Samráð fyrirhugað 24.06.2019—06.08.2019
Til umsagnar 24.06.2019—06.08.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 06.08.2019
Niðurstöður birtar 12.10.2020

Drög að breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð

Mál nr. 150/2019 Birt: 24.06.2019 Síðast uppfært: 12.10.2020
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Ný reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð hefur verið birt í B-deild stjórnartíðinda Nr. 300/2020.Fyrsta reglugerðin um Vatnajökulsþjóðgarð birtist í júní 2008 og mælti hún m.a. fyrir um friðlýsingu Vatnajökulsþjóðgarðs, reglur um umgengni og verndaraðgerðir. Síðan þá hefur reglugerðinni verið breytt níu sinnum og breytingarnar að mestu snúið að stækkun þjóðgarðsins. Í stað þess að bæta við annarri reglugerðarbreytingu var ákveðið að endurútgefa reglugerðina í heild þar sem teknar eru inn framangreindar breytingar og nýjumað viðbættum kafla um atvinnutengda starfsemi.


Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 24.06.2019–06.08.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.10.2020.

Málsefni

Drög að breytingum á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð fjalla um atvinnutengda starfsemi innan þjóðgarðsins og leyfisveitingar.

Haustið 2016 tóku gildi breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Í lögunum er nú kveðið á um að óheimilt sé að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð. Jafnframt er kveðið á um að í slíkum samningum skuli setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins og að nánar skuli mælt fyrir um slík skilyrði, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæðinu í reglugerð.

Drög að breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð liggja nú fyrir. Í þeim er atvinnutengd starfsemi skilgreind, kveðið er á um málsmeðferð, samningsgerð og eftirlit og greinarmunur gerður á milli starfsemi sem nauðsynlegt er að takmarka að umfangi og starfsemi sem ekki er nauðsynlegt að takmarka að umfangi.

Frestur til að senda inn umsagnir um drögin er til og með 6. ágúst nk.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Karl Sigurður Guðmundsson - 04.08.2019

ég sakna þess að sjá ekki að í reglugerðini sé kveðið á um að þjóðgarðurinn standi við sínar skuldbindingar um þá þjónustu sem innt verður af hendi fyrir það gjald sem ákveðið verður, einnig að gjald verði fyrir þeim kostnaði sem fellur til við vissa þjónustu og leyfisveitinga kostnað.

Einnig er ég ánægður með umsögnina um val á atvinnufyrirtækjum hvað varðar upplifun, og hvet ég til að takmarkað verði ferðafjöldi hvers fyrirtækis í tvær ferða á dag per fyrirtæki á þeim stöðum svosem Breiðarmerkurjökli vestan megin til að bæta upplifun gesta, upplifun gesta þar undanfarin 3 ár hefur farið niður vegna of margra gesta á dag.

Einnig vil ég hvetja til þess að skilgreind verði á hvaða tíma sólarhrings takmarkanir eru þar sem sum en mjög fá fyritæki hafi boðið upp á íshellaferðir fyrir ljósmyndara og kvikmyndatökur frá aðal anna tíma, semsagt frá kvöldi til morguns. Það geta ekki verið mörg fyrirtæki í því og tel ég að beri að taka tillit til þeirra sem hafa verið að sinna því.

Afrita slóð á umsögn

#2 Sigurður Albert Ármannsson - 06.08.2019

Aftan við skilgreiningu 1.a á atvinnutengdri starfsemi bætist við eftirfarandi texti: Með orðunum "innan þjóðgarðsins" er átt við allt yfirborð lands og jökla sem og loftrými ofan þjóðgarðsins allt upp undir farflugshæð. Þar með segir að þjóðgarðurinn nær til alls svæðis ofan yfirborðs upp undir farflugshæð.

Viðauki við IV kafla A atvinnutengd starfsemi og leyfisveitingar.

31. gr a aftan við fyrstu málsgrein bætist " Þar með einnig innan loftrýmis yfir þjóðgarðinum upp undir farflugshæð.

Viðauki aftan við 31. grein a málsgrein 2: Stjórn þjóðgarðsins er óheimilt að leyfa atvinnutengda starfsemi innan / eða yfir þjóðgarði (sbr viðauka við viðbót við skilgreiningu á atvinnustarfsemi), starfsemi sem hefur áhrif á eða rýrir upplifun gesta af náttúrulegum hljóðheimi þjóðgarðsins. (Hér er sérstaklega vísað til hverskonar þyrlu eða drónaflugs sem gereyðileggur náttúruupplifun gesta sem eru fótgangandi á svæðinu. Það er ógerlegt að gefa kost á þyrluflugi yfir náttúrusvæðum þar sem allur fjöldi gesta er gangandi. Fólksfjöldi á gangi í þjóðgarði sem er á lista UNESCO og gargandi þyrlur fljúgandi yfir - er þetta það sem Vatnajökulsþjóðgarður á að vera þekktur fyrir - að sárafáir einstaklingar geti fyrir peninga eyðilagt upplifun fjöldans af náttúru þar með ærandi þyrluhávaða??? Þetta tvennt á enga samleið)

Afrita slóð á umsögn

#3 Sigurður Albert Ármannsson - 06.08.2019

Ágætu viðtakendur

Ég undirritaður starfa sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna víðsvegar um Ísland.

