Samráð fyrirhugað
Samráð stendur yfir 28.09.2018 - 11.10.2018
Niðurstöður í vinnslu
Niðurstöður birtar 29.11.2018

Veiðistjórnun hrognkelsa

Mál nr. S-141/2018 Stofnað: 27.09.2018 Síðast uppfært: 29.11.2018
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður birtar

Alls bárust 27 umsagnir. Unnið verður úr þeim og skýrslu starfshópsins. Á næstunni verður tekin ákvörðun um næstu skref í málinu.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.09.2018–11.10.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.11.2018.

Málsefni

Í greinagerð starfshóps um veiðistjórnun hrognkelsaveiða er farið yfir kosti og galla núverandi veiðistjórnunar á hrognkelsum. Í greinagerðinni er einnig fjallað um það hvaða leið væri æskilegust ef ákveðið yrði að breyta veiðistjórninni á þann hátt að veiðunum yrði stjórnað á grundvelli úthlutað aflamarks.

Í maí sl. skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að fara yfir veiðistjórnun á hrognkelsaveiðum og gera rökstudda tillögu um breytingar ef starfshópurinn sæi ástæðu til. Í starfhópnum sátu tveir fulltrúar tilnefndir af ráðherra og einn tilnefndur af Landssambandi smábátaeigenda. Starfshópurinn skilaði greinagerð til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 25. september 2018 þar sem farið er yfir kosti og galla núverandi veiðistjórnunar á hrognkelsaveiðum. Í niðurstöðum starfshópsins er bent á hvaða aðferð starfshópurinn telur að taki best tilliti til aðstæðna verði ákveðið að breyta veiðistjórn á hrognkelsum á þann hátt að veiðunum verði stjórnar á grundvelli úthlutaðs aflamarks. Hér með er efnt til opins samráðs um tillögur starfshópsins.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Gunnar Þór Jóhannsson - 28.09.2018

Legg til að ekki verði stuðst við að heimildir til grásleppuveiða verði bundin við leyfi. Tel það réttmætast að þeir bátar sem hafa stundað veiðar fá heimildir í grásleppu óháð því hvort að þeir eru með leyfi eður ei.

Tek dæmi. Bátur með skipaskrárnúmerið 1111 hefur veitt 50 tonn af grásleppu undanfarin 6.ár ,en er ekki lengur með grásleppuleyfi. Mun því báturinn með skipaskrárnúmerið 1111 ekki fá neinar heimildir því að hann hefur ekki gilt grásleppuleyfi?

Þetta þarf að mínu mati að skýra betur hvernig þetta verður framkvæmt miðað við þessar forsendur.

Afrita slóð á umsögn

#2 Bjarni Svanur Kristjánsson - 01.10.2018

meðfylgjandi er umsögn um veiðistjórnun hrognkelsaveiða pdf

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Vilhjálmur Ólafsson - 03.10.2018

Góðan dag.

Mig langar til að senda inn athugasemdir við hugmyndir um að kvótasetja grásleppuveiðar.

Í tillögum samráðshóps er lagt til að úthlutun verði bundin við grásleppuleyfin en ekki báta.

Þetta mun ef af verður leiða til þess að fjölmörg mál verða borin undir dómstóla.

Ég undirritaður er sennilega sá aðili sem samið hefur hvað flesta kaupsamninga fyrir grásleppubáta á liðnum árum.

Í þeim flest öllum er eftirfarandi klausa og kollegar mínir flestir eru með svipaða samninga:

"Verði bátnum síðar, á grundvelli 9. gr. laga nr. 166/2006 um stjórn fiskveiða, úthlutað fiskveiðiréttindum, krókaaflahlutdeild, krókaaflamarki, eða einhverjum öðrum réttindum sem byggja á aflareynslu seljanda eða forvera hans eða öðrum sem rekja má til eignarhaldstíma þeirra þá skulu þau réttindi falla til seljanda.

Séu slík réttindi að hluta til tilkomin vegna aflareynslu kaupanda eða annara atvika í hans tíð skal þessum réttindum skipt milli aðila hlutfallslega og þá miðað við þær reglur sem úthlutunaraðili notar við úthlutun sína.

Kaupandi skal við veðsetningar eða framsal eignaréttinda sinna gæta sérstaklega að þessu ákvæði og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að geta flutt slík réttindi til seljanda."

Þessir samningar eru í öllum tilfellum þinglýstir og hafa hingað til haldið fyrir dómi. Þeim sem strituðu og púluðu og bjuggu til þennan rétt eiga hann. Ekki hinir sem ætla að vera sniðugir og hrifsa þetta af þeim sem eiga réttinn samkvæmt samningi og hafa keypt upp leyfi að undanförnu.

Þeir sem hafa fylgst með þessu máli vita fyrir víst hvaðan þetta er komið inn í þessar tillögur.

