Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 14.–21.5.2019

2

Í vinnslu

  • 22.5.2019–26.2.2020

3

Samráði lokið

  • 27.2.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-130/2019

Birt: 14.5.2019

Fjöldi umsagna: 9

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Húsnæðis- og skipulagsmál

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, með síðari breytingum.

Niðurstöður

Lög um breytingu á lögum um almennar íbúðir voru samþykkt á Alþingi í desember 2019.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almennar íbúðir til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stuðning við lífskjarasamninga. Með því eru einnig lagðar til breytingar á lögunum í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra.

Nánari upplýsingar

Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Um er að ræða fyrsta frumvarpið sem ríkisstjórnin mun leggja fram á Alþingi í tengslum við gerð lífskjarasamninganna og eru breytingarnar til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 3. apríl 2019 um stuðning stjórnvalda við þá. Með frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um almennar íbúðir í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd laganna til að þau nái betur markmiði sínu um að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalágra leigjenda.

Til að liðka fyrir gerð kjarasamninga vorið 2019 lagði ríkisstjórnin fram aðgerðir að umfangi um 80 milljarða á gildistíma svonefndra lífskjarasamninga til að styðja við markmið um stöðugleika og bæta kjör launafólks. Aðgerðirnar eru í 38 liðum, þar af snúa 13 liðir að húsnæðismálum. Í lið 18 kemur meðal annars fram að ríkisstjórnin muni vinna að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög. Íbúðalánasjóði hefur verið falin eftirfylgni við tillögur átakshópsins í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti. Frumvarpinu er ætlað að koma tillögum 2, 4, 5 og 6 í skýrslu átakshóps um húsnæðismál til framkvæmda til samræmis við skuldbindingar ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninganna. Unnið er að nánari útfærslu annarra tillagna átakshópsins sem snúa að almenna íbúðakerfinu, þar á meðal þeim tillögum sem varða frekari lækkun á fjármagnskostnaði stofnframlagshafa og er stefnt að því að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á Alþingi haustið 2019.

Með frumvarpinu um breytingar á lögum um almennar íbúðir eru lagðar til breytingar á tekju- og eignamörkum leigjenda almennra íbúða þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum til samræmis við tillögu 4 í skýrslu átakshóps um húsnæðismál.

Til samræmis við tillögur 5 og 6 eru einnig lagðar til ýmsar breytingar til að lækka fjármagnskostnað stofnframlagshafa. Þannig eru lagðar til breytingar á útgreiðslu stofnframlaga þess efnis að Íbúðalánasjóði verði heimilað að greiða út hærra hlutfall stofnframlaga við samþykkt umsóknar þegar um er að ræða stofnframlagshafa sem áður hefur fengið úthlutað stofnframlagi frá ríki og sveitarfélagi.

Í því skyni að lækka fjármagnskostnað stofnframlagshafa til samræmis við framangreindar tillögur átakshóps um húsnæðismál og bregðast við markaðsbresti á landsbyggðinni er jafnframt lagt er til að unnt verði að veita sérstakt byggðaframlag til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum, hvort heldur sem er vegna almennra íbúða eða leiguíbúða án tekju- og eignamarka, á svæðum þar sem verulegur skortur er á leiguhúsnæði og misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis. Gert er ráð fyrir að framlagið miðist við þörf hverju sinni.

Einnig er lagt til að heimilt verði að gera samninga um úthlutun stofnframlaga til allt að þriggja ára í senn til að auka fyrirsjáanleika í verkefnum viðkomandi, enda uppfylli stofnframlagshafinn ákveðin skilyrði.

Með frumvarpinu eru enn fremur lagðar til breytingar varðandi mat umsókna um stofnframlög þannig að heimilt verði að líta til almenningssamgangna á viðkomandi svæði við mat á umsóknum til samræmis við tillögu 2 í skýrslu átakshópsins.

Auk framangreindra breytinga er frumvarpinu ætlað að liðka fyrir fjölgun nýbygginga í almenna íbúðakerfinu og auðvelda sveitarfélögum að sækja um stofnframlög vegna byggingarverkefna sem þegar eru hafin. Því er jafnframt ætlað að skýra hvernig endurgreiðslum stofnframlaga skuli háttað þegar almennar íbúðir hafa ekki verið fjármagnaðar með lánveitingum eða aðeins fjármagnaðar með þeim að litlu leyti. Frumvarpinu er enn fremur ætlað að skapa grundvöll til þess að unnt sé að leiðrétta stofnframlög sem úthlutað var 2016 og 2017 og miðuðust við of lág viðmið um hámarksbyggingarkostnað. Loks er því ætlað að fullnægja skuldbindingum stjórnvalda samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál, dags. 28. maí 2015, sem voru forsenda þeirra kjarasamninga sem gerðir voru.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa húsnæðis- og lífeyrismála.

frn@frn.is