Samráð fyrirhugað 16.02.2018—02.03.2018
Til umsagnar 16.02.2018—02.03.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 02.03.2018
Niðurstöður birtar 23.03.2018

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna

Mál nr. 14/2018 Birt: 16.02.2018 Síðast uppfært: 23.03.2018
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpinu voru kynnt almenningi hér í samráðsgátt stjórnvalda á vefslóðinni samradsgatt.island.is 16. febrúar 2018 og voru almenningi og hagsmunaaðilum gefnar tvær vikur eða til 2. mars til að koma að athugasemdum og ábendingum. Athugasemdir frá einum aðila bárust innan frests í gegnum samráðsgáttina, skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna frá 1. mars. Þar kemur fram að ánægjulegt sé að unnið sé að fullgildingu samþykktarinnar og réttilega á það bent að hluti samþykktarinnar sé nú þegar í gildandi lögum og reglugerðum. Þá var fjallað í umsögninni um einstök ákvæði samþykktarinnar. Áður en fjallað er um athugasemdir við einstök ákvæði þykir rétt að taka fram að um er að ræða lágmarksbreytingar á lögum svo unnt verði að fullgilda samþykktina. Í kjölfar þeirra þarf að gera breytingar á reglugerðum á sviðinu auk þess sem í einhverjum tilvikum þurfa stjórnvöld að móta sér stefnu. Athugasemdirnar taka að hluta til atriða sem þarf að mæla fyrir um í reglugerð eða stefnumótun þarf að eiga sér stað um og verður ekki fjallað ítarlega efnislega um þær. Vegna athugasemdar við 3. gr. frumvarpsins um hækkun á lágmarksaldri úr 15 ára í 16 ára þá hefur verið fallið frá þeirri breytingu vegna ákvæða alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar. Eftir sem áður gilda ákvæði reglugerða um hærri lágmarksaldur, svo sem vegna vinnu farmanna. Í 3. gr. frumvarpsins er nú lögð til breyting á 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, þar sem mælt er fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um næturvinnu vegna menntunar og þjálfunar ungra sjómanna 16–18 ára að undangengnu samráði við samtök sjómanna og útgerðarmanna. Með þessu tvennu er brugðist við athugasemd við 3. gr. frumvarpsins. Hvað varðar athugasemd við 2. gr. frumvarpsins þá hefur orðunum „og ganga óþvingaður að samningnum“ verið bætt við a-lið. Telja verður þó að slík regla gildi almennt í íslenskum rétti en breyting engu að síður lögð til. Í tengslum við síðari hluta athugasemdar við 2. gr. skal á það bent að skv. 2. mgr. 6. gr. laganna setur ráðuneytið nánari reglur um form og efni samninga. Tekið er undir það sem fram kemur í athugasemd við 10. gr. og hefur orðunum „og skipverjum að kostnaðarlausu“ verið bætt við 2. mgr. 10. gr. en jafnframt á það bent að ráðherra getur mælt fyrir um þessi atriði í reglugerð og að Samgöngustofa hafi eftirlit með því að skráningar- og ráðningarþjónusta uppfylli kröfur samþykktarinnar. Hvað athugasemd við 6. gr. varðar skal bent á 4. mgr. þar sem fram kemur að ráðherra setur nánari reglur um mat og drykkjarvatn, þ.m.t. magn og gæði, meðferð matvæla og eftirlit skipstjóra. Í tengslum við útgáfu skírteina er vísað til ákvæða 4. og 5. gr., sbr. einnig II. kafla, laga um áhafnir á íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum, nr. 76/2001, þar sem er mælt fyrir um að Samgöngustofa gefi út alþjóðleg skírteini samkvæmt lögunum og um gildistíma og endurnýjun skírteina. Bætt hefur verið nýrri 11. gr. í tengslum við kvartanir um borð í skipum. Loks skal tekið fram í tengslum við athugasemd vegna reglu 4.4. í samþykktinni um aðgang að velferðarmiðstöðum í landi að á Íslandi er aðgangur að hvers konar félagslegri og einkarekinni þjónustu í öllum þeim höfnum sem taka á móti skipum sem falla undir samþykktina. Má þar nefna félagslega þjónustu sveitarfélaga, sundlaugar, íþróttaaðstöðu, bókasöfn, hótel og veitingahús. Aðgangur að þeim er öllum frjáls án tillits til kynþáttar, félagslegrar stöðu, trúarbragða o.s.frv. Ætla má að það samfélagskerfi og sá aðbúnaður borgaranna sem er við lýði á Íslandi sé nægilega vel til þess fallið að annast hlutverk velferðarmiðstöðva í skilningi samþykktarinnar. Eftir að umsagnarfrestur rann út bárust athugasemdir frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi en samtökin óskuðu eftir framlengdum fresti til athugasemda og var hann veittur til 8. mars. Umsögnin barst þann dag og hefur hún verið gerð aðgengileg hér á samráðsgáttinni. Kemur þar m.a. fram að samtökin séu þeirrar skoðunar að með frumvarpinu hefði einungis átt að leggja til breytingar á ákvæðum laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, en ekki gera samhliða breytingar á sjómannalögum nr. 35/1985. Á það er bent að þrátt fyrir að sú alþjóðasamþykkt sem hér um ræðir ogalþjóðasamþykkt um vinnu við fiskveiðar séu að vissu leyti áþekkar séu þær um margt ólíkar, m.a. varðandi atriði frumvarpsins. Þá er á það bent í tengslum við síðarnefndu samþykktina að vinna við fullgildingu hennar þarf að halda áfram og nánari undirbúningur að eiga sér stað áður en breytingar verða gerðar á lögum. Þrátt fyrir framangreinda afstöðu eru gerðar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Gerðar eru athugasemdir við 2., 6. og 13. gr. frumvarpsins og á það bent að gera þurfi greinarmun á farmönnum og fiskimönnum enda gangi samþykktin sem hér um ræðir lengra en alþjóðasamþykkt um vinnu við fiskveiðar. Hvað athugasemd við 2. gr. varðar þá verður ekki talið að umrætt ákvæði sé íþyngjandi fyrir sjómenn enda um að ræða breytingar sem verða að teljast samræmast vel almennum reglum vinnuréttar. Hvað athugasemd við 6. gr. varðar þá hefur verið bætt við 4. mgr. 6. gr. að ráðherra geti mælt nánar í reglum fyrir um frádrátt vegna rekstrarkostnaðar frís fæðis í vissum tilvikum. Tekið er undir þá athugasemd að greinarmun þurfi að gera á farmönnum og fiskimönnum hvað 12. gr. varðar en á það bent að ákvæðið felur einungis í sér heimild ráðherra til að setja reglugerð um vinnusvæði og vistarverur skipverja en kveður ekki á um að þær skuli vera áþekkar í öllum atriðum fyrir þesssa tvo flokka skipverja. Aðrar breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu eftir samráðsferli voru það smávægilegar að ekki er ástæða til að geta þeirra frekar.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 16.02.2018–02.03.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.03.2018.

