Samráð fyrirhugað 26.07.2019—16.08.2019
Til umsagnar 26.07.2019—16.08.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 16.08.2019
Niðurstöður birtar 12.02.2020

Grænbók, um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi

Mál nr. 197/2019 Birt: 26.07.2019 Síðast uppfært: 12.02.2020
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Fjölmargar gagnlegar umsagnir bárust um drög að grænbók sem horft var til við mótun flugstefnu, sem birt var til samráðs samhliða drögum að fimmtán ára samgönguáætlun 2020-2034 og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024 (sjá https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1516). Samgönguáætlun er nú til umfjöllunar á Alþingi, sjá neðangreindan hlekk.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 26.07.2019–16.08.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.02.2020.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi hér á landi. Er þar annars vegar um að ræða greiningu á stöðunni í málaflokknum í dag og einnig tillögur að áherslum til framtíðar. Er almenningi og hagsmunaaðilum boðið að gefa umsögn um drög að grænbókinni og leggja fram sín sjónarmið um tillögur að áherslum.

Í september 2018 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verkefnisstjórn til að vinna að mótun flugstefnu fyrir Ísland en slík stefna hefur ekki verið mótuð áður með heildstæðum hætti. Mikil og aukin umsvif flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi hér á landi á undanförnum árum hafa kallað á slíka stefnumörkun en samræmd stefna í málefnum flugs og flugtengdrar starfsemi styður við stefnumörkun samgönguáætlunar. Í samgönguáætlun felst grundvallarstefnumótun ríkisins í öllum greinum samgangna, sbr. nánar ákvæði laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008.

Markmið með gerð flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi, hvort sem er núverandi eða nýja starfsemi, styður vöxt hennar að því marki sem það er þjóðhagslega hagkvæmt og eykur atvinnusköpun.

Starfshópurinn hefur skilað af sér drögum að grænbók sem hér eru lögð fram til kynningar og umsagnar. Er þar annars vegar um að ræða greiningu á stöðunni í málaflokknum í dag og einnig tillögur að áherslum til framtíðar. Er almenningi og hagsmunaaðilum boðið að gefa umsögn um drög að grænbókinni og leggja fram sín sjónarmið um áherslur í flugmálum til framtíðar.

ATH. PDF skjalið var uppfært 27.07.2019

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Magni Hreinn Jónsson - 29.07.2019

Gerð er athugasemd við að ábending í kafla um loftslagsmál skuli ekki rata í tillögur starfshópsins. Ábendingin er:

„Mikilvægt er að opinberir aðilar og flugrekendur marki sér skýra stefnu í umhverfismálum

flugsamgangna. Bæði er það mikilvægt fyrir flug sem atvinnugrein en ekki síður vegna þess að

mikilvægt er að leggja sitt af mörkum til að tryggja framtíð okkar á jörðinni.“

Þessi ábending ætti að vera í tillögunum og þá þyrftu allar aðrar tillögur að taka mið að því að gripið verði til aðgerða í umhverfismálum samgangna.

Afrita slóð á umsögn

#2 Leifur Ragnar Magnússon - 30.07.2019

Nokkrar athugasemdir og ábendingar við "Drög að flugstefnu"

Bls. 5, lína 3:

Í stað "flugförum" komi "loftförum".

(Orðið "loftfar" er opinberlega viðurkennd íslensk þýðing enska orðsins "aircraft", og er alfarið notað í íslenskum lögum og reglugerðum.)

Bls. 15, línur 13 og 14:

Á stað textans "Wow air nýtti sér einnig þessa viðskiptahugmynd." komi eftirfarandi: "Flugleiðir og Icelandair hafa sinnt alþjóðlegu tengiflugi um Ísland frá árinu 1973 eftir sameiningu Flugfélags Íslands og Loftleiða. Wow air nýtti sér einnig þessa viðskiptahugmynd árin 2015-2019."

Bls. 19, lína 9:

Á eftir "... uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli" komi: "Eftir gjaldþrot WOW air í mars 2019 hefur íslensk ferðaþjónusta lagt þunga áherslu á að sætaframboð flugfélaga fyrir farþega til Íslands verði aukið, en minni áhersla lögð á farþega í tengiflugi um Ísland."

Bls. 24, lína 2:

Á eftir "umsvifamest í fraktflutningi með" bætist við eftirfarandi: "27 Boeing 757 og fjórum Boeing 767 breiðþotum".

