Alls bárust 26 umsagnir, aðallega fyrir hönd sveitarstjórna. Sjá nánar um niðurstöðu samráðs í meðfylgjandi skjali:
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.08.2019–10.09.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 18.09.2019.
Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga er hér lögð fram til umsagnar. Allir geta sent inn umsögn og ábendingar og því um að ræða mikilvægt tækifæri til að hafa áhrif á stefnuna.
Sumarið 2018 var bætt við sveitarstjórnarlög ákvæðum um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Samkvæmt þeim skal ráðherra sveitarstjórnarmála leggja að minnsta kosti á þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði.
Með bréfi dags. 27. desember 2018 fól ráðherra starfshópi að undirbúa stefnumótunina og lagði jafnframt áherslu á að viðhaft yrði víðtækt samráð um land allt, sem kæmi til viðbótar við það samráð sem þegar hafði farið fram í samstarfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, annarra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins.
Hinn 30. apríl sl. sendi starfshópurinn frá sér umræðuskjalið „Grænbók – Stefna um málefni sveitarfélaga“ en með því var almenningi og hagsmunaaðilum boðið að koma á framfæri sínum sjónarmiðum um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn, sem nýst gætu við stefnumótunina. Í grænbókinni voru settar fram 50 lykilspurningar sem varða áherslur og ýmsar áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir. Samráðsfundir starfshópsins með sveitarstjórnarfólki voru haldnir um allt land þar sem grænbókin var kynnt og rædd. Þessu samhliða var grænbókin lögð til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Grænbókina og fylgiskjöl með henni, samantekt yfir umsagnir sem bárust og frásagnir af kynningarfundum má finna í samtengdu máli neðar á síðunni.
Nú liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Sett eru fram tvö megin markmið, sem kynnt voru í grænbókinni og mótuð frekar með hliðsjón af samráði og umsögnum sem bárust í tengslum við hana. Það fyrra lítur að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra og það seinna lýtur að sjálfsstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra, m.a. við að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Skilgreindar eru margvíslegar áherslur við hvort markmið um sig, sem geta ýmist leitt til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að markmiðum áætlunarinnar verði náð.
Í tillögu að aðgerðaáætlun til næstu fimm ára (2019-2023) eru lagðar til 11 skilgeindar aðgerðir sem eiga að tryggja framgang markmiða áætlunarinnar. Gerð er grein fyrir markmiðum, hver ber ábyrgð á framkvæmd, samstarfaaðilum og fleira. Unnið er að því að kostnaðarmeta einstakar aðgerðir og því er ekki gerð grein fyrir kostnaði í tillögunni eins og hún liggur fyrir.
Á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 22.8.2019 var eftirfarandi samþykkt undir lið 9:
9. Þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga og aukalandsþing
Þingsályktuunartillagan lögð fram, en hún er nú í samráðsgátt stjórnvalda.
Sveitarstjórn Hörgársveitar mótmælir hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga og hvetur Ríkisstjórn og Alþingi til að virða lýðræðislegan rétt íbúa til að eiga val um það með kosningarétti sínum hvernig best er að haga sveitarfélagaskipan á hverju svæði. Sameining sveitarfélaga getur verið valkostur en meginatriði er að hún verði á grundvelli ákvörðunar íbúanna sjálfra.
Sveitarstjórn Skagabyggðar fundaði 23. ágúst s.l. og þar var til umræðu þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga.
Eftirfarandi var bókað og samþykkt:
,,Sveitarstjórn Skagabyggðar mótmælir harðlega öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi. Ráðamenn eru hvattir til að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum. Sameining sveitarfélaga verður að gerast á forsendum þeirra sem um ræðir en ekki með valdboðum að ofan”.
ViðhengiHjálagt er umsögn sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023.
F.h. sveitarfélaganna
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps
Dagbjört jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar
ViðhengiHreppsnefnd Akrahrepps fundaði 29. ágúst sl.
