Samráð fyrirhugað 28.06.2019—12.07.2019
Til umsagnar 28.06.2019—12.07.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 12.07.2019
Niðurstöður birtar 20.09.2019

Áform um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum.

Mál nr. 161/2019 Birt: 28.06.2019 Síðast uppfært: 20.09.2019
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur ekki tilefni til að bregðast sérstaklega við áðurnefndum umsögnum. Tekið er undir það að leggja þarf áherslu á vönduð vinnubrögð við sameininguna og að vel verði staðið að breytingastjórnun og kynninga- og upplýsingaflæði til starfsmanna.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.06.2019–12.07.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.09.2019.

Málsefni

Áformað er að tollafgreiðsla og tollgæsla, sem tollstjóri annast nú, verði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020.

Meginefni frumvarpsins mun fela í sér þá breytingu að sameina verkefni á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem embætti tollstjóra annast nú, og þau verkefni sem embætti ríkisskattstjóra sinnir. Mikil tækifæri felast því í að heildarferli þjónustu, álagningar, innheimtu og eftirlits sé á hendi eins og sama aðilans. Árangur við vettvangseftirlit tollgæslu ætti að aukast, auk þess sem möguleikar til að takast á við stærri efnahagsbrot innanlands og yfir landamæri, s.s. peningaþvætti, verða meiri. Með sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra verður til ein öflug og leiðandi upplýsingastofnun sem verður betur í stakk búin til að takast á við áskoranir til framtíðar en tvær minni sjálfstæðar stofnanir.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Tollvarðafélag Íslands - 10.07.2019

Reykjavík, 10. júlí 2019

Efni: Áform um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum

Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) vísar til máls nr. S-161/2019 í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem ofangreind áform um lagasetningu eru til umsagnar. Með væntanlegu frumvarpi er áformað að tollafgreiðsla og tollgæsla, sem tollstjóri annast, verði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020. Þessu mótmælir TFÍ harðlega með neðangreindum rökum.

TFÍ telur óljóst hvert sé endanlegt markmið frumvarpsins þar sem áformin bera með sér tilfærslu tollafgreiðslu og tollgæslu til ríkisskattstjóra, en á öðrum stað er fjallað um sameiningu verkefna. Þar segir enn fremur að mikil tækifæri felist í breytingunni og að árangur við vettvangseftirlit eigi að aukast vegna hennar. Þessi fullyrðing er órökstudd og óskar TFÍ eftir frekari upplýsingum um það á hvaða gögnum hún byggir. Hefur farið fram greiningarvinna af hálfu stjórnvalda og það verið metið sérstaklega hvernig breytingin muni koma út og hver var niðurstaðan?

Við fyrstu sýn virðist umrædd breyting vera umtalsverð fyrir þá ríkisstarfsmenn sem starfa á tollasviði, en hafa verður í huga að tollverðir eru embættismenn, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Af þeim sökum furðar TFÍ sig á því að breytingin sé ekki rökstudd betur og ítarlegar. Það skortir alla umfjöllun um stöðu tollvarða í nýju skipulagi, sér í lagi fyrir yfirmenn deilda, tollverði á landsbyggðinni, tollverði í tollafgreiðslu og við tollendurskoðun. Í þessu sambandi má benda á ályktun síðasta aðalfundar TFÍ sem samþykkt var einróma þar sem áformum um sameiningu embættis tollstjóra og ríkisskattstjóra var mótmælt. Í ályktuninni var skortur á samráði jafnframt gagnrýndur.

Þá gerir TFÍ athugasemdir við skipan nefndarinnar þegar fjallað var um þá breytingu sem er til umsagnar hér. Þar skorti verulega á að fá fram sjónarmið fulltrúa á tollasviði embættisins. Í nefndinni var tollstjóri og forstöðumaður innheimtusviðs embættisins en ekki forstöðumaður tollasviðsins. TFÍ gerði athugasemdir við þessa tilhögun á fundi með nefndinni en ekki var tekið tillit til þess. Þá er einnig gerð athugasemd við framkvæmd breytinganna hingað til, enda var málið sett inn í samráðsgátt stjórnvalda án þess að starfsmönnum væri tilkynnt um það eins og lofað hafði verið.

Í kynningu á breytingunum segir að með sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra verði til ein öflug og leiðandi upplýsingastofnun. TFÍ óskar eftir upplýsingum um hvað átt sé við með hugtakinu upplýsingastofnun og hvar tolleftirlit rúmast innan hennar? Mikil áhersla virðist vera lögð á skatta og gjöld en minna fer fyrir eftirliti með ólöglegri og leyfisskyldri vöru, t.d. fíkniefnum, vopnum og fölsuðum varningi (m.a. matvæli og lyf), sem er stór hluti af viðfangsefnum tollvarða.

TFÍ telur farsælast að embætti tollstjóra verði áfram sjálfstæð stofnun undir heiti Tollstjóra, sem er og hefur verið tákn tollgæslu hér á landi. Þær breytingar sem eru áformaðar og um ræðir hér virðast vera illa ígrundaðar og órökstuddar að mati félagsins. Af þeim sökum er farið fram á að fallið verði frá þeim.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samtök atvinnulífsins - 11.07.2019

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um áform um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Benedikt Sveinbj. Benediktsson - 12.07.2019

Meðfylgjandi er sameiginleg umsögn SAF og SVÞ um áformin.

Viðhengi