Þann 20 júní sl. kom ég með gesti í Skaftafell með það að markmiði að ganga inn að Skaftafellsjökli. Hópurinn lagði af stað sæll og glaður og drakk í sig þann frið og ró í bland við fuglasöng sem gestir í þjóðgarði gera ráð fyrir að upplifa. Kyrrðin var slík að gestir mínir voru allt að því þögulir en dásömuðu svæðið og þá náttúruupplifun sem þeir fundu fyrir þarna

Þegar við vorum komin langleiðina inn undir þann stað þar sem gróna svæðið endar og malarsvæði undan jökli tekur við þá heyrist þungt vélarhljóð og svo skerandi þyrlugnýr – þyrla á leið í lágflugi niður eftir Skaftafellsjökli niður á flugvöll. Stemmingin vægast sagt súrnaði heldur hjá þessum breska hópi sem ég var með þarna og þeirra ímynd af þjóðgarðinum fór veg allrar veraldar!!

Sá mikli hávaði sem af þessu hlaust var ekki í neinu samræmi við þá náttúruupplifun sem þjóðgarðar almennt gera sig út fyrir að veita og þar með þá ímynd sem þeir hafa að jafnaði á heimsvísu.

Á sínum tíma undirritaði þáverandi umhverfisráðherra Sigrún Magnúsdóttir reglugerð sem bannaði lendingu á þyrlum innan þjóðgarðs án sérstaks leyfis. Nú virðast menn ætla að komast framhjá þvi banni með því að lenda þyrlu rétt utan þjóðgarðs en fljúga svo í lágflugi yfir þjóðgarðinn með velborgandi gesti.

Þyrluflug yfir þjóðgarði og fótgangandi gestir um þjóðgarð eru tvær fullkomlega ósamræmanlegar aðferðir við að njóta náttúruupplifunar. Ef Vatnajökulsþjóðgarður ætlar að láta þyrluflug þarna viðgangast þá er eins gott að láta umheiminn vita af því að þarna er ekki lengur reiknað með fólki sem vill njóta náttúru, kyrrðar og friðar. Með því að láta þyrluútgerð yfir þjóðgarðinum viðgangast er einum aðila gefinn kostur á að selja fáum gestum eyðileggingu á þeim friði og náttúruupplifun sem aðrir gestir þjóðgarðsins koma til að njóta. Hljóðheimur þjóðgarða er viðkvæmt fyrirbæri og nú þegar Vatnajökulsþjóðgarður er kominn á lista UNESCO er enn frekari ástæða til að virða rétt fjöldans til að upplifa náttúruhljóð án aðkomu þyrluflugs.

Austan við Hnappavelli eru skriðjöklar þar sem fáir gestir koma og þar mætti hugsa sér að þyrlur hefðu leyfi til flugs upp yfir skriðjökul og þá aðeins frá lendingarstað niður undir þjóðvegi – alls ekki alltaf frá velli á Skaftafellsaurum – slíku fylgir allt of mikil hávaðamengun fyrir þjóðgarðinn.

Mikilvægi þess að varðveita kyrrð og náttúruhljóð er hliðstætt því að varðveita loftgæði. Hver og einn á rétt á því að anda að sér hreinu lofti án þess að aðrir séu að menga það með tóbaksreyk, á sama hátt á það að vera grundvallarréttur gesta í þjóðgarði að upplifa hljóðheim náttúrunnar hvenær sem er dagsins án þess að eiga það á hættu að þyrlugnýr eyðileggi þá upplifun!!!

Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök ferðaþjónustunnar - 06.08.2019

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Ársæll Hauksson - 06.08.2019

Mótmæli þessari reglugerð í heild sinni, þar sem hún er illa unnin.

Í fyrsta lagi er verið að færa vald til stjórnar þjóðgarðsins eða jafnvel í hendur á einum aðila til að ákveða hver fái að vera með starfsemi innan þjóðgarðsins og hverjir ekki. Vatnajökulsþjóðgarður þekur stóran hluta landsins og með þessari reglugerð er verið að færa yfirumsjón til frjálsrar atvinnustarfsemi til stofnunar sem á ekki að hafa það vald.

Líklegast hefur þessi reglugerð enga lagastoð og samræmist ekki stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins.

Legg til að hætt verði við eða frestað setningu þessarar reglugerðar þar til alvöru samráð verði hafið við hagsmunasamtök ferðaþjónustunar og alla aðila sem hugsanlega séu með einhverskonar starfsemi, sem nýti náttúru Íslands til upplifunar fyrir ferðamenn íslenska eða erlenda,

án þess að sækja um leyfi til þess.

Ársæll Hauksson

Vesturtúni 4

Garðabæ