Samráð fyrirhugað 17.05.2019—20.06.2019
Til umsagnar 17.05.2019—20.06.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 20.06.2019
Niðurstöður birtar 29.07.2019

Frumvarp til nýrra laga um leigubifreiðar

Mál nr. 132/2019 Birt: 17.05.2019 Síðast uppfært: 29.07.2019
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Farið hefur verið yfir allar fram komnar umsagnir og brugðist við þeim með viðeigandi hætti. Breytingar voru gerðar á frumvarpinu í kjölfar umsagna. Meðfylgjandi er tafla með athugasemdum og viðbrögðum við þeim. Drögin verða sett aftur í samráð og mun þá fylgja skjal þar sem breytingar koma fram í breytingaham.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.05.2019–20.06.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.07.2019.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar. Markmiðið með frumvarpinu er að auka frelsi á leigubifreiðamarkaðnum og tryggja örugga og góða þjónustu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir hér til kynningar og samráðs drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar. Núgildandi lög eru frá árinu 2001 en gerðar hafa verið á lögunum nokkrar breytingar frá gildistöku þeirra.

Frumvarp til nýrra laga um leigubifreiðar er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og byggir að meginstefnu til á tillögum starfshóps um heildarendurskoðun regluverks um leigubifreiðakstur sem skipaður var í október 2017 og skilaði tillögum í formi skýrslu í mars 2018. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 134/2001 um leigubifreiðar.

Markmiðið með heildarendurskoðun regluverksins er að færa lagaumhverfi leigubifreiðamarkaðarins í frjálsræðisátt og tryggja örugga og góða þjónustu fyrir neytendur auk þess að tryggja að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Tilefni frumvarpsins er m.a. það að í janúar 2017 tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) íslenskum stjórnvöldum að stofnunin hefði hafið frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. ESA hefur nú gefið út rökstutt álit varðandi lög um leigubifreiðar í Noregi en löggjöf þar í landi svipar um margt til þeirrar íslensku. Slíkt álit er undanfari dómsmáls fyrir EFTA dómstólnum, bregðist aðildarríki ekki við álitinu. Í álitinu komst ESA að þeirri niðurstöðu að norska ríkið bryti gegn skyldum sínum skv. 31. gr. EES-samningsins sem kveður á um stofnsetningarrétt ríkisborgara EES-ríkja. Þannig fæli fyrir fram ákveðinn fjöldi atvinnuleyfa í sér ólögmæta takmörkun, reglur um úthlutun starfsleyfa sem byggja á starfsreynslu væru ekki fyrirsjáanlegar, hlutlægar og lausar við mismunun og loks var gerð athugasemd við skyldu sumra leyfishafa til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð. Reglurnar sem ESA gerði athugasemdir eru svipaðar þeim sem er að finna í núgildandi lögum um leigubifreiðar hér á landi.

Frumvarpið telur 25 greinar sem skipt er í fimm kafla. Í fyrsta kafla er að finna almenn ákvæði í tengslum við efni frumvarpsins. Annar kafli inniheldur ákvæði um leyfisveitingar á grundvelli laganna og skilyrði leyfa. Í þriðja kafla er svo að finna ákvæði sem snúa að rekstri leigubifreiða, í fjórða kafla eru ákvæði um eftirlit með starfseminni og í fimmta kafla ýmis önnur nauðsynleg ákvæði svo sem um gildistöku og lagaskil, gjaldskrárheimildir Samgöngustofu o.fl.

Meðal breytinga sem lagðar eru til eru afnám takmörkunarsvæða og fjöldatakmarkana atvinnuleyfa, afnám skyldu leigubifreiða til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð og breyttar kröfur til þeirra sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að til verði tvær tegundir leyfa sem tengjast akstri leigubifreiða. Annars vegar atvinnuleyfi, sem mun veita réttindi til að aka leigubifreið í eigu rekstrarleyfishafa í atvinnuskyni, og hins vegar rekstrarleyfi, sem mun veita réttindi til að reka eina leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa eða skráð undir umráðum hans og aka henni í atvinnuskyni.

Gerðar eru breytingar á skilyrðum til að mega reka leigubifreiðastöð og rekstrarleyfishöfum heimilað að framselja hluta af skyldum sínum með samningi til leigubifreiðastöðvar.

Gert er ráð fyrir því að heimilt verði að aka án þess að gjaldmælir sé til staðar í bifreið í þeim tilfellum þegar samið hefur verið fyrir fram um heildarverð fyrir ekna ferð. Þá er gert ráð fyrir því að gera megi ólíkar kröfur til merkinga bifreiða eftir því hvort þær séu búnar gjaldmæli eða ekki.

Frestur til að skila inn umsögnum er til 20. júní 2019 en umsagnir verða birtar jafnóðum í samráðsgáttinni.

Vakin er athygli á að meðal fylgiskjala er sérstakt athugasemdaform. Óskað er eftir að umsagnaraðilar leitist við að skila athugasemdum sínum í því formi til að auðvelda úrvinnslu umsagna. Þannig verður gagnsæi í umsagnarferlinu sem mest.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðjón Ólafur Sigurbjartsson - 18.05.2019

Mig langar að nota tækifærið og fagna þessu frumvarpi. Með samþykkt þess virðist það verðuga markmið nást að opna leigubílamarkaðinn á nútíma vísu okkur neytendum í hag.

Framfarir í tölvu- og fjarskiptatækni og deilihagkerfið sem hefur þróast síðustu ár, er gríðarlega jákvæð þróun á marga vegu og gott að sjá að við hér á landi og þeir sem heimsækja okkur munum brátt fá að njóta ávaxanna hér, hvað samgöngur varðar. Meðal þess jákvæða er að nýting bíla vex og samgöngukerfisins batnar, verð ferða lækkar og færri munu telja sig þurfa að eiga bíl.

Þetta frumvarp og tilurð þess sýnir hversu gríðarlega mikilvægt það er fámennri þjóð að vera í öflugu sambandi þjóða Evrópusambandsins innan EES. Eins og rakið er hér í inngangi þá er tilurð þess takin til athugunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. Þetta sýnir að því meir og betur sem við tengjumst Evrópusamvinnunni því betra.

Vona að frumvarpið verði að lögum sem fyrst,

Guðjón Sigurbjartsson, viðskiptafræðingur og áhugamaður um hag neytenda :)

Afrita slóð á umsögn

#2 Blindrafélagið - 13.06.2019

Umsögn Blindrafélagsins um frumvarp til laga um leigubifreiðar.

