Samráð fyrirhugað 10.05.2019—30.06.2019
Til umsagnar 10.05.2019—30.06.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 30.06.2019
Niðurstöður birtar 14.09.2021

Drög að stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd

Mál nr. 129/2019 Birt: 10.05.2019 Síðast uppfært: 14.09.2021
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Tillögurnar urðu hluti af frumvarpi forsætisráðherra til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi, 466. mál.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 10.05.2019–30.06.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.

Málsefni

Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskránni og nú eru birt til samráðs tvö ný ákvæði, um umhverfisvernd og um auðlindir náttúru Íslands.

Eftirfarandi var fært til bókar á fundi formanna flokkanna 10. maí 2019:

„Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar hafa ýmis ákvæði komið til skoðunar. Vinna við þessi tvö frumvörp sem hér eru birt til samráðs er nú komin það langt áleiðis að rétt er að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þeirra í samráðsgátt stjórnvalda.

Áréttað er að birting í samráðsgátt á þessu stigi felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi.

Einnig er vakin athygli á því að samráðsgátt stjórnvalda er einungis eitt af þeim verkfærum sem nýtt verða til samráðs við almenning. Fram undan er frekara almenningssamráð um önnur mál, m.a. með rökræðukönnun sem lagt er til að verði síðar á þessu ári.“

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Anna Sofia Kristjánsdóttir - 11.05.2019

Í tillögunni kemur fram texti "..náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkarétti.." Þennan texta þarf að skilgreina betur. Skipulagsyfirvöld þurfa að geta haft völd til að gæta almanna hagsmuna fram fyrir einkahagsmuni ef einkahagsmunir eru á skjön við almanna hagsmuni.

Þetta þarf að koma skýrt fram í lögum sérstaklega um náttúruvernd og náttúruauðlindir.

Afrita slóð á umsögn

#2 Sigurður Hreinn Sigurðsson - 13.05.2019

Það ákvæði um umhverfisvernd sem hér er óskað eftir viðbrögðum við er að mörgu leyti frábrugðið sambærilegum ákvæðum sem lögð voru til grundvallar í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu stuðningi við. Því er eðlilegt að skoða hvort breytingarnar séu til að mæta nýjum áskorunum eða ekki. Einnig hlýtur að teljast eðlilegt að skoða ákvæðið m.t.t. þeirra gríðarlegu loftlagsbreytinga sem breyta munu lífríkinu á jörðinni og jafnvel rústa stórum hluta þess. Ísland hefur undirritað alþjóðlegar skuldbindingar í þessu sambandi og við hljótum að ætla að standa við þær. Æskilegt væri að umhverfisákvæði í stjórnarskránni endurspegli þann metnað og marki stefnu til framtíðar. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni stjórnvalda og fólksins í landingu að láta ekki næstu kynslóðir sitja uppi með allar afleiðingar þess einnota kúltúrs sem hefur viðgengist lengi og augljóslega þarf að afnema með markvissum aðgerðum. Mikill ferðamannastraumur til landsins hefur auk þess skapað mikinn ágang og haft slæmar afleiðingar á umhverfi og náttúru.

Hvergi í tillögunni er að finna nokkra tilvísun til þeirra þátta sem mest eru aðkallandi nú á 21. öldinni, að minnka verulega útstreymi gróðurhúsalofttegunda og að fyrirbyggja notkun efna sem skaðleg eru fyrir vistkerfið, s.s. einnota umbúða og eiturefna. Þar stendur að allir skuli njóta heilnæms umhverfis án þess að ljóst sé hvernig staðið skuli við það. Tillaga stjórnlagaráðs var mun ítarlegri og sagt að öllum skyldi með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Einnig að í því fælist að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og að náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur skuli njóta verndar. Síðast en ekki síst skyldu fyrri spjöll bætt eftir föngum. Treysta stjórnvöld sér ekki til þess að setja lög í þessum anda?

