Samráð fyrirhugað 20.06.2019—21.07.2019
Til umsagnar 20.06.2019—21.07.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 21.07.2019
Niðurstöður birtar

Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030

Mál nr. S-149/2019 Birt: 20.06.2019 Síðast uppfært: 21.06.2019
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Ferðaþjónusta

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 20.06.2019–21.07.2019. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 er umræðuskjal þar sem almenningi og hagaðilum er boðið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um viðfangsefnið. Sýnin sem hér er kynnt er hugsuð sem undirstaða og afmörkun fyrir aðgerðabundna stefnumótunarvinnu sem hefst haustið 2019 og lýkur vorið 2020

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að á kjörtímabilinu verði mörkuð langtímastefna um ferðaþjónustu í samvinnu við hagaðila með sjálfbærni að leiðarljósi. Sú langtímasýn sem hér er lögð fram er undanfari aðgerðabundinnar stefnumótunar sem mun taka við af ferðamálaáætlun 2011-2020 og Vegvísi í ferðaþjónustu 2015-2020.

Í janúar 2019 var skipaður stýrihópur sem hafði það hlutverk að setja fram drög að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Verkefnið var unnið í samvinnu fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar og Stjórnstöð ferðamála. Í undirbúningsvinnu voru lögð til grundvallar margvísleg fyrirliggjandi gögn frá Íslandi og nokkrum viðmiðunarlöndum, m.a. Nýja-Sjálandi, Sviss og Skotlandi.

Lögð er fram sú framtíðarsýn að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri þróun. Áhersla er einnig lögð á að íslensk ferðaþjónusta stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld og sé þekkt fyrir gæði, fagmennsku og einstaka upplifun. Fyrstu drög að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem eru til umsagnar er að finna í meðfylgjandi skjali.

Framtíðarsýnin og leiðarljósið eru, ásamt nýju stjórntæki sem kallað er jafnvægisás ferðamála, saman hugsuð sem undirstaða og afmörkun fyrir aðgerðabundna stefnumótunarvinnu sem er framundan. Jafnvægisás ferðamála er stjórntæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins. Fyrstu niðurstöður jafnvægisássins er einnig að finna í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar sem nálgast má hér:

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1404

Með þessum tveimur tímamótaverkefnum er lagður grunnur að aðgerðabundinni stefnumótun og ákvarðanatöku fyrir ferðaþjónustuna til lengri tíma sem er byggður á traustum gögnum sem safnað er með skipulegum og reglubundnum hætti.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.