Nefndarmenn allir hljóta að verða að spyrja sig og samnefndarmenn þeirrar spurningar hvort þeir séu allir hæfir til að leggja til svona tillögur sem eru algjörlega á skjön við ríkjandi hefðir og sanngirni.

Með vinsemd og virðingu.

Vilhjálmur Ólafsson

Löggiltur skipa- fasteigna- og fyrirtækjasali.

Afrita slóð á umsögn

#4 Jón Tómas Svansson - 06.10.2018

Sitt sýnist hverjum hvað varðar kvótasetn á slebbu. Það er margt sem mælir með kvótasetn, t,d, betri samræming á framboði m,v, eftirspurn og veiðiráðgjöf. Við hvað á að miða þegar aflareynsla er metin,, eðlilegast er að miða við leyfin./ //////tökum dæmi aðili sem er búin að vera að gera út á slebbu og byrjaði fyrir 6 árum á 5 tonna bát og í fyrra þá stækkaði hann við sig og kaupir bát sem alldrei hefur verið á grásleppu, viðkomandi þarf að stækka leyfið um x tonnatölu og er þá komin með betri bát til veiðanna, en það er þetta sérstaka sérveiðileyfi sem ræður því hvort hann fari á grásleppu, allment veiðileyfi þarf að vera með en þetta sérstaka leyfi sem er meira að segja með kennitölu þ,e, nr er lykillin að aðkomu við veiðarnar, komum aftur að bátnum , ef miðað væri við bátin þá væri allri veiðireynslu viðkomandi undanfarin 5 ár kastað fyrir róða og eingöngu 1 ár sem viðmið../// Við sem höfum verið að gera út á grásleppu undanfarin ár erum með og höfum haft sérstakt leyfi með nr til þessara veiða, svo það hniga öll rök að því að kvótasetn taki mið af aflareynslu leyfanna.

Afrita slóð á umsögn

#5 Bjarni Svanur Kristjánsson - 08.10.2018

Það verður auðljóslega snúið að skipta þessari köku ef kvótasetja á grásleppu, réttlátast væri að reglan væri sú að aflareynsla fylgdi leyfum en félli niður við sölu leyfanna, en að aflareynsla leyfa flytjist á milli leyfa ef útgerð kaupir sér annað leyfi, þ.e. að aflareynsla flyttist frá gamla leyfinu yfir á það nýja ef útgerð heldur áfram grásleppuveiðum. Síðan má hugsa hvort veiðireynsla eigi ekki að falla niður hafi leyfi ekki verið notuð síðustu 3 eða 4 ár. Það er jú ekkert réttlæti fólgið í því að einhverjir aðilar séu að græða á veiðireynslu annarra og heldur ekkert réttlæti í því fólgið að menn fái úthlutað kvóta ef menn séu í raun hættir útgerð.

Að öðru leyti vísa ég til viðhengis í fyrra umsögn.

Afrita slóð á umsögn

#6 Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson - 09.10.2018

Umsögn Smábátafélgsins Hrollaugs á Hornfirði vegna Veiðisjórnunar Hrognkelsa Mál nr. S-141/2018

• Kvótasetningu á grásleppu harðlega mótmælt.

Hrolllaugur mótmælir harðlega kvótasetningu á grásleppu. Sagan segir okkur hvað gerist. Það er margra ára reynsla á kvótasetningu í okkar þjóðfélagi.Samþjöppunin mun hefjast frá firsta degi kvótasetningar. Smábátaútgerðum mun fækka gríðarlega. Sumar byggðir munu missa alla atvinnu við grásleppuveiðar á meðan hún mun aukast í örfàum byggðum. Kvótasetning grásleppu er enn einn naglinn í líkistu trillukarlsinns og sá nagli verður í boði þeirra sem kvótasetninguna styðja. Aðgengi nýliða að útgerð mun skerðast mikið og núverandi og komandi kynslóðum verður gert nánast ómögulegt að hefja útgerð í þessu samfélagi. Það er ekkert sem ætti að knúa samfélagið í að kvótasetja grásleppu, núverandi fyrirkomulag hefur reynst vel. Grásleppan er ekki ofveidd. Kvótaetning á sjávarafla er ekki einkamál þeirra sem í greininni starfa heldur allrar þjóðarinnar.

Með öðrum orðum jafngildir kvótasetning á grásleppu alvarlegu hryðjuverki á íslenska smábátaútgerð og samfélag.

Fyrir hönd smábátafélagins Hrollaugs á Hornafirði

Vigfús Ásbjörnsson Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Hafsbrún ehf - 09.10.2018

Umsögn vegna hugmynda um kvótasetningu á grásleppu

Fyrir það fyrsta vill ég taka það fram að ég er alfarið á móti kvótasetningu á grásleppu. Sporin hræða, við vitum hvað hefur gerst við kvótasetningu á öðrum tegundum í öðrum kerfum með hrikalegri samþjöppun aflaheimilda en þegar maður les þessa greinagerð frá starfshópnum sem skipaður var vegna hugmynda um kvótasetningu á grásleppu hef ég á tilfinningunni að þetta sé það sem verður gert.