Bls. 24, neðri hluti blaðsíðu:

Í stað eftirfarandi núverandi texta:

"Þannig má nefna að Airbus 330 vélar WOW air sköpuðu ný tækifæri í fraktflutningum. Gera má ráð fyrir að þegar Icelandair hættir rekstri Boeing 757 flugvéla minnki möguleikar á fraktflugi með farþegavélum þar sem arftakar þeirra munu bera minni frakt."

komi eftirfarandi nýr texti:

"Þannig má nefna að Icelandair hefur frá árinu 2003 rekið Boeing 767 breiðþotur auk Boeing 757 flugvéla sinna. Þær hafa verulega aukna fraktflutningagetu og því m.a. notaðar á leiðum með mikla fraktflutninga, t.d. til Boston og New York. Sumarið 2019 voru 33 Boeing þotur í grunnrekstri Icelandair, 25 757-200, tvær 757-200F fraktþotur, tvær 757-300 og fjórar 767-300ER breiðþotur. Af þessum flugflota voru 30 í eigu félagsins en þrjár leigðar. Flugfélagið WOW air var um tíma með Airbus 330 breiðþotur í rekstri sínum sem sköpuðu félaginu einnig ný tækifæri í fraktflutningum.

Tafir hafa orðið í hönnun og smíði raunverulegs arftaka Boeing 757. Minni flugvélar, Airbus 320/321 og Boeing 737, geta að hluta til leyst af flugverkefni Boeing 757, en hafa almennt minna flugdrægi og minni flutningsgetu. Hjá Boeing hefur um skeið verið unnið að hönnun nýrrar gerðar, sem á þessu stigi er nefnd NMA (New Mid-market Airplane), og er ætlað að leysa af hólmi bæði Boeing 757 og 767. Hún yrði væntanlega í tveimur stærðum, sem bæru 211 og 245 farþega, miðað við sætaskipan Icelandair. Þær hafa góða frakflutningagetu, sambærilega eða betri en hjá 757. Boeing hefur lýst yfir að stefnt sé að endanlegri ákvörðun um smíði og sölu NMA fyrir árslok 2019, eða í síðasta lagi fyrir mitt ár 2020. Þá stefnir Boeing að því að þessi nýja gerð gæti byrjað í flugrekstri árið 2025."

30, lína 25:

Á eftir "... og eldsneytisaðstaða" komi eftirfarandi viðbótartexti: "Huga þarf að burðarþoli (PCN) flugbrauta, akbrauta og flughlaða með hliðsjón af þörfum þeirra flugvélagerða sem sinna flugi til og frá Íslandi."

(Núverandi PCN-gildi fyrir flugvellina við Akureyri, Egilsstaði, Keflavík og Reykjavík eru opinberlega birt í flugupplýsingaritinu AIP Iceland.)

Bls. 31, fyrstu tvær línur:

Hér er sett fram almenn krafa að varaflugvellir skuli hafa "tvær misvísandi flugbrautir um 45 m breiðar og um 2100 m langar". Nauðsynlegur fjöldi flugbrauta hvers flugvallar ræðst fyrst og fremst af vindrós hans og þörfum þeirra flugvéla sem flugvöllinn nota. Sé flugvöllur staðsettur í firði eða dal getur það umhverfi haft afgerandi áhrif á vindrósina. Liggur fyrir að vindrós flugvallanna við Akureyri og Egilsstaði krefjist tveggja flugbrauta, og ef svo er, eru aðflugs- og fráflugsskilyrði þverbrauta þar ásættanleg miðað við almennar ICAO kröfur?

Bls. 52, lína 2:

Í stað "Flugstöðin" komi "Flugstöð Leifs Eiríkssonar".

Bls. 52, lína 5:

Í stað "Keflavíkurflugvallar" komi "flugstöðvarinnar".

(Nauðsynlegt er að gera glöggan mun á málefnum flugvallar og flugstöðvar hans. Keflavíkurflugvöllur, þ.e. flugbrautakerfið, hefur ekki stækkað á síðustu árum.)

Reykjavík, 30. júlí 2019

Leifur Magnússon

leifur@baro.is

Upplýsingar um starfsferil:

1960-1961 verkfræðingur hjá Flugmálastjórn Íslands

1961-1978 framkvæmdastjóri flugöryggisþjónustu Flugmálastjórnar

1967-2012 störf í 24 opinberum nefndum um ýmis flugtengd málefni

1973-1978 varaflugmálastjóri

1973-1979 varaformaður Flugráðs

1978-2000 framkvæmdastjóri hjá Fluleiðum (m.a. við flugrekstur og tæknimál)

1980-1994 formaður Flugráðs

2000-2003 ráðgjafi forstjóra Flugleiða um flugöryggis- og flugflotamál

Afrita slóð á umsögn

#3 Markaðsstofa Norðurlands - 12.08.2019

Markaðsstofa Norðurlands óskar eftir að frestur til að skila inn athugasemdum við þessa grænbók á Samráðsgátt stjórnvalda verði lengdur til næstu mánaðamóta (ágúst/sept). Uppgefinn frestur er mjög stuttur fyrir svo stórt mál sem þetta er og hittir auk þess á hápunkt sumarleyfa hjá flestum. Markaðsstofan óskar því eftir lengri tíma til þess að vinna sína umsögn.