Fyrir umhverfisvernd í landinu og almannahag er tillagan hér mun máttlausari en tillögur stjórnlagaráðs. Auk þess tiltekur hún hagsmuni landeigenda og hlýtur að mega spyrja hvort tilgangurinn sé að styrkja þeirra hag og gera þeim kleift að loka landi sínu fyrir almenningi eða innheimta gjald fyrir umferð fólks. Ágangur ferðamanna er vissulega ógn við umhverfi og náttúru en hví að verja hagsmuni landeigenda í ákvæði um umhverfisvernd? Væri ekki nær að setja í stjórnarskrá skorður við uppkaup auðmanna og fyrirtækja á íslensku landi í óljósum tilgangi?

Þar sem að brýnt er að stjórnarskráin innihaldi ákvæði um umhverfisvernd vil ég leggja það til að rykið verði dustað af greinum stjórnlagaráðs sem efnið varðar. Það er bæði sanngjarnt og lýðræðislegt. Það eru greinar 33 um náttúru Íslands og umhverfi, grein 35 - upplýsingar um umhverfi og málsaðils og grein 36 um dýravernd. Auk þess mætti gjarnan flokka þar með grein 32 um menningarverðmæti. Auk þess legg ég til að efnt verði rökræðukönnunnar á grundvelli þeirra tillagna líkt og áætlun forsætisráðherra gengur út frá, sérstaklega í þeim tilgangi að ákvæðin um umhverfisvernd séu í takt við áherslur og áskoranir okkar á næstu árum.

Afrita slóð á umsögn

#3 Aðalsteinn Agnarsson - 15.05.2019

Á meðan Alþingi leyfir ekki frelsi almennings til handfæraveiða, frelsi sem myndi fylla hafnir Íslands lífi og gleði, en lætur óátalið togaveiðar, þá eru þessi orð " Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu " öfugmæli. Togveiðiflotinn veldur gríðarlegum skaða á fiskimiðum okkar og samfélagi, öfugt við handfæraveiðar. Togveiðiflotinn togar dag og nótt yfir miljarða lífvera sem fela sig í botni fiskimiða okkar til að verða ekki étin af stærri fiskum, togveiðar valda miklum skaða með niðurbroti botns svo fiskseiði hafa þar ekkert skjól og verða auðveld bráð stærri fiska.

Afrita slóð á umsögn

#4 Lilja Karlsdóttir - 15.05.2019

Þjóðin hefur þegar samþykkt stjórnarskrá sem Alþingi ber að innleiða. Síðan getur Alþingi haft samráð um stjórnarskrárbreytingar sem það telur æskilegar.

Afrita slóð á umsögn

#5 Þorvaldur Gylfason - 29.05.2019

29. maí 2019.

Til Alþingis.

Í viðhengi er að finna umsögn mína um drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (umhverfisvernd).

Góðfúslega látið tenglana halda sér ef hægt er þegar umsögnin verður birt á vefsetri Alþingis. Tenglanna vegna sendi ég Word-skjal frekar en pdf-skjal.

Með virðingu,

Þorvaldur Gylfason prófessor

180751-7699

Erindi til Alþingis

Hér með leyfi ég mér að koma á framfæri við Alþingi fáeinum athugasemdum við frumvarpsdrög forsætisráðherra að nýju ákvæði um umhverfisvernd sem voru birt ásamt greinargerð 10. maí 2019. Að auki þykir mér hæfa að fara nokkrum orðum um aðdragandann.

Um frumvarpið

Inngangur greinargerðar með frumvarpinu hefst á þessum orðum: „Frumvarp þetta er afrakstur af umræðum í hópi formanna þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Byggt er á frumvarpi sem stjórnarskrárnefnd skilaði til forsætisráðherra í júlí 2016 ... Texti ákvæðisins er óbreyttur en aukið hefur verið við greinargerð á stöku stað.“ Hér er sagt berum orðum að verið sé að reyna að endurlífga frumvarp sem dagaði uppi á Alþingi 2016. Ekkert tillit hefur verið tekið til þeirra umsagna sem birtar voru í samráðsgátt Alþingis 2016.