Málsefni

Drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna.

Drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna.

Á 94. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (e. International Labour Organization - ILO) í Genf 6. til 23. febrúar 2006 var gengið frá samþykkt um vinnuskilyrði farmanna (e. Maritime Labour Convention – MLC) og var Ísland þar meðal þáttakenda. Samþykktin felur í sér uppfærðar viðmiðanir alþjóðasamþykkta og –tilmæla um vinnuskilyrði farmanna auk grundvallarreglna sem er að finna í öðrum alþjóðavinnumálasamþykktum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sjómannalögum nr. 35/1985, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 og lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003. Verði frumvarpið að lögum og nauðsynlegar reglugerðarbreytingar gerðar í kjölfarið verður unnt að fullgilda samþykktina.

Þó meginmarkmið samþykktarinnar sé að tryggja farmönnum (starfsmönnum á farþega- og flutningaskipum) tiltekin réttindi þá er fullgilding samþykktarinnar ekki síður nauðsynleg svo Ísland geti sinnt virku hafnarríkiseftirliti, þ.e. haft m.a. eftirlit með því að önnur ríki fari eftir ákvæðum samþykktarinnar. Nágrannaríki Íslands, þ.e. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa öll á síðustu árum fullgilt samþykktina auk fjölda annarra ríkja í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa 84 ríki fullgilt samþykktina og ráða þau yfir 91% af skipastóli heimsins miðað við brúttótonnatölu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hilmar Snorrason - 01.03.2018

Sendi hér athugasemdir mínar við drög að frumvarpi til innleiðingar á MLC samþykktinni.

Viðhengi