Ferðaþjónusta Blindrafélagsins.

Allt frá 1997 hefur Blindrafélagið verið með samning við Reykjavíkurborg annarsvegar og Hreyfil hins vegar um ferðaþjónustu við lögblinda Reykvíkinga. Á þeim 22 árum sem liðin eru frá því að þetta samstarf hófs hefur orðið til mikil reynsla og þekking á því hvernig þetta úrræði hefur reynst saman borð við önnur úrræði í ferðaþjónustu við fatlað fólk, auk þess sem verkferlar og skráning hefur þróast mikið á þessum árum. Það sem að einkennir ferðaþjónusta Blindrafélagsins er að það er þjónustuúrræði sem nýtir leigubílaþjónustu sem fyrir er í samfélaginu.

Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra bera sveitarfélög ábyrgð á að bjóða þeim sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur ferðaþjónustu sem gerir þeim kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir. Í upphafi árs 2011 var gerð sú breyting á 1. grein laga um málefni fatlaðra að nú er kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli litið til alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að, svo sem Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 20. grein samningsins er fjallað um ferlimál einstaklinga og í greininni segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því „að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi“.

Hver ferð í Ferðaþjónustu við fatlað á höfuðborgarsvæðinu kostar að meðaltali um 3.500 krónur fyrir Reykjavíkurborg, í ferðaþjónustu Blindrafélagsins kostar hver ferða að jafnaði 2.200 kr. Munurinn er 59%. Ánægja með ferðaþjónustu Blindrafélagsins meðal notenda hefur ávalt verið meiri en meðal notenda ferðaþjónustu fatlaðra, þrátt fyrir að kostnaðarþátttaka notenda sé mun hærri í ferðaþjónustu Blindrafélagsins Þegar kannanir hafa verið gerðar meðal lögblindra einstaklinga þá kemur í ljós að ferðaþjónustu Blindrafélagsins er dýrmætasta þjónustuúrræðið sem þeim stendur til boða. Það endurspeglast svo í því að atvinnuþátttaka meðal lögblindra einstaklinga er mjög há á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.

Lykilinn að þessu farsæla samstarfi milli Blindrafélagsins, Hreyfils og Reykjavikurborgar liggur meðal annars í því að;

• notendur hafa aðganga að þjónustunni allan sólahringinn í gegnum skiptiborð Hreyfils,

• að ferðir er hægt að panta fyrirvaralaust í þeirri vissu að bíll sé ávalt til staðar,

• að skráning og greiðsla ferða er miðlæg og rafræn,

• að skýrslur um fjölda ferða og kostnað eru aðgengilegar Reykjavíkurborg, sem aðalgreiðanda þjónustunnar, þegar þeirra er óskað.

• notendur geta verið þess fullvissir að bílstjórar í ferðaþjónustu Blindrafélagsins hafa gengist undir trúnaðarskyldur gangvart notendum ferðaþjónustunnar og að þeir hafa fengið fræðslu frá starfsmanni Blindrafélagsins um nytsöm atriði er varð umgengni við blint og sjónskert fólk.

• að bílstjórar sem verða uppvísir af því að misnota aðstöðu sín verða umsvifalast fjarlægðir úr ferðaþjónustu Blindrafélagsins.

Notendur ferðaþjónustu Blindrafélagsins hafa mjög ólíkar þarfir og eru mismikið fatlaðir. Þar er ekki eingöngu um að ræða fötlun vegna sjónmissis heldur er einnig um að ræða einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu og einstaklinga, með geðrænar fatlanir og þroskaskerðingar til viðbótar við sjónmissinn.

Nú er um 600 einstaklinga með þjónustusamning hjá í ferðaþjónustu Blindrafélagsins. Á árinu 2018 voru farnar um 45 þúsund ferðir.

Benda má á að samkvæmt fréttum frá Finnlandi, þar sem fyrirkomulag er með svipuðum hætti varðandi akstur blindra einstaklinga, hrundi þjónustan við þennan hóp, eftir að lögum um leigubílaakstur var breytt í þá átt sem að þetta frumvarp gengur útá.

Það er mikilvægt að missa ekki sjónar á því leigubílaþjónusta er mikilvæg almenningsþjónusta sem er viðkvæmum einstaklingum mjög mikilvæg. Það að færa þessa þjónustu alfarið á óbeislað markaðstorg mun líklega valda meiri skaða en ávinningi.

Reykjavík 13.06.2019.

Kristinn Halldór Einarsson

framkvæmdastjóri Blindrafélagsins,

samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi

Afrita slóð á umsögn

#3 Hreyfill svf. ( Samvinnufélagið Hreyfill ) - 19.06.2019

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sölvhólsgötu 7

150 Reykjavík

srn@srn.is

19. júní 2019.

Efni: Umsögn Hreyfils svf. vegna boðaðs frumvarps til laga um leigubifreiðar.

Hreyfill er samvinnufélag með starfsvettvang á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Tilgangur félagsins er að reka sameiginlega bifreiðastöð fyrir þá bílstjóra sem hafa atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða fyrir allt að 8 farþega. Aðild að félaginu fá umsækjendur sem stundað hafa samfelldan akstur í 6 mánuði hjá bifreiðastöðinni og eru atvinnuleyfishafar.

Hreyfill svf. rekur langstærstu leigubifreiðastöð landsins undir nafninu Hreyfill. Atvinnuleyfishafar eru nú á milli 360 og 370. Hjá Hreyfli og dótturfélögum Hreyfils eru um 30 einstaklingar í fullu starfi. Þá eru að auki um 550 einstaklingar á skrá yfir „virka launþega“ þ.e. aðilar sem í mismiklu mæli sinna afleysingum eða tímabundum akstri hjá Hreyfli. Það eru því tæplega 1.000 einstaklingar sem hafa atvinnu tengda Hreyfli og um helmingur þeirra í aðalstarfi sem aftur er grundvöllur framfærslu fjölskyldna þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

Hreyfill hefur starfað farsællega í meira en 75 ár. Á þeim tíma hefur félagið vaxið og dafnað og í senn svarað eftirspurn frá almenningi, fyrirtækjum, stjórnvöldum og ferðamönnum. Þá hefur félagið skapað þeim sem starfa hjá Hreyfli atvinnu með viðunandi afkomu. Í gegnum dótturfélag Hreyfils hefur m.a. verið byggt upp sameiginlegt tölvukerfi fyrir bifreiðar sem aka frá Hreyfli sem styttir viðbragðstíma, dregur úr „óþörfum“ akstri og eykur öryggi ökumanna og farþega. Í tölvukerfinu eru skráðar upplýsingar um „eiginleika“ viðkomandi bílstjóra og bílanna sem þeir nota. Sé t.d. óskað þjónustu á tilteknu tungumáli „velur“ kerfið bílstjóra sem talar viðkomandi tungumál. Sé þjónustu t.d. óskað fyrir fatlaðan viðskiptamann sér kerfið um að velja bifreið sem hentar viðskiptamanninum.

