigu. Hins vegar getur félagið ekki stutt þá tillögu sem hér liggur fyrir til umsagnar. Tillagan víkur í veigamiklum atriðum frá þeirri auðlindagrein sem samin var í víðtæku samráði við almenning af stjórnlagaráði, sem var skipað almennum borgurum er höfðu það verkefni eitt að semja Íslandi nýja og endurskoðaða stjórnarskrá. Kjósendur tóku afgerandi afstöðu 2012 og ekki er fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að breytingarnar sem tillagan felur í sér séu nauðsynlegar eða til bóta. Ennfremur vekur furðu fyrirvari sem formenn flokkanna setja um að þeir muni styðja sína eigin tillögu eins og hún liggur fyrir. Í því ljósi má efast um að hugur allra flokka sem aðild eiga að þessum tillögum fylgi máli. Síðan 1962 hefur Alþingi reglulega haft til umfjöllunar ýmsar tillögur um auðlindaákvæði í stjórnarskrá en aldrei lukkast að samþykkja orðalag slíks ákvæðis. Þeim mun erfiðara er að skilja að nú skuli komin fram tillaga sem ekki er efnislega samhljóða því sem kjósendur lýstu sig fylgjandi í lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Félagið hvetur til að Alþingi taki upp heillavænlegri viðhorf og vinnubrögð. Jafnframt er varað við bútasaumi á eldri stjórnarskrá sem á sínum tíma var samþykkt til bráðabirgða með fyrirheiti allra flokka á Alþingi um gagngera heildarendurskoðun. Síðan eru liðin 75 ár! (3).
Stjórnarskrárfélagið hefur á undanförnum mánuðum heimsótt alla þingflokka á Alþingi sem sinntu ósk stjórnar félagsins um fund. Þar voru meðal annars kynnt fyrir þingflokkunum lýðræðisleg skilyrði sem hljóta að gilda við lúkningu málsins. Það er, það skylduverkefni Alþingis að lögfesta efnislega tillögur að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá sem yfir 2/3 hlutar kjósenda samþykktu í lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar með talin auðlindagrein tillagnanna. Fyrsta lýðræðislega skilyrðið er að tillögurnar sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni séu höfuðviðfangsefnið, grundvöllurinn, en ekki aðeins hafðar til hliðsjónar ásamt öðru. Þannig verður það að vera ef markmiðið er að festa í lög stjórnarskrá fólksins, sem víðtæk sátt ríkir um meðal almennings. Þjóðin er ekki að kalla eftir stjórnarskrá stjórnmálaflokkanna eftir að hafa samið sér sína eigin stjórnarskrá.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður og félagi í Stjórnarskrárfélaginu, fylgdi stjórn félagsins í nefndum heimsóknum til þingflokkanna. Hann hefur lýst þeim vegvísi sem Alþingi ber að virða:
„Ákvæði Stjórnlagaráðs var samið af óháðum og sjálfstæðum fulltrúum, sem þjóðin hafði til þess kjörið, og Alþingi svo skipað eftir ógildingu Hæstaréttar á grundvelli formsatriða. Ráðið vann verkefnið fyrir opnum tjöldum og tók sjónarmiðum almennings opnum örmum og gaumgæfði þau. Ráðsmenn komust að sameiginlegum niðurstöðum um efni og orðalag nýrrar stjórnarskrár fyrir landið. Stjórnarskrárfrumvarpið var þannig samið á lýðræðislegan hátt. Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.“ (4)
Tilvitnuð orð voru höfð um tillögu stjórnarskrárnefndar Alþingis árið 2016. Tillagan sem hér er til umsagnar er unnin upp úr þeirri tillögu, en um hana náðist ekki samstaða á Alþingi og hún dagaði uppi.
Sem dæmi um verri rétt þjóðarinnar í þessu auðlindaákvæði miðað við drög stjórnlagaráðs má nefna:
• Tekin er út setningin: “Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra”. Stjórnarskrárfélagið vísar í umsögn Landverndar, stærstu náttúruverndarsamtaka Íslands, hvað varðar alvarleika þess að ábyrgð á auðlindum sé ekki falin stjórnvöldum en slíkt er lykilatriði fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu.
• Upptalning sem skýrir hvaða merkingu orðið náttúruauðlind hefur er fallin á brott og með því opnast mun meiri túlkunarvandi á því hvaða náttúrugæði skuli falla undir ákvæðið.
• Skilyrði um að afnot og hagnýtingu auðlinda skuli heimil gegn „fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn“, hefur verið fellt út úr tillögunum sem hefur augljós áhrif á þá miklu hagsmuni almennings að arður auðlindanna renni að meginhluta til þjóðarinnar, líkt og kallað var eftir á þjóðfundinum.
