Samráð fyrirhugað 27.09.2018—11.10.2018
Til umsagnar 27.09.2018—11.10.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 11.10.2018
Niðurstöður birtar 12.02.2020

Áform um frumvarp til laga um sviðslistir

Mál nr. 142/2018 Birt: 27.09.2018 Síðast uppfært: 12.02.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Lög um sviðslistir voru samþykkt á Alþingi 17. desember 2019

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 27.09.2018–11.10.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.02.2020.

Málsefni

Frumvarpið felur í sér rammalöggjöf um sviðlistastarfsemi, þar með talið Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn, auk ákvæða um sviðslistaráð, sviðslistasjóð og kynningarmál.

Frumvarpið skiptist í fjóra kafla:

Í fyrsta lagi verður kveðið á um markmið laganna auk þess sem hugtakið sviðslistir er skilgreint.

Í öðrum lagi verða ákvæði um Þjóðleikhúsið. Lagðar eru til nokkrar breytingar frá gildandi leiklistarlögum á ákvæðum sem fjalla um Þjóðleikhúsið. Sem dæmi nefna að óperur, söngleikir og listdanssýningar verða ekki áfram hluti af aðalhlutverkum leikhússins, ríkari menntunarkröfur verða gerðar til þjóðleikhússtjóra og um endurskipun hans fer að fyrirmynd ákvæðis í myndlistarlögum, nr. 64/2012.

Í þriðja lagi verður Íslenski dansflokkurinn lögfestur í fyrsta sinn.

Í fjórða lagi verða ákvæði um sviðslistaráð, sviðslistasjóð og um kynningarmál.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Stefán Sturla Sigurjónsson - 09.10.2018

Umsögn um áform um lagasetningu sviðslistalaga, MMR18080045

Þessar áætlanir um breytingar á sviðslistafögum eru að mestu af því góða og til þess gerðar að skerpa á lögunum og láta lögin vinna með og styrkja sviðslistir í landinu. Þar finnst mér þó algerlega vanta kafla og lýsingu á hvernig vinna eigi að því að skapa og styrkja um starfsemi sviðslista utan höfuðborgarsvæðisins.

Mörg lönd (flest norðurlanda) hafa þetta í regluverki sínu, þ.e. hvernig skuli styrkja og stefna að uppbyggingu á atvinnustarfsemi í sviðslistum utan stærstu þéttbýliskjarnanna.

Ég legg til að þetta verðið skoðað og bætt við grein sem segir til um hvernig þessum málum skuli háttað.

Kær kveðja og von um að þetta verði skoðað af alvöru.

Stefán Sturla Sigurjónsson

Leikari og leikstjóri.

Umsjónarmaður Lista og menningarsviðs FAS á Höfn.

Afrita slóð á umsögn

#2 Lókal, leiklistarhátíð ehf - 09.10.2018

Lókal gerir fyrst og fremst athugasemdir við fyrirhugaða starfsemi sviðslistasjóðs:

Í áformum þessum er kynning á íslenskum sviðslistum beinlínis sett í samhengi við starfsemi sviðslistasjóðs, en ekki er nógu skýrt kveðið á um hvaðan fjármunirnir til reksturs kynningarmiðstöðvarinnar (áætl. 20 – 30 milljónir árlega) skuli koma. Á einum stað er talað um að heimild ráðherra til að fela þar til bærum aðila að kynna íslenskar sviðslistir komi ekki til framkvæmda „fyrr en fjármagn er tryggt“. Verður sem sé aukið við fjárveitingar til sviðslistasjóðs til þess að mæta hinu nýja kynningarverkefni?

Í gögnunum kemur ekkert fram um nánari tilhögun sviðslistasjóðs eða fyrirkomulag starfsins – á sjóðurinn t.a.m. að úthluta tvisvar á ári eins og sambærilegir sjóðir, eða er jafnvel meiningin að hægt verði að sækja í hann allt árið um kring líkt og gerist hjá Kvikmyndamiðstöð?

Þá er í frumvarpinu búið að greina hvernig skipað skuli í þjóðleiksráð og stjórn Íd, en hvergi er minnst á aðferðafræði varðandi skipan nefndarmanna í nýtt sviðslistaráð. Fram til þessa hafa úthlutunarnefndir ekki starfað eftir sérstakri stefnu eða haft að leiðarljósi aðra sýn en þá sem ætla má að einskorðist við listrænan smekk hvers og eins nefndarmanns. Mun sviðslistaráð birta einhverskonar listræna stefnu sína þegar auglýst verður eftir umsóknum í sjóðinn? Hvers konar deildarskipting verður t.d. á milli áhugamanna og atvinnumanna – og kemur það fram í skipan sviðslistaráðs? Hversu margir eiga að vera í ráðinu? Eru þeir allir skipaðir af ráðherra, eða er gert ráð fyrir að nefndarmenn séu fulltrúar fagfélaga? Ef svo er, um hvaða fagfélög er verið að tala?

Það er margt óljóst við þau áform sem snerta sviðslistasjóðinn og það er sumpart í takt við það ógagnsæi sem ríkt hefur í störfum úthlutunarnefnda í sviðslistum. Það hefur valdið því að lítil samfella hefur náðst fram og starfsgrundvöllur sviðslistafólks í hinum svonefnda frjálsa geira verið afar veikur. Fjármunir hafa verið af skornum skammti og nánast ógerlegt fyrir listamenn að horfa til lengri framtíðar en eins árs í senn, enda ekki gert ráð fyrir að hægt sé að styrkja starfsemi þeirra til þriggja eða fimm ára – svo dæmi sé tekið. Það þarf að hlúa að því sem vel er gert og gefa þá heldur færri en fleirum almennilegt veganesti, því þrátt fyrir að kynning á íslenskum sviðslistum erlendis sé þarft verkefni, verðum við að gæta þess að nægileg samfella myndist í feril sviðslistafólks og leikhópa. Það er lykillinn að því að byggja enn frekar undir senuna hérlendis, lykillinn að því að við höfum yfirleitt eitthvað að kynna öðrum. Ef hugmyndin með nýjum sviðslistalögum er að styrkja sviðslistirnar, verður því að horfa á hlutina með hagsmuni listgreinarinnar að leiðarljósi.

Bjarni Jónsson, leikskáld og listrænn stjórnandi Lókal

Afrita slóð á umsögn

#3 Elfar Logi Hannesson - 09.10.2018

Takk fyrir það sem komið er en mikið vantar nú þarna inn. Það sem hryggir mig mest er að hér er ekkert minnst á landsbyggðina. Þar höfum við jú nokkur verið að reyna að byggja upp atvinnuleikhús/hópa yfirleitt án nokkurs skilings né áhuga menningarráðuneytisins. Finnst mér það miður því það eru fjölmörg tækifæri einmitt útá landbyggðinni hvað atvinnuleiklist og atvinnulistir almennt varðar. Þar sem ég starfa hefur skóinn nú einna mest kreppt og enn er hann þrengdur með því að minnast bara ekki á landsbyggðina hér. Það er eiginlega ekki hægt að bjóða lengur uppá svona. Maður fer bara að gráta. Leiklistarsaga, annarsstaðar en á Íslandi, segir einmitt allt annað hvað landsbyggð varðar. Víða hefur menningarstýrelsan séð tækifæri í að efla og styrkja atvinnuleiklist á landsbyggð það sýna fjölmargir hópar t.d í Danmörku og víðar. Hvi ekki að koma á atvinnuleikhúsi í hverjum kjarna landsins? Allavega þætti mér vænt um það að landsbygggðin verði með í þessu plaggi erum við ekki annars að tala um leiklistarlög fyrir landið allt? Með ósk um betrumbætur

Afrita slóð á umsögn

#4 Orri Huginn Ágústsson - 10.10.2018

Sjálfstæðu leikhúsin gera eftirfarandi athugasemdir við áform um lagasetningu sviðslistalaga, MMR18080045 mál nr. S-142/2018:

• Hvernig verður skipað í sviðslistaráð? Í núgildandi leiklistarlögum nr. 138/1998 er í 17. gr. kveðið á um að Leiklistarsamband Íslands (nú Sviðslistasamband Íslands) og Bandalag sjálfstæðra atvinnuleikhúsa (SL) tilnefni sinn fulltrúann hvort, en ráðherra skipi þann þriðja án tilnefningar. Fær SL áfram rödd í þessu sviðslistaráði? Verður þetta þriggja manna ráð líkt og leiklistarráð er nú eða verður fjölgað í ráðinu?