Í því skyni að tryggja öryggi þjónustunnar hefur félagsstjórn ýmsar heimildir. Hún getur synjað umsækjanda um aðild, telji hún ástæðu til, en umsækjandi getur skotið slíkri ákvörðun til félagsfundar. Í samþykktum félagsins, sem félagsmenn skuldbinda sig til þess að virða, má m.a. finna reglur um inngöngu, aðildargjald, stofnsjóð, félagsfundi, stjórn, breytingu samþykkta, samninga sem félagið má gera f.h. félagsmanna sinna, útborgun úr stofnsjóði og brottrekstur úr félaginu. Mikil áhersla er lögð á að allir sem aka undir merki Hreyfils virði reglur og sýni ekki af sér háttsemi eða framkomu sem er ósæmileg.

Stjórn Hreyfils leyfir sér að fullyrða að sú þjónusta sem Hreyfill býður á starfssvæði sínu standist samjöfnuð við það sem best gerist í öðrum löndum. Viðgangur Hreyfils er ekki vegna einokunaraðstöðu því allan tímann hefur starfsemin verið rekin í samkeppni við aðra þjónustuaðila. Í vaxandi mæli fer greiðsla fyrir þjónustuna fram með rafrænum hætti (greiðslukort) eða í gegnum viðskiptareikninga á grundvelli samninga sem Hreyfill gerir við fasta viðskiptavini. Hefur skrifstofa Hreyfils mikilvægt hlutverk gagnvart viðskiptamönnum og bílstjórum um skráningu og uppgjör þessara viðskipta. Má fullyrða að síðustu árin hefur öryggi í viðskiptunum farið vaxandi samfara bættri skráningu og réttum skilum til viðkomandi yfirvalda. Þá hefur Hreyfill brugðist við nýjum lögum um vernd persónuupplýsinga með því að leggja viðeigandi skyldur á þá sem aka undir merkjum Hreyfils.

Stjórn Hreyfils hefur áhyggjur af þeim breytingum sem að virðist stefnt með boðuðu frumvarpi um leiguakstur. Markmiðið með breytingunum er sagt vera að bregðast við athugasemdum ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um takmarkanir á heimildum til leigubifreiðaaksturs á Íslandi. Hefur starfshópur lagt fram tillögur um að afnema fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubifreiðaaksturs og að fallið verði frá stöðvarskyldu í því skyni að auka samkeppni og þjónustu. Til þess að tryggja öryggi þjónustunnar verði veitt tvenns konar leyfi til leiguaksturs, þ.e. atvinnuleyfi, sem yrði leyfi til þess að aka leigubifreið, og rekstrarleyfi, sem yrði leyfi til þess að reka eina leigubifreið.

Stjórn Hreyfils gengur út frá því sem gefnu að henni muni á síðari stigum gefast kostur á að gefa umsögn um frumvarp að lögum um leigubifreiðar þegar það liggur fyrir í endanlegri mynd og áður en það verður lagt fyrir Alþingi.

Á þessu stigi málsins vill stjórnin því einungis vekja sérstaka athygli á þremur efnisatriðum sem huga þarf vel að við umfjöllun um frumvarpið.

1. Jafnræði aðila í skattalegu tilliti.

Í gildandi kerfi ganga allar greiðslur viðskiptavina Hreyfils til félagsins og bílstjóranna sem þar starfa. Greiðslurnar standa undir lög- og samningsbundnum útgjöldum, rekstrarkostnaði og loks launum eða tekjum viðkomandi aðila. Allar greiðslurnar ganga inn í íslenska hagkerfið og eru grundvöllur viðeigandi skattlagningar. Með þessu móti er starfsemi Hreyfils þáttur í þeirri efnahagsstarfsemi sem íslenska samfélagið byggist á. Mikilvægt er að tryggja að Hreyfill og bílstjórar stöðvarinnar þurfi ekki að mæta samkeppni sem ekki tæki þátt í greiðslum til íslenska samfélagsins. Þetta á t.d. við samkeppni frá erlendum aðilum sem vilja selja leigubifreiðaþjónustu á Íslandi með þeim hætti að allt endurgjaldið sé greitt inn á erlenda reikninga og einungis hluta þess skilað aftur til Íslands sem verktakagreiðslum til viðkomandi bílstjóra. Slíkt fyrirkomulag skapar ósanngjarna samkeppnisaðstöðu og leggur ekkert til íslensks samfélags.

2. Öryggi viðskiptavina og bílstjóra.

Með því skipulagi sem nú er á leigubifreiðaakstri hefur tekist að tryggja viðunandi öryggi viðskiptavina og bílstjóra m.a. með stöðvarskyldunni og því félagsformi sem Hreyfill býr við eins og að framan er lýst. Mikilvægir þjóðfélagslegir hagsmunir tengjast því að tryggja þetta öryggi áfram eins og kostur er. Hreyfill væntir þess og leggur áherslu á að allir sem fá leyfi til leigubifreiðaaksturs verði í reynd að lúta reglum og eftirliti með því að eftir reglum sé farið.

3. Atvinnuhagsmunir þeirra sem starfa hjá Hreyfli og öðrum bifreiðastöðvum.

Að framan er vakin athygli á stærð Hreyfils og þeirri staðreynd að tæplega 1.000 einstaklingar eiga fjárhagslega afkomu að öllu eða einhverju leyti undir viðgangi félagsins. Á íslenskan mælikvarða er Hreyfill stórt „fyrirtæki“ og miklir hagsmunir við það bundnir að grundvöllurinn fyrir rekstri Hreyfils verði ekki eyðilagður með skyndilegum breytingum á rekstrarumhverfi félagsins. Þess vegna er til þess mælst að hugsanlegar breytingar á samkeppnisumhverfinu verði gerðar með þeim hætti að stjórnendum og bílstjórum Hreyfils gefist sanngjarn tími, sem yrði a.m.k. nokkur ár, til þess að bregðast við og aðlaga reksturinn að breyttum lögum.

