Umsögn sú sem barst um málið leiddi við úrvinnslu þess ekki til breytinga á því. Breytingarnar voru annars vegar til ívilnunar fyrir fyrirtæki starfandi við sölu pakkaferða og leiða hins vegar af lögboðinni tryggingaskyldu seljenda pakkaferða.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.09.2019–30.09.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 08.01.2021.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birtir til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, nr. 150/2019.
Reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, nr. 150/2019, tók gildi í febrúar sl. Með reglugerðinni eru nánar útfærð ákvæði VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, sem fjalla um tryggingaskyldu seljenda og skipuleggjenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar. Með reglugerðinni var tekin upp ný aðferð við útreikning tryggingafjárhæðar og við framkvæmd hennar hafa komið í ljós nokkur atriði sem rétt þykir að gera breytingar varðandi.
Lagðar eru til fernar breytingar á reglugerðinni. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á f-lið 1. mgr. 6. gr. varðandi árlega upplýsingagjöf tryggingaskyldra aðila. Breytingin er til einföldunar á þeim upplýsingum sem standa þarf skil á þar sem ekki verður skylt að tilgreina söluverð einstakra ferða.
Í öðru lagi er lagt til að við ákvörðun tryggingafjárhæðar verði Ferðamálastofu heimilt að taka tillit til þess ef veruleg breyting verður á þeim gildum sem mynda grundvöll útreiknaðrar tryggingafjárhæðar. Verði þannig veruleg breyting á því hversu löngu fyrir upphaf ferðar hún þarf að vera fullgreidd og hlutfalli staðfestingargreiðslu verður heimilt að taka tillit til þeirra breytinga við ákvörðun tryggingafjárhæðar.
Í þriðja lagi er lagt til að tryggingafjárhæð geti aldrei verið hærri en 80% af tryggingaskyldri veltu þess rekstrarárs sem fjárhæð miðast við.
Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði með skýrari hætti í 8. gr. á um að heimilt sé að lækka tryggingafjárhæð hluta úr ári þegar miklar árstíðabundnar sveiflur eru í rekstri tryggingaskylds aðila. Þessi breyting tengist breytingu á 7. gr. reglugerðarinnar þar sem lagt er til að tryggingafjárhæð geti aldrei verið hærri en 80% af tryggingaskyldri veltu viðmiðunarárs en hjá þeim aðilum sem eru með stóran hluta af veltu hvers rekstrarárs yfir sumarmánuðina getur tryggingafjárhæðin verið óeðlilega há sé ekki tekið tilliti til sveiflna í rekstri. Sveiflur í rekstri þurfa þó að vera það miklar að tryggingafjárhæð yrði a.m.k. helmingi lægri yfir lágönn en yfir háönn.
Ágæti viðtakandi,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að breytingu á reglugerð um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.
Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.
Virðingarfyllst
f.h. SAF
Gunnar Valur Sveinsson
Viðhengi