• Þörf er á verulegri hækkun á framlögum í sjóði til atvinnusviðslista til að leiðrétta þá gjá sem hefur myndast milli launakjara sjálfstætt starfandi listamanna og listamanna hjá stofananaleikhúsunum. Nú er þörf fyrir a.m.k. 35 milljón króna hækkun á styrkjum til atvinnuleikhópa til þess að hægt sé að greiða lágmarkslaun m.v. gildandi kjarasamninga í faginu. Sviðslistasjóður þyrfti því að hækka um að lágmarki 55-65 milljónir eingöngu til að standa straum af stykveitingum til atvinnusviðslista og kynningarmiðstöðvar. Þá eru ótaldir styrkir til áhugaleikfélaga og kostnaður við umsýslu sviðslistaráðs. Hvað þá kostnaðaraukning vegna aukinnar ábyrgðar og umsýslu sviðslistaráðs m.v. leiklistarráð nú, en gera má ráð fyrir að umfang og verkefni sviðslistaráðs aukist til muna með tilkomu nýrra sviðslistalaga og þá um leið kostnaður við rekstur þess. Tekið er fram í 17. gr. þessara draga að þóknun fulltrúa í sviðslistaráði sem og annar kostnaður af starfsemi ráðsins greiðist úr sviðslistasjóði, en gildandi leiklistarlög nr. 138/1998 kveða hins vegar á um að þóknun fulltrúa í leiklistarráði sem og annar kostnaður við störf þess greiðist úr ríkissjóði. Eðlilegt væri að kostnaður við rekstur ráðisins sé ekki tekinn af þeim fjármunum sem ætlað er að styðja við listsköpun.

• Starfsgrundvöllur sjálfstætt starfandi sviðslistafólks er mjög veikur. Sjálfstæðir sviðslistahópar hafa nær enga möguleika á samfellu í starfi. Þessir hópar starfa yfirleitt ekki einu sinni á ársgrundvelli, heldur eingöngu verkefnisgrundvelli. Kannski er þessi lagasetning ekki staðurinn fyrir slíkt, en þar sem til stendur að gera róttækar breytingar á því hvernig farið er með styrkveitingar til þessa geira væri óskandi að sjá opnað á möguleikann að styðja atvinnuleikhópa til samfelldrar starfsemi í kannski 3-5 ár í senn. Annað sem hvergi er vikið máli að er stuðningur við atvinnufólk í sviðslistum á landsbyggðinni, eða er það málefni sem á alfarið að vera á könnu sambands sveitarfélaga? Auk þess er þörf á þróunar og rannóknarstyrkjum í sviðslilstum, en það er ljóst að slíkt verður ekki að veruleika nema með aukinni fjárveitingu í málaflokkinn.

• Í þessum drögum er lögð til heimild til handa ráðherra til að fela þar til bærum aðila rekstur kynningarmiðstöðvar. Ekki er þó gert ráð fyrir hækkun framlaga í fjárlagafrumvarpi komandi árs heldur að skoðað verði að millifæra fjármuni innan málaefnasviðsins verði þetta heimildarákvæði virkjað. Ekki er ljóst hvaðan væri hægt að millifæra þessar 20-30 milljónir sem er áætlaður rekstrarkostnaður, til viðbótar við þann upphafskostnað sem kanna að falla til við að koma kynningarmiðstöð á laggirnar.

• SL er ósammála því að setja undir einn hatt atvinnufólk í sviðslistum og áhugaleikhópa eins og virðist vera markmiðið með þessum drögum. Ekki er ljóst hvert markmiðið er með því að blanda saman hagsmunum atvinnufólks og áhugafólks, nema þá að létta „stjórnsýslubyrði ráðuneytisins”. Það er talað um að sjóðurinn skiptist í tvær deildir. Hvernig verður hlutfalli styrkja háttað milli deildar atvinnusviðslista og deildar áhugasviðslista? Hvernig verður það hlutfall fest í sessi og á hverju á það að byggja? Hver er hugsunin á bak við það að láta sama ráðið sjá um styrkveitingar til þessara ólíku hópa eða er ætlunin að skipa tvær úthlutunarnefndir, eina fyrir hvora deild með tilheyrandi kostnaði? Nú er Bandalag íslenskra leikfélaga (BÍL) ekki aðili að Sviðslistasambandi Íslands, enda er SSÍ vettvangur atvinnufólks í sviðslistum en BÍL samtök áhugaleikfélaga, eiga áhugaleikfélögin þá að tilnefna einstakling til setu í sviðslistaráði? Þessi tilhögun virðist vanhugsuð og ekki fæst séð hvernig hún á að þjóna hagsmunum sjálfstæðra atvinnuleikhópa og því síður áhugaleikfélaganna.

Það er tekið fram í mati á áhrifum þessarar lagasetningar (lið D 10. gr.) að verði frumvarpið að lögum muni það styrkja starfsemi sviðslista og skapa grundvöll fyrir því að standa að kynningu á sviðslistum innanlands sem utan. Þetta er vonandi rétt en til að hægt sé að standa við það vantar aukin fjárframlög.

Okkar helstu áhyggjur eru að þeir peningar sem nú eru eyrnamerktir starfsemi atvinnuleikhópa heiti allt í einu peningar sviðslistaráðs og renni í ýmis önnur verkefni heldur en stuðning við sjálfstæða atvinnuhópa í sviðslistum. SL myndi vilja sjá að þeir peningar sem ætlaðir eru til úthlutunar í starfsemi atvinnuleikhópa verði áfram sérstaklega eyrnamerktir sem fé ætlað sviðslistasjóði deild atvinnufólks og annað fé sem sviðslistaráð kanna að þurfa til að sinna lögbundnu hlutverki sínum komi frá ráðuneytinu til viðbótar við áðurnefnda fjárhæð.

Nú þegar er vöntun á fjármunum til atvinnuhópa um 35 milljónir. Það þarf því að vera tryggt að hlutfall styrkja til atvinnusviðslista skerðist ekki á móti styrkjum til áhugaleikhópa, rekstrarfé KÍS og rekstrarkostnaði sviðslistaráðs. Eins og þetta er lagt fram þarna getur SL því aðeins fellt sig við frumvarpið með tilkomu aukinna fjárframlaga hins opinbera í sviðslistasjóð.

f.h. stjórnar SL

Orri Huginn Ágústsson,

formaður SL

Afrita slóð á umsögn

#5 Páll Baldvin Baldvinsson - 11.10.2018

Reykjavík 11. október 2018.

Til þeirra er málið varðar.

Samráðsgátt mennta- og menningarmálaráðuneytis um ný sviðslistalög.