Stjórn Hreyfils tekur fram að félagið vill vinna með stjórnvöldum í þessu máli með það að markmiði að breytingar sem kunni að verða gerðar þjóni í reynd íslensku samfélagi.

Virðingarfyllst

f.h. stjórnar Hreyfils svf

Hallgrímur Guðrúnarson

formaður stjórnar

Haraldur Axel Gunnarsson

framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#4 Samkeppniseftirlitið - 19.06.2019

Í meðfylgjandi viðhengi er umsögn Samkeppniseftirlitsins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Bifreiðastöð Oddeyrar ehf - 19.06.2019

Efni: umsögn Bifreiðastöðar Oddeyrar ehf vegna frumvarps til laga um leigubifreiðar.

Bifreiðastöð Oddeyrar ehf (BSO) hefur verið starfandi á Akureyri í yfir 70 ár

Hér eru 22 atvinnuleyfi auk annara starfsmanna alls 30 manns sem starfa á BSO.

Hér er tryggður aðgangur að þjónustu allann sólarhringinn.

Höfum við kappkostað að veita Akureyringum og nærsveitungum góða þjónustu einnig fyrirtækjum og félagasamtökum t.d Blindrafélaginu og annarri ferliþjónustu fyrir sveitarfélög sem er viðkvæmur hópur oft á tíðum. Að afnema stöðvarskyldu leigubílstjóra myndi valda t.d þessum aðilum erfiðleikum með að tryggja þann akstur. Hvert eiga fyrirtæki að snúa sér ef engar leigubílastöðvar eru eftir?

Að bílstjórar þurfi ekki að hlýta stöðvarskyldu sér maður ekki hvernig er framkvæmanlegt, né að þurfa ekki að hafa gjaldmæli í bílum og vera í talstöðvarsambandi við stöð. Með því skipulagi sem nú er á leigubifreiðaakstri hefur tekist að tryggja öryggi viðskiptavina og bílstjóra m.a. með stöðvarskyldunni. Mikilvægt er að tryggja þetta öryggi áfram eins og kostur er.

Leggju við áherslu á að allir sem fá leyfi til leigubifreiðaaksturs verði í reynd að lúta reglum og eftirliti og að eftir þeim reglum sé farið. Teljum ekki ásættanlegt að slakað sé á kröfum til þeirra er vilja aka leigubílum

Að afnema fjöldatalmörkum leigubíla hér á landi myndi þýða að:

Engin gæti haft viðunandi afkomu af þessu starfi sem aðalatvinnu t.d hér á Akureyri.

Menn flykktust út um helgar á allskonar bílum.

Tökum við undir áhyggjur um samkeppni á þessum markaði erlendis frá.

Akureyri 19.júní 2019

F. h Bifreiðastöðvar Oddeyrar ehf

Ásdís Ásmundsdóttir

Framkv.stj.

Afrita slóð á umsögn

#6 Daníel Orri Einarsson - 19.06.2019

Umsögn við drögum að frumvarpi laga um leigubifreiðaakstur 19.júní 2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Daníel Orri Einarsson - 19.06.2019

Frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur til umsagnar í samráðsgátt til 20.júní 2019

Umsögn þessi er send í nafni B.Í.L.S. Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórafélagsins Frama.

Við í stétt leigubifreiðastjóra erum meðvituð um þær skuldbindingar sem Íslenska ríkið þarf að framfylgja gagnvart EES samningnum.

B.Í.L.S. og Frami vilja koma því á framfæri að okkur þykir skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun á íslensku regluverki um leigubifreiðar vera langt frá því tæmandi verk. Okkur þykir ekki hafa verið tekið tillit til þeirra fulltrúa sem sátu í starfshópnum fyrir hönd leigubifreiðastjóra

II. KAFLI Leyfisveitingar

5.gr Atvinnuleyfi

Hver sá sem fær atvinnuleyfi til að aka leigubifreið á Íslandi, ætti að sjálfsögðu að hafa heimilsfesti í sama landi og hafa fullt vald á íslenskri tungu, bæði til þess að vera kunnugur starfsumhverfinu og axla ábyrgð sem heimamaður í eigin samfélagi. Í þessari grein er ekki gerð krafa um heimilisfesti eins og í greininni um rekstrarleyfishafann. Við fögnum því að hugmyndin sé að atvinnuleyfishafi skuli leggja fram fullnaðar sakavottorð sem sýni allan sakaferil frá upphafi. Okkur þykir nauðsynlegt að bílstjóri sem ætlar að aka með farþega gegn gjaldi á íslenskum vegum, þá oft við þau veðurskilyrði sem eru séríslensk og koma flestum gestum þessa lands í opna skjöldu, sé þá umhverfinu vel kunnugur og undirbúinn með reynslu af akstri við breytt skilyrði og skammdegi. Ef óreyndir bílstjórar ætla að leggja þetta starf fyrir sig, má fastlega búast við hærri slysatíðni og þá munu iðgjöld trygginga og almennur sjúkrakostnaður hækka í hlutfalli við hana, eins og allir vita. Við þetta má bæta þeirri áherslu sem hefur verið lögð á aukin ökuréttindi, þannig að venjuleg B réttindi ættu ekki að teljast fullnægjandi, sérstaklega í ljósi þess að ávallt hærri kröfur stjórnvalda eru gerðar um aukin ökuréttindi, námskeið og endurmenntun til að stjórna ökutækjum í atvinnuskyni. Íslenskukunnátta á að vera grundvallarskilyrði til þess að gegna þjónustu við farþega. Hér viljum við minna á einn mest áríðandi þátt þjónustunnar, sem eru samskiptin við farþega. Daglegir farþegar sem nýta sér þjónustu leigubifreiða sem og er oft eini farkostur þeirra, eru af allri fjölbreytni samfélagsins. Þar má nefna fjölmarga einstaklinga sem ráða ekki við annað tungumál en sitt eigið, til dæmis eldri borgara, hreyfihamlaða, þroskaskerta, sjúklinga, börn og aðra hópa. Hvort sem er með fyrirfram pöntuðum ferðum eða neyðartilvikum þessara einstaklinga, fylgja oft flókin skilaboð um erindi ferðar, sem krefjast eðlilegrar málkunnáttu. Nú bendum við á það að Danir gera þá kröfu í nýbreyttum lögum þeirra um leigubifreiðaakstur, að bílstjórar verði að hafa fullt vald á málinu þar í landi.

