Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.5.–20.6.2019

2

Í vinnslu

  • 21.6.–28.7.2019

3

Samráði lokið

  • 29.7.2019

Mál nr. S-132/2019

Birt: 17.5.2019

Fjöldi umsagna: 14

Drög að frumvarpi til laga

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Frumvarp til nýrra laga um leigubifreiðar

Niðurstöður

Farið hefur verið yfir allar fram komnar umsagnir og brugðist við þeim með viðeigandi hætti. Breytingar voru gerðar á frumvarpinu í kjölfar umsagna. Meðfylgjandi er tafla með athugasemdum og viðbrögðum við þeim. Drögin verða sett aftur í samráð og mun þá fylgja skjal þar sem breytingar koma fram í breytingaham.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar. Markmiðið með frumvarpinu er að auka frelsi á leigubifreiðamarkaðnum og tryggja örugga og góða þjónustu.

Nánari upplýsingar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir hér til kynningar og samráðs drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar. Núgildandi lög eru frá árinu 2001 en gerðar hafa verið á lögunum nokkrar breytingar frá gildistöku þeirra.

Frumvarp til nýrra laga um leigubifreiðar er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og byggir að meginstefnu til á tillögum starfshóps um heildarendurskoðun regluverks um leigubifreiðakstur sem skipaður var í október 2017 og skilaði tillögum í formi skýrslu í mars 2018. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 134/2001 um leigubifreiðar.

Markmiðið með heildarendurskoðun regluverksins er að færa lagaumhverfi leigubifreiðamarkaðarins í frjálsræðisátt og tryggja örugga og góða þjónustu fyrir neytendur auk þess að tryggja að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Tilefni frumvarpsins er m.a. það að í janúar 2017 tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) íslenskum stjórnvöldum að stofnunin hefði hafið frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. ESA hefur nú gefið út rökstutt álit varðandi lög um leigubifreiðar í Noregi en löggjöf þar í landi svipar um margt til þeirrar íslensku. Slíkt álit er undanfari dómsmáls fyrir EFTA dómstólnum, bregðist aðildarríki ekki við álitinu. Í álitinu komst ESA að þeirri niðurstöðu að norska ríkið bryti gegn skyldum sínum skv. 31. gr. EES-samningsins sem kveður á um stofnsetningarrétt ríkisborgara EES-ríkja. Þannig fæli fyrir fram ákveðinn fjöldi atvinnuleyfa í sér ólögmæta takmörkun, reglur um úthlutun starfsleyfa sem byggja á starfsreynslu væru ekki fyrirsjáanlegar, hlutlægar og lausar við mismunun og loks var gerð athugasemd við skyldu sumra leyfishafa til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð. Reglurnar sem ESA gerði athugasemdir eru svipaðar þeim sem er að finna í núgildandi lögum um leigubifreiðar hér á landi.

Frumvarpið telur 25 greinar sem skipt er í fimm kafla. Í fyrsta kafla er að finna almenn ákvæði í tengslum við efni frumvarpsins. Annar kafli inniheldur ákvæði um leyfisveitingar á grundvelli laganna og skilyrði leyfa. Í þriðja kafla er svo að finna ákvæði sem snúa að rekstri leigubifreiða, í fjórða kafla eru ákvæði um eftirlit með starfseminni og í fimmta kafla ýmis önnur nauðsynleg ákvæði svo sem um gildistöku og lagaskil, gjaldskrárheimildir Samgöngustofu o.fl.

Meðal breytinga sem lagðar eru til eru afnám takmörkunarsvæða og fjöldatakmarkana atvinnuleyfa, afnám skyldu leigubifreiða til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð og breyttar kröfur til þeirra sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að til verði tvær tegundir leyfa sem tengjast akstri leigubifreiða. Annars vegar atvinnuleyfi, sem mun veita réttindi til að aka leigubifreið í eigu rekstrarleyfishafa í atvinnuskyni, og hins vegar rekstrarleyfi, sem mun veita réttindi til að reka eina leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa eða skráð undir umráðum hans og aka henni í atvinnuskyni.

Gerðar eru breytingar á skilyrðum til að mega reka leigubifreiðastöð og rekstrarleyfishöfum heimilað að framselja hluta af skyldum sínum með samningi til leigubifreiðastöðvar.

Gert er ráð fyrir því að heimilt verði að aka án þess að gjaldmælir sé til staðar í bifreið í þeim tilfellum þegar samið hefur verið fyrir fram um heildarverð fyrir ekna ferð. Þá er gert ráð fyrir því að gera megi ólíkar kröfur til merkinga bifreiða eftir því hvort þær séu búnar gjaldmæli eða ekki.

Frestur til að skila inn umsögnum er til 20. júní 2019 en umsagnir verða birtar jafnóðum í samráðsgáttinni.

Vakin er athygli á að meðal fylgiskjala er sérstakt athugasemdaform. Óskað er eftir að umsagnaraðilar leitist við að skila athugasemdum sínum í því formi til að auðvelda úrvinnslu umsagna. Þannig verður gagnsæi í umsagnarferlinu sem mest.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

srn@srn.is