Samráð fyrirhugað 04.07.2019—18.07.2019
Til umsagnar 04.07.2019—18.07.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 18.07.2019
Niðurstöður birtar 23.07.2020

Áform um lagasetningu - Breyting á lögum nr. 3/2006 um ársreikninga og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög

Mál nr. 172/2019 Birt: 04.07.2019 Síðast uppfært: 23.07.2020
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður birtar

Áform um lagasetninguna voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 4. – 18. júlí 2019. Tvær umsagnir bárust um áformin. Ekki voru gerðar breytingar á áformum um lagsetningu vegna framangreindra umsagna. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum (skil ársreikninga) var kynnt í samráðsgáttinni 19.-26. nóvember 2019.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 04.07.2019–18.07.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.07.2020.

Málsefni

Áformað er að breyta lögum um ársreikninga til skýringa á ákvæðum laganna um heimild ársreikningaskrár til að krefjast skipta á búi félags sé ársreikningi ekki skilað til ársreikningaskrár innan þess frests sem kveðið er á um í lögunum.

Með lögum nr. 73/2016 um breytingu á lögum um ársreikninga voru m.a. gerðar breytingar sem miða að því að auka gagnsæi í viðskiptum, þ.m.t. að sporna við kennitöluflakki og bæta skil ársreikninga. Í því sambandi var lögð til breyting á 1. gr. laganna til að tryggt sé að öll félög sem falla undir lög um ársreikninga skili ársreikningum til ársreikningaskrár hvort sem þau stunda atvinnurekstur eða ekki. Einnig voru styrktar heimildir ársreikningaskrár til að leggja á sekt vegna vanskila á ársreikningi. Þá var heimild til að krefjast skipta á búi félags sem ekki skilar ársreikningi til opinberrar birtingar færð frá ráðherra til ársreikningaskrár og tímamörkin stytt og ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um framkvæmd við gerð kröfu um skipti á búi félags.

Þrátt fyrir bætt skil ársreikninga í kjölfar fyrrgreindra lagabreytinga er þörf á frekari úrbótum til að bregðast við uppsöfnuðum vanda á þessu sviði. Enn er fjöldi félaga sem ekki skilar ársreikningi og ekki liggur fyrir hvort um er að ræða félög sem eru í rekstri. Gera má ráð fyrir að nokkur hluti þessara félaga séu ekki í rekstri en mikilvægt er að bregðast við með því að afskrá og/eða slíta þeim félögum sem ekki skila ársreikningi og skekkja þannig heildarmynd af viðskiptalífinu.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Georg Birgisson - 05.07.2019

Ég legg til að lögum um ársreikninga verði breytt þannig að Ársreikningaskrá verði heimilt að sækja viðeigandi upplýsingar úr ársreikningi úr skattframtali fyrirtækis hjá RSK og flytja yfir í ársreikningaskrá, fyrir fyrirtæki sem ekki hafa skilað ársreikningi sérstaklega fyrir tiltekinn tíma. Skattskýrsla er samþykkt af rekstraraðila með tölvukóta sem þykir næginlegur fyrir skattinn og ætti sú staðfesting því einnig að vera nægileg fyrir ársreikningaskrá.

Til að það gangi gæti þurft að breyta lögum um ársreikninga þannig að samræmi sé á milli skiladags ársreiknings og skiladagsetningar til skattskýrslu fyrir fyrirtæki. Í dag er skiladagur til ársreikninga töluvert á undan raunverulegum lokadegi skattskila. Það mætti t.d. miða skil ársreikninga við álagningardagsetningu skatts á rekstraraðila því þá eru væntanlega flest allir búnir að skila skattframtali og ættu þá að getað verið búnir að skila ársreikningi líka.

Með þessu geta þeir sem vilja, áfram nýtt réttinn til að skila ársreikningum á samandregnu formi til ársreikningaskrár einfaldlega með því að skila fyrir álagningardag skatts. Annars fara skattaupplýsingarnar yfir. Sumir gætu jafnvel verið sáttir við að upplýsingar úr skattskýrslu færu yfir í ársreikningaskrá því að það sparaði þeim aukavinnu við að ganga frá sérstökum ársreikningi.

Með þessu yrði eftirrekstur með ársreikningaskilum óþarfur. Ef fyrirtæki skila ekki skattskýrslum þá er þegar til staðar skilvirkt ferli hjá RSK til að fylgja því eftir með áætlunum og innheimtu.

Fræðilega séð myndi þessi aðferð leiða til fullra skila ársreikninga frá þeim fyrirtækjum sem á annað borð eru í einhverjum rekstri eða eiga einhverja fjármuni sem skattainnheimta gæti náð til.

Afrita slóð á umsögn

#2 Smári Ríkarðsson - 17.07.2019

Efni : Umsögn um áformuð breyting á lögum um ársreikninga

Því ber að fagna að áformuð breyting á lögum um ársreikninga hafi verið kynnt á samráðsgátt stjórnvalda. Takk fyrir það.

Á samráðsgáttinni kemur fram að gert sé ráð fyrir að breyta lögum með það að markmiði að skýra ákvæði laganna um heimild ársreikningaskrár til að krefjast skipta á búi félags, sé ársreikningi ekki skilað til ársreikningaskrár.

Ekki kemur fram hvort til standi að breyta öðrum ákvæðum ársreikningalaga þar sem bent hefur verið á að úrbóta sé þörf. Er mér starfs míns vegna, sérstaklega hugleikið óskýrar lagakröfur hér á landi, í ákvæðum 65. og 66 gr. laganna um innihald skýrslu stjórnar. Mér vitandi er hugtaka notkun núverandi lagaákvæðis ekki viðeigandi, því að í raun er verið að fjalla um upplýsingar sem framkvæmdastjóri viðkomandi fyrirtækis ber ábyrgð á. Stjórn getur ekki borið ábyrgð á framsetningu skýrslu nema sem staðfestingaraðili á skýrslu sem framkvæmdastjóri, eða framkvæmdastjórn hefur samið og lagt fram. Stjórnin að mínu mati hefur ekki það hlutverk að upplýsa um daglegan rekstur heldur eftirlitshlutverk og staðfestir framlagðar upplýsingar með áritun.

Sjálfur er ég framkvæmdastjóri vátryggingamiðlunar þar sem áhættugreining er í forgrunni þjónustu okkar gagnvart fyrirtækjum. Slík áhættugreining er mikilvæg til að uppfylla samevrópskar kröfur um upplýsingar sem fyrirtæki eiga að birta í árlegum reikningsskilum sínum um megin óvissu- og áhættuþætti rekstrarins. Upplýsingar þessar eiga að vera hluti af skýrslu framkvæmdastjórnar (e. managment report) í árlegum reikningsskilum þeirra. Þetta þarf að vera skýrt í lögum þótt umbætur í reglugerð sé mikilvæg.

Hingað til hefur þessi hluti árlegra reikningsskila fyrirtækja fengið afar litla athygli hérlendis – þar sem óljós texti laga virðist vera vandamál. Úrbóta virðist því þörf hér. Í þessu sambandi vil ég benda á umsögn um drög að reglugerð um um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga sem dr. Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í fjármálum og reikningsskilum viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, kom með, í lokaorðum bréfs sem er á samráðsgáttinni.

Ég geri orð hans að mínum að hugað verði í lagabreytingu nú að bæta framsetningu ákvæða 65. og 66. gr. laganna, nú við þessa endurskoðun laganna.

Smári Ríkarðsson

Hagfræðingur