6.gr Rekstrarleyfi

Við fögnum því að rekstrarleyfishafi skuli hafa heimilisfesti, en hörmum það að ekki sé lengur gerð krafa um reynslutíma eins og tíðkast hefur í áratugi og tíðkast enn, það er að segja að viðkomandi hafi ekið leigubifreið hjá rekstrarleyfishafa sem afleysingamaður, atvinnuleyfishafi í þessum drögum, í það minnsta kosti 1.000 daga áður en viðkomandi getur sótt um að stofna til eigins reksturs. Það er vegna þess að þessi reynslutími hefur dugað til þess að halda þeim einstaklingum frá stéttinni sem hafa haft eitthvað annað misjafnt í huga, en það eitt að aka með fólk á milli staða. Þá hefur gefist tími til að vísa þeim frá sem hafa gerst brotlegir í starfi eða hlotið dóm. Þess vegna þykir okkur ábyrgðarlaust að rekstrarleyfishafi þurfi ekki að hafa haft atvinnuleyfi í einhvern tiltekinn tíma áður en að úthlutun rekstrarleyfis kemur. Það er viturlegt að hver einstaklingur geti aðeins fengið eitt rekstrarleyfi og reki bara eina leigubifreið, en það ætti líka að taka það fram að leigubifreiðin sé ekki ætluð til annarrar atvinnustarfsemi. Verkferlið við skráningu leigubifreiðar í tilteknu rekstrarleyfi skal vera þannig að gengið sé úr skugga um að leigubifreiðin sé í eigu rekstrarleyfishafans eða hann einn skráður umráðamaður ef um fjármögnunarfyrirtæki er að ræða. Leigubifreiðin skal skráð, tryggð og merkt sem slík áður en rekstur ökutækis getur hafist.

7.gr Starfsleyfi leigubifreiðastöðva

Hér vantar stórlega upp á að leigubifreiðastöð þjóni tilgangi sínum, ef ekki er krafist afgreiðsluskyldu á borð við símaafgreiðslu, bókunarþjónustu, viðhlítandi bókhaldsskyldu, talstöðvasambandi við alla bílstjóra og kvaða um eftirlit með nýtingu leyfanna á stöðinni og hverjir bílstjórar séu við þjónustu hverju sinni, þá sérstaklega gagnvart viðskiptavinum og hópum sem þarfnast sérþekkingar vegna breytilegra úrræða. Talstöðvar eða önnur bein samskiptaleið við bílstjóra stöðvarinnar, álítum við sem forgangsrétt farþeganna varðandi öryggi þeirra. Eins þegar verðmæti gleymast í leigubifreið, þá getur stöðin mögulega haft upp á þeim bílstjóra sem ók viðkomandi og komið verðmætunum í réttar hendur. Erlendir gestir sem hafa tapað hlutum sínum og fundið aftur fyrir tilstilli bifreiðastöðvanna, hrósa þeim fyrir framúrskarandi þjónustustig og taka það fram að svona auðvelt sé það ekki í þeirra heimalandi.

III. KAFLI Rekstur leigubifreiða

8.gr. Skyldur rekstrarleyfishafa

Hvernig á rekstrarleyfishafi sem aldrei hefur ekið leigubifreið, að axla ábyrgð á rekstri leigubifreiðar og þekkja góðar viðskiptavenjur í því umhverfi? Þetta þykir okkur skjóta skökku við, þvert á alla skynsemi varðandi undirbúning og mikilvægi þess að öðlast reynslu undir tilsjón reyndari einstaklinga í nægilegan tíma. Það á við öll störf. Hvernig á að framfylgja eftirliti með því hver aki bifreiðinni í leyfinu, ef ekki eru gefnar út akstursheimildir? Á rekstrarleyfishafinn að láta vita af því eftir á? Við teljum að útgáfa akstursheimilda eins og er í dag sé nauðsynleg t.d. vegna alls eftirlits bifreiðastöðvanna sem verða að vita hverjir aka hverju sinni á stöðinni því þetta snýst allt um öryggi farþeganna auk hagsmuna leigubifreiðastöðvanna. Við teljum nauðsynlegt að rekstrarleyfishafar hafi leiguakstur að aðalatvinnu eins og er nú til dags, en til þess að svo megi verða teljum við þörf á að vinnuskylda verði áfram þ.e. 40 klst. á viku til þess að tryggja viðskiptavinum þjónustu á öllum tímum sólarhrings. Ef ekki þá má búast við að margur hafi þetta eingöngu að aukavinnu sem gerir það að verkum að þjónustan fellur niður.

9.gr. Gjaldmælar

Hér segir í drögunum að löggiltir gjaldmælar skulu vera í öllum leigubifreiðum, en samt er kveðið á um að heimilt sé að aka án gjaldmælis. Vill fólk búa til svona óvissu? Hvernig fer fyrir samkeppni sem á að vera á sanngirnis grundvelli? Hvernig getur leyfishafi, sem ætlar að stunda vinnu sína með heiðarlegum hætti, verið samkeppnishæfur gagnvart keppinautum sem fá að starfa án gjaldmælis? Hvaða gögn munu þeir þá leggja fram til skattayfirvalda?

11.gr. Auðkenni

Allar leigubifreiðar ættu að vera sýnilega merktar samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Auk þess ætti að vera stöðvarnúmer bílstjórarans í afturrúðu eins og gerð er krafa um í núgildandi lögum og reglugerð ásamt merki stöðvar í framrúðu. Skertar merkingar á leigubifreiðum má túlka sem undirferli og sem vekur vantraust hjá farþegum.

Eftirlit og tilkynningar um brot

Eftirlitið hefur farið minnkandi með árunum, félög leigubifreiðastjóra og Samgöngsustofa hafa ítrekað bent á og tilkynnt um brot í starfsemi einstaklinga og um ólöglegan „svartan“ leiugakstur á almennum ökutækjum, eins og hefur þrifist óáreitt í gegnum Facebook miðilinn. Að aka leigubifreið í skjóli nætur þegar fólk er við skál að skemmta sér, er kjörinn vettvangur fyrir misjafna starfsemi, sem leigubifreiðastjórar verða oft sjálfir vitni að á helgarvaktinni. Þá viljum við benda á að okkur þyki vanta sýnilegt eftirlit á þessum tímum.