Afrita slóð á umsögn

#4 Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga ses. - 13.08.2019

F.h. Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga er þess óskað að umsagnarfrestur um málið verði framlengdur a.m.k. til og með 31. ágúst n.k. Hér er um að ræða mjög stórt mál sem er m.a. einn af hornsteinum byggðar um land allt. Að setja málið í samráðsferli hér í þrjár vikur á hásumarleyfistíma er ekki líklegt til að skila miklum efnislegum umsögnum sem þó hlýtur að vera tilgangurinn. Þess er því óskað að fresturinn verði lengdur og hagsmunaaðilum með því gefinn raunhæfur kostur á að skila inn efnislegum umsögnum.

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#5 Sveitarfélagið Skagafjörður - 13.08.2019

Undirritaður, fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar, óskar eftir að frestur til skila athugasemda við grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi, verði framlengdur til mánaðarmóta ágúst/september. Ástæðan er sú að frestur til að skila inn athugasemdum er mjög stuttur og að auki á þeim tíma sem flestir hafa verið í sumarleyfum.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#6 Samband sveitarfél Suðurnesjum - 13.08.2019

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Málefnasvið: Samgöngu og fjarskiptamál

Mál nr.S-197/2019

Reykjanesbær 13. ágúst 2019

Efni: Grænbók, um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fagnar fram komnum drögum að stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi. Í ljósi þess hversu áhrif flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi hafa á hagkerfi landsins er mikilvægt að stefna stjórnvalda sé skýr.

Á bls. 77 í kafla nr. 1 um alþjóðafarþegaflug er lagt til að bætt verði inn grein sambærilegri við grein 3.3 er fjallar um almenningssamgöngur. Þ.e.a.s. að tryggðar verði öflugar tengingar milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Reykjavíkurflugvallar og annarra hluta almenningssamgöngukerfisins.

Í kafla nr. 7, á bls. 80 er lagt til að skoðað verði hvort ekki sé rétt að stefna að því að þær kennslustofnanir er sjá um að mennta flugmenn fái sömu nemendaígildi eins og þær kennslustofnanir sem mennta t.d. skiptstjóra. Hægt er að færa rök fyrir því að ekki séu í gildi jafnræðissjónarmið þegar kemur að því að mennta skipstjóra og flugstjóra. Ef grein nr. 7.1 í Grænbókinni á fram að ganga um að Ísland sé í fararbroddi þegar kemur að því að afla sé menntun og þjálfun á sviði flugs, þarf að gera þeirri menntun jafn hátt undir höfði og annarri menntun á Íslandi.

Þegar kemur að umfjöllum um aðra alþjóðaflugvelli en Keflavíkurflugvöll (kafli. 13, bls. 84) er lagt til að einnig verði lagt mat þá það hvaða samfélagsleg áhrif það hafi á Suðurnesin verði farið í að byggja upp aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll. Ekki er hægt að leggja eingöngu mat á markaðs- og samfélagsþörf á þeim stað sem byggja á upp annan alþjóðaflugvöll án þess að skoða hvaða áhrif það hefur á allt nær umhverfi Keflavíkurflugvallar sem og markaðsáhrif í heild sinni.

Á síðasta aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var i október 2018, samþykktu sveitarstjórnarmenn eftirfarandi bókun:

• „Stærsta og mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar er alþjóðlegur flugvöllur á Miðnesheiði og tryggja þarf að starfsemi og nauðsynleg uppbygging þar geti verið í samræmi við þarfir íslensks samfélags.

• Hugmyndir um nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni hafa verið settar fram án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við sveitarfélög eða aðra aðila á Suðurnesjum. Þau vinnubrögð eru harðlega gagnrýnd og er gerð krafa um að Suðurnesjamenn fái aðkomu að vinnu við að skoða framtíð flugsamgangna á SV-horninu. Mikilvægt er að samfélagslegir hagsmunir sem og umhverfishagsmunir séu skoðaðir og metnir og málið sé skoðað frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðarstæði nýs flugvallar verði tekin ef til þess kemur“.

