Samráð fyrirhugað 28.06.2019—26.07.2019
Til umsagnar 28.06.2019—26.07.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 26.07.2019
Niðurstöður birtar 14.08.2019

Verkefnisáætlun um heildarendurskoðun jafnréttislaga

Mál nr. 155/2019 Birt: 28.06.2019 Síðast uppfært: 14.08.2019
  • Forsætisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Farið var yfir allar umsagnir. Óskuðu allir umsagnaraðilar eftir því að fá að taka þátt í fleiri undirhópum en upphaflega var gert ráð fyrir í verkefnaáætluninni. Tekin var sú að ákvörðun að koma til móts við þær óskir og öllum umsagnaraðilum var bætt við þá undirhópa í samræmi við þeirra ósk. Umsagnaraðilum var sendur sérstakur tölvupóstur þess efnis þann 13. ágúst 2019.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.06.2019–26.07.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.08.2019.

Málsefni

Verkefnisáætlun um heildarendurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 í tengslum við áform um nýja lagasetningu.

Forsætisráðherra hefur ákveðið að setja af stað vinnu við frumvarp til nýrra heildarlaga um jafnrétti kynjanna en núgildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru frá árinu 2008, nr. 10/2008 með síðari breytingum. Stefnt skal að því að frumvarp til nýrra heildarlaga verði lagt fram á haustþingi 2020. Stýrihópur, skipaður af forsætisráðherra mun hafa umsjón með verkefninu sem skiptist í nokkra fasa. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn vinni með fjórum undirhópum um afmörkuð viðfangsefni þar sem gildandi lög ná yfir mörg svið og hafa ýmsa ólíka snertifleti. Mikilvægt er að ferlið feli í sér þátttöku hagsmunaaðila, sérfræðinga og annarra sem láta sig málið varða á öllum stigum og er því gert ráð fyrir víðtæku samráði um endurskoðun laganna.

Að ósk forsætisráðherra verður ráðherranefnd um jafnréttismál upplýst reglulega um framvindu þeirrar vinnu sem stýrihópnum hefur verið falin. Óskað er eftir tillögum og ábendingum um verkefnisáætlunina.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 BSRB - 03.07.2019

Efni: Umsögn BSRB um verkefnisáætlun um heildarendurskoðun jafnréttislaga

BSRB hefur tekið til umsagnar verkefnisáætlun um heildarendurskoðun jafnréttislaga sem sett var í samráðsgátt stjórnvalda þann 28. júní sl. BSRB fagnar því að ráðast eigi í heildarendurskoðun á jafnréttislögum. Í meginatriðum er BSRB ánægt með verkefnisáætlunina, en í umsögn þessari verður bent á tvö atriði sem bandalagið gerir athugasemdir við.

A. Launajafnrétti og vinnumarkaður og D. Bann við mismunun á grundvelli kyns

Gert er ráð fyrir því að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sitji í undirhópi A, sem fjallar sérstaklega um ákvæði jafnréttislaga sem tengjast vinnumarkaðnum. Í hópi D, sem fjallar um bann við mismunun á grundvelli kyns, á að fjalla um 24. gr. jafnréttislaga, sem er almennt ákvæði sem bannar mismunun, fjallar um kynferðislega áreitni og ofbeldi, heimilar sértækar aðgerðir og sérstakt tillit til kvenna vegna meðgöngu og barnsburðar. Að mati BSRB tengist 24. gr. laganna vinnumarkaðnum töluvert og því mætti skoða hvort umfjöllun um það ákvæði ætti frekar heima í hópi A. Í það minnsta þarf að tryggja að sjónarmið aðila vinnumarkaðarins komi fram í umfjöllun um ákvæðið.

B. Hlutverk Jafnréttisráðs og fleiri hlutverk varðandi stjórnsýslu jafnréttismála

Samkvæmt áætluninni er ekki gert ráð fyrir því að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sitji í þeim hópi sem hefur með hlutverk Jafnréttisráðs að gera. Ekki liggur fyrir hversu marga fulltrúa Jafnréttisráð mun hafa í hópnum, en aðilar vinnumarkaðarins eiga fjóra fulltrúa, þar af verkalýðshreyfingin tvo. Í 1. mgr. 9. gr. jafnréttislaga er fjallað um hlutverk Jafnréttisráðs og tekið fram að sérstök áhersla skuli lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Í ljósi þess að atriði tengd vinnumarkaði eru meðal helstu verkefna ráðsins telur BSRB rétt að aðilar vinnumarkaðarins komi að vinnu við þennan hluta laganna.

Fyrir hönd BSRB,

Dagný Aradóttir Pind

lögfræðingur

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Alþýðusamband Íslands - 05.07.2019

Meðfylgjandi er umsögn Alþýðusamband Íslands um verkefnisáætlun vegna heildarendurskoðunar jafnréttislaga. F.h. ASÍ, Maríanna Traustadóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök atvinnulífsins - 11.07.2019

Góðan dag,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um verkefnisáætlun um heildarendurskoðun jafnréttislaga.

f.h. SA,

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samband íslenskra sveitarfélaga - 18.07.2019

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Arnar Gíslason - 25.07.2019

Umsögn Samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna um verkefnisáætlun um heildarendurskoðun jafnréttislaga

Samráðsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskólanna, sem starfað hefur frá árinu 2015 og í eiga sæti jafnréttisfulltrúar allra háskólanna sjö á Íslandi (HA, HB, HH, HÍ, HR, LBHÍ og LHÍ), hefur tekið til umsagnar verkefnisáætlun um heildarendurskoðun jafnréttislaga sem sett var í samráðsgátt stjórnvalda þann 28. júní sl. Því er fagnað að nú sé ráðist í heildarendurskoðun laganna, og jafnframt eru gerðar þrjár athugasemdir við áætlunina.

A. Fram kemur að háskólasamfélagið eigi fulltrúa í hópi 4, sem fjallar um réttindi og skyldur og bann við mismunun á grundvelli kyns. Gerð er athugasemd við að ekki sé skilgreint nánar með hvaða hætti fulltrúi háskólasamfélagsins skuli tilnefndur. Þetta virðist vera undantekning í áætluninni, þ.e. að ekki sé skýrt skilgreint hvaða aðili tilnefni fulltrúa í undirhópum. Lagt er til að fulltrúi háskólasamfélagins sé tilnefndur af hálfu samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna. Þar eiga sæti jafnréttisfulltrúar allra háskólanna sjö á Íslandi, en hópurinn hefur starfað frá árinu 2015.

B. Einnig er lagt til að samráðsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskólanna eigi sæti í hópi 3, ekki síst með hliðsjón af því að sá hópur hefur til umfjöllunar 23. gr. laganna er lúta að menntun og skólastarfi.

C. Þá vekur það athygli að í verkefnisáætlun er ekki gert ráð fyrir beinni aðkomu fræðifólks. Við íslenska háskóla starfar fræðifólk sem rannsakar jafnréttismál frá mismunandi sjónarhornum. Við heildarendurskoðun jafnréttislaga er æskilegt að nýta alla þá þekkingu og reynslu á rannsóknum á sviði jafnréttismála sem finna má meðal fræðifólks á Íslandi.

Virðingarfyllst,

f.h. samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna

Arnar Gíslason

Jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Mannréttinda-og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar - 06.08.2019

Viðhengi