Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.09.2019–01.11.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 24.06.2020.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að nýrri reglugerð um raforkuviðskipti. Er þar um uppfærslu á eldri reglugerð að ræða þar sem nánar er kveðið á um rétt neytenda og skyldur sölu- og veitufyrirtækja gagnvart neytendum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að nýrri reglugerð um raforkuviðskipti. Er þar um uppfærslu á eldri reglugerð að ræða þar sem nánar er kveðið á um rétt neytenda og skyldur sölu- og veitufyrirtækja gagnvart neytendum. Margvíslega réttarbót er að finna í drögunum sem snýr m.a. að því að tryggja rétt neytenda á hverjum tíma til að velja sér raforkusala, auðvelda notendaskipti með rafrænum hætti, stytta fresti þegar kemur að rétti notanda til að segja upp sölusamningi og auðvelda viðskipti við hleðslustöðvar raforku. Að sama skapi eru með reglugerðardrögunum lagðar auknar skyldur á sölufyrirtæki og dreifiveitur með það að markmiði að upplýsa neytendur um rétt sinn, leiðbeina þeim með aðgengilegum og sýnilegum hætti, og gæta jafnræðis í hvívetna þannig að ekki sé t.d. vakin athygli notenda á einu sölufyrirtæki umfram annað. Þær breytingar sem reglugerðin kveður á um eru í samræmi við auknar áherslur á neytendavernd sem er að finna í þriðju raforkutilskipun ESB. Ákvæði um hleðslustöðvar eru til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/94/ESB frá 22. október 2014 um uppbyggingu grunnvirkja fyrir óhefðbundið eldsneyti. Áfram eru til skoðunar ákvæði reglugerðarinnar sem lúta að fyrirkomulagi við útgáfu reikninga fyrir sölu og dreifingu raforku, með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.
Markmið reglugerðarinnar er að efla neytendavernd á sviði raforkumála, stuðla að einföldun regluverks og rafrænni stjórnsýslu, og að sama skapi að liðka fyrir aðkomu nýrra aðila á smásölumarkað raforku en það er mikilvægur liður í því að efla samkeppni á raforkumarkaði með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Í nýlegri skýrslu frá verkfræðistofunni EFLU, um raforkuverð og þróun samkeppni á raforkumarkaði, er bent á að mikilvægt sé að hvetja minni notendur raforku til að vera virkir á raforkumarkaði þar sem það auki samkeppni og veiti sölufyrirtækjum verðaðhald. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=ba23a3cd-5ba9-11e9-9439-005056bc530c
Umsögn Orku heimilanna um drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar
ViðhengiAtvinnu- og nýsköpunarráðuneytið
Skúlagötu 4
101 Reykjavík
Ábendingar og athugasemdir HS Veitna við drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar sem kynnt var í samráðsgátt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 19. september 2019.
Í upphafi er rétt að fram komi að í þessum framlögðu drögum, tímabundið a.m.k., er verið fallið frá því að banna veitufyrirtækjum að innheimta tekjur sínar og skylda alls óviðkomandi fyrirtæki til þess að innheimta þær, hvort sem þau hafa á því áhuga eða ekki. Þessu ber að fagna.
Almennar athugasemdir
Í upphafi er minnt á minnisblað sem sent var ráðuneytinu þann 12. september s.l. Síðan er ítrekuð ánægja með að tímabundið a.m.k.skuli vera fallið frá því að banna veitufyrirtækjum að innheimta tekjur sínar og skylda alls óviðkomandi fyrirtæki til þess að innheimta þær, hvort sem þau hafa á því áhuga eða ekki.