Ég hef stundað þessar veiðar síðan 1988 og reglulega koma vertíðar með mjög lágum afurðaverðum, jafnvel mörg ár í röð. Þannig að tugir útgerða jafnvel hundrað hafa ekki haldið til veiða sérstaklega síðustu árin vegna þess.

Það yrðu því mikil vonbrigði fyrir þessa aðila sem hafa þó reynt að ná afurðaverðum upp með þessu móti ef að farið yrði að tillögu nefndarinnar að miða aðeins við síðustu sex ár.

Ef það er raunin að farin verði sú leið að kvótasetja grásleppu þá er það tillaga mín að það verði komið til móts við þennan hóp útgerða með því að tvö bestu árin af síðustu 10 árum verði tekin til viðmiðunar.

Veiðireynsla fylgi grásleppuleyfum enda vandséð hvernig ætti að gera þetta öðruvísi og til að gæta hagsmuna allra sem eiga leyfi til grásleppuveiða verði t.d. úthlutað 15-20% á leyfi óháð stærð og 80-85% vegna veiðireynslu. Einnig að það verði engin veiðiskylda af þeirri einföldu ástæðu að það getur verið mikil veiði eitt árið en lítil sem engin það næsta sem gæti sett útgerðir í mjög erfiða stöðu sem stunda ekki aðrar veiðar.

Heimir Ingvason

Afrita slóð á umsögn

#8 Jóhann Arngrímur Jónsson - 10.10.2018

Garðar þh 122.

Kominn tími til að hætta sóknarmarki við útgerð smábáta á Íslandi. Það þarf að laga kerfin sem grásleppu og strandveiðar eru stundaðar eftir og gera mönnum auðveldar fyrir að ná þeim veiðirétti sem þeir fá, hvort sem um kg eða daga er að ræða.

Î dag fer afkoman of mikið í fyrirhöfn og kostnað í stað þess að skila framlegð.

Kerfin þurfa að leyfa skipstjórum að taka meira tillit til veðurs, fiskverðs ofl. Við sjósókn.

Kv.

Jóhann A. Jónsson

Afrita slóð á umsögn

#9 Ásmundur Skeggjason - 10.10.2018

Ákveði stjórnvöld að kvótasetja grásleppu til þess að ná fram betri og markvissari veiðistjórnun þá vil ég benda á neðangreind atriði í þessu sambandi.

1) Ekki má veiða grásleppu nema hafa til þess sérstakt grásleppuleyfi.

Eins og allir vita hafa leyfin gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði um árabil. Markaðsverð þeirra ræðst af stærð leyfanna sjálfra ásamt framboði og eftirspurn á hverjum tíma.

Tel rétt að benda á að margir hafa þuft að taka lán til þess að kaupa grásleppuleyfin sín og þann búnað sem þarf til veiðanna. Lánin eru þá oftast tryggð með veði í bát og leyfi.

Ég legg til að við kvótasetningu verði leyfin látin gilda 100 % í stað veiðireynslu. Þannig tel ég best tryggt að þeir sem eiga nú leyfi og þar með rétt til að fara á grásleppu haldi honum áfram.

Getum hugsað okkur að bátur með enga veiðireynslu hafi keypt leyfi og búnað fyrir margar milljónir nú í haust. Ákveði stjórnvöld að miða við veiðireynslu þá fær þessi aðili ekkert úthlutað heldur fengi sá sem seldi honum leyfið og búnaðinn af sínum bát kvóta. Það væri ósanngjarnt að mínu mati.

Ég legg líka til að stærð leyfa ráði því hvað mikið kemur til skipta hvers um sig. Rökin fyrir því eru þau að að stærri leyfin eru oftast samsett úr nokkrum minni leyfum sem búið er að sameina og að markaðsverð leyfa hefur ráðist af stærð þeirra. Stærstu leyfin sem kosta mest fá þá meira sem er rökrétt miðað við það sem liggur fyrir.

2) Bent hefur verið á að við sölu á bátum og leyfum hefur veiðireynsla oftast verið undanskilin og henni haldið eftir á leyfis lausum bátum sbr. hér fyrir ofan.

Bátar sem búnir eru að selja leyfin og fá greitt fyrir þau geta ekki farið á grásleppuveiðar. Þess vegna væri að mínu mati er órökrétt að úthluta kvóta til þeirra sem búnir eru að selja sín leyfi og fá greitt fyrir þau og samanber það sem áður hefur verið nefnt. Verði sú leið sem ég legg til farin þá verður þetta ekki vandamál.