Eftirfarandi var bókað varðandi þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga:
,,Hreppsnefnd Akrahrepps mótmælir harðlega öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi. Ráðamenn eru hvattir til að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum. Sameining sveitarfélaga getur verið ákjósanleg og skynsamleg en verður að gerast á forsendum þeirra sem um ræðir en ekki með valdboðum að ofan”.
Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps fundaði mánudaginn 2. september sl. Eftirfarandi var bókað og samþykkt varðandi dagskrárlið 2. Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga, tillaga til þingsályktunar :
Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps mótmælir öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi eins og þær birtast í tillögu að þingsályktun um stefnumótun áætlun í málefni sveitarfélaga og aðgerðaráætlun 2019-2026. Sveitarstjórn hvetur ríkisstjórn og Alþingi að virða lýðræðislegan sjálfsákvörðunarrétt íbúa í eigin málefnum. Sjálfsákvörðunarrétturinn er varinn í stjórnarskrá, sveitarfélagalögum og Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Sveitarstjórn telur líka að þetta sé mjög stuttur fyrirvari á þvingaðri sameiningu. Oddvita falið að koma umsögn sveitarfélagsins á framfæri í Samráðsgátt stjórnvalda.
ViðhengiÁ 30. fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar sem haldinn var 30. ágúst 2019 var fjallað um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga og eftirfarandi bókað“
„Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að þeim sveitarfélögum sem takast á við sameiningar sé tryggður nægjanlegur fjárhagslegur stuðningur til að takast á við þau víðfemu og kostnaðarsömu verkefni sem slíku fylgir.“
ViðhengiSveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps samþykkir með meirihluta atkvæða að mótmæla hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi eins og þær birtast í tillögu að þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga og aðgerðaáætlun 2019-2023.
Helstu markmið þingsályktunarinnar er m.a. að tryggja og virða sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga. Tekið er fram að gæta verði að sjálfsstjórn sveitarfélaga og rétti þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð.
Það skýtur því skökku við að sömu tillögur boði lögþvingaðar sameiningar og að gengið verði framhjá aðkomu íbúa sveitarfélaga að ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga.
Sjálfsákvörðunarrétturinn er varinn í Stjórnarskrá, Sveitarstjórnarlögum og Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps bendir á að með fyrirætlunum um lögþvingaðar sameiningar sé gróflega brotið á rétti íbúa þeirra sveitarfélaga sem falla undir skilgreiningu þá sem fram kemur í tillögunni að lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps mótmælir harðlega þeim áformum sem koma fram í þingsályktunartillögu sveitarstjórnarráðherra að beita lögþvingunum til sameiningar sveitarfélaga á Íslandi. Sveitarstjórn hvetur ríkisstjórn og Alþingi til að virða lýðræðislegan rétt íbúa til að eiga val um það með kosningarétti sínum hvernig best er að haga sveitarfélagaskipan á hverju svæði. Sameining sveitarfélaga getur verið valkostur en meginatriði er að hún verði á grundvelli ákvörðunar íbúanna sjálfra. Mikið er lagt upp úr tveimur atriðum, lýðræði og sjálfsstjórnarrétti í tillögu ráðherra og telur sveitarstjórn að tillaga um lágmarksfjölda íbúa sé í algerri andstæðu við þær lýðræðislegu áherslur sem koma fram að öðru leyti í tillögunni.
ViðhengiHreppsnefnd Svalbarshrepps, ályktar sem svo;
„Svalbarðshreppur leggst alfarið gegn tillögu sveitarstjórnarráðherra um lögboðna sameiningu sveitarfélaga. Grundvallar atriði er að íbúar sveitarfélaga ráði því sjálfir í hvers konar sveitarfélagi þeir búa og á ríkisvaldið ekkert með að hlutast til um þau mál.“
Virðingarfyllst
f.h. hreppsnefndar Sigurður Þór Guðmundsson oddviti
Hreppsráð Vopnafjarðarhrepps fundaði 4. september s.l. og þar var til umræðu þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga.