Takmörkun

Fjöldatakmörkun leyfa hefur verið forsendan fyrir því hjá leigubifreiðstjórum að hægt sé að hafa tekjur af vinnunni á hverju svæði fyrir sig miðað við íbúafjölda. Takmörkunin virkar á báða bóga, gagnvart leyfishöfum og viðskiptavinum. Þannig er nú reynslan og sem hefur sýnt sig í þeim löndum þar sem takmörkun hefur verið afnumin, að leyfum fjölgar á þéttbýlustu svæðunum, fleiri leigubílar eru um sömu vinnuna, þjónustan versnar og verðið hækkar. Þvert á það sem ætlast er til af frjálsi samkeppni, þá er eðli þessarar þjónustu einfaldlega þannig háttað, að við aukna samkeppni og lengri bið eftir ferðum, geti svo farið að margur bílstjórinn fari að sinna þessu sem aukastarfi með annarri vinnu. Þannig fellur þjónustan niður, eins og dæmið hefur sýnt sig í Finnlandi, þar sem breyting var gerð á síðastliðnu ári á þá vegu sem þessi drög kveða á, í nafni frjálsrar samkeppni, þar versnaði þjónustan all verulega í strjábýli og gagnvart eldri borgurum, fötluðum og öðrum sem minna mega sín í þjóðfélaginu, og þá sýna skýrslur fram á það að ökutaxti hafi hækkað um allt að 30 prósent frá gildistöku laganna.

Fjöldi takmörkunarleyfa á Íslandi, er í algjöru hámarki miðað við höfðatölu, ef við berum okkur saman við Norðurlöndin og önnur lönd á Evrópska efnahagssvæðinu. Á sama tíma hefur vinna hjá leigubifreiðastjórum farið minnkandi frá ári til árs, þar sem einkabílaeign hefur aukist og bílaleigubílum fjölgað. Þegar vitnað er í fjölda ferðamanna sem heimsækja Ísland, þá er það reginn misskilningur að halda því fram að þeir biðji um leigubíla í sama hlutfalli. Við leigubifreiðastjórar ökum flestir að mestu með fólk sem er búsett hérlendis. Þar að auki sinntu leigubifreiðastjórar mikið bréfsendingum, sem eru svo til horfin nú til dags.

Það leynir sér ekki, að þessi drög sem hér um ræðir eiga að höfða til milljóna samfélaga og stórborga, en við búum hér í örsmáu samfélagi sem þarf að taka tillit til vegna smægðar sinnar. Í því samhengi, sérstaklega dreifbýli eins og Akureyri, þar sem litlu má muna til að setja hlutina úr jafnvægi.

Stöðvaskylda

Stöðvaskylda er bæði trygging fyrir viðskiptavini og leyfishafa til að halda uppi viðskiptum með bókhaldi og reikningsviðskiptum fyrir mismunandi hópa farþega og fyrirtækja sem kjósa að skipta við tiltekna leigubílastöð. Öryggisins vegna, geta fyrirtæki treyst viðkomandi beifreiðastöð fyrir trúnaði og alúð þegar kemur að viðkvæmum farþegum eða öðrum sérþörfum. Ef að stöðvaskylda yrði afnumin, mætti gera ráð fyrir að ákveðnar stöðvar leggðu upp laupana, sem enn og aftur yrði óöryggi fyrir viðskiptavini að fá akstur. Stöðvaskylda er forsenda þess að þjónustan við viðskiptaini sé stöðug og að fullu tryggð. Rekstrarleyfishafar sem starfa ekki í gegn um stöð, heldur taka vinnu sína á götunni, veita ekki þá þjónustu sem samfélagið gerir kröfu til.

Skattstofn

Hér áður fyrr tíðkaðist við úthlutun atvinnuleyfa að Úthlutunarnefnd tilkynnti skattayfirvöldum hverju sinni þegar einstaklingur fékk úthlutað atvinnuleyfi. Í dag er vitað að einstakir atvinnuleyfishafar hafa sagt sig frá rekstri hjá skattayfirvöldum án þess að leggja atvinnuleyfi sitt inn til Samgöngustofu og haldið áfram rekstri eins og ekkert hafi í skorist. Þetta þarf að bæta t.d. á þann veg að Samgöngustofa tilkynni hverju sinni ef einstaklingur fær úthlutað atvinnuleyfi (rekstrarleyfi) til skattayfirvalda. Eins ætti það að vera ef viðkomandi ætlar að hætta rekstri, að beiðni þess efnis fylgi til skattayfirvalda frá Samgöngustofu. Þarna vantar gagnvirkni milli stofnana.

Það gleður okkur að stjórnvöld sýni starfi leigubifreiðastjóra áhuga með úrbætur í huga, en við teljum íslensk lög og regluverk það sem hefur verið þróað með árunum og reynslunni og sem nú er í gildi, vera með eindæmum gott og með því skilvísasta sem vitað er um, hvað snertir almanna hagsmuni og öryggi farþeganna, svo lengi sem regluverkinu er fylgt eftir. Það hefur skilað og skilar enn traustri þjónustu allan sólarhringinn alla daga ársins, þökk sé vinnuskyldu og stöðvaskyldu.

Við gerum okkur vel grein fyrir þeim vonum sem nýjar viðskiptahugmyndir vekja, eins og til dæmis deilihagkerfi, farveitur eða önnur tækni, en því miður getum við ekki séð hvernig á að vera hægt að standa undir rekstri leigubifreiða undir venjulegum kostnaði, samhliða þjónustu gegn lægra verði til neytendans. Hvaða hlutur situr þá eftir til að sjá rekstrarleyfishafanum og bílstjóra hans, fyrir ásættanlegum tekjum? Það lítur út fyrir að launaliðurinn hafi gleymst í allri umræðunni. Reiknilíkön þessara hugmynda, ef notast hefur verið við slíkt, vekja óneitanlega upp fleiri spurningar.

Í séráliti Jóhönnu Katrínar Magnúsdóttur hdl í skýrslu starfshópsins, kemur fram að hægt sé að réttlæta hindranir að stofnsetningarréttinum á grundvelli sjónarmiða um almannahagsmuni, eins og við höfum bent hér ítrekað á, og komi þá fleiri sjónarmið til skoðunar en bein mismunun.

Reykjavík 19.júní 2019

Fyrir hönd Bandalags íslenskra leigubifreiðstjóra og Bifreiðastjórafélagsins Frama

Daníel Orri Einarsson

Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök atvinnulífsins - 20.06.2019

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarp til nýrra laga um leigubifreiðar.

Heiðrún Björk Gísladóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Neytendastofa - 20.06.2019

Umsögn Neytendastofu er í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Félag atvinnurekenda - 20.06.2019

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Félags atvinnurekenda um drög að frumvarpi til laga um leigubifreiðar.