Ákveði stjórnvöld að kvótsetja grásleppu til þess að ná fram betri veiðistjórnun, þá tel ég mikilvægt að þessi sónarmið séu höfð í huga.

Ég tel að þeir einir sem eiga leyfi við kvótasetningu og þar með rétt til að stunda veiðarnar eigi að haldi honum áfram.

Ásmundur Skeggjason

Afrita slóð á umsögn

#10 Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna - 10.10.2018

Umsögn Hafrannsóknastofnunar um greinargerð starfshóps um veiðistjórnun hrognkelsaveiða

Afrita slóð á umsögn

#11 Hólmfríður Arnardóttir - 10.10.2018

Stjórn Fuglaverndar furðar sig á að ekki sé minnst á fuglameðafla í umfjöllun nefndarinnar um veiðistjórnun hrognkelsaveiða og óskar eftir skýringu á því.

Það er ljóst að tölvuvert er að teistu komi í netin, og toppskarfur, og að taka þurfi tillit til þessa þegar fjallað er um veiðidaga og svæði.

Afrita slóð á umsögn

#12 Halldór Gunnar Ólafsson - 10.10.2018

Skagaströnd 10.10.18

Umsögn um kvótasetningu á grásleppu

Undirritaður er alfarið á móti kvótasetningu á grásleppu verði sú ráðstöfun til þess að rýra möguleika nýliða til þess að hefja smábátaútgerð. Á stöðum eins og Skagaströnd hafa heimamenn verið að fjárfesta í smábátum og horft til strandveiða, grásleppuveiða og byggðakvóta til þess að skapa fyrirtækjum sínum grundvöll. Grásleppuveiðar hafa þar skipt miklu máli enda verð á grásleppuleyfum verið yfirstíganlegt fyrir minni útgerðir og nýliða innan smábátaútgerðar.

Í samanburði við kostnað við kaup á varanlegum aflaheimildum innan krókaaflamarks hafa grásleppuleyfi verið mun ákjósanlegri kostur enda hitt nánast ógerlegt.

Grásleppuveiðar eru gríðarlega mikilvægur þáttur í atvinnulífi á ákveðnum landsvæðum. Í mörgum tilfellum er um að ræða hinar dreifðu byggðir sem hafa átt undir högg að sækja, m.a. vegna samþjöppunar innan sjávarútvegsins. Vanhugsaðar aðgerðir við kvótasetningu á grásleppu gætu því að mínu mati bitnað harðast á þeim sem veikastir eru fyrir.

Ég tel að það sé vel hægt að sníða vankannta af núverandi kerfi með því að opna fyrir sameininu leyfa, og auka fyrirsjáanleika í útgefnu aflamagni áður en veiðar hefjast. Einnig mætti útfæra hugmyndir með svæðisbundna kvóta og gefa rýmri tíma til veiða til þess að mæta ógæftum og hugsanlegum meðafla á ákveðnum tímum. Markmiðið með þessum breytingum væri að auka arðsemi greinarinnar sem yrði til þess að áhugi myndi aukast og tryggt yrði að útgefið aflamagn myndi nást.

Ég er þeirrar skoðunar að áður en ákveðið verður að kvótasetja grásleppu með sömu leikreglum eins og eiga við kvótabundnar tegundir er nauðsynlegt að láta framvæma úttekt á samfélagslegum áhrifum slíkra aðgerða.

Halldór Gunnar Ólafsson sjávarútvegsfræðingur og útgerðarmaður smábáts á Skagaströnd

Afrita slóð á umsögn

#13 Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna - 10.10.2018

Umsögn Hafrannsóknastofnunar um greinargerð starfshóps um veiðistjórnun hrognkelsaveiða

Grásleppuveiðunum hefur um langt skeið verið stýrt með sóknartakmörkunum. Hver bátur getur aðeins róið takmarkaðan dagafjölda, sem er gefinn út árlega. Fjöldi báta sem tekur þátt í veiðunum er breytilegur frá ári til árs, m.a. vegna aðstæðna á grásleppuhrognamarkaði, og hefur það áhrif á heildarafla. Á árunum 2005–2017 var fjöldi báta sem tók þátt í veiðunum á bilinu 144 til 369 á ári.

Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum mælt með hámarksafla við grásleppuveiðar og stofnunin hefur jafnframt lagt til að útgefinn dagafjöldi taki mið af fjölda báta sem munu taka þátt í veiðunum á hverjum tíma. Sóknarstýring veiðanna hefur þann galla að þegar dagafjöldi veiðanna er ákveðinn er ekki ljóst hversu margir bátar munu stunda veiðar á hverri vertíð. Þrátt fyrir þá óvissu sem fylgir því hversu margir bátar munu taka þátt í veiðum á hverri vertíð hefur heildarafli grásleppu verið innan við þann hámarksafla sem ráðlagður hefur verið.

