Samráð fyrirhugað 11.07.2019—29.08.2019
Til umsagnar 11.07.2019—29.08.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 29.08.2019
Niðurstöður birtar 20.11.2020

Drög að frumvarpi til laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

Mál nr. 181/2019 Birt: 11.07.2019 Síðast uppfært: 20.11.2020
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður birtar

Þrjár umsagnir bárust, frá Nasdaq verðbréfamiðstöð, Verðbréfamiðstöð Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja. Almennt lýstu umsagnaraðilar ánægju með framlagningu frumvarpsins en gagnrýndu m.a. skaðabótaábyrgð verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana og viðurlagaákvæði frumvarpsins. Varðandi viðurlagaákvæðin var áréttað að þau eru samhljóða viðurlagaákvæðum í lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa og viðurlagaákvæðum í annarri löggjöf á fjármálamarkaði sem eru samræmd eftir heildarendurskoðun þeirra árið 2015. Ákvæði um skaðabótaábyrgð eru að norrænni fyrirmynd.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 11.07.2019–29.08.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.11.2020.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðherra birtir til umsagnar drög að frumvarpi til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar (e. CSDR).

Í frumvarpinu er lagt til að CSDR verði innleidd en reglugerðin breytir umgjörð um starfsemi verðbréfamiðstöðva töluvert og felur í sér auknar kröfur til verðbréfamiðstöðva, uppgjörs fjármálagerninga og verðbréfauppgjörskerfa. Allar verðbréfamiðstöðvar innan EES þurfa að sækja um nýtt starfsleyfi samkvæmt CSDR. Verðbréfauppgjörskerfin sem verðbréfamiðstöðvar reka verða að standast gæðaprófun og þær kröfur sem CSDR gerir til þeirra til að geta fengið starfsleyfi. CSDR kveður einnig á um breytta stjórnarhætti verðbréfamiðstöðva, t.a.m. þarf einn þriðji stjórnar að vera óháðir stjórnarmenn, verðbréfamiðstöð þarf sinn eigin regluvörð og skipa skal notendanefnd sem samanstendur af þeim sem njóta þjónustu verðbréfamiðstöðvarinnar. Þá kveður CSDR á um hertar eiginfjárkröfur og áhættustýringu.

CSDR er ætlað að bæta uppgjör fjármálagerninga. Allir fjármálagerningar sem reglugerðin nær til skulu vera á rafrænu formi og verður uppgjörstími innan EES-svæðisins samræmdur sem viðskiptadagur +2 dagar.

Verðbréfamiðstöðvar fá aukna ábyrgð í því að draga úr uppgjörsbrestum en þeim ber að beita sektum og uppgjörskaupum (e. buy-in) við uppgjörsbrest, vakta uppgjörsbresti og senda eftirlitsstjórnvaldi skýrslu um öll slík tilvik. Þá ber þeim að geyma færslugögn í 10 ár.

Fjármálaeftirlitinu er gert heimilt að beita sektum og dagsektum vegna brota á lögunum.

CSDR gerir ráð fyrir að aðildarríkin hafi nokkuð svigrúm varðandi það hvaða reglur skulu gilda að landsrétti svo fremi sem þær gangi ekki gegn CSDR, svo sem varðandi eignarskráningu fjármálagerninga. CSDR reglugerðin hefur nokkra skörun við núgildandi lög nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa þar sem þau gilda um starfsemi verðbréfamiðstöðva, verðbréfauppgjör, rafræna útgáfu verðbréfa og skráningu eignarréttinda yfir þeim.

Með frumvarpinu er því lagt til að ákveðin ákvæði núgildandi laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa nr. 131/1997, sem CSDR nær ekki til, verði færð í lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, þar á meðal ákvæði um eignarskráningu fjármálagerninga og þá réttarvernd sem hún felur í sér. Jafnframt að núgildandi lög nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa verði að öðru leyti felld brott.

Ennfremur eru lagðar til ákveðnar útfærslur í þeim tilvikum þegar CSDR gerir ráð fyrir að hvert aðildarríki ákveði fyrir sig, svo sem varðandi það hvort í löggjöf aðildarríkis skuli vera refsiákvæði vegna brota á CSDR og hversu háar hámarksstjórnvaldssektir skuli vera. Þá geymir frumvarpið ákvæði um þagnarskyldu þeirra sem starfa fyrir verðbréfamiðstöðvar og reglur um skaðabótaábyrgð. Í frumvarpinu er lagt til að þessi ákvæði verði nánast óbreytt frá núgildandi lögum eftir því sem svigrúm við innleiðingu CSDR í íslenskan rétt leyfir.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Verðbréfamiðstöð Íslands hf. - 26.08.2019

Meðfylgjandi er umsögn Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf. um drög að frumvarpi til laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, mál nr. S-181/2019.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. - 26.08.2019

Meðfylgjandi er umsögn Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök fjármálafyrirtækja - 28.08.2019

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja

Viðhengi