Lagt er til að gerð verði orðalagsbreyting í grein 18.2 á bls. 86, í stað þess að nota orðið ferðamannastraumi verði orðið „flugfarþegar“ notað. Að setningin verði eftirfarandi eftir breytingu:

„Tryggja þarf nægan mannafla innan tollgæslu og lögreglu til að taka á móti auknum fjölda flugfarþega“. Þar sem ekki allir flugfarþegar eru ferðamenn“.

Að lokum er lagt til að í kafla 21 á bls. 86 og 87 um að koma á betri samskipum milli aðila í flugi og flugtengdri þjónustu, er lagt til að fulltrúum á sveitarstjórnarstiginu í nærumhverfi Keflavíkurflugvallar verði bætt inn í vettvang aðila sem hittast á tveggja mánaðafresti, með það að markmiði að tryggja samþættingu og upplýsingagjöf á milli aðila og beggja stjórnsýslustiga. Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum hefur á undanförum árum bent á að ekki sé nóg að byggja upp stoð í íslenskt efnahagslíf, sem alþjóðaflugvöllurinn á Keflavíkurflugvelli er, án þess að skoða áhrif þess á nær samfélagið. Á árunum 2015-2019 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 23,1%, sem að stórum hluta má rekja til áhrifa af vexti Keflavíkurflugvallar.

2015 2016 2017 2018 2019

Reykjanesbær Alls Alls 14.924 15.233 16.350 17.805 18.920

Grindavíkurbær Alls Alls 2.995 3.126 3.218 3.323 3.427

Sandgerði Alls Alls 1.580 1.577 1.708 1.779 0

Sveitarfélagið Garður Alls Alls 1.425 1.425 1.511 1.595 0

Sveitarfélagið Vogar Alls Alls 1.102 1.148 1.206 1.268 1.286

Suðurnesjabær Alls Alls 0 0 0 0 3.480

Heimild. Hagstofa Íslands

Fjölgunin á Suðurnesjum varð lagt umfram meðaltalsfjölgun á landinu en aukning fjárframlaga ríkisins til stofnanna sinna og verkefna á Suðurnesjum fylgdu á engan hátt þeirri þróun. Í áætlunargerð ríkisins virðist ekki vera tekið nægjanlegt til þess ef óvenju mikil fólksfjölgun verður á einstökum svæðum. Það er því mikilvægt að skoða stefnur sem þessa í samhengi við stofnanir ríkisins sbr. lögreglu, tollgæslu og heilbrigðisþjónustu og tryggja gott samstarf má milli beggja stjórnsýslustiga.

Virðingarfyllst,

Berglind Kristinsdóttir

Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Sigurður Aðalsteinsson - 13.08.2019

Athugasemdir við Drög að flugstefnu fyrir Ísland

1.3.

3. liður

Aths. 1: Varaflugvöllur fyrir millilandaflug getur samhliða gegnt hlutverki ákvörðunarstaðar í millilandaflugi. Ég tel það ranga nálgun að aðskilja þessi tvö hlutverk eins og gert er hér og annars staðar í drögunum (Kafli 3.4 bls. 31) . Í sama kafla (bls. 30) er enda talað um fjóra alþjóðaflugvelli á Íslandi og ætti alls ekki að stefna að því að fækka þeim.

Aths. 2: Auk Reykjavíkurflugvallar eru flugvellirnir á Akureyri og Egilssöðum í nánast daglegri notkun sem varaflugvellir fyrir millilandaflug. Tveir síðarnefndu vellirnir eru á allt öðru veðursvæði og auka einmitt í sameiningu flugöryggið þar sem þeir eru í sömu átt frá Keflavíkurflugvelli, Akureyri nær og Egilsstaðir fjær. Báðir hafa þeir sína kosti og galla og á báðum er verk að vinna. Öruggast er að báðir þessir flugvellir geti gegnt varavallarhlutveki sómasamlega og að valið verði í höndum flugáhafnanna á hverjum tíma.

10. liður

Aths. 1: Egilsstaðaflugvöllur ætti ekki að vera í sérstökum forgangi umfram Akureyri, sbr. aths. hér að ofan.