Svo lengi sem heildarafla er haldið innan við ráðlagt aflamark hefur Hafrannsóknastofnun ekki skoðun á því hvort veiðum sé stjórnað með sóknarstýringu eða með útgefnu aflamarki.

Stofnunin bendir á að ef ákveðið verði að breyta stjórn veiðanna yfir í aflamarkskerfi þá gæti verið þörf á að hafa ákveðna svæðaskiptingu og stjórn á því hversu mikið yrði veitt innan hvers svæðis. Ástæða þess er að möguleiki gæti annars skapast á ofveiði ákveðinna svæða. Telur stofnunin að ef ákveðið verði að breyta stjórn veiðanna þurfi því að fara vandlega yfir mögulega svæðaskiptingu sem og hlutfallslega skiptingu aflaheimilda innan þeirra svæða.

Fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna,

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri

Afrita slóð á umsögn

#14 Valgeir Kristján Guðmundsson - 10.10.2018

Ég legg til að þessar veiðar verði í óbreyttri mynd.Ef þetta verður sett í kvóta þá verður enginn nýliðinn.

Afrita slóð á umsögn

#15 Pétur Sigurðsson - 10.10.2018

Umsögn vegna hugmynda um kvótasetningu á grásleppu.

Umræðan snýst um hvort kvótasetja eigi grásleppu eða halda í svipað veiðikerfi eins og hefur verið við líði um all nokkurt skeið.

Ég tel að þessi umræða sé komin á þennan stað fyrst og fremst vegna þess að þrátt fyrir tillögur og hugmyndir um sameiningu leyfa í því skyni að fækka virkum leyfum og gera útgerð grásleppbáta arðbærari en þær eru í dag hefur fyrirkomulag veiðanna og leyfanna verið óbreytt nokkuð lengi.

Núverandi fyrirkomulag er að mínu mati til þess eins fallið að gera veiðarnar eins óarðbærar og hugsast getur og er það því mín skoðun að nauðsynlegt sé að kvótasetja grásleppu, hvernig það verður gert er hins vegar ekki eins einfalt og ætla, í þeim umsögnum sem fram hafa komið eru nokkrar leiðir nefndar.

Sú leið sem mér hefur litist best á að þeim sem hér hafa verið nefndar er sú að úthluta á öll leyfi í samræmi við stærð þeirra, með því fá öll leyfi eitthvað fyrir sinn veiðirétt, mjög líklegt er að sú úthlutun sem hverjum bát verði úthlutað með þessum hætti verði ekki nægjanleg til að veiðarnar verði arðbærar og verða þeir sem vilja vera áfram á grásleppuveiðum að kaupa upp önnur leyfi til að hafa nægar heimildir.

Það getur vel verið að margir líti á sameiningu leyfa sem óneytanlega myndi verða við þessa leið sem óheppilega þróun, hins vegar er staðreyndin sú að þeir sem hafa stundað grásleppuveiðar undan farin ár eru rúmlega 200 bátar hafa ekki haft möguleika á að auka hagkvæmni veiðanna með lengri úthaldstíma, en myndu hafa það við þessa útfærslu.

Afrita slóð á umsögn

#16 Catherine Patricia Chambers - 10.10.2018

Sem vísindamaður á sviði fiskveðistjórnunar, með sérstaka áherslu á hrognkelsaveiðar og mikilvægi þeirra í smábátaútgerð sjómanna í dreifðum byggðum, vil ég leggja fram sérfræðiálit mitt í þessa umræðu. Meðfylgjandi er umsögn um veiðistjórnun hrognkelsaveiða.

Dr. Catherine Chambers

sjávarútvegsfræðingur og mannfræðingur

Ísafjörður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Sigurður Hlöðversson - 10.10.2018

Góðan dag.

Ef stjórnvöld hafa hug á að kvótasetja grásleppu,þá væri gott að mínu mati að hafa eftirfarandi í huga.

Það hefur ekki gengið vel að gera út á grásleppu í fjölda ára vegna ,lélegs verðs á mörkuðum og geta manna mjög misjöfn til þess að standa í slíkum rekstri.

Þar af leiðandi hefur verið gert misjafnlega mikið út eftir árum, jafnvel á sama leyfið .

Eins og reglurnar hafa verið við grásleppuveiðar hefur tímabilið verið frá kl X dags X og dagarnir talið út þangað til kl X dags X á viðkomandi svæðum.

Það er að mínu mati mjög ósanngjarnt að sá sem hefur lagt net sín í sjó á réttum tíma á viðkomandi svæði hafi lent í því að hafa fengið á sig óveður og ekki treyst sér að taka upp sín net eða vegna þess að dagarnir telja og látið net sín liggja í sjó og dregið þau upp eftir óveður og verið mest allt úthaldið ónýtt.

