Samráð fyrirhugað 20.06.2019—21.07.2019
Til umsagnar 20.06.2019—21.07.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 21.07.2019
Niðurstöður birtar 11.03.2020

Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030

Mál nr. 149/2019 Birt: 20.06.2019 Síðast uppfært: 11.03.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Ferðaþjónusta

Niðurstöður birtar

Niðurstöður samráðs kölluðu ekki á breytingar. Athugasemdum umsagnaraðila eru gerð skil í niðurstöðuskjali.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.06.2019–21.07.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.03.2020.

Málsefni

Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 er umræðuskjal þar sem almenningi og hagaðilum er boðið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um viðfangsefnið. Sýnin sem hér er kynnt er hugsuð sem undirstaða og afmörkun fyrir aðgerðabundna stefnumótunarvinnu sem hefst haustið 2019 og lýkur vorið 2020

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að á kjörtímabilinu verði mörkuð langtímastefna um ferðaþjónustu í samvinnu við hagaðila með sjálfbærni að leiðarljósi. Sú langtímasýn sem hér er lögð fram er undanfari aðgerðabundinnar stefnumótunar sem mun taka við af ferðamálaáætlun 2011-2020 og Vegvísi í ferðaþjónustu 2015-2020.

Í janúar 2019 var skipaður stýrihópur sem hafði það hlutverk að setja fram drög að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Verkefnið var unnið í samvinnu fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar og Stjórnstöð ferðamála. Í undirbúningsvinnu voru lögð til grundvallar margvísleg fyrirliggjandi gögn frá Íslandi og nokkrum viðmiðunarlöndum, m.a. Nýja-Sjálandi, Sviss og Skotlandi.

Lögð er fram sú framtíðarsýn að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri þróun. Áhersla er einnig lögð á að íslensk ferðaþjónusta stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld og sé þekkt fyrir gæði, fagmennsku og einstaka upplifun. Fyrstu drög að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem eru til umsagnar er að finna í meðfylgjandi skjali.

Framtíðarsýnin og leiðarljósið eru, ásamt nýju stjórntæki sem kallað er jafnvægisás ferðamála, saman hugsuð sem undirstaða og afmörkun fyrir aðgerðabundna stefnumótunarvinnu sem er framundan. Jafnvægisás ferðamála er stjórntæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins. Fyrstu niðurstöður jafnvægisássins er einnig að finna í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar sem nálgast má hér:

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1404

Með þessum tveimur tímamótaverkefnum er lagður grunnur að aðgerðabundinni stefnumótun og ákvarðanatöku fyrir ferðaþjónustuna til lengri tíma sem er byggður á traustum gögnum sem safnað er með skipulegum og reglubundnum hætti.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Íris Hrund Halldórsdóttir - 19.07.2019

Í drögum að framtíðarsýn og leiðarljósi fyrir íslenska ferðaþjónustu til 2030, er sjálfbær þróun lykilstef. Er það í takt við tengingu stefnumótunarinnar við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Að mati okkar, sem vinnum m.a. að rannsóknum á starfskrafti í ferðaþjónustu, vantar í stefnumótunina að fjalla um hvernig eigi að stuðla að sjálfbærum störfum og starfsmannahaldi í ferðaþjónustu á Íslandi. Í fræðilegri umfjöllun um sjálfbæra þróun í ferðaþjónustu er vaxandi gagnrýni á litla umfjöllun um starfsmannamál í stefnumótun stjórnvalda og greinarinnar. Fjölmiðlaumræða síðustu ár hefur einnig dregið fram að það er ekki síður þörf á því að bæta ímynd íslenskrar ferðaþjónustu sem starfsvettvangs, fyrir bæði erlenda og innlenda starfsmenn.

Í Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna númer 8 er fjallað bæði um góða atvinnu og hagvöxt, þar sem áherslan er á sjálfbæran hagvöxt og arðbær og mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla. Þar eru hlið við hlið undirmarkmið sem fjalla um sköpun starfa í ferðaþjónustu og verndun réttinda á vinnumarkaði. Á heimasíðu Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (https://www.un.is/heimsmarkmidin/atvinna-og-hagvoxtur/ ) hljómar markmið 8 og undirmarkmið 8.8 og 8.9 á eftirfarandi hátt:

Markmið 8 Góð atvinna og hagvöxtur Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla

8.8 Réttindi á vinnumarkaði verði vernduð og stuðlað að öruggu og tryggu vinnuumhverfi fyrir allt launafólk, meðal annars farandverkafólk, einkum konur í þeim hópi og þá sem eru í óöruggu starfi.

8.9 Eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur.

Í stefnumörkun stjórnvalda fyrir íslenska ferðaþjónustu til 2030 er horft til undirmarkmiðs 8.9 í áherslum á sköpun starfa í ferðaþjónustu um landið allt, en ekkert má greina í stefnunni tengt markmiði 8.8

Við undirrituð skorum á ráðherra ferðamála og aðra sem koma að lokagerð stefnumótunar til 2030, um hvernig íslensk ferðaþjónusta verður leiðandi í sjálfbærri þróun, að draga betur fram málefni starfsfólks í ferðaþjónustu.

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála

Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands

Hallfríður Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Mirru- fræðslu og rannsóknarseturs

Íris Hrund Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála

Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í landfræði við Háskóla Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök ferðaþjónustunnar - 19.07.2019

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsgön Samtaka ferðaþjónustunnar um framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Drífa Snædal - 21.07.2019

Umsögn ASÍ er í viðhengi.

Viðhengi