Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 3.–31.7.2019

2

Í vinnslu

  • 1.8.2019–2.12.2020

3

Samráði lokið

  • 3.12.2020

Mál nr. S-168/2019

Birt: 3.7.2019

Fjöldi umsagna: 3

Áform um lagasetningu

Forsætisráðuneytið

Æðsta stjórnsýsla

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands (Varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds)

Niðurstöður

Sjá mál nr. 284/2019 í samráðsgáttinni og hlekk á framhald málsins á Alþingi hér á eftir.

Málsefni

Fyrirhugað er að smíða löggjöf til varnar hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds, m.a. í samræmi við tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, og starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu

Nánari upplýsingar

Fyrirhugaðar eru bæði viðbætur og breytingar á VI. kafla laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Viðbæturnar felast í nýjum reglum um varnir við hagsmunaárekstrum og skyldum atriðum, þ.e. um:

i) Hagsmunaskráningu. Fyrirhugað er að gera ráðherrum, aðstoðarmönnum ráðherra, ráðuneytisstjórum, skrifstofustjórum og sendiherrum skylt með lögum að skila til forsætisráðuneytisins skrá yfir nánar tilteknar eignir, skuldir og sjálfsskuldarábyrgðir þ.m.t. erlendis, þegar viðkomandi hefur störf hjá Stjórnarráðinu. Sömu upplýsingum þurfi að skila varðandi maka og ólögráða börn. Þá verður skylt að tilkynna um allar breytingar á framangreindu og tilkynna forsætisráðuneytinu jafnóðum um allar gjafir sem viðkomandi fær í tengslum við starf sitt og önnur hlunnindi og fríðindi, hvaða nafni sem þau nefnast. Skrá skal aukastörf og greiðslur fyrir þau, sbr. ii) hér á eftir. Þá verður gert skylt að skrá tengsl við alla skráða hagsmunaverði og aðra aðila sem sinna hagsmunagæslu sbr. iii) hér á eftir. Loks verður skylt að skrá upplýsingar um hugsanleg samkomulög við vinnuveitanda um starf eftir að störfum fyrir hið opinbera lýkur, sbr. iv) hér á eftir. Hluti upplýsinganna verður birtur opinberlega á vef Stjórnarráðs Íslands, þ.e. allar upplýsingar varðandi ráðherra utan upplýsinga um maka og ólögráða börn þeirra og hluti upplýsinga um ráðuneytisstjóra og aðstoðarmenn ráðherra. Ekki er fyrirhugað að sinni að birta opinberlega upplýsingar um hagsmunaskráningu skrifstofustjóra og sendiherra og má gera ráð fyrir að óheimilt verði að afhenda þær almenningi á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

ii) Aukastörf. Fyrirhugað er að setja skýrari reglur um hvaða aukastörf eru heimil samhliða störfum þeirra aðila sem taldir eru upp í lið i). Á grundvelli siðareglna ráðherra hefur forsætisráðuneytið skorið úr um það hvort ráðherra sé heimilt að gegna aukastörfum en ekki hefur verið við skýra mælikvarða að styðjast. Samkvæmt reglunum er ekki gert ráð fyrir að ráðherrar sinni öðrum störfum en þeim sem eru „tilfallandi“ og er þeim óheimilt að þiggja greiðslur fyrir nema þær séu „innan hóflegra marka“. Þá verður að miða við það að þau samrýmist ráðherrastörfum, þ.e. ekki sé hætta á hagsmunaárekstrum vegna starfanna. Í fyrirhuguðu frumvarpi verður stefnt að því að skýra þessi matskenndu viðmið frekar og yfirfæra þau á störf annarra æðstu handhafa framkvæmdarvalds.

iii) Hagsmunaverði. Fyrirhugað er að gera öllum aðilum sem sinna hagsmunavörslu, þ.e. þá sem hafa það að aðalstarfi að tala máli einkaaðila, eins eða fleiri, gagnvart handhöfum ríkisvalds, skylt að tilkynna sig til stjórnvalda svo unnt sé að birta opinberlega skrá yfir þá. Skoða þarf hvort og þá hvaða viðurlög eigi að vera við því að vanrækja tilkynningarskylduna. Gert er ráð fyrir því að skráin verði birt í B-deild Stjórnartíðinda og á vef Stjórnarráðs Íslands. Hagsmunaverðir beri sjálfir ábyrgð á því að tilkynna sig en með skránni verður tryggt að stjórnvöld geti með auðveldum hætti haft samband við hagsmunaverði ef kanna þarf afstöðu tiltekinna hópa til fyrirhugaðra ráðstafana stjórnvalda. Þá getur skráin nýst við afmörkun á því hverjir fái tilkynningar um mál á tilteknum málefnasviðum í samráðsgátt stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði mælt fyrir um nánari reglur um það hvernig hagsmunaverðir eru flokkaðir og hvernig samskiptum við hagsmunaverði skuli háttað og þá hvernig og í hvaða tilvikum þau samskipti skulu skráð opinberlega. Þá verður tryggt að framangreindar reglur taki einnig, eins og við á, til þeirra aðila sem sinna hagsmunavörslu fyrir tiltekna hópa án þess að falla undir almenna flokkun hagsmunavarða eins og hún verður skilgreind. Hér er t.d. átt við lögmenn eða almannatengla sem koma fram fyrir hönd tiltekinna aðila sem eiga sameiginlega hagsmuni. Með þessu verður reynt að tryggja að ekki verði hægt að komast hjá því að birta upplýsingar um samskipti, t.d. ráðherra við almannatengil sem vinnur fyrir nokkra aðila í ferðaþjónustu, vegna þess eins að almannatengillinn er ekki skráður hagsmunavörður.