Þetta gæti hafa gerst hjá fleiri en einum ,jafnvel mörgum og kannski tvö ár í röð eða oftar.

Grásleppuveiðileyfi hafa gengið kaupum og sölum milli ára um langt tímabil og hafa margir fjárfest í dýrum leyfum ,dýrum búnaði og jafnvel dýrum bátum með veiðileyfi og hafa veiðileyfin verið dýrari eftir stærð leyfanna. Hafa þá þeir sem seldu væntannlega afsalað sér rétti til áframhaldandi veiða sem þeir fengu borgað fyrir við söluna á leyfunum.

Samkvæmt framansögðu er mín tillaga þessi:

1. Hvert veiðileyfi hafi fastan grunn sem er 50% vægi við úthlutun.

2. Hvert veiðileyfi 0-4 brúttótonn hafi sama grunn og önnur leyfi.

3.Hvert veiðileyfi umfram 4 brúttótonn hafi 50% vægi eftir stærð leyfis og hækki hlutfallslega við hver 0,5 brúttótonn við úthlutun.

Ef stjórnvöld ætla hins vegar að miða við einhverja veiðireynslu ,sem menn hafa lent misjafnlega í vegna þesss sem að framansögðu væri rétt að fara varlega og væri þá ekki óvarlegt að áætla að það yrði að taka að minsta kosti 7-10 ára tímabil og velja 2-3 ár af þeim bestu,sem hefðu þá eitthvað vægi.

Bestu kveðjur

Sigurður Hlöðversson

Afrita slóð á umsögn

#18 Finnbogi S Kristjánsson - 10.10.2018

Ég er alfarið á móti kvótasetningu á grásleppu, tel að það myndi endanlega gera útaf við veiðar frá smærri stöðum og kvótinn myndi fljótlega safnast á fáar útgerðir. Einnig tel ég að nýliðun yrði mjög lítil eða engin. Næg aðför var gerð að veiðum og verkun á grásleppu þegar skyldað var að koma með hana alla í land. Grásleppuveiðar sem stundaðar eru út frá heimasvæðum geta verið hlunnindi, rétt eins og fjörubeit. Ég hef gert út á grásleppu í norðanverðum Breiðafirði frá árinu 1974. Oft hafa veiðarnar gefið verulegar tekjur en líka brugðist þegar grásleppan hefur ekki gengið á miðin. Kvótasetning er að mínu mati galin og alveg tilgangslaus.

Með kveðju,

Finnbogi S Kristjánsson

Þristur BA 5 ehf.

Afrita slóð á umsögn

#19 Þórður Birgisson - 11.10.2018

Ef stjórnvöld ákveða að kvótasetja grásleppu er það fín leið sem nefndin leggur til. kennitölur sem ekki hafa nýtt leyfin sín síðustu 6 ár eru að öllum líkindum hættir. Því er það eðlilegt að mínu mati að þeir sem sannarlega hafa stundað þessar veiðar fái úthlutun.

Þar sem þessar veiðar lúta sérveiðileyfa er það eina sem telja á til viðmiðunar veiðileyfi sjálf en ekki báturinn.

Það er sennilega rétt að þetta mun stoppa nýliðun og því er ég ekkert sérstaklega hrifinn af kvótasetningu.

Ég hef ekki miklar áhyggjur af mikilli samþjöppun, eðlilega einhver hagræðing, en eðli þessara veiða er á þá leið að maður veit aldrei hvað vertíðin skilar, 17 til 62 tonna afli síðustu 6 ár hjá mér. Grásleppu veiðist hluta af ári, ca 3 mánuði og ekkert mál að halda netafjölda í skefjum eins og gert er núna. Afhverju ætti ég að sækjast eftir að eiga of mikið kvóta sem ég ger svo ekki veitt? Það má líka setja veiðiskyldu á þessar veiðar þar sem þetta eru sérveiðar, þá verður samþjöppun úr sögunni. Ég er ekki alveg búinn að sjá að það séu margir sem vilji kaupa mikið af grásleppuaflahlutdeild eins og sumir halda fram.

Svo mörg voru þau orð.

Kveðja

Þórður Birgisson

Afrita slóð á umsögn

#20 Örn Pálsson - 11.10.2018

Frá Guðmundi A. Hólmgeirssyni

Veiðistjórn hrognkelsa

Það hafa flestar fisktegundir verið settar í kvóta af Íslandsmiðum eins og menn vita og ekki óeðlilegt að þessi umræða komi upp nú.

Rökin tel ég vera í raun bæði með og á móti á báðum þessum kerfum.