Eftirfarandi var bókað og samþykkt:
,,Hreppsráð Vopnafjarðarhrepps lýsir yfir andstöðu við lagasetningar sem takmarka sjálfstjórnarrétt sveitarfélaganna og atkvæðarétt íbúa vegna sameiningar sveitarfélaga. Verði slík lög sett er komið sterkt fordæmi fyrir frekari afskiptum ríkisvaldsins af stöðu sveitarfélaganna og vandséð að það standist gagnvart ákvæðum stjórnarskrárinnar ef á reynir.”
Hjálögð er umsögn sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagastrandar í tengslum við þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðarátælun fyrir árin 2019-2023.
F.h. sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagastrandar
Alexandra Jóhannesdóttir
Sveitarstjóri
ViðhengiBæjarráð Akureyrar lýsir yfir stuðningi við þingsályktunina og telur aðgerðirnar vel til þess fallnar að efla sveitarstjórnarstigið.
ViðhengiÞann 13. ágúst síðastliðinn var birt í samráðsgátt stjórnvalda tillaga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023.
Ísafjarðarbær sendir eftirfarandi umsögn við tillöguna sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar 5. september 2019.
Framtíðarsýn og meginmarkmið fyrir árin 2019-2033
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir og er sammála þeirri framtíðarsýn, sem sett er fram í þingsályktunartillögunni, að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Að áhersla verði lögð á að nýta tækni sem best til að tengja saman byggðir landsins, en jafnframt tengja Ísland við umheiminn. Allt í sátt og góðu jafnvægi við umhverfið.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar því að sjá ríka stoð og skírskotun í stefnumörkun lögbundinnar byggðaáætlunar og sóknaráætlunum. Þá sérstaklega hvað varðar það meginmarkmið að efla sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um allt land. Fjölmargar aðgerðir núgildandi byggðaáætlunar kallast einmitt á við þessa sýn.
Aðgerðaáætlun 2019-2023
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur brýnt að árétta að leiðarstef slíkrar aðgerðaáætlunar á vettvangi sveitarstjórnarstigsins verði alltaf að vera bætt þjónusta. Tryggja verður í hvívetna að sveitarfélög hafi burði til að veita íbúum framúrskarandi þjónustu og hafi getu til að annast lögbundin verkefni.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir þau sjónarmið sem koma meðal annars fram í minnisblaði Byggðastofnunar að veglegur fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sé nauðsynlegur til að styðja við markmið um sameiningar sveitarfélaga. Tryggja þarf að sjóðurinn fái til þess sérstaka fjármögnun frá ríkissjóði svo ekki þurfi að skerða hefðbundin framlög sjóðsins til sveitarfélaga til að fjármagna sameiningarstuðning. Ef ekki kemur til sérstaks fjárstuðnings ríkissjóðs má ætla að sveitarfélög sem uppfylla stærðarmörk nú þegar, og ekki munu sameinast öðrum, verði fyrir skerðingu á framlögum vegna fjárstuðnings við þau sveitarfélög sem munu sameinast.
Í aðgerðaáætluninni kemur skýrt fram að stefnt verði að því að jafna tækifæri til atvinnu og aðgengis að þjónustu. Þessar áherslur eiga sér einnig stoð í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024, meðal annars í áformum um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fjölgun starfa án staðsetningar, þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.
Í meginatriðum samræmast því tillögurnar þeirri sýn bæjarstjórnar ísafjarðarbæjar að framtíð samfélagsins byggi á aukinni sjálfbærni á sviði stjórnsýslu, samfélags og í atvinnulífi sveitarfélaga. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er tilbúin til aukins samstarfs, samvinnu og jafnvel sameiningar á forsendum íbúanna.“
11. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið: Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Samráðsgátt.