Í dag er síðasti dagur til athugasemda um fyrirhugað frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra til nýrra sviðslistalaga í stað Leiklistarlaga 1998 nr. 138 23. desember með áorðnum breytingum: l. 69/2009 (tóku gildi 26. júní 2009) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). Á samráðsgáttinni var birt síðla dags 27. september yfirlýsing ráðuneytis um fyrirhuguð lög, en frumvarpstextinn ekki en tvö fylgiskjöl: Mat á áhrifum lagasetningar og Áform um lagasetningu um frumvarp til laga um sviðslistir. Drögin að frumvarpinu hafa ekki verið birt og var kvartað yfir því við ráðherra með bréfi dags. 8. október. Það mun vera þriðja atlaga ráðherra að nýjum sviðslistalögum sem nú er í vændum. Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur þá menntamálaráðherra náði til þingsins og var komið á veg í nefndavinnu er það dagaði uppi. Sjá https://www.althingi.is/altext/141/s/0202.html. Fjöldi athugasemda barst þá þinginu sem má kynna sér á vef þingsins.

Fyrstu drög.

Í janúar á þessu ári var boðað til kynningarfundar í ráðuneytinu um drögin sem þá voru enn í vinnslu. Fylgir myndrit af þeim erindi þessu, (ráði gáttin við stærðina). Í framhaldi af þeim fundi var ráðuneytinu sent eftirfarandi bréf:

Páll Baldvin Baldvinsson til ráðuneytis dags. 25. janúar 2018.

Góðan dag,

Undirritaður var boðaður á fund starfsmanna mennta og menningarmálaráðuneytis þann 19. janúar kl. 10 í forföllum Kolbrúnar Halldórsdóttur forseta Bandalags Íslenskra listamanna, en ég sit í stjórn BÍL fyrir hönd Félags leikstjóra á Íslandi og sit í Þjóðleikhúsráði tilnefndur af því félagi með skipun til 1. desember 2019.

Á fundinn var boðið fulltrúum hagaðila, Bíl, Þjóðleikhússtjóra Ara Matthíassyni, listrænum stjórnanda Íslenska dansflokksins, Ernu Ómarsdóttur, formanni Sviðslistasambandsins Birnu Hafstein sem einnig situr í Þjóðleikhúsráði tilnefnd af Félagi íslenskra leikara, og Steinunni Birnu Ragnarsdóttur óperustjóra Íslensku óperunnar. Af hálfu ráðuneytis sátu fundinn Arnfríður Valdimarsdóttir verkefnisstjóri og Daði Heiðar Kristinsson lögfræðingur.

Á fundinum var kynnt vinnslugagn ráðuneytis að nyjum sviðslistalögum. Í fundarlok kynnti Daði fyrirhugaðan feril nýs frumvarps til laga sem enn er í vinnslu í ráðuneytinu. Var gestum kynnt gagnið sem trúnaðarmál en þeim afhent afrit á pappír og gefinn kostur á athugasemdum fyrir 26. janúar. Er ætlun ráðherra að leggja nýtt frumvarp fram hið fyrsta, birta drög á heimasíðu og leita þá athugasemda. Fer frumvarpið síðan til alþings og er þá leitað álits hagsmunaðila og annarra sem málið varðar í tveimur umræðum og meðferð allsherjar og menntamálanefndar.

Gagnið var kynnt með samanburði gildandi laga og frumvarpsdraga. Var gestum gefinn kostur á athugasemdum í lok kynningar. Gerði Ari snemma í kynningu athugasemdir um hverra fulltrúar gestir væru og dró síðar í efa hæfni sína sökum persónulegra hagsmuna sem starfsmanns Þjóðleikhússins.

Snemma í kynningunni lýstum við Birna því yfir að við teldum að innan fagfélaga yrðu gerðar athugasemdir um ráðningartíma og endurráðningarskilyrði forstöðumanna Þjóðleikhúss og Íslenska dansflokksins. Að öðru leiti var drögunum fagnað af gestum, enginn kostur var gefinn á að ræða efni greinargerðar sem fylgdi þó margt af rökum hennar væri tíundað í máli Arnfríðar.

Drögin fela í sér nokkur nýmæli þó séu líkt og gildandi lög á þeirri línu að vera almenns eðlis. Dregið er úr skyldum Þjóðleikhúss til söngleikja og óperuflutnings en skoðun á ársskýrslum Þjóðleikhúss 2007-2015 leiðir í ljós að óperuflutningur er enn á verkefnaskrá hússins. Að öðru leiti eru aðalverkefni hússins skilgreind á sama hátt og fyrr.

Breytt er ákvæðum um ráðningu þjóðleikhússtjóra (forstöðumanns) þannig að sem fyrr er ráðningartími hans 5 ár, en nú er fellt burt ákvæði um að starf hans skuli alltaf auglýst í lok hvers ráðningartímabils (Lög nr. 138 23. desember 1998. 6. grein)., en líkt og í fyrri frumvörpum ráðuneytis tekið upp heimildarákvæði um endurráðningu en felld burt skylda um umsögn þjóðleikhússráðs þar um. Það vald virðist samkvæmt drögunum liggja hjá ráðherra einum. Er það í bága við fréttir frá 24. janúar um þá skoðun mennta og menningarmálaráðherra að svo valdamikil embætti skuli alltaf auglýst. Líkur eru á að innan Bíl sé ráðningarregla til lengri tíma enn í umræðu sbr. tilefni fréttarinnar: 17 ára embættisferil forstöðumanns Kvikmyndasjóðs/kvikmyndamiðstöðvar. Sama gildir um fleiri langar ráðningar forstöðumanna sbr. langan feril forstöðumanns Þjóðminjasafns, Kvikmyndasafns Íslands og fleiri fjárfrekra og valdamikilla stofnana á sviði vísinda og lista þar sem þróun er ör og endurnýjunarkrafa starfsemi í hraðri alþjóðlegri þróun er rík.

Ábyrgð forstöðumanns Þjóðleikhúss er færð til samræmis nýjum reglum á því sviði. Hafa þær þegar haft þau áhrif innan Þjóðleikhúss að saman fara listræn ábyrgð og fjármálaleg, og skipurit hússins hefur samkvæmt fyrrnefndum árskýrslum dregið allt vald á hendur eins manns sem fyrir ráðningu núverandi forstöðumanns var á hendi fleiri starfsmanna. Má sjá reikult skipurit sem birt er í aðgengilegum ársskýrslum Þjóðleikhúss undanfarinn áratug til sönnunar því.

Virðist ekki í hugmyndum ráðuneytis litið til umfangs starfsins og framtíðarskipulagningar verkefna. Nú er fjármálaáætlun sem rædd verður á Alþingi innan skamms til fimm ára og fjármálaáætlun stofnana sem skal samþykkt af ráðuneyti í október eða fyrr ár hvert fyrir komandi almanaksár þess eðlis að td. verkefnaval og ráðningasamningar séu hið minnsta hugsaðir til tveggja starfsára í senn, komandi almanaksárs og fyrra misseris næsta árs á eftir. Kallar þetta nýja fyrirkomulag á ríkari fyrirhyggju um verkefni og starf stofnananna.

Til samræmis þeim rekstrarreglum verður að benda á að verulega er dregið úr ábyrgð og eftirlitshlutverki þjóðleikhússráðs í drögunum. Ráðið hefur enn umsagnarskyldu um ráðningu þjóðleikhússtjóra en aðeins eftirlitshlutverk með áætlunum með umsagnaskyldu til ráðuneytis. Sökum hins almenna anda laganna eru engin ákvæði um tímamörk þeirra umsagna, skilaskyldu né heldur hver tímamörk framlagðra áætlana forstöðumanns eru. Engin slík tímamörk eru í núverandi reglugerð og kallar það á er drögin komi fram óbreytt að ráðið setji sér starfsreglur, kynni ráðherra þær og vinni eftir þeim. Eftir að ég hóf störf í Þjóðleikhúsráði óskaði eg eftir að færðar væru nákvæmar fundargerðir ráðins og hef nú í rúmt ár óskað eftir að ráðið sett sér starfsreglur í ljósi nýrra starfshátta í áætlangerð ríkisins. Ekki hefur það gengið eftir.