Ef sóknardagarnir héldu áfram þyrfti að sníða þá vankanta af kerfinu

með eihverjum hætti, sem nú eru hvað varðar brælur og veikindi. Dagarnir halda áfram að telja frá fyrsta degi. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni á grásleppuvertíðum, að mikill hluti netastólsins verður ónýtur og í raun fækkar þá veidögunum, við endunýjun hans.

Rökin með sóknarkerfinu, eru þau að auðveldara er fyrir nýliða að komast þar inn og ekki hætta á samþjöppun.

Rökin með aflamarkskerfinu eru aðallega t.d. þau, að þegar ákveðin tonn eru komin á bát samkv. veiðireynsu undanfarin sex til átta ár og þrjú þeirra bestu tekin sem aflamark, þá tel ég að gæti orðið bæði auðveldara og hagkvæmara að athafna sig fyrir hverja útgerð, innan þess veiðtimabils sem ráðuneytið setur.

Huga þarf þó vel að því, vegna mikilvægi veiðanna fyrir hinar dreifðu byggðir um allt land að það verði komið í veg fyrir samþjöppun

sem gæti skapað mikla hættu fyrir útgerðarstaðina.

Mæli með því að ekki verði kvikað frá 15 brúttótonna stærðinni.

Hvað varðar álit Hafró á sjálfri sér, þá er ég henni ósammála, þ.e.

„að núverandi ráðgjöf byggi á traustum grunni." Og annað sem kemur fram hjá Hafró, „að breytingar á aðferðum yrði til þess að skapa meiri óvissu sem á móti gæti haft áhrif á sjálfa ráðgjöfina til lækkunar."

Þetta finnst mér vera erfitt að skilja.

Að hafa togararallí sem 70% vægi að ráðgjöf hverrar grásleppuvertíðar,

finnst mér byggja á mjög veikum grunni, svo ekki sé meira sagt.

Hrognkelsaveiði hefur alltaf verið mjög sveiflukennd við Ísland og verður sennilega áfram án þess að það sé auðvelt að greina ástæðuna.

Þess vegna legg ég til að við förum að dæmi Grænlendinga og við tökum meðaltal af veiði undanfarin þrjú til fimm ár og aflamarkið fyrir næstu vertíð verði ákveðið samkvæmt því meðaltali.

Með kveðju,

Guðmundur A. Hólmgeirsson

Afrita slóð á umsögn

#21 Friðþjófur Jóhannsson - 11.10.2018

Svar við greinargerð

Ég undirritaður er alfarið á móti kvótasetningu á grásleppu. Það fyrirkomulag sem verið hefur á grásleppuveiðum allt frá upphafi veiðanna hefur gengið nokkuð vel. Og snúist mest um markaðsmál það er að segja að reyna að halda verði á hrognum uppi með því að skammta dagana eftir verði afurðanna og horfum á markaði. Ég sé enga ástæðu til að breyta þessu fyrirkomulagi.

Ég hóf sjálfur grásleppuveiðar 1981 og það gekk oft á tíðum nokkuð vel. En menn voru nú ekki að hugsa um setja stein í götu þeirra sem á eftir myndi koma með því að biðja um kvótasetningu til þess að geta setið einir að veiðunum. Mér sýnist að þessar hugmyndir samráðshópsins séu nú ekki til þess fallnar til að auka á samstöðu innan smábátaflotans. Þar sem sumum finnst að þeir eigi alla veiðireynsluna sem til skipta kæmi ef um kvótasetningu yrði að ræða.

Ef þetta yrði niðurstaðan er ljóst að mjög margir sætu uppi með allan búnað og leyfin verðlaus sem engir kaupendur væri að og öll nýliðun væri úr sögunni eins og dæmin sanna við aðrar kvótasetningar.

Ef þessi kvótasetning er alveg óumflýjan leg að mati vitrustu manna þá legg ég til að leyfin verið látin gilda við úthlutun og fái ákveðin lágmarkskvóta sem menn gætu sætt sig við. Og að 10 ár verði tekin til viðmiðunnar.

Með kveðju

Friðþjófur Jóhannsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Kristján Andri Guðjónsson - 11.10.2018

Góðan dag.Ég vil sem leifishafi á Grásleppu mótmæla því harðlega að Grásleppuveiðar verði kvótasettar.Tel að einginn fiskifræðileg rök kníi á um það.Fiskitegund sem veiðist 2 til 4 mánuði á ári og mætir misjafnlega á svæðin á milli ára hefur ekkert með kvótasetíngu að gera.það eru aðeins veður og verð sem stjórna þessum veiðiskap og það hefur ekki bitnað á viðkomu fiskitegundarinnar.Ruglið í þessu byrjaði þegar hafró taldi sig geta talið Grásleppur með togararalli sem er algjör fásinna og ég tel að standist ekki vísindalega skoðun.það verður til að mynda ekki um níliðun að ræða ef kvótasetíng á að verða að veruleika.Annað sem ég vil benda á að samkvæmt Valdimarsdómi Hæstaréttar verður fiskveiðum ekki stjórnað með bæði leifum og aflamarki þannig að aflamark í Grásleppu mun þar að leiðanndi gánga kaupum og sölum eins og annað Aflamark.því spir ég mun það halda ef Grásleppa verður kvótasett að úthluta magni á Grásleppuleifin.Vona að það fyrirkomulag sem verið hefur á Grásleppuveiðum verði látið í friði af stjórnvöldum.

