Samráð fyrirhugað 27.06.2019—20.07.2019
Til umsagnar 27.06.2019—20.07.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 20.07.2019
Niðurstöður birtar 30.07.2019

Áform um frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is

Mál nr. 156/2019 Birt: 27.06.2019 Síðast uppfært: 30.07.2019
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Niðurstaða málsins er í stuttu máli að fimm umsagnir bárust. Frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is mun verða sett í opið samráð í september nk. með öllum almennum fyrirvörum. Sjá skýrslu um samráð.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 27.06.2019–20.07.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 30.07.2019.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið áformar að semja nýtt frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is.

Í dag er ekki að finna heildstæða löggjöf um landshöfuðlénið .is eða önnur höfuðlén (e. top level domain). Þá er hvergi minnst á lén í íslenskri löggjöf, hvorki í fjarskiptalögum nr. 81/2003 né öðrum sérlögum er varða netið með einhverjum hætti. Landshöfuðlénum er útdeilt til allra ríkja og vísa til landfræðilegs uppruna. Landshöfuðlén eru ávallt tveggja stafa og eru byggð á ISO 3166-1 staðlinum.

Nokkrar atlögur hafa verið gerðar að samningu frumvarpa á þessu sviði og eitt þessara frumvarpa var jafnframt lagt fram á 139. og 140. löggjafarþingi. Frumvarpið sætti talsverðri gagnrýni og náði ekki fram að ganga.

Í þeim áformum sem hér eru lögð fram er lagt til að samið verði nýtt frumvarp um landshöfuðlénið .is og að settar verði skýrar lágmarksreglur um skráningu léna undir landshöfuðléninu .is. Líta verður á landshöfuðlénið .is sem mikilvægan innvið fyrir íslenskt samfélag og því verður að telja bæði tímabært og nauðsynlegt að sett verði lágmarks lagaumgjörð um skráningarstofu landshöfuðlénsins .is.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Gestur Andrés Grjetarsson - 10.07.2019

Það hefur alltaf verið örugsnúið og óréttlátt hvernig högun skráninga í .is , frá upphafi hafa viðgengist ýmsar hindranir, sem staðið hafa í veginum fyrir almennum skráningum, byggðar á tortryggni, fordómum og sérhagsmunum. Reglur hafa jafnvel verið settar sem misnotuðu opinber skráningarkerfi, eins og td. þegar krafist var að lén .is væri tengt nafni sem visaði í heiti skráningaraðila, þannig að skráð voru mýmörg áhugamannafélög fyrir kennitölurnar til að skrá lénin. Margt annað mjög einkennilegt hefur verið krafist tengt skráningum sem hefur bara verið til að hamla fyrir uppbyggingu og þekkingarsköpun.

Þetta hefur alltaf verið okur hvernig .is lén eru skráð og háð duttlungum sérhagsmunaafla. Þetta á alls ekki að vera í einkafyrirtæki sem heldur utanum skraningar á .IS , heldur opinber stofnun sem gerir það á kostnaðarverði.

Að skrá íslenskt lén á ekkert að vera í umsjá einkaaðila og stýrt af hagnaðarsjónarmiðum, þetta á að vera á kostnaðarverði og engin hindrun í framkvæmd, gera sem flestum að skrá sem mest af lénum í .is , hafa þetta algerlega sjálfvirkt, engar hindranir, ekkert háð duttlungum sérvirtringa og afturhaldsseggja, eða hvað þá háð einhverju boðvaldi misvitra einstaklinga á personulegum grunni. Eina gilda reglan um skráningu .is léna á að vera fyrstur kemur fyrstur fær, með fyrirvara um hugsanlega hugverkarétt eða einkarétt osfrv.

Að einhverjir sjalfumglaðir montnir misvitrir kverúlantar geti makað krókinn... með einkaleyfi, gert boð og bönn á persónulegum grunni, geta brotið reglur sem eru í gildi osfrv. er óþolandi með svona opinbera eign sem .is rótarlénið er.

Kostnaðarverð á að viðhafa undantekningarlaust , setja lög um þaö, hindra algerlega að þetta sé hagnaðardrifið, og tryggja öllum rétt aðgengi að því að skrá sér lén. Það á að gera sem flestum kleift að skrá sér .is lén, hafa þetta á kostnaðar verði og tryggja að ekki bara þeir sem eru í góðum álnum eða góðum vinasamböndum geti skráð sér lén eins og viðgengst í dag. Það er bara bull að hindra aðgang. Ef þú kynnir þér sögu skráninga léna í .IS frá upphafi, myndirðu sjá hvurslags þröngsýni og afturhaldssemi hefur stjórnað þessu hér gegnum tíðina, sérstaklega í upphafi. Skráningarreglur búnar til og háðar duttlungum misvitra manna sem þykjast hafa meira vit á þessu en aðrir. Það eru ótrúlega heimskar reglur sem hafa oft gilt um skráningar á íslenskum lénum í gegnum tíðina, þetta hefur lagast en það er langt í land með að þetta sé almennt i lagi. Eitt sinn sagði mjög sjálfumglaður og þröngsýnn maður sem kom að stjórnun ISNET á sínum tíma, við mig þegar ég stofnaði Islandia Internet árið 1994 að almenningur ætti ekkert erindi á netið og það væri ekki áhugi á að opna á það. Sami maður sagði "ég er internetið.." Svona er óviðeigandi , svona á ekki að geta viðgengist. Netið á bara alls ekki að vera rekið á persónulegum eiginhagsmunna grunni.

Almenningur á allan rétt á að nýta ser netið og án tafar á að eyða á út öllum hindrunum, gera þetta eins ódýrt og kostur er, með alsjalfvirkum portal sem sér um skráningar og afskráningar.