iv) Starfsval eftir opinber störf. Fyrirhugað er að mæla fyrir um í lögum að ráðherrar, aðstoðarmenn, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar geti ekki í tiltekinn tíma eftir að opinberu starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hagsmunaverði. Gert er ráð fyrir þeirri meginreglu að framangreindir aðilar þurfi að bíða í átta mánuði frá starfslokum eða átta mánuði eftir að rétti til biðlauna lýkur þegar hann er fyrir hendi. Þó verður gert ráð fyrir því að hægt verði að óska eftir undanþágu frá forsætisráðuneytinu á biðtíma eða styttingu biðtíma ef ljóst er að lítil eða engin hætta sé á hagsmunaárekstrum t.d. vegna mismunandi eðlis starfs innan Stjórnarráðs Íslands annars vegar og fyrir hagsmunaverði hins vegar. Þá verður einnig gert ráð fyrir að framangreindir aðilar geti óskað álits á því hvort annað starf en hjá hagsmunaverði sé þess eðlis að það geti valdið áþekkum hagsmunaárekstrum. Lagt verður upp með að forsætisráðuneytið hafi einn mánuð til að skila áliti í þeim tilvikum. Þá er einnig stefnt að því að ráðuneytið geti tekið til skoðunar mál að eigin frumkvæði, þ.e. þau tilvik þar sem aðili hefur farið úr starfi innan Stjórnarráðs Íslands í annað starf þar sem umtalsverð hætta er á hagsmunaárekstrum án þess að kanna afstöðu ráðuneytisins fyrirfram. Gert er ráð fyrir því að ráðuneytið geti í þeim tilvikum annars vegar lagt stjórnvaldssektir á viðkomandi fyrir athæfið og eftir atvikum einnig dagsektir, í allt að átta mánuði frá því að störfum fyrir Stjórnarráð Íslands lauk, eða þar til látið er af störfum. Hluti af framangreindum reglum sækir fyrirmynd sína til Noregs, en þar eru í gildi lög frá 2015 um upplýsingaskyldu, biðtíma og tímabundið vanhæfi stjórnmálamanna, embættismanna og ríkisstarfsmanna sem hefja störf á nýjum vettvangi (n. Karanteneloven). Samkvæmt lögunum má leggja bann við því að hefja störf á nýjum vettvangi í allt að 6 mánuði og einnig banna starfsmanni að hafa með höndum tiltekin verkefni í allt að 12 mánuði. Sérstök nefnd hefur eftirlit með kerfinu og birtir hún úrskurði sína opinberlega.

v) Eftirlitskerfi. Forsætisráðuneytinu er hugað miðlægt eftirlitshlutverk við framkvæmd fyrirhugaðra reglna. Forsætisráðuneytið sinnir nú þegar ýmsum verkefni á sviðinu á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, siðareglna ráðherra og yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra, sbr. m-lið 1. tölul. 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 119/2018, en gert er ráð fyrir að hlutverk ráðuneytisins verði skýrara og mótaðra en nú er. Hlutverk ráðuneytisins verður m.a. að:

• Halda utan um hagsmunaskráningu æðstu handhafa framkvæmdarvalds.

• Halda utan um skrá yfir hagsmunaverði.

• Halda skrá um og veita álit um gjafir.

• Halda skrá um og veita álit um heimil aukastörf.

• Skila að eigin frumkvæði áliti ef upp koma mál sem ráðuneytið telur fela í sér hagsmunaárekstra miðað við þær upplýsingar sem það hefur um hagsmunaskráningu.

• Taka stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli reglna um biðtíma að loknum störfum fyrir hið opinbera og veita undanþágur frá þeim.

• Veita álit um fyrirhuguð störf eftir að störfum fyrir hið opinbera lýkur.

• Taka stjórnvaldsákvarðanir þegar framangreindar reglur eru brotnar, t.d. þegar aðili virðir að vettugi álit um hvort fyrirhugað starf geti valdið hagsmunaárekstrum eða hefur störf án þess að kanna afstöðu til starfs. Til greina kemur að ráðuneytið fái heimildir til að beita stjórnvalds- eða dagsektum.

• Túlka ákvæði siðareglna sem skarast við fyrirhugaða lagasetningu.

Telja verður einnig fært að fela sjálfstæðum eftirlitsaðila hluta framangreinds hlutverks. Koma þar helst til skoðunar þær leiðir að fela Ríkisendurskoðun afmörkuð verkefni eða að koma á fót nýrri sjálfstæðri stjórnsýslunefnd um þau, eins og t.d. hefur verið gert í Noregi vegna starfsvals að loknum opinberum störfum. Helstu röksemdir fyrir þeirri leið sem hér er miðað við er að valdheimildir stjórnvalda á sviðinu fylgi pólitískri ábyrgð forsætisráðherra eins og frekast er unnt. Taka ber fram að í tilvikum þar sem málefni forsætisráðherra sjálfs eða tengdra aðila kæmu til skoðunar í ráðuneytinu þyrfti að setja ráðherra staðgengil, sbr. almennar hæfisreglur stjórnsýsluréttarins.

Nauðsynlegt er að gera breytingar á VI. kafla laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 vegna framangreinds. Helstu efnislegu breytingarnar yrðu á 25. gr. um hlutverk forsætisráðuneytisins við túlkun siðareglna. Að auki þarf að samræma reglur um setningu siðareglna við reglur fyrirhugaðs frumvarps. Aðrar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 eða öðrum lögum eru ekki fyrirhugaðar nema samráð um fyrirliggjandi áform um lagasetningu gefi tilefni til.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Oddur Þorri Viðarsson

oddur.thorri.vidarsson@for.is