Afrita slóð á umsögn

#23 Baldur Þórir Gíslason - 11.10.2018

Hafi stjòrnvöld hug á ađ kvòtasetja grásleppuveiđar ætti ađ miđa viđ 2-3 bestu árin á 10 ára tìmabili. Mikill fjöldi hefur stundađ veiđar ì árarađir, jafnvel áratugi.

Leyfi til grásleppuveiđa hafa gengiđ kaupum og sölu og þvì eđlilegast ađ ef til kvòtasetningar kemur ađ miđa viđ leyfin. Eins og fram hefur komiđ hafa margir sett fyrirvara um aflaheimildir viđ sölu á bátum og ef midad yrdi viđ heimildir á báta má bùast viđ auknu flækjustigi. Hugsanlega vegna sanngirnissjònarmida fái hvert leyfi ákveđnar lámarksheimildir ef hægt er ađ tala um sanngirni viđ kvòtaaetningu.

Afrita slóð á umsögn

#24 Axel Helgason - 11.10.2018

Umsögn um greinargerð starfshóps um veiðistjórnun hrognkelsaveiða (sjá viðhengi)

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Atli Vilhelm Hjartarson - 11.10.2018

Kvótasetning Grásleppu er ekki til þess fallin að auka nýliðun í greininni. Það er auðveldara fyrir nýliða sem eru að byrja að kaupa einungis leyfi eins og verið hefur og þá jafnvel stunda strandveiðar í framhaldi. Hins vegar er ekki deilt um að fyrirkomulagið síðustu ár er ekki gott vegna þess hve seint og illa fyrirhugaðir veiðidagafjöldi er ákveðin. Fyrirkomulagið virtist ganga ágætlega þegar þetta var ákveðið í samráði við LS. Ef svo fer að kvótasetning verði þá ætti ekki að vera frjálst framsal á heimildum. Heldur ætti ríkið að eiga kvótann og þeir sem vilja kaupa veiðirétt kaupa þá af ríkinu og þeir sem hætta veiðum eða útgerð skila því til baka til ríkisins.

Afrita slóð á umsögn

#26 Ólafur H Gunnbjörnsson - 11.10.2018

Ég er alfarið á móti kvótasetningu á grásleppu.Kvótaetning mundi útiloka nýliðun sem er sérstaklega alvalegt þar sem þósoldil hreifing hefur verið á leifunum nýir menn að spreita sig sem yrði útilokað með kvótasetningu og kæmi harðast nyður á dreifðum bigðum.Grásleppuveiðar eru riskí bransi þar sem veður spilar stóra rullu og sveiblur miklar.Það er frekar dírt að starta á grásleppu og áhættan mikil.Ef af kvótasetningu verður tel ég að þessar veiðar legist af á 10 til 15árum og eini ávinningurin að eihverjir gætu kanski braskað eithvað í upphafi.Komi til kvótasetningar verða þau sérleifi sem hafa verið við líði að skapa grunnin að setja þetta á bátana væri hreinn þjófnaður.Það hefur verið góð stíring á þessu og ástæðulaust að breita.

Virðingarfilst Ólafur Gunnbjörnsson trillukarl ofl

Afrita slóð á umsögn

#27 Bergvin Sævar Guðmundsson - 11.10.2018

Umsögn um tilhögun Grásleppuveiða

Ég tel að ekki skuli setja Grásleppu í kvóta. En verði hún sett í kvóta er margt sem þarf að hafa í huga. Samkvæmt tillögum nefndarinnar munu þeir einir fá kvóta sem hafa veitt tiltekin ár en aðrir ekki neitt. Grásleppuleyfi er veiðiheimild án veiðiskyldu, þar af leiðir er veiðileyfið sem ekki hefur verið notað í nokkur ár jafn verðmætt og veiðileyfið sem hefur verið notað. Verði leyfin tekin af þeim sem ekki hafa notað leyfin sín í nokkur ár hlýtur það að kalla á bótaskyldu stjórnvalda því að um eignarupptöku er að ræða. Ég legg til að ef að kvótabinda á Grásleppuna þá verði að úthluta jafnt á alla báta með veiðileyfi. Hafa þarf í huga að samanþjöppun kvóta verði ekki of mikil og byggðarsjónarmið verði skoðuð vel.

Bergvin Sævar Guðmundsson