Við eigum án tafar að opna þetta og selja á kostnaðarverði, alls ekki hagnaðardrifið og taka þetta án tafar af einkaaðilanum.

Ef vilji er til að ræða þessi mál frekar, er velkomið að hafa samband við mig.

virðingarfyllst

Gestur A. Grjetarsson, sími 8565130

tölvuumsjón Borgarbyggðar

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök atvinnulífsins - 11.07.2019

Góðan dag,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um áform um frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Jens Pétur Jensen - 19.07.2019

ISNIC telur að ekki hafi verið sýnt fram á þörf fyrir setningu sérstakrar löggjafar um landshöfuðlénið .is. Í áformaskjali ráðuneytisins kemur fram að hvergi sé minnst á lén í íslenskri löggjöf. ISNIC bendir á að á því varð breyting með gildistöku laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019, sem samþykkt voru á Alþingi 11. júní sl. Þá liggur fyrir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004 í EES-samninginn. Gerðin hefur m.a. að geyma ákvæði um lén og lénaskráningarfyrirtæki. Því er ljóst að með innleiðingu hennar í íslenskan rétt bætist enn við umfjöllun um lén í íslenskri löggjöf. Þá bendir ISNIC á að fjölmörg ákvæði íslenskra laga, svo sem laga um eftirlit með viðskiptaháttum um markaðssetningu, nr. 57/2005, varða lén og lénaskráningu með beinum eða óbeinum hætti þótt hugtakið lén sé ekki sérstaklega tilgreint.

ISNIC telur að markmið áformaðrar lagasetningar séu óljós og að þeim markmiðum, sem tilgreind eru með áformunum, hafi ýmist þegar verið náð, sbr. umfjöllun að framan, eða þeim megi ná með einfaldari og minna íþyngjandi hætti en með lagasetningu.

ISNIC bendir góðfúslega á að fullyrðingar um að sambærilega löggjöf um landshöfuðlén sé víðast hvar að finna eru rangar. Rétt er að lög um landshöfuðlén hafa verið sett í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Engin slík lög er að finna um landshöfuðlén annars staðar á Norðurlöndum, né heldur um langstærstu landshöfuðlén Evrópu, .de í Þýskalandi og .uk í Bretlandi, svo dæmi séu tekin. Samtals stýra lénaskráningarfyrirtæki þeirra léna (DENIC e.G. og Nominet Ltd.) yfir 25.000.000 léna, eða yfir 70% af öllum lénum skráðum undir landshöfuðlénum í Evrópu.

Verði niðurstaða stjórnvalda eigi að síður sú að samið verði frumvarp til nýrra heildarlaga um .is, eins og áformin gefa til kynna, leggur ISNIC áherslu á að frumvarpið innihaldi ekki íþyngjandi ákvæði og minnir á stefnu stjórnvalda um einföldun regluverks, sbr. umfjöllun í umsögn Samtaka atvinnulífsins um áformin, dags. 11. júlí sl. ISNIC varar við því að íþyngjandi kvaðir myndu hefta þróun starfseminnar og draga úr samkeppnishæfni .is-höfuðlénsins. ISNIC bendir á að markaðshlutdeild .is á Íslandi er nú komin undir 50% skv. tölum frá Center.org (samtök lénaskráningarfyrirtækja í Evrópu) og hefur hún dregist saman á undanförnum árum eftir því sem mjög stórum aðilum á borð við Facebook, Google og Verisign (skráningaraðili .com) hefur vaxið fiskur um hrygg.

Að lokum bendir ISNIC á að internetið, þ. á m. lénaheitakerfið, er í sífelldri þróun sem ómögulegt er að sjá fyrir. Afar mikilvægt er að lög og reglur á sviði internetsins standi eðlilegri þróun þjónustunnar ekki í vegi. Því er lykilatriði, verði áformin að veruleika, að lög um landshöfuðlénið .is, verði almenns eðlis, en innihaldi ekki sértækar kvaðir sem takmarka myndu nauðsynlegt svigrúm ISNIC svo landshöfuðlénið .is geti þróast og tekið breytingum með eðlilegum hætti í síaukinni samkeppni um notendur internetsins.

Stjórn Internets á Íslandi hf.

ISNIC

Katrínartúni 2, 18. hæð

105 Reykjavík.

Afrita slóð á umsögn

#4 Ólafur Jón Jónsson - 19.07.2019

Mikilvægt er að samkeppni komist á hvað varðar sölu á .is lénum. Í dag er einn aðili sem einkarétt á þessari sölu sem hefur tryggðar árstekjur af því upp á 350-400 milljónir króna. Þetta er afar óeðlilegt fyrirkomulag sem vinda þarf ofan af. Ríkið á að sjá um heildsölu og taka fyrir það sanngjarnt gjald, en smásalar sjá um að endurselja til endanlegra kaupenda. Ríkið rekur þá innviði sem nauðsynlegir eru til að tryggja hnökralausan rekstur .is lénsins og viðheldur því öryggisstigi sem kröfur eru gerðar um.

Ef ágreiningur er um eignarhald .is höfuðlénsins þarf að gera út um hann. Þetta lén á ófrávíkjanlega að vera í eigu íslenska ríkisins, ekki einkaaðila.

Afrita slóð á umsögn

#5 Fróði Steingrímsson - 20.07.2019

Umsögn send fyrir hönd STEFs, SÍK, SFH og FRÍSK.

Afrita slóð á umsögn

#6 Félag rétthafa í sjónvarps og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) - 20.07.2019

í viðhengi má finna umsögn Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) um frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is. Þetta er sent inn í samráði við SÍK, STEF og SFH.

Viðhengi