Afrita slóð á umsögn

#11 Kjartan Valdimarsson - 20.06.2019

Samgöngu- og

sveitarstjórnarráðuneytið

Efni: Umsögn vegna Frumvarps til nýrra laga um leigubifreiðar

Hvað varðar Frumvarp til laga um leigubifreiðar er einkum tvennt sem við höfum áhyggjur af.

Reglur um úthlutun leyfa

Fram að þessu hefur sá háttur verið hafður á, að vilji einstaklingur verða leigubifreiðastjóri þarf hann að safna tíma sem afleysingamaður, sem að lokum veitir honum atvinnuleyfi til þess að starfa sem leigubifreiðastjóri. Þetta fyrirkomulag hefur nokkra kosti og má þar nefna að auðvelt er að sía út þá sem ekkert erindi eiga í þetta starf, fólk sem hefur ekki siðferði sem þarf í þetta fag, er ókurteist, virðir ekki tímamörk o.sv.frv. Prófin er þetta varða eru nefnilega ekki tekin fyrr en sest er undir stýri og akstur hafinn. Einnig hefur fólk sem taldi þetta starf henta sér, ekki viljað starfa á þessum vettvangi og látið kannski eina helgi duga. Margoft hafa menn verið stöðvaðir á vegferð sinni til þess að öðlast leyfi þar sem komið hefur í ljós að það er engum til hagsbóta, ekki viðkomandi, stéttinni og alls ekki viðskiptavinum. Það er nefnilega ótrúlega oft sem hinn innri maður kemur í ljós þegar vissar aðstæður koma upp sem tengjast þessu starfi. Við verðum að virða þetta fyrirkomulag og við höfum áhyggjur af því að hver sem er geti fengið leyfi án þess að gætt sé að því hvort viðkomandi sé hreinlega hæfur til þess. Það að einstaklingur geti farið að keyra þegar honum dettur í hug á gömlum Fiat ættingja, veldur okkur áhyggjum.

Skylda að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð

Hérna má með sanni segja að við komum að örygginu aftur. Það að leggja niður stöðvarskyldu er að okkar mati mjög áhættusamt þar sem utanumhald bílstjóra er þeim sem kunnugir eru leigubifreiðarekstri nauðsynlegt. Við erum ekki mjög stór stöð en það er óhætt að segja að á hverju ári hringja oft í okkur lögregluyfirvöld þar sem þeir eru að spyrjast fyrir um hin ýmsu mál sem við hugsamlega gætum varpað ljósi á. Stundum getum við orðið að liði, en að sjálfsögðu kemur fyrir að við þekkjum ekki til málanna. Ef við leggjum niður stöðvarskyldu verður þetta allt mun erfiðara þar sem við værum að tala um marga tugi eða hundruðir stöðva, sumar eins manns „stöðvar“. Eftirlitsskyldan yrði öll erfiðari þar sem fjöldi bíla yrðu merktir á mismunandi hátt og í sumum tilfellum ómögulegt að greina hverjum tiltekinn bíll tilheyrir. Í dag þekkja langflestir viðskiptavinir merki stöðvanna og geta þá vísað í stöðina ef eitthvað kemur upp sem þarfnast skoðunar. Benda má einnig á það að hagræði sem hlýst af stöðvarskyldi er t.d. þegar stórir staðir með fjölda fólks loka eða einfaldlega þegar fjöldi fólks safnast saman og vantar að komast sinna leiða þá er hægt að kalla út eða senda skilaboð til allra á viðkomandi stöð og senda þangað fjölda leigubifreiða á mjög skömmum tíma til þæginda fyrir viðskipavini. Að lokum má minnast á að ef stöðvarnar lognast útaf eða þjónusta þeirra skerðist til muna, gæti það lent á stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum sem hafa reitt sig á þjónustur leigubifreiðastöðva fram til þessa. Því teljum við stöðvarskyldu gríðarlega mikilvæga.

Dags: 20.6.2019

Virðingafyllst.

f.h. A-Stöðvarinnar ehf og Fylkis Bifreiðastjórafélags, Reykjanesbæ.

Kjartan Valdimarsson

Stj. Formaður A-Stöðvarinnar

Einar Hafsteinn Árnason.

Formaður Fylkis Bifreiðastjórafélags

Afrita slóð á umsögn

#12 Ársæll Hauksson - 20.06.2019

Samgöngu og Sveitarsjórnarráðuneyti

Sölvhólsgötu 7

101 Reykjavík

Verð að segja að það eru mér vonbrigði að ekki hafi verið betur staðið að gerð þessa frumvarps. Hér er verið að gera því skóna að ef ekki verði farið í breytingar á leigubílalöggjöf þá eiga stjórnvöld á hættu að málið fari fyrir dómstól Evrópusambandsins er bara ekki allt í lagi að stjórnvöld standi í lappirnar gagnvart ofurvaldi EES samningsins og láti reyna á þetta fyrir dómstólum að minnsta kosti sæki um undanþágu gagnvart þessu regluverki.

Leigubílaakstur er starf sem þúsundir hafa atvinnu af, með því að opna uppá gátt leyfi til að stunda leigubílaakstur í þágu frelsis mun það svipta fjölskyldum þeirra sem hafa þetta starf að aðalatvinnu framfærslu.

Það er alveg til í því að gera megi þetta starf aðgengilegra fyrir fleiri en það er algjör óþarfi að gera það með þessum hætti. Ég legg til að þetta verði gert með þeim hætti sem Danir hafa farið að hverfa ekki frá stöðvarskyldu og mæliskyldu í leigubifreiðum. Ég get fullyrt það að hvergi í heiminum er betri og öruggari leigubílaþjónusta en á Íslandi, það er engin skortur á leigubílum og ef það er bíð á álagstímum þá er hún ekki lengri en bið á kassa í stórmarkaði á álgastímum þar. Gjaldið er sanngjarnt og ekki hærra heldur en í samanburðarlöndum. Í samantekt á reglum um leigubílaakstur er einungis vitnað í reglur á norðurlöndum en ekki athugað hversvegna eyjar eins og Tenerife sem 800 þúsund manns búa er eingöngu með leigubíla á leigubílastöðvum og eru þessar eyjar hluti af Spáni sem er aðildarríki Evrópusambandsins. Það gleymist líka þegar fjallað er um lög um leigubifreiðar þá hefur verið opnað fyrir þúsundir annarra leyfa til að aka farþegum gegn gjaldi á svokölluðum ferðaþjónustuleyfum á allar gerðir ökutæka, eins eru hundruð leyfa sem eru kölluð eðalvagnaleyfi allir þessir aðilar eru að vinna við einhverskonar leigubílaþjónustu og finna leigubílstjórar fyrir samkeppni við þessa aðila í auknum mæli. Það er mín skoðun að það ætti að fresta framlagningu þessa frumvarps þar til kannað hafi verið hvort ekki fáist undanþága frá þessum tilskipunum. Einnig legg ég til að ef lögin verða samþykkt að gildistöku verði frestað um 3 ár svo leigubílstjórum sem lagt hafa í miklar fjárfestingar fái aðlögunartíma til að standa straum af þeirri fjárfestingu.