• Fellt hefur verið út orðalag um að hagnýtingarleyfi skuli aldrei leiða til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Stjórnarskrárfélagið gerir efnislega sömu almennu athugasemdir við tillögu að umhverfisverndarákvæði í samráðsgátt. Í tillögu formannanefndar um umhverfisverndarákvæði stjórnarskrár hefur gríðarlega mikilvægum atriðum á borð við "rétt náttúrunnar" og "upplýsingar um umhverfi og málsaðild" (sbr. 35. gr. draga stjórnlagaráðs) verið sleppt. Með þeim breytingum er um að ræða afturför frá tillögu stjórnlagaráðs sem verður ekki við unað. Það að ekki sé kveðið á um sjálfstæðan úrskurðarétt vegna ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, þýðir að þriðju stoð Árósarsamningnsins er viljandi ekki veitt stjórnarskrárvernd. Slík ákvörðun er grafalvarleg í ljósi þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands sem enn eru óefndar hvað þessa stoð varðar.
Félagið áréttar einnig allar fyrri umsagnir sínar og athugasemdir varðandi bæði auðlindaákvæði og umhverfisverndarákvæði, að svo miklu leyti sem við á.
Sjö ár eru brátt liðin frá því þjóðin gekk til atkvæðagreiðslu um nýja og endurskoðaða stjórnarskrá. Enn hefur hún ekki verið lögfest. Það er dapurlegur vitnisburður um stöðu lýðræðis á Íslandi og um getu Alþingis til að virða rétt þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa. Ef tekin verða upp heilbrigð og lýðræðisleg vinnubrögð má ljúka málinu á skömmum tíma. Til þess þarf hugrekki og skorar félagið á Alþingi að standa saman um að ljúka málinu með sæmd og í fullu samræmi við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2012.
Virðingarfyllst,
stjórn Stjórnarskrárfélagsins
1. Skýrsla stjórnlaganefndar, fyrra bindi, bls. 75:
http://www.stjornlagarad.is/other_files/stjornlagarad/skyrsla-stjornlaganefndar/skyrsla_stjornlaganefndar_fyrra_bindi.pdf
2. https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Ej%C3%B3%C3%B0aratkv%C3%A6%C3%B0agrei%C3%B0sla_um_till%C3%B6gur_stj%C3%B3rnlagar%C3%A1%C3%B0s
3. Tjaldað til einnar nætur. Uppruni bráðabirgðastjórnarskrárinnar. Guðni Th. Jóhannesson. Stjórnmál og stjórnsýsla, 7. árg. 2011, bls. 66: https://skemman.is/bitstream/1946/9655/3/a.2011.7.1.4.pdf
4. Náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Grein eftir Ragnar Aðalsteinsson, Fréttablaðið 23. mars 2016, bls. 19: https://www.visir.is/g/2016160329697
Ágæti viðtakandi,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) um drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Sama umsögn verður send um drög að stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd.
Ég væri þakklátur fyrir staðfestngu á móttöku.
Bestu kveðjur
F.h. Samtaka ferðaþjónustunnar
Gunnar Valur Sveinsson
ViðhengiTil Samráðsgáttar – opins samráðs stjórnvalda við almenning.
Heil og sæl.
Sem íslenskum ríkisborgara er mér umhugað að auðlindir landsins séu þjóðareign. Mér er það mikilvægt sem kjósanda að niðurstaða þjóðaratkvæðis sé virt. Því er ég því fylgjandi að auðlindaákvæðið sem kosið var um árið 2012 og samþykkt í ráðgefandi kosningu verði notað í nýrri stjórnarskrá.
--
Röksemdir:
1. Íslenska þjóðin er búin að samþykkja með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 ákvæðið eins og Stjórnlaganefnd lagði það fram. Þjóðaratkvæði ber að virða.
2. Uppástungan að auðlindaákvæði, sem nú er borin á borð fyrir alþjóð, er óljós og ónákvæm. Slíkt hentar vel þeim öflum, sem leggja áherslu á einkaeign fremur en sameign. Óljós og snubbótt lagagrein er auðveldar að sniðganga eða breyta til þess að koma auðlindunum í einkaeigu. Tillaga Stjórnlagaráðs frá 2012 er mun skýrari og afdráttarlausari en sú nýja.
3. Í nýju uppástungunni bera stjórnvöld enga ábyrgð á vernd auðlinda. Í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2012 segir: „Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra.‟ - Ekkert samsvarandi ákvæði er að finna í uppástungunni sem nú er borin fram.
4. Hvað þýðir orðið „einkaeignarréttur“? Hver vegna ætti slíkt orð að vera sett í stjórnarskrá? Þetta orð vekur grunsemdir um heilindi að baki nýju uppástungunni að auðlindaákvæði.
Virðingarfyllst,
Ásdís Thoroddsen (kt. 260259-5129)
Bergstaðastræti 28A, 101 R.
Í viðhengi er umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands.
Viðhengi