Gert er ráð fyrir óbreyttum skipunareglum í ráðið: ráðherra tilnefni þrjá, þar af formann, en Bíl tvo. Tilnefningar hafa allt frá upphafi ráðist af stjórnmálalegum ástæðum rétt eins og var þá Alþingi skipaði ráðið sem laut þá samsetningu þingsins. Verður að harma að ráðið skuli ekki skipað faglega, líkt og er með td. stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í ljósi skýrri ábyrgðar forstöðumanns (sem var reyndar skýr í eldri lögum þó enginn fyrri þjóðleikhússtjóra væri látinn bera ábyrgð á hallarekstri, ekki frekar en ráðuneytisstjórar eða forseti Íslands sem fara yfir fjárheimildir) verður að ítreka að hlutverk forstöðumanna Þjóðleikhúss og Íd er fyrst og síðast listræns eðlis. Ætti ráðið að vera skipað fagaðilum um listræna stefnu, leikhúsfólki, því hinn listræni þáttur er það sem skiptir mestu máli sbr. 1. grein draganna. Hvort tveir fulltrúar eru tilnefndir af Bíl eða Fíl og Flí er aukaatriði. Rök verkefnisstjóra um aðkomu fleiri fagfélaga að starfi stofnanna eru veik: Langstærsti hluti starfsmanna eru leikarar og dansarar. Þó unnið hafi verið að samruna stéttarfélaga leikhússfólks í ein samtök, stéttarsamtök sviðslistafólks, að frumkvæði FlÍ um nokkuð skeið sem væru best til þess fallin líkt og SÍM að skipa slíka fulltrúa, hlýtur krafa Bíl að vera sú að samtök fagaðila tilnefni fjóra fulltrúa í ráðið, en ráðherra einn og það velji sér formann.

Breytingar á greinum ÍD eru til samræmis breytingum um Þjóðleikhús.

Athygli vekur hve tímamörk eru sett í skipan stjórnarnefnda, en þar er ströng endurnýjunaregla uppi: menn skipaðir til þriggja ára með möguleika um endurskipan einu sinni. Þar eru tímamörk þrengri en í skipan forstöðumanna. Og svo enn sé áréttað hvað fimm ára reglan með einum endurnýjunarrétti er háskaleg. Núverandi þjóðleikhússtjóri var ráðinn framkvæmdastjóri Þjóðleikhúss 2010, þjóðleikhússtjóri 1. janúar 2015 til fimm ára, verði hann ráðinn samkvæmt þessum drögum einu sinni til mun hann hafa afgerandi stöðu í listrænni starfsemi í 15 ár, jafnlengi og Stefán Baldursson, sjö árum skemur en Guðlaugur Rósenkrans. Svo löng seta er fátíð í stofnunum nálægra landa á okkar tímum. Nýlega var hert á kröfum um hreyfingar í dómarasetum - brýnt væri að þeir skiptu um sæti - eftir þriggja ára setu! Rök þess efnis að forstöðumenn listastofnana skuli njóta sama ráðningartíma og aðrir forstöðumenn er álitamál: í allri starfsemi ríkisstofnana kann að vera hollara að hafa ráðningartíma skemmri til að tryggja framþróun í skipulagi og starfsháttum, rétt eins og í öðrum atvinnurekstri.

Í IV. kafla frumvarpsins eru gerðar miklar breytingar á launasjóðafyrirkomulagi. Ráðið er skipað þremur og þar er fært að hafa listamenn eða fulltrúa þeirra í meirihluta andstætt þjóðleikhúsráði og ráði ÍD. Með greinum 15-17 eru gerðar mikilvægar breytingar. Hér eru aftur óskýr hlutverk Sviðslistasambandsins/sviðslistaráðs sem nú er og þessa þriggja manna ráðs. Verður að finna því stað í reglugerð því væntanlega telja fag- og hagaðilar sem hlut eiga að Sviðslistarsambandinu (stofnanir, fyrirtæki og fagfélög) að þau hafi enn hlutverki að gegna í málefnum sviðslista. Verður að líta á það sem mistök að ekki skuli gert ráð fyrir skýrum greinarmun á hinu eldra sviðslistaráði og hinu nýja. Þarf að gera þar skil á í reglugerð.

Ákvæði um kynningarstarfsemi (kynningarmiðstöð sviðslista) eru ófullnægjandi en málefni og framtíð kynningarmiðstöðvanna eru í skoðun og er að vænta niðurstöðu starfsnefndar um þau 1. júní á þessu ári. Brýnt er að koma henni á þannig að fjármagn starfssjóða í sviðslistum nýtist betur smærri hópum til útflutnings. Hefur forseti Bíl kynnt ráðuneyti eldri nefndarvinnu um kynningarmiðstöðva sviðslista frá vori 2016.

Ákvæði um óperustarfsemi eru opin enda framtíð óperustarfsemi á Íslandi í uppnámi nú þegar leigukjör Hörpu hafa eytt öllum sjóðum Íslensku óperunnar.

Ákvæði 15. og 16. greinar núgildandi laga eru horfin úr drögum þessum og þar afleiðandi er möguleiki á þriggja aðila samningum sem hafa skipt miklu máli td fyrir menningarstarfsemi norðanlands ekki lengur til. Það er synd og mun það væntanlega verða leiðrétt í meðförum þingnefndar.

Mér þykir lítill metnaður í þessum drögum: margra áratuga baráttu fyrir föstum sessi óperustarfsemi nær ekki fram. Grunnur listrænnar starfsemi Þjóðleikhúss er enn í sömu förum og 1949, kynningarstarfsemi sviðslistanna er óráðin, en allt þetta ræðst að metnaðarleysi stjórnmálafla í landinu. Drögin eru snyrtiaðgerð á óbreyttu ástandi þó í þeim felist endurskoðun á launasjóðsskipulagi og fyrirheit um að komið verði á samræmdri starfsemi kynningarmiðstöðvanna. Athyglisvert er að þess gætir hvergi í greinargerð að á vegum ráðuneytis hafi farið fram skoðun á skipan þessara mála í öðrum löndum. Á vegum þjóðleikhúsráðs var fyrir fáum mánuðum gerð rösk könnun á stjórn ríkisleikhúsa og mun ráðið væntanlega gera ráð fyrir því fyrirkomulagi í fyllingu tímans verði umsagnar þess leitað.

Í frekari umfjöllun um þennan málaflokk verður trúnaðarkrafa ráðuneytis um gögnin áfram virt og þess beðið að endurskoðuð drög komi fram á vef ráðuneytis sem fullbúið frumvarp til frekari umræðu.

Reykjavík 25. 1. 2018.

Virðingarfyllst,

Páll Baldvin Baldvinsson

Kolbrúnu Halldórsdóttur forseta Bandalags íslenskra listamanna gafst kostur á að kynna sér drögin og sendi hún eftirfarandi athugasemdir til ráðuneytis:

Hugleiðingar og athugasemdir við drög að frumvarpi til sviðslistalaga

4. gr.