Virðingafyllst,

Ársæll Hauksson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Sigurður Egilsson - 20.06.2019

Andmæli

Bifreiðastjóra félagið Átak og Taxiservice ehf

Samgöngu og sveitastjórnarráðuneytið

Efni : Umsögn vegna frumvarps vegna nýrra laga um leigubifreiðaakstur.

Gagnvart öryggi á takmörkun atvinnuleyfa

Fjöldatakmörkun leyfa hefur verið forsenda fyrir því hjá leigubílstjórum að hægt sé að hafa tekjur af vinnunni á hverju svæði fyrir sig miðað við íbúðafjölda.

Fjöldi atvinnileyfa

Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið eitt leyfi á hverja 400 íbúa, en í allri norðanverðri Evrópu hefur verið eitt leyfi á yfir 700 íbúa nema í Svíþjóð og Finnlandi þar sem leyfin voru gefin frjáls.

Það hafði afleitar afleiðingar í nafni frjálsrar samkeppni og fór illa með minnihluta hópa sem dæmi öryrkja, eldri borgurum,fötluðum og öðrum sem minna mega sín ásamt aukna kynferðisáreittni í leigubifreiðum meðal annars í Svíþjóð. Og til dæmis í Finnlandi hefur ökutaksti hækkað um c,a 30%, þess vegna teljum við að það sé nauðsynlegt að halda áfram starfsnámi í c,a 3 ár til að sía út starfsmenn sem hafa ekkert að gera með að vera í leiguakstri.

Samkeppnismál

Það er rétt hjá nefndini að þeir hafi bara fjölgað um 10 leyfi í leiguakstri, en aftur á móti hefur Samgönguráðuneytið sett inn hópferðaleyfi B sem er eingöngu breyting upp á 10 % dekkjastærð og eðalvagnaleyfi, ferðaskrifstofuleyfi, og við áætlum að það séu 250 aukaleyfi í beinni samkeppni við leigubifreiðar og hjá sumum af þessum hópum eru verð töluvert hærri.

Stöðvarskylda

Við erum sammála öðrum leigubílastöðvum sem sent hafa inn umsagnir varðandi stöðvarskyldu, og teljum að það sé mikilvægt öryggi í því fyrir viðskiftavini. Og teljum þar af leiðandi núverandi lög um stöðvarskyldu eðlilega.

Varðandi fjarveitur

Saman ber t,d fjarveitufyrirtæki eins og Uber og Lyft greiða bílstjórar 100% af veltu til þessara fyrirtækja og fá 65 til 75 % til baka,endurgreiðslan fer eftir markaðsvæðum þar með fer dýrmætur gjaldeyrir úr landi. Það hafa mörg fylki í Bandaríkjunum og lönd í Evrópu bannað þessi fjarveitufyrirtæki. Það kemur hvergi fram hjá nefndinni hvernig skatta málum yrði háttað gagnart þessum stórfyrirtækjum. Nú þegar hafa íslenskar leigubifreiðastöðvar byrjað að nota fjarveitur og eru kúnnar þegar byrjað að nota þessa þjónustu.

Veitingu og sviftingu leyfa

Varðandi veitingu og sviftingu leyfa er ótækt að stofnun fari með það vald þar sem viðkomandi sem veiti leyfi og sviftir þarf að hafa lögvald saman ber lög 32 frá 1930

Og 69 og 70 grein Stjórnarskrá Íslands.

Varðandi reglugerðir

Samkvæmt nýafstöðum dómi hæstaréttar voru reglugerðar ekki teknar sem lög enda stendur í Stjórnaskrá Íslands 61 grein. Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.

Starfsnám

Starfsnám hefur gengið vel innan leigubifreiðastöðva í áratugi þar sem leyfishafar og stöðvarstjórar hafa sint sínu starfi vel. Ef starfsnám á að afnema þá er eðlilegt að það sé sett í skóla eins og t,d í Bretlandi sem tekur 1 til 3 ár og er námið bundið eftir svæðum. Við teljum að núverandi starfsnám ( afleysingabílstjórar ) sé betra vegna þess að nemendur eru á launum í starfsnáminu og betur haldið utan um hvern einstakling. Við teljum að eðlilegt starfsnám sé 3 ár.

Auðkenni leigubíla samkvæmt 11 grein frumvarps

Samkvæmt 65 grein Stjórnarskrá Íslands má ekki mismuna varðandi merkingum á bílum.

Samkvæmt lokateksta í 18 grein

Sektir á grundvelli þessa ákvæðis má ákvarða leigubifreiðastöð þó að sök verði ekki sönnuð á fyrisvarsmenn eða starfsmenn hennar eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hennar starfa , enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir stöðina. Einnig má gera leigubifreiðastöð sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hennar eða aðrir einstaklingar sem í þágu hennar starfa gerast sekir um brot gegn lögum þessum.

Lokateksti í 18 grein stenst engan vegin Stjórnarskrá Íslands, mannréttindasáttmála Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðana, og ætti því að stokast út úr frumvarpinu.

22. gr. Málskot

Það er óeðlilegt að kæra til Ráðuneytis, eðlilegra væri að kæra til lögreglu.

Hugsanlegar skaðabætur

Við teljum að ef fjöldatakmörkun verði afnumin og vinna minki verulega gætu leigubifreiðastjórar áskilið sér rétt til skaðabóta gagnvart ríkinu, samanber núverandi makríldeilu.

20.6.2019

Virðingafyllst

F.h. Bifreiðastjórafélags Átak og Taxiservice

Jóhann Sigfússon

Sigurður Egilsson

Halldór Sigurþórsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Félag atvinnurekenda - 02.07.2019

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um leigubifreiðaakstur

Viðhengi