Við vonum að í framhaldinu verði tíminn nýttur vel til að skoða allar hliðar þessa máls, meta umfang, kostnað o.s.fr. og hver hugsanlegur ávinningur geti verið og taka svo upplýsta ákvörðun. HS Veitur telja að um sé að ræða verulegar breytingar frá því fyrirkomulagi sem verið hefur og munu breytingarnar hafa veruleg áhrif á starfsemi dreifi- og söluveitna sem eru að okkar mati kostnaðarsamar og tímafrekar. Við teljum þær breytingar sem lagt var upp með en hefur verið frestað að flestu leiti óþarfar og a.m.k. að sumu leiti ganga gegn markmiðum um virka samkeppni. Þær geta einnig reynst, ef af verður, íþyngjandi bæði fyrir sölu- og dreifiveitur og ljóst að allur (óþarfa) kostnaðarauki endar að lokum hjá viðskiptavinum fyrirtækjanna.
---------------------------------------
Það er að sjálfsögðu hlutverk löggjafans að ákveða hvernig þessum málum er komið fyrir og svo framkvæmdavaldsins að koma vilja löggjafans til framkvæmda. Það væri hinsvegar ábyrgðarhluti ef þeir sem starfað hafa við þessi mál um árabil kæmu ekki á framfæri upplýsingum um hvernig starfsemin fer fram og ábendingum um það sem þeir telja betur megi fara, úr því vinnur svo framkvæmdavaldið og setur reglur innan ramma laganna sem eru þá byggðar á bestu fáanlegu upplýsingum. Það verður að segjast að sú reglugerð sem gilti um val söluaðila o.fl. var meingölluð og komst því aldrei í raun til framkvæmda. Það að taka á móti nýjum viðskiptavinum með hótunarbréfum um 50% álag ef ekki væri valin söluaðili strax (innan mánaðar) ruglaði marga viðskiptavini mjög og mikið yfir því kvartað. Síðan er reyndar stór spurning um lagastoð fyrir 50% álaginu sem fróðlegt væri að fá svar við. HS Veitur fylgdu samt þessum reglum í upphafi en gáfust upp og strax 2011 kom fram á fundum með OS að þetta væri ekki gert enda talið illframkvæmanlegt og aftur kom þetta upp 2014. Umræðan þá var nánast hin sama nema HS Veitur og OS skiptust þá á hugmyndum um breyttan texta í útsendu bréfi en sú umræða sofnaði og kom ekki upp aftur fyrr en nú á síðustu misserum.
Nú á því sem kalla má tímamót í þessu máli viljum við viðra skoðun okkar á því hvert vandamálið er og hvert markmið breytinga eigi að vera en að sjálfsögðu hefur löggjafinn og síðan framkvæmdavaldið lokaorðið. Það er augljóslega aðal vandamálið, miðað við tilgang laganna, að allir raforkunotendur eru ekki og hafa ekki verið meðvitaðir um rétt (skyldu) sína til velja söluaðila raforku og hafa ekki verið upplýstir um það með nægilega skilvirkum hætti. Ástæðan er að okkar mati bæði meingallað regluverk, samanber að ofan, og svo hefðu veiturnar vissulega getað staðið mun betur að málum, sérstaklega þar sem þeir sem höfðu valið annan söluaðila, en þann sem var sjálfgefin, voru fluttir aftur á sjálfgefin söluaðila ef þeir færðu sig til innan veitusvæðisins. Sú aðferðafræði var mikil mistök. Markmiðið er þá að allir verði að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun um söluaðila og hafi til þess allar nauðsynlegar upplýsingar.
---------------------------------------
Nú síðustu vikurnar hefur Samorka að mestu annast samskipti við ráðuneytið vegna þessa máls. Hagsmunir allra aðildarfélaga Samorku fara væntanlega ekki saman í þessu máli og hagsmunaárekstrar því mögulegir og því viljum við að sjónarmið okkar sèu skýr og ráðuneytinu ljós. HS Veitur hafa einnig umtalsverða sérstöðu þar sem fyrirtækið hefur eitt veitufyrirtækja engin eignatengsl við neitt sölufyrirtæki og því skiptir í raun nákvæmlega engu fyrir HS Veitur og eigendur fyrirtækisins hvar einstaklingar og fyrirtæki kaupa sína raforku, sameiginlegir hagsmunir með einstökum söluaðilum eru engir.