Oddviti kynnti tillögu að þingsályktun frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sem liggur fyrir í samráðsgátt stjórnvalda um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
Meginmarkmið tillögunnar eru á margt góð og telur sveitarstjórn Hrunamannahrepps sveitarfélagið vera að vinna ötullega að þeim bæði eitt og sér og í samvinnu við önnur sveitarfélög. Varðandi þau áform að lögfesta lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum við 1000 eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni telur sveitarstjórn Hrunamannahrepps að tillagan gangi of skammt. Geta sveitarfélaga til að sinna stórum verkefnum eitt og sér skarast ekki í 1000 íbúatölunni.
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs fagnar því að fyrir liggi stefna í málefnum sveitarfélaga sem hefur vantað til þessa.
Þó er bent á að varlega ber að stíga til jarðar varðandi flutning á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga og slíkt verði ekki gert nema fjármagn til verkefnanna verði fyrir fram að fullu tryggt.
Jafnframt telur bæjarráð Fljótsdalshéraðs mikilvægt að markvisst verði unnið að því að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og þeim fjölgað. Má þar benda á hlutdeild í fjármagnstekjuskatti og að fækka þarf undanþágum frá greiðslu fasteignagjalda til dæmis hvað varðar virkjanamannvirki.
Meðfylgjandi er umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga.
ViðhengiHjálagt sendist ályktun aukalandsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldið var 6. september sl., um drög að þingsályktunartillögu um stefnu í málefnum sveitarfélaga.
F.h. sambandsins
Guðjón Bragason
ViðhengiMeðf. er umsögn sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps.
ViðhengiEftirfarandi er umsögn bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 5. september 2019 um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
------------------------------
Þingsályktunartillagan byggir á þeirri vinnu sem kynnt var í grænbók er lögð var fram
í sumar. Bæjarráð ályktaði þá um málið og var þeim sjónvarmiðum komið á framfæri í
samráðsgátt.
Bæjarráð ítrekar fyrri bókun um málið og telur að mikilvægt sé að sveitarfélög á Íslandi geti séð um lögbundna þjónustu við íbúa án þess að vera um of háð samstarfsverkefnum. Mikilvægi þess að sveitarfélögin geti tekið á við fjölbreytt verkefni dagsins í dag verður ekki ofmetið og að þau séu einnig í stakk búin til að taka á móti
nýjum verkefnum. Skipan sveitarstjórnarstigsins verður að vera með þeim hætti að sveitarfélög séu öflugar stjórnsýslueiningar þannig að íbúum landsins séu tryggð sem jöfnust réttindi og aðgangur að þjónustu í sinni heimabyggð.
Bæjarráð vill jafnframt ítreka það sjónarmið að full ástæða er til að skoða breytingu sveitarfélagamarka samhliða sameiningu sveitarfélaga þannig að hvert sveitarfélag nái yfir það svæði sem íbúar sækja þjónustu til.
Tillögur Jöfnunarsjóðs um heimanmund til sameinaðra sveitarfélaga eru jákvæðar og ættu þær að hvetja sveitarfélög til að kanna kosti sameiningar óháð því hvort þau falla undir umrædd stærðarmörk eða ekki. Mikilvægt er að til komi nýir fjármunir frá ríki til Jöfnunarsjóðs eigi þeir að liðka fyrir sameiningum og því að umrædd tillaga verði samþykkt á Alþingi.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar lýsir yfir efasemdum um að rétt sé að miða við ákveðna íbúatölu þegar rætt er um sameiningar sveitarfélaga. Margir aðrir þættir geta haft áhrif á sameiningu svo sem landfræðileg staðsetning og líkindi sveitarfélaga. Ekki má líta framhjá því að sveitarfélög eru ólík að gerð og það sem hentar einu sveitarfélagi þarf alls ekki að henta því næsta. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggst því gegn fyrirhuguðum ákvæðum um 1000 íbúa lágmarksfjölda sveitarfélaga og telur að lægra íbúalágmark væri æskilegra.
Nauðsynlegt er að sveitarfélög fái að halda sínum séreinkennum. Að mati sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar er ekki ákjósanlegt að vera með fá og einsleit sveitarfélög yfir allt landið, mikilvægt er að íbúar landsins hafi val um fjölbreytta búsetu sem hentar þeim.
