Samráð fyrirhugað 29.08.2019—13.09.2019
Til umsagnar 29.08.2019—13.09.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 13.09.2019
Niðurstöður birtar 08.01.2021

Drög að Reglugerð um (7) breytingu á reglugerð um hollustuhætti

Mál nr. 211/2019 Birt: 28.08.2019 Síðast uppfært: 08.01.2021
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Reglugerð nr. 1265/2019 um (7) breytingu á reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti var undirrituð 19. desember 2019

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.08.2019–13.09.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 08.01.2021.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að breytingu á reglugerð um hollustuhætti um að heimila að gæludýr verði leyfð í almenningsvögnum í þéttbýli að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Breytingar á reglugerðinni kveða á um að heilbrigðisnefnd getur heimilað að gæludýr séu leyfð í almenningsvögnum í þéttbýli að uppfylltum tilteknum skilyrðum, m.a. á hvaða tíma dags heimilt sé að ferðast með gæludýr í vögnunum, hvar gæludýr mega vera í vögnunum og hvernig umbúnaður dýra skuli háttað. Gert er ráð fyrir að heimildin verði bundin við hunda og ketti sem skráðir eru í samræmi við samþykktir um hunda- og kattahald í hlutaðeigandi sveitarfélögum og nagdýr, fugla, kanínur, froska, skautfiska, skriðdýr og skordýr, enda sé heimilt að halda umrædd dýr á Íslandi. Séu gæludýr heimiluð skal hengja upp upplýsingar þess efnis á áberandi stað á vagninum sjálfum, innan sem utan, og auglýsa rækilega þær reglur og skilyrði sem farþegar og gæludýr þurfa að uppfylla. Frá 1. mars 2018 hafa Strætisvagnar Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. á svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar, Garðabæjar, Kópavogsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarneskaupstaðar og Mosfellsbæjar, í samræmi við 1. mgr. 41. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 74. gr. reglugerðar nr. 941/2002, um hollustuhætti, haft undanþágu frá 3. málsl. 2. mgr. 55. gr. reglugerðar nr. 941/2002, um hollustuhætti um að dýr megi ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja. Ráðuneytið veitti Strætó bs. að uppfylltum tilteknum skilyrðum og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, heilbrigðisnefnda á höfuðborgarsvæðinu og fleiri aðila. Undanþágan var veitt vegna verkefnis sem Strætó bs. hefur verið með í framkvæmd að undanförnum og tekur mið af sjónarmiði um eflingu almenningssamgangna, að almenningssamgöngur verði raunverulegur valkostur sem fararmáti innan höfuðborgarsvæðisins og styður við grænan lífstíl. Verkefnið hefur samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið gengið vel.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir - 29.08.2019

Tilraunaverkefni þetta hefur verið mjög jákvætt og þarfur hluti að því að notendur almenningssamgangna séu fjölbreyttur hópur einstaklinga.

Vegna reglugerðar þessara tel ég nauðsynlegt að notendur leiðsöguhunda svo og leiðsöguhundarnir séu teknir með inn í þessa umgjörð og sé ekki um sömu atriði að ræða eins og t.d með almenn gæludýr.

Takmörkun á því hvenær gæludýr geti ferðast í strætó er takmarkandi fyrir notendur leiðsöguhunda. Sem dæmi þá er ég notandi leiðsöguhunds og er í vinnu á dagvinnutíma. Ég gæti aldrei ferðast með strætó til að komast í og úr vinnu ef þessar ferðatakmarkanir na yfir leiðsöguhunda.

Varðandi staðsetningu í vagni að þá eru leiðsöguhundar þjálfaðir til þess að finna laust sæti fyrir notandann sinn. Hundurinn myndi því finna laust sæti hvort sem það væri innan eða utan þessa svæðis sem leyft væri fyrir almenn gæludýr.

Einnig ber að hafa í huga að notandi leiðsöguhunda geta einnig verið fjölskyldufólk og ferðast með leiðsöguhundinn sinn og börn. Aðstæður þurfa því að vera til staðar að notandi leiðsöguhunds geti ferðast með almenningssamgöngum þegar á þarf að halda og að öryggi notanda, leiðsöguhunds og börn notanda.

Lögblint fólk greiðir ekki gjald í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu en er með kort á sér frá Blindrafélaginu. Huga þarf að því að aðgengi fyrir lögblint fólk með leiðsöguhunda sé til staðar til að koma í vagninn og einfalda ferli þeirra til að sanna að þau séu með skírteinið sem jafngildi farmiða í vagni. Upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar fyrir notendur leiðsöguhunda um aðstæður í vagni og hvernig þau geta hagað ferðum sínum þegar leiðsöguhundur sé með í för í samræmi við lög og reglugerðir í málefnum fatlaðs fólks