Breytingin á fyrirkomulagi ráðningar þjóðleikhússtjóra hefur ákveðna galla. Nauðsynlegt er að kveða skýrar á um fyrirkomulag umsagnar þjóðleikhúsráðs til ráðherra varðandi ráðningu þjóðleikhússtjóra. Einnig þarf að skýra með hvaða hætti það mat fer fram, sem kveðið er á um í greinargerð með 4. gr., að liggi til grundvallar endurráðningu þjóðleikhússtjóra. Í ljósi þessa þyrfti að kveða skýrar á um hlutverk og verkssvið þjóðleikhúsráðs í lagatextanum sjálfum. Þetta sjónarmið má styðja með rökstuðningi umboðsmanns Alþingis í úrskurði 6045/2010:

http://www.umbodsmaduralthingis.is/ViewCase.aspx?Key=1705&skoda=mal

Þar eru þau sjónarmið reifuð að þjóðleikhúsráð þurfi að láta frara fram mat á umsóknum um starf þjóðleikhússtjóra og gera grein fyrir því á hvaða sjónarmiðum er byggt við matið. Einnig bendir umboðsmaður á að rétt sé að þjóðleikhúsráð setji sér vinnureglur um mat á hæfni umsækjenda, sem þýðir að fyrirmæli um slíkar reglur þyrftu að vera í frumvarpinu. Loks gerir umboðsmaður athugasemd við að ekki skuli hafa verið haldin gerðabók á fundum ráðsins varðandi ráðninguna og að brýna þurfi fyrir ráðinu að ástunda vandaða stjórnsýsluhætti við störf sín þegar undirbúnar eru umsagnir til ráðherra. Eðlilegt er að þetta sé haft í huga þegar frumvarpstextinn er ákveðinn, því eins og orðalagið er nú þá er óljóst með hvaða hætti heimild sú sem getið er um í grg. með 4. sr. skuli fengin og hverjum skuli fengið það vald að ákveða hvort auglýsa beri stöðu þjóðleikhússtjóra að liðnu fyrra tímabilinu.

5. gr.

Hér mætti leggja til breytingu sem gæfi sviðslistageiranum meira vægi en ráðherranum við skipan í þjóðleikhúsráð; þannig væri skynsamlegt að fara sömu leið og ákveðið var þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður, þar sem Baklandi LHÍ skipar þrjá fulltrúa í stjórn skólans en ráðherra tvo. Í tilfelli LHÍ er stjórninni sjálfri falið að skipta með sér verkum, sem sýnir traust stjórnvalda á leiðsögn grasrótarinnar. Slík aðferðafræði gæti verið farsæl í tilfelli Þjóðleikhússins.

Draga má í efa að Bandalag íslenskra listamanna sé best til þess fallið að tilnefna fulltrúa í þjóðleikhúsráð, sérstaklega í ljósi þess að nú er til umræðu að stofna stéttarsamband sviðslistafólks, sem ef af verður kynni að verða sambærilegt við sambandsfélag myndlistarmanna SÍM, þar sem einungis situr einn fulltrúi í stjórn BÍL en með bakland í sjö mismunandi fagfélögum myndlistarmanna.

Þá er gerð athugasemd við orðalagið að þjóðleikhúsráð skuli „fylgjast með“ starfsemi Þjóðleikhússins og framkvæmd stefnu þess. Það hlýtur að vera skynsamlegt og í samræmi við nútímalega stjórnarhætti að fela þjóðleikhússtjóra að setja leikhúsinu stefnu í samvinnu við þjóðleikhúsráð.

Í grg. með 5. gr. er auk þess óljóst hverjum ráðinu er ætlað að gefa umsögn um stefnuna og mætti allt eins skilja á orðanna hljóðan að sú umsögn eigi að berast ráðherra. Einnig þyrfti að kveða skýrar á um að hér er annars vegar um að ræða listræna stefnumótun og hins vegar stefnu um eftirfylgni fjármálaáætlunar.

6. gr.

Hér færi betur á að nota orðalagið „með það að markmiði að auka fjölbreytni og skapa listrænan ávinning“ fremur en „ef það verður til að auka fjölbreytni og skapa listrænan ávinning“.

9. gr.

Betur færi að tala um „nýsköpun íslenskum listdansi“ en „nýsköpun í innlendri listdanssmíði“

11. gr. og 12. gr.

Þær athugasemdir sem að framan eru gerðar varðandi ráðningu þjóðleikhússtjóra og hlutverk þjóðleikhúsráðs eiga einnig við um ráðningu listdansstjóra Íslenska dansflokksins og „ráð“ eða „stjórn“ flokksins (í 11.gr. er talað um „stjórn“ en í 12. gr. um „ráð“).

13. gr.

Sama aths. og við 6. gr.

15. gr.

Varðandi skipan sviðslistaráðs er rétt að hugleiða hvort ekki væri skynsamlegt að bæta fjórða fulltrúanum í ráðið og gefa í lögunum fyrirmæli um að einn fulltrúi skuli skipaður af hverjum eftirtalinna aðila: 1) ráðherra, 2) fagfélögum sviðslistafólks (sbr. það sem áður er sagt um mögulega stofnun sambandsfélags sviðslistafólks), 3) samtökum atvinnuveitenda í sviðslistum – SAVÍST (stofnanirnar) og 4) Bandalagi atvinnuleikhópa – SL. Slík skipan mála gæti tryggt víðari skírskotun en tillagan í frumvarpstextanum gerir.

16. gr.

Alvarlega athugasemd verður að gera við niðurlagssetningu fyrstu efnisgreinar. greinargerðar með 16. grein, en þar segir að ráðherra sé ekki bundinn af tillögu sviðslistaráðs um reglur fyrir sviðslistasjóð. Mikilvægt er að ráðherra geti komið að athugasemdum við tillögur ráðsins og því skynsamlegra að greinargerðin kveði á um að ráðherra setji sjóðnum reglur að fengnum tillögum frá ráðinu, en óþarfi að taka sérstaklega fram í greinargerðinni að ráðherra sé ekki bundinn af tillögum ráðsins.

Varðandi þá hugmynd að taka út úr sviðslistalögum ákvæði um landshlutabundna leiklistarstarfsemi þarf að hugleiða þá staðreynd að nú hafa menningarsamningar við landshlutasamtök sveitarfélaga verið lagðir niður og eini menningarsamningurinn sem enn er viðhaldið er samningurinn við Akureyri sem gildir m.a. um leiklistarstarf. Það má gera ráð fyrir því að umræða um landshlutabundna leiklistarstarfsemi á atvinnugrundvelli fari af stað þegar frumvarpið verður opinberað. Mikilvægt er að stjórnvöld geri einhverja grein fyrir áætlunum sínum í þeim efnum í greinargerð með frumvarpinu, sérstaklega í ljósi þess sem segir í menningarstefnunni sem Alþingi samþykkti 2013 um aðgengi fólks að listum og menningu um land allt. Aðgæta þarf að ákvæði frumvarpsins samrýmist stefnunni.

17. gr.

Hér er eðlilegt að staldrað sé við og hugleitt hvaða rök mæli með því að sviðslistaráð geri tillögur um úthlutun styrkja til áhugaleikfélaga. Slík rök vantar alfarið í greinargerðina og ekki líklegt að samtök áhugafólks um leiklist sætti sig við að atvinnufólk ráði öllu varðandi stuðning við þeirra starf, sem byggir á allt öðrum grunni en starfsemi atvinnuleikhópa.

Þá er orðalagið „á sviði sviðlista“ í 1. mgr. fremur óheppilegt. Einnig er óskiljanleg setning í niðurlagi þriðju efnisgreinar greinargerðarinnar með 17.gr. „Í reglunum skal taka nánar fram á viðmiða fagaðilum sé heimilt að byggja umsagnir sínar á“ .

18. gr.

Varðandi ákvæði um kynningarmál er rétt að benda á að nú þegar ríkir samstaða innan sviðslistageirans um stofnun Kynningarmiðstöðvar íslenskra sviðslista sbr. tillaga starfshóps Sviðslistasambands Íslands frá 4. maí 2016 (sjá viðhengi). Því er vandséð hvers vegna ekki er sett ákvæði inn í frumvarpið um samstarf stjórnvalda og geirans um slíka miðstöð.

Loks væri fróðlegt að birta í greinargerð með frumvarpinu upplýsingar um fjárþörf og fjárhagslega umgjörð sjálfstæðrar sviðslistastarfsemi, t.d. með því að birta síðustu úthlutun Leiklistarráðs til leikhópanna, heildarupphæð sem sótt var um og upphæðina sem var til úthlutunar, ásamt fjölda verkefna. Slíkt væri í samræmi við heildstæða nálgun og stefnumótun á grundvelli laga um opinber fjármál.