3.1.1

Aths. 1: Á bls. 21 er talað um, að erfiðlega hafi gengið að byggja upp utanlandsflug til annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar. Þetta er rétt, en þó má sjá marktæka aukningu síðustu árin a.m.k. á Akureyrarflugvelli, (mynd 8). Kemur þar til margra ára viðleitni sveitarfélaganna með aðkomu stjórnvalda allra síðustu ár. Drög að flugstefnu Íslands ættu að styðja við þessa viðleitni, sem um leið stuðlar að bættri nýtingu fjárfestinga á varaflugvöllum fyrir millilandaflug.

3.1.2

Ats. 1: Í upptalningu á bls. 23 kemur fyrir orðskrípið "flugviskubit". Þótt margir kannist við orðið, á það ekki heima á þessum vettvangi, þar sem "flugviskan", óbitin ætti fyrst og fremst að ráða ferðinni.

3.4

Aths. 1: Rétt IATA skammstöfun fyrir Reykjavíkurflugvöll er RKV - ekki REK.

Aths. 2: Í upptalningu á grunnkröfum fyrir varaflugvelli, er talað um tvær misvísandi flugbrautir. Með þessari kröfu eru bæði AEY og EGS dæmdir úr leik. Leifur Magnússon bendir í sínum aths. réttilega á, að þessi krafa ætti ef til vill ekki að vera jafn einstrengingsleg.

Aths. 3: Atriðin þrjú, sem talin eru skilja alþjóðaflugvelli frá varaflugvöllum: vegabréfaetirlit, flugvernd, og viðunandi aðstaða til að afgreiða farþega, þurfa öll að vera til staðar, þegar um er að ræða komu flugvélar úr millilandaflugi til varaflugvallar. Vegabréfaeftirlit þar sem farþegar fara oft í gistingu eða er ekið til ákvörðunarstaðar. Flugvernd, ef farþegum er flogið áfram til ákvörðunarstaðar eftir næturgistingu á hóteli. Um sams konar aðstöðu er að ræða, hvort sem farþegar eru á varaflugvelli, upphafs- eða ákvörðunarstað. Vegabréfaeftirlit og flugvernd hafa verið leyst á AEY og EGS með tímabundinni aðkomu viðeigandi embætta og öryggisfyrirtækja, án fasts starfsfólks á flugvelli.

17.4

Aths. 1: Egilsstaðaflugvöllur verði ekki í sérstökum forgangi, sbr. fyrri rökstuðning.

11. ágúst 2019

Sigurður Aðalsteinsson

f.v. framkvæmdastjóri og flugstjóri

Afrita slóð á umsögn

#8 Samband íslenskra sveitarfélaga - 14.08.2019

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um grænbókina.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Afrita slóð á umsögn

#9 Sigurður Loftur Thorlacius - 14.08.2019

Ég fagna því að stefnt markmiðið sé að taka þátt í þeirri hröðu þróun sem á sér stað í rafmagns- og tvinnflugi. Ég fagna því einnig að stutt verði við orkuskipti í flugi með ívilnunum og bættum innviðum.

Þetta eru mikilvægt skref en Norðmenn ætla að skjóta okkur ref fyrir rass og rafvæða öll styttri flug fyrir 2040, þ.e.a.s. öll flug sem eru styttri en 1,5 klst. Hér eru nokkrar greinar um markmið og áætlanir þeirra:

https://www.theguardian.com/world/2018/jan/18/norway-aims-for-all-short-haul-flights-to-be-100-electric-by-2040

http://www.bbc.com/future/story/20180814-norways-plan-for-a-fleet-of-electric-planes

https://www.dezeen.com/2019/05/27/electric-aircraft-norway-olaf-mosvold-larsen-interview/

Norsk flugfélög eru þegar farin að panta rafmagnsflugvélar í kjölfar yfirlýsingarinnar:

https://www.reuters.com/article/us-norway-airplane-electric/norways-osm-aviation-orders-60-electric-planes-to-cut-training-costs

Ég skora á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að setja sér sama markmið og Norðmenn í stefnunni, að öll styttri flug verði rafvædd fyrir 2040.

Sigurður Loftur Thorlacius,

Umhverfisverkfræðingur hjá EFLU verkfræðistofu og ritari Ungra umhverfissinna

Afrita slóð á umsögn

#10 Svalbarðsstrandarhreppur - 15.08.2019

Stefna stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi hefur bein áhrif á aðbúnað íbúa Svalbarsstrandarhrepps sem og annarra íbúa landsins. Stefnan er birt í samráðsgátt í lok júlí á meðan bæði sveitarstjórn og starfsmenn eru í sumarfríum og fresturinn rennur út áður en sveitarstjórn hittist eða hefur ráðrúm til þess að vinna sig í gegnum stefnuna sem er yfir 80 blaðsíður. Í ljósi þess að sveitarfélagið og íbúar þess hafa ríka hagsmuni óskar Svalbarðsstrandarhreppur eftir að frestur til skila á umsögn sé lengdur og aðilum þannig gefið tækifæri til þess að taka þátt í mótun þessarar stefnu eða að koma athugasemdum til skila.

