Samráð fyrirhugað 15.07.2019—13.08.2019
Til umsagnar 15.07.2019—13.08.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 13.08.2019
Niðurstöður birtar 06.03.2020

Frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Mál nr. 189/2019 Birt: 15.07.2019 Síðast uppfært: 06.03.2020
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Æðsta stjórnsýsla
  • Markaðseftirlit og neytendamál
  • Húsnæðis- og skipulagsmál

Niðurstöður birtar

Lög um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun voru samþykkt á Alþingi í desember 2019

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 15.07.2019–13.08.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.03.2020.

Málsefni

Með frumvarpi þessu er lagt til að tvær stofnanir, Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun verði lagðar niður og nýrri stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði falið að annast framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála. Fjármálaumsýsla vegna eldri starfsemi Íbúðalánasjóðs verður aðskilin frá nýrri sameinaðri stofnun.

Með sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verður unnt að efla enn frekar stjórnsýslu, stefnumótun og framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála með tillögur átakshóps um húsnæðismál að leiðarljósi, hagræða í rekstri hins opinbera og auka samstarf við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Íbúðalánasjóður hefur það hlutverk að annast stefnumótun og framkvæmd húsnæðismála en Mannvirkjastofnun hefur yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála. Íbúðalánasjóði er m.a. ætlað að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði og auknu aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði en Mannvirkjastofnun að stuðla að því að húsnæði sé öruggt og heilsusamlegt og að við hönnun sé horft til verndunar umhverfis og aðgengis fyrir alla. Með sameiningu stofnananna tveggja verður til ný stofnun með heildaryfirsýn yfir málaflokk húsnæðismála sem er til þess fallið að auka skilvirkni og hagkvæmni í allri stjórnsýslu húsnæðis- og mannvirkjamála. Stofnuninni verður falið að framfylgja þeirri stefnu stjórnvalda m.a. með rannsóknum, upplýsingagjöf og áætlanagerð, að almenningur hafi aðgengi að viðunandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu, sem uppfyllir nútímakröfur og er vistvænt og heilsusamlegt og hafi þannig raunverulegt val um búsetuform. Stofnuninni er einnig ætlað það hlutverk að tryggja fyrirsjáanleika, skilvirkni og gæði mannvirkjagerðar og hafa eftirfylgni með húsnæðisáætlunum sveitarfélaga, einföldun regluverks og stjórnsýslu byggingaframkvæmda og stuðla þannig að auknu húsnæðisöryggi hér á landi, m.a. með lækkun byggingarkostnaðar. Gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun fari áfram með lánveitingar og annan húsnæðisstuðning líkt og Íbúðalánasjóður gerir nú í samræmi við það hlutverk að veita þjónustu í almannaþágu á sviði húsnæðismála.

Með sameiningu stofnananna myndast skýrari rammi um húsnæðismál, stefnumótun verður markvissari og auðveldara að innleiða stefnu stjórnvalda um lækkun byggingakostnaðar og aukna uppbyggingu húsnæðis fyrir alla félagshópa.

Frumvarp þetta byggir á niðurstöðu tveggja starfshópa sem voru settir á stofn af félags- og barnamálaráðherra. Annarsvegar starfshóps sem var skipaður til að leita leiða til að draga úr áhættu ríkisins vegna aukinna uppgreiðslna hjá Íbúðalánasjóði og hinsvegar starfshóps sem var skipaður til að kanna fýsileika sameiningar Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar til þess að efla stjórnsýslu á sviði húsnæðismála í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðmundur Gunnarsson - 06.08.2019

Inspectionem ehf. er skoðunarstofa m.a. á sviði mannvirkjagerðar og byggingarvöru. Inspectionem vill koma á framfæri eftirfarandi ábendingum og tillögum til breytinga á frumvarpinu.

1. Krafa um faggildingu stjórnsýslu og eftirlitsaðila

Í frumvarpinu er áframhaldandi krafa um faggildingu stjórnsýslu og eftirlitsaðila og á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun t.a.m. að afla sér faggildingar.

Vorið 2018 fjallaði Umhverfis- og samgöngunefnd um kröfu til faggildinga sem fram kemur í Mannvirkjalögum. Niðurstöður umfjöllunarinnar koma fram í Þingskjali 1087 á 148. löggjafarþingi 2017–2018.: Nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum (stjórnsýsla við mannvirkjagerð o.fl.).

Helsta niðurstaða Þingskjalsins er sú að Íslendingar gangi miklu lengra í kröfum um faggildingar en aðrar þjóðir án þess að séð verði að af því hljótist einhver ávinningur.

Í núverandi lagafrumvarpi til breytinga á þessum lögum gefst gott tækifæri til að breyta útfærslu á kröfum um faggildingu og draga úr henni í samræmi við framangreint nefndarálit. Bráðabirgðaákvæði núgildandi laga um mannvirki veitir aðilum frest til 2020 til að afla sér faggildingar. Þetta á við um byggingarfulltrúa, stofnanir og skoðunarstofur. Nú um mitt ár 2019 er enginn aðili búinn að afla sér faggildingar og stefnir í að staðan verði óbreytt í árslok 2020. Með því að fella niður kröfur um faggildingu en halda kröfum um fagmennsku óháðra skoðunaraðila má gera byggingareftirlit skilvirkara og þannig auka hraða framkvæmda sem jafnframt gerir framkvæmdina ódýrari. Með því að gera byggingareftirlit að þjónustu á markaði kemur það til með að lúta þeim lögmálum sem gilda um slíka þjónustu.

Tillaga um breytingar: Inspectionem leggur til að gerðar verði breytingar á lögum um Mannvirki og á 15. grein í lögum um byggingarvörur og felldar verði út kröfur um faggildingu á skoðunarstofum og í stað þeirra komi krafa um óháðan þriðja aðila sem starfi eftir viðeigandi stöðlum þar um.

2. Aðskilnaður stjórnsýslu og eftirlits

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúar og slökkvilið annist sjálf beint eftirlit á vissum sviðum. Ekki er farin sú leið að aðskilja eftirlit og stjórnsýslu eins og gert hefur verið t.d. í bifreiðaskoðun, rafmagnsöryggi og skipaskoðun. Sú leið tryggir enn betur jákvæða nálgun og sanngjarna málsmeðferð.

Tillaga um breytingar: Inspectionem leggur til að framkvæmd alls eftirlits sem tilgreint er í lögum nýrrar stofnunar, með mannvirkjum, byggingarvörum, rafmagnsöryggi og slökkviliðum verði fært til skoðunarstofa á markaði og gerð krafa um eftirlit óháðs þriðja aðila á þessum þáttum. Þannig er skilið á milli stjórnsýsluþáttar eftirlitsins og framkvæmdar þess eftirlits sem skoðunarstofur sinna í umboði stofnunarinnar. Á sama hátt er eðlilegt að aðskilja stjórnsýslu og eftirlit á sveitarstjórnarstiginu, þ.e. við leyfisveitingar byggingarfulltrúa og slökkviliðs.

Virðingarfyllst f.h. Inspectionem ehf.

Guðmundur Gunnarsson, verkfræðingur

Afrita slóð á umsögn

#2 Hagsmunasamtök heimilanna - 06.08.2019

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 09.08.2019

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Neytendastofa - 13.08.2019

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Neytendastofu við drög að frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök rafverktaka - 13.08.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samtök iðnaðarins - 13.08.2019

Góðan daginn

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Virðingarfyllst,

Björg Ásta Þórðardóttir

Lögfræðingur SI

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Verkfræðingafélag Íslands - 13.08.2019

Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Viðhengi