Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 25.9.–9.10.2018

2

Í vinnslu

  • 10.10.–29.11.2018

3

Samráði lokið

  • 30.11.2018

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-140/2018

Birt: 25.9.2018

Fjöldi umsagna: 10

Drög að frumvarpi til laga

Matvælaráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Drög að frumvarpi til laga um endurskoðendur og endurskoðun

Niðurstöður

Í framhaldi af innsendum umsögnum var farið yfir ábendingarnar og gerðar breytingar á frumvarpsdrögunum. Frumvarpið er nú til meðferðar hjá Alþingi.

Málsefni

Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að skýra þær kröfur sem gerðar eru til endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja og innleiða breytingar í samræmi við kröfur sem gerðar eru til endurskoðenda í Evrópu með breytingu á Evróputilskipun endurskoðenda og reglugerð um endurskoðun á eininga tengdum almannahagsmunum.

Nánari upplýsingar

Endurskoðun skal stuðla að auknu trausti notenda á reikningsskilum félaga. Endurskoðandi skal gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum félaga. Hann er opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa og hlutverk hans er að gæta almannahagsmuna fyrst og fremst. Með frumvarpinu eru gerðar ríkari kröfur á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki hvað varðar starfsemi þeirra, óhæði og eftirlit með störfum þeirra.

Frumvarp þetta er hluti af Evrópskri samvinnu í að skapa traust á fjárhagsupplýsingum og reikningsskilum félaga og lagði Evrópusambandið fram breytingar á gildandi endurskoðunartilskipun og nýja reglugerð fyrir endurskoðun á eininga tengdum almannahagsmunum. Þann 16. apríl 2014 var í Evrópusambandinu samþykkt ný tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila nr. 2014/56/ESB. Með tilskipuninni eru gerðar breytingar á tilskipun nr. 2006/43/EB sem innleidd var hér á landi með lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008. Einnig var þann 16. apríl 2014 samþykkt ný reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum nr. 537/2014.

Nú eru tæp tíu ár síðan lög nr. 79/2008 um endurskoðendur tóku gildi og er komin reynsla á þau lög. Talið var nauðsynlegt að yfirfara núgildandi lög og bæta þar sem betur má fara samkvæmt ábendingum og reynslu á framkvæmd þeirra. Við samningu frumvarpsins var einnig horft til hinna Norðurlandana sem einnig hafa verið að gera breytingar á sinni löggjöf er lýtur að endurskoðendum og endurskoðun.

Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en vinnuhópur með fulltrúum frá endurskoðendaráði, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu komu að mótun frumvarpsins.

Með nýjum heildarlögum er stefnt að því að gera lögin skýrari varðandi kröfur til endurskoðenda, auka gagnsæi og fyrirsjáanleika þeirra krafna sem gilda um endurskoðendur og auka óhæði þeirra og hlutlægni þeirra í verkefnum sem þeir sinna. Helstu breytingar eru eftirfarandi.

Áhersla er lögð á að endurskoðendur skulu rækja störf sín í samræmi við góða endurskoðunarvenju og fjallað er nánar um hvað felist í góðri endurskoðunarvenju.

Kveðið er ítarlegar á um í frumvarpinu hvernig vinnu endurskoðanda og starfsemi endurskoðunarfyrirtækja skuli háttað.

Endurskoðun skal fara fram í endurskoðunarfyrirtæki sem hefur starfsleyfi og er skráð í endurskoðunarskrána. Gerðar eru ríkari kröfur á endurskoðunarfyrirtækin, veitingu starfsleyfis og innlögn starfsleyfa.

Gerðar eru ítarlegri kröfur varðandi óhæði endurskoðenda. En óhæði endurskoðandans er ein mikilvægasta stoð í starfi hans. Endurskoðandi þarf að vera óháður viðskiptavini sínum í reynd og ásýnd og leggur endurskoðendatilskipun Evrópusambandsins mikla áherslu á óhæði endurskoðandans með nánari kröfum sem lagðar eru til með frumvarpinu.

Opinbert eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum er styrkt og lagt er til í frumvarpinu að eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum fari til Fjármálaeftirlitsins. Eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skal vera öflugt og áhættumiðað og er Fjármálaeftirlitinu fengnar ríkari valdheimildir til að beita viðurlögum með það fyrir augum að hindra og koma í veg fyrir brot gegn gildandi reglum í tengslum við endurskoðunarþjónustu sem endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki veita.

Sérstök áhersla og ríkari kröfur eru gerðar á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum og er með frumvarpinu innleidd reglugerð Evrópusambandsins nr. 537/2014/ESB um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Hún verður birt sem fylgiskjal með lögunum. Vegna þess að einingar tengdar almannahagsmunum hafa umtalsvert vægi í opinberu tilliti, sem kemur til af umfangi og flækjustigi í starfsemi þeirra eða af eðli starfseminnar, þarf að efla trúverðugleika endurskoðaðra reikningsskila eininga tengdra almannahagsmuna. Er því gerður munur á kröfum sem gerðar eru til endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækjum sem endurskoða slíkar einingar. Þar eru m.a. gerðar enn ríkari kröfur á gagnsæi til almennings og aukið áhættumiðað eftirlit með þeim endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Með tilliti til þess verður að gera breytingar á núverandi eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum.

Gagngerar breytingar eru lagðar til á viðurlagaákvæðum laganna og aukin þau úrræði sem eftirlitsstjórnvald endurskoðenda hefur til að bregðast við brotum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja á lögum um endurskoðendur. Eins og í gildandi lögum er gert ráð fyrir að eftirlitsaðili geti svipt endurskoðanda réttindum sínum ef hann vanrækir alvarlega skyldur sínar eða brýtur gegn ákvæðum laga um endurskoðendur. Það er nýmæli að eftirlitsaðili hafi einnig heimild til að beita þessu úrræði gagnvart endurskoðunarfyrirtækjum, en í núgildandi lögum eru engar heimildir fyrir eftirlitsaðila til að bregðast við brotum endurskoðunarfyrirtækja. Einnig er lagt til að ef brot er ekki stórfellt skuli í stað réttindasviptingar áminna endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki og er jafnhliða áminningu heimild til að leggja stjórnvalssektir á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki. Einnig er lagt til það nýmæli að heimilt er að fella niður réttindi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis tímabundið.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa iðnaðar og nýsköpunar

postur@anr.is