Afrita slóð á umsögn

#11 Suðurnesjabær - 15.08.2019

Stefnumótun um flugsamgöngur

Á fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar 14. ágúst 2019 var fjallað um drög að flugstefnu fyrir Ísland og eftirfarandi bókað, sjá einnig meðfylgjandi viðhengi.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar fagnar því að unnið sé að mótun flugstefnu fyrir Ísland. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og flugtengd starfsemi, ásamt stærstum hluta Keflavíkurflugvallar eru í Suðurnesjabæ. Í ljósi þess saknar bæjarráð þess að ekki hafi verið haft beint samráð við Suðurnesjabæ og sveitarfélögin á Suðurnesjum við mótun flugstefnunnar, er varðar alþjóðaflug. Bæjarráð bendir á að slík aðkoma sveitarfélaganna að verkefninu væri jákvæð og gagnleg fyrir alla aðila.

Keflavíkurflugvöllur er einn mikilvægasti hlekkurinn í samgöngukerfi Íslands. Fyrir Ísland sem er staðsett á miðju Atlantshafi eru greiðar flugsamgöngur til og frá landinu ein mikilvægasta forsenda þess að samfélagið geti þróast og byggst upp í takti við önnur lönd sem við berum okkur saman við. Einnig eru greiðar flugsamgöngur ein mikilvægasta forsenda þess að atvinnulíf í landinu geti átt sem mest og best viðskipti við önnur lönd. Að því leyti fagnar bæjarráð þeim áherslum sem birtast í drögum að flugstefnu, þar sem tekið er mið af þeim miklu möguleikum sem felast í því að efla flugsamgöngur um Keflavíkurflugvöll enn frekar, sem tengiflugvallar, og til farþega-og fraktflutninga til og frá landinu. Frekari uppbygging Keflavíkurflugvallar felur því í sér mikil tækifæri fyrir landið allt. Bæjarráð leggur því áherslu á að þau áform sem eru um frekari uppbyggingu Keflavíkurflugvallar komist til framkvæmda.

Góðir og fullnægjandi varaflugvellir eru mikilvægir út frá flugöryggi alþjóðaflugs. Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að nauðsynleg uppbygging varaflugvalla verði ekki fjármögnuð með fjármagni frá rekstri Keflavíkurflugvallar, slíkt myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á nauðsynlega uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og þar með leiða til þess að mikilvæg tækifæri fari forgörðum ef litið er til alls atvinnulífs í landinu. Þess vegna fagnar bæjarráð því að í niðurstöðum starfshóps sem vann drög að flugstefnu er áhersla á að uppbygging varaflugvalla verði ekki fjármögnuð af rekstri Keflavíkurflugvallar.

Fyrir þjóð sem byggir jafn mikið á flugsamgöngum og Íslendingar er ein grunn forsenda að búa að öflugu flugnámi, rétt eins og viðurkennt hefur verið um langa tíð að mikilvægt sé að bjóða upp á öflugt skipstjórnar- og vélstjórnarnám fyrir fiskiskipaflota þjóðarinnar. Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að Keilir, flugskóli Íslands er stærsti flugskóli landsins, með höfuðstöðvar á Ásbrú. Mikil þörf er fyrir vel menntaða flugmenn og blasir við að sú þörf muni aukast. Í drögum að flugstefnu er lögð áhersla á aukna menntun og nýsköpun í þessari mikilvægu grein og því ber að fagna. Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að flugnám verði einn hluti menntakerfisins og opnað verði fyrir aðgengi flugnema að námslána- og styrkjakerfi eins og á við um annað lánshæft nám.

Í drögum að flugstefnu er ekki með beinum hætti tekin afstaða til hugmynda um nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni. Bæjarráð minnir á að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa ekki haft neina aðkomu að umfjöllun um þetta mál og hvetur samgönguyfirvöld til þess að sveitarfélögin fái tækifæri til að taka eðlilegan þátt í umfjöllun um málið, ef svo fer að framhald verði á því. Jafnframt bendir bæjarráð á að ómarkviss umræða um mögulega uppbyggingu flugvallar í næsta nágrenni Keflavíkurflugvallar skapi óvissu og sé til þess fallin að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum og fjárfestingum við frekari uppbyggingu Keflavíkurflugvallar.