Fyrir hönd sveitarstjórnar,
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri
Eyjafjarðarsveit
Þann 27. ágúst samþykkti sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar eftirfarandi bókun vegna þingsályktunartillögu sveitarstjórnarráðherra um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga.
„Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar mótmælir þeim áformum sem koma fram í drögum að þingsályktunartillögu sveitarstjórnarráðherra að beita lögþvingunum til sameiningar sveitarfélaga á Íslandi. Sveitarstjórn hvetur ráðamenn til að virða sjálfsákvörðunarrétt íbúa í málefnum síns sveitarfélags en tillagan um lágmarksfjölda íbúa er sem slík í algjörri andstæðu við þau lýðræðislegu áherslur sem koma fram að öðru leyti í tillögunni.“
f.h. sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
Björgvin Helgason oddviti.
Hreppsnefnd Skorradalshrepps hefur verið með til skoðunar, þingsályktunnartillögu um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
Hreppsnefnd er sátt við að efla sveitastjórnastigið en hreppsnefnd mælist til þess áður en lengra verður haldið með þessa tillögu að þingsályktun, að alþingi breyti fyrst stjórnaskránni og fái þar samþykkt að setja kröfu um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Hreppsnefnd setur spurningarmerki við það hvort það sé ekki lögbrot, að nota Jöfnunarsjóð til að greiða fyrir sameiningu, með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í tillögunum einnig er hér verið að fara illa með almannafé.
Hreppsnefnd Skorradalshrepps er hlynt sameiningu sveitarfélaga, ef það er byggt á hagkvæmni og vilja íbúanna.
Rökin fyrir sameiningu sveitarfélaga, eiga að byggjast á tekjumöguleikum, samsetningu atvinnulífs, landfræðilegum aðstæðum, góðu samstarfi við önnur sveitarfélög og samningum við bæði einstaklinga og fyrirtæki um rekstur margslags þjónustu. Stór og smá sveitarfélög á íslenskan mælikvarða, hafa með sér samvinnu á ýmsum sviðum og hefur það verið byggt á hagkvæmni og þar að leiðandi allra hagur.
Stóru sveitarfélögin hafa ekki síður en þau fámennari, nýtt sér samninga við verktaka og einstaklinga, til margslags verkefna, s.s. sorphirðu, slökkvilið, snjómokstur o.fl. enda gera sveitarfélögin þetta af hagkvæmis ástæðum og kemur höfðatölu íbúana ekkert við. Hversvegna sameining, ef það gengur þvert á óskir íbúana?
Margar sameiningar hafa ekki gefist vel og hafa jaðarbyggðir í mörgum tilfellum orðið fyrir skerðingum og því búið við verri þjónustu, en þau höfðu fyrir sameiningu.
Hreppsnefnd Skorradalshrepps gerir athugasemdir við skipan starfshóps sem vann að Grænbók um sveitastjórnastigið, hann hefði átt að skipa á breiðari grunni og af fleiri aðilum svo þverskurður sveitafélaga á landinu fengu að segja sína skoðun, jafnt stór sem smá.
Einnig gerir hreppsnefnd athugasemd við að færa gistináttagjald yfir til sveitafélaga.
Hreppsnefnd Skorradalshrepps, er alfarið á móti því að sveitarfélög séu þvinguð til sameiningar, á forsendum lágmarks höfðatölu.
Íbúar sveitarfélaga eiga alfarið, að meta það sjálfir, hvort sameining við önnur sveitarfélög sé betri kostur en það, að eiga gott samstarf og starfa sjálfstætt.
Ef þessar reglur verða þvingaðar í gegn, á móti vilja heimamanna, eru tímamörkin sem sett eru, algjörlega óviðunandi.
ViðhengiMeðfylgjandi í viðhengi er umsögn mín um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
ViðhengiUmsögn og minnisblað frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritar
Viðhengi