Reykjavík 24. janúar 2018,

Kolbrún Halldórsdóttir

Eru athugasemdir tilfærðar til að hlutaðeigandi hagaðilum séu gögn málsins ljós og opinber.

Önnur gögn

Í gáttinni eru sem ofan er frá greint birt tvö skjöl. Við þau þarf að gera nokkrar athugasemdir.

Í Mati á áhrifum lagasetningar segir í tölulið A.1. um fjárhagsáhrif á útgjöld ríkissjóðs að áætlað sé að gjöld vegna sviðslistasjóðs verði 117,5 milljónir kr. Jafnframt að hin brýna þörf um rekstur kynningarmiðstöðvar sviðslista sem lengi hefur verið baráttumál sviðslistafólks muni kosta 20-30 milljónir á ár sem telja má vanáætlun. Í raun þýðir þetta samdrátt í styrkjum til sjálfstæðra sviðslistamanna og áhugamanna.

Lengi hefur verið sótt að ráðamönnum um stofnun kynningarmiðstöðvar sviðslista svo sviðslistamenn njóti jafnræðis við aðrar listgreinar. Harma verður að ráðuneytið skuli ekki nýta lagasetningu nú til að koma slíkri miðstöð á stofn. Víst hefur vinna farið fram á vegum ráðuneytis mennta- og menningarmála um langa hríð til undirbúnings þannig stofnun. Er starfandi nefnd til að skoða sameiningu kynningarmiðstöðva undir einn hatt, en fátt frést af árangri þeirrar vinnu. Í matsgerðinni kemur skýrt fram að henni er hugað líf á kostnað sjálfstæðra leikhópa og áhugamanna.

Sama gildir um kostnaðarauka vegna fyrirhugaðs sviðslistaráðs og sviðslistasjóðs. Hann mun fara af sjóðum til styrktar leikllistarstarfsemi og því rýra hlut sjálfstæðra leikhópa og áhugamanna. Við það verður ekki unað.

Í tölulið B. a) er þetta ítrekað. Það er því efnislega rangt í kafla C. 1. að „hagræn áhrif á heildareftirspurn og einstaka markaði“ eigi ekki við. Þvert á móti gerir greinargerðin það ljóst að hér er dregið úr stuðningi við sjálfstæða leikstarfsemi.

Nú ber að líta til þess að verulegir fjármunir fara ár hvert í menntun sviðslistafólks af ýmsu tagi. Bæði í Listaháskóla Íslands og í erlendum skólum með fjármunum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Fjárfesting samfélagsins í sviðslistum er því umtalsverð. Af ýmsum ástæðum hefur undangengin kreppa ekki haft veruleg áhrif á framboð sviðslista enda greindu hagaðilar aukningu í aðsókn almennt. Á grunnskóla og framhaldsskólastigi ber á vaxandi áhuga í þessu sviði með þróttmiklu ungmennastarfi. Í dreifðum byggðum er starf áhugamanna nokkuð í félagsheimilum og á sviðum sem eru nothæf. Samfélagið leggur því mikið upp úr sviðslistum. Þrengingu á styrkjum til sjálfstæðra hópa verður að skoða í því ljósi. Þá verður hér að minna á að menntun í sviðslistum nærir margar aðrar greinar, svo sem kvikmyndaiðnað sem hefur verið í sókn. Því er það efnislega rangt í tölulið C. 3. að frumvarpið hafi ekki áhrif á samkeppnisskilyrði. Það tryggir ríkinu einstæða forréttindastöðu í sviðslistum, hamlar samkeppni með hróplegu misræmi milli fjárveitinga til ríkisstofnana þar sem hlutfall styrkja til sjálfstæðra hópa nær varla einum tíunda af fjárveitingum til Þjóðleikhúss.

Önnur áhrif eru magntæk: D. 1. um áhrif á sveitarfélög: þrýstingur mun aukast á sveitarfélög að styrkja sviðslistir innan héraðs. Nú eru starfandi leikhús/leikflokkar í fjórum sveitarfélögum á vestur og norðvesturlandi. D.2: Fyrirætlanir um skerðingar í styrkjum til sjálfstæðra hópa hafa áhrif á frelsi til að veita þjónustu, það mun D. 4. hafa áhrif á byggðarlög og (D.7) lýðheilsu, (D.8.) á menntun og nýsköpun og (D.9) draga úr möguleikum einstaklinga og fyrirtækja til að eiga samskipti þvert á norræn landamæri. Sú bjartsýni sem lýsir sér sífelldri endurtekningu á orðinu „jákvæð“ er í besta falli sjálfsblekking, í versta falli ósvífin fölsun á aðstæðum sviðslistafólks. Þegar liðum D. 11 og 12. er svarað með „Á ekki við“ og „Engin“ er brýnt að mótmæla: Áhrif á stöðu tiltekinna þjóðfélags etc og umhverfi og sjálfbæra þróun eru mikil og neikvæð.

Birt gagn, Áform um lagasetningu dregur fram nokkur ný sjónarmið og verður hér staldrað við nokkur atriði er varða Þjóðleikhús.

Í fyrri drögum dagsettum 17. janúar (sjá fylgiskjal merkt Drög og greinargerð) var í litlu vikið að Þjóðleikhúsbyggingunni, utan þess að í 7. grein var heimilað sem í núgildandi lögum að nýta húsið til annarrar menningarstarfsemi. Um húsið gilda fleiri lög. Þannig er ytra byrði þess friðað samkvæmt húsafriðunarlögum og ber Minjastofnun ábyrgð á eftirliti með því en höfuðábyrgð ber mennta- og menningarmálaráðherra. Húsið er í umsjón Fasteigna Ríkisins sem heyrir undir fjármálaráðuneyti. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að endurbygging Þjóðleikhússins kallaði á sínum tíma á mikið fjármagn og henni er ekki lokið. Á vettvangi Þjóðleikhússráðs hefur leikhússtjóri með reglulegu millibili gert grein fyrir lagfæringum og breytingum á húsinu og hefur ráðið rækt eftirlitsskyldu sína á þann hátt. Líkur eru á að þrengsli í aðalbyggingu taki stóran skerf í mannahaldi og launum. Nýleg viðbygging hefur sætt eftirliti sökum ólöglegs frágangs og ófullnægjandi úttektar. Í mörg misseri var unnið að nýjum inngangi fyrir hreyfihamlaða og er húsið eina opinbera byggingin á stjórnarráðsreitnum sem er ólögleg hvað varðar aðgengi fatlaðra og hefur verið um árabil. Þá hefur verið yfirvofandi í áratugi brýn endurnýjun á flugkerfi og er bæði ráðherrum fjármála- og mennta- og menningarmála það mætavel kunnugt. Engin áætlun er til að því er virðist um aðgerðaáætlun til lengri tíma um endurbætur á húsinu og innréttingum. Ljóst má vera að meðan Þjóðleikhús tekur til sín lungan af fjárveitingum til sviðslistamála ár hvert og stendur þannig fyrir þrifum öðrum sviðslistum að hver sú aðgerð sem miðar að því að auka hagkvæmni í rekstri þess er til hagsbóta málaflokknum. Því er á þetta minnst hér að brýnt er að mennta- og menningarmálaráðherra sem ábyrgðarmaður Þjóðleikhússins beiti sér þegar fyrir því að dregið sé upp endurbótaáætlun um húsbygginguna og hún birt. Ef hún er til hjá Fasteignum Ríkisins verði fjármálaráðuneytinu gerð grein fyrir að hún sé virt og eftir henni unnið.

Því er á þessu tæpt hér að nýlega kom fram sá skilningur Þjóðleikhússtjóra og styrktur nokkrum rökum að húsið og innréttingar þess, þar með talið endurbætur á flugkerfi sem kostar um 300 milljónir og munu líklega loka húsinu fyrir almenningi og starfi um missera skeið komi í raun ekki leikhúsráðinu við.