Í kafla 21 er fjallað um betri samskipti milli aðila í flugi og flugtengdri þjónustu, með því að komið verði á umræðu-og samstarfsvettvangi aðila. Bæjarráð leggur til að auk þeirra aðila sem taldir eru til á bls. 87 eigi fulltrúar sveitarfélaga í nærsamfélagi Keflavíkurflugvallar aðild að slíkum vettvangi.

Magnús Stefánsson

bæjarstjóri Suðurnesjabæjar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Akureyrarkaupstaður - 15.08.2019

Bæjarráð mótmælir þeim skamma fresti, yfir sumarmánuði, sem gefinn er til að koma með athugasemdir í samráðsgátt vegna Grænbókar um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi.

Þá gerir bæjarráð alvarlegar athugasemdir við skipan starfshóps en svo virðist sem enginn utan höfuðborgarsvæðisins sitji í starfshópnum. Auk þess sitja engir fulltrúar sveitarfélaga í starfshópnum en bæjarráð telur eðlilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga skipaði fulltrúa í starfshópinn.

Bæjarráð telur samfélags- og byggðasjónarmið ekki höfð að leiðarljósi við vinnuna og lýsir yfir vonbrigðum með að þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar virðist ekki vera vilji til að opna fleiri gáttir inn í landið og lítil ástæða talin til að flokka aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll sem millilandaflugvöll.

Akureyrarbær hefur fengið frest til þess að senda inn umsögn um málið og mun gera það á næstu dögum.

Afrita slóð á umsögn

#13 Mývatnsstofa ehf. - 15.08.2019

Athugasemdir við innihald grænbókarinnar:

Þessi drög að flugstefnu fyrir Ísland eru í hróplegu ósamræmi við stefnu stjórnvalda um að opna nýja gátt inn í landið. Það vekur furðu að hvergi sé minnst á uppbyggingu alþjóða-farþegaflugs nema í Keflavík, þar sem í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur skýrt að opna eigi nýja gátt á Íslandi fyrir slíkt flug. Þessi drög stangast einnig á við niðurstöður og tillögur starfshóps um innanlandsflug, sem skilaði skýrslu til samgönguráðherra í lok nóvember 2018. Þar er lagt til að alþjóðaflugvellirnir fjórir í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum verði skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn.

Við uppbyggingu Keflavíkurflugvallar er hvergi minnst á að þar þurfi að vera góð tenging við aðra minni flugvelli á Íslandi. Möguleiki á skilvirku tengiflugi innanlands við Keflavíkurflugvöll hlýtur að vera grunnforsenda fyrir því að hægt sé að auka dreifingu ferðamanna um landið, sem einnig er stefna stjórnvalda. Vitað er að núverandi fyrirkomulag þar sem farþegar þurfa fyrst að fara frá Keflavík til Reykjavíkur til að geta flogið lengra út á land er ekki skilvirkt og dregur úr flæði ferðamanna út um landið.

Með því að byggja upp fleiri alþjóðaflugvelli á Íslandi, er jafnframt verið að mæta kröfum um þá þjónustu og afköst sem varaflugvellir landsins þurfa að geta mætt. Það að ætla að byggja upp flugvelli einungis sem varaflugvelli er í besta falli vond fjárfesting. Með því að byggja upp samhliða aukna millilandaumferð á viðkomandi flugvöllum, nýtast fjárfestingarnar í innviðunum mun betur og skapa aukin tækifæri í ferðaþjónustu og öðrum greinum tengdum flugrekstri á viðkomandi svæðum. Þessu til viðbótar er þjóðhagslega hagkvæmt að auka millilandaflug um Akureyrarflugvöll og Egilstaðaflugvöll. Sú fjárfesting sem þarf til að bæta aðstöðu á þessum flugvöllum og gera þá betur í stakk búna til að taka við meira millilandaflugi, mun skila sér margfalt til baka á tiltölulega stuttum tíma.

Í drögunum er lagt til að stuðningur við uppbyggingu á öðrum alþjóðaflugvöllum fari fyrst og fremst í gegnum Flugþróunarsjóð. Hlutverk Flugþróunarsjóðs er að styðja við flugrekendur sem vilja hefja flug inn á þessa staði með þátttöku í markaðssetningu og öðrum ívilnunum (sjá nánar um markmið sjóðsins í starfsreglum hans, 1.gr. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f3b4706d-ecba-11e8-942f-005056bc4d74 ). Hefur þetta hvatakerfi reynst mikilvægt til þess að koma á fót því flugi sem nú þegar er hafið. Það er hins vegar ekki hlutverk Flugþróunarsjóðs að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu og viðhald á þessum flugvöllum, enda hefur Flugþróunarsjóður ekki fjármagn til slíkra hluta. Þess vegna er ekki hægt að einskorða aðkomu ríkisins að uppbyggingu flugvallanna við starfsemi Flugþróunarsjóðs.

