Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.7.–9.8.2019

2

Í vinnslu

  • 10.8.2019–14.9.2021

3

Samráði lokið

  • 15.9.2021

Mál nr. S-192/2019

Birt: 17.7.2019

Fjöldi umsagna: 4

Áform um lagasetningu

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Áform um lagasetningu - Lög um breytingar á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar

Niðurstöður

Samtals bárust fjórar umsagnir við áform um framlagningu frumvarps um breytingar á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar. Drög að frumvarpi til laga voru kynnt á samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. 212/2019). Við vinnslu frumvarpsins var m.a. tekið mið af þessum umsögnum.

Málsefni

Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á ýmsum lögum þannig að réttindi samkvæmt samþykkt 188 um vinnu við fiskveiðar séu tryggð í íslenskri löggjöf.

Nánari upplýsingar

Íslenska ríkið, sem aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni (e. International Labour Organization – ILO), hyggst fullgilda samþykkt stofnunarinnar nr. 188 um vinnu við fiskveiðar frá 2007 (ILO 188) og ber þá samkvæmt reglum þjóðaréttar skylda til að tryggja að ríkið fari eftir ákvæðum samþykktarinnar.

Samþykktinni er ætlað að bæta aðstæður um 30 milljóna manns sem starfa við fiskveiðar um allan heim. Í henni eru ákvæði sem ætlað er að tryggja að starfsmenn á sviði fiskveiða njóti aukins öryggis og heilbrigðis við vinnu og læknishjálpar á sjó og að veikir eða slasaðir sjómenn á fiskiskipum fái umönnun í landi. Jafnframt að þeir fái nægilega hvíld þeim til heilsuverndar og öryggis, að þeir njóti verndar í krafti starfssamninga og að þeir njóti sömu almannatryggingaverndar og aðrir starfsmenn.

Íslensk lög og reglur tryggja að miklu leyti þau réttindi sem kveðið er á um í samþykkti nr. 188. Fyrirhugað er að innleiða útistandandi ákvæði í íslenskan rétt með reglugerðum. Það er hins vegar mat samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að til að íslenska ríkið geti talist hafa innleitt ákvæði samþykktarinnar verði að gera tilteknar lagabreytingar.

Í fyrsta lagi er í Í 6. mgr. 9. gr. samþykktarinnar kveðið á um bann að meginstefnu við næturvinnu ungmenna undir 18 ára aldri í níu klukkustundir. Lögbæru stjórnvaldi er heimilað að veita undanþágu frá ítrustu kröfum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þörf er á að útfæra gildissvið 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga svo reglan nái til fiskimanna með þeim undanþágum sem heimilar eru frá reglunni.

Í öðru lagi er Í 2. mgr. 22. gr. samþykktarinnar er sett fram sú krafa að einkarekin þjónusta sem veitir skráningar- og ráðningarþjónustu í þágu fiskimanna skuli gera það í samræmi við staðlað kerfi, sem komið skal á með samráði við helstu hagsmunaaðila, þar sem krafist er leyfis og vottunar eða annars forms lögverndunar. Í 3. mgr. eru svo settar fram í þremur stafliðum þær kröfur að banna skuli fyrirtækjum sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu að fæla fiskimenn frá því að ráða sig til starfa, fiskimaður skuli hvorki beint né óbeint greiða hvers kyns gjöld eða aðrar álögur vegna skráningar eða ráðningar og sett verði skilyrði fyrir rekstri einkarekinnar ráðningarskrifstofu ásamt skilgreiningu á því hvenær unnt verði að fella úr gildi heimild til starfseminnar ef viðeigandi lög eða reglugerðir eru brotnar. Við innleiðingu ILO188 er fyrirhugað að setja inn í lög nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa ákvæði sem setur ramma um slíka starfsemi og reglugerðarheimild þar sem ráðherra er heimilað að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu og eftirlit með henni í reglugerð.

Í þriðja lagi er í 10. – 12. gr. samþykktarinnar fjallað um læknisskoðanir og læknisvottorð fiskimanna. Í 1. mgr. 10. gr. er sett fram sú krafa að enginn fiskimaður skuli starfa um borð í fiskiskipi án gilds læknisvottorðs til staðfestingar á heilbrigði til að sinna skyldustörfum sínum. Lögbæru stjórnvaldi er svo heimilað, að nánari skilyrðum uppfylltum, að veita undanþágu til frá beitingu 1. mgr. vegna skipa annarra en þeirra sem eru 24 metrar að lengd eða lengri eða eru að jafnaði á sjó lengur en þrjá daga. Í 2. tölul. 12. gr. kemur svo fram að læknisvottorð skuli gilda að hámarki í tvö ár nema fiskimaður sé undir 18 ára aldri, en þá skal gildistíminn vera eitt ár. Til að uppfylla áskilnað ILO188 samþykktarinnar þarf að lögfesta kröfu þess efnis að fiskimenn aðrir en réttindamenn þurfi að framvísa læknisvottorði til að vera heimilt að hefja störf um borð í fiskiskipi. Skulu slík vottorð hafa að hámarki tveggja ára gildistíma, auk þess sem færa þyrfti gildistíma læknisvottorða réttindamanna niður í tvö ár.

Á grundvelli þessara niðurstaðna áformar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að leggja fram frumvarp um þetta efni á haustþingi 2019.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

srn@srn.is