Ég leyfi mér að láta hér duga að benda aftur á að málsgreinin „Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum“ hefur verið felld burt úr frumvarpstexta Stjórnlagaráðs að því er virðist til að koma til móts við þá sem vilja fá frið til að halda áfram að spilla náttúrunni. Þennan frumvarpstexta gerði yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda að sínum texta í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Ég get upplýst hér að þessi mikilvæga málsgrein – „Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum“ – var höfð með í frumvarpi Stjórnlagaráðs að tillögu Ingva Þorsteinssonar, eins mikilhæfasta náttúrufræðings þjóðarinnar.

Málsgreinin „Öllum ber að virða hana og vernda“ hefur einnig verið felld burt að því er virðist í sama skyni.

Loks hafa orðin „náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður, jarðvegur, ferskt vatn“ einnig verið felld burt án raka.

Að baki orðalagi þessara þriggja málsgreina sem felldar hafa verið burt lá vandlegur rökstuðningur reistur á ráðum sérfróðra náttúrufræðinga, bænda og annarra og einnig á reynslu annarra landa svo sem lýst er í greinargerð Stjórnlagaráðs með frumvarpi sínu.

„Mikill áfangi í stjórnarskrármálinu“ segir forsætisráðherra við fjölmiðla um þetta frumvarp sitt sem miðar að því að færa ákvæði nýrrar stjórnarskrár um umhverfisvernd fjær nútímalegum og metnaðarfullum umhverfisverndarmarkmiðum Stjórnlagaráðs.

Um feril málsins frá 2009

Eftir bankahrunið 2008 varð Alþingi ljóst að ekki yrði lengur undan því vikizt að efna fyrirheit allra þingflokka frá 1944 um gagngera endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins. Alþingi setti málið strax 2009 í frjóan farveg sem leiddi af sér lýðræðislegustu stjórnarskrá sem sögur fara af, stjórnarskrá sem 950 manna þjóðfundur valinn af handahófi úr þjóðskrá lagði grunninn að 2010, 25 manna þjóðkjörið og þingskipað Stjórnlagaráð færði í frumvarpsbúning 2011 og tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig samþykka í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012.

Að henni lokinni beið Alþingis ekki annað en að virða þjóðarviljann með því staðfesta frumvarpið fyrir þinglok 2013 enda hafði meiri hluti þingmanna (32 þingmenn) lýst því yfir opinberlega að þeir vildu staðfesta frumvarpið. Alþingi brást þessari skyldu. Forsætisráðherra skipaði stjórnarskrárnefnd með fulltrúum þingflokka 6. nóvember 2013. Við blasti að nefndin var skipuð gagngert til að leita leiða til að vanvirða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem Alþingi lét fara fram um frumvarp Stjórnlagaráðs 2012.

Ásetningur ríkisstjórnarinnar 2013-2016 lýsir sér m.a. í því að fyrst var nefndinni skipaður formaður, Sigurður Líndal prófessor, sem hafði ítrekað lýst sig andvígan breytingum á stjórnarskránni bæði fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012. Þegar hann hætti störfum 2014 var nefndinni skipaður nýr formaður, Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneyti. Hann hafði áður unnið sér það til frægðar að brjóta gegn skýrum fyrirmælum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (SEN) Alþingis 2012-2013 með því að leggja til gagngerar efnisbreytingar á verki Stjórnlagaráðs þótt SEN hefði mælt fyrir um að lögfræðingateyminu væri aðeins ætlað að leggja til orðalagsbreytingar en engar efnisbreytingar. Það var skoðun SEN að Alþingi gæti ekki leyft sér að vanvirða vilja kjósenda eins og hann birtist í úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012.

Þessi upprifjun er enn á ný nauðsynleg til að bregða birtu á bakgrunn þess starfs sem stjórnarskrárnefnd Alþingis vann á 48 fundum bak við luktar dyr 2013-2016 og er nú haldið áfram eins og ekkert hafi í skorizt. Öll þrenn frumvarpsdrög nefndarinnar – um náttúruauðlindir, umhverfis- og náttúruvernd og þjóðaratkvæðagreiðslur – ásamt greinargerðum miðuðu að því að veikja samsvarandi ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs og mylja undir ríkjandi sérhagsmuni gegn almannahag og lýðræði. Nefndin virðist hafa leitað eftir lægsta samnefnara til að þóknast þeim sem urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Niðurstaðan var frumvarpsdrög sem voru í litlu samræmi við frumvarp Stjórnlagaráðs enda lýstu fulltrúar a.m.k. tveggja flokka í nefndinni, Samfylkingar og Pírata, óánægju með frumvarpsdrögin á opnum fundum.