Einnig er lagt til í drögunum að fara þurfi fram greining á uppbyggingu annarra alþjóðaflugvalla en Keflavíkurflugvallar áður en ákveðið verði að fara í slíka uppbyggingu. Þessa greiningu hefði átt að vera búið að vinna fyrir löngu og afar brýnt að hún verði gerð sem allra fyrst.

Athugasemdir við framkvæmd við vinnu grænbókarinnar:

Mývatnsstofa gerir einnig athugasemd við hvernig skipað var í starfshópana sem unnu þessa Grænbók. Svo virðist sem að allir í starfshópunum hafi komið af höfuðborgarsvæðinu og ekki hægt að sjá að rödd landsbyggðanna sé nokkurs staðar að finna. Þetta skýtur skökku við, því hér er um að ræða flugstefnu fyrir allt landið, ekki bara höfuðborgarsvæðið.

Afrita slóð á umsögn

#14 Eyjafjarðarsveit - 15.08.2019

Undirritaður, fyrir hönd sveitarfélagsins Eyjafjarðarsveitar, óskar eftir því að frestur til að skila athugasemdum varðandi grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi verði framlengdur til mánaðarmóta ágúst/september.

Ekki er eðlilegt að málefni sem svo mikilvægt er fyrir byggðarþróun og lífsskilyrði í landinu fái svo skamman tíma í samráðsgáttinni yfir sumarleyfistímann. Starfsemi skrifstofa sveitarfélaga er í lágmarki á þessum tíma og rennur frestur út áður en sveitarstjórn fundar. Sveitarstjórn hefur því ekki fengið færi á að kynna sér innihald viðarmikillar skýrslunnar eða svigrúm til að koma athugasemdum á framfæri vegna hennar.

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#15 EYÞING-samb svfél Eyjaf/Þingey - 16.08.2019

Bókun stjórnar Eyþings.

Stjórn Eyþings mótmælir þeim skamma fresti, yfir sumarmánuði, sem gefinn er til að koma með athugasemdir í samráðsgátt vegna Grænbókar um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi.

Þá gerir stjórn alvarlegar athugasemdir við skipan starfshóps en svo virðist sem enginn utan höfuðborgarsvæðisins sitji í starfshópnum. Auk þess sitja engir fulltrúar sveitarfélaga í starfshópnum en stjórn telur eðlilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga ætti fulltrúa í starfshópnum enda um mikið hagsmunamál fjölmargra sveitarfélaga að ræða.

Stjórn telur samfélags- og byggðasjónarmið ekki höfð að leiðarljósi við vinnuna og lýsir yfir vonbrigðum með að þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar virðist ekki vera vilji til að opna fleiri gáttir inn í landið og lítil ástæða talin til að flokka aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll sem millilandaflugvöll.

Afrita slóð á umsögn

#16 Samband íslenskra sveitarfélaga - 16.08.2019

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vinsamlega eyðið fyrri færslu þar sem láðist að láta viðhengi fylgja.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Atvinnuþróunarfélag Eyjafj bs - 16.08.2019

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar óskar hér með eftir fresti til að skila inn umsögn vegna Grænbókar um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstri og flugtengdrar starfsemi á Íslandi. Um er að ræða mjög mikilvægt hagsmunamál er varðar byggðarþróun og lífsskilyrði á landinu öll. Vegna mikilvægi málsins og sumarleyfa er óskað eftir fresti til að skila inn umsögn til 30. ágúst n.k.

Afrita slóð á umsögn

#18 Þorsteinn Gunnarsson - 16.08.2019

Hjálagt er umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps.

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Þröstur Friðfinnsson - 16.08.2019

Frá Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps;

Sveitarstjórnin er í fundarhléi, en tekur heilshugar undir innsenda umsögn Eyþings.

Afrita slóð á umsögn

#20 Dalvíkurbyggð - 16.08.2019

Í viðhengi er umsögn frá byggðaráði Dalvíkurbyggðar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Icelandair Group hf. - 16.08.2019

Meðfylgjandi er umsögn Icelandair Group um ofangreint mál.

F.h. Icelandair Group hf.

Bogi Nils Bogason

Forstjóri

Viðhengi