Nokkrir punktar:
• HS Veitur hafa fjárfest í tölvukerfum, búnaði og hugviti starfsmanna til að annast nauðsynlega reikningagerð fyrir þjónustu fyrirtækisins hvort sem er rafmagn, heitt vatn, kalt vatn eða aðra þjónustu. Með breytingu missti fyrirtækið tekjur vegna þjónustu við rekiningagerð og innheimtu fyrir sölufyrirtæki en verður að halda úti sama kerfi og mannafla til að innheimta fyrir heitt og kalt vatn. Í versta falli gæti svo komið til þess að HS Veitur þyrftu að greiða fyrir þessa óþörfu þjónustu þannig að bæði yrði um tekjutap og kostnaðarauka að ræða.
• Með því að söluaðilar annist reikningagerð og innheimtu færist þjónustan fjær viðskiptavinum, sölufyrirtæki eru um allt land (og hugsanlega erlendis) en veitufyrirtækin tengjast viðskiptavinunum með beinum hætti.
• Stór hluti reksturs orkureikningakerfis er utanumhald um veitur, mæla, reikniformúlur mælinga, villuleit við skráningu mælinga og utanumhald um mælingar og notkun veitna. Spurningin er þá hvort þau verkefni eigi að fara annað og ábyrgðin þá að færast til en hún er í dag hjá veitufyrirtækjunum.
• HS Veitur gefa í dag út einn reikning fyrir húsnæði viðskiptavinar sem inniheldur raforkudreifingu, hitaveitu og í sumum tilfellum vatnsveitu og munu því áfram þurfa að senda út reikning á viðkomandi viðskiptavini vegna hitaveitu og vatnsveitu þannig að reikningum viðskiptavinar fækkar ekki á þeim svæðum sem HS Veitur reka einnig hitaveitu og vatnsveitu (Suðurnes og Vestmannaeyjar). HS Veitur gáfu í ágústmánuði 2019 út um 40.000 reikninga þar af eru 1.000 reikningar sem báru innheimtugjald (seðilgjald) eða 2,5% sem helgast af því að þeir viðskiptavinir hafa sérstaklega óskað eftir því að fá reikninga á pappír en ekkert gjald er tekið hjá HS Veitum fyrir rafræna reikninga eða birtingu í banka. Miðað við nútíma greiðsluform eru það því fæstir heimilisnotendur sem sjá í raun reikninga orkufyrirtækjanna nema sem línu í heimabanka eða línu á kreditkorti nema þeir skoði þá sérstaklega í „rafrænum skjölum“. Þessi breyting verður „PR-lega“ slæm fyrir sölufyrirtækin því reikningar þeirra tvöfaldast a.m.k. og við þekkjum af eigin reynslu þegar við fórum að innheimta vatnsgjöld sjálfir í stað þess að þau væru hluti fasteignagjalda að allar skýringar eru dregnar í efa.
• HS Veitur hafa kappkostað að vakta notkun viðskiptavina með það að leiðarljósi að viðskiptavinir séu færðir á milli taxta, almennir taxtar, afltaxtar og þrígjald þar sem það á við eftir breyttri notkun viðskiptavinar og þá það sem er honum hagstæðast. Þessu eftirliti verður einungis komið við haldi HS Veitur áfram að reikna út kostnað við dreifingu viðkomandi veitu
• Helstu snertifletir viðskiptavina HS Veitna við fyrirtækið hafa verið:
o Notendaskipti, í þessum tilfellum er það ýmist sá sem er að flytja út úr húseign, sá sem flytur inn í húseign eða húsaleigusali sem tilkynnir notendaskiptin, sá sem flytur inn í húseign eða húsaleigusali hefur enga hugmynd um við hvaða sölufyrirtæki núverandi viðskiptavinur er í viðskiptum við en vita með nokkurri vissu hvaða dreifiveitu húsnæðið er tengt. Í flestum tilfellum er það hvati þess sem flytur út að tilkynna notendaskiptin til að losna undan greiðslum af viðkomandi húseign, með breyttum tillögum myndi viðkomandi hafa samband við sinn söluaðila en þá er alls kostar óljóst við hvaða söluaðila hinn nýi viðskipavinur ætlar að eiga viðskipti við.