Tugir umsagna um frumvörpin þrjú frá stjórnarskrárnefnd Alþingis bárust inn um samráðsgátt Alþingis, langflestar niðursallandi svo sem vonlegt var. Um þetta sagði Ragnar Aðalsteinsson hrl. í blaðagrein 2016: „Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum [Stjórnlaga]ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins. Það virðist sanngjarn mælikvarði, sem bregða má á nýbirtar tillögur stjórnarskrárnefndar.“ Tillögur nefndarinnar féllu á þessu einfalda prófi Ragnars Aðalsteinssonar. Þær voru ekki ræddar á Alþingi og dóu þar drottni sínum.

Mér þykir raunar eðlilegt að gera enn strangari kröfur til þeirra sem hafa hug á að endursemja frumvarp Stjórnlagaráðs eða breyta því eftir að tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi frumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Bandaríkjaþing ákvað að breyta ekki orði í frumvarpinu sem stjórnlagaþingið í Fíladelfíu hafði samið og samþykkt 1787 með 39 atkvæðum af 55 og kjósendur í níu fylkjum af 13 höfðu síðan samþykkt í atkvæðagreiðslum, sums staðar með mjög litlum mun. Jafnframt hóf þingið strax endurskoðun hinnar nýju stjórnarskrár skv. ákvæðum hennar. Ljóst er að nýju frumvarpsdrögin um umhverfisvernd falla einnig á bandaríska prófinu óháð því sem í þeim stendur.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 17.06.2019

Vinsamlegast sjá í viðhengi umsögn Landverndar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Árni Þormóðsson - 26.06.2019

26.06.19

Ég undirritaður, Árni Þormóðsson, kt. 170641-3299, leyfi mér hér með að senda eftirfarandi umsögn um tillögu ríkisstjórnarflokkanna um nýja grein í stjórnarskrá Íslands ásamt tillögu minni að tillögu í hennar stað:

Tillaga ríkisstjórnarflokkanna um nýja grein í Stjórnarskrá Lýðveldisins Ísland líkist fremur góðlátlegu spjalli fremur en lagafyrirmælum í stjórnarskrá. Ekki er í tillögunni tekið á eignarrétti Íslands á landi og náttúrugæðum, sem ekki eru í einkaeign, og í hafinu innan efnahagslögsögu landsins. Þá eru í tillögunni markleysur eins og „vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður“ og „Allir skulu njóta heilnæms umhverfis“ en hvorugt þetta er hægt að tryggja samkvæmt venjulegum skilningi á orðunum að tryggja eitthvað. Umsögn mín um tillögu ríkisstjórnarflokkanna að nýrri grein í stjórnarskrá Íslands er að hún sé óheppileg sem slík og fylgir hér tillaga mín um grein sem komi í hennar stað sem ný grein í stjórnarskrá Íslands. Tillagan skýrir sig sjálf og óþarfi er að fjölyrða frekar um hana.

Tilaga mín:

1.gr.

Lýðveldið tekur til Íslands alls ,hafsbotns landgrunnsins umhverfis Ísland og hafsins á landgrunninu. Íslenskt landsvæði er eitt og óskipt. Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin með lögum. Allar námur sem eru á hafsbotninum eða kunna að verða þar og undir honum ásamt dýrum í hafinu innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands, eru ævarandi eign lýðveldisins Ísland. Eign, eða umráð yfir landinu, sem ekki eru í einkaeigu, og hafinu innan 200 mílna lögsögu og réttindi utan þeirrar lögsögu, má aldrei láta úr eigu eða umráðum Íslands. Rétti til nýtingar sjávardýra í hafinu innan 200 mílna lögsögu Íslands eða réttinda á hafi og hafsbotni utan þeirrar lögsögu eða náma undir eða á hafsbotninum er ráðstafað gegn gjaldi um takmarkaðan tíma með lögum. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa. Mælt skal nánar fyrir í lögum um verndun og viðhald náttúrunnar, inntak og afmörkun almannaréttar.