Í Áformum um lagasetningu er greint frá fyrirhuguðum breytingum á hlutverki þjóðleikhússráðs og er þar boðuð stefna ólík þeirri sem var í Drögunum í upphafi ársins. Þar var hlutverk ráðsins skilgreint svo (Drög gr. 5.): „Þjóðleikhúsráð fylgist með starfsemi Þjóðleikhússins og að hún sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Ráðið veitir umsögn um stefnu og áætlun um starfsemi Þjóðleikhússins skv. lögum um opinber fjármál og fylgist með framkvæmd stefnu og áætlunar.“

Nú stendur í Áformum: „Hlutverk ráðsins er lagað að þeim lagaramma sem gildir um störf forstöðumanna og lögð áhersla á ráðgjafarhlutverk ráðsins. Því er fellt á brott að því sé ætlað að samþykkja starfs- og rekstraráætlanir.“

Á þessu er nokkur munur. Það er semsagt ætlun ráðuneytisins að gera ráðið valdlaust. Nú hefur þjóðleikhúsráð haft eftirlitshlutverki að gegna, en koma þess að langtímaáætlunum hefur verið forsmáð, þær gerir leikhússtjóri einn. Enginn árangurssamningur er í gildi milli mennta og menningarmálaráðuneytis og stofnunarinnar. Aftur gera lög um opinber fjármál, nr. 123/2015 ráð fyrir langtímaáætlunum og hefur innan ráðsins sem nú starfar verið bent á að það útheimti áætlanir um hlutaskiptingu verkefna til lengri tíma, en nú má segja að áætlanagerð fyrir komandi ár klárist skömmu áður en það hefst. Hver á þá að hafa eftirlit með rekstri Þjóðleikhússins? Svo vitnað sé til Mats á áhrifum lagasetningar liður E. 1.: „Ráðuneytið (svo) ætti að gefast betra tóm til að sinna eftirlitshlutverki sínu.“ Það er þó ekki líklegt að þessi breyting verði til þess að „minnka stjórnsýslubyrði“ ráðuneytanna. Alvarlegra er þó að hér er gert ráð fyrir einveldi um þá stofnun í sviðslistum á Íslandi sem hefur mest fjármagn til reiðu. Hér er gert ráð fyrir að um menningarstofnun á borð við þjóðleikhús gildi einföldustu rekstrargildi. Hér er háskaleg hugsun á ferð sem á ekkert skylt við nýsköpun eða menningu. „Vi alene vide,“ sagði einvaldskonungurinn síðasti rétt í þann mund sem einveldið var lagt niður. Fyrir þremur öldum!

Látum liggja á milli hluta að sinni hvernig skal skipa ráðið: enn eru sérfræðingar og verkefnisstjórar ráðuneytisins á þeim buxunum að best sé að „faglega ráðgjafa“ í ráðinu skipi Sviðslistaráð en þar sitja tveir fulltrúar Savíst (Þjóðleikhúss, Íslensku Óperunnar, RUV og Leikfélags Reykjavíkur, einn fulltrúi fagfélaga og einn frá Sjálfstæðu leikhúsunum). Það eru semsagt helstu samkeppnisaðilar sem skulu skipa tvo fulltrúa í ráðið. Hina þrjá skal ráðherra skipa og verðu þeir eins og sagan sýnir flokksmenn, í besta falli þénanlegir samstarfsflokkum í ríkisstjórn og munu væntanlega sem fyrr hafa það eitt sér til ágætis að hafa stöku sinnum keypt aðgöngumiða að leiksýningum.

Í þessu samhengi er gott að vitna til álits Ríkisendurskoðunar. Mat Ríkisendurskoðunar er sótt í uppfærslu á skýrslu um rekstrarstöðu Þjóðleikhúss frá mars 2014 sem er eftirfylgnisplagg við skýrslu frá 2008 og 2011. Er í skýrslunni 2011 á blaðsíðu 7 vikið að tillögum til ráðuneytis og segir þar af athugasemdum ríkisendurskoðunar :

Ríkisendurskoðun benti á að fella þyrfti starfsemi þjóðleikhúsráðs í fastari skorður svo að það gæti betur sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem stjórnarnefnd leikhússins, m.a. við að veita stjórnendum aðhald og stuðning. Formfesta þyrfti betur samskipti ráðsins við þjóðleikhússtjóra og ráðuneyti. Í svörum mennta- og menningarmálaráðuneytis við fyrirspurn Ríkisendurskoðunar árið 2011 var bent á að þáverandi þjóðleikhúsráð sinnti vel skyldum sínum. Einnig kom fram að endurskoðun leiklistarlaga hefði verið til athugunar hjá ráðuneytinu en að af henni hefði enn ekki orðið. Við slíka endurskoðun kæmi starfsemi þjóðleikhúsráðs til álita eins og önnur ákvæði laganna. Í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2011 var bent á að í ábendingunni fælist ekki gagnrýni á þáverandi þjóðleikhúsráð sem veitti þjóðleikhússtjóra gott aðhald og stuðning við reksturinn. Í henni fælist fyrst og fremst það sjónarmið að starfsemi ráðsins og samskipti þess við þjóðleikhússtjóra og ráðuneytið mættu ekki ráðast af þeim einstaklingum sem sitja í ráðinu hverju sinni.

Víkur þá sögunni til ársins 2014 og nú fjallar Ríkisendurskoðun um frumvarpið sem þá var lagt fram sem er nær óbreytt í framlögðum drögum ráðuneytis 2015:

Meginbreytingin fólst þó í gerbreyttu hlutverki ráðsins, sbr. 5. gr. frumvarpsins: Þjóðleikhúsráð er þjóðleikhússtjóra til ráðgjafar um stefnu leikhússins og önnur málefni er varða starfsemi þess. Ráðið veitir þjóðleikhússtjóra umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir, vinnur með honum að langtímaáætlun um starfsemina og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna. Samkvæmt þessu er áformað að draga mjög úr vægi þjóðleikhúsráðs frá því sem verið hefur. Í því sambandi skal minnt á 7. gr. núgildandi leiklistarlaga nr. 138/1998, þar sem fram kemur að þjóðleikhúsráð sé „stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og skulu allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn bornar undir ráðið“. Enn fremur er þar kveðið á um að árleg starfs- og fjárhagsáætlun skuli lögð fyrir ráðið „til samþykktar“ auk þess sem það hafi eftirlit með framkvæmd hennar. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins kemur fram að þessar breytingar á hlutverki þjóðleikhúsráðs séu gerðar með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem lúta að stöðu og ábyrgð forstöðumanna. Með breytingunum færist stjórnunarfyrirkomulag Þjóðleikhússins nær því horfi sem algengast er fyrir ríkisstofnanir.

Ef þessi álit eru skoðuð, drögin sem kynnt voru í janúar og loks hvað boðað er í Áformum eru miklar mótsagnir í málflutningi ráðuneytismanna á fáum árum.

Eitt ranghermi er rétt að leiðrétta að lokum: Í fyrrnefndu gagni Áformum um lagasetningu er greint frá afdrifum síðasta frumvarps til sviðslistalaga í ráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur á 141. löggjafarþingi „en þá var frumvarpið ekki afgreitt út frá allsherjar- og menntamálanefnd til annarrar umræðu m.a. vegna ágreinings um efni þess meðal umsagnaraðila.“ Þetta er ekki rétt: frumvarpið var ekki afgreitt vegna áhugaleysis ríkisstjórnar og þingmeirihluta um sviðslistir, skorts á sýn um framtíð þeirra og sóknarfæri innan lands og utan. Öðru var ekki um að kenna. Sviðslistageirinn er stór og fjölbreyttur, þar eru andstæðir hagsmunir stéttarfélaga og fagfélaga, sjálfstæðra atvinnurekenda og samvinnuhópa, ríkisstofnana og sjálfseignarstofnana. Það er borin von að milli þessara ólíku aðila náist sátt um einstök atriði þó allir vilji þeir viðgang sviðslista sem mestan.

Læt ég þetta duga að sinni enda munu gefast aðrir dagar og bjartari til að hafa áhrif skammsýnar áætlanir ráðuneytismanna í sviðslistum.

Með vinsemd og virðingu,

Páll Baldvin Baldvinsson

Afrita slóð á umsögn

#6 Ása Fanney Gestsdóttir - 11.10.2018

Reykjavík 11. október 2018.

UMSÖGN um 
Áform um lagasetningu um frumvarp til laga um sviðslistir

Frá Fagfélagi klassískra söngvara á Íslandi.

- Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi sem lokið hafa BMus gráðu (eða sambærilegu) í klassískum söng og/eða hafa töluverða starfsreynslu af vettvanginum.

Félagið var stofnað í mars 2018 og telur 91 félaga.

Helstu markmið félagsins eru:

1. Að efla starfsvettvang klassískra söngvara á Íslandi og styrkja stöðu þeirra í hvívetna. 

2. Að stuðla að því að hið opinbera verji sem mestu fé til klassískrar söng- og óperulistar og hafa áhrif á það hvernig þeim fjármunum er ráðstafað og skipt.

3. Að þrýsta á um að fagleg sjónarmið séu ráðandi og faglegir starfshættir viðhafðir á starfsvettvangi klassískra söngvara á Íslandi. Að kynna fagleg sjónarmið á opinberum vettvangi.

4. Að vera vettvangur til að ræða hagsmunamál og réttindi klassískra söngvara á Íslandi. 

5. Að kynna félagsmenn.

Í skjalinu Áform um lagasetningu um frumvarp til laga um sviðslistir, lið A-2 segir svo:

„Meginmarkmið lagasetningarinnar er að skjóta styrkum stoðum undir starfsemi sviðslista á Íslandi.”

Og í lið A-3 segir svo:

„Núverandi löggjöf uppfyllir ekki þau markmið sem stefnt er að með lagasetningunni þar sem leiklistarlög gilda einungis um leiklistir en markmiðið er að rýmka gildisviðið svo lögin nái til allra sviðslista.“

Félagið tekur heilshugar undir það að núverandi löggjöf uppfylli ekki markmið um stuðning við óperustarfsemi á Íslandi. Ópera er sérstakt listform sem sameinar ÖLL listform; þ.e. tónlist, leiklist, myndlist og danslist. Ópera tilheyrir sviðslistum og því er afar brýnt að með nýrri löggjöf verði óperustarfsemi skilgreind sérstaklega og fái bæði nafn sitt og þá möguleika sem henni ber, í lagaumhverfi og stuðningi frá ríkinu.

Í lið A-1 segir svo:

„Vegna ýmissa breytinga sem orðið hafa á umhverfi leiklistar og annarra sviðslista er það mat ráðuneytisins að æskilegt sé að fella í ein lög ákvæði um stuðning ríkisins við sviðslistastarfsemi og þar með skapa heildstæðari og skýrari lagagrundvöll fyrir sviðslistir sem endurspeglar þær greinar sem í dag tilheyra málaflokknum. Hér er einkum um að ræða starfsemi Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og leiklistarráðs.”

Hér telur Fagfélag klassískra söngvara vera algjöra nauðsyn að nafns óperulistformsins sé einnig getið.

Í lið A-2 segir svo:

„Með frumvarpinu er leitast við að gera löggjöf á sviði sviðslista sambærilegra þeim breytingum sem mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur unnið að á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar. Á þeim sviðum hafa verið skipaðar stjórnir eða ráð fyrir viðkomandi listgrein sem er ráðherra til ráðgjafar um málefni viðkomandi sviðs. Þá hafa einnig verið stofnaðir sjóðir til að efla viðkomandi listgrein með veitingu styrkja ásamt því að skapa grundvöll fyrir rekstur skrifstofu eða miðstöðvar sem þjónar viðkomandi sjóði og standi að kynningu á listgreininni hér á landi og erlendis.”

Fagfélag klassískra söngvara er algjörlega sammála því að slík málsmeðferð þurfi að koma til fyrir listformið óperu. Félagið býður fram krafta sína til samstarfs og samráðs á þessum vettvangi. 
Enginn stuðningur né stoð í reglugerðum eða lögum er fyrir frumsköpun óperulistformsins. Eins og er, eiga frjálsir óperuhópar engan stuðning vísan. Þeim er vísað líkt og frá Pontíusi til Pílatusar, milli Sviðslistasjóðs, Listamannalauna og Tónlistarsjóðs, oftast án nokkurs árangurs. Félagið leggur til að í ljósi þess að draga eigi úr skyldu Þjóðleikhússins til að sýna óperur, verði komið til móts við listformið með auknu fé í staðinn, það fé getur komið til viðbótar í Sviðslistasjóð, en þá eyrnamerkt listforminu óperu.

Gleðilegt er að Íslenski dansflokkurinn eigi nú að fá styrkan grundvöll fyrir starfsemi sína, en hvergi er minnst á listformið óperu! Við undirstrikum að í þessari vinnu megi alls ekki „gleyma” óperunni. 
Óperuformið á engan fulltrúa í núverandi Sviðslistaráði, en dansarar eiga það, eftir mikla baráttu sína um tilverurétt.

Í lið B-2 segir: 
„Markmið sem að er stefnt með lagasetningu í ljósi úrlausnarefnis og stefnu stjórnvalda: Meginmarkmið lagasetningarinnar er að laga starfsramma Þjóðleikhússins að ríkjandi starfssviði, skapa lagastoð fyrir starfsemi Íslenska dansflokksins og skjóta styrkum stoðum undir starfsemi sviðslistaráðs og stuðning við sviðslistir svo og óperustarfsemi.”

Hér er óperustarfsemin nefnd á nafn, sem er fagnaðarefni, en að öðru leyti virðist texti skjalsins ekki gera ráð fyrir neinni sérstöðu þessa listforms.

Í lið F. segir:

„Hverjir eru helstu hagsmunaaðilar?“

og enn fremur:

„Haldinn hefur verið kynningarfundur með þjóðleikhússtjóra, óperustjóra og fulltrúum frá BÍL og Sviðslistasambandi Íslands.”
 og enn fremur:

„Fyrirhugað samráð: Fyrirhugað er að setja þessi áform í samráð á vefsíðu stjórnarráðsins auk þess sem frumvarpið af lögunum verður sett í samráð þegar að því kemur. Þá er fyrirhugað að hafa samráð með helstu hagsmunaaðilum.“

Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi gerir athugasemd við að fagfélög tónlistarfólks séu ekki talin hagsmunaaðilar. Einnig að fagfélögum tónlistarfólks, s.s. FÍT, FÍH og okkar nýja félagi hafi ekki verið boðið til slíkra kynningarfunda og óskar eftir því að vera meðal þeirra „helstu hagsmunaaðila” sem svo eru nefndir í skjalinu til fyrirhugaðs samráðs.

Íslenska óperan nýtur stuðnings ríkisins sem sjálfseigarstofnun, en hefur ekki lagaramma né þann faglega grundvöll sem varðar það hvernig og hvaða aðilar skipa stjórn, hvaða faglegu kröfur eru gerðar til ráðninga og listrænna ákvarðana. Það er gleðilegt að skerpa eigi reglur um Þjóðleikhússtjóra, en á sama hátt væri eðlilegt að skerpa reglur um forstöðumenn annarra listastofnana sem njóta fasts ríkisstuðnings.

Fyrir hönd stjórnar og starfshóps Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi,

Ása Fanney Gestsdóttir