o Óánægja með mælingar, HS Veitur bera ábyrgð á sínum mælitækjum og því einir til svara ekki hægt að fela þá ábyrgð á söluaðila.
o Óskir um heimlagnir, HS Veitur taka við umsóknum, meta hvort framkvæmdin sé gerleg og á hvaða tíma hægt er að vinna hana og hvað skuli innheimta miðað við óskir viðskiptavinar.
o Upplýsingaöflun og kvartanir vegna skertrar þjónustu, hérna er það ábyrgð HS Veitna að tryggja afhendingaröryggi til viðskiptavina og ef um skerta afhendingu er að ræða vegna bilanna eða reglubundins viðhalds þurfa HS Veitur að svara fyrir sakirnar og hvenær úrlausnar er að vænta.
o Óskir um breytingar á þjónustu, undir þetta falla meðal annars breytingar á tengingu veitu úr eins fasa rafmagni í þriggja fasa rafmagn, stækkun á heimtaug vegna aukinnar notkunar o.s.fr.
---------------------------------------
Tillaga okkar er því að öllu skoðuðu að í stað þessara róttæku, kostnaðarsömu og tímafreku breytinga verði lagt upp með að ná markmiðunum með einfaldari og hagstæðari hætti. Það þarf að (gull)tryggja að allir raforkunotendur séu meðvitaðir um rétt (skyldu) sína til velja söluaðila raforku og verði upplýstir um það með nægilega skilvirkum hætti. Einnig að þeir eigi auðvelt með að bera saman kostnað einstakra söluaðila.
Bent hefur verið á hægt væri að nýta Netorku til að tryggja upplýsingagjöf til notenda og tryggja að raunverulegt val fari fram á söluaðila og telja HS Veitur að ekkert hafi komið fram sem sýni að slíkt sé ekki unnt að gera með einföldum hætti. Síðan verði reikningar sölufyrirtækja sendir í nafni viðkomandi sölufyrirtækis og þá „hreinir“ (án kostnaðar sem kemur sölufyrirtækjunum ekki við) þannig að samanburður sé einfaldur og þægilegur fyrir viðskiptavinina.
Nú er starfshópur Samorku að vinna að þessu máli, fyrst að yfirfara þau reglugerðardrög sem lögð hafa verið fram og vonandi bæta þau og gera skilvirkari. Í framhaldinu mun hópurinn síðan skoða ítarlega kosti og galla þess að reikningagerð og innheimta færist til sölufyrirtækjanna þannig að allar hliðar þess máls séu uppi á borðinu áður en endanleg ákvörðun verður tekin.
---------------------------------------
Það er svo sölufyrirtækjanna að svara því hvort þau telja það jákvætt fyrir sig að taka við reikningagerðinni og innheimtunni. Umfang þeirra, ætli þeir að annast þetta sjálfir, eykst verulega. Öflugt hugbúnaðarkerfi er grundvallaratriði, mun öflugara en þarf ef eingöngu er um orkusöluna að ræða, og hafi þeir ekki aðgang að slíku nú þegar er það bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. Síðan þarf mannafla með reynslu og þekkingu til að reka kerfin, annast uppgjör við dreifiveitur vegna dreifi- og flutningsgjalda, ríkissjóð vegna niðurgreiðslna o.s.fr. og loks innheimtu hafi þeir ekki sinnt því til þessa.
---------------------------------------
Að lokum hugleiðingar um lagalegu hliðina. Þarf ekki að gæta að lögmæti þess að banna fyrirtækjum að innheimta tekjur sínar og að fyrirskipa um leið öðrum fyrirtækjum að gera reikninga, innheimta og standa skil á tekjum algjörlega óskyldra fyrirtækja. Veitufyrirtækin bera ábyrgð á bókhaldi sínu og tekjuskráninngu, rekjanleika bókaðra tekna, skilum á vsk, o.s.fr. og það getur verið þrautin þyngri þegar reikningagerð og innheimta fer að dreifast á hugsanlega tugi aðila um allt land og jafnvel víðar.
Þá koma athugasemdir og ábendingar við einstakar greinar:
• 2. gr. skilgreiningar
• Skoða hvort rétt er að skilgreina hugtök eins og „tengja“, „þjónustufyrirtæki mælinga“, „langvarandi“ og kannski fleiri.
• 4. gr., 4. og 5. liður: Eins og fram kemur er það skoðun okkar að best og eðlilegast sé fyrir alla aðila að fyrirtækið fái að innheimta sínar tekjur sjálft. Sé sölufyrirtækið með alla liði á sínum reikningi, raforkuna sjálfa, flutningin, dreifinguna, verðjöfnunargjald, virðisaukaskatt, niðurgreiðslur þar sem við á svo ekki sé talað um tengigjöld þegar það á við þá hækkar upphæð reikninga sölufyrirtækja verulega. Mismunur á raforkuverðinu sjálfu verður þá lítt sýnilegur og hverfandi hluti af heildinni sem varla telst samkeppnishvetjandi. Væri ekki annað á reikningi sölufyrirtækis en raforkan sjálf verður allur mismunur greinilegri þó sá munur verði líklega seint mikill á þessum örmarkaði með stóran markaðsráðandi aðila sem ákveður raunhækkun raforkuverðs mörg ár fram í tímann. Það er dálítið harkalegt og þarf brýnar ástæður til að banna fyrirtækjum að innheimta eigin tekjur og sömuleiðis að skylda á sama tíma önnur fyrirtæki til að innheimta tekjur fyrir óskyld fyrirtæki með tilheyrandi umsjón, ábyrgðum og kostnaði. Það er margt eftir að skýra og skilgreina varðandi ábyrgðir o.fl. áður en þetta getur komið til framkvæmda.
Fjórði liður greinarinnar hlýtur að eiga að fara út þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir að sölufyrirtækin annist innheimtuna.
• 5. gr., 2. liður: Þessi liður er óþarfur samanber 13. lið.
• 5. gr., 6. liður: Skilgreina verður með einhverjum hætti hvað „langvarandi“ þýðir (sama gildir um 6. gr. 8. lið). Þetta ákvæði er í núgildandi reglugerð og hefur í raun verið marklaust.
• 5. gr., 14. liður: Þessi liður þarfnast frekari skýringa, þarna eiga dreifiveitur m.a. að annast flutning notenda milli sölufyrirtækja sem er varla í samræmi við ýmis önnur ákvæði reglugerðarinnar.
• 6. gr., 1. liður: Það eru ekki öll tengigjöld samkvæmt gjaldskrá, stundum ræðast það af raunkostnaði t.d. vegna fjarlægðar o.s.fr.
• 6. gr., 3. liður: Þessi liður er óþarfur samanber 10. lið.
• 6. gr., 4. liður: Spurning hvort opna má að veitufyrirtækin megi virkja sjálf fyrir töpunum.
• 7. gr., fyrsta málsgrein: „Notandi á rétt á“. Ber honum ekki frekar skylda til ?
• 7. gr., önnur málsgrein: Nokkrar hugleiðingar. Almennur notandi óskar eftir viðskiptum við raforkusala sem síðan sendir dreifiveitu beiðni um að opna fyrir dreifingu. Það er okkar mat að í 70%+ tilfella sé ekki um endanlegan viðskiptavin að ræða á þessu stigi. Þegar t.d. byggt er fjölbýli með tugum íbúða þá er það byggingaraðilinn sem sækir um fyrir allar íbúðinar, velur söluaðila fyrir þær allar og greiðir fyrir notkunina í upphafi. Síðan kemur að afhendingu íbúðanna og þá eru gerð notendaskipti og þá þurfa nýjir notendur að ákveða sinn orkusala. Með öðrum orðum þá næst tiltölulega lítill árangur af þessu aukna flækjustigi í upphafi, í dag er t.d. á Suðurnesjum sótt um tengingu á rafmagn, heitu og köldu vatni á einum stað en eftir þessa breytingu þurfa byggingaraðilar að fara á tvo staði.
• 7. gr., önnur málsgrein: „hvar gjaldskrár sölufyrirtækja er að finna“. Hvaða opinber aðili ætlar að ábyrgjast að slíkan samanburð sé að finna með óyggjandi hætti eða á hver veita að gera þetta fyrir sig og ábyrgjast að allar tölur séu alltaf réttar. Þar sem gert er ráð fyrir aðnotendur hafi samband við söluaðila en ekki dreifiveitur þá er spurning á hvaða stigi dreifiveitur eiga að stunda þessa upplýsingagjöf.
• 7. gr., önnur málsgrein: „..: „..um afleiðingarnar þess að raforkusali er ekki valin“. Hvar er þessar „afleiðingar“ að finna svo unnt sé að upplýsa um þær. Raunverulegt dæmi: Notandi selur íbúð og kaupir nýja og heldur sama söluaðila. Kaupandi íbúðarinnar var hvergi í viðskiptum og liggur ekkert á að velja sér söluaðila. Á dreifiveitan, sem jafnvel veit ekkert um þessa flutninga, að loka fyrir afhendingu eða hver á að greiða tímabilið frá því fyrri fór úr íbúðinni uns sá nýji tilkynnir söluaðila. Hlutverk dreifiveitufyrirtækis, skyldur og réttindi, þurfa að vera alveg skýr komi til þess að viðskiptavinur velji ekki sölufyrtæki eða dragi það úr hömlu, það eru hagsmunir seljanda að þetta gerist hratt og örugglega en ekki endilega kaupanda.
• 7. gr., fimmta málsgrein: „..sem er með raforkusölusamning“. Það er fjöldi viðskiptavina sem er með fleiri en einn raforkusölusamning (t.d. lögheimili og sumarbústaður) en væntanlega ekki algengt að slíkir samningar séu fleiri en einn á sama veitusvæði en það er samt ekki lagalega eða tæknilega útilokað. Hvað þá ?
• 7. gr., fimmta málsgrein: Í 2. gr. skilgreiningar segir m.a.: „Neysluveita er raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa í húsum.“ Miðað við það er vart hægt að tala um að almennur notandi „flytji neysluveitu sína“, það hlýtur að þurfa að nota annað málfar í þessu sambandi, „neysluveitan“ verður ekkert hreifð.
• 7. gr., sjötta málsgrein: Ábending. Áætlanir um notkun breytast (nánast) alltaf sjálfvirkt með nýjum álestrum (auknum gögnum) og illmögulegt að senda tilkynningar fyrir allar þær breytingar.
• 7. gr., tíunda málsgrein: Að mestu endurtekning á því sem fram kemur i þriðju málsgrein.
• 7. gr., síðasta málsgrein: Reynslan segir að það sé 100% öruggt að það verða ekki allir búnir 1ð gera staðlaðan samning við sölufyrirtæki 1. janúar 2021 (5 – 10%). Hvað gera veiturnar þá, loka fyrir rafmagn eða hvað.
• 10. gr., fyrsta og þriðja málsgrein: Hvernig fer saman leyfi til uppsagnar með 3ja vikna fyrirvara og samningur til 5 ára – skýringa óskað.
• 11. gr. Lokamálsgrein .
Er það ekki undarlegt að 6 – 8 dreifiveitur og 6 – 8 sölufyrirtæki setji sameiginlega staðlaðar reglur sem OS samþykki síðan, hver á að bera ábyrrgð á að þetta sé gert. Er ekki eðlilegra að OS láti setja slíkar reglur en að sjálfsögðu í fullu samráði við fyrirtækin.
• 11. gr. Setning sem byrjar „“Sé um að ræða vanskil ...“ virkar málfræðilega undarleg, teljum rétt að orðalag verði endurskoðað og teljum 30 daga fyrirvara allt of langan, þetta eru reyndar 14 dagar í 45. grein.. Í annarri málsgrein er talað um „lokunarinnar“ en ætti að vera „lokun“.
• 12. gr. o.fl. Ef notandi er i vanskilum við eitt eða fleiri sölufyrirtæki ber dreifiveitu samt að tengj hann eða hafa tengdan ef hann kemur með samning við eitt sölufyrirtæki til viðbótar
• 16. gr. Í greininni er talað um „þjónustufyrirtæki mælinga“. Við teljum að þetta þurfi að skilgreina sérstaklega og skoða þá jafnframt vandlega hvort „Netorka“ (eða almenn lýsing á hlutverki Netorku) eigi ekki að fá formlega stöðu og hlutverk í reglugerðinni.
• 30. gr. Hvað eru „nauðsynlegar“ upplýsingar samkvæmt þessari grein.
• 32. gr. Hvað er kWst/st. (einnig í 51. gr.).
• 34. gr. Spurning um að koma Netorku þarna að.
• 41. gr. Orðalag dálítið loðið. „Annað fyrirkomulag á væntanlega við um tímabilið milli 3ja og tólf mánaða en ekki t.d. mánaðarlega, um það þarf varla að semja.
Hvaða úrræði á dreifiveita að hafa ef viðskiptavinur gefur ekki upp álestra og hleypir ekki álesurum inn ef ekki má breyta áætlun vegna þess að rauntölur liggja ekki fyrir.
• 42. gr. Önnur málgrein málfræðilega röng, „að heimilt“ á að vera „er heimilt“.
Ábending. Til að halda greiðslum aðskildum þarf væntanlega að stofna tvær kröfur. Síðan er spurning um kortaviðskipti o.s.fr. sem þarf að útfæra.
Þarna kemur fram eins og víðar (43. grein) að sérgreina eigi á reikningi mörg mismunandi atriði. Segja má að þetta hafi valdið mestri óánægju viðskiptavina og því að reikningar veitufyrirtækja séu almennt taldir óskiljanlegir með öllu.
• 49. og 51. gr. Þarna er líka spurning um Netorku og hlutverk hennar.
• 50. gr. „skal senda uppgjör....innan viku......“. Er ekki eðlilegra að tala þarna um fjölda virkra daga. Það eru ekki mörg ár síðan skírdagur var 1. apríl og fyrsti vinnudagur þá 6. apríl.
• 52. gr. „Dreifiveita skal halda bókhald yfir dreifingu fyrir sérhvert sölufyrirtæki“. Heiti greinarinnar er „Fjárhagslegt uppgjör“ og svo er talað um bókhald en einnig álestur mælis. Er þetta í raun fjárhagslegt uppgjör eða uppgjör á magni (t.d. kWst).
• 55. gr. Ákvæði um gildistöku er að mati HS Veitna óraunhæft ef ekki á illa að fara.
F.h. HS Veitna hf.
________________________
Júlíus Jónsson, forstjóri
ViðhengiUmsögn Ísorku ehf. um drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar
ViðhengiUmsögn Neytendasamtakanna er í viðhengi
ViðhengiSamorka sendir umsögn sína í tölvupóstfangið postur@anr.is þar sem ekki er hægt að setja inn viðhengi í Samráðsgáttina "vegna uppfærslu á kerfi" eins og segir á vef Samráðsgáttarinnar.
Er óskað eftir því að umsögn okkar og fylgiskjöl verði sett inn þegar uppfærslu hjá Samráðsgáttinni er lokið.
Virðingarfyllst,
f.h. Samorku
Baldur Dýrfjörð
Viðhengi ViðhengiUmsögn Netorku hf. um drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar
ViðhengiGóðan daginn,
Ég sendi inn meðfylgjandi umsögn fyrir hönd RARIK ohf.
Kveðja,
Líney Sveinsdóttir
ViðhengiOrkusalan fagnar öllum aðgerðum til að auka virkni á samkeppnismarkaði raforku. Við erum sammála því að það sé orðið tímabært að uppfæra og endurnýja reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar sem er orðin gömul og barn síns tíma. Við teljum jafnframt nauðsynlegt að vandað sé til verka, þetta sé unnið vel og af fagmennsku og að gefinn sé sá tími sem þarf til að ljúka þeirri vinnu.
Þar að auki viljum við benda sérstaklega á nokkur atriði sem snúa að sölufyrirtækjum.
Sjá nánar í viðhengi.
ViðhengiÍ viðhengi má finna umsögn HS Orku um drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar
ViðhengiÍ viðhengi má finna umsögn HS Orku um drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar
ViðhengiGóðan daginn
Með vísan til draga að nýrri reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar, sbr. mál S-213/2019 í samráðsgátt stjórnarráðsins, fylgir hjálagt umsögn Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga (OR) , dags. í dag, ásamt fylgiskjali sem eru reglugerðardrögin ásamt athugasemdum og tillögum OR.
Með kveðju, Íris Lind
Viðhengi ViðhengiSjá meðf. umsögn Landsvirkjunar með nokkrum ábendingum og athugasemdum við ofangreind drög.
ViðhengiÁrétting vegna umsagnar Orku heimilanna um drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar
ViðhengiÞegar senda átti inn umsögnina á samráðsgáttinni kom upp villa, sjá hér að neðan. image.png
Umsögn um drög að reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar
Rafbílasamband Íslands vill koma eftirfarandi á framfæri varðandi drögin og sérstaklega 8. grein draganna:
Einfalda skal notkun á hleðslustöðvum og tryggja um leið aðgengi óháð ríkisfangi. Að mati Rafbílasambandsins þarf reglugerðin að tryggja að allir geti hlaðið í öllum hleðslustöðvum ætluðum almenningi óháð því hvort viðkomandi hafi samning við rekstraraðila viðkomandi hleðslustöðvar, að rekstraraðilum sé skylt að taka við auðkennum hvers annars og leyfa hleðslu óháð því hvar notandi hefur gert samning um greiðslur.
Einnig þarf að gera kleift að staðgreiða án þess að gefa upp persónuupplýsingar til neins rekstraraðila. Þetta á bæði við erlenda ferðamenn sem ekki hafa íslenska kennitölu, og einnig þá sem eru á lánsbíl og hafa ekki skráð á sig lykil.
Til að geta notað hleðslustöðvar þarf að staðsetja þær, í dag eru aðilar á markaði hver með sitt smáforrit, en þar sjást stöðvar samkeppnisaðilans yfirleitt ekki. Til eru óháð smáforrit eins og PlugShare, og skráning í Google Maps. En skráning þar er stopul og óáreiðanleg, sýnir ekki stöðu allra stöðva né leyfir að greiða fyrir hleðslu.
Til hagræðingar fyrir notendur þarf að samræma skráningu hleðslustöðva, þannig að neytandinn geti verið viss um að finna allar stöðvar með því að leita á einum stað.
Einnig er það hagur ferðamannsins að geta greitt fyrir hleðslu án þess að skrá sig sérstaklega.
Þvert yfir Evrópuríkin er í bígerð samvinna milli hleðslustöðvarekenda þar sem lykill frá einu fyrirtæki gildir hjá öllum hinum, þannig geta Evrópubúar ferðast um álfuna með sinn lykil vandræðalaust.
Það er hagur neytandans að þurfa bara einn lykil og eitt smáforrit til að fá aðgengi að öllum hleðslustöðvum á landinu.
Virðingarfyllst,
Stjórn Rafbílasambands Íslands
Jóhann G. Ólafsson
Formaður, Rafbílasamband Íslands
GSM 896-6141
johann@rafbilasamband.is
Góðan dag.
Félagi íslenskra bifreiðaeigenda auðnaðist ekki að koma stuttri athugasemd við drög að reglugerð um raforkuskipti og mælingar inn í Samráðsgáttina í tæka tíð. Meðfylgandi er umsögn frá FÍB sem félagið óskar eftir að koma á framfæri við stjórnvöld.
Vinsamlegast staðfestið móttöku.
Viðhengi