2.gr. Lög þessi öðlast þegar gildi

Afrita slóð á umsögn

#8 Samband íslenskra sveitarfélaga - 27.06.2019

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Valdimar Össurarson - 28.06.2019

Ég geri hér tvær veigamiklar athugasemdir við frumvarpið. Ég hef í allmörg ár unnið að ýmsum verkefnum á sviði umhverfisverndar; þar á meðal þróun nýrrar orkutækni sem verður mikilvægur liður í úrbótum á heilnæmi loftslags.

1. Röng aðferð við stjórnarskrárbreytingar. Stjórnarskrá Íslands er sáttmáli sem þjóðin gerir með sér um grundvöll þjóðfélagsins og á henni skal lagasetning Alþingis byggjast. Breytingar sem gerðar eru á stjórnarskránni þurfa því að gerast með sem beinustum hætti, þannig að þjóðin kjósi sérstaklega og með beinum hætti þá aðila sem semja tillögur að breytingunum. Þetta var gert fyrir fáeinum árum, með því að þjóðin kaus sérstakt stjórnarskrárþing. Stjórnarskrá sú sem það samdi var því það plagg sem með réttu hefði átt að leggja fyrir þjóðina í kosningum. Meirihluti alþingismanna, sem kjörnir eru til annarra verkefna, tók sér það hinsvegar fyrir hendur að spilla þessu ferli á allan hátt og hrifsaði sér umboðslaust þau völd að semja eigin drög að stjórnarskrá. Þau drög eru ekki heildstæð og samræmd, líkt og tillögur hins sérkjörna stjórnarskrárþings, heldur bútasaumur þar sem einstökum bitum er kastað fyrir þjóðina til umsagnar; líkt og hér er gert. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg, og geta alls ekki talist eðlilegt ferli við stjórnarskrárbreytingar. Stjórnarskrárbreytingar mega ekki stjórnast af sjónarmiðum einstakra stjórnmálaflokka og valdahópa samfélagsins. Stjórnarskrá sem verður til með þessum hætti er stjórnarskrá valdamikilla íslenskra stjórnmálaflokka en ekki stjórnarskrá þjóðarinnar; jafnvel þó hún verði samþykkt í kosningum.

2. Hnattrænan hugsunarhátt og ábyrgð skortir algerlega. Sjónarhorn þessa stjórnarskrárákvæðis er með endemum þröngt og tekur ekki á nokkurn hátt tillit til þess hve Ísland, líkt og önnur heimsríki, er háð sameiginlegu verklagi í umgengni við umhverfið. Hvergi vottar fyrir þeirri hnattrænu ábyrgð sem heimsríki þurfa að sýna í verki og lagasetningu, þegar ógnir steðja að í loftslagsmálum og mengun hafanna. Í þessu ákvæði er ekki að finna neina stefnu eða skuldbindingu um að Íslendingar þurfi að stuðla að verndun lofthjúps jarðar og heimshafanna, en hvorttveggja er sameign jarðarbúa um leið og hvert ríki hefur sína lofthelgi og lögsögu. Að lágmarki þyrfti að bæta í þessi drög ákvæði sem t.d. gæti hljóðað í þessa veru:

„Stuðla ber að verndun og sjálfbærni lofthjúps og hafsvæða jarðar og aðgerðum sem bæta hreinleika og heilnæmi þeirra jarðargæða“.

Afrita slóð á umsögn

#10 Samtök atvinnulífsins - 28.06.2019

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um drög að stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd.

f.h. SA,

Heiðrún

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Samtök ferðaþjónustunnar - 30.06.2019

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsöng Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd. Sama umsögn verður send um drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. Samtaka ferðaþjónustunnar

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Náttúruverndarsamtök Íslands - 03.09.2019

Sjá umